Færsluflokkur: Bloggar
4.6.2013 | 08:52
Heimur versnandi fer - eða hvað?
Í "gamla daga" fékk maður eina flösku (litla gosflösku, ekki 1/2 lítra) max á viku. Nú eru margir að drekka gos daglega.
Það hafa orðið framfarir á mörgum sviðum en afturförin er augljós og birtist t.d. í offitu barna og unglinga, - sem helgast þá eflaust líka af hreyfingaleysi og kyrrsetu vegna þess að þau eru meira í tölvum eða horfa á sjónvarp.
Við virðumst ráða illa við frelsið til að velja, og dæmi um það er hvað margir hugsa með hlýhug til sjónvarpslausra fimmtudagskvölda, en gætu ekki fyrir sitt litla líf haft slökkt á sjónvarpinu OG tölvunni hvert fimmtudagskvöld, - hvernig væri að gera fimmtudagskvöld að sjónvarps-og tölvulausu kvöldi?
Og svo maður tengi nú almennilega við fréttina, að sleppa gosdrykkjum nema kannski einu sinni í viku?
Það er spurning hvort maður yfirleitt er með frjálsan vilja? - Ræður ekki gosið /sykurinn yfir okkur ef við verðum háð því? Eða tölvan eða sjónvarpið ef við náum ekki að forðast það þó okkur langi jafnvel?
Af hverju gerum við ekki það sem við viljum - og af hverju förum við (mörg) svona illa með musteri sálarinnar; líkamann?
![]() |
Gosdrykkir jafn slæmir og krakk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2013 | 18:45
Ofbeldi kvenna - ofbeldi karla - hver byrjaði? ..
Hver hefur ekki lent í því að stilla til friðar þar sem börn eru að leik, eða a.m.k. fylgst með þeim í leik sem gekk of langt, - annað fer að gráta og byrjar að ásakar hitt, en þá segir það "hann/hún" byrjaði! -
Ég held að í raun, að ofbeldi milli fullorðinna sé ekkert ósvipað í eðli sínu, eða þ.e.a.s. hvernig það byrjar.
Ég sé ekki alveg fyrir mér að einhver vakni eins og Láki og segi "Í dag ætla ég að vera vondur" ..
Oft er það vankunnátta í samskiptum (lært hegðunarmynstur skv. fyrirmynd) sem veldur því að einhver byrjar og einhver tekur því illa eða verður særð/ur og bregst við með ofbeldi. -
Stjórnun (manipulation) er ofbeldishegðun, en það er ekkert víst að sá eða sú sem er að stjórna eða reyna að fá sínu fram átti sig á því. - Það er hægt að stjórna á svo lúmskan hátt, með því að ala á sektarkennd hjá hinum aðilanum, með því að fara í fýlu, þegja, neita hinum aðilanum um eitthvað sem hann þarfnast nema það sé gert o.s.frv. - Sá eða sú sem vill fá sitt fram notar ákveðin stjórnunartæki og ef hann eða hún fær ekki það sem hann eða hún vill getur færst "fjör" í leikinn.
Ef að honum eða henni eru sett mörk, fer það eftir hversu "frek/ur" aðilinn er eða ákveðinn í að fá sínu framgengt hvað hann gengur langt. Hverju er til fórnað? - Eru börnin notuð? - Eru hótanir um sjálfsvíg? - Er vorkunnarspilið notað? - Hótað að fara í blöðin og kjafta frá einhverju sem er viðkvæmt?
Þarna erum við komin í einhvers konar stríð.
Það þarf sterk bein til að rísa yfir svona stríð og svona stjórnun. Það þarf sterkan vilja til að taka ekki þátt, ekki fara á sama plan og sá eða sú sem notar svona tæki og tækni. -
En það þarf líka styrk til að láta ekki stjórnast og eiga á hættu að fá á sig alls konar dóma og e.t.v. að missa tengsl við fólk sem skiptir þig máli.
Þetta er ekki einfalt.
En allt hófst þetta með barnaleik, - "Það er honum að kenna" - er það ekki?
Allt er þetta vegna þess að einhver byrjaði og einhver var særð/ur - eða var það kannski vegna þess að einhver var særð/ur og byrjaði þess vegna?
Ég lærði það í mínum uppvexti að sá vægði sem vitið hefði meira, og notaði það óspart á mín börn - en þau voru hætt að þola þennan frasa "Sá vægir er vitið hefur meira" - kannski vegna þess að þá komst sá eða sú sem var frekastur eða frekust upp með frekjuna sína.
Það á auðvitað ekki að vera afleiðing þess að vægja. Við kennum engum neitt með því, eða jú kannski að ef þú frekjast áfram þá færðu það sem þú vilt. Það gætu börnin lært ung. Þess vegna verður að segja stop og setja mörk.
Það getur verið vandlifað í okkar stóra heimi.
Mér leiðist pinkulítið að tala um karla sem svona og konur sem hinsegin eða öfugt. Karlar beita ofbeldi og konur beita ofbeldi, það er síðan persónubundið og fylgir e.t.v. eðli og/eða uppeldi hvernig ofbeldi er beitt.
Ef hver og ein manneskja liti í eigin barm, skoðaði sinn sársauka - sitt ofbeldi, þá væri kannski hægt að fara að sjá og skilja til að breyta. Eflaust ekki fyrr.
Stundum skiptir ekki máli hver byrjaði, - jú kannski til að skilja ferlið, en það skiptir máli að enda ofbeldi - og það er ekki endilega alltaf gert með því að þegja og vægja, heldur einmitt að tala og segja "hingað og ekki lengra."
Ef að einhver blandaði handa þér ógeðisdrykk sem væri þeirrar gerðar að þú yrðir veik/ur og byði þér eða heimtaði að þú drykkir hann - þá myndir þú ekki, vegna þess að þú vildir vera almennilegur við viðkomandi eða hlýða, eða jafnvel ekki gera vesen, drekka drykkinn. Þú myndir ekki drekka drykkinn bara vegna þess að þú "elskaðir" þann sem byði hann svo mikið.
Sú "ást" væri a.m.k. ekki raunveruleg - sú ást væri ást þrælsins eða ambáttarinnar.
Ég minni á orðin í söng Páls Óskars "Ó hvílíkt frelsi að elska þig" -
Í ástinni er frelsi og í frelsinu er ást.
Ekki ofbeldi.
Hvorki ofbeldi kvenna né karla.
Svo ef þú telur þig elska einhvern sem beitir þig ofbeldi, hugsaðu þig tvisvar um, er það þrælslund eða er það kannski vorkunnsemi? - Er það af vana? - Ertu gengin/n í lið með þeim sem tekur þig í gíslingu og farin/n að verja hann/hana.
Ef þú hefur þörf fyrir að vera vondu/ur eða stjórna öðrum manneskjum þá líttu í eigin barm, hvað er það sem þig vantar annað en sjálfsvirðingu og sjálfsöryggi - en þau sem hafa sjálfsvirðinguna í lagi eiga ekki að hafa þörf fyrir að upphefja sig á kostnað náungans. Þau eiga ekki að þurfa að pota, meiða, særa o.s.frv. - Þau þurfa ekki að byrja og þau segja nei takk við hverjum þeim ógeðisdrykk sem að þeim er réttur. -
Bloggar | Breytt 3.6.2013 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2013 | 12:33
Hvað er málið með þessar mömmur?
"Þú ert alveg eins og mamma þín" ..
Hvort haldið þið að þetta sé oftar sagt í jákvæðum eða neikvæðum tón?
Hvað er eiginlega málið með þessar mömmur? Leyfði ég mér að spyrja dóttur mína nýlega, eftir að hafa hlustað á hóp kvenna kvarta og kveina yfir mæðrum sínum! -
Jú, afskiptasemi - stjórnsemi - gagnrýnandi rödd ... var eitthvað sem við gátum talið upp, ein hafði minnst á það að móðir hennar væri alltaf í sjálfsvorkunn og bjargarleysi, önnur að mamma hennar gæti ekki hætt að tala illa um föður hennar, en þau skildu fyrir fimm árum síðan!
Hér skal tekið fram að ekki er um ALLAR mömmur að ræða, og margar eru aðeins svona að litlu leyti.
Flestir þekkja vandræðin með "tengdamömmu" - þegar hún kemur í heimsókn og veit allt og kann allt betur, og þarf að koma því að!
Sterkustu mömmurnar og tengdamömmurnar eru þær sem vita en þurfa ekki endilega að "spreða" vitneskjunni og góðu ráðunum svona óumbeðið. -
Að sjálfsögðu er gott að geta svarað þegar spurt er, eða leitað ráða.
En til dæmis þegar mamma/tengdamamma kemur í heimsókn og byrjar með ráðin:
"Ég myndi nú .... bla, bla.." getur snúið alveg upp á taugakerfið hjá þeim sem hlustar. ;-)
Hvers vegna? - Jú, kannski vegna þess að undirliggjandi er gagnrýni að viðkomandi kunni ekki eða geti ekki.
Mömmur verða að sleppa tökunum og leyfa börnunum og tengdabörnunum að reka sig á, prófa sig áfram - og leyfa þeim að gera mistök ef þau eru til staðar, þó ekki nema til að læra af þeim. Það þarf varla að taka það fram að ofangreint er um aðstæður sem ekki eru hreinlega skaðlegar viðkomandi og verður hreinlega að taka í taumana, en ætli það sé nú oft málið? -
Það er gott að hafa í huga að það sem við látum frá okkur sé á uppbyggilegu nótunum.
p.s. hér tala ég um mömmur, en auðvitað eru til pabbar sem láta svona líka, en miðað við það sem ég heyri dags daglega er meira kvartað undan mömmum - hvers vegna?
HÉR má smella á aðra grein á svipuðum nótum - og e.t.v. meira greinandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2013 | 16:04
"Manipulation" - tilfinningastjórnun og sektarkennd ..
Það er til fólk sem er klárt að ýta á þína takka. Oftast eru þetta nánir ættingjar sem þekkja þig vel, þér þykir vænt um og oft er um maka þinn að ræða, stundum börn.
Þetta fólk - sem stjórnar tilfinningum þínum, má jafnvel kalla tilfinningakúgara.
Ef þú ert viðkvæm/ur fyrir eða berskjölduð/skjaldaður sem við erum oftast í ofangreindum tengslum er auðvelt að stjórna þér.
Tilfinningastjórnendurnir eru meistarar að koma inn hjá þér sektarkennd og samviskubiti.
Þeim tekst að láta þig fá samviskubit að segja eitthvað og samviskubit yfir að segja eitthvað ekki.
Yfir því að vera of mikil tilfinningavera eða ekki nógu mikil tilfinningavera, yfir því að vera of gjafmild/ur eða ekki gefa nógu mikið. Allt kemur til greina. Tilfinningastjórnendur segja sjaldan hvaða þarfir þeir hafa eða langanir þeir fá það sem þeir þurfa eða langar í gegnum tilfinningastjórnun.
T.d. fýlustjórnun.
Flest okkar höfum hæfileika til að minnka sektarkenndina sem þeir reyna að troða inn en ekki öll. Önnur öflug tilfinning sem er notuð er vorkunn. Tilfinningastjórnandi er yfirleitt mjög mikið fórnarlamb og lætur alla vita. Þeir ýkja vandamál sín og láta sem flesta vita, svo hægt sé að næra og hugsa um þá. Þeir berjast sjaldan eigin baráttu, en fá aðra til að vinna skítverkin fyrir sig. Það klikkaða er að þegar þú gerir það fyrir þá (sem þeir biðja aldrei beint um) snúa þeir sér að þér og segjast alls ekki hafa ætlast til þess að þú gerðir nokkurn skapaðan hlut!
Reyndu að berjast ekki baráttu annarra, eða hreinsa upp þeirra skít. Segðu frekar: "Ég hef fulla trú á því að þú náir þessu upp á eigin spítur tékkaðu á viðbrögðunum og taktu eftir hvaða "bull" kemur enn og aftur.
(þessi bútur er úr grein sem ég hef birt áður - aðeins breytt og er eitt af 8 atriðum sem notað er í tilfinningastjórnun eða kúgun eins og ég nefndi það í fyrri grein).
Sjá ef smellt er HÉR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2013 | 15:49
Er það tannkremstúpan, klósettsetan, sokkarnir í sófanum eða eitthvað allt annað? ...
Stundum verða litlu málin að stórum málum. -
Rangt meðfarin tannkremstúpa, klósettseta uppi, sokkarnir skildir eftir í sófa eða eitthvað álíka verður að RISA vandamáli, en þegar betur er gáð, eru þetta auðvitað ekki vandamálin og þetta skiptir í raun litlu ef nokkru máli.
Vandamálið er eitthað miklu, miklu stærra - eitthvað sem kannski er ekki hægt að festa fingur á, óánægja, ófullnægðar væntingar o.s.frv. en auðvitað þarf gremjan að komast út og þá er svo gott að hafa eitthvað til að benda á.
Þannig að ef að smáhlutir eru virkilega farnir að pirra þig eða þá sem eru í kringum þig þarf að skoða hvað er að krauma undir niðri. Sama hversu kyrfilega klósettinu væri lokað, tannkremið rétt kreyst og sokkarnir lagðir í sokkaskúffu, - hamingjan kæmi ekki hoppandi með því að þessi smáatriði væru frá.
Það þarf að finna raunverulega uppsprettu "ógleðinnar" til að uppræta hana.
Hún liggur yfirleitt dýpra - og væntanlega innra með manni sjálfum (ekki í tannkremstúpunni ;-))..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2013 | 09:20
Minning - Gunnar Petersen 20.4.1930 - 17.5.2013
Nú er hann farinn hinum megin tjaldsins, hann Gunnar Petersen fyrrum samstarfsfélagi úr Menntaskólanum Hraðbraut þar sem ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri og hann yfirsetumaður m/meiru.
Gunnar fæddist í Reykjavík 20. apríl 1930. Hann lést 17. maí 2013.

Þetta fæðingarár 1930 kom einu sinni til tals hjá okkur, eftir að ég hafði verið að setja upp lista á kaffistofunni með afmælisdögum starfsfólks, en ég hafði skrifað 1940 og þannig gert hann 10 árum yngri, enda grunaði mig engan veginn háan aldur hans.
Gunnar kom og leiðrétti mig og ég varð svo hissa á hversu vel hann bar aldurinn, mig hafði ekki grunað að hann væri, á þeim tíma sem þetta var skrifað komin nálægt áttræðu, en spurði þá um leið hvernig í ósköpunum hann héldi sér svona unglegum? -
"Það er sexarinn" svaraði þá Gunnar.
Ég var smá stund að kveikja, og reyndar kveikti ekkert - hélt jafnvel að þetta væri eitthvað "dónó" - en Gunnar bætti þá við; "Það er einn gin og tónik klukkan sex á hverjum degi! -
Þessi saga varð sagan okkar og oft sögð í stærra hópi og okkur þótti hún alltaf jafn fyndin.
Þessi hávaxni og glæsilegi maður - sem bar aldurinn svona gífurlega vel hafði nefnilega húmor, og sérstaklega fyrir sjálfum sér. Gunnar passaði einstaklega vel inn í hópinn á kaffistofunni, en þar var oft unun að sitja og hlusta á "spekingana spjalla" en þar á meðal voru þessir líka fróðu og skemmtilegu "öldungar" sem höfðu frá svo mörgu áhugaverðu að segja. Stemmingin var oft engu lík, og Gunnar lagði þar sitt af mörkum.
Gunnar hafði líka gaman af því þegar að hann, eitt skipti sem oftar, tók þátt í að taka á móti grunnskólanemum í skólakynningu, að hann hefði verið spurður hvort hann væri skólastjórinn. Hann hafði beðið á ganginum og tók á móti námsráðgjöfum og nemendum með handabandi, alltaf kurteis og virðulegur. - Ekki skrítið að einhverjir héldu hann "stjórann" ..
"Væntumþykja" er orðið sem kom í hugann þegar ég frétti af andláti Gunnars, reyndar gagnkvæm væntumþykja því að alltaf fann maður fyrir hlýju og velvild frá honum. Gunnar hafði verið samferða föður mínum í körfuboltanum í gamla daga og hann gaf mér mynd af þeim saman, og sagði mér að sýna móður minni sem ég gerði og mundi hún vel eftir Gunnari.
Gunnar var hugulsamur á fleiri máta - og því fékk ég að kynnast m.a. þegar ég kvartaði undan krónískri hálsbólgu tók Gunnar upp símann, hringdi í son sinn, lækninn og pantaði tíma fyrir konuna - sem endaði með kirtlatöku (og bættu lífi í framhaldi af því).
Gunnar var hvetjandi og góður maður, einstaklega samviskusamur og tók starf sitt hátíðlega. Hann átti jafnframt fjölda aðdáenda meðal starfsfólks og nemenda í Hraðbraut, en hann hafði þessa hæfileika þjónandi leiðtoga, sem eru svo mikilvægir. Það móðgaðist enginn þegar hann kallaði yfir hópinn fyrir próf "allir að pissa" - en við hin kímdum einmitt og ég hugsaði með sjálfri mér; "þetta getur enginn sagt með eins virðulegum blæ og Gunnar Petersen."
En nú er hann farinn þessi elska, eins og svo margir. Það var svo undarlegt að fyrsta manneskjan sem kom í huga minn að láta vita að hann væri allur var dóttir mín, Eva Lind - sem líka starfaði á tímabili með okkur í Hraðbraut og þótti vænt um Gunnar eins og mér og okkur öllum samstarfsmönnum. En Eva mín fór nokkrum mánuðum á undan honum, og þessi hugarfluga að láta hana vita var auðvitað fljót að fara í gegn, hún vissi um brottför hans á undan mér og hefur væntanlega verið í móttökunefndinni.
Ég votta fallegu konunni hans, fjölskyldu hans allri og vinum mína dýpstu samúð.
Blessuð sé minning þín Gunnar minn og takk fyrir mig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2013 | 00:28
Munur á skömm og sektarkennd ..
Brené Brown er einhvers konar "rannsóknarprófessor" frá Texas og hefur undanfarin ár spáð og spekúlerað í hugtökum eins og "shame" og "guilt" eða skömm og sektarkennd.
Hún segir að hægt sé að aðgreina þessar tvær tilfinningar - þó um einhverja einföldun sé að ræða þannig að sektarkennd sé sú tilfinning sem við fáum fyrir eitthvað sem við gerum eða við teljum okkur hafa gert, en skömm sé þeirrar gerðar að við skömmumst okkar fyrir okkur sjálf.
Skömmin er mjög lúmsk og oft áttum við okkur ekki á því að við erum hlaðin skömm.
Skömmin hleðst upp t.d. þegar við upplifum að við höfum látið eitthvað ganga yfir okkur, eitthvað sem er á móti lífsgildum okkar.
Sá sem lendir í ofbeldi upplifir stundum að ofbeldið sé sér að kenna og segir því ekki frá því. Eða að hann skammast sín fyrir að hafa "leyft" ofbeldismanninum að komast upp með ofbeldið og jafnvel dvelur í hans faðmi ef svo má að orði komast.
Mikið hefur verið skrifað um ofbeldi gagnvart körlum undanfarið, - en margir karlmenn (og eflaust konur líka) telja það skammarlegt að vera þolendur ofbeldis kvenna. - Tala um aumingjagang o.s.frv.
Menn skammast sín eða fyrir sig. Upplifa skömm.
Brené Brown, sem ég minntist á í upphafi bendir á að skömmin hati að láta tala um sig, því að með því minnki hún.
Það er því hið eina rétta að segja frá því sem við upplifum sem skömm, ekki hlífa ofbeldismönnum eða halda leyndarmál þeirra.
![]() |
Skömm og sekt skyldar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2013 | 12:15
Gryfjur sem fólk dettur í við skilnað ...
Ég hef haldið utan um námskeið í þó nokkur skipti sem kallast "Lausn eftir skilnað." Það er margt sem fólk þarf að átta sig á og það er stundum mjög erfitt að fara eftir því sem við vitum, þ.e.a.s. vera fagleg/ur þegar tilfinningar spila stóran þátt.
Það er hægt að lesa pistla um skilnað á www.skilnadur.wordpress.com en hér ætla ég aðeins að nefna nokkrar gryfjur sem engan langar að falla í en margir falla í.
1. Tala illa um hitt foreldrið fyrir framan börnin. Börnin upplifa sig hluta af foreldrum sínum og finnst því jafnvel að verið sé að tala illa um sig eða hluta af sér.
2. Nota börnin sem vopn til að stjórnast í lífi fyrrverandi eða senda þau með skilaboð á milli það getur varðað fjármál, nýjan maka o.s.frv.
3. Fókusinn algjörlega stilltur á fyrrverandi og hans/hennar líf - svo að manns eigin líf hverfur í skuggann og batinn eftir skilnaðinn situr á hakanum. Þar að auki geta börnin fallið í skuggann líka og þeirra velferð. Orkan fer jafnvel í hefndaraðgerðir gegn fyrrverandi.
4. Of mikil samskipti milli þeirra sem fráskilin eru, það er betra að skilnaður sé það sem kallað er "clean cut" því þá gengur sorgarferlið fyrr yfir en þegar er verið að framlengja því með hjásofi eða "útaðborða" við og við eða hvaða samskipti sem um ræðir. Það þarf að gefa sér frí frá makanum í góðan tíma, eða þar til mesti sársaukinn er genginn yfir. Þau sem eiga börn eiga einungis að hafa samskipti þeirra vegna, en ekki að fara að róta í tilfinningum þannig að bæði sitja eftir orkulaus og ringluð. Ef að annar aðilinn hefur ekki viljað skilnað, gefa "hittingar" honum fölsk skilaboð og væntingar, svo ekki sé talað um ef börn eru í spilinu, þau fara að halda að það sé eitthvað að byrja aftur hjá foreldrunum og vonbrigðin verða endurtekin þegar þau uppgötva að það var ekki. Allir þurfa skýr skilaboð.
5. Barn sett í hollustu- eða tryggðarklemmu gagnvart stjúpforeldri, ef barni líkar við stjúpu eða stjúpa þá er það hið besta mál. Foreldri sem elskar barnið sitt vill því vel og ætti ekki í eigingirni sinni að reyna að skemma það samband, heldur vera þakklátt fyrir að það sé þarna manneskja sem er tilbúin að þjóna og vera góð við barnið. Foreldri sem sem sendir "eitruð" skilaboð með barninu skemmir ekki síst fyrir barninu. Barninu verður að vera frjálst að tjá sig á báðum heimilum, hvort sem það vill tala um hvað mamma/pabbi eru æðisleg eða stjúpa/stjúpi. Barnið á ekki að þurfa að fara að tipla á tánum.
6. Barnið yfirheyrt - ekki af áhuga fyrir hvað barnið var að gera heldur hvað var að gerast á heimili fyrrverandi: "Hvað gerðir þú hjá mömmu/pabba, hvert fóruð þið, hvað voru þau að gera?" o.s.frv. - Í sumum tilfellum er hringt: "Hvar situr þessi, hvað er hinn að gera" - og barnið þarf að svara foreldri sínu samviskusamlega. Þetta eru auðvitað ekkert annað en persónunjósnir í gegnum barnið. (Hef það frá fullorðnum einstaklingi sem var skilnaðarbarn að þetta hafi verið eitt það sem hann þoldi síst, þ.e.a.s. yfirheyrslurnar).
Reyndar eru gemsarnir oft til vandræða - foreldrar að hringja í barnið á matartíma á hinu heimilinu og vilja rabba. -
7. Sendar gjafir til fyrrverandi inn á nýja heimilið - allt undir formerkjum vinskapar, en í raun er þarna verið að minna á sig.
8. Börnin sett í 2. sæti og nýi makinn í 1. sæti - oft er þarna um að ræða karlmenn sem stofna nýja fjölskyldu og höndla það ekki að blanda saman börnum úr fyrra sambandi og nýju konunni og e.t.v. hennar börnum og seinna þeirra sameiginlegu. Gerist oft þegar karlar yngja upp (sem er nokkuð algengt). Unglingar þrá stundir ein með pabba eða mömmu - bíltúra, sundferðir, bíó, út að borða.
9. Fjölskyldan og/eða vinir fari í skotgrafahernað - og taka afstöðu með og á móti, það þarf tvo til að skilja og það vita aldrei allir hvað hefur gengið á milli tveggja aðila og sögurnar eru oft gjörólíkar eftir því við hvorn aðilann er rætt. Báðir hafa upplifað ofbeldi og báðir hafa upplifað að þeir séu fórnarlömb - og að einhverju leyti gæti bæði haft rétt fyrir sér! .. Það þarf tvo til að skilja, og það er enginn 100% saklaus.
10. Fjölskylda og vinir ganga hart eftir að fá skýringar - stundum er ekkert hægt að útskýra, t.d. ef um andlegt ofbeldi er að ræða. Ef of hart er gengið eftir skýringum, þá fer fólk oft að mála fv. maka sinn enn verri litum en hann á skilið og setja svartari blett á sambandið en það var - og jafnvel skálda ástæður til að fullnægja skýringaþörf hinna, og réttlætingaþörf viðkomandi á skilnaðinum og til að líta betur út (eða vera enn meira fórnarlamb og þar af leiðandi fá meiri vorkunn) sjálf/ur.
11. Eins og við annað sorgarferli, - sem kemur ófrávíkjanlega í kjölfar skilnaðar (nema sorgarferlið hafi staðið yfir innan hjónabandsins/sambandins, - er hætta á að fólk fari í afneitun á sorginni, eða leiti í flóttaleiðir, áfengi, mat, vinnu, djamm .. eða hvað sem það nú er. Ef að bati á að nást, verðum við að finna tilfinningar okkar og fara í gegnum þær. Það eru engin "short cuts" ..
Það er gott að vita þetta, að þetta eru gryfjur og við getum bætt okkur. Sjálf er ég bæði fyrrverandi og núverandi. Það er erfitt að gera þetta allt rétt og auðvitað er hætta á að meira að segja þeir sem vita falli í gryfjur. - Það er vegna þess að við erum mennsk og tilfinningaverur. Ef við föllum í gryfjur þá er mikilvægt að sjá það og fara upp úr þeim, dusta af okkur rykið - biðja okkur sjálf og e.t.v. viðkomandi afsökunar og halda áfram.
Gerum okkar besta, miðað við fengnar upplýsingar - hver og einn ber ábyrgð á hamingju sinni, en sameiginlega berum við ábyrgð á hamingju ungra barna og unglinga að hluta til, og það er margt hér að ofan sem stuðlar að óhamingju þeirra, illindi milli foreldra annars vegar og svo illindi í garð stjúpforeldra einnig o.fl. o.fl.
"The Blaming Game" - eða Ásökunarspilið, er eitthvað sem allir ættu að hætta að spila, því það frystir allan bata og framþróun. Það þarf að taka ástandinu eins og það er og vinna sem best með það.
Það er svo sorglegt að verja lífinu sem okkur er gefið í leiðindi, rifrildi, hatur, afbrýðisemi eða hvað það nú er sem svo oft litar skilnaðarferlið.
Eftir því meiri kærleikur sem settur er inn í ferlið, og auðmýkt, þess betur líður okkur sjálfum.
Það er sársauki sem fylgir því að jafna sig eftir skilnað, hvort sem hann hefur orsakast af trúnaðarbresti eða öðru, það var a.m.k. draumur sem náði ekki að lifa, óvænt lykkja á lífsleiðinni sem fæstir taka fagnandi, þó vissulega fylgi því í einhverjum tilfellum frelsistilfinning að skilja, í bland við sorgartilfinningar, einmanaleika og tómarúm, enda samband oft orðið þvingandi sem verið er að brjóta upp.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2013 | 16:15
Það er einfaldlega til sært fólk ....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2013 | 10:39
Konur sem beita ofbeldi
Eftirfarandi grein er eftir Dr Tara J. Palmatier, PsyD, - af einhverjum ástæðum er mun algengara að horfa í ofbeldi af hendi karlmanna gagnvart konum, kannski vegna þess að það er meira uppi á yfirborðinu, augljósara eða kannski er þessi hegðun ekki flokkuð undir ofbeldi?
En greinin er hér í minni endursögn/þýðingu. Ég skrifa þetta í þeirri fullvissu að það þarf tvo til að deila, - og stundum má segja að báðir aðilar séu "ofbeldismenn" .. eða kunna a.m.k. alls ekki góð samskipti.
En hér er greinin:
Öskrar kærastan þín á þig, hrópar á þig eða bölvar þér? Líður þér eins og þú getir ekki talað við neinn um samband ykkar vegna þess að enginn myndi skilja þig? Líður þér eins og hægt og bítandi sé sambandið að gera þig sturlaðan?
Ef þér líður þannig gæti verið að þú sért í sambandi við konu sem leggur þig í tilfinningalegt einelti (emotional bully). Flestir karlmenn vilja ekki viðurkenna að þeir séu í ofbeldissambandi. Þeir lýsa sambandinu frekar eins og að konan/kærastan sé brjáluð, tilfinningarík, afskiptasöm eða stjórnsöm, jafnvel að þar séu stanslausir árekstrar. Ef þú notar svona orð er líklegt að það sé verið að beita þig andlegu ofbeldi.
Þekkir þú eftirfarandi hegðunarmynstur?
1) Stjórnun/einelti (bullying) Ef hún fær ekki sínu framgengt, fer allt í bál og brand. Hún vill stjórna þér og fer út í að lítillækka þig til að gera það. Hún notar ofbeldi orða og hótanir til að fá það fram sem hún vill. Það lætur henni líða eins og hún sé valdamikil og lætur þér líða illa.* Fólk með sjálfshverfan persónuleika stundar oft þessa hegðun.
Afleiðing: Þú missir sjálfsvirðinguna og upplifir þig sigraðan, sorgmæddan og einmana. Þú þróar með þér það sem kallað er Stockholm Syndrome, þar sem þú gengur í lið með andstæðingnum og ferð að verja hegðun hans fyrir öðrum.
2) Ósanngjarnar væntingar. Hversu mikið sem þú reynir að gefa, það er aldrei nóg. Hún ætlast til að þú hættir hverju sem þú ert að gera til að sinna hennar þörfum. Hvaða óþægindum sem það veldur, hún er í fyrsta sæti. Hún er með ótæmandi væntingalista, sem enginn dauðlegur maður getur nokkurn tíma uppfyllt.
Algengar kvartanir: Þú ert aldrei nógu rómantískur, þú verð aldrei nógu miklum tíma með mér, þú ert ekki nógu tilfinninganæmur, þú ert ekki nógu klár til að fatta hvaða þarfir ég hef, þú ert ekki að afla nægilegra tekna, þú ert ekki nógu.. FYLLTU Í EYÐUNA. Þú verður aldrei nógu góður vegna þess að það er aldrei hægt að geðjast þessari konu fullkomlega. Enginn mun nokkurn tímann vera nógu góður fyrir hana, svo ekki taka því persónulega.
Afleiðing: Þú ert stöðugt gagnrýndur vegna þess að þú getur ekki mætt þörfum hennar og væntingum og upplifun af lærðu hjálparleysi. Þú upplifir þig vanmáttugan og sigraðan þar sem hún stillir þér upp í vonlausar eða "no-win" aðstæður.
3) Munnlegar árásir. Þetta útskýrir sig sjálft. Hún notar alls konar uppnefni, notar fagorð - vopnuð yfirborðslegri þekkingu á sálfræði. Notar greiningar, gagnrýnir, hótar, öskrar, blótar, beitir kaldhæðni, niðurlægingu og ýkir galla þína. Gerir grín að þér fyrir framan aðra, þar með talið börnin þín og aðra sem hún þorir. Hún myndi ekki gera þetta við þann sem stöðvaði þessa hegðun og segði sér nóg boðið.
Afleiðing: Sjálfstraust þitt og verðmætamat þitt hverfur. Þú ferð jafnvel að trúa þessum hræðilegu hlutum sem hún segir við þig.
4) "Gaslighting" - "Ég gerði þetta ekki" "Ég veit ekki hvað þú ert að tala um" "Þetta var ekki svona slæmt" "Ég veit ekki um hvað þú ert að tala" "Þú ert að ímynda þér þetta" "Hættu að skálda" .. Ef að konan í sambandinu hefur tilhneygingu til þess að fá köst af "Borderline" eða sjálfhverfum reiðiköstum - þar sem æsingurinn verður eins og stormsveipur getur vel verið að hún muni ekki það sem hún sagði eða gerði. En hvort sem er, ekki efast um að þú munir það sem hún sagði. Það var sagt og það var vont og ekki efast um geðheilsu þína. Þetta er það sem kallað er "crazy-making" hegðun sem skilur þig eftir í lausu lofti, ringlaðan og hjálparlausan.
5) Óvænt viðbrögð. Hring eftir hring fer hún. Hvar hún stoppar veit enginn. Þennan daginn hegðar hún sér svona og hinn hinsegin. Til dæmis segir hún að það sé allt í lagi að þú sért að senda tölvupóst fyrir framan hana á mánudegi, en á miðvikudegi er þessi hegðun lítillækkandi, tillitslaus, "þú elskar mig ekki" er sagt og "þú ert vinnualki" ..en á föstudegi væri þetta allt í lagi aftur.
Að segja að einn daginn að eitthvað sé í lagi og hinn að það sé ekki í lagi er hegðun andlegs ofbeldismanns. Það er eins og að ganga í gegnum jarðsprengjusvæði þar sem verið er að færa til jarðsprengjurnar.
Afleiðingar: Þú ert alltaf á nálum, tiplandi á tánum og bíða eftir hvað gerist næst. Það eru áfallaviðbrögð. Vegna þess að þú getur ekki spáð fyririrfram i viðbrögð hennar, þar sem þau eru svona ófyrirsjáanleg verður þú ofurnæmur á breytingar í skapinu á henni og mögulegum sprengjum, sem skilja þig eftir í viðvarandi kvíðaástandi og mögulega í ótta. Það er heilbrigðismerki að vera hræddur við svona ástand. Ekki skammast þín fyrir að viðurkenna það.
6) Stanslaus óreiða. Hún er háð rifrildum (conflicts). Hún fær orku úr adrenalíninu og dramanu. Hún gæti mögulega byrjað rifrildi til að forðast nánd, til að forðast að horfast í augu við ruglið í sér, til að forðast að upplifa sig minni, og hið furðulega, sem tilraun til að forðast að vera yfirgefin. Hún gæti líka viljandi hafið árekstra til að geta fengið þig til að bregðast við með illu, svo hún fái tækifæri til að kalla ÞIG ofbeldisfullan og HÚN geti leikið fórnarlambið. Þetta er varnaraðferð sem kölluð er "projective identification" - eflaust einhvers konar frávarp.
Afleiðing: Þú verður tilfinningaleg fyllibitta (emotionally punch drunk). Þú er skilinn eftir ringlaður og skilur ekki upp né niður í hlutunum. Þetta er mjög stressandi því það þýðir að þú þarft alltaf að vera á verði fyrir árásum.
7) Tilfinningalegar hótanir. Hún hótar að yfirgefa þig, að enda sambandið, eða snúa við þér bakinu ef þú ferð ekki eftir hennar reglum. Hún spilar með ótta þinn, berskjöldun þína, veikleika, skömm, gildi, samúð, umhyggju og aðra "hnappa" til að stjórna þér og fá það sem hún vill.
Afleiðingar: Þú upplifir þig misnotaðan, þér sé stjórnað og þú notaður.
8 Höfnun. Hún virðir þig ekki viðlits, horfir ekki á þig þegar þið eruð í sama herbergi, það blæs köldu frá henni, heldur sig fjarri, neitar kynlífi, hafnar eða gerir lítið úr hugmyndum þínum, tillögum - og ýtir þér í burtu þegar þú reynir að nálgast. Þegar hún hefur ýtt þér eins hörkulega í burtu eins og hún getur, reynir hún að verða vingjarnleg við þig, þá ertu enn særður vegna fyrri hegðunar og svarar ekki og þá ásakar hún ÞIG um að vera kaldan og hafna henni. Þetta notar hún síðar til að halda þér í burtu í rifrildum framtíðarinnar.
Afleiðingar: Þér finnst þú óspennandi, og ekki elsku verður. Þú trúir því að engin önnur myndi vilja þig og heldur þig við þessa ofbeldisfullu konu, þakklátur fyrir hvern jákvæðan umhyggjumola sem af hennar borði fellur.
9) Heldur frá þér nánd og kynlífi. Þetta er einn eitt formið af höfnun og tilfinningalegri kúgun. Kynlífið er ekki aðal málið, heldur að halda frá þér snertingu, og andlegri næringu. Undir þetta fellur líka lítill áhugi á því sem skiptir þig máli - á starfinu þínu, fjölskyldu þinni, vinum, áhugamálum og að vera ótengd þér eða lokuð með þér.
Afleiðingar: Þú ert í "kaup-kaups" sambandi þar sem þú verður að gera eitthvað, kaupa handa henni hluti "vera góður við hana" eða láta eftir kröfum hennar til að fá ást og umhyggju frá henni. Þú upplifir þig ekki elskaðan fyrir að vera þú, heldur fyrir það sem þú gerir fyrir hana eða kaupir fyrir hana.
10) Einangrun. Hún hegðar sér á þann hátt að hún gerir kröfu á að þú fjarlægist fjölskyldu þína, vini þína, eða hvern þann sem gæti borið umhyggju fyrir þér eða veitt þér stuðning. Undir þetta fellur að tala illa um vini þína og fjölskyldu, vera mjög fráhrindandi við fjölskyldu þína og vini, eða að starta rifrildum fyrir framan þau til að láta þeim líða eins illa og hægt er í kringum ykkur tvö.
Afleiðing: Þú verður algjörlega háður henni. Hún fjarlægir utanaðkomandi aðila úr lífi þíni og/eða stjórnar í hversu miklum samskiptum þú ert við þá. Þú upplifir þig innilokaðan og einsamlan, og verður hræddur við að segja nokkrum manni hvað raunverulega gengur á í sambandinu ykkar, vegna þess að þú telur engan trúa þér.
Þú þarft ekki að samþykkja andlegt ofbeldi í sambandi. Þú getur fengið hjálp eða þú getur endað sambandið. Flestar ofbeldisfullar konur vilja ekki hjálp. Þær telja sig ekki þurfa á því að halda. Þær eru atvinnu fórnarlömb, stunda einelti, - sjálfshrifnar og á jaðrinum. Ofbeldið er í persónuleika þeirra og þær kunna ekki að hegða sér öðru vísi í sambandi. Eyddu einni sekúndu í viðbót í svona sambandi, ef að maki þinn viðurkennir ekki að hún eigi við vandamál að stríða og játi að leita sér hjálpar, RAUNVERULEGRAR HJÁLPAR, þá er best fyrir þig að fá stuðning, fara út og halda þig fjarri."
Dr Tara J. Palmatier, PsyD
Þetta var grein Dr. Tara J. Palmatier - en eins og þið eflaust sjáið þá virkar þetta í báðar áttir, ekki þarf að vera um að ræða öll einkennin þarna og ég tek fram að þetta er ekki mín grein, en vissulega væri ég ekki að birta hana nema ég teldi hana eiga erindi.
Það má taka það fram hér að "sjálfhverfan" gæti verið sprottin af miklu óöryggi. Einnig ef að einhverjum tekst að "láta þér líða illa" ertu ekki að taka ábyrgð á eigin líðan heldur samþykkja það sem hinn aðilinn er að segja um þig. Ef þú setur ekki mörk og segir STOP ert það þú sjálf/ur sem ert að "láta þér líða illa" - ert s.s. meðvirkur og í grófasta falli haldin/n sjálfspíslarhvöt. Þú telur þig ekki eiga neitt gott skilið, og ert búinn að "kaupa" það að þú sért ekki verðmæt/ur og eigir e.t.v. ekki gott skilið.
Hlekkur á greinina http://shrink4men.wordpress.com/2009/01/30/10-signs-your-girlfriend-or-wife-is-an-emotional-bully/
![]() |
Þú ert svo mikill aumingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)