Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fresta framboði um fjögur ár ..

 

"Að íhuga framboð er góð skemmtun."

Að sjá viðbrögð fólks, góð, vond, hæðin, skemmtileg, uppbyggileg  o.s.frv.  er eflaust góður efniviður  fyrir mannfræðinga og félagsfræðinga.

Vinur minn og samstarfsfélagi Percy Stefánsson, sem mér finnst alveg ótrúlega klár maður,  hristi bara höfuðið yfir fyrstu athugasemdum á DV og sagði þetta dæmigert "Jantelagen" - en það eru óskrifuð lög úr bók rithöfundarins Sandemosa,  kennd við ímyndaðan smábæ; Jante, í Danmörku, þar sem engin/n má skara framúr og ef einhver óþekktur Jón Jónsson vill upp á dekk, er honum haldið niðri m.a. með því að hann sé nú ekkert betri en aðrir.  Þetta segja menn svolítið skandinavískt, og kannski ágætt fyrir okkur að íhuga hvort að þetta sé reyndin. 

Að sjálfsögðu er gott að vita og sjá hvaða fólk styður, stígur fram og hvernig fjölmiðlar bregðast við - og ekki við.  Ég er þakklát fyrir réttláta umfjöllun DV, - en álit mitt á þeim miðli hefur breyst við þetta. 

Ég er GÍFURLEGA þakklát fyrir meðbyrinn, trúna og traustið sem mér hefur verið sýnt, fallegu orðin frá fv. nemendum og mörgu samferðafólki, sem þekkir mig og störf mín. En að íhuga framboð þýðir auðvitað að ég var m.a. að skoða hvort að það væri grundvöllur fyrir því. 

Íhugunin hefur leitt það í ljós, og leiddi fljótt í ljós að ég þarf að vera þekktari, undirbúa mig og alla mér nákomna betur, undirbúa mig betur fjárhagslega og koma ráðgjafastarfinu mínu, sem ég er að byggja upp hjá  Lausninni betur af stað. En við erum að flytja þessa dagana í stórt húsnæði sem þarf að klára að standsetja og þar get ég líka unnið að mörgum þeim málefnum sem mér eru kær, mannræktinni, uppbyggingu unga fólksins okkar og okkar allra.  

Ég er í góðu andlegu og líkamlegu formi, formi sem ég hef byggt upp undanfarin ár, með guðfræðinni, góðum námskeiðum, lestri, hreyfingu, útivist,  samskiptum við fólk, börn og barnabörn og með að eiga dásamlega og elskandi fjölskyldu og vini. Ég er auk þess mikinn styrk í trúnni, trú sem er ekki bundin við ein trúarbrögð, heldur trú á lífið, kærleikann, andann, náttúruna - fólkið, en í mínum huga er þetta allt skilgreining á því sem við mörg köllum Guð. 

Ísland og Íslendingar margir eru búnir að vera að ströggla undanafarin ár, frá kreppubyrjun, fjárhagslega, en ekki síður andlega. Neikvæð umræða hefur verið ríkjandi og stundum hefur legið eins og óveðurský yfir landinu.  Fólk er reitt og svekkt og það smitar,  líka í börnin okkar.

Allt sem við tölum um við eldhúsborðið heima, spegla börnin og taka oft sem sína byrði.  Við þurfum að gæta að okkur.  Tölum fallega um og við hvert annað, líka í fjölmiðlum. 

Samtakamátturinn er gífurlega mikilvægur en við höfum verið sundruð vegna ýmissa mála, já hópar og nei hópar hafa myndast og gífurleg pólitísk spenna, svo margir í þjóðfélaginu kvörtuðu að þeir treystu sér varla í fjölskylduboðin, vegna pressu og umræðu við að kjósa hitt eða þetta. Svart eða hvítt.

Veröldin er svo sannarlega ekki svart/hvít.  ESB umræðan er ekki í svart/hvítu, ESB hefur kosti og galla. Við höfum kosti og galla. Ekkert er fullkomið nema ófullkomleikinn. 

Við þurfum öll að huga að okkur, öll að fara í "naflaskoðun" byrja á að breyta því sem breytt verður og bæta það sem bætt verður, en fyrst og fremst draga það fram í okkur sem er gott og jákvætt;  setja fókusinn á styrkleika en ekki veikleika og rækta þá.  Ef hver og ein manneskja gerir það fer hún að verða jákvæðari, lætur umhverfið ekki hafa eins mikil áhrif og fer að standa með sjálfri sér. Hættir að lifa í hugarheimi annarra, og uppgötvar hver hún er og hver vilji hennar er. 

Ég trúi því að við séum öll fædd friðelskendur, við viljum gera gott og við viljum náunganum vel. Það besta sem við gerum í því tilfelli er að reyna að setja okkur í spor náunga okkar, óvinar okkar líka - prófa að rökræða frá hans sjónarhóli.  Það er áskorun. 

Ég þakka fyrir mig, ætla að halda áfram mínu daglega lífi, sinna fjölskyldu, börnum og barnabörnum, rækta mig svo ég verði sterkari, ekki síst til að ég geti verið að gagni fyrir aðra. 

Vonandi kannist þið við mig eftir fjögur ár Heart

Knús á línuna ;-) .... 

"I´m a dreamer but I´m not the only one, söng John Lennon" ... ég er svo sannnarlega "dreamer" og lokatakmarkið í mínum huga er eins og hann syngur í Imagine - "No need for greed or hunger" -  "The World may live as one" - 

 Hér er stuðningssíðan, óþarfi að loka henni ;-)  .. er ekki af baki dottin, þó um lengri veg sé að fara!

 p.s. mæli svo með þessum pistli fyrir okkur öll. 

 


"Jóhanna íhugar forsetaframboð"

Fyrst vil ég biðja fjölskylduna mína afsökunar á að hafa ekki undirbúið þau almennilega fyrir þessa "sprengju" sem varð þegar að fréttin "Jóhanna íhugar forsetaframboð" kom í DV.  Ég veit að mínir nánustu, fjölskylda og vinir, taka það nærri sér þegar fólk er að hæðast að þessu framboði mínu, en ég sjálf hef breitt bak og veit fyrir hvað ég stend. 

Hið breiða bak er einmitt ekki síst að þakka, náinni fjölskyldu og vinum - því sem ég hef tileinkað mér í gegnum ótal námskeið  og hjá Lausninni, þar sem ég starfa nú. 

Sem betur fer er fullt af fólki sem hefur hvatt mig áfram, sagt fallega hluti sem eru nærandi, og ég tek að sjálfsögðu við því sem er nýtilegt en hendi hinu sem er bara niðurbrjótandi. (Legg til að við gerum það öll). 

Blaðamenn DV kunna að vekja athygli,  en það gera þeir með því að segja í fyrirsögn "Jóhanna íhugar forsetaframboð" - Ég efast ekki um að flestir hafi talið að þarna væri um nöfnu mín Sigurðardóttur að ræða. 

Ég verð alveg að viðurkenna að ég hef gengið með þetta embætti í maganum lengi, en það var hún Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir sem stofnaði síðuna, - en það var eftir að ég hafði sett á vegginn minn á Facebook; - "er að íhuga forsetaframboð" - það var bæði í gamni og alvöru og svo töluðum við um það að Róslín Alma Valdemersdóttir yrði kosningastjóri, en það er 18 ára rösk stelpa frá Hornafirði. 

Ragnheiður ýtti mér svo út af brúninni, þegar hún sendi fréttaskot á DV um væntanlegt framboð mitt, en það er ekki í fyrsta skipti sem mér hefur verið ýtt út af brún, en það var gert þegar ég stóð skjálfandi á beinunum á kantinum á svartri brekku (brattasta tegund skíðabrekku) en ég kom standandi niður og ætla mér að gera það í þessu.  Ég skíðaði bara á mínum hraða og ímyndaði mér að ég væri að skíða í þeyttum rjóma, og það væri mjúkt að detta í hann. Hef leitt fólk þannig niður brekkur.  Ég er að vísu reyndari í að leiða fólk upp brekkur eins og sjá má t.d. ef smellt er HÉR. 

Auðvitað bregður fólki þegar einhver kona útí bæ, er kynnt til sögunnar, kona sem er ekki "Celebrity" og fólk þekkir hvorki haus né sporð á! 

Alls konar spurningar hafa vaknað hjá fólki, bæði þeim sem skrifa athugasemdir og eflaust þeim sem heima sitja. Ég hef vissulega ekki legið á mínum skoðunum, þó að þorri almennings hafi e.t.v. ekki náð að fylgjast með þeim, enda ekki hægt að lúslesa pistla og pressur, enda margir að tjá sig. 

Vonandi les fólk það sem ég hef verið að skrifa um, framtíðarsýn, hugmyndafræði, pælingar um mannlegt eðli o.s.frv.  

Nokkrar spurningar bárust í DV athugasemdakerfi eins og: 

"Er hún systir Ástþórs Magnússonar?"  svar: Nei, ég er ekki systir Ástþórs, það eru mörg Magnúsarbörnin á Íslandi. 

Eva Hauksdóttir,  spurði hvar ég stæði í pólitík, - ég verð að viðurkenna að einu sinni var ég næstum orðin þátttakandi í nýju stjórmálaafli sem átti að heita "Miðflokkurinn" - Ég treysti mér ekki til að halda því áfram, vegna anna minna á þeim tíma. En svar mitt til Evu var: 

"Ég er ekki tengd neinu stjórnmálaafli. Ég sé sterka aðila í öllum stjórnmálaflokkum, og vildi helst persónukjör. Ég kaus Hreyfinguna í síðustu kosningum, með þá ósk í brjósti að það myndi breyta landslaginu. - Eins og ég skrifaði í einum pistli mínum: "Framtíðarsýnin er því grímulaus heimur, heimur án blekkinga og yfirborðsmennsku. Án hindrana, fáfræði og fordóma. Upplýstur heimur. Það getur stungið í augun til að byrja með og verið óþægilegt, en yfirleitt er hægt að venjast birtunni og tröllin verða að steini." ... Ég hef lesið margt eftir þig Eva á netinu, - á bókina þína og hef gaman af því að lita út fyrir eins og þú."

Svo er hér ferilskráin fyrir þau sem hafa beðið um CV! .. 

Jóhanna Magnúsdóttir

Kt. 211161-7019
Holtsgata 3,
101 Reykjavík
Sími: 567-6119
Gsm: 895-6119
Tölvupóstur: johanna@lausnin.is



------- M e n n t u n


2006 - 2007 Kennaraháskóli Íslands - Nám til kennsluréttinda. Einkunn: I. 8,37

1998-2003 Háskóli Íslands, guðfræðideild - Embættispróf í guðfræði (auk starfsþjálfunar) Einkunn: I. 7.42
Kjörsviðsritgerð: Betra ljós? Hvíldardagurinn í Gamla testamentinu og upphaf sögulegra biblíurannsókna á Íslandi.

1977- 1980 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti - Stúdentspróf af málabraut

---------------- N á m s k e i ð

2011
HR - Well being (12 vikur)
2010 Dale Carnegie þjálfun, (12 vikur)
2005 IMG - Stjórnun fyrir nýja stjórnendur (16 klst)
2005 Samstarfsverkefni Fræðslusviðs Biskupsstofu, ÆSKR, Æskulýðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis, KFUM og KFUK á Íslandi - Stúlkna og drengjamenning (6 klst)

2004 Söluskóli Gunnars Andra - Gæðasala
2002 Leikmannaskóli þjóðkirkjunnar - Konur eru konum bestar (6 klst)

2002   Leiðtogahæfni, námskeið hjá Sæmundi Hafsteinssyni sálfræðing


2000 - 2003
Ýmis smærri námskeið, yfirleitt tengd kirkjunni, þó ekki innan guðfræðideildar, svo sem prédikunarnámskeið, námskeið um ofbeldi, skilnað, hamingju o.s.frv.

----------------- S t ö r f


2011 Lausnin, grasrótarsamtök um bætt mannleg samskipti
, ráðgafahlutverk.

2011 Reykjavíkurborg - Vann í samstarfsverkefninu "Vesturbæjarvinir" á vegum þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar og Hagaskóla.  Sinnti þar hópi fimmtán ára nemenda, veitti þeim hvatningu og stuðning í námi.  Markmið verkefnis var að forvörn gegn brottfalli úr framhaldsskóla.  Var ein af tveimur "Vesturbæjarvinum" - en samstarfsmaður var Elvar Geir Sævarsson, sem er í hljómsveitinni Hellvar. 


2010 Atvinnulaus frá september - desember. Það var mikil lífsreynsla og skóli fyrir mig að vera atvinnulaus, og áttaði ég mig á því hversu mikil hætta er á að missa dampinn, - það hvatti mig þó áfram til að leita leiða, horfa í eigin barm, spyrja mig hvað ég gæti gert sjálf, en ekki hvað hinir gætu gert fyrir mig. 


2005 -2010 Menntaskólinn Hraðbraut
- aðstoðarskólastjóri.
Starfið fólst m.a. í stjórnun, daglegum rekstri, umsjón með innra neti skólans; uppsetningu námskeiða og gagna, viðtölum og utanumhald um nemendur og kennara. Einnig kenndi ég félagsfræði og tjáningu. Hélt utan um hönnun og uppsetningu á bæklingi skólans.


2004 - 2005 Menntaskólinn Hraðbraut
- yfirseta og skólaritari.
Starfið var tvískipt, annars vegar yfirseta og umsjón með bekk tvo daga í viku, hins vegar almenn ritarastörf og símvarsla.

2004 B. Magnússon
- fatasölukona
Seldi kvenfatnað á kvöldin í heimahúsum, fór á ýmis námskeið þessu tengdu.

2003-2004 Steinsmiðjan S. Helgason
- sölustjóri legsteina
Hafði yfirumsjón með sölu legsteina og ferlinu þar til steinninn var kominn á leiðið. Reikningagerð og pöntun á fylgihlutum frá birgjum erlendis. Hannaði einnig auglýsingabækling og auglýsingar.

2003 Hjúkrunarheimilið Eir
- aðhlynning
Starfið fólst í aðhlynningu aldraðra, andlegri og líkamlegri.

2002-2003 Víðistaðakirkja - leiðtogi í kirkjustarfi og námskeiðahald
Starf með námi í guðfræði, hafði umsjón með barnaguðþjónustum og réði mér aðstoðarfólk. Var einnig með kennslu fyrir 7-9 ára börn einu sinni í viku. Aðstoðaði einnig við fermingarfræðslu og hélt námskeið fyrir konur í sjálfsstyrkingu og hugleiðslu.

1991-1997 Innnes ehf,
heildverslun - marghliða starsfmaður
Í starfinu fólust ýmis ábyrgðarstörf varðandi fjármál, færsla á vskm. bókhaldi, útsending reikninga, fjármála- og gjaldkerastörf, ferðir í banka, sölu-og kynningarstörf.

1987-1989 Hátækni ehf
- sölumaður og ritari.

1982-1984 Flugleiðir ehf - ritari farmsöludeildar

1981 Landsbanki Íslands - vélritun reikninga 

----------------- T u n g u m á l

Íslenskukunnátta ágæt. Ég tala og skrifa ensku og dönsku mjög vel, hef einnig lært þýsku og frönsku en kunnáttan er aðeins sæmileg. Lærði forngrísku og hebresku í guðfræðideild. 

---------------- T ö l v u r

Ég hef mikið notað tölvur í námi mínu og störfum. Hef meðal annars notað word,
excel og powerpoint. Er mjög fær í notkun internetsins og mjög fljót að læra og tileinka mér nýja hluti hvað varðar tölvunotkun.

----------------- Á h u g a m á l og f é l a g s s t ö r f


Mannrækt og mannleg samskipti eru mitt stærsta áhugamál og þar er ég sterkust. Finnst gaman að setja hugsanir mínar á blað og hef skrifað smásögur fyrir sjálfa mig. Held úti bloggi þar sem ég segi mínar skoðanir á mbl.is og set þar inn ólíkt efni, þ.m.t. hugvekjur um félagsleg mál. Hef einnig prédikað og flutt hugvekjur í kirkjum og fyrir félagasamtök. Ég les mikið t.d. um sjálfsrækt og vinnuanda.

Ég hef áhuga á rækt líkama og sálar og fer í göngur á jafnsléttu sem á fjöll. Tók m.a. upp á því í starfi mínu sem aðstoðarskólastjóri að fara með nemendur á fjöll tvisvar á ári, en það var að sjálfsögðu ekki í starfslýsingu.

Söng í Kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju i tvö ár. Smakka vín í hófi og hef aldrei reykt. Er almennt mjög hraust

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á félagsmálum og skipti mér af þar sem mér finnst þörf á.
Meðan börnin mín þrjú voru í grunnskóla (frá 1986 - 1998) var ég m.a:

- í stjórn og formaður Foreldrafélags Flataskóla
- í stjórn Foreldrafélags Garðaskóla,
- formaður og stofnandi Foreldrafélags Skólakórs Garðabæjar
- í stjórn Foreldrafélags Skíðadeildar Breiðabliks
- i launaðri nefnd á vegum Garðabæjar um einsetningu grunnskóla.

Ég stofnaði Starfsmannafélag Innnes ehf ca. 1993 og stýrði starfsmannafundum

Í guðfræðideild:


2000
- Fulltrúi nemenda í námsnefnd og á deildarfundum

2000-2003 Stjórn félags guðfræðinema


2003-2005  Stofnfélagi og í stjórn Félags guðfræðinga


Var forsprakki varðandi uppákomur hjá starfsfólki Hraðbrautar og hélt utan um myndasíður, auk þess sem ég skrifaði fréttabréfið „Föstudagsfréttir" í léttum dúr.

--------- F j ö l s k y l d u h a g i r

Ég bý ein, - á þrjú uppkomin börn og þrjú barnabörn. 

Lífsgildi: 

Heiðarleiki, víðsýni, hófsemi, jafnrétti. 

---

Að lokum; þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að kynna sér hver Jóhanna Magnúsdóttir er, eða réttara sagt mína hugmyndafræði geta lesið pælingar mínar hér á "naflaskoðun" - auk þess að ég hef skrifað greinar á www.pressan.is 

Að lokum: 

Takk fyrir að gefa þér tíma til að lesa, ég vil meira látleysi í forsetaembættið, yfirvegun og hófsemi. "Þjónandi forysta" er hugtak sem er í hávegum haft nú á dögum, enda uppruni orðsins embætti komið af orðinu "ambátt"  ..

Við erum öll perlur í perlufesti heimsins, - ég er að temja mér að elska allt fólk, virða manngildi þess án tillits til kyns, kynhneigðar, útlits, stöðu, stéttar o.s.frv.

Ferilskráin okkar segir ekki allt, og minnst um það hvernig við komum fram við náungann. 

 Læt lokaorð mín að þessu sinni vera orð Gandhis

"Be the change you want to see in the world"

 

 

 


"Hver þykist ég eiginlega vera" .. ?

Sum okkar þurfa ekki að kafa djúpt til að átta okkur á hver okkar stærsta hindrun er í lífinu.  
Í flestum tilfellum er stærsta hindrunin við sjálf!

Við getum líka gengið svo langt að í sumum tilfellum erum við okkar verstu óvinir!

Það er oft vantrúin á okkur sjálf og á hæfileika okkar sem stöðvar eða hindrar  okkur í því að gera það sem okkur langar til, vantrú og ótti.  Ótti við að mistakast og í framhaldi af því oft að gera okkur að fífli. 
Við hugsum "hvað ætli þessi segi"  eða "hvað ætli hinn hugsi" þannig að öll tilvera okkar er farin að snúast um hvað HINIR hugsa, en ekki um hvað við viljum í raun og veru gera. 
Í námskeiðinu sem ég kenndi í framhaldsskóla "Tjáning 103" setti ég  m.a. tvö markmið.

 
1. Að vera maður sjálfur.  2. Að reyna að gera sig að fífli. 


Svona markmið létta oft á þrýstingnum að reyna að setja sig í hlutverk, "þykjast vera eitthvað" o.s.frv.  Um leið og markmiðið er að reyna að gera sig að fífli, hverfur óttinn og um leið og óttinn hverfur þá verður allt léttara. Það er því í raun óttinn sem stöðvar okkur. 


Sumir eiga þó erfitt með að komast út úr hugsuninni:  "Hvað eru þau að hugsa um mig." 

Ég hugsaði þessa hugsun af ákveðnu tilefni nýlega.

 
Tilefnið er að kunningjakona mín er búin að setja upp Facebook - like síðu þar sem mælt er með mér sem næsta forseta lýðveldisins.  Sú sem ábyrgð ber á síðunni heitir Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir, eðlisfræðingur og kennari, - gift Brynju Brynleifsdóttur og eiga þær tvö krúttleg börn. Röggu kynntist ég þegar við vorum í kennsluréttindanámi í KHÍ 2006-2007.  Síðan er það kosningastýra númer eitt sem stýrir síðunni líka, og það er hún Róslín Alma Valdemarsdóttir, 18 ára Hornafjarðarmær, sem á kærastan Rabba, - en henni kynntist ég á netinu og höfum við hist nokkrum sinnum síðan, hún heimsótti mig t.d. á skrifstofuna í Hraðbraut, og einu sinni bauð ég henni í bíó þegar hún var í bæjarferð.  Það er enginn samur eftir að hann hefur hitt Róslín! ;-) .. Hennar framtíð er að vera leikkona. 

En ..  já, já, þið lásuð rétt, ég er að skoða framboð til forseta á næsta kjörtímabili og í framhaldi af því hafa 99 hakað við "Like" og er ég þakklát fyrir hvert og eitt. 

Það þyrfti eflaust kraftaverk til að ég komist alla leið, en það heppilega er að ég trúi á kraftaverk! Hvort þetta tekst í þessarri lotu eða annarri kemur svo bara í ljós! 

Ég er ekki fræg - hef ekki verið í pólitík - og hvað vil ég þá upp á dekk?  Það er ekki laust við að skjótist upp í kollinn á mér þetta þreytta ráma egó sem spyr mig "hvað þykist þú nú vera Jóhanna mín" ..  og ég gæti hlaupið í felur, orðið agnarsmá. 


Ég verð ekki lítil, því ég er búin að semja við barnið í mér að vera ekki að skipta sér af og bregðast við því sem kemur til mín í dag sem.  Ég bregst við sem fullorðin og þroskuð manneskja.  Ég bregst við á réttum forsendum, segi já þegar ég meina já og nei þegar ég meina nei.  Segi ekki bara já til að þóknast eða geðjast, heldur þegar ég meina það af einlægni. 


Mér er ekki alveg sama hvað fólki finnst, fólk segir o.s.frv.  Ég er of mannleg til að þykjast alveg köld fyrir því.  En vegna þess að ég veit hvað ég stend fyrir, mín gildi og ósk mína að bæta meiri elsku í vogarskálar þessa heims,  auka sameiningu manna, vinna gegn sundrungu og fyrst og fremst vonast til þess að fólk þori að vera það sjálft, geng ég óttalaus til verks.  Ég þori að rugga bátnum, ef það er það sem þarf til að vekja skipverjana af blundi meðvitundarleysis. 
Ég er ekki að leika, ég er ekki í hlutverki og ég þykist ekki vera neitt. 


Ég er bara ég. 


Ég þarf að vera á sífelldri vakt við að þagga niður í neikvæðu röddinni. Ýmis reynsla úr mínu lífi hefur kennt mér mikilvægi þess að lifa lífinu af heilindum, lifa því til fulls á meðan tækifæri er til.  Ég missti pabba í slysi þegar ég var sjö ára, ég horfði á eftir bestu vinkonu minni falla fyrir krabbameini í blóma lífsins, og ég horfi nú á mömmu á hjúkrunarheimilinu og hversu ósjálfbjarga hún er.  Í stað þess að falla í þá eymdarhugsun yfir þessu að lífið sé óréttlátt og tilgangslaust, hef ég frekar valið að lifa mínu lífi enn betur,  fyrir vinkonu mína, fyrir pabba og fyrir mömmu, fyrir fjölskylduna, vini, nemendur mína,  fyrir börnin mín og barnabörn...og svona gæti ég lengi talið, en síðast en ekki síst, fyrir sjálfa mig!
(Nú kom "röddin" með athugasemd um að ég væri orðin fullvæmin!) 


Hvað um það - ég skrúfaði bara niður í henni, hún verður að sætta sig við mig. Mæli með að þú skrúfir niður í þinni neikvæðu rödd, og veljir að lifa til fulls sem þú.  Við eigum öll eða flest svona rödd innra með okkur sem talar úr okkur kjarkinn, gerir lítið úr okkur  og stöðvar okkur í  að lifa heil og af ástríðu.

Ég þori, get og vil vera ég sjálf og ég er verðmæt manneskja,  og ég veit líka að þú þorir, getur og vilt - og ert - verðmæt manneskja. 
Takk fyrir mig 
og - 
Takk fyrir þig!

Hér er hægt að skoða facebook síðu! 

Eitt af mínum lífsgildum er að taka sjálfa mig ekki hátíðlega, en að sjálfsögðu taka störf mín hátíðlega og vinna af samviskusemi.  Við Piggy erum kannski ekkert mjög ólíkar ;-) 

11inpiggy.jpg 


Er enginn hagur fyrir Evrópusambandið að Ísland verði aðili? ..

„Ég tel að á þessari stundu sé enginn möguleiki á því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu. Á því er enginn möguleiki."

"Þetta segir Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni, í Morgunblaðinu í dag um afleiðingar þess ef íslensk stjórnvöld efni ekki nýja Icesave-samninginn fyrir aðildarumsókn Íslands að ESB."

Halló! -  nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki vel til hvað er í því fyrir Ísland að fara í ESB og á móti hvað er í því fyrir ESB, en finnst þetta svolítið dramatískt  að vegna "hegðunar" Íslendinga varðandi IceSave séu uppi svona aðdróttanir og yfirlýsingar um að Ísland fái ekki aðild. 

Mér finnst vont að þarna úti séu einhverjir aðilar sem eru með hótanir um hvernig íslenska þjóðin eigi að sitja og standa.  

Ég er fylgjandi því að fella niður múra, tengjast sem flestum - en það verður að vera á grundvelli vinskapar og bræðralags ekki einhverra þvingana og kúgunar.  

Þetta lítur ekki út fyrir að vera upphaf á fallegri vináttu ef að verið er að hóta svona. Það má taka dæmi um um par í giftingarhugleiðingum og  einhver sem tengdist brúðgumanum kæmi og segði:

„Ég tel að á þessari stundu sé enginn möguleiki á því að Kalli giftist henni Stínu.  Á því er enginn möguleiki."  

Nú, jæja ef að Kalli vill ekki Stínu þar sem hún hegðar sér ekki skv. hans geðþótta, er það ekki bara hans tap? ..

Auðvitað hljótum við að sækjast eftir "Win-Win" sambandi en ekki að fá að kúra upp í hjá einhverjum ofstopamanni.  Nú nema að íslenska þjóðarsálin sé spennt fyrir að vera undirgefin? ..   Öðru vísi mér áður brá.

"A beautiful freindship" .. 

 

 


mbl.is Hóta að standa í vegi aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" ..

Hvað sem Ólafur sagði annað í þessari yfirlýsingu sinni, þá náðu þessi orð hans um að tala upp íslenskt atvinnulíf til minna eyrna.  Ég er að lesa bók Guðna Gunnarssonar um Mátt Viljans, og á forsíðu hennar standa þau orð sem ég setti í titil "Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" .. 

Ef við tölum eitthvað niður þá fer það niður og ef við tölum eitthvað upp þá fer það upp, það er mín einlæga trú og ekki aðeins trú - heldur reynsla. 

Ef þú segir nógu oft við þig að ástandið sé ömurlegt, hversu miklar líkur eru á því að það verði ömurlegt áfram?  Ég myndi segja 100% líklegt ...      Þannig að "thumbs up"  fyrir forsetanum frá mínum bæjardyrum séð. Reynum að horfa hlutlaust á þessa ræðu, hvort sem okkur líkar vel við manninn eða ekki, og aðrar gjörðir hans,  hvort að þarna liggi ekki mörg sannleikskorn?  

Ég fór nýlega í heimsókn til CCP með hóp af unglingum, þar sagði leiðsögumaðurinn frá því hvað þeir græddu hrikalega mikið dag hvern.  Þar er blómlegt starf í gangi.  Samt sem áður er þetta fyrirtæki, eða forsvarsmenn þess,  með hótanir um að flýja land vegna efnahagsástandsins. 

Hvenær er nóg nóg?  Eða hvað er ég að misskilja? 

 ---

daffodil.jpg


mbl.is Hættið að tala niður íslenskt atvinnulíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Neither you nor I´m to blame when all is said and done" .. hættum ásökunum og förum að vinna saman.


mbl.is Nei fékk tæp 60% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ICESAVE Í SVART HVÍTU? ...

Ég las viðtal við Eygló Harðardóttur, þar sem hún talar um að hver kjósandi þurfi að kynna sér IceSave málið í kjölinn.  Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri, kunnáttu né tíma til þess.  Einhvern veginn ímynda ég mér að aðrir séu færari til þess en ég.  Mitt starf er að sinna unglingum á daginn, þeirra gleði og sorgum og svo er ég í aukavinnu eitt kvöld í viku.  IceSave samningar eru ekki á mínu náttborði, heldur ýmsar bækur um uppbyggingu andans.

Þrátt fyrir þessi orð hér að ofan, er ekki þar með sagt að ég hafi ekki fylgst með umræðu og lesið rök með og á móti og þegar ég tylli niður fingri - til að setja niður pælingar um IceSave koma þeir sem eru fullvissir í sinni sök, hvort sem það er já eða nei.  En ég veit að enn eru margir í óvissu og fara inn og út um IceSave dyrnar.

Þegar "Viltu vinna milljón" var sýnt á sínum tíma, var einn möguleikinn fyrir þann sem sat fyrir svörum að spyrja salinn. 

Allir höfðu takka til að ýta á,  en auðvitað var aðeins ætlast til að þeir svöruðu sem vissu svörin, en það hjálpaði ekki þeim sem sat í heita sætinu að fá eitthvað gisk um rétt svar.

Rökin fyrir IceSave ákvörðunum eru af ýmsum toga, lögfræðileg, siðfræðileg og ekki síst tilfinningaleg. 

Mig grunar að margir kjósi út frá tilfinningalegum rökum, en hafi ekkert endilega lesið samninga eða kynnt sér málin í kjölinn,  enda ekki margir sem hafa tækifæri til.

Niðurstöður í skoðanakönnunum sýna að þjóðin er klofin í niðurstöðu sinni.  En munurinn á svarinu í IceSave og svarinu í Viltu vinna milljón er sá að í því síðarnefnda er aðeins til eitt rétt svar.  Hin eru hreinlega röng.

Það væri einfalt ef IceSave væri svona svart/hvítt mál og ég öfunda fólk sem sér það þannig.

Á ég að ýta á takka með svar sem er gisk? ..  Ég er hér að færa rök fyrir því að ýta EKKI á takka, ef við erum ekki viss.  Það er ekki það að nenna ekki að kjósa, ég er alveg tilbúin að mæta og skila auðu. 

Ég er með þessu að játa það að ég hef ekki nægilega visku til að dæma í þessu máli. 

Því býð ég þér sem ert þess fullviss, hvað er rétt,  að taka afstöðu fyrir mína hönd.

Ég finn mig ekki heiðarlega að svara Já og ekki heiðarlega að svara Nei, en að lifa af heilindum er það sem ég kýs fyrst og fremst.

hjarta


Hvort finnst þér verra: Honey Nut IceSave eða Venjulegt IceSave ? ...

Mér finnst bæði verra, en hef spurt mig í nokkurn tíma hvort sé skárra af tvennu illu, að samþykkja samninginn eða samþykkja ekki samninginn. Auðvitað er ég búin að lesa rök, góð og vond rök, en mikið af rökum.  Í bæði nei-inu og já-inu felst óvissa og óvissa er erfið og óþægileg.   

Hvort er nú betra Honey Nut Cheerios eða Venjulegt Cheerios? 

Eða á ég bara að henda út öllu sem heitir Cheerios og fá mér Kornflex? 

"Það sem þú veitir athygli vex" ..  segja gúrúarnir og það er svo sannarlega satt.  

Ætti maður þá bara að hætta að veita IceSave málinu athygli og þá gufar það upp, kannski eins og dögg fyrir sólu. Kannski skuldin lika? 

Óvissa er vond, en hún er óumflýjanleg .. væri gott að geta kosið þetta á burt, en ég held að það sé ekki hægt.  Hvorki Já né Nei eyðir skuldinni. 

Hvað skal taka til bragðs? .. Verð ég að velja og hver segir það?  Hver stillti mér svona upp við vegg að þurfa að kjósa um eitthvað svona erfitt.  Hvort viltu fá niðurgang eða ælupest? 

Ég er að hugsa um að sitja hjá, sitja heima bara eða skila auðu,  svei mér þá - ég get varla látið þvinga mig út í að velja á milli einhvers sem ég er svona óviss um!  Ég vel að sitja hjá og láta ykkur sem vitið svo vel hvað er rétt og rangt kjósa.  Ég skal sjá um að velja eitthvað sem ég hef meira vit á, fjármál eru bara ekki mín deild.

Viðbót: 

Svarið er því JEI .. 

Þangað til á laugardag ....

how_is_corn_flakes_made.jpg

 

 


Staðan í skoðanakönnun: 293 kjósa Nei 69 Já ... hversu mikið er að marka þessar tölur?

Ég vil þakka mikla þátttöku í þessari heimagerðu skoðanakönnun, en ég var búin að tilkynna í blogginu á undan að mig langaði að fá 1000 manns, enda bjartsýn manneskja að eðlisfari.

Ég heyrði merkileg rök í gær, með því að við ættum að kjósa Já, en þau voru á þá leið að við værum hvort sem er búin að vera að borga alls konar fyrir einkafyrirtæki og útrásarvíkinga, IceSave væri ekkert öðruvísi. 

Ég get ekki tekið undir að þetta séu rök með Já-inu, einmitt öfugt reyndar, því að það er ekki eins og fólk hafi fengið tækifæri til að segja Nei við því sem það hefur verið að greiða hingað til. Þetta er kannski bara kærkomið tækifæri og jafnvel táknræn yfirlýsing fyrir að neita öllu sukkinu?  Ég velti því bara upp. 

Einnig las ég  um að við hefðum látið það viðgangast að þessir reikningar hefðu verið auglýstir sem ríkistryggðar innistæður og að ráðamenn þjóðarinnar hefðu síðan fullyrt eftir hrunið að það yrði samið og skuldir greiddar. Davíð Oddsson, Geir Haarde og Árni Matt skrifuðu haustið 2008 undir samkomulag við Breta og Hollendinga á IceSave innistæðum.  

Ábyrgð þessara ráðamanna og annarra sem í þeirra fótspor fylgdu er því mikil - og orðin eru líka býsna stór.  Það þykir nú yfirleitt ekki siðlegt að ganga á bak orða sinna. 

En eigum við að fylgja þessum ráðamönnum eins og sauðir fram af bjargi, vegna loforða þeirra?  Hvar eru þessir loforðaglöðu ráðamenn í dag og hverjir eru þeir? 

Ég verð að viðurkenna að mér finnst mikilvægt að við sem þjóð komum fram af heiðarleika, enda heiðarleiki eitt af okkar stærstu þjóðgildum skv. þjóðfundi og á að vera það. 

Ef að ríkið hefur lofað ríkisábyrgð og að ráðamenn hafa lofað greiðslum, þá þurfa einhverjir að stíga fram og biðjast afsökunar og segja upphátt að loforðið standi ekki og þeir hafi lofað upp í ermina á sér.  Viðkomandi hafi ekki áttað sig á því að verið væri að setja þjóð í ánauð og hún hreinlega neiti að standa undir því, þó seint sé í rassinn gripið. 

--

En nú er valdið og valið komið í hendur þjóðar, þetta er ekki auðvelt.  Okkur langar að vera ærleg, auðvitað, en er ekki æran ráðamanna að biðjast afsökunar á bullinu og ruglinu og loforðum sem við sem þjóð getum ekki staðið undir?  

Ég held að það sé rétt að spyrna við, ekki bara IceSave, heldur líka öllu því sem er í sama dúr og er að endurtaka sig í dag.  Hver og einn Íslendingur þarf að líta í eigin barm og íhuga hvort að hann er að styðja það með afskiptaleysi, eða jafnvel þátttöku að ráðamenn, bankastofnanir, útrásar - eða innrásarvíkingar séu að leika sér með heiðarleika þjóðarinnar. Stilla þjóðinni upp við vegg!

Lærum af reynslunni,  það sem hér hefur gengið á í efnahagsmálum er eitthvað sem við viljum ekki að endurtaki sig eða haldi áfram.  

Það er annað sem hver og einn þarf að skoða hjá sér og það er hvernig hann eða hún er að lifa. Ég nefndi hér áðan hið fína þjóðgildi heiðarleikaog þau hafa mörg flott sprottið fram, eins og jafnrétti, menntun og ég veit ekki hvað.  En þegar Gunnar Hersveinn skrifaði bókina um Þjóðgildin þurfti hann að bæta við einu sjálfur, sem var ekki ofarlega á blaði. Það var orðið hófsemd,  og held ég að við þurfum að taka það alvarlega til athugunar. (Þar er sú sem þetta ritar engin undantekning). 

Við fáum á hverjum degi tækifæri á að snúa við blaðinu. Þegar við snúum við blaði þá reiknum við með því að blaðið sé autt og við byrjum að skrifa söguna upp á nýtt. 

Hvað kemur okkur best, hvað kemur sér best fyrir Ísland, hvað kemur heiminum best í heild sinni?

Að taka á okkur ábyrgð og segja  "Já, við stöndum við það sem ráðamenn lofuðu, þó okkur finnist ríkisábyrgðin og það sem þeir lofuðu algjör vitleysa? 

eða

Að biðjast afsökunar og segja, "Nei við erum ekki tilbúin að taka þátt í svona vitleysu og vorum það reyndar aldrei."  

Við höfum tækifæri til að setja fordæmi. 

Nýtum það tækifæri vel.

 working_together_teamwork_puzzle_concept.jpg

 

 

 

  Það erum við sem þjóð sem þurfum að púsla púslinu aftur saman, leiðtogar í pólitík og efnahagsmálum brugðust "BIG TIME"  og eru nú búnir að koma þjóðarsálinni í uppnám, hún er tætt og klofin og afleiðing er að hún er farin að verða grimm og orðljót í angist sinni og gagnkvæmum ásökunum. Við elskum öll börnin, vörumst að beita þeim sem vopni í orðaskakinu. 

Þjóðarsálinni verður að púsla saman á ný. Notum IceSave en látum ekki IceSave nota okkur.

Hvað sem við gerum, hvernig sem við kjósum leggjum elskuna í atkvæðið okkar, biðjum þess að það verði til góðs. 

 


mbl.is Margir hafa kosið um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11 kjósa JÁ, 65 kjósa NEI ... hef þetta opið út vikuna ...

Er með skoðanakönnun í gangi hér vinstra megin á síðunni.  Mikill meirihluti hefur hakað við að samþykkja ekki IceSave III samninginn.  Ég ætla að halda þessu opnu áfram, fá helst um 1000 manns til að taka þátt.

Vil minna á það að virða hvert annað sem manneskjur þó við séum með andstæðar skoðanir og set hér inn það sem ég sá hangandi upp á kennarastofu í Hagaskóla um Bergmál lífsins,  en það er svona eitthvað í þá áttina að brosa til heimsins og heimurinn brosir til þín. Smile

 

Feðgar voru í göngu upp í fjöllum.
Allt  í einu, dettur sonurinn og meiðir sig og öskrar: "AAAhhhhhhhhhhh!!!"
Hann verður voða hissa þegar hann heyrir rödd einhvers staðar í fjöllunum svara sér: "AAAhhhhhhhhhhh!!!"

Af forvitni öskrar hann til baka: "Hver ertu?"
Honum er svarað: "Hver ertu?" Hann öskrar: "Hver ertu?" Honum er svarað: "Hver ertu?"
Sonurinn er orðinn pirraður og svarar:  "Heigull!"
Honum er þá svarað: "Heigull!"

Sonurinn horfir á föður sinn og spyr: "Hvað er að gerast ?"
Faðirinn brosir og segir og taktu nú vel eftir:

Faðirinn öskrar upp til fjallana:  "Ég dáist að þér!"
Hann fær svar: "Ég dáist að þér!"

Aftur öskrar faðirinn: "Þú ert meistari!"
Honum er svarað um hæl: "Þú ert meistari!"

Sonurinn er hissa, en skilur ekki hvað er um að vera.
Faðirinn útskýrir: Fólk kallar þetta bergmál, en í raun er þetta lífið sjálft.

Lífið gefur til baka allt sem þú segir og gerir.
Lífið endurspeglar gjörðir okkar.
Ef þú vilt meiri kærleik í heiminn í dag, byggðu upp meiri kærleik í hjarta þínu.
Ef þú vilt bæta lið þitt, bættu þig.  

Þessi tenging á við um alla hluti lífsins.

 

fjoll_a_nottu.jpg
 
 
p.s. Þú ert frábær .... Halo

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband