Útskrifuð úr Hraðbraut

Góðan dag veröld,  í dag er dagur tvö eftir "útskrift" mína úr Menntaskólanum Hraðbraut.  Kannski verður dagatalið mitt svona fyrir og eftir útskrift eins og talað er um fyrir og eftir Krist?

Nei, nei, það er auðvitað ekki svoleiðis. 

Á föstudag fór ég í það sem við köllum í skólanum "Síðustu kvöldmáltíðina" en það var haldið á Austur í Austurstræti þar sem nemendur voru með uppákomur og við snæddum dýrindis kvöldmáltíð. 

Einn nemandinn, Tómas Dan Jónsson hafði samið langan texta við lagið "Hotel California" um okkur starfsfólkið.  Ég set hér inn fyrsta erindið sem er reyndar ekki birt með leyfi höfundar, en á ekki von á því að hann sé á móti því (þar til annað kemur í ljós). 

 

"Stend á villigötum, ekkert stúdentspróf, 

held ég fari í Hraðbraut og stilli djammi í hóf, 

Einhvers staðar í fjarska sé ég bílljósin, 

Ég sá að það var Range Rover, 

og já, það var Ól-inn, 

Þarna sat hún í stólnum, 

Jóhanna Magnúsdóttir, 

og ég hugsaði hvort að ég, 

fengi að sleppa við íþróttir. 

Hún tendraði aftur áhuga minn og sýndi mér

að hún gæti labbað upp á eitthvað fjall, 

og ég gæti farið með.....

viðlag: 

Svona er lífið í skólanum Hraðbraut, 

engan annan stað

vil ég eiga að. 

Við klárum skólann á tveimur árum, 

og kveðjum nú, með tárum. 

..... "

 Já, svona var fyrsta erindi og ljóðið,  en það eru nokkur erindi í viðbót þar sem ýmis prívat húmor um kennara kom fram. Mér þykir vænt um að nemendur minnist mín vegna fjallganganna - en reyndar hafði ég búið til líkingu þar sem ég kallaði skólann, eða skólagönguna, Hraðbrautarfjallið. 

Á þessu fjalli voru fimmtán hæðir eða þúfur til að komast upp á og á toppnum var mark sem á stóð "Stúdent" 

hæðirnar voru fimmtán því kerfið í skólanum er byggt upp af fimmtán lotum.  Ég og að sjálfsögðu kennarar og annað starfsfólk,  vorum því eins og þjálfarar í gönguhóp að hvetja fólk upp á toppinn - og á toppnum var gestabókin, svona eins og Esjunni. En þangað fór ég einu sinni með um fjörutíu nemendur og með mér í það skiptið voru líka  Viðar kennari og Sigga skólaritari.

Á síðustu kvöldmáltíðinni fékk ég svo nemendur, í tilefni útskriftar minnar (eða vegna þess að ég var að hætta) til að kvitta í alvöru gestabók.  Eftir þau skrif hefði ég getað dáið sátt.  Fínt að fá að lesa minningargreinar um sig áður en maður deyr annars! Smile  Veit ekki alveg hvort að Mogginn fæst í Himnaríki (já, já, ég ætla þangað). 

Ég hóf störf í Hraðbraut í ágúst 2004 sem yfirsetukona í 35 % starfi,  hljómar eins og einhvers konar ljósmóðir - en það var að sitja hjá nemendum á þriðjudögum og fimmtudögum, taka niður mætingar o.fl.  Fljótlega var mér boðin meiri vinna á skrifstofu og svo um vorið 2005 var mér boðið að taka að mér aðstoðarskólastjórastarfið og hef gegnt því til dagsins í dag, eða dagsins í fyrradag er það víst. 

Er að vísu í sumarfríi þar til í ágúst, en það er í fyrsta skipti, síðan ég byrjaði að vinna þarna sem ég fæ "alvöru" sumarfrí - en eðli málsins samkvæmt þá lokar skólinn aðeins í um mánuð og auðvitað þurfti að mæta  vel fyrir skólasetningu og gera allt klárt. 

Í fyrradag, laugardaginn 10. júlí var svo sjálf útskriftin - sem gekk vel, auðvitað með smá hnökrum eins og alltaf,  en hún var í mínum huga a.m.k. skemmtileg!  Mín eigin útskrift (þegar ég varð stúdent á síðustu öld, nánar til tekið 20. desember 1980) var frekar leiðinleg og langdregin í minningunni. 

 Þarna söng Sahara Rós Ívarsdóttir eins og engill og Tómas Dan Jónsson,  sá hinn sami og samdi ljóðið sem ég skrifaði úr hér að ofan spilaði undir á gítar, að sjálfsögðu eins og "professional" 

Elísa Elíasdóttir spilaði svo bæði á fiðlu og píanó gullfalleg lög sem snertu hjartans hörpustrengi. 

_tskrift_2010_016_1008108.jpg

 

 

 Elísa Elíasdóttir leikur á fiðlu við undirleik móður sinnar Esterar Ólafsdóttur. Lagið sem þær fluttu var Meditation from Thais eftir Jules Massenet.  Elísa flutti einnig annað lag sem hún spilaði á píanó, en þess má geta að þessi dama fékk verðlaun fyrir ástundun en hún fékk ekki eitt fjarvistarstig þessi tvö ár sem hún var í Hraðbraut og var aldrei veik! 

 

 

 

 

 _tskrift_2010_015.jpg

 

 

 Sahara Rós Ívarsdóttir söng tvö lög; Maístjörnuna eftir Halldór Laxness og síðan lagið Run í útsetningu Leona Lewis. 

 

 

Ýmis verðlaun og viðurkenningar voru afhent,  enda var um óvenju sterkan árgang að ræða og var t.d. dúx skólans, Elín Björk Böðvarsdóttir með 9,63 í meðaleinkunn sem er næstum svona "super human" fast á hæla henni kom svo Stefán Björnsson með 9.54 en báðar þessar einkunnir eru þó nokkuð hærra en áður hefur sést hjá dúxum skólans. Þessi tvö voru bæði stúdentar af náttúrufræðibraut og fengu líka bæði fullt af öðrum viðurkenningum,  þar af verðlaun í stærðfræði en það eru hvorki meira né minna en 27 einingar sem þau kláruðu, eða níu áfangar. 

Sigrún Eðvaldsdóttir (þó ekki fiðluleikari) og Tómas Dan Jónsson voru hæst á málabrautinni. 

Ekki kem ég nú öllu að hér sem fór fram í útskriftinni,  sjálf sá ég um að bjóða fólkið velkomið og kynna á milli atriða.  Ólafur flutti sína útskriftarræðu og fannst mér full mikið púður fara í að ræða DV skrif og það umtal sem skólinn hefur orðið fyrir vegna hans umsýslu og kjaramála innan skólans.   Við vorum að mínu mati á hátíð og slíkt á bara ekkert við á hátíðum,  -  nú ekki fremur en söngur Soffíu frænku á Kardimommuhátíðinni!  já, já, segi bara mína skoðun á því.  Að mörgu öðru leyti var ræðan innihaldsrík og góð og Ólafur á svo sannarlega þakkir fyrir að hafa komið þessum skóla á kortið.  Og auðvitað er ég líka þakklát honum fyrir að hafa ráðið mig í mitt starf á sínum tíma. 

En ég ætla ekki að fara dýpra í það - "don´t get me started" eins og sumir segja. 

Sólveig Anna Daníelsdóttir kom sá og sigraði þegar hún flutti ræðu nýstúdents í lokin, gerði það af léttleika og augljóslega vel þjálfuð hjá Önnu Steinsen sem hefur kennt nemendum Hraðbrautar tjáningu í fjögur ár.  _tskrift_2010_017.jpg

 

 

 

 

 

En nú er göngu nemenda Hraðbrautar á Hraðbrautarfjallið lokið, það er útsýni til allra átta og þau geta valið sér "fjall" til uppgöngu á ný.  Fyrir mér er Hraðbraut sem áfangi á minni lífsgöngu upp lífsfjallið sem ég get þó ekki vitað,  eða nokkur maður, hversu hátt nær.  Markmiðið er að gera vel og njóta göngunnar,  muna að staldra við,  því vissulega er útsýnið ekki einungis á toppnum og margir ólíkir slóðar upp fjallið,  miserfiðir og okkar er valið. 

Hraðbraut var mér ekki einungis starf,  heldur eins og nemendum þá var Hraðbraut mér skóli.  Vinnan með unga fólkinu, að deila með þeim sorgum og gleði - ómældar stundir á skrifstofum minni þar sem setið var og rabbað var um lífið og tilveruna og ef ég hefði safnað öllum tárunum sem þar flæddu ætti ég eflaust nokkra lítra.  Stundum grét ég með.  Það voru ekki bara nemendur sem komu í heimsókn á skrifstofuna, en það voru líka kennarar og starfsfólk.  

Nú hafa sex árgangar útskrifast og margir náði að blómstra í lífinu og sumir hreint út sagt brillerað í Háskóla. 

Tveir nemendur sem útskrifuðust frá Hraðbraut í júlí  2006 náðu þó ekki flugi,  það eru þau Susie Rut og Torfi Freyr sem bæði voru óhemju vel gefin og sterkir persónuleikar sitt á hvorn mátann.  Bæði eru þau horfin til "æðri menntunar" .. og voru þau bæði sárt grátin,  en þetta var fólk sem hafði einmitt átt margar stundir inni á minni skrifstofu þar sem lífið og tilveran voru rædd. 

Svona er lífið,  "undarlegt ferðalag" ..

Nú er komið að krossgötum hjá ykkar einlægri,  markmiðið mitt er fyrst og fremst að njóta, njóta þess góða sem lífið hefur að bjóða á meðan það býðst.  Njóta lífsgöngunnar og gleðjast yfir fjölrbreytileika mannlífsins.  Ég ætla að einbeita mér að því næstu vikur að vera mamma og amma, en stundum hafa mín eigin börn hreinlega orðið útundan í ákafa mínum að sinna starfi mínu vel og Hraðbrautarungunum. 

_tskrift_2010_031_1008113.jpg

 

Þarna erum við að raða okkur upp fyrir myndatöku, f.v. sjálf, Sahara Rós, Víkingur og Katla Lovísa. 

 

 

 

 

_tskrift_2010_040.jpg

 

 

 

Nemendur, óhræddir við að fara út fyrir hefðbundinn klæðaburð,  Anton og Hreggviður stilla sér þarna upp sitt hvorum megin við Hilmar Pétursson líffræðikennara,  en ég setti þessa mynd m.a. inn á Facebook og það voru óvenju margir nemendur sem settu "like" við hana!  

Hilmar er líka "útskrifaður" úr Hraðbraut og stefnir nú til lands Haralds hárfagra. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

_tskrift_2010_034_1008116.jpg

 

Þarna er hluti af mínu uppáhaldsfólki, Grétar félagsfræði-og sögukennari, Friðsemd Dröfn "Darcy" enskukennari og Guðríður Hrund þýskukennari.

 

 

 

Ég þakka kennurum, lávörðunum og Vilborgu í yfirsetudeildinni og öllu starfsfólki í gegnum tíðina fyrir samveruna og samvinnuna. Nemendum líka sem ég hef kynnst þessi sex ár,  sem hafa kennt mér meira en ég hef nokkurn tímann geta kennt þeim og fjölskyldunni minni fyrir stuðning og ótrúlega þolinmæði og þeim vinum sem hafa stutt mig, sérstaklega sl. ár upp síðasta hjallann sem reyndist býsna mikið klettabelti. (Já, já, ég er dramaqueen LoL)

 hra_braut_fjalli_eina_2009_067_1008121.jpg

 

 

 Úr göngu sl. haust á Fjallið eina á Reykjanesi með leiðsögn Björns Hróarssonar, jarðfræðings. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En nú er ömmuleikur, gleði, gleði og útsýnið er fagurt eins og áður hefur komið fram. 

bo_i_bergsmara_11_juli_2010_019.jpg

 

 

Með 17. júní barnið Evu Rós Þórarins- og Ástu Kristínar dóttur, og svo fer ég að heimsækja Ísak Mána og Elisabeth Mai á miðvikudag og síðan ætlar herra Máni að koma með ömmu sinni til Íslands og njóta með henni Verslunarmannahelgarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokum er hér lagið Run  sem hún Sahara Rós flutti svo eftirminnilega á útskriftinni, hér flutt af Leona Lewis. 

 

  "I know we´ll make it anywhere away from here" ..  Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Til hamingju með áfangann. Þóttist skynja bæði eftirsjá og feginleika í pistlinum. Saknaði þess að sjá ekki hvar þú ætlar að bera niður næst með brauðstritið. -- Sjálfur starfaði ég við kennslu í nokkur ár og man eftir þessum ljúfsára trega sem fylgir því að horfa á eftir fólkinu sem maður hefur haft undir handarjaðrinum um eitthvert skeið, þar sem það feykist burt út í lífið eins og hálfskrifuð blöð. Að sama skapi hlýjar mað mér um hjartarætur þegar miðaldra (eða jafnvel rúmlega það) karl eða kerling svífur á mig á förnum vegi og vill láta mig muna eftir sér -- sem ég oftast geri þegar búið er að hræra dálítið upp í heilabúinu. Oft dugar bara nafnið.

Sigurður Hreiðar, 12.7.2010 kl. 12:00

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir innleggið Sigurður Hreiðar. Ljúfsárt er rétta orðið,  og það myndast reyndar alltaf svolítið tómarúm eftir að árgangur er kvaddur.  Núna er það bara stærra þar sem ég held ekki áfram með þeim sem hálfnuð eru á leiðinni og tek ekki á móti nýjum í ágúst. 

Ég verð að viðurkenna að ég hef verið svo upptekin við að ljúka mínum störfum af myndugleika að ég er ekki búin að eygja hvað skal gera næst, en nýt nú sumarfrísins.  Ég þarf að vera búin að finna mér eitthvað í september, svona til að geta borgað húsaleigu og bíl,  og fer í vinnu við að finna það þegar ég er búin að vinda ofan af mér. Er hálft í hvoru að vonast til að það finni mig! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 12.7.2010 kl. 13:25

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Æði  gaman að þessu öllu. Til hamingju og kær kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.7.2010 kl. 19:23

4 identicon

Æ þú ert svo falleg og allt gengur upp og er ein allsherjar sæla! Váv! Ekki svo gott hjá öllum! Sumir eru ljótir og leiðinlegir og blankir og svangir og skítugir! Það er nú það! Svona er lífið!

Jón bóndi (IP-tala skráð) 12.7.2010 kl. 22:22

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásdís

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.7.2010 kl. 08:09

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Jón bóndi,  Það gengur enginn þrautalaust í gegnum lífið,  ég gæti alveg skrifað hér um mínar þungu stundir og erfiðleika en kýs að beina athyglinni að hinu jákvæða.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.7.2010 kl. 08:13

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með þetta allt og að vanda er pistillinn afar skemmtilega ritaður
Kveðja
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.7.2010 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband