Færsluflokkur: Bloggar
22.8.2013 | 09:33
Landslög og undanþágur frá þeim ..veittar sumum en öðrum ekki?
Ég tel að við getum ekki neitað Múslimum um að taka sín Sharía lög inn í landið á meðan við leyfum öðrum trúfélögum á Íslandi að starfa með sín prívatlög. -
Það verður eitt yfir alla að ganga. Þjóðkirkjan (styrkt af ríkinu) veitir prestum "samviskufrelsi" til að vígja ekki samkynheigða, en samt er í landslögum jöfn hjónavígsla.
- Hvar liggur samviskufrelsi múslimanna í málum kvenna? - Kaþólikkar vígja ekki konur til prestskaps, - það eru lög um jafnrétti í landinu. -
Bara svo við vitum að hverju við erum að ganga og að eitt skal yfir alla ganga. -
Hvar á að setja línuna?
Er það bara ég sem er ekki að fatta þetta?
Er réttlætanlegt að trúarsannfæring sem gengur gegn mannréttindum trompi landslög?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2013 | 22:18
Leyndarmál og lygar ...
Leyndarmálið á bak við lífshamingjuna - er að hafa ekki leyndarmál, lifa af heilu hjarta - sem er að segja hug sinn og sögu sína kinnroðalaust, - hætta að reyna að vera fullkomin/n
(endurtekið efni)
Brene Brown er rannsóknarprófessor í University of Houston Graduate College of Social Work. Hún hefur varið 12 árum í að rannsaka berskjöldun (vulnerability), skömm, áreiðanleika (authenticity) og hugrekki. Hún er höfundur bókarinnar "The Gifts of Imperfection."
Eftirfarandi er þýðing (og smá útúrdúrar) á grein sem birtist á CNN "Want to be happy, stop trying to be perfect." Hún er þarna með "lykilinn" að lífshamingjunni - og efni hennar kallast algjörlega á við það sem við hjá Lausninni erum að vinna með í sambandi við meðvirkni, en sá sem er meðvirkur er einmitt alltaf með hausinn fullan af því "hvað aðrir eru að hugsa" og að geðjast umhverfinu svo að hann sé samþykktur. Sér ekki eigið verðmætamat, nema í gegnum aðra (einföldun).
Mörg okkar hafa í gegnum árin rembst eins og rjúpan við staurinn við að vera fullkomin. En undarlegt en satt, að aldrei virðist það nást og við erum orðin úrvinda, teygð og toguð að innan af skömm og vonbrigðum yfir því að ná ekki þessum meinta fullkomleika.
Við getum ekki slökkt á "röddinni" í hausnum, sem hljómar eitthvað á þessa leið "Þú ert aldrei nógu góð/ur" - "Hvað skyldi fólk eiginlega halda?" ..
Hvers vegna, þegar við vitum að það er ekkert til sem heitir fullkomið, eyðum við svona miklum tíma og orku að vera og gera allt fyrir alla? Halda öllum ánægðum? -
Er það vegna þess að við erum svona hrifin af fullkomnun? - Öööö.. nei!
Staðreyndin er sú að við löðumst að fólki sem er raunverulegt og með báða fætur á jörðinni. Við hrífumst af frumleika og dáumst að lífi sem er svolítil óreiða og ófullkomið.
Við sogumst inn í fullkomleikann af einfaldri ástæðu: Við teljum að fullkomleikinn muni vernda okkur.
Fullkomleiki er sú trú að ef við lifum fullkomin, lítum fullkomlega út, og hegðum okkur fullkomlega vel, getum við forðast eða gert sem minnst úr sársaukann við ásökun, áfellisdóm og skömm.
Við verðum öll að upplifa að við séum einhvers virði og tilheyrum einhverjum, og verðmæti okkar er í húfi þegar við erum aldrei nógu _____________ (þú getur fyllt í eyðuna: mjó, falleg, gáfuð, sérstök, hæfileikarík, dáð, vinsæl, upphafin).
Fullkomleiki er ekki það sama og reyna að gera okkar besta. Fullkomleiki er ekki um að ná heilbrigðum markmiðum og vexti; hann er skjöldur. Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.
Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða óuppfyllanlegar væntingar í öllu mögulegu, frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn. Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni "Hvað ætli fólk hugsi"? yfir í "Ég er nóg." það er ekki auðvelt. En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:
Hvort er meiri áhætta? Að sleppa því sem fólk hugsar - eða að sleppa því hvernig mér líður, hvernig ég trúi, og hver ég er?
Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að ná utan um okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg - að við séum verðug ástar, að tilheyra og gleði? Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt. Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?
Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á berskjöldun, skömm, og áreiðanleika, hefur hún uppgötvað eftirfarandi:
Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega "víruð" til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.
Í rannsóknarviðtölum sínum, komst hún að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það. Það var verðmætamat þeirra. Það er eins flókið og einfalt og eftirfarandi:
Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum.
Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu. Það eru engar forsendur fyrir verðmæti.
Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:
- Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló
- Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk
- Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú
- Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri
- Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi
- Ég verð verðmæt ef ég næ í flottan maka
- Ég verð verðmæt þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins
- Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna
Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:
Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR. Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er.
Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá " Hvað heldur fólk?" til þess: "Ég er nóg." En eins og öll mikil ferðalög, hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.
Rót orðsins "courage" á ensku er er latneska orðið cor - fyrir hjarta. Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið "courage" aðra skilgreiningu en það hefur í dag. Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja hug sinn, með því að tala frá hjartanu. Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn.
Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við hetjuskap. Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brene Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) - það sem er skilgreining á hugrekki.
Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði. Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði - að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum. Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér."
---
"SANNLEIKURINN MUN GJÖRA YÐUR FRJÁLS" ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2013 | 13:42
Spegilmynd móður minnar ...
Ótti og flótti frá sannleikanum og sjálfri mér...
Hún er verndandi og góð
kemur inn í lífi mitt fyrir fæðingu
Hún er vanmátturinn og dýrðin
sem skyggir á sjálfan Guð
Kennir mér að þykjast og þóknast
tipla á tánum og setur mig í hlutverk
þar sem ég er stillt og prúð,
sniðug og ábyrg
til að ég fái athygli, elsku og þakklæti
viðurkenningu og samþykki
sem ég verð að vinna fyrir
því annars á ég það ekki skilið
Hún kennir mér að fela og ljúga
og til að halda leyndarmál
til að vernda heiður hússins
og fjölskyldunnar
Hún kennir mér að skammast mín
fyrir sjálfa mig
og lifa með sektarkennd
þar sem ég sveigi frá eigin gildum
og sannleikanum sjálfum
kennir mér að óttast
það að segja frá sársauka mínum
að standa með sjálfri mér
því þá gæti ég misst ...eitthvað og einhvern
og lífið verður einn allsherjar flótti
frá sannleikanum og sjálfri mér
og ég týni því verðmætasta
sem er ég sjálf
Hún er mín meðvirka móðir
Hún er ég
----
Svona ljóð er ekki sett fram til að ásaka eða dæma, heldur til að vekja til umhugsunar um það hvaða fyrirmyndir við setjum börnum okkar. Hvað erum við að kenna þeim? - Erum við að rækta okkur sjálf, virða og elska, hugsa um heilsuna, vera glöð heiðarleg og hamingjusöm? -
Af hverju ekki?
Viljum við ekki eiga heilsuhraust, heiðarleg og hamingjusöm börn?
Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og fagnaðarerindið er að við getum alltaf breytt um stefnu, af vegi blekkingar inn á veg sannleikans, sannleikans sem frelsar okkur eins og frá púpu yfir í fiðrildi, en umbreytingin getur kostað sársauka.
Hann er þess virði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2013 | 08:00
Er flughræðsla stjórnsemi og/eða vantraust á lífsins gangi? ...
Hér á eftir kemur algjörlega óvísindaleg pæling, bara svona hugdetta sem ég var að ræða við minn nánasta. -
Ég fór að heimsækja ónefnda konu í gær, sem var mjög stressuð vegna þess að hún var að fara í flug í dag. Sagði að hún færi oftar i ferðalög ef hún væri ekki svona logandi hrædd. Í einhver skipti hafði hún drukkið áfengi, jafnvel öskrað á flugfreyjuna að færa sér drykk áður en barþjónusta hófst.
Svona i framhjáskoti má nefna það að einu sinni var viðtal við Eddu Björgvins sem sagðist aldrei drekka í flugvél, því að ef hún hrapaði vildi hún mæti Guði edrú! :-)
Vantar aldrei húmorinn hjá Eddu.
En áfram að blessaðri flughræðslunni, - ég man ííka eftir dagfarsprúðri konu sem kom að tala við mig þegar ég var að fara til Florida með börnin og konan var svo drukkin að börnin voru logandi hrædd við hana og fannst hún mjög óþægileg.
Af hverju óttumst við nokkurn hlut? -
Jú, tilgáta mín - hin óvísindalega - byggist á því að þetta eru bæði hlutir sem við höfum ekki stjórn á. Við getum ekki stjórnað flugvélinni (nema við séum flugmenn) og verðum að treysta öðrum.
Við getum engu ráðið - verðum að slaka á og treysta. Það er ekki reyndin þegar um flughræðslu er að ræða, sá/sú sem glímir við flughræðslu slakar ekki á og treystir. Ég á reyndar vinkonu sem er bæði flughrædd og bílhrædd (hjá öðrum) svo það stemmir.
Það er þó pinku öðruvísi með bílhræðsluna því að þú getur verið að skipta þér af akstrinum eða þekkir þann sem er við stýrið.
Ekki veit ég hvað er gert á námskeiðum gegn flughræðslu, hvað dáleiðarinn gerir - en mætti kannski dáleiða eitthvað af stjórnsemi úr fólki og vantaust á gangi lífsins?
Þegar ég tala um stjórnsemi þá er það svona þetta að vilja halda i taumana á öllu og öllum. Treysta ekki neinum fyrir sjálfum sér og þurfa helst að fá að ráða því að þannig fari allt best.
Efst á einkennalista Coda samtakanna um stjórnsemi er:
- "Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft"
Hvað þá með að stjórna flugvél?
Það er reyndar áhugavert að vita hvaðan öll hræðsla kemur.
"Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt" - segir í Davíðssálmi 23. og í framhaldi "vegna þess að þú ert með mér"..
Það er voðalega gott að trúa og treysta - og málið er að við breytum engu með því að óttast, ef eitthvað gerist þá gerist það. Eina sem við gerum er að fara í gegnum vanlíðan á líkama og sál, við förum í gegnum atburðinn fyrir fram, e.t.v. aftur og aftur, og við getum verið t.d. flughrædd alla ævi en aldrei lent í flugslysi.
Það er í sjálfu sér vont slys að fara í gegnum ævina þannig að þegar við þurfum að ferðast í flugvél þá séum við stíf af hræðslu og vanlíðan og lika einhverja daga fyrir flug. Ef við erum ekki stíf, erum við "dópuð" með lyfi frá lækninum eða ölvuð þannig að við jafnvel hræðum börn um borð, eins og ég sagði hér frá áðan.
Snýst þetta allt um trú? - Þá er ég ekkert að tala um "religion" bara belief - eða hugsun í okkar kolli. Traust og trú er það sama, við eigum erfitt með að treysta.
Við þurum sjálf að hafa stjórn á ytri aðstæðum - eða ekki.
Kannski snýst þetta um innri stjórn, innri frið - og traust á almættinu.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2013 | 00:38
Ef við bara segðum upphátt hvað við vildum! ..
Eldri hjón höfðu þann sið að deila einu rúnstykki daglega. - Þar sem eiginmanninum þótti svo vænt um konuna sína, gaf hann henni alltaf efri partinn - þennan með birkinu (því það fannst honum sjálfum betri hlutinn) og hann tók sjálfur botninn.
Þetta höfðu þau gert í tugi ára, og það var ekki fyrr en þau voru komin á áttræðisaldur að eiginkonan spurði manninn hvort að hún mætti fá botninn í eitt skipti. - Maðurinn varð hissa og spurði hvort henni þætti ekki efri hlutinn betri.-
"Nei, reyndar þykir mér botninn betri, ég hef bara aldrei kunnað við að biðja um hann, því ég hélt að þér þætti hann betri" - svaraði þá konan.
Það sem hjónakornin gerðu rangt frá upphafi var að tala ekki saman um hvorn hlutann þau vildu frekar.
Eiginmaðurinn áætlaði að þar sem honum þætti efri hlutinn betri, þætti konunni hans hann líka betri. Eiginkonan lét sig hafa það að borða neðri helminginn í góðri trú um að eiginmaðurinn væri að fá það sem honum þætti betra. -
Samskipti geta verið flókin .. sérstaklega ef að enginn tjáir sig!
Í öll þessi ár hefðu bæði getað verið að borða þann hlut sem þeim líkaði betur, - og annar kostur, hefði e.t.v. verið að skera rúnstykkið þvert! ...
Að sjálfsögðu má heimfæra þessa sögu upp á svo margt í okkar lífi:
"Af hverju sagðir þú ekki að þú vildir?" .......
"Af hverju spurðir þú aldrei?" ...
Það hefur örugglega mátt spara margan misskilninginn (og jafnvel fýluna) með því að segja og spyrja.
Hver eru svörin og hver er ástæða þess að við segjum ekki og spyrjum ekki? -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2013 | 08:25
Erum við stundum farin að óttast gleðina?
Einn svona "hugsað upphátt" pistill - en hann er um nýjasta uppáhaldsumræðuefnið mitt: gleðina og hvernig við skemmum stundum fyrir henni. "Hætta skal leik er hæst stendur" - af hverju? .. Af hverju ekki að "mjólka" bestu stundirnar og njóta í ystu æsar? -
Gleðin og þakklætið haldast í hendur. -
Þegar við upplifum að allt er farið að ganga vel - og byrjum að finna gleðina vella fram, förum við mörg að óttast.
Við förum að setja í gang viðbragðsáætlanir, því eins og margir segja eða hugsa "þetta er of gott til að vera satt" - og þá förum við að skemma fyrir og erum ekki glöð lengur. Reynum að leita að einhverju sem gæti mögulega skemmt gleðina, leitum að einhverju til að óttast - ef við bara skemmum ekki sjálf fyrir eða höfnum gleðinni áður en hún hafnar okkur (eða við höldum að hún hafni okkur).
Ef við venjum okkur á það að þakka það sem veitir okkur gleði, - ekki bara stóru hlutina, heldur litlu fallegu daglegu hlutina, hversdagslegu hlutina, sem við svona dags dagleg teljum sjálfsagða förum við að ná að gleðjast án þess að óttast.
Þessi hugmyndafræði kemur m.a. frá Brené Brown sem segir:
"There is no joy without gratitude" -
Rithöfundurinn Paulo Coelho segir að ef vð ættum bara eina bæn væri hún: "Takk"- eða "Thank you" -
Það gerðist pinkulítið skrítið í sturtu í morgun, - ég fann allt í einu svo vel fyrir vatninu, það mynduðust dropar á augnahárunum og hrundu svo niður. Mér fannst eins og ég væri komin í ævintýri - og langaði ekki að hætta.
Nei, nei - ég er ekki að klikkast, bara að taka eftir litlu ævintýrunum - og ég hugsaði að ég þyrfti ekki að fara í Disney World til að upplifa ævintýrin.
Um leið hugsaði ég líka hversu heppin ég væri að geta verið í sturtu og ekki þurft að pæla í hvað vatnið kostaði - og að það væri nóg af því. Já, ég þakkaði það og þakka það enn.
Á hverju kvöldi er gott að fara yfir daginn í huganum, skrifa niður hversdagslega hluti sem við erum þakklát fyrir og sjá hvort við verðum ekki pinku glaðari dag frá degi.
Einu sinni dreymdi mig um að búa í gömlu steinhúsi í Vesturbænum í Reykjavík. Nú er það raunveruleiki, - og vá hvað ég er þakklát. Ég á ekki þetta hús, en hef það til leigu í tvö ár og hvað sem gengur á þá ætla ég að eiga fyrir leigunni, þó ég eigi ekki endilega fyrir öllu hinu. -
Heimilið heldur vel utan um mig, börnunum mínum finnst gott að koma hingað og hér er góður andi, enda kalla ég húsið "hús andanna."
Ég er að komast aftur í þann "fullnægjugír" að opna fataskápinn og segja "vá hvað ég á mikið" í stað þess að segja "oh ég hef ekkert að fara í" - en langflest fötin mín eru orðin margra ára gömul. Kona slítur ekki fötunum sínum. Ég get verið þakklát fyrir að hafa ekki vaxið upp úr þeim.
Þakklæti og gleði - það er eins og hestur og kerra. Þakklæti dregur gleðina áfram.
Ég þakka fyrir - og gleðst í framhaldi af því. Ég óttast ekki að eitthvað dásamlegt gerist , ég ætla að leyfa því að gerast og gleðjast óhindrað.
"Fearless og free" er markmiðið mitt.
Ég þakka fyrir meðbyrinn sem ég fæ frá samferðafólki, þið eruð vissulega vindurinn minn. - Líka þakka ég mótbyrinn, því mótbyrinn gefur mér innblástur, eins og til að skrifa pistla. Hann lyftir mér eins og flugvél - og setur á loft. Þannig varð t.d. pistillinn sem ég skrifaði í morgun til, pistill um skömm og stolt.
Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að vera þakklát fyrir og þá um leið gleðjast yfir því.
Ef fólk vill fræðast meira - eða læra nýja hugsun, þakklætishugsun, þá er hægt að panta viðtal þar eða námskeið sem ég starfa sem ráðgjafi: www.lausnin.is

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2013 | 10:19
"Elskan mín, ástin mín .......skammastu þín" ...
Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér í morgun, - vegna þess að þetta er kjarninn í aðferðafræði margs ofbeldismannsins - og kvendisins.
Laða að sér viðkomandi með fallegu orðfæri og skjóta svo í návígi.
Svona tala lika margir í umræðunni um samkynhneigð.
"Ég elska samkynhneigða, margir eru vinir mínir, - en ojbara það sem þeir gera. Það misbýður mér.".
Andlegt ofbeldi er dauðans alvara.
Gay Pride gangan - sem útleggst Gleðigangan á Íslandi, er ganga gengin í stolti yfir - stolti yfir að fólk fái að vera "Gay" og frjálst með það. Það að vera það sem það er. Gangan er ÝKT - það fer ekki á milli mála, Ýkt í litum, áróðri og gleði fyrir mannréttindum hinsegin fólks.
Fólks sem er ekki "svona" gagnkynheigt og þarf aldrei að pæla í því hvort það leðir maka sinn, kyssir eða faðmar á almannafæri.
Það er ekki langt síðan að ég var með unga konu í viðtali sem var kvalin af skömm yfir að vera að koma út úr skápnum sem samkynhneigð. Hún var í sambandi við aðra sem var enn inni í skápnum og gat ekki hugsað sér að mæta samfélaginu eða fjölskyldunni.
Samt hrópar fólk að öllu sé náð, samkynhneigð hafi fengið sína jafngildu hjónavígslu viðurkennda og þá eigi það bara að vera heima hjá sér. Púnktur.
Þrátt fyrir þessi lög eru enn prestar INNAN þjóðkirkju sem hafa samviskufrelsi til að vígja ekki samkynheigð pör.
Það eru komin ýmis lög sem eiga að tryggja jafnrétti kvenna og karla en er jafnrétti náð? - Getum við lagt hendur í skaut og bara andað léttar?
Hvað með launamun? Jafnfrétti er ekki náð og þar er víða pottur brotinn og takið eftir að það er líka gagnvart karlmönnum. Jafnréttisbaráttan er ekki bara kvennabarátta.
Nei, við viljum ekki að fólk þurfi að ganga um bæinn með hauspoka vegna kynhneigðar sinnar.
Ég sagði áðan að gangan væri ýkt - hún er ganga gleði og stolts, sem er andstæðan við óhamingju og skömm.
Ég hef skrifað ófáa pistlana um áhrif skammar á fólk, það að skammast sín fyrir sjálfan sig er eins og að vera með krabbamein á sálinni.
Sjálfsvígshugsanir eru algengar hjá fólki sem lifir með skömm, og ef ekki það þá er það oft farið að finna alls konar verki og einkenni, - hvers kyns eða kynhneigðar sem það er.
Skömmin lækkar ánægjuvogina - og gleðin og hamingjan er skert.
Þessi pistill er m.a. ákall til þeirra sem ekki þola Gay Pride og hafa áhyggjur af upprennandi kynslóð að sú ganga muni skemma börnin, eins og fram hefur komið í umræðunni. Ákall til þeirra sem eru enn að veifa viðvörunarflagginu gagnvart hommum, lesbíum, transgender o.s.frv.
EInn af fyrstu hommunum sem kom út úr skápnum á Íslandi flúði land. Við höfum sannarlega komið langa leið - en göngunni er ekki lokið.
Börnin verða ekki samkynheigð við það að horfa á tvo karlmenn kyssast, ekki frekar en að verða gagnkynheigð yfir því að horfa á konu og karl kyssast. -
Fólk sem á erfitt með Gay Pride gönguna er oft fólk sem hefur alist upp við fordóma gagnvart því að vera hinsegin og er hreinlega ekki vant því og finnst það óþægilegt.
Er það vandamál hverra?
Ég styð Gay Pride - sem er andsvar við Gay-Shame, eða skömminni sem troðið hefur verið upp á fólk vegna kynhneigðar.
Skömmin er það sem skemmir - það að skammast sín fyrir sjálfa/n sig.
Elskan mín, ástin mín, þú þarft ekki að skammast þín - þú ert elskuð/elskaður "all the way" ..
Já líka þú sem finnur til þegar að Gay Pride gengur fram hjá þér, því kannski líður þér bara illa og þarft að skoða af hverju þér finnst þetta óþægilegt. Prógrammið þitt er þannig, þú hefur verið þannig alin/n upp - en þær tilfinningar eru ekki þú, fordómar eru ekki meðfæddir. Hvorki i eigin garð né annarra.
Kynhneigð er meðfædd.
Hörðustu gagnrýnendur eru oft þau sem enn eru inni í skápnum.
Virðum litrófið.
Elskum meira og óttumst minna.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2013 | 08:50
Bæn úr hengirúmi
Ég bið fyrir öllum sem eiga hjartasár, fyrir öllum sem upplifa sig stífluð, andlega tætt, týnd eða eirðarlaus, og fyrir öllum sem upplifa sig vanta tengingu við það sem ER - hverju nafni sem þú kýst að kalla það (Guð, Hið heilaga, Æðri máttur, Lífið).
Ég bið fyrir öllum sem eru í kvíða vegna afkomu sinnar, að þau fái það starf eða það sem þau þurfa til að framfleyta sér og sínum.
Ég bið þess að styrkur komi hér og nú, hugrekki, innblástur, og að hlutirnir skýrist eins og fyrir kraftaverk. Megir þú finna þinn farveg, vera full/ur trúar, í fullvissu um hversu guðdómlega fullkomin/n þú ert.
Leyndarmálið við að komast á réttan farveg er kannski of einfalt, þú getur gert það núna, með því að segja: "Já takk" og trúa því að þú sért þar með komin/n á réttan farveg og þá þarftu ekki að bíða eftir neinu. Bara með því að trúa þá er "getnaður" hafinn og svo er bara að treysta að allt þroskist eðlilega án þess að þú sért að skipta þér of mikið af, þ.e.a.s. að treysta lífinu.
Ef það á að vera verður það. Slakaðu á - leggðu þig í þetta lífsins hengirúm og láttu goluna gæla við þig. -
Hvað skiptir RAUNVERULEGA máli?
Það að þú getir andað er grundvöllur fyrir lífi, þökkum það. Þökkum líka mat og húsaskjól. En fyrst og fremst þökkum innri frið, hann er mikilvægur til að þola það áreiti sem fylgir því að fá innheimtubréf frá bankanum - ofan í sorg og erfiðleika.
Ég bið um æðruleysi.
Annað er aukaatriði.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2013 | 07:50
Jónsmessunótt - hvenær er hún og af hverju er nafnið dregið?
Jónsmessan er kennd við Jóhannes skírara enda eru Jón og Jóhannes aðeins tvö afbrigði sama nafns og hún er sögð fæðingardagur hans.
Jónsmessunóttin, aðfaranótt 24. júní, er ein þeirra fjögurra nátta í íslenskri þjóðtrú sem taldar eru hvað magnaðastar og þá geta alls kyns dularfullir hlutir gerst. Hinar næturnar eru allar í skammdeginu: Jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Sagt er að á Jónsmessunótt fljóti upp ýmiss konar náttúrusteinar sem geta komið að góðu gagni. Þá má einnig finna ýmis nýtileg grös.
(Upplýsinar af Vísindavefnum)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2013 | 08:46
Af hverju þykir ofbeldi kvenna við karla fyndið? ..
Sá þennan brandara á Facebook í morgun:
Gúndi gasalegi og Badda bleika voru að versla þegar Gúndi teygir sig í bjórkassa og leggur hann í körfuna.
"Hvað heldur þú að þú sért að gera spyr Badda."
"Þetta er á tilboði, 24 baukar á 3600 kall." Svarar Gúndi.
"Láttu kassann aftur á sinn stað, við höfum alls ekki efni á þessu, segir Badda með þjósti og þau halda áfram að versla.
Nokkru síðar tekur Badda upp andlitskrem á 7200 kr. og setur í körfuna.
"Hvað heldur þú að þú sért að gera ?" Spyr Gúndi.
"Þetta er uppáhalds andlitskremið mitt. Það gerir mig svo fallega." Svarar Badda.
"Það gera nú líka 24 baukar af bjór og þeir kosta helmingi minna!"
Samkvæmt upl. frá bæklunardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss,
Er Gundi allur að koma til."
Ef við snérum brandaranum við, Gúndi hefði barið Böddu og hann endaði: "Samkvæmt upplýsingum frá bæklunardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss, er Badda öll að koma til." - Haldiði að margir myndu hlæja? -
Einhvern tímann skrifaði ég líka pistil um misnotkun Guggu á Ólafi Ragnari í Dagvaktinni, það átti að vera fyndið - en hefði aldrei þótt fyndið ef að eldri maður hefði farið svona með unga konu.
Karlar hafa undanfarið verið að koma út úr skápnum sem þolendur ofbeldis kvenna, - það er ekkert auðvelt og þarf hugrekki til, ef að þjóðarsálin eða andinn í þjóðfélaginu er slíkur að það sé gert grín að þeim þess vegna. Sjálfir upplifa þeir sig eflaust með skömm fyrir að hafa "leyft" ofbeldinu að viðgangast, en það virkar eins fyrir bæði kynin. Allir upplifa skömm þegar þeir átta sig á því að meðan þeir setja ekki ofbeldismanneskjunni mörk - "leyfa" ofbeldinu að grassera með því að upplýsa ekki um það eða jafnvel að taka þátt á móti og þá eru komin mjög vond samskipti, svo ekki sé meira sagt.
Stundum eru báðir aðilar sem beita ofbeldi - annar byrjar í vörn en svo er oft erfitt að átta sig hvor byrjaði.
Ef við tökum Böddu og Gúnda sem dæmi. Hún byrjar á að stjórnast í því hvað hann kaupir, bannar fullorðnum manni að taka ákvarðanir (við vitum ekkert hvort að Gúndi er alkóhólisti eða ekki) - Hún kaupir helmingi dýrari vöru og finnst það bara allt í lagi, ítrekar með því að ákveða hvað má kaupa hver það er sem hefur stjórn, vörnin hans er að gera grín að útliti hennar (sem er líka ofbeldi) því hann er alls ekki sáttur og sem endar með því, augljóslega, að hún beitir hann líkamlegu ofbeldi sem leiðir til spítalavistar.
Já, já - þetta er brandari. En meðan við stefnum í jafnréttisátt þá verðum við að skoða allar hliðar jafnréttis - ekki bara alvarleika þess að konur séu beittar ofbeldi og óréttlæti í þeirra garð.
Það þarf að skoða orsakir fyrir ofbeldi og einnig skoða hvers vegna við samþykkjum frekar - eða finnst ofbeldi gagnvart körlum fyndið þegar það er grafalvarlegt.
Þar eru hugmyndir sem þarf að uppræta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)