Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fagnaðarerindi


mbl.is Hjúskaparlög samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skemmtilegur" borgarstjóri, og hvað er að vera skemmtilegur?

Þegar ég var í kennsluréttindanámi,  ekkert fyrir allt of mörgum árum, tók ég viðtal við  nemendur og spurði hvað þau teldu einkennandi fyrir góðan kennara.  Undantekingalaust var eitt af atriðunum,  og þá oftast fyrst upp talið,  að mikilvægt væri að kennari væri skemmtilegur. 

Í framhaldi af því hlýtur að kvikna spurningin hvað það sé að vera skemmtilegur? 

Ekki eru nemendur að biðja um að það standi trúður uppi við töflu og sé bara fyndinn og kenni ekki neitt.  Eitt þarf ekki að útiloka annað, það að vera skemmtilegur þarf ekki að útiloka það að kennari sé bara býsna góður miðlari.  Nemendur eru að sjálfsögðu að biðja um að fá lifandi kennslu, fá kennara sem veitir innblástur, vekur áhuga á námsefninu og heldur athygli þeirra við kennsluna.  

Andheiti þess að vera skemmtilegur er að sjálfsögðu að vera leiðinlegur. Sá sem er leiðinlegur virkar því akkúrat öfugt á fólk og enginn eða fáir vilja hafa leiðinlega kennara og það gildir einnig um leiðtoga. 

En hvað er þá einkennandi fyrir góðan leiðtoga? 

Ef að menn hafa þokkalega skynsemi og tilfinningagreind,  eru heiðarlegir, ástunda lýðræði og eru skemmtilegir í ofanálag þá er ég sátt. 

En er Jón Gnarr skemmtilegur? Það eru víst deildar meiningar um það.  Ég get aðeins svarað fyrir mig og ég er bara mjög ánægð með húmor Jóns Gnarr. 

Jafnframt finnst mér finnst hann hreinn og beinn og ekki vera að flana að neinu.  Í þessu viðtali sem ég er að blogga við tala þeir Dagur um að þeir vilji ræða við borgarstarfsmenn,  benda á vefinn betrireykjavik.is þar sem borgarbúar geta tjáð sig og tala einnig um að þeir séu að fara að ræða við sérfræðinga varðandi fjármálin.  Hvað vill fólk meira?  

Þetta er lýðræði og má hrósa þeim og öllum þeim sem standa að þessu samstarfi fyrir.  

Ef einhver var leiðinlegur í gær,  var það Þórhallur í Kastljósinu en skil eiginlega ekkert í því hvernig maður sem er á leiðinni að verða afi getur verið svona fúll á móti.  Mér hefur alltaf þótt hann aðlaðandi maður og koma vel fyrir þar til í gær að hann var bara eins og fulltrúi svekktrar kærustu (Sjálfstæðisflokks) sem var að yfirheyra kærastann af hverju hann vildi ekki vera með honum. 

Jón Gnarr hefur verið mjög kurteis í gegnum kosningabaráttuna og svaraði að sumra mati ekki nógu skýrt þegar Þórhallur var að væla í honum, en getur verið að hann hafi ekki viljað særa neinn og viðurkenna opinberlega að hann hafi ekki haft áhuga á að  fara á "deit" með Hönnu Birnu vegna þess að honum finnist hún leiðinleg? WizardLoL

Því má svo bæta við að tískusýning á vegum Hjálpræðishersins, þar sem Jón Gnarr tók þátt er dæmi um skemmtilegheit með alvarlegum undirtón.  Þar tekur Jón sig ekki of hátíðlega til að taka þátt til að styrkja gott málefni. 


mbl.is Jón Gnarr verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BORG Ó BORG "I´ve got to tell you how I feel about you"

Ég var ánægð með úrslit borgarstjórnarkosninganna og reyndar með Eurovision líka. Lagið hennar Lenu þar sem hún söng " LOVE OH LOVE,  I´ve got to tell you how I feel about you" 

Ég kaus Besta flokkinn enda kominn tími til að segja STOP við fjórflokkana, en kaus þó alls ekki á málefnalausum grunni,  því ég las aðgarðaráætlun og um það fólk sem þar var innanbúðar og hef áður lesið skrif Jóns Gnarrs sem eru bara ekkert grín. Grín + skynsemi er annars góð blanda og lífið á að vera skemmtilegt.  Þegar lífið er skemmtilegt líður okkur vel. 

Ég vil síðan fá Samfylkinguna með í borgarstjórn en hugnast ekki Sjálfstæðisflokksfólkið.  Hefði að vísu viljað fá mann nr. 4 og 5 inn í Samfylkingu en ekkert voðalega spennt fyrir 1. og 2. manni en Samfylkingin er mun skárri kostur en Sjálfstæðisflokkur þar sem, eins og kom í ljós í viðtölum við bæði Bjarna og Hönnu Birnu í gær, eru þau frekjudósir í forsvari.  Samstarfskona mín sem býr í Garðabæ sagði einu sinni að þó það væri ljósastaur í fyrsta sæti myndi Sjálfstæðisfólk kjósa sinn flokk.  Sel það ekki dýrara en ég keypti það. LoL

Ég þykist ekki sérfróð um borgarmál, en veit að það er ágætis aðferð við stjórnun að taka púlsinn á t.d. starfsfólki borgarinnar og vita hvort það er eins glatt með störf fráfarandi borgarstjórnarfulltrúa eins og virðist koma fram í máli fráfarandi borgarstjóra. 

Þó að það komi fram í könnunum að borgarbúar séu ánægðir með þjónustu leikskólanna, þá skal það tekið fram að það er eflaust vegna þess að Íslendingar eru svo ótrúlega duglegt fólk upp til hópa.  Þeir leggja sig vel fram í vinnu og "redda" hlutunum.  Reddingar t.d. á leikskólum eru á þann hátt að ef að um forföll er að ræða hlaupa aðrir starfsmenn í skarðið og setja á sig meira álag. 

Ég þekki það að vera stjórnandi og sjá hvað fólk er tilbúið að leggja á sig og einmitt enn og aftur "redda" hlutunum til að þeir gangi upp. 

Svona er hægt að starfa í einhvern tíma, en ef það er ekki metið og álagið er orðið regla en ekki undantekning  gefst fólk upp og hrökklast úr starfi, missir starfgleði og/eða verður veikt.  Þess vegna er, þegar til lengri tima er litið,  hagkvæmara að hlúa vel að starfsfólki heldur en að skera við nögl eða ætla þvi um of.  Það eru takmörk fyrir hvað hægt er að bjóða fólki upp á í vinnu. 

Ég fann þetta myndband á Youtube með henni óborganlegu Lucy og margir þekkja sig kannski í þessari stöðu,  þó ekki svona extreme: 

Innihaldið er að ef að gengur vel og við kvörtum ekki, eða látum líta út eins og allt sé í lagi þá endar allt með ósköpum. Þetta gildir að sjálfsögðu í lífinu almennt. 

 

 

 


mbl.is Besti flokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Je ne sais quoi - Who has this special something?

Hvaða flokkur eða hvaða fólk hefur þetta "special something" sem þarf til að stjórna borg. Hvaða fólk er tilbúið til að taka sig ekki það hátíðlega að þykjast kunna allt sem þarf til að stjórna borg og upplýsa að það muni leita ráðgjafar á viðkomandi fagaðilum. 

"Ég hef aldrei flutt flugvöll" segir Jón Gnarr,  og virðurkennir að honum líki persónulega illa við hávaðann frá flugvellinum - og jafnframt að það trufli hann við að tala í símann bæði í Hljómskálagarði þegar hann fer út að ganga með hundinn og í Öskjuhlíð.  Það er fyndið, en sumir fatta ekkert þennan húmor Jóns Gnarrs og finnst hann bara ekkert fyndinn. 

Ég held að enginn af forsvarsmönnum flokkanna kunni í raun að flytja flugvöll og auðvitað þarf að leita til  fagfólks með að taka slíkar ákvarðanir,  hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt, hvort það sé í lagi öryggisins vegna. 

Sá flokkur sem kemst að þarf að hafa það til að bera að fá fólk í lið með sér og vera þægilegt í samvinnu. Samskiptagreindin er oft vanmetin. 

Hanna Birna segir að búið sé að mæla gleði fólks í borginni og þegar hún talar lítur út fyrir að hér gangi allir í einni hamingjuhalarófu og tralli saman.  Eina halarófan sem hefur verið áberandi undanfarið í fréttum eru raðir fyrir utan mæðrastyrksnefnd og fjölskylduhjálpina.

Hanna Birna sendi mér bréf með áritun "Kæra Jóhanna..." o.s.frv.  þar sem hún biður mig að kjósa sig.  Kæra Hanna Birna ég ætla ekki að kjósa þig,  sérstaklega vegna þess hroka að viðurkenna ekki vandann.  

“Example is not the main thing in influencing others, it's the only thing”. Albert Schweitzer

Hvers konar fordæmi er það hjá Hönnu Birnu að spandera bréfi ritað með hágæðaletri á hágæðapappir í hágæðaumslagi á konur Reykjavíkurborgar? Gerir það hana að hágæðakonu?

NB hún bar það varla út sjálf. 

Hvað kostaði þessi gjörningur?   Í leikskólum borgarinnar er þrengt gífurlega að,  þar hefði allur þessi pappír hefði svo sannarlega komið að góðum notum,  en þar er skorið við nögl og starfsfólki skipað að prenta aðeins í "draft"  og  allt efni til listsköpunar hvort sem er pappír eða annað í lágmarki.  Samt sem áður sendi núverandi borgarráð glansbækling inn á leikskólana um störf ráðsins.  Ég heyrði að starfsfólk á einum leikskóla borgarinnar var stórlega misboðið.  En nei, "allir svo ánægðir skv. skoðanakönnun." 

Eru þessar góðu niðurstöður skoðanakannana ekki að þakka því starfsfólki sem hefur róið bátnum þrátt fyrir lélegan aðbúnað?   

Hanna Birna er með munninn fyrir neðan nefið, það má hún eiga, en er hún með fingurinn á púlsinum?  Er hún tengd við raunveruleikann?   Mér finnst það ekki.  

Ég er viss um að frambjóðandi Framsóknar er einn heiðarlegasti Framsóknarmaður sem hefur stigið fram,  en hann vantar öryggið í framkomu og Framsókn er skemmt vörumerki svo hann er á röngum stað.  Ég hreinlega man ekki hvað þessi frambjóðandi heitir og ætla ég að láta það standa hér þó að sjálfsögðu gæti ég flett því upp, en það segir kannski meira en nokkur orð. 

Helga hjá Frjálslyndum er líka heiðarleg og hún myndi örugglega vinna í því að stytta raðirnar í matarskammtana og ekki hygla sínu eigin og Sóley hjá VG er líka heiðarleg,  en stundum klaufaleg og of stjórnsöm eins og hún sýndi þegar hún sagði samflokksfélaga hvernig hann ætti að kjósa. 

Ólafur F.  er ekki boðlegur,  eflaust heiðarlegur en því miður virðist hann vera "viðkvæmt blóm" og viðkvæm blóm þurfa að vera í logni. 

Baldvin hjá Reykjavíkurframboði er skemmtilegur bangsi,  og kemur með ferskan blæ og hugmyndir, spurningin er bara hvort þær gangi upp?

Dagur hefur komið þokkalega út, en ég tel að Samfylkingin hefði átt að stokka upp og svo er ekki hægt að líta framhjá hvernig hún er að standa sig í landsmálum.  Vantar röskleika þar.  Með Bjarna Karlsson í fyrsta sæti og sem væntanlegt borgarstjóraefni hefði ég íhugað að kjósa Samfylkinguna,  en Bjarni Karlsson er ekki fyrstur á lista. 

Ég hef séð á blogginu að lítið hefur verið gert úr fólki sem hyggst kjósa Besta flokkinn, kallað fábjánar og að það sé bara unga fólkið o.s.frv.  Unga fólkið sem sagt fábjánar eða hvað? 

Ég er  ung í anda, líst vel á frumlegheitin og vil gera Reykjavík að fallegri og skemmtilegri borg.  Lesið bara hvað 7. maður  (kannski baráttusæti miðað við skoðanakannanir)  á lista Besta flokksins,  Páll Hjaltason, arkitekt  hefur að segja.  Þar segir hann m.a.

 "Það sem dafnar best í miðborginni eru ölduhúsin. Það er ekki alslæmt að Reykjavík sé vinsæl skemmtanaborg en opnunartími öldurhúsa ásamt hrikalegri umgengni hefur gert innsta hring miðbæjarinns í raun óíbúðarhæfan. Þetta þarf að laga."

Hver er ekki sammála þessu? 

Ég ætla að hugsa út fyrir kassann, styð frumlega hugsun og því ætla ég að kjósa Besta flokkinn.

Smá hamingjuskot í restina inn í daginn. Smile

 

 


mbl.is Kjörstaðir opnaðir klukkan 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly: "Do not lose faith" ...

Í viðtali við RUV talar Eva Joly um að þjóðin eigi að halda ró sinni og hótanir eigi ekki að taka alvarlega. 

 "Do not lose faith" .. Iceland is full of highly educated people able to think" ....

(þetta er í samræmi við bloggfærslu þar sem mótmælti yfirlýsingum um heimska Íslendinga).

Eva Joly telur jafnframt að íslensk yfirvöld hafi verið undir of miklum þrýstingi frá breskum og hollenskum yfirvöldum og að þrýstingurinn hafi aukist. 

Smellið HÉR til  að sjá viðtalið við Evu Joly. 

Missum ekki móðinn í neikvæðu og niðurdrepandi sjálfstali, slíkt grefur aðeins undan sjálfstrausti okkar sem þjóðar.

"Upp upp mín sál og allt mitt geð" .. 

 

Spil dagsins: 

 


"Forsetafígúran"

Ísland er lítið land með stórt og ástríðufullt hjarta. Á Íslandi býr hugmyndaríkt og sjálfstætt hugsandi fólk, en stundum hlaupum við hvert á eftir öðru eins og gengur í samfélagi manna. Við erum þar að auki mjög nýjungagjörn þjóð. Þegar Vigdís bauð sig fram var spennandi að fá einhleypa konu með barn sem forseta, og þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram var spennandi að fá svona klassíska fjölskyldu á Bessastaði. Við höfum líka þorað að hleypa fólki að þó það væri ekki "eftir uppskrift".. 

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti Íslands, skemmdi það ekki fyrir að hann átti einstaklega elskulega konu sem var með fallegt viðmót. 

Bakgrunnur Ólafs Ragnars er pólitískur og ein hans frægasta setning er um skítlegt eðli Davíðs Odssonar. Ólafur var víst flokksmaður í fleiri en einum flokki, en ég dæmi fólk ekki fyrir að skipta um flokka, því það getur að sjálfsögðu verið þroskamerki að skipta um skoðun. 

En þá komum við að eðlinu aftur.  Kannski ekki bara eðli Ólafs Ragnars heldur eðli manna þegar aðstæður breytast.  Framsóknar- og síðar Alþýðubandalagsmaður, alþýðu - takið eftir, sem umturnast í vemmilegan kóng sem nuddar saman höndum og finnst allt "dýrmætt" .. 

Úff, hversu sannfærandi er það? 

Hunangið draup af hverju strái og gjáin breikkaði á milli alþýðu og forseta, jafnvel þótt að drottningin Dorrit reyndi að leggja sig yfir sem brú var hún allt of stutt í annan endann. 

Dorrit kemur úr aristókratíu og kemur fram sem slík en þó hrein og bein og virðist ekki vera að fela neitt, en einhvern veginn klæðir þessi aristókratismi Ólaf Ragnar hörmulega illa og  úr verður ósannfærandi forsetafígúra.

Forseti á að mínu mati  að vera landsfaðir- eða móðir, með breiðan faðm og vera góð fyrirmynd. Forseti á að vera virðingarverð og heil persóna. 

Ólafur Ragnar hefur eflaust gert marga góða hluti, en hann er bara ekki minn forseti og ekki sú fyrurmynd eða sameiningartákn sem ég vil bjóða fram á Íslandi.  Mér fannst hann gera rétt í því að taka tillit til hinna mörgu radda þjóðarinnar sem skrifuðu á InDefence listann,  þó að fjöldinn hefði eitthvað orkað tvímælis. 

Við skulum öll lesa okkur vel til og hlusta á fræðingana, þó einn segi A og hinn B, og taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, en mér finnst þrátt fyrir að forsetinn hafi gert eitthvað rétt eigi hann að fara að safna kössum og segja af sér embætti. 

Nú er íslenska þjóðin í sárum, stórum sárum en Ólafur floginn af "heimilinu"  til að taka á móti Nehru verðlaunum m.a. vegna góðra samskipta við Indland. 

Hefði nú kallinn ekki átt að vera heima og sinna sínum, nú eða hjálpa til við að lægja öldur þær sem nú berast að landi?  

Kannski er ég óréttlát, en það er bara eitthvað svo ótrúlega farsakennt við þetta allt sem gengur ekki upp og það vantar einhverja heila brú.  

 

baron-munchausen


Skuld og bundin

Nú opna ég ekki sjónvarp, útvarp eða les Facebook-statusa eða blogg án þess að bregði fyrir orðinu skuldbinding. Allir að tala um að við Íslendingar ætlum að standa við skuldbindingar okkar.

Mikið andskoti (ég blóta ekki oft) mega þessir kallar (og kellingar?) sem stofnuðu banka og þeir/þær sem samþykktu að borga fyrir þá, skammast sín.   Það er víst búið að skuldbinda mig, þig, vini og vandamenn.

Ég má auðvitað skammast mín líka fyrir að treysta í blindni á fjármálaeftirlit, seðlabankastjóra, ríkisstjórn o.fl.  ekki það að þeir sem ég hef kosið hafi nokkurn tímann komist í ríkisstjórn! :-/ 

Ef við íhugum orðið skuldbundin, þá er það að sjálfsögðu samsett úr skuld og bundin. Það getur verið óþægilegt að vera bundin skuldum. 

Skuldbönd eða skuldabönd eru eins og gaddavír, þau eru ekki þægileg og virkilega heftandi.

Við viljum helst fá að ákveða sjálf hverjum við erum skuldbundin og hverjum við skuldum. 

Ég hef ekki mikið vit á fjármálum, en hef yfirleitt spurt þá sem betur vita ef ég er í vafa. En þar sem ég þarf núna að kjósa um IceSave langar mig að spyrja (svona til að byrja með):

1)  Hver (nákvæmlega) skuldbatt mig? 

2) Er löglegt að þessi eða þessir aðilar skuldbindi fólk? 

Fyrir mína hönd og annarra skuldbundinna vandamanna. 

Jóhanna sem tilheyrir nú þjóð í ruslflokki Frown

 Bundin


Til Varnar Íslendingum

Ég hef verið að skoða Icesave umræðuna frá báðum hliðum, þetta er ekki kappleikur og það mun enginn sigra, en þjóðin tapar stærst ef hún klofnar því að sameinuð stöndum við en sundruð föllum við.

Mér finnst hafa hitnað óþægilega í kolunum og fólk farið að vera býsna neikvætt. Undanfarna daga hef ég verið að lesa alhæfingar eins og "Íslendingar eru heimskir" Íslendingar eru vitlausir" "Íslendingar eru fífl" ..  Mikið er þetta nú eitthvað uppbyggilegt og vænlegt til að byggja upp þjóðarsálina. Eða eru menn að reyna að gera út af við þjóðarsálina. Er hún óæskileg?

Einum manni hefur sérstaklega verið hampað en hans síða er www.jonas.is  en eftirfarandi grein er eftir hann: 

 "31.12.2009
Einstaklega heimsk þjóð
Íslendingar hafa ætíð verið heimskir, enda innræktaðir á fámennu útskeri. Allar aldir hafa þeir leyst vanda sinn með afneitun hans. Eyddu auðlindum til lands og sjávar og veðsettu restina. Kenna útlendingum um vanda sinn, hvort sem hann heitir Uppkastið eða IceSave. Þjóðrembdir eru Íslendingar með afbrigðum, enda að mestu einangraðir um aldir frá erlendum samskiptum. Í umheiminum er almennt litið á Íslendinga sem sviksöm fífl. Þeir standi ekki við skuldbindingar sínar og þurfi á refsingu að halda. Nú erum við komin á núllpunkt vegna þessa, en höfum enga greind til að læra af biturri reynslu."

Nú eigum við s.s. að kinka kolli og samþykkja að við séum einstaklega heimsk þjóð. 

Ég þekki allt of mikið af vel gefnum Íslendingum og virkilega klárum bara, til að geta samþykkt þetta. Þessir sem ég þekki eru heldur varla undantekning sem sannar regluna. 

Kennum við útlendingum um vanda okkar?  Það hef ég sjaldnast heyrt eða a.m.k. ekki oftar en ég hef heyrt talað um útrásarvíkinga, um Davíð Oddsson, um Sjálfstæðisflokkinn, um Framsóknarflokkinn, um Samfylkinguna og um Vinstri græn,  Landsvirkjun, Orkuveituna, kirkjuna o.s.frv. ég er ekki sérfróð í þessu,  en að íslensk þjóð kenni útlendingum eingöngu um vanda sinn er ekki rétt. 

Íslendingar eru ágætlega sigldir, og ekki veit ég hvort að þeir bötnuðu eitthvað við útrásina og þau erlendu samskipti? 

Jónas segir að í útlöndum sé yfirleitt litið á Íslendinga sem "sviksöm fífl."  Jónas tali fyrir sig sjálfan og sína fjölskyldu. Ég og mín fjölskylda höfum umgengist slatta af útlendingum og þeir hafa bara allir ágætis álit á Íslendingum.  Það er engin afneitun í gangi þar. 

Við vitum öll að einhverjir Íslendingar voru sviksamir, en að lýsa því yfir að þjóðin öll sé slík er alhæfing sem ég neita að taka undir. 

Svartsýni og neikvæðni sem kemur fram í þessari hnyttnu grein Jónasar á ágætlega heima í Woody Allen mynd, en virkar aðeins til niðurbrots en ekki uppbyggingar.  Íslendingar þurfa ekki á þessu að halda. 

Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar skuli svo sannarlega halda í hönd erlendra þjóða, ef svo má að orði komast,  en til að haldast í hendur þarf að standa  á sama palli, hvorki ofar né neðar.

Lítillækum okkur ekki með svona neikvæðni. Ef við virðum okkur ekki sjálf sem þjóð er það gefið mál að aðrar þjóðir munu ekki heldur virða okkur.

Svo burt með svona vanvirðingu í eigin barm og upp með þjóðarsál. Elskum okkur og virðum sjálf svo við getum elskað og virt aðra og aðrir virt okkur! 

Upp upp mitt geð og öll mín sál. 

 


Lína Langsokkur mætir kannski á svæðið?

Fyrst var það Eva Joly, næst er það kannski Lína Langsokkur. Lína er svona kona sem tekið er eftir og hlustað er á. Hún lætur ekki segja sér að ganga í támjóum þröngum skóm, heldur gengur hún í skóm þar sem hún hefur möguleika á að hreyfa tærnar. 

 

Íslendingar þurfa að geta hreyft tærnar, því þeir eru svolítið eins og Lína Langsokkur.  

Njóta sín með freknur og fléttur.

Njóta sín með skegg og sólbrúnku.

Taka fagnandi á móti dögunum.

 

 

 

 

Sjósunds- og fjallgöngugarpar allra sveitarfélaga sameinist og nýti nú orku láðs og lands til að byggja upp og bæta geð! Smile 

Þjóðernisrómantíkin að drepa mig. 

 

 


mbl.is Völvan spáir spennandi tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærum elskuna og sveltum óttann..

Ótti er andstæða elsku.

Hvers vegna heldur fólk fram hlutum sem það í raun trúir ekki? Er það kannski vegna þess að það misskilur trúna og óttast Guð í stað þess að treysta? Í stað Guðs elskunnar eða kærleikans verður Guð óttans allsráðandi? 

Hvert er birtingarform þessa átrúnaður óttans? 

Það er hræðsla við að hafa sjálfstæðar skoðanir og  treysta á eigið innsæi,  hvað er rétt og hvað er rangt. Þetta á bæði við í trú og pólitík. 

Fólk leyfir óttanum að setja eigin skynsemi hömlur og trúir ekki á  eigin kraft.  Það leyfir öðru fólki að ráða og þessir ráðandi leiðtogar eru e.t.v. þeir sem stjórna með ótta. 

Af hverju óttast fólk t.d. samkynhneigða (homophobia) ?  Er það vegna þess að áður þekkt heimsmynd þeirra riðlast? Er það vegna þess að það er hrætt við að missa einhver réttindi sem tilheyrði þeim einum í hendur fleirum (eins og hjónabandið t.d.).  Óttast  það kannski eigin kynhneigð? 

Manneskja sem telur sig trúaða á Jesú Krist ætti ekki að óttast svona mikið, hvorki homma né sjálfa sig og treysta þess meira. 

Það er mikið talað um óttann í forsögu kristninnar, fyrir fæðingu Jesú. En hver er svo kjarni kristinnar trúar.

Hverju svaraði Kristur um hið æðsta boðorð í lögmálinu? Sagði hann:

 „Óttast skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‘Þú skalt óttast náunga þinn eins og sjálfan þig."

Nei auðvitað stendur ekki óttast heldur:

 „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.  Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‘Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig." Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Mt 22.37-40)

Af hverju segir svo Jesús að þetta tvennt sé líkt?  Að elska Guð og að elska náunga sinn eins og sjálfan sig?  

Getur það verið að í raun sé það sami hlutur, fyrir trúaða manneskju, að elska Guð  og að elska sjálfa sig? 

Til að elska náungann þarf því líka elska náungann eins og sjálfan sig,  ekki meira eða minna. Það þýðir m.a. að við eigum að elska okkur nógu mikið til að treysta okkur sjálfum. 

Ég hef þörf fyrir Guð til að vera með mér í þessari jöfnu elskunnar, sumir hafa ekki þörf fyrir Guð og ég virði það auðvitað, það er kannski hámark traustsins á Guð að þurfa ekki á Guði að halda?  - þó það hljómi þversagnarkennt.   Það sem skiptir aðalmáli er að geta komið fram af heilindum og láta ekki stjórnast af ótta heldur af elsku.

Virðum fjölbreytileika mannlífsins og gleðjumst yfir því að í veröldinni eru ekki bara einlitir sokkar.

Verum ekki að halda á lofti því neikvæða og ljóta sem stendur í hinu forna riti Biblíunni, en flöggum því gjarnan sem þaðan má gott taka.  Einn uppáhalds spjallvinur telur það komast fyrir á einu A - 4 blaði,  líklegast verða það nú  fleiri síður, annars skiptir magnið ekki aðalmáli þar, heldur gæðin.  Kjarninn er á hreinu - það er Elska. 

Hættum að fita óttann en nærum elskuna til sjálfra okkar og náungans = Make LOVE not WAR. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband