Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fram, fram, fylking, forðum okkur háska frá því ræningjar oss vilja ráðast á ...

Fram fram fylking,

forðum okkur háska frá

því ræningjar oss vilja ráðast á.

Sýnum nú hug, djörfung og dug.

Vakið, vakið vaskir menn

því voða ber að höndum.

Sá er okkar síðast fer

mun sveipast hörðum böndum.

 

Eins og í þessum leik, "Fram, fram, fylking,  sem flest okkar þekkja, þurfum við að velja. Ekki að velja epli eða appelsínu,  heldur að velja Já eða Nei. Þeir sem ekki taka þátt í "leiknum" segja auðvitað ekki neitt. 

Þjóðin fer í halarófu og togar hitt liðið yfir á sitt svæði og enginn veit fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig fer.  Mér finnst svolítið sorglegt að mikil harka virðist vera komin í "leikinn" og menn farnir að taka býsna djúpt í árinni við þá sem fyrirfram hafa lýst yfir sínu vali. 

Kostirnir eru eiginlega báðir vondir, það er ekkert svart né hvítt í þessu og engin/n getur lýst yfir að hann eða hún hafi höndlað stóra sannleikann.

Hver og ein/n verður að fylgja SINNI sannfæringu, við verðum að virða hana og virða hvert annað.

Það má með kannski segja að ræningjar hafi ráðist á okkur,  eins og segir í textanum hér að ofan.  Reyndar á mun fleiri vígstöðvum en hvað IceSave varðar. 

Sýnum nú hug, djörfung og dug!  Hver og ein/n verður svo að gera það upp við sig hvað í því felst.  

Þú mátt svo gjarnan taka þátt í skoðanakönnunni hér til vinstri Wizard

gka3galm.jpg

 


mbl.is Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óformleg skoðanakönnun - hvernig myndir þú kjósa um Icesave?

Ég setti fram einfaldar (sumir sögðu barnalegar) pælingar varðandi Icesave á blogginu hér á undan, margir hafa komið til að tjá sig.  Ég setti þetta fram eins einfalt og mér var unnt, vegna þess að ég er hreint ekkert viss um að meðaljóninn skilji hvað um er að ræða.  Þá er ég að tala um svona bara fólk sem er ekkert að kafa mjög djúpt í pólitík eða efnahagslíf, heldur hefur bara greind eða er upptekið á öðrum sviðum!

Það er augljóst, ennþá, að sitt sýnist hverjum.  Margir hafa kallað eftir þjóðaratkvæði,  en spurningin má að sjálfsögðu ekki vera: "Eigum við að borga eða ekki borga?" eins og mér finnst svo margir hafa skilið þetta.  Þetta er spurningin um hvort að samþykkja eigi nýja Icesave samninginn og þá vissulega borga.  Þó ekki eins mikið og kom fram í fyrri samningi,  eða hvort að Íslendingar eigi að freista þess að fara dómstólaleið og láta sækja peningana til sín,  nú eða ekki.  Ef við vissum hvar dómurinn félli, þá væri þetta engin spurning,  en möguleiki er á því að dómurinn falli okkur í óhag. 

Er sú áhætta, að fara mögulega fyrir dómstóla,  of stór?  

Er áhættan við að skrifa undir nýja samninginn of stór? 

Er þetta s.s. spurning um áhættu? 

Ef hver og einn hugsar fyrir sig, þetta væri hans eigið heimili og fjölskylda.   Hann gæti valið um að semja um skuldir sem væri samt ekki 100% víst að hann ætti að borga,  eða að láta sækja það til sín eftir dómstólaleið.  Hvort myndir þú velja? 

Nú ert þú þingmaður og þarft að segja Nei eða Já - nú eða sitja hjá.  Ég set upp skoðanakönnun og endilega taka þátt. 

"Þingmaður og svarið er ......... "

 

 


Biðjum komandi kynslóð afsökunar

Við, fullveðja Íslendingar sem fyrirmynd fyrir komandi kynslóð er ekki góð. Skotgrafahernaður hefur verið aðferðafræðin sem hefur verið stunduð eftir að dómur Hæstaréttar féll varðandi framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings.  Ég viðurkenni alveg að ég hef frekar tilheyrt annarri skotgröfinni og hef illa skilið gleði sumra Sjálfstæðismanna yfir því að framkvæmdin við kosningu stjórnlagaþings var dæmd ólögleg.  Ég gat ekki glaðst yfir þessu, þvi að ég sá þetta sem meiri kostnað fyrir þjóðina, sem var búið að puða út í loftið og í bætti, þar sem nú þyrfti að kjósa á ný.  Að ógleymdu því fólki sem fékk ógildingu á ráðningu sinni til Stjórnlagaþings. 

Ingibjörg Sólrún var gagnrýnd á sínum tíma fyrir að segja að liðlega þúsund manns í Háskólabíói væri ekki þjóðin.  Nú hrópa sumir að þau 37% sem kusu til stjórnlagaþings hafi ekki verið  þjóðin.  Auðvitað er þjóðin við öll, en ekki hægt að segja að þessi þúsund í Háskóabíó eða þessi 37% séu EKKI þjóðin. 

Þjóðin hafði möguleika á að koma að þessum kosningum - allir kosningabærir menn og mér finnst reyndar hálfgerður dónaskapur að nýta ekki kosningarétt,  þegar búið er að berjast fyrir honum.  Aftur á móti vissi ég að sumir fóru ekki að kjósa vegna þess að þeir hreinlega gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir þurftu ekki að kjósa 25, einn hefði dugað.  Nú eða skila auðu til að mótmæla.  Það var partur af mistökunum, að mínu mati, að kynna þetta ekki betur. 

Í undirbúningi fyrir stjórnlagaþing var lagt í þúsund manna fund,  þversnið af þjóðinni,  fyrir utan börn, en auðvitað berum við,  sem lögráða teljumst, ábyrgð á börnunum.  Það er fyrir þau sem við þurfum að vinna að lýðræði, jafnrétti, heiðarleika og öllum þeim góðu gildum sem voru niðurstaða Þjóðfundar, þverskurðar þjóðarinnar,  fyrir vinnu hinna 25 kjörnu til stjórnlagaþings. 

Þar er hvergi minnst á hroka, einræði og óheiðarleika sem gildi fyrir kjörna fulltrúa til að vinna eftir.

Stjórnarskrá þarf að bæta, mér skilst að þar séu ágallar og þar vanti ákvæði um jafnrétti, um auðlindir Íslands o.fl.  Auðlindir Íslands eru auðlindir komandi kynslóða, barna þessarar þjóðar um ókomin ár.  

Jóhanna Sigurðardóttir varð pirruð, ég skil það vel, en hún fór í vörn og eins og svo margir aðrir, þá má hún tileinka sér meiri auðmýkt en ekki fara í vörn - Róbert Marshall hefur riðið á vaðið og biður afsökunar á mistökum í framkvæmd kosninganna.  Auðvitað eiga yfirmenn að líta í eigin barm þegar að mistök eiga sér stað,  hvort sem þau eru beint eða óbeint þeirra. Þannig eru góðir leiðtogar.  Það er erfitt að bera ábyrgð,  en þetta fólk hefur valist til að bera ábyrgð og því þýðir ekki bara að fara í vörn og reiðast - jafnvel þó að hinir gleðjist yfir mistökum þeirra.  

Um leið og ég skrifa þetta sé ég hvað þetta eru óþroskuð  samskipti.  Menn eru að leggja sig fram til að gera sitt besta,  klikka á því - og þá hlakkar í andstæðingunum.  Það æsir mennina upp og í staðinn fyrir að allir fari að vinna að því að laga mistökin þá fer öll orkan í það að hía á hvert annað, ergjast út í hvað hinn aðilinn er vitlaus og ómögulegur. 

Reynum að vinna að lausnum en ekki að meiri vandræðum, það endar í borgarastyrjöld.  Hver vill það?  

Höfum góð gildi í heiðri - í viðbót við þau sem hafa verið nefnd má nefna vináttu, virðingu og kærleika. 

Við hljótum öll að hafa það að markmiði að Ísland verði vænt land til að lifa í - ekki bara fyrir mig eða þig - heldur fyrir alla.  Við megum að sjálfsögðu ekki ala á hinu neikvæða,  ekki reisa múra á mili okkar, hvorki trúarlega né pólitíska -  heldur að vinna saman á þann hátt að úr verði "win/win situation" .. 

Hvað ef að viðbrögð okkar,  viðbrögð okkar sem þjóðar yrðu sett undir dóm?  Hver höndin upp á móti annarri. Erum við ekki bara að viðhalda mistökunum og bæta í ef eitthvað er?  Ætli hæstiréttur myndi dæma þetta sem rétta framkvæmd? 

Ég tel að við þurfum öll að biðjast afsökunar,  biðja afsökunar börn þessarar þjóðar sem við eigum að vera fyrirmynd fyrir.  

Lifi fagmennskan, lifi gagnkvæm virðing og lifi LÝÐRÆÐIР


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju á ekki að líta í baksýnisspegilinn?

Það er virkilega flottur frasi að segja "Ekki líta í baksýnisspegilinn, nú þarf að bretta upp ermar og horfa fram á við" ..   þetta getur virkað um mjög margt.  En það vita það jafnframt flestir að mistökin eru til að læra af þeim - viðurkenna - og gera betur.  Ekki að neita að horfast í augu við þau, horfa framhjá og viðurkenna ekki.

Enginn tekur ábyrgð.  Menn eru svo fullir af þeirra EIGIN réttlætiskennd, sem fáir aðrir skilja að þeir telja sér trú um að svart sé hvítt.  Þetta gildir um stjórnmálamenn - auðmenn - bankastjóra o.fl. o.fl. Kannski gildir þetta um mig lika, hver veit? ...   

Við VERÐUM að skoða ástæður þess að "In the land of plenty" að  bankarnir hrundu, að þjóðfélagið sé þannig statt að fólk á Íslandi þurfi að berjast um matarbitana í röðum hjálparstofnana á meðan annað fólk á Íslandi sefur með úttroðnar sængur af seðlum í höllum sínum með lykla af, ekki einum eða tveimur lúxuskerrum, hangandi í lyklaskáp fjölskyldunnar og áhyggjuefni helgarinnar er hvaða sort af rauðvíni sé best með steikinni.   

Hefði það breytt einhverju ef að Þjóðhagsstofnun (n.b. stofnun um hag þjóðarinnar) hefði ekki verið lögð af?  

Þetta skrifaði á sínum tíma Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun, en það hefur ekki dugað til varnar því að ríkisstjórn Davíðs Oddsonar með stuðning Framsóknar tók þá ákvörðun um að leggja stofnunina niður á sínum tíma. Hlusta ráðamenn mikið á sérfræðinga í dag, mætti spyrja sig í framhjáhlaupi?  

Eftirfarandi sagði Katrín meðal annars (feitletranir eru mínar): 

"Þjóðhagsstofnun tryggir því greiðan aðgang þingmanna allra flokka, aðila vinnumarkaðarins og alls almennings að áreiðanlegum upplýsingum um framgang efnahagsmála og er þessi starfsemi tryggð í lögum um stofnunina.

Verði stofnunin lögð niður verður ekki til sjálfstæð stofnun sem fjallar um efnahagsmál. Samkvæmt frumvarpi því sem lagt hefur verið fram í ríkisstjórn verður gerð efnahagsspáa færð til fjármálaráðuneytis og gæti því ekki talist óháð. Það er sjálfsögð krafa að gerð sé óháð efnahagsspá sem aðhald við spár hagstjórnaraðila eins og fjármálaráðuneytis."

Þeim sem nú eru að hugsa um að eina "vonin" í glundroðanum sé Sjálfstæðisflokkurinn vil ég benda á að líta á fyrri verk flokksins.  Það þarf að sjálfsögðu að bretta upp ermar og taka til, en það þarf að gera sér grein fyrir því hver skapaði draslið og hvort að fólk geti þá samvisku sinnar vegna kosið þá sem rusluðu út til að stjórna aftur án þess að þeir nokkurn tímann axli ábyrgð á að hafa ruslað út áður? 

"Að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja"  ..  

Skrifaði meira hér - ef fólk hefur tíma til að lesa. 


Hlutverk ríkisins er m.a. að útdeila sameiginlegum gæðum, þannig að þjóðin njóti góðs af, er ríkið að gera það?

Ég mætti á málþing Reykjavíkur Akademíu í morgun, málþing með yfirskriftinni Réttlætiskennd og samfélagssýn. Ég mætti að vísu klukkutíma of seint svo ég missti af erindi gamla kennara míns úr guðfræðideildinni, Clarence Glad.  Sá sem var í ræðupúlti var Sigurjón Árni Eyjólfsson, líka gamall kennari úr guðfræðideildinni.  Hans uppáhald er Lúter - það fer ekkert á milli mála.

Hans erindi bar titilinn Viðurkenning og réttlæti(ng)  - og að sjálfsögðu fór hann út í að ræða réttlætingu af trú. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það alltaf voða, voða flókið fyrirbæri. En svona að því slepptu sagði hann nokkra hluti sem mér fannst standa upp úr: 

Grunnþörf mannsins er viðurkenning, jafnframt að elska og vera elskaður.  Ég get alveg kinkað kolli yfir þessu. 

Sigurjón talaði jafnframt um kjarnann í guðsþjónustunni, sem hann segir vera bænina - og að sjálfsskilningurinn birtist í bæninni.  Ég þarf að íhuga þetta nánar.  

Á eftir Sigurjóni talaði kona sem mér fannst afburðaklár - og hefði viljað gera hana að einræðis"herra" á Íslandi, enda er hún líka stjórnsýslufræðingur, menntuð frá The London School of Economics.

Þessi kona heitir Sigurbjörg Sigurðardóttir, og hún flutti mjög líflegt erindi og byrjaði á persónulegum nótum, og sagði frá bakgrunni sínum - sem mér finnst jákvætt, það gefur svona innsýn inn í manneskjuna. Ástæðuna fyrir að segja frá æsku sinni og uppeldi sagði hún vera að samferðafólki hennar í LSE (London School of Economics) fannst merkilegt að hún, dóttir einstæðrar sex barna móður sem hefði alist upp á bóndabæ úti á landi, væri komin í Þennan fína skóla, LSE.  Hún hafði þá lýst fyrir Bretunum jafnræðinu sem ríkti á Íslandi og að allir hefðu jafna eða svipaða möguleika á menntun, heilbrigðisþjónustu og húsnæði.  Þetta var 1998.  Hún kom heim árið 2007 og varð fyrir hálfgerður áfalli, þegar hún uppgötvaði hvað stéttarmunurinn var orðinn mikill - og fór að pæla hvort að hún hefði í raun verið að ljúga að Bretunum.  En nei - þetta var bara breytt samfélag. Hennar erindi nefndist Samfélagssýn og ábyrgð kjósenda.

Hún lék sér aðeins með yfirskrift málþings, sem var eins og áður sagði réttlætiskennd og samfélagssýn og snéri því yfir í réttlætissýn og samfélskennd

Hún talaði um að allir hefðu tilfinningu fyrir réttlæti, og að krafan um réttlátt samfélag væri eilíf. Eilíf vegna þess að við komum aldrei að þeim punkti þegar við værum búin að gera allt réttlátt og gætum bara hætt. 

Hún notaði orðin  vakta - vernda - ástunda um réttlætið. 

Sigurbjörg ræddi um útrásarvíkinga, bankamenn, pólitíkusa og aðra þá sem hefðu brotið af sér en tækju ekki ábyrgð,  þrátt fyrir að það lægi í augum uppi að það væri réttlátt. 

Hún spurði hvort að það ætti að vera ríkisábyrgð á réttlæti. Þ.e.a.s. ætti ríkið að bera ábyrgð á brotum þessara aðila? Hvað kenndi það okkur - og hvað lærðu þessir einstaklingar af því? 

Hún talaði um hugtakið "Moral Hazard" .. en það fjallaði einmitt um það þegar að sá sem brýtur af sér tekur EKKI ábyrgð. 

Sigurbjörg talaði um hlutverk ríkisins sem ætti að vera Þjónn almennings, en gleymdi stundum hlutverki sínu.  Hlutverki við að verja, stuðla að velferð, réttvísi þjóðarinnar, viðhalda sannindum og tryggja aðgang að þekkingu. 

Ríki sem lætur þjóðina borga fyrir skuldir óráðsíumanna er varla að verja þjóðina, stuðla að velferð eða réttvísi? 

Það er líka hlutverk ríkisins að útdeila sameiginlegum gæðum. Þannig að þjóðin í heild njóti góðs af. (Distributed justice).. 

Gæðin eru auðlindir okkar, orkan, vatnið, fiskurinn.  

Það væri skrítið að það væru innbyrðis deilur meðal landsmanna um auðlindir, en í raun ættum við að vera að verja þær fyrir öðrum, sbr. þorskastríðið á sínum tíma. 

VIÐ EIGUM AÐ VERNDA AUÐLINDIRNAR OG DREIFA ÞEIM JAFNT, NÚVERANDI KVÓTAKERFI ER ÓJÖFNUÐUR OG RÍKIÐ ER EKKI AÐ ÚTDEILA SAMEIGINLEGUM GÆÐUM JAFNT. 

Varðandi miklar eigur og auð á höndum yfirstéttar sem nú hefur myndast á Íslandi,  þá er næstum þörf á því að ríkið fari að hegða sér eins og Hrói höttur,  taka frá hinum ríku til að færa hinum fátæku. 

Hún sagði frá könnun sem var búin að standa yfir í 30 ár sem var gerð í Bretlandi, þar sem niðurstaðan var:  "Equal Societies always do better" ..  

Ójöfnuður hefur neikvæð áhrif á allt samfélagið til hins verra, líka á hina ríkustu! 

-----

Þetta er orðinn ágætur skammtur í bili, ég ætla að segja meira frá erindum málþingsins síðar, .. en þarna er komið fram svo margt sem skiptir máli, og gott að pæla í. 

Erindið fjallaði m.a. um ábyrgð kjósenda - við getum íhugað hver er okkar ábyrgð sem kjósanda, mín og þín.  Eigum við ekki rétt á að þeir sem við kjósum standi við sína stefnu - sem við í raun kjósum?  Hafa VG og Samfylking gert það?  Hafa þessir flokkar kannski ekki haft möguleika til þess, vegna þess fargs sem það fékk í fangið og vegna alls konar utanaðkomandi afla? 

Af hverju látum við óréttlátt kvótakerfi viðgangast - kerfi sem er byggt á ójöfnuði og er meira að segja búið er að dæma kerfið sem brot á mannréttindum, er það ekki? .. 

Mín er alveg komin á blússandi pælingu í pólitík LoL

p.s. Einar Már rithöfundur talaði í lokin og minntist hann á formenn Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks sem litu á sig sem prinsa bíðandi á hliðarlínunni, en í raun og veru væru þeir bara froskar! 


Upp, upp, mín sál og íslensk pólitík ... frá leiðindum til gleði

Þegar ég hugsa um íslenska pólitík í dag þá koma í hugann orð eins og leiðindi, þreyta, ótti, vonleysi,  eiginlega er það orðið bara þannig að mér finnst pólitík orðin eitthvað "ojbara" og sný mér bara í hina áttina og fer að horfa eða hugsa eitthvað annað.  

Ég veit að mörgum líður svona.

En nú ætla ég að herða upp hugann og horfast í augu við pólitíkina - að svo miklu leyti sem ég kann. 

Því miður er það svo að þó ég sé bara býsna klár í mörgu,  kann ég ekki mikið  á pólitík, og hreinlega skil ekki...   Af hverju er til dæmis stjórn og stjórnarandstaða?...   Jú, jú, ég veit að stjórnarandstaða er til að hindra að stjórnin geri ekki einhverja "bölvaða vitleysu" .. Hvernig ætli gengi að reka fyrirtæki sem hefði bæði stjórn og stjórnarandstöðu?   Yrði þessu fyrirtæki eitthvað ágengt?   Er ekki hægt að lita að Ísland sem fyrirtæki, nú eða sem fjölskyldu sem þyrfti að reka?  Hvað ef að pabbi og mamma væru alltaf að rífast og aldrei eða sjaldan sammála,  hvað verður þeim þá úr verki og hversu uppbyggilegur verður andinn á heimilinu? 

Ég held að við séum á kolvitlausri braut.  Auðvitað er þetta partur af lýðræðisskipulaginu, en sorry þetta virkar (augljóslega) mjög illa hjá okkur. 

Mér finnst engin spurning að við - sérstaklega kannski vegna þess að við erum ekkert svo stórkostlega mörg,  þurfum að breyta stjórnskipulaginu.  Reka Ísland eins og samhenta fjölskyldu eða fyrirtæki.   Til stjórnar þarf að fá fólk sem hefur sannað sig að geti staðið sig vel,  fólk sem ÞJÓÐIN treystir til góðra verka. 

Hvernig á að forða frá "bölvaðri vitleysu" .. 

Öll mál sem eru þess eðlis að þau hreinlega breyti ásjónu landsins, þannig að óafturkræft þykir verður þjóðin að fá að kjósa um.  Líka ef familían ætlar að breyta þannig að hún vilji ganga í einhvers konar félagsskap með öðrum sem að hefur stórkostlegar breytingar á efnahagi hennar í för með sér.  Svona eins og ESB.   Þar sem það er dýrt að kjósa - (kemur hin hagsýna húsmóðir inn í)  þá mætti líka hafa marktækt slembiúrtak sem dreyfðist jafnt á aldur og væri ca. 50/50 karlar,  konur sem myndu kjósa.  

Það sem þarf að hafa að leiðarljósi er síðan jafnræði og jafnrétti.  Það er hreinlega hallærislegt að sumir fái 200 þúsund í laun á meðan aðrir fái 2 milljónir í laun.  Það meikar ekki sens og er engum manni hollt - fyrir utan það að peningar skapa svo sannarlega ekki hamingjuna,  en um leið þá ættum við ekki að þurfa að kvíða mánaðamótum vegna skorts á peningum.  Við þurfum að minnka aftur bilið milli ríkra og fátækra og í guðanna bænum hættum að tala um þessa stéttaskiptingu...

Er þetta stéttarbil náttúrulögmál? ... 

Þegar ég skoða atvinnuauglýsingar er voðalega vinsælt að auglýsa eftir fólki sem vinnur "lausnamiðað" ..   Það þarf svona lausnamiðaða stjórn við völd,  stjórn sem veitir allt sem pólitíkin veitir EKKI í dag, gleði, orku, von, hugrekki ... 

Ég ætla að leyfa mér að trúa því að við með allt okkar hreina vatn,  heita vatn, fisk, hreint loft að ógleymdum aðal fjársjóðnum;  fólkinu í landinu (sem á flottu máli er kallað mannauður)   getum með góðri stjórnun nýtt okkur þessar auðlindir,  ekki bara vitað af þeim - það er ekki nóg - til þess að rísa upp úr leiðindunum þannig að hvert einasta íslenska mannsbarn geti verið sátt,  fengið nóg að borða og öruggt húsaskjól.  Það er reyndar lágmarkskrafa -  en nú er ekkert sem heitir,  eins og mamma min sagði alltaf,  það verður að fara að vinna að lausnum með stjórn sem nýtur trausts og fær "backup" frá þjóðinni.  Það má ekki gleyma andlegu hliðinni,  í stjórnarliðinu þarf að hafa góðan þjálfara sem hvetur og heldur utan um liðsandann.  Við eigum að vera svo áköf að við tökum okkur öll stöðu til að hvetja áfram - eins og á góðum íþróttaleik,  þar sem leikmenn eru hvattir til dáða. 

Áfram Fjölskyldan, áfram þú og áfram ég .... 

Áfram Ísland! 

 


Ekki í boði

Nú gríp ég til leikskólatungumálsins og segi bara "Þetta er ekki í boði" ... vonandi skilja stjórnvöld það!! ..

þ.e.a.s. það ætti ekki að vera í boði að loka á sambýli eða aðra aðstöðu fyrir þroskahamlaða, geðfatlaða eða þar sem verið er að leitast við að bæta lífsgæði þeirra sem ekki hafa sömu möguleika og þeir sem eru (eða ættu að vera) það sem í almennu tali kallast heilbrigð,   minnug þess að Bergiðjunni var lokað á sínum tíma,  en það var verndaður vinnustaður.

Þjóðfélagið á ekki að byggjast á "survival of the fittest"  Heldur eiga þeir sem eru "fittest" að gefa það sem þeir geta til að jafna aðstæður þeirra sem ekki hafa tækifærin vegna annað hvort líkamlegrar eða andlegrar hömlunar. 

Skjaldborgin þarf að vera um heimilin,  um sambýli og um  fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.  

Fjölskylda er í mínum huga ekki bara genetískt tengt fólk. 

 

 

 


mbl.is Hættu við eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað upphátt um laun ..

paycheckÖll viljum við helst lifa laus við áhyggjur af peningum.  Það er vont að fyllast kvíða fyrir hver mánaðamót,  vegna þess að við vitum ekki hvort að við náum endum saman.  Það vill enginn skulda neinum neitt. 

Fréttir berast af fólki með yfir milljón í mánaðarlaun,  reyndar sumum með miklu meira en milljón.  Á meðan þær fréttir berast eru sumir að fá tja.. svona 200 þúsund í mánaðarlaun.  Launin sem eru í boði fyrir suma vinnu eru svo lág að fólki finnst álitlegra að þiggja atvinnuleysisbætur.  

Það sem er yfirleitt í pakkanum hjá þeim sem fá súperlaunin, eru ekki bara laun,  heldur hin ólíkustu fríðindi,  atvinnurekandi greiðir síma, net, bíl .. o.s.frv. 

 

Einhvern veginn finnst manni þetta ójafnvægi hreint út sagt heimskulegt.  Af hverju eiga sumir að búa við skort og aðrir að hafa umframmagn  peninga á milli handanna?  Einhver launamunur verður alltaf,  og má alveg taka tillit til þess hvað fólk hefur menntað sig, til ábyrgðar,  álags o.s.frv. en skrítið að þurfa að hafa svona himin og haf á milli.

Forgangsröðunin er nefnilega sú,  að við borgum fólki lág laun fyrir að sinna yngstu og elstu kynslóðinni.  Við borgum síðan súperlaun fólki fyrir að "sinna" peningunum okkar eða dauðum hlutum.  Það þykir víst bara "normal" í siðmenntuðu þjóðfélagi. Sideways

Það sem ég vildi sagt hafa er að mér finnst að það ættu líka að vera hámarkslaun.  Það hefur enginn - já ég fullyrði enginn - þörf fyrir meira en milljón á mánuði.  Reyndar mætti lækka þá tölu þó nokkuð.   Við höfum þörf fyrir húsnæði,  fatnað,  afþreyingu,  að komast í frí ... og laun eiga að miðast við það.  Miðast við að við öll,  ekki bara sum - getum lifað sómasamlega, mannsæmandi lífi. 

Ég hef verið, að mér finnst,  á slíkum mannsæmandi  launum sl. fimm ár,  en það var í aðstoðarskólastjóradjobbinu,  þó að ég hafi nýlega komist að því að ég hafi ekki  komist með tærnar þar sem t.d.  prestarnir hafa verið með hælana.  Séra Baldur Kristjánsson sagði á blogginu hjá Jóni Vali:  "venjuleg prestslaun eru um 570-630 þúsund krónur á mánuði".. (Þarna er þó undantekning;  þ.e.a.s. þarna fær ákveðin stétt góð laun fyrir að sinna fólki).

Ég er reyndar með bæði prestsmenntun og kennsluréttindi,  svo ekki vantar mig sambærilega menntun. 

Mér þykir það bara býsna gott að vera með 570 - 630 þús. krónur á mánuði í laun.  Ekki veit ég hvaða fríðindi fylgja,  sími? net? bílastyrkur?...en það er örugglega eitthvað.  

Verðugur er verkamaðurinn launa sinna,  svo sannarlega, en af einhverjum ástæðum eru menn álitnir misverðugir og reyndar mjög svo,  reyndar ekki bara mennirnir - heldur er það starfið sem er misvel launað eða mikilvægt. 

Fyrir sjö árum síðan voru mánaðarlaun mín á Eir fyrir vinnu við aðhlynningu aldraðra,  um 111.000.-  fastakaup,  með yfirvinnu sem innihélt oft næturvinnu var heildarupphæð kannski komin í 150.000.- veit ekki hvað  það er í dag,  en þegar þetta var var þetta ekki til að hrópa húrra fyrir.  Mér var þá boðin vinna hjá Steinsmiðju S. Helgasonar við sölu legsteina þar sem byrjunargrunnlaun voru 220.000.-    ég þáði þá vinnu - þrátt fyrir að vera mjög ánægð með starf mitt á Eir,  og reyndar Eir ánægt með mig,  en ég hafði hreinlega ekki efni á að sinna því, ein með tvo unglinga á heimili. 

Ég fékk  því 100%  hærri laun fyrir að sinna tilvonandi legsteinum fólksins sem ég hafði verið að sinna en að sinna fólkinu sjálfu. Sideways  (verð að setja annan svona skakkan kall hér).

Þetta er eiginlega langt fyrir ofan minn skilning. 

Ég vil að lokum taka það fram að það er erfitt að vera "single"  og reka heimili.  Auðvitað er ódýrara að vera tveir saman og greiða af húsnæði og rekstri heimilis.  Tvöfaldar tekjur eru auðvitað betri en einfaldar.  Það er ekki flókið! .. 

Jæja - þetta var s.s. ég að  hugsa upphátt um laun.  Hvað hugsar þú?

 

 

 


Bjarni Ben eða Pétur Blöndal ?

Jæja, nú færist smá spenna í leikinn hjá Sjálfstæðismönnum. Hvorn myndir þú kjósa ef þú YRÐIR að kjósa annan hvorn og Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn á landinu! Hvorum myndir þú betur treysta fyrir sjálfum/sjálfri þér? 

Þetta er auðvitað til gamans gert, en könnunin stendur til 23:00 í kvöld hér vinstra megin á síðunni.

Eigum svo góðan og gleðilegan dag. 


mbl.is Skorast ekki undan ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þar sem hefur verið notast við óhreinan tækjabúnað"

Ótrúlega er þetta nú ómaklegur málatilbúningur þar sem er látið að því liggja að Jónína hafi verið að nota óhreinan tækjabúnað.  Ég veit ekkert  um þessa starfsemi hjá Jónínu Ben. en veit að margt af því sem hún er að segja er algjörlega rétt, eins og hversu mikið af lyfjum er dælt í fólk þegar aðrar meðferðir myndu henta betur.  Þarf ekki að leita lengra en á hverja aðra íslenska læknavakt, þar sem skrifað er út pensillín á færibandi.

Jónína skrifar sjálf á Facebook síðu sinni að þau noti einungis einnota slöngur svo að ekki getur þetta amöbudæmi átt við hennar business. Að sjálfsögðu má skoða þessa hluti frá öllum hliðum, en nú er þetta farið að líta út sem þráhyggja hjá lækninum Svani að koma Jónínu á kné. 

Fólk fær örugglega alls konar sýkingar í læknismeðferðum þar sem illa er að verki staðið og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða hefðbundnar eða óhefðbundnar lækningar. 

En nú finnst mér komið nóg af rógi. 


mbl.is Ristilskolun og sníkjudýr í görnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband