Hugsað upphátt um laun ..

paycheckÖll viljum við helst lifa laus við áhyggjur af peningum.  Það er vont að fyllast kvíða fyrir hver mánaðamót,  vegna þess að við vitum ekki hvort að við náum endum saman.  Það vill enginn skulda neinum neitt. 

Fréttir berast af fólki með yfir milljón í mánaðarlaun,  reyndar sumum með miklu meira en milljón.  Á meðan þær fréttir berast eru sumir að fá tja.. svona 200 þúsund í mánaðarlaun.  Launin sem eru í boði fyrir suma vinnu eru svo lág að fólki finnst álitlegra að þiggja atvinnuleysisbætur.  

Það sem er yfirleitt í pakkanum hjá þeim sem fá súperlaunin, eru ekki bara laun,  heldur hin ólíkustu fríðindi,  atvinnurekandi greiðir síma, net, bíl .. o.s.frv. 

 

Einhvern veginn finnst manni þetta ójafnvægi hreint út sagt heimskulegt.  Af hverju eiga sumir að búa við skort og aðrir að hafa umframmagn  peninga á milli handanna?  Einhver launamunur verður alltaf,  og má alveg taka tillit til þess hvað fólk hefur menntað sig, til ábyrgðar,  álags o.s.frv. en skrítið að þurfa að hafa svona himin og haf á milli.

Forgangsröðunin er nefnilega sú,  að við borgum fólki lág laun fyrir að sinna yngstu og elstu kynslóðinni.  Við borgum síðan súperlaun fólki fyrir að "sinna" peningunum okkar eða dauðum hlutum.  Það þykir víst bara "normal" í siðmenntuðu þjóðfélagi. Sideways

Það sem ég vildi sagt hafa er að mér finnst að það ættu líka að vera hámarkslaun.  Það hefur enginn - já ég fullyrði enginn - þörf fyrir meira en milljón á mánuði.  Reyndar mætti lækka þá tölu þó nokkuð.   Við höfum þörf fyrir húsnæði,  fatnað,  afþreyingu,  að komast í frí ... og laun eiga að miðast við það.  Miðast við að við öll,  ekki bara sum - getum lifað sómasamlega, mannsæmandi lífi. 

Ég hef verið, að mér finnst,  á slíkum mannsæmandi  launum sl. fimm ár,  en það var í aðstoðarskólastjóradjobbinu,  þó að ég hafi nýlega komist að því að ég hafi ekki  komist með tærnar þar sem t.d.  prestarnir hafa verið með hælana.  Séra Baldur Kristjánsson sagði á blogginu hjá Jóni Vali:  "venjuleg prestslaun eru um 570-630 þúsund krónur á mánuði".. (Þarna er þó undantekning;  þ.e.a.s. þarna fær ákveðin stétt góð laun fyrir að sinna fólki).

Ég er reyndar með bæði prestsmenntun og kennsluréttindi,  svo ekki vantar mig sambærilega menntun. 

Mér þykir það bara býsna gott að vera með 570 - 630 þús. krónur á mánuði í laun.  Ekki veit ég hvaða fríðindi fylgja,  sími? net? bílastyrkur?...en það er örugglega eitthvað.  

Verðugur er verkamaðurinn launa sinna,  svo sannarlega, en af einhverjum ástæðum eru menn álitnir misverðugir og reyndar mjög svo,  reyndar ekki bara mennirnir - heldur er það starfið sem er misvel launað eða mikilvægt. 

Fyrir sjö árum síðan voru mánaðarlaun mín á Eir fyrir vinnu við aðhlynningu aldraðra,  um 111.000.-  fastakaup,  með yfirvinnu sem innihélt oft næturvinnu var heildarupphæð kannski komin í 150.000.- veit ekki hvað  það er í dag,  en þegar þetta var var þetta ekki til að hrópa húrra fyrir.  Mér var þá boðin vinna hjá Steinsmiðju S. Helgasonar við sölu legsteina þar sem byrjunargrunnlaun voru 220.000.-    ég þáði þá vinnu - þrátt fyrir að vera mjög ánægð með starf mitt á Eir,  og reyndar Eir ánægt með mig,  en ég hafði hreinlega ekki efni á að sinna því, ein með tvo unglinga á heimili. 

Ég fékk  því 100%  hærri laun fyrir að sinna tilvonandi legsteinum fólksins sem ég hafði verið að sinna en að sinna fólkinu sjálfu. Sideways  (verð að setja annan svona skakkan kall hér).

Þetta er eiginlega langt fyrir ofan minn skilning. 

Ég vil að lokum taka það fram að það er erfitt að vera "single"  og reka heimili.  Auðvitað er ódýrara að vera tveir saman og greiða af húsnæði og rekstri heimilis.  Tvöfaldar tekjur eru auðvitað betri en einfaldar.  Það er ekki flókið! .. 

Jæja - þetta var s.s. ég að  hugsa upphátt um laun.  Hvað hugsar þú?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Að gefnu tilefni þá vil ég taka það fram að það er ólíðandi að öldruðu fólki sé boðið upp á starfsfólk sem ekki getur,  eða talar illa  tungumál þess.  Andleg þjónusta við aldraða er ekki síður mikilvæg en líkamleg - og getur reyndar skipt sköpum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.8.2010 kl. 08:13

2 identicon

Sæl Jóhanna .

Góð grein,

og ég tala nú ekki um viðbótina sem að þú bættir hér við á athugasemdina.

Kær kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 08:32

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Þórarinn,

Varðandi viðbót, þá er þetta eitthvað sem er mér hjartans mál,  þekki það af reynslu hvað samræður við fólkið skipta miklu máli - og svo þarf oft að vera slunginn í að ræða við fólk og ná til þess þegar það er komið á ákveðið stig heilabilunar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.8.2010 kl. 08:49

4 Smámynd: Ragnheiður

Frábær pistill Jóhanna mín.

Öll hugsum við um laun og okkar afkomu. Í þenslunni urðum við dauð fyrir fáránlegum ofurlaunum sumra. Nú er mest skorið niður hjá þeim sem aldrei nutu góðærisins !

Ragnheiður , 14.8.2010 kl. 10:14

5 identicon

Orð í tíma töluð enda verið sögð efnislega oft og lengi. En fólk verður að skilja, að það sem einhver fær borgað fram yfir ca kr. 738.416,- á mánuði fær hann fyrir morgunbununa, og hún er misdýrmæt. Svona er það nú bara.

Aaðalsteinn Geirsson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 10:26

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta minnir mig á þegar ég stundaði kennslu reykvískum skóla fyrir meira en áratug. Þá var ljósritunarvél biluð og viðgerðarmaður kallaður inn. Hann var klukkutíma á staðnum og lagaði vélina. Kostaði viðgerðin kr. 15.000,- en það voru tíföld tímalaun kennara í kvöldvinnu.

Mér fannst þetta svolítið merkilegt þá og finnst það svolítið merkilegt núna.

Ég er einn af þeim kennurum sem hætti störfum í opinberum skóla á Íslandi til þess að geta framfleytt fjölskyldu minni, og ég innilega elska kennslustörf.

Mér verður oft hugsað til þeirra kennara sem enn starfa við þessa göfugu iðju fyrir laun sem eru undir því sem kassakrakkar fá í Bónus.

Hrannar Baldursson, 14.8.2010 kl. 11:29

7 identicon

Takk fyrir góða grein, sérstaklega er launa-samanburðurinn ágætur.  Það er þetta brenglaða starfs-verðmætamat á okkur manneskjunum sem við þurfum að leiðrétta.  En það verður ekki gert fyrr en við stelpurnar komumst til meiri og sterkari áhrifa.  Laun ættu þá að vera eitt af því fyrsta, sem yrði endurskoðað............. ÁFRAM STELPUR....

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 14:10

8 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl Jóhanna, góður pistill eins og allir þínir pistlar

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 14.8.2010 kl. 14:46

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Komið þið öll sæl, sem hafið lagt orð í belg.  Ég skrifaði þennan pistil vegna þess að þetta sótti á mig, þar sem nú er ég farin að kíkja í kringum mig eftir nýju starfi.  Það fer svolítið í taugarnar á mér að þurfa að útiloka ýmis skemmtileg störf,  vegna þess að ég veit að þau eru illa borguð. 

Hrannar, ég þekki til fleiri kennara sem hafa horfið frá kennslu þrátt fyrir að það hafi verið "draumastarfið"  eingöngu vegna þess að þeim buðust hærri tekjur í öðru.  Það er mjög sorglegt að mínu mati,  því að oft eru þetta mjög hæfir einstaklingar sem svo sannarlega eiga heima við uppfræðslu barna og ungmenna.  Þeirra sem erfa landið! 

Takk Ragga, sammála með þensluna og meðvitundarleysið - við horfðum á þetta gerast,  án þess að pæla hvað þetta væri eiginlega. 

Takk fyrir þitt innlegg Aðalsteinn,  þú ert aldeilis nákvæmur í útreikningnum!

Takk fyrir Vigdís,  hvað með stelpurnar sem eru nú þegar við völd?  Eru þær að standa sig -  allar eða kannski bara sumar? 

Þakka þér fyrir hlý orð í minn garð Ásgerður Jóna.

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.8.2010 kl. 16:02

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 stundum gefst maður hreinlega upp á því að hugsa, þetta er víða erfitt.

Ásdís Sigurðardóttir, 16.8.2010 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband