Færsluflokkur: Bloggar
23.9.2013 | 15:01
Vegurinn "heim" varðaður með kærleika? ...

Næstum daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali, - veraldlegu vali eins og hvað við eigum að hafa í matinn, og svo vali um viðhorf. -
Ákvarðanir eru teknar og við tökum stefnu samkvæmt þeim, og svo kemur eitthvað upp á og þá breytist stefnan.
Oft heyrum við sagt "Ég veit ekki hvað ég vil" - eða "Ég veit ekki hvert ég er að stefna" -
Þetta þýðir þó varla að við vitum ekki neitt.
Við getum byrjað að stilla upp fyrir okkur það sem við vitum, - flest fólk vill t.d. frið, gleði, ást, styrk o.s.frv. - Þá er hægt að setja fókusinn þangað, eins og fram kemur í síðustu færslu sem nefnist: Hókus Fókus.
Það eru nokkur ár síðan ég sá tilvitnun frá Carlos Castenada og er hún eftirfarandi:
"Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn't it is of no use."
Það er gott að hafa svona vörður, vörður hjartans - kærleikans - á slóðanum okkar.
Ef við lendum á gatnamótum og þurfum að velja á milli tveggja leiða, að spyrja okkur hvor leiðin færi okkur meiri kærleika, meiri ást - og þá allt sem áður er nefnt; gleði, frið og styrk. <3
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2013 | 07:54
Hallveig Halldórsdóttir (Halla) 19. maí 1928 - 9. september 2013.
Hallveig Halldórsdóttir fæddist í Hafnarfirði 19. maí 1928. Hún lést á gjörgæsludeild Landsspítalans í Fossvogi 9. september 2013.
Hallveig var aldrei annað en Halla frænka hjá mér, enda kallaði mamma mín hana alltaf það. Mamma og hún voru systradætur og samferðakonur í gegnum lífið.
---
Ég frétti af því í janúar að Halla frænka væri komin á spítala, en það var þegar ég var nýkomin heim eftir andlát Evu dóttur minnar og ekki beint móttækileg fyrir neinum fréttum.
Síðar fylgdist ég aðeins með því og heyrði frá Rúrý frænku að hún væri enn á spítala, en svo fór það bara svona á bak við í undirmeðvitundina, þar sem ég var hreint út sagt of upptekin við sjálfa mig og að byggja upp grunn minn sem hafði hrunið. -
Halla var ein af þessum englum í lifanda lífi og þegar ég hugsa til hennar minnist ég hennar hlæjandi. Hún gat gert grín að sjálfri sér og séð björtu hliðarnar. Engildómur hennar fólst m.a. í því hversu vel hún sinnti fólkinu í kringum sig, og hún var alltaf einstaklega góð við mömmu, natin að heimsækja hana þegar hún stóð enn uppi og keyrandi um (komin á níræðisaldur).
Halla var mikill sólardýrkandi og kannski táknrænt og ekki tilviljun að hún var búsett í götu sem heitir Sólheimar! - Þar nýtti hún alla sólargeisla og var fljót að planta sér á stól úti á svölum þegar sólin skein.
Halla tók inn sólargeislana og gaf sólargeislana. Einstaka sinnum kíkti ég í mat eða kaffi til Höllu í Sólheimana, en það var þó oftast þegar hún var að hýsa móðursystur mínar sem eru búsettar í Ameríku, þær Möggu eða Dúddu, en Magga er nú hér á landi og fylgir Höllu síðustu sporin.
--
Þegar við systkinin sáum hvert stefndi með móður okkar sem lést 10. september sl. - reyndi systir mín að ná sambandi við Höllu í gsm síma, en búið var að aftengja númerið. - Þetta var 8. september sl. Hún lét mig vita að hún hefði ekki náð til Höllu og við áttuðum okkur á því að líklegast væri hún enn á spítalanum og við höfðum ekki haft "rænu" á að forvitnast nánar út í það. Þennan dag lá ég og hvíldi mig og fékk þá þessi "sendingu" í kollinn að líklegast ætluð þær mamma að fara samferða úr þessari jarðvist.
Svo fékk ég símtal, nokkrum tímum síðar, um það að Halla frænka blessunin væri dáin.
Já, þær fylgjast að frænkurnar Halla frænka og mamma, inn í eilífðina, en hálfur sólarhringur leið á milli þeirra að þær kvöddu. Það er svolítið merkilegt, finnst mér.
Gengin er GÓÐ kona, og hláturinn hennar mun lifa í minningunni að eilífu og votta ég hennar nánustu samúð mína, því mikill er missirinn af sólinni sem Halla bar með sér, en það er huggun harmi gegn að hún hefur líka skilið eftir sig marga sólargeisla sem okkur er frjálst að nota.
Hún situr væntanlega á himnasvölum og nýtur sín í eilífðinni ásamt öðrum þeim sem farin eru úr jarðvistinni.
Takk fyrir að vera svona skínandi fyrirmynd kæra Halla frænka.
Útför Höllu fer fram í dag kl. 13:00 í Hafnarfjarðarkirkju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2013 | 11:42
Tökum ábyrgð á eigin lífi ...
Gríðarlega mikið álag virðist nú vera á læknum þessa lands, álag á spítulum o.fl.
Við verðum líka voðalega mikið veik, og við vitum að margt af því sem veikir okkar er af eigin vanrækslu.
Það vita held ég langflestir landsmenn, hvað er hollt og hvað er óhollt, að hreyfing er vitamín númer 1, að reykingar eru fjandanum óhollari, að áfengi í óhófi er eitur, að offita drepur o.s.frv.
SAMT stundum við þessa hægfara sjálfstortímingu.
Það vilja fæstir gera sér þetta, en fólk ræður ekki við sig og sinn frjálsa vilja.
Spítalar taka við afleiðingum, en vinna voðalega lítið í forvörnum eða orsökum.
Það er á ábyrgð hvers og eins okkar að íhuga hvort að við séum að gera eitthvað í okkar lífi sem stefnir okkur í voða.
Neikvæðar hugsanir og neikvæðni er eitt af því sem mætti bæta á listann sem ég byrjaði á hér að ofan.
Það er hægt að ná árangri að betra lífi, - og þannig vinna sameiginlega að því að ekki sé eins mikil þörf fyrir spítala - fyrir lyf o.s.frv.
Ég bjó mér til lista yfir atriði sem stuðla að betra lífi - og meiri lífsfyllingu.
1. Ástundum þakklæti því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs. Það er hægt að "mótivera" hugann með því að skrifa þrjú þakklætisatriði niður á hverju kvöldi, eitthvað hversdagslegt og það sem okkur þykir sjálfsagt, en gæti verið eitthvað sem önnur manneskja biður til Guðs að eiga.
2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði, og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði. (EnJOY life).
Það er mikilvægt að muna það að ef við ætlum ekki að sleppa því að reykja, borða rjómatertur og majones eða hvað við erum að gera, að gera það þá með ánægju. Það er eins og nál sé að rispa vinilplötu þegar við erum að gúffa í okkur tertu og segjum við hvern bita, "ég á ekki að vera að þessu" - annað hvort að borða eða borða ekki, reykja eða reykja ekki, - vera eða vera ekki. Aldrei framkvæma neitt sem þú upplifir samviskubit um leið og þú gerir það, það snýr upp á líkama þinn og býr til einhvers konar skammaræxli sem gerir okkur veik.
3. Veljum góða andlega (og líkamlega) næringu, við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. -
4. Forðumst að vera fórnarlömb, klæðum okkur ekki í fórnarlambsbolinn á morgnana heldur sigurvegarabolinn berum höfuðið hátt.
5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd. Eymd er valkostur.
6. Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum já takk að lífið komi til móts við okkur. - Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið. Þegar við vitum allt t.d. hvernig við eigum að ná árangri en við trúum ekki á eigin árangur. Trúðu á þinn mátt og megin.
7. Veitum athygli og virðum það góða, okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur. Að veita athygli er svipað og að virða,
8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum. Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur. Okkur skortir ekkert. Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.
9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir, útiveru, fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.
10. Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.
11. Verum heiðarleg og sönn, gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu. Tölum út frá hjartanu, það þýðir að segja ég en ekki þú. Mér líður svona þegar .. í stað þess að ásaka Þú ert ..
12. Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar. Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum. Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.
13. Lítum okkur nær. Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann. Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.
14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu - sem okkur líður illa í hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós. Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.
15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. Ekki vera of stolt, -
15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur, virðum innri frið.
16. Elskum óvini okkar óttann og skömmina, Kill them with kindness það þýðir að við eyðum þeim með elsku. Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? Stjórnsemi það að treysta ekki er að óttast. Faith or fear Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna. Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.
Biðjum um æðruleysi til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta. Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.
Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur ekki fyrr.
Lífskrafturinn er kærleikur, allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska, hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu, við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.
Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.
Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.
Lifum heil og höfum trú.
Tökum ábyrgð á eigin lífi og hættum að vanvirða líkama og sál, þannig að þau verði VEIK.
Við gerum það þegar við:
- Hugsum neikvætt í eigin garð ..
- látum annað fólk stjórnast með okkur ..
- afneitum tilfinningum okkar - og bælum - flýjum (leitum í fíknir)
- förum í kúra sem eiga að breyta lífi okkar á óraunhæfum tíma (megrunarkúrar eru þar verstir)
- teljum okkur ekki eiga neitt gott skilið og erum vond við okkur sjálf
- lifum í ásökun og dómhörku í eigin garð og getum ekki fyrirgefið
- við upplifum okkur sem fórnarlömb og kennum öðrum um allt sem miður fer í okkar lífi.
En svona að lokum; elskum meira og óttumst minna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2013 | 07:54
Valgerður Kristjánsdóttir f. 3. nóvember 1926 d. 10. september 2013

Valgerður Kristjánsdóttir (Vala) fæddist í Reykjavík 3.11. 1926. Hún lést á Droplaugarstöðum 10. 9. 2013. Foreldrar hennar voru þau Kristín Þorkelsdóttir, f. 8. 8, 1891, d. 9. 12. 1982 og Kristján Jónsson, f. 1. 6. 1870, d. 5. október. 1946. Valgerður var ein af níu alsystkinum en hin eru Sigríður f. 3. 7. 1920 d. 24. 3. 2009, Magnús f. 22. 11. 1921, d. 5. 6. 1997, Hulda f. 22. 5. 1924, d. 26. 5. 1998, Kristján, f. 5. 7. 1925 d. 12. 1. 2007, Sveinn, f. 7. 4. 1929, Helga, f. 4. 10. 1930, d. 15.3.2011. Guðríður f. 20. 4. 1933 og Magnea f. 10. 12. 1934. Valgerður átti fjögur hálfsystkini sem öll eru látin: Jón Magnús, sammæðra, Steinunni, Magneu og Kjartan, samfeðra.
Hinn 10. 4. 1955 giftist Valgerður Magnúsi Björnssyni f. 19. 6. 1928 d. 8. 7. 1969. Foreldrar hans voru þau Björn Magnússon, f. 17.5. 1904, d. 4.2. 1997, og Charlotta Kristjana Jónsdóttir, f. 6.6. 1905 d. 3.9.1977.
Börn Valgerðar og Magnúsar; 1) Björn f. 2. 8. 1956, maki Ragnheiður Halldórsdóttir f. 3. 1. 1957, börn þeirra; a) Birta f. 1980, maki Rasmus Bjerrum f. 1986. b) Magnús Heiðar f. 1983, maki Katrín Jónsdóttir f. 1984, sonur þeirra; Júlíus Björn f. 2012. c) Helga f. 1987. 2) Hulda Kristín f. 3. 1. 1958. 3) Jóhanna f. 21. 11. 1961 , maki Jón Friðrik Snorrason f. 8.2.1962. Börn Jóhönnu og Jóns Þórarinssonar; a) Eva Lind f. 1981 d. 2013, börn Evu Lindar og Henriks Jörgensen; Ísak Máni f. 2004 og Elisabeth Mai f. 2009. b) Jóhanna Vala f. 1986 og c) Þórarinn Ágúst f. 1986, barn Þórarins og Ástu Kristínar Marteinsdóttur; Eva Rós f. 2010. 4) Brynjólfur f. 21. 2. 1964, maki Þóra Ingvadóttir 18. 9. 1963, synir þeirra; a) Kári f. 1988 og b) Ingvi f. 1994. 5) Charlotta Ragnheiður f. 19. 10. 1968, börn Charlottu og Björgvins Más Kristinssonar: a) Sara f. 1992 og b) Már f. 1996. Börn Charlottu og Steingríms Dúa Mássonar: c) Ísold f. 2006 og d) Rósa f. 2006.
Valgerður lauk fullnaðarprófi frá Austurbæjarskóla, en fór ung að aðstoða við heimilisstörf á æskuheimilinu Njálsgötu 50, og síðar að starfa hjá Sundhöll Reykjavíkur. Nokkrum árum yfir tvítugt fór hún til New York og dvaldi þar í fimm ár og kynntist í lok dvalarinnar eiginmanni sínum og barnsföður. Þau bjuggu til að byrja með í Grænási Keflavíkurflugvelli þar sem Magnús starfaði sem flugumsjónarmaður en fluttu síðar á Grettisgötu 57 A, en þá var Valgerður húsmóðir en Magnús starfaði þá sem starfsmannastjóri hjá Flugfélagi Íslands. Valgerður varð ekkja aðeins 42 ára að aldri. Hún starfaði eftir það fyrst hjá Heimilistækjum og síðan hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur þar til hún fór á eftirlaun. Valgerður flutti eftir andlát Magnúsar á Háaleitisbraut og síðan Breiðholtið, Lengst af bjó hún ásamt börnunum í Keilufelli og síðan flutti hún með tveimur yngstu í Austurberg. Síðustu tuttugu árin bjó hún í Hvassaleiti 56.
Útför Valgerðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. september og hefst athöfnin klukkan 13.00
Ég minnist mömmu á margan hátt, minnist hennar frá sjónarhóli bernskunnar, unglingsins, sem ungrar konu og svo frá mínum fullorðinsárum. Þetta eru ólíkar minningar, og þegar horft er til baka þá áttar maður sig á stórkostlegum breytingum lífsins og það sem í raun er í gangi er stöðug endurnýjun. -

Minningarbrotin raðast upp, en þá er það fyrst frá Grettisgötunni, mamma í blárri poplínkápu og með slæðu, mamma að fara á árshátíð í fallegum kjól með semelíusteinum og ég hlaupandi á eftir henni og bendi krökkunum í götunni á hana og segi hátt og snjallt með miklu stolti "Þetta er mamma mín" - því að svona glamúrdress var ekki daglegt brauð og þótti mér hún gríðarlega flott.
Mamma var frjálsleg og víðsýn í barnauppeldinu, en um leið mjög reglusöm. Hún leyfði okkur að "rústa" stofunni og byggja kastala úr púðunum úr sófasettinu og breyta þannig umhverfinu í leiksvæði, en þarna bjuggum við í lok Grettisgötutímabilsins, sjö manna fjölskylda í þriggja herbergja íbúð.
Eftir að pabbi lést 1969 fluttum við fljótlega á Háaleitisbraut og þar var miklu stærra rými til leiks, og enn meira þegar við svo fluttum í Keilufellið, en þá höfðum við reyndar garð og allan Elliðaárdalinn í bakgarðinum. Mamma vildi allt það besta fyrir börnin sín og líf hennar snérist að miklu leyti um okkur börnin fimm. Reglusemi mömmu kom fram m.a. í því að það voru alltaf máltíðir á réttum tíma, hún snerti svo að segja ekkert áfengi og reykti ekki nema eitthvað til að vera með á tímabili. Það var á þeim tíma sem boðið var upp á sígarettur í saumaklúbb, en mamma var einmitt í saumaklúbb sem hélst gangandi á meðan flestar þeirra héldu heilsu.
Mamma varð 86 ára og hennar ævi alla get ég ekki sett í þessa litlu minningu. Ég leit alltaf upp til mömmu fyrir hugrekkið að drífa sig út til Bandaríkjanna sem ung kona, vera þar í fimm ár og svo var auðvitað yndislegt að þau pabbi hittust þar við lok dvalar hennar í landi hinna frjálsu. Heimilislíf okkar var alltaf svolítið litað af þessari lífsreynslu mömmu, en birtist m.a. í því sem hún reiddi fram til að borða, en ameríska eplapæið, kleinuhringirnir og pönnukökurnar með sírópi voru þar á toppnum.

Mamma var mikið fyrir börnin sín, síðar barnabörn og enn síðar barnabarnabörnin. - Hún ljómaði þegar hún sá litlu krílin og allt fram á síðustu daga var það hennar mesta gleði þegar yngstu fjölskyldumeðlimirnir komu í heimsókn á Droplaugarstaði, þar sem hún dvaldi síðustu æviárin. Mamma var til staðar, svo að segja alltaf - en smátt og smátt fór andi hennar að undirbúa heimför. Mér þótti það erfiðast þegar ég kom heim frá Danmörku eftir dauða Evu Lindar að geta ekki hlaupið grátandi í faðm mömmu og fengið huggun hennar. Það var kannski þá sem ég fann verst fyrir því hve mamma var orðin veik og ég spurði mig "hvar ertu mamma?" -
Nú er mamma komin heim í faðm pabba á ný og til Evu Lindar. Ég horfi eftir mömmu glæstri og fallegri og segi með stolti: "þetta er mamma mín."
Takk fyrir allt og allt elsku mamma,
Þín perla og óhemja
Jóhanna

Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2013 | 09:11
Af hverju að blygðast sín fyrir brjóstin?
Þegar við erum börn þá skiptir okkur engu máli þó við göngum um nakin, - svona bara að okkur verði ekki kalt. Við skömmumst okkar ekki fyrir nekt okkar. - Svo á einhverjum tímapunkti þá þykir það ekki við hæfi að barn "striplist" - það er þó misjafnt eftir samfélagsgerð.
Í Ameríku eru foreldrar sektaðir sé stúlkubarn topplaust við sundlaug, jafnvel þó að engin séu brjóstin. Í þyskalandi fer fólk í sameiginlega sturtuklefa og saunaböð, svo dæmi séu tekin.
Ég las frétt um það að drengir hefðu narrað unga stúlku til að senda mynd af sér topplausri og síðan fór sú mynd í birtingu um allan skólann - og elsku stúlkunni leið að sjálfsögðu illa. Hún hafði látið narra sig og svo geta allir séð. - Og þessi verknaður þessara aðila er að sjálfsögðu rangur og óheiðarlegur, en skaðinn væri e.t.v. ekki svona mikill eða "skömmin" ef að við værum ekki svona viðkvæm fyrir nekt. Og hvað þá að hún þyki það spennandi að það þurfi að dreifa henni á milli.
Það er eðlilegt á Íslandi að klæða sig vel, því hér er kalt brrr... Við þekkjum það að um leið og við erum komin á heitari staði, þá er lítið mál að fækka fötum. Bikiní hylja ekki mikið - sum hver.
Eva og Adam huldu nekt sína í Edensgarði vegna þess að þau voru óheiðarleg og borðuðu eitthvað sem var búið að banna þeim að borða.
Af hverju þurfum við að hylja okkar nekt? - Höfum við eitthvað til að fela eða skammast okkar fyrir?
Er nekt klám, eða verður hún ekki bara klám í huga þess sem það hugsar?
Ég er ekki með svörin, enda alin upp í sama þjóðfélagi og í sömu heimsmynd og flestir sem koma til með að lesa þetta. En mér finnst mikilvægt að hoppa svolítið útfyrir rammann við og við og spyrja "af hverju" - "af hverju er þetta svona - og af hverju hinsegin?" ..
Getum við gert betur?
Takið eftir að þegar Adam og Eva höfðu verið óheiðarleg voru það þau sem skömmuðust sín, og í tilvikinu sem ég vísa til eru það aðilarnir sem plötuðu fram myndina sem eru óheiðarlegir svo skömmin liggur að sjálfsögðu þar en ekki hjá stúlkunni sem treysti. -
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.8.2013 | 13:33
Biskup Þjóðkirkjunnar tali á Hátíð vonar - rétt eða rangt?

Margt hefur verið rætt varðandi Hátíð vonar, - og pistilinn "Elskan mín, ástin mín, skammastu þín" skrifaði ég m.a. í tengslum við umræðuna sem kom upp varðandi Gay Pride og viðbrögð.
Það er ýmislegt sem er gott að hafa í huga þegar við tökum afstöðu eða látum okkar álit í ljós.
Get ég horft á atburðinn frá sjónarhorni kærleika og skilnings - með samhug? - Lífið er ekki í svart hvítu - heldur í lit, eins og regnbogafáninn ber með sér.
Annað sem er eitt af því sem ég kalla; einkennum andlegrar vakningar" er að við skulum varast að dæma of hart þau sem eru sofandi þegar við teljum okkur sjálf vöknuð. Svipað og sá sem hættir að reykja verði ekki of dómharður á athafnir þeirra sem enn reykja.
Getum við sett okkur í fótspor þess sem hefur verið alin/n upp í harðri sértrúarstefnu eða bókstafstrú þar sem sjálfstæð hugsun er nær bönnuð? Hvar værum við sjálf stödd þá?
Talað hefur verið um "hatursumræðu" - en þetta er ekki hatur, heldur ótti, ótti við það sem fólk ekki þekkir. Oft er talað um fordóma sem fáfræði.
Ótti og traust/trú eru andstæður.
Ef við trúum af einlægni og með öllu hjarta óttumst við ekki. Við treystum Guði og látum af stjórnsemi og sletturekuskap faríseanna, sem telja sig réttláta.
Fyrst þegar ég heyrði af því að sr. Agnes ætlaði að tala á þessari hátíð fannst mér, eins og mörgum, rétt að hún myndi halda sig frá, en ef ég nota áðurnefndar forsendur og það sem hér er sagt að framan, þá getum við alveg tengt þetta við frásögu í Biblíunni.
Sagan er sögð í Matteusarguðspjalli (9:10-9:17):
Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: ,,Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?`` Jesús heyrði þetta og sagði: ,,Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.`
Ég held reyndar það þurfi einfeldning til að sjá ekki samlíkinguna þarna, - biskup er ekki að samþykkja dóma Graham (sem er þá tollheimtumaðurinn/syndarinn í þessari dæmisögu) með því að tala á samkomunni, og ég tel það mun betri nálgun hjá henni og kærleiksríkari en að halda sig fjarri.
Kristin trú snýst m.a. um að setja ljós þar sem myrkur er. Hvernig á biskup að vera ljós þessum manni og hans líkum ef hún mætir þeim ekki og lýsir? Við fermingu játumst við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins og það væri skrítið ef biskupinn fylgdi ekki þeim leiðtoga.
Meira úr Mattheusarguðspjalli:
"Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum."
Ég tel að biskup sé að fylgja þessum boðskap guðspjallsins og því sé það fjarri að hún sé að samþykkja samkynhneigð sem synd, eða að taka á nokkurn hátt undir hugmyndir Grahams um hana með því að tala á Hátíðinni, heldur einmitt hið gagnstæða.
Það að tala ekki saman leysir aldrei nein deilumál - tölum saman en ekki sundur.
Við erum öll eitt.
Það er svo gott að hafa það í huga, eins og fram kemur í bréfi Páls postula til Galatamanna:
"Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú." - Þessu hljótum við, sem teljum okkur kristin, að trúa.
Hér má svo smella yfir í pistilinn "Elskan mín, ástin mín, skammastu þín."
þennan pistil vil ég svo enda á sama hátt.
Elskum meira og óttumst minna.

Bloggar | Breytt 1.9.2013 kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2013 | 08:47
Morgunhugleiðsla í boði "hússins" ...
Býð lesendum moggabloggs upp á einfalda og þægilega morgunslökun og hugleiðslu ;-)
Smellið á hlekkinn HÉR.
Love all - serve all.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2013 | 21:32
Hvernig "afvopnum" við ofbeldismann eða ofbeldiskonu ?
"Ofbeldi er andstæða uppeldis" - sagði góð kona einu sinni á námskeiði sem ég sótti um "Ofbeldi orða og þagnar" eins og það var kallað.
Það er hægt að meiða með orðum, en líka með þögn. Það er hægt að beita augnaráði, það er hægt að stynja eða hvað sem er og það nægir til að þér sé stjórnað - þ.e.a.s. ef þú ert vön/vanur ákveðinni hegðun eða nærveru viðkomandi. Það er hægt að stjórna með látbragðinu einu saman. -
En eigum við að láta að stjórn? - og af hverju látum við að stjórn? -
Auðvitað er það lærð hegðun, oft lærð hegðun barns. Ein djúp stuna, eða e.t.v. hamagangur og glamur í diskum í eldhúsi eru nóg skilaboð að einhver - t.d. mamma er ósátt. Þegar einhver svona dóminerandi (stjórnandi) er á heimili getur allt heimilið verið undirlagt.
Í myndinni "Ungfrúin góða og húsið" - dansaði fólk villtan dans og hoppaði uppí rúmi þegar heimilisfaðirinn brá sér í burtu. -
Ofbeldi er aldrei gott, það bælir og brýtur niður. Þess vegna verðum við að spyrja okkur hvað við getum gert. Börn eru býsna varnarlaus, en þau finna sér yfirleitt flóttaleiðir, leiðir til að komast af. Þær leiðir enda því miður oft - vegna niðurbrots - í því að barn dregur sig í hlé, passar að vera ekki fyrir, fer í það að vera ýkt duglegt til að fá viðurkenningu, sum fara að borða meira til að deyfa sársaukann önnur að vera fyndin og skemmtileg fara í trúðshlutverk til að gleðja alla, því þau halda jafnvel að þau beri ábyrgð á stunum eða óhamingju hinna fullorðnu. Það eru ýmsir varnarhættir.
En hvað getum við gert sem fullorðnir einstaklingar?
Haldið áfram í hlutverkunum eða?
Auðvitað höfum við gefið þessum stynjara, eða orðljóta aðila allt of mikið vald í okkar lífi. Þessum sem er e.t.v. vafinn í ósýnilegt óveðursský og við sogumst inn í það því það hefur áhrif og ekki sést til sólar á meðan viðkomandi er á svæðinu.
Vanlíðan eins verður því vanlíðan allra. Því að sá eða sú sem er reið/ur, í gremju, fýlu eða hvað sem það er er auðvitað í sársauka. Við getum valið að falla með viðkomandi og verða hluti af sársaukanum, eða við getum valið að taka "valdið" af viðkomandi og láta það ekki hafa áhrif.
Að sjálfsögðu viðurkennum við sársauka eða vanlíðan aðilans, EN við þurfum ekki að láta okkur líða eins og honum eða henni líður.
Við verðum aldrei nógu veik til að hjálpa hinum veika, eða okkur líður aldrei nógu illa til að þeim sem er í vanliðan líði betur. Ef það er svo þá er það að sjálfsögðu ekki sá eða sú sem elskar okkur. - Auðvitað viljum við að náunganum líði vel. Hamingja hans á aldrei að skyggja á okkar eigin, ef að aðili sem er að slíta sambandi vill þér óhamingju er það er ekki vegna ástar heldur er það andstæðan, eða toppurinn á annað hvort vanlíðan viðkomandi og/eða eigingirninni. -
"Ég er ekki hamingjusöm/hamingjusamur þá mátt þú ekki vera það heldur." -
En hver valdar þann sem beitir ofbeldi, og hver leyfir honum/henni að komast upp með það? -
Ef einhver nær tökum á þér og þínum hugsunum er það vegna þess að hann/hún er STÓR aðili í þínum huga og í raun veitir ÞÚ valdið.
Þegar einhver ætlar að byrja að beita þig ofbeldi eða tala niður til þín þarft þú að minnka viðkomandi í huganum, breyta persónunni í pinkulítinn sprellikall eða kerlingu og ljá persónunni rödd Mikka mús eða eitthvað álíka (einhver sagði "geltandi kjölturakka") þá hættir hann að vera valdaður og í staðinn fyrir að þú sitjir eftir sem titrandi strá þá getur þú hlegið innra með þér að þessari fígúru. -
Það er ein leiðin. Viðkomandi verður vissulega pirruð eða pirraður að hafa ekki stjórn lengur og gæti misst stjórn á sér - en það er auðvitað markmiðið. - Einhver lærdómur hlýst líka af þessu.
Önnur leiðin er að sjá viðkomandi sem sært barn og hreinlega vorkenna viðkomandi, ekki þó með þeim hætti að láta hann/hana valta yfir þig vegna vorkunnsemi þinnar í hans/hennar garð.
Veik manneskja eða særð - á ekki að hafa leyfi til að valta yfir þig, vegna veikinda sinna, ekki frekar en manneskja í hjólastól hefur ekki leyfi til að keyra yfir aðra bara vegna þess að hún er í hjólastól.
- Það er meðvirkni og þá ýtir þú undir hegðunina og persónan heldur auðvitað áfram að nýta sér það að þú finnur til með henni. - Það er mikilvægast að láta ekki stjórnast - vegna þess að öll ráð í bókinni eru notuð til stjórnunar.
Ef þú byrjar að gefa eftir, er gengið lengra og lengra og ekki ímynda þér að það sé borin virðing fyrir þér ef þú gefur eftir!
Næst þegar einhver ætlar að fara að "bossast" með þig eða stjórna þér prófaðu að "afvopna" viðkomandi á þennan hátt og gáðu hvort þú ferð ekki bara að hlægja í stað þess að láta niðurbrótandi tal eða ofbeldið hafa áhrif.
Mundu bara að valda ekki peðin, því auðvitað eru það bara peð sem beita ofbeldi. Þau reyna að stækka sig með ofbeldinu, en engin/n sér stækkunina nema sá sem samþykkir að þau verði stór og ráði.
Hættu að samþykkja ofbeldi peðsins og gerðu þér grein fyrir smáttarlegu háttalagi. -
Ljónið öskrar þegar því líður illa, - en þegar þú ert komin/n með andlegan styrk hefur öskur ljónsins ekki lengur áhrif á þig. Þú hefur valdið og ljónið verður eins og gæfur hvolpur í þínum höndum. -
Við erum oft hrædd við að segja stopp - og að láta vita að okkur er ofbeldi ekki bjóðandi. Oft hefur fólk sem beitir andlegu ofbeldi ótrúlegustu "vopn" - allt er notað - og eftir því sem sá/sú sem beitir ofbeldi er meira upptekinn af sjálfum sér og sínum sársauka, þá fer ekkert að skipta máli nema að sá sem fyrir ofbeldinu verður finni til - tilgangurinn er annað hvort að meiða þig, eða (eins undarlegt og það hljómar) að þú skiljir sársauka ofbeldismannsins, hann kann bara ekki að koma orðum að því á annan hátt. Þú átt að finna til vegna þess að hann finnur til.
Ofbeldismanneskja notar því stundum börn í baráttu sinni, notar hótanir um að skaða sjálfa/n sig, eða eitthvað sem er mjög viðkvæmt og mætti líkja við að kýla undir beltisstað. Ofbeldismanneskja kennir þér oft um alla sína óhamngju og snýr öllu upp á þig - því hún er í afneitun. Því er þetta oft frekar snúið. -
Ofbeldismanneskja er i raun voðalega lítil - en við megum ekki trúa því að hún sé stór. Verst að margir sem beita ofbeldi eru oft snillingar í að niðurlægja og ýta á takka sem eru veikir fyrir - en það hjálpar að vita af því og skilja að í raun á þessi manneskja bara voðalega bágt.
Ath! Þegar tvær særðar manneskjur mætast í sambandi, er oft erfitt að skilgreina hvor þeirra er hin andlega ofbeldismanneskja. Það er engin/n að segja að það þurfi bara alltaf eina ofbeldismanneskjuí slíkt samband.
Konur eru oft fyrri til að líta á sig sem fórnarlömb í slíku sambandi, það er "hefð" fyrir því, en mjög mikið af körlum eru ekki síður ofbeldisþolar. Stjórnsemi er lika ofbeldi og sumir karlar eru að reyna að sitja og standa eins og konunum líkar, og ef þeir geta ekki lesið hugsanir þeirra verða þær fúlar, og hvæsa oft á þá eða nota eitthvað eins og að halda aftur af nánd. Ef þeir svara í sömu mynt, jafnvel með sömu orðum og konan, þá er hrópað: "Ofbeldi" -
Við afvopnum ofbeldismann - með að taka ekki þátt í ofbeldinu, vera ekki meðvirk, "kaupa" ekki tiltalið o.s.frv. - Við gerum það með því að styrkja eigin sjálfsmynd - sjálfsvirðingu - sjálfstraust.
Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi - ást leiðir af sér ást.
Þú notar mátt elskunnar og uppeldis sem er miklu sterkari en máttur ofbeldis. -
Jóhanna Magnúsdóttir
Heimasíðan mín er HÉR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2013 | 11:05
Þessi yfirþyrmandi tilfinning að vilja ekki vera hérna lengur .....
"Hérna" .. þýðir lifandi á þessari jörðu.
Ef þú hefur upplifað það einhvern tímann að vilja flýta fyrir, vonast eftir slysi, óskað eftir að eitthvað gerðist svo þú fengir bara "short cut" á þetta allt saman - þá ertu ekki ein/n.
Þegar bjátar á, þegar okkur leiðist, þegar við finnum engan tilgang - þá verður þessi tilfinning oft sú sem er á toppnum.
Af fenginni reynslu veit ég að það sem vantar er innri friður. Það er svo skrítið að innri og ytri friður hafa áhrif á hvorn annan. Áhyggjur af fjármálum hafa áhrif, áhyggjur af fólki, - að vera fjarri fólki, að hafa engan til að knúsa - eða einhver vill knúsa mann of mikið kannski?
Það vantar eitthvað jafnvægi, yfirvegun, ró.
Eins og söngkonan sagði einhvern tímann þá er líkaminn verkfærið.
Okkur vantar því ekki verkfæri - heldur vantar okkur að nota verkfærið.
Verkfærið til að fá innri ró.
Tjá okkur, sjá okkur og hlusta ..
Veita athygli því sem við einu sinni var bara á óskalista og eigum í dag? - Er eitthvað svoleiðis í lífinu okkar?
Tónlist getur spilað stóra rullu í lífinu, hún gerir það í mínu og textarnir gera það.
Grunnurinn að þessum pistli var upprunalega skrifaður í júlí, en þá skrifaði ég:
Í morgun var ég sorgmædd þegar ég keyrði frá Keflavík og var búin að skila af mér barnabörnunum. Ég veit samt að þau eru í góðum höndum hjá föður sínum og kærastan hans virðist vera þeim kær líka. Þegar ég horfi á það frá óeigingjörnu sjónarhorni þá er ég ofboðslega ánægð með það.
Í útvarpinu kom svo fallegt lag að það var eins og mér væri gefin sprauta og mér líður ennþá eins og ég sé í vímu .. notalegri vímu sáttar og fullvissu um að allt sé eins og það á að vera.
Gerum okkar besta með það sem við höfum, "hérna" - ekki sitja ein uppi með vanlíðan og hugsanir, tjáum okkur við þau sem við treystum.
Það skritna er að þegar við erum búin að segja eitthvað upphátt þá verður það yfirleitt minna þungbært. Það er þó best að segja það einhverjum sem er ekki of tilfinningalega tengdur því að hann gæti tekið byrðina þína á sig, - ráðgjafar, sálfræðingar og fólk sem gefur sig út fyrir að vera andlegir leiðbeinendur, já ekki gleyma prestunum og djáknunum, er fólkið sem er gott að opna sig við og létta á hjarta sínu.
Alls konar samtök eins og Alanon, coda, AA, þar sem fólk talar og hlustar gera kraftaverk fyrir svo marga. Þar er samhygðin svo mikil.
Samhygð - samhugur er það sem er svo gott að finna.
Já, ég sagði það - við erum aldrei ein.
Það er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að vita í þessum heimi þegar við erum með yfirþyrmandi tilfinningar - og sérstaklega í þeim dúr að vilja bara ekkert vera hérna lengur.
Það er alltaf einhver sem elskar þig, ástæðan fyrir að ég skrifa þennan pistil er að ég finn að það eru svo margir sem glíma við sársauka og halda að þeir séu einir ... en nei, nei þú ert ekki ein/n .. leyfðu traustinu á að betri tíð sé að birtast innra með þér verða stærra og meira en tilfinningunni að tíðin sé að þyngjast.
Ef einhver les þetta sem líður illa á sálinni og á erfitt með að sjá ljósið, - endilega kíktu á bloggið mitt www.johannamagnusdottir.com þar er ég m.a. að skrifa um þetta innra ljós okkar.
Tilgangur lífsins? - Hversu margir hafa ekki pælt í honum, en "surprise" hann er gleði! Ég er ekkert að tala úr tómarúmi, ég hef átt dimmar stundir og hef gengið í gegnum marga sorg og eina dýpstu sorg lífsins, það að missa barnið mitt. - En hvert á ég þá að horfa? - Í myrkrið eða ljósið?
Þrjú atriði sem hjálpa - ef við erum enn fær um að hjálpa okkur sjálfum:
1) 15 mínútna hugleiðsla á dag (innhverf íhugun þar sem við virkjum þetta innra ljós)
2) Útivera - rigning eða sól, þar sem við öndum djúpt og þökkum það sem fyrir ber.
3) Ekki lesa bara bækur, heldur líka skrifa, taka þér í hönd þína eigin tómu stílabók og lista upp það sem er virði í lífinu, allt sem hægt er að þakka fyrir. Við höfum alltaf eitthvað að þakka fyrir og þakklætið leiðir af sér gleði og hún fer hægt að rólega að aukast í lífi okkar.
4) Horft upp og fram, - horfa út um gluggann ef við erum ekki úti. - Trúa því og treysta að þarna úti (auk þess sem er hið innra) sé alheimurinn með þína verndarengla að veita þér athygli, fylgjast með og elska þig, styrkja þig, vernda þig, veita þér innblástur o.s.frv. -
Umfram allt - að leyfa þér að trúa að það sé alltaf einhver sem elski þig - Ég geri það, annars væri ég ekki að skrifa þennan pistil.
![]() |
Sjálfsvíg taka árlega stóran toll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2013 | 09:58
Lögmál aðdráttaraflsins .. aðlaðandi er konan ánægð
"Hver gaf þér þessar rósir?" spurði barnið? - "Ég fékk þær frá aðdáanda" - svaraði konan og brosti sínu Mónulísubrosi.
Síðan bætti hún við "Ég keypti þær sjálf" ..
Í stað þess að bíða eftir ást, gjöfum og gleði frá öðrum, gefðu sjálfri/sjálfum þér ást, gjafir og gleði. -
Gleði laðar að sér gleði, gjafir laða að sér gjafir og ást laðar að sér ást.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)