LANDLÆKNIR - Íslendingar næstfeitastir á Vesturlöndum - Setjum fókusinn á Lausnina - en ekki Vandamálið ....

310442_232954366763555_120291918029801_680398_1390898006_n.jpgÍ fréttum var þetta helst:

Íslendingar eru orðnir næstfeitastir á Vesturlöndum.

Íslendingar eru yfirleitt ágætlega upplýstir um hollustu, vita hvað er gott fyrir þá, en fara ekki eftir því. 

Margir fara í kúr, eftir kúr, eftir kúr .. Þurrka upp sama pollinn aftur og aftur og aftur ...

En fókusinn hefur verið of lengi á afleiðingar eins og í flestum málum okkar Íslendinga.  

Samt þekkjum við lögmál Orsaka og Afleiðinga. 

"The Law of Cause and Effect" -  

Ef við skoðum ekki orsökina, þá er hættan sú að við endurtökum sömu mistökin aftur og aftur og aftur og aftur ..... 

Lausnin er eins og myndin gefur til kynna:  LOVE - ÁST eða KÆRLEIKUR 

Íslendingur er samsettur úr líkama, anda og sál. 

Við þurfum að næra alla þessa hluta og næra þá vel - með ÁST 

Í raun vantar Íslendinga meiri ÁST á lífinu, - að upplifa að lífið sé þess virði að lifa því - 

Við getum haldið áfram að þurrka upp polla allt okkar líf,  polla sem koma aftur og aftur ... 

Við getum þurrkað þá upp með duftkúrum, með því að vigta mat, með því að telja kaloríur,  en er það ekki svolítið þreytandi og endumst við í því fyrir lífstíð? -

(Athugið að umgengni okkar við mat er aðeins birtingarmynd af því hvernig við tæklum næstum allt annað)

Við vitum af pollunum og við vitum að það er hætta á því að ef við þurrkum ekki upp pollana þá verða þeira að stöðuvatni sem við gætum drukknað í. 

Horfum á orsökina fyrir því að pollurinn myndast - hvar lekur og hver getur stöðvað lekann

Kannastu við eitthvað af þessu? 

  • Ég er að drepast úr hungri, maginn kallar á mat en ég a) sleppi því að borða því ég er í megrun eða b) fæ mér sykur til að róa hungurtilfinninguna -
  • Ég er södd en ég borða meira eða fæ mér snakk eða nammi vegna þess að a) mér leiðist b) ég þarf á huggun að halda c) það var einhver leiðinlegur við mig d) ég hef ekki hugmynd af hverju ég borða! ..
  • Ég missti meðvitund og borðaði allt suðusúkkulaðið sem ég ætlaði að baka úr

Þetta eru bara fá dæmi um hvernig pollarnir verða til - og svo vaknar Íslendingurinn upp við vondan draum - og fer að þurrka upp polla;  Fer í  "átak" "kúr" "megrun" .. í X langan tíma þar til gólfið er þurrt.  Svo byrjar það aftur: 

Drip, drip, drip ... Íslendingurinn er svangur, hann langar í eitthvað ... 

Tilfinningatómið hefur ekki horfið, það er enn til staðar og því þarf að fylla aftur í holrýmið .. það þarf meiri huggun og það þarf að leggja meira á flótta undan leiðindunum ..  Þetta er vítahringur .. 

Ef Íslendingur elskar sig, þykir vænt um sig og vænt um lífið þá stundar hann ekki sjálfskaðandi hegðun.  Hann semur frið og hættir stríðinu við mat.   

Íslendingur sem elskar sig og virðir (líkaminn er partur af Íslendingnum) ofbýður ekki sjálfum sér. 

Hann velur að vera góður við líkama sinn, líkama sem hann fæddist með, líkama sem þjónar honum í blíðu og stríðu.  Ef Íslendingurinn kemur illa fram við sjálfan sig, borðar sér til óbóta, velur vonda næringu, borðar sykur þegar sykurinn gerir honum vont, sveltir sig .. þá eru stórar líkur á því að líkaminn hætti að hafa ánægju af því að vinna fyrir eða  með Íslendingnum.  

Líkaminn verður veikur, líkaminn verður feitur og Íslendingurinn skammast út í líkama sinn. 

"Þú ert ljótur, þú ert mér til skammar" - segir Íslendingurinn við sjálfan sig - við líkama sinn. 

Þegar Íslendingurinn segir þetta við líkamann, verður sálin sár - því hún er partur af Íslendingnum og huggar sig með því að fá sér meira súkkulaði. 

Íslendingurinn þarf að fara að þykja vænt um sjálfan sig, elska líkama sinn, elska sál sína og huga.  Elska lífið og þann upplifa þann lærdóm og þær tilfinningar sem lífið gefur.

Það er upphafsreiturinn og það er ákvörðunin að því að lifa hamingjusömu lífi .  

Þegar að KÆRLEIKURINN er kominn í spilið og virðingin fyrir eigin líkama og eigin lífi, þá loksins hættum við að búa til polla.  Hættum að fylla tómarúmið með mat og förum að fylla það með kærleika. 

Íslendingurinn vaknar af vonda draumnum, því hann var sofandi - 

Íslendingurinn þarf að vakna og virða fyrir sér lífið, það sem hann hefur, veita því athygli. Veita því hversdagslega í umhverfinu athygli og þakka fyrir það.  

Íslendingurinn þarf að slökkva á suðinu og upplifa kyrrðina.  Í kyrrðinni heyrir hann í hjarta sínu, heyrir hann rödd kærleikans, -upplifir tilfinningar sínar - sem hann býður velkomnar og bælir ekki,  ekki með nokkru móti, ekki með afþreyingju, ekki með tómstundun (empty hours?)  - heyrir hvað kærleikurinn er að hvísla.  

...Þú ert verðmætur, þú hefur möguleika, þú getur, láttu ljós þitt skína, lifðu lífinu lifandi, láttu óskir þínar rætast... 

Þegar það er gaman eða áhugavert að lifa,  þegar Íslendingurinn hefur náð jafnvægi, semur frið og fyllist eldmóði til lífsins þarf hann ekki að kæfa tilfinningar sínar með mat, deyfa sig með sykri eða svelta sig til að ná stjórn. 

Þetta allt og meira til er það sem þessi Íslendingur sem þetta skrifar hefur lært af lestri bóka, úr eigin reynsluheimi, af reynslu annarra og síðast en ekki síst af því af því að fara að þykja vænt um sjálfa sig. 

Setjum fókusinn á Lausnina  - hættum stríðinu við mat, við fíkniefni, við allt sem vð gerum vegna þess að okkur finnst lífið er ekki nóg.  Opnum faðminn og bjóðum ÁSTINNI að sitja með okkur við morgunmatinn,  ÁSTINNI að leiða okkur og hvísla að okkur gæluorðum ..  ÁSTINNI sem við eigum nú þegar innra með okkur, en höfum ekki hleypt út, lokum hana inni í skel yfirborðsmennsku, blekkingar og óheiðarleika við okkur sjálf og aðra. 

Tökum ábyrgð á okkur,  maturinn þvingar sig ekki ofan í okkur, sykurinn gerir ekki árás og hoppar upp í okkur.  Við veljum og ekki láta neinar kerlingar að karla segja okkur hvað má og hvað má ekki.  Ef þú elskar þig þá velur ÞÚ það sem er best fyrir ÞIG. 

Orsökin í hnotskurn: Meðvirkni = týnd sjálfsmynd (sem byrjar að glatast í bernsku) þú hlustar á alla aðra en sjálfa þig og trúir öðrum betur en sjálfum þér, snýst í hringi í ráðleggingafrumskóginum, lætur ytri boð og bönn ráða eða stjórna þér en tekur ekki ákvörðun sjálf/ur  - virkar með öðrum en ekki sjálfri/sjálfum þér.  Þú virðir þig ekki, treystir ekki, samþykkir ekki, dæmir þig of hart og ert þinn versti óvinur = elskar þig ekki nóg. 

Lausnin í hnotskurn:  Farðu að virða þig, samþykkja, hafðu samhug með þér, stattu með þér,  finndu eigin rödd og hlustaðu á hana, hlustaðu á líkama þinn =  farðu að elska þig. 

Veldu þína leið og þinn farveg til heilsu og hamingju, heilbrigðrar sálar í hraustum líkama.  

Það sem ég er að segja hér að ofan, er gamall og nýr sannleikur, en við þurfum bara að trúa honum..

"We are physically, emotionally and spiritually hard-wired for Love and Belonging, and if we don´t experience that we brake"  Brené Brown ..

 

 Ef þið hafið áhuga á þessu kíkið á Facebook síðuna mína

 

 


Megi ljós þitt skína sérhvern dag - elsku systir og ljósvíkingur ... kvennafrídagur 24. október

Megi gæfan þig geyma

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér

að ávallt geymi þig Guð í hendi sér. 

(texti. Bjarni Stefán Konráðsson)

Þetta var lokalagið í messu Fríkirkjunnar í gærkvöldi, sem var meðal annars haldin til að fagna fengnum kvenréttindum og hvetja til enn meiri sóknar. Við sungum hvatningarsönginn "Systir sækjum á" -

Öll þessi "ásókn" er að sjálfsögðu gerð með þeim formerkjum að hún sé þágu jafnréttis, og jafnrétti er ekki einkamál kvenna. 

Það er engin skömm að láta ljós sitt skína, - en af einhverjum ástæðum hefur þeim fræjum stundum verið sáð.  "Hvað vilt þú upp á dekk?" .. "Hvað þykist þú vera?" 

Ég held að þegar einhver stígur fram, lendi hann eða hún oft í þessum aðstæðum, að upplifa mótstöðu.  Stundum er mótstaðan raunveruleg, en oft er hún í hausnum á viðkomandi.  Hún er komin áður en hann eða hún leggur af stað og það er óttinn sem veldur því.  Óttinn við að láta ljós sitt skína, óttinn við framkvæmd, óttinn við að sækja á og síðast en ekki síst. Óttinn við álit annarra

Það er því mikilvægast fyrir okkur systur að sleppa óttanum, rækta elskuna og fara að hafa trú á okkur sjálfum. Stærsta hindrun kvenna er að trúa því sem var sagt í fortíðinni, og leyfa því að hafa gildi enn (þrátt fyrir að það sé löngu komið fram yfir síðasta söludag).  

Trúa því forna sem sumir reyna að selja okkur í nútíðinni. Ef við trúum ekki neikvæðu röddunum, ef við tökum ekki gilda söguna - þar sem konur eru lægra launaðar fyrir sömu störf, í miklu færri ábyrgðar- og leiðtogastöðum en karlar, - ef við bara reiknum ekki  með því og samþykkjum það ekki,  förum við kannski að trúa á jafnrétti og frelsi.   

Ég tel það vera grundvallaratriði: "Að hafa trú á sjálfri sér" ..  Ef við höfum það ekki, hver ætti að hafa það?

"Faith or Fear" sagði Marie Fortune, þegar hún ræddi um kynferðisofbeldi, okkar er valið: "Faith or fear."  

Hugvekja mín, eða það sem ég hugsaði upphátt í kirkjunni í gær var m.a. út frá Davíðssálmi 23. þar sem stendur: 

"Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér" ... 

Þori ég, get ég, vil ég hvað? .. 

Ef við látum ljós okkar skína, - þá þýðir það að við erum að fylla okkur af ljósi lífsins, ljósinu sem okkur var gefið við fæðingu,  þegar við fæddumst í Guðs mynd.  Það er okkar að viðhalda ljósinu og við getum gengið í gegnum hvern dimman dalinn á fætur öðrum, og lýst þann dal.  Guð hefur nú þegar skaffað ljósið,  en það er okkar að láta það skína og það gerum við með því að halda því logandi. 

Höfum trú. 

Hættum að skammast okkar fyrir okkur sjálfar, hættum að barma okkur yfir fortíðinni og endurskrifum söguna, - stöndum upp úr, sækjum fram, verum leiðtogar -  leiðtogar í formi fyrirmynda,  því oftast er það eina leiðin.   Einu sinni máttu konur ekkert vera að stilla sér fram, en nú er það ekki bannað, ekki á Íslandi þó að það sé bannað þar sem þróunin/þroskinn er kominn skemmra á veg. 

Það er aðeins í huganum núna, og oftast í huganum á okkur sjálfum. Verum fyrirmyndir í að þykja vænt um okkur, verum fyrirmyndir í því að koma fram af heiðarleika og sanngirni.  Verum við sjálfar - þannig erum við bestu fyrirmyndirnar,  skömmumst okkur ekki fyrir hverjar við erum.  Ég ER og þú ERT og Guð sagði "Ég er" og það er alveg nóg og þannig er til-veran, að vera til. Við erum ekki nema hálf tilvera ef við felum ljósið okkar og leyfum því ekki að skína. 

Við erum öll verðmæt sköpun, sköpuð til að vera til.  Allt sem við lærum ofan á það, sem er uppbyggilegt, er bónus. 

Systir sækjum fram og látum ljós okkar skína, - það er ekkert að óttast - höfum trú, trú á frelsi, jafnrétti - bræðra- og systralagi. 

"Hver einn og einasti einstaklingur fæðist hér sem ljósvíkingur" ...Ég trúi því að allir hafi kraft og geti áhrif haft." ...  Vildi samt óska ég væri meira vakandi, stundum er ég sofandi" .. Allir eru ljósvíkingar í hjartanu á sér" ... (Mugison og Hjálmar) 

Höfum trú á frelsið, jafnréttið, okkur sjálf og lífið.  - Guð er  sameiginleg viska okkar allra (samviska) og ljósdropar þessarar visku eru svo sannarlega gefnir okkur,  en við verðum að ganga í meðvitund,  vera vakandi fyrir eigin ábyrgð.   

Systir, nú er komið að því að við tökum að okkur að vera víkingar - ljósvíkingar.

Hvað stoppar okkur?

"I´m something, I hope you think you´re something too.... sister remember your name" .. 

 


Smá Tarot lestur á laugardegi ...

 

Fyrirlovers-tarot-card.jpg mörgum árum fór ég að skoða Tarot spil, fór svo að leggja spil og las úr spilunum.  Þar sem við erum flest að glíma við svipuð vandamál, þá er ekkert skrítið að það sem lesið er passi vel, og svo er það þannig að hlustandinn heyrir það sem hann speglar sig í og tilheyrir honum, annað heyrir hann varla.

Svo neita ég því, að sjálfsögðu ekki, að ég hef næmni fyrir fólk og skynja stundum meira en hægt er að sjá með berum augum.

Það höfum við reyndar öll, ef við hlustum eftir því. 

Það sem kom mér á óvart þegar ég fór að skoða Tarot-spilin mín var að myndirnar voru margar beint upp úr Biblíunni, sumar mjög áberandi aðrar langsóttari. Biblían er auðvitað um allt milli himins og jarðar - og á himni og á jörðu reyndar líka.

Þetta spil: "The Lovers" þarf nú varla að útskýra mikið - þarna erum við mætt í aldingarðinn Eden með öllu (eða flestu) sem því tilheyrir. 

 

 

En hér ætla ég að tala aðeins um þetta spil:  "The Devil" - images.jpg

 Því að ég er ekki bara "menntuð" í Tarot, heldur líka í guðfræði og er meðferðaraðili hvað meðvirkni varðar.  En meðvirkni er eitt stærsta mein samfélagsins og ég er ekki í vafa að mikið af okkar vandamálum væru leyst ef að við værum ekki svona meðvirk. 

Sá/eða sú meðvirka lifir ekki fyrir sjálfa sig, eiginlega týnist og verður ósýnileg/ur og veit best hvað öllum er fyrir bestu - en gleymir sjálfri/sjálfum sér.  Athyglin er öll út á við og ekkert inn á við.

Dæmi: kona sem er svo upptekin af manninum sínum og að sinna hans þörfum, löngunum og væntingum að hún gleymir að spyrja sig um sínar væntingar, þrár, langanir.  Svo þegar það hefur gengið lengi, er hún oft hætt að sinna sér, virða sig og elska, og þá er makinn sem hana langaði svo að halda í farinn að koma fram við hana á sama hátt og hún kemur fram við sjálfa sig. - Af óvirðingu.

Ég get ekki farið í öll einkenni meðvirkni hér, - en ég ætla nú að fara að lesa í þetta spil DEVIL 

Þarna gæti eins staðið SJÁLFSKAPAR- VÍTI  

Þetta par er búið að koma sér í aðstæður þar sem það hlekkjar sig við  Djöful, eða einhvers konar ófreskju.  Það er ekki að reyna að komast í burtu, stendur bara rólegt og virðir tilveruna fyrir sér. 

Í raun er keðjan svo víð um hálsinn að hvor aðilinn um sig gæti smeygt keðjunni af sér. Spilið táknar því líka fíkn - fíkn sem heldur okkur niðri vegna eigin ákvarðana og vals. 

Fíkn sem er ásköpuð. 

Hún getur birst í öllum myndum. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, býst við að flestir séu búnir að átta sig á hvað þetta þýðir, en spurningin er:  Hvað heldur þér niðri? - Eru það hlekkir sem þú heldur í eða halda þeir þér? - 

Það eru til ýmsar leiðir til að takast á við lífið, - samþykkja það sem við fáum ekki breytt og fara að elska það og gera það besta úr því,  breyta því sem við getum breytt.  

Í æðruleysisbæninni er Guð beðinn um að gefa okkur vit til að greina þarna á milli, - það má líka biðja Guð um að hjálpa sér í hvoru sem er; að breyta hlekkjum í blómsveiga og losa hlekki sem eru of þungir fyrir okkur að lyfta. 

- Prédikun og Tarotlestri lokið í dag -  Smile

 


Samtal við Guð

Ef þú kafar djúpt í trúna verður hún andleg, sama í hvaða trúarbrögð þú leitar.

- Ef þú skoðar aðeins grunnt, lest aðeins grunnt og skoðar aðeins yfirborðið,  verður trúin aldrei annað en hugmyndafræði.  (þá verður trúin hvorki einlæg né heiðarleg). 

Trúarbrögð geta því verið inngöngudyr til andlegs lífs,  en þau geta einnig virkað til að loka á andlegt líf.   

-  Við getum flokkað okkur sem kristin, en virðum leiðir annarra að Guði. 

Það hefur enginn einkaleyfi á Guði. 

Það er ekki okkar að skapa Guð í okkar mynd (eins og reyndin hefur oft verið)  við erum sköpuð af Guði í Guðs mynd.    

Guð ER og þú ERT.  Það er alveg nóg og þú ert nóg

Að þekkja sjálfa/n sig er að þykja vænt um sig, - elska sig

Því þú ert bara barnið sem fæddist í þennan heim, - þú ert ekki starfið þitt, þú ert ekki hlutverkið þitt, stétt eða staða. 

Þú þarft að koma fram við þig af þeirri elsku sem þú myndir koma fram við barnið sem þú varst við fæðingu.   

Að þekkja sjálfan sig er að þekkja vilja sinn. Vilji Guðs er vilji þinn. (Þinn raunverulegi vilji, sem stundum er erfitt að kannast við þegar við vitum ekki einu sinni hver við erum.)

Þess vegna segjum við í Faðirvorinu: "Verði Þinn vilji" .. 

Streitumst ekki á móti vilja Guðs, vilja sem er okkar raunverulegi vilji. 

Ef þú veist ekki hvað þú vilt, þá spurðu Guð og hlustaðu vel. Taktu út allt sem stelur athygli þinni frá þér,  sjónvarp, blöð, útvarp.  Gefðu þér næði og gefðu þér frið.  Kveiktu kertaljós og upplifðu sjálfa/n þig með Guði.  Ekki reyna neitt,  hættu stríðinu og leyfðu andanum að flæða. 

Þannig myndar þú skjól, næði -  þar sem þú getur átt þitt einkasamtal við Guð.

candlelight_1117350.jpg

 

 


Í kjörþyngd með meðvitund og kærleika ...og Surrender með Eckhart Tolle

Hvað er það sem veldur því að manneskja sem er komin langt yfir hættumörk hvað offitu varðar og  búin  að fá að heyra það hjá læknum og næringafræðingunum að hún sé að  auka líkur á dauðsfalli heldur áfram að borða það sem fitar hana enn meira?  Hún veit yfirleitt alveg hvað það er sem er að auka á þyngdina, en samt ...  (sjá nánar hér um samband offitu og sjúkdóma). 

Það eru örugglega margar ástæður; 

  • Leiðindi?
  • Einmanaleiki?
  • stress?
  • vonbrigði?
  • skömm?
  • sektarkennd?

Maturinn er huggun, flótti, deyfing ... á hverju?

Fixið er fljótt að brá af og hvað situr þá eftir? skömm, sektarkennd, samviskubit, vonbrigði, leiðindi, einmaleiki...  - já vegna þess að þetta er fixið í núinu en ekki að vera í Núinu -  þetta er fjarvera frá sjálfum sér, og já, fjarvera frá lífinu sjálfu. - Hvað er það í lífinu sem veldur þessu, hvenær gerðist það og af hverju hættir það ekki, - jafnvel þó að það séu komnar fjölmargar góðar ástæður til að vera ekki á flótta, - fjölmargir góðir hlutir til að þakka fyrir? ..  

Ég hef beðið konurnar sem eru í námskeiðinu hjá mér að næst þegar þær fá "The craving"  löngunina til að hlaupa í nammipokann, súkkulaðið - eða hvað það er sem veldur þeim fíkn, að setjast niður og taka á móti henni og upplifa hvaða tilfinningar koma þegar fíkninni er ekki sinnt.  Leyfa tilfinningunum að koma, en ekki flýja, hugga né deyfa -  fara í gegnum upplifunina - leyfa henni að koma og fara í gegnum þær - síðan kveðja þessa tilfinningu með kærleika .. og halda áfram þaðan. 

Auðvitað gildir þetta líka um það þegar að við borðum þrátt fyrir að vera orðin södd, - þegar við borðum þannig að okkur verkjar (jólin t.d.) 

Hvaða tilfinning eða tilfinningar voru þarna á ferð?  Af hverju dugar ekki það sem við höfum? 

- tómleiki - leiði - kvíði - ... hver sem tilfinningin er, þá er þarna um einhverja sorg að ræða og við förum síðar nánar í að skoða hvaðan tilfinningin kemur.  Við vinnum með orsakir .. 

Þegar við erum börn þurfum við á elsku og umhyggju að halda, - mörg börn eru því miður vannærð að því leyti. Ekki vegna þess að þau eiga ekki velviljaða foreldra, heldur eiga þau kannski foreldra sem kunna ekki betur og gera e.t.v. eins og þeirra foreldrar gerðu.   Þegar börnin gráta fá þau e.t.v. huggun með mat, sjónvarpi eða annarri afþreyingu.  Þau fá líka verðlaun með mat, sjónvarpi eða annarri afþreyingu. 

Grátandi barn veit kannski ekkert af hverju það grætur, - stundum er það svangt - þarf dudduna sína, en aldrei sakar að hugga, gefa því e.t.v. faðmlagið sem það er að kalla eftir.   

Þegar þessi sömu börn verða fullorðin, - hvort sem um er að ræða matarfíkla, eða bara einhvern sem á í stríði við mat,  þá hegðum við okkur eins, við huggum okkur eða verðlaunum með mat eða öðru sem við lærðum frá bernsku. 

Þegar við erum "góð" við okkur - erum við stundum vond við okkur, því að við erum að fá okkur "fix" en erum ekki að vera góð við líkamann. 

Það er verið að fylla upp i einhver holrými, holrými, tllfinningapoka sem ætti frekar að fylla með væntumþykju og kærleika. 

"SURRENDER" ..   "Gefstu upp - viðurkenndu vanmáttinn"  .. það er öðruvísi að "gera ekki neitt" - sitja með SJÁLFUM SÉR ...  upplifa stund og stað - en það er góð leið til sjálfsþekkingar .. og sjálfsþekking er undirstaða þess að vita okkar raunverulega vilja og í framhaldi af því að upplifa lífsfyllingu .. 

arms-open-to-sky_1133_1024x768.jpg

Ef við treystum okkur ekki til þess erum við að veita viðnám, - við erum að veita tilfinningunum okkar viðnám. Við finnum fyrir einhverri tilfinningu sem kemur flæðandi yfir, - kannski frá maganum (enda tilfinningarnar oft að kalla þaðan og þar finnum við t.d. kvíða). 

Semdu frið, hættu stríðinu - settu fram friðarfánann - fórnaðu höndum .. og taktu á móti því sem koma skal ..  Taktu ákvörðun, veldu þitt líf, þínar tilfinningar - en ekki láta utanaðkomandi fortíðardrauga, fólk, mat eða hvað sem er stjórna þér  ..   taktu ákvörðun um þína hamingju, um þitt líf.. 

Ef þú vilt vita meira um námskeiðið - kíktu þá á síðuna, - eða hafðu samband við mig, johanna@lausnin.is   - ath! .. sambandið okkar við mat, er aðeins ein birtingarmynd af sambandi okkar við lífið.  Það má tala um að komast í "andlega kjörþyngd" - ná jafnvæginu til að komast í meðalhófið. 

Við þurfum að samþykkja okkur sjálf, virða okkur sjálf, viðurkenna okkur sjálf - fyrirgefa okkur sjálfum.  Þannig komumst við áfram - en sitjum ekki föst í leðjunni - reiði, örvænting, skömm heldur okkur þar ...  upphafið er að játast og samþykkja Núið .. 

Jákvæð andleg næring eykur löngun á jákvæðri líkamlegri næringu .. 

Eins og elskulgur vinur minn og einn af lærimeisturum segir: "Viðnám skapar vandræði" ..  og þar með talið viðnámið á eigin tilfinningum ..  - Leyfðu þeim að koma og flæða í gegn.. 

Þegar þú ferð að leyfa þeim að koma kemur líka lífið ...  

Svo er voðalega gott að hlusta á Tolle -  ..  

 

 


Fegrunarráð mitt .... ekki að einhver hafi spurt ...

Hvert sem litið er, er fólk að gefa fegrunarráð - "nota þessa dropa" - "þetta krem - gel - gúrkusneiðar - maska - háralit - " .. allt hið besta mál (eða flest)..  -  sumt af þessu er að vísu ansi dýrt - 

cucumber2.jpg

En sem betur fer koma líka ráð,  þar sem ekki þarf að taka upp budduna - og auka e.t.v. enn meira vellíðan okkar, eina og að "ganga útí rigningunni - anda djúpt - drekka vatn - brosa" .. 

Ég tók eftir því í speglinum í morgun (ég er að verða fimmtug) að mér fannst ég fallegri en nokkru sinni fyrr (alveg satt) - ég er bara í nokkuð meðalholdum, ekkert hefur í raun breyst,  ekkert nema hvernig ég sé sjálfa mig.  

Í stað gagnrýni er kominn kærleikur og virðing. 

Áður leitað ég eftir göllum þegar ég leit í spegilinn, nú horfi ég á mig sem sköpun - sem listaverk og það eigum við öll að gera.  (Ég veit þetta er erfitt, það er búið að ala okkur upp í að trúa öðru). 

Ég hef undanfarið ár, unnið systematískt í því að taka inn gott andlegt fæði og forðast neikvæðni, og ef að fólk hefur verið mjög neikvætt hef ég í sumum tilfellum bara talað við það og sagt því að ég væri að vinna í sjálfri mér og ég fyndi til nekvæðninnar í sjálfri mér þegar það væri að bölsótast, eða kvarta, og hvort það væri til í að hlífa mér, því ég tímdi í raun ekki að hætta að umgangast það - eða skemmtilega hluta þess. -  Það virkar vel - það er framsetningin sem skiptir máli.  Ekki setja það fram í ásökunartón: "Þú ert neikvæð/ur" ..  Þá erum við "dead meat" .. 

Í raun er þetta bara að vekja okkar eigin neikvæðni, sem við e.t.v. viljum ekkert með hafa. 

Þetta virkar í raun í báðar áttir,  - sum vilja vera neikvæð - og finnst jákvæðir einstaklingar óþægilegir, fólk sem hlær mikið og hefur gaman, pirrar það - því sumum vill hreinlega (ómeðvitað) líða illa - eða hvað? ..  Finnst óþægilegt þegar því líður illa að aðrir séu glaðir.  Að sama skapi finnst mörgum óþægilegt að líða vel þegar öðrum líður illa, og halda að þeir geri gagn með því að líða illa með þeim. Ef það væri svoleiðis, þá ættum við að skríða ofan í holuna með þeim þunglyndu og leggjast þar, ég hef alveg verið í þessari holu, en ekki myndi ég vilja sjá að ég hefði skapað það ástand hjá öðrum að þeir yrðu þunglyndir líka! :-/ 

Nei - ég vil miklu frekar sjá að það sé glatt fólk í kringum mig, sjá að það er hægt að lifa þessu lífi lifandi en ekki bara sem einhverja þrautagöngu sem þarf að afplána.  Það dregur mig af stað, - en auðvitað má bjóða fram hendi og láta vita að við séum til staðar,  þegar "holubúinn" er tilbúin/n í hjálp.  Við verðum í raun að gera það, - og það er eina leiðin. (Nú er ég orðin aðeins of djúp). 

En nóg um það! - Ég var að tala um fegrunarráð, og þau liggja m.a. í þessu: 

  • Tala fallega til sjálfs sín (Mér þykir vænt um mig, samþykki mig, virði mig og fyrirgef mér - og er þakklát fyrir mig ...) -  Trúið mér, við stundum alveg nóg af neikvæðu sjálfstali og það er í raun svaka átök að snúa við - en ég mæli með þessu upphátt, setja minnismiða á spegilinn.
  • Dáumst að sjálfum okkur, hrósið fyrir það sem vel er gert en byggjum okkur upp ef miður fer, - lærið af því en ekki fara í sjálfsásökunargírin eða skömmina
  • Að sjálfsögðu tölum við líka fallega um og við náungann - forðumst skammir, ljót orð, leiðindi eins og heitan eldinn  - prófum að breyta neikvæðum athugasemdum sem brjóta niður í uppbyggilegar
  • Forðumst allan utanaðkomandi ljótleika - og verum HEIÐARLEG við okkur sjálf og aðra.
  • Elskum og virðum aldur okkar og elskum okkur skilyrðislaust ...
  • Munum að við erum öll eitt - öll jöfn og að Guð fer ekki í manngreinarálit ....

Þessi ráð eru örugglega fleiri, - jú - fara snemma að sofa, lesa uppbyggilegar bókmenntir, elska okkur sjálf, annað fólk og lífið allt -

Tökum síðan alla þessa punkta að ofan, og umbreytum því sem sagt er um andlegt fæði í líkamlegt fæði, - forðumst hið óholla, það sem gerir okkur vont,  það sem hefur neikvæð áhrif á heilsuna, við kunnum og vitum þetta allt ... Wink  ( .. ef við lesum grein um einhvern hrylling, - líður okkur eins og þegar við höfum borðað yfir okkur af einhverju sem gerir líkamanum vont) 

en besta fegrunarráðið af öllum: 

Gefðu þér gott faðmlag ...   

BINGÓ .. þú ert bjútífúl og verður bjútífúl! .. 

We are bjútífúl - no matter what "they" say ...  veljum okkur orðin sem við tökum til okkar, segjum nei takk við niðurbrjótandi umhverfi - og já takk við góðu og höldum áfram að vera falleg - sama hvað aðrir (lesist Marta María) eru að pípa .. 

 

 

  •  

Eins og hindin þráir vatnslindir ...

Ég las á Fésbókinni svo dásamlegan status - um raunir þriggja ára gutta, sem grét sáran yfir að fá ekki popp hjá mömmu sinni. 

Þetta var um sexleytið, en þriggjáringar eru yfirleitt orðnir pinku þreyttir og úrillir á þessum tíma dags, eins og flestir sem hafa alið upp eða umgengist börn vita.  Hann hefur ekki getað skilgreint tilfinningar sínar - eflaust verið orðinn pinku svangur og þá skiptir ekki öllu máli með hverju við fyllum í það tómarúm, nú eða bara saddur en fundið fyrir þreytunni en ekki kunnað að skilgreina hana, enda varla hægt að ætlast til þess af svo ungum snáða. - 

Ég er svo þakklát fyrir svona raunverulegar dæmisögur, - því ég er að vinna með konur/tilfinningar og mat .. þetta gildir auðvitað um karlmenn líka,  en við erum stundum  ekkert ósvipuð börnum þegar okkur líður illa og vantar huggun leitum við stundum í mat, þegar það sem í raun er  hungur í eitthvað allt annað ...

"Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð! .. " (sl.42)huggun.jpg

- En stundum ruglumst við í þránni og reynum að seðja þorsta sálarinnar með einhverju öðru en hún í raun þarfnast.  Mislesum eða skiljum ekki skilaboð sálarinnar, kannski vegna þess að þegar við vorum börn og grétum vegna þess að við vorum þreytt, eða okkur leið illa að enginn skildi okkur, enginn huggaði  - virti ekki eða kunni ekki á  þrá okkar eftir kærleika, ást, umhyggju, nánd og  því að tilheyra. Kannski var enginn til staðar, eða var of veikur til að vera til staðar?   Kannski  skiljum við sjálf þessa þrá í dag en reynum að deyfa hana með mat, eða flýja af hólmi með röngum meðölum - sem í raun gera okkur ekki gott. 

Guð er í þessu tilfelli eitthvað ósnertanlegt og óáþreifanlegt, - og við kunnum bara að róa okkur með mat, áfengi eða öðru sem er áþreifanlegt eða sem við getum mælt og upplifað verðmæti okkar með. 

Með vinnu, með því að sýna fram á dugnað og svo framvegis. En þannig er ekki hamingja okkar fengin. 

Hún er fyrst fengin þegar við náum að tengjast sjálfum okkur, vitið og viljinn slær í takt við hjartað. Með sjálfsþekkingu og styrkingu. Þannig að þegar við finnum til sorgar leitum við ekki huggunar með sefjun líkamans - heldur sálarinnar. 

Svoleiðis er það nú. 

Það þarf vissulega trú til, en trúin getur verið á hvað sem er sem við teljum að sefi sálina, - tónlist, náttúran, kærleikur, vístómurinn  - sem ég sjálf (vegna minnar trúar) tel bara vera Guð. 

Guð í sjálfum okkur og Guð í alheims geimi - eins og skáldið sagði. 

Nýtt námskeið hefst á þriðjudag, - verið velkomnar - ég er að bjóða þetta fyrir konur, en ef að næst í lágmark átta karlmenn sem vilja láta á það reyna,  er ég til í slaginn! .. 

En kíkið auðvitað líka á önnur námskeið Lausnarinnar: 

Huldufólkshelgi næstu helgi frá 21. - 23. október, - þar er heldur betur hægt að tengja sig náttúrunni - og farið í bæði andleg og líkamleg ferðalög. 

Lausn unga fólksins, - sem er námskeið sem hefst 6. nóvember, á sunnudegi, - en hvað er unga fólkið 13-15 ára að gera venjulega milli 14:00 og 16:00 á sunnudögum, - hvernig væri að efla sig, styrkja og fara í "Winner" bolinn - og fá smá pepp inn í skólavikuna? !!.. 

Meðvirkni-og samskiptanámskeið -  spurning um að sópa liðinu á biskupsstofu þangað? .. Uss, ekki segja neinum að ég hafi sagt þetta! Smile  ... (p.s. sumir segja að við séum öll "bisexual" - ég segi að við séum öll meðvirk, og það er mikilvægt að læra að þekkja meðvirkni sína "Love your enemy"). 

Hugleiðsluhópar - Lausnarmiðaðir kvenna - og karlahópar  ... þar sem mörg sem það hafa reynt hafa loksins fundið sér farveg, - eftir að hafa leitað margra leiða til að vinna t.d. úr erfiðum samskiptum, finna sér líf eftir skilnað,  eftir alls konar ofbeldi - eða bara að vera alin upp á pinku vanvirkum heimilum, eins og flestir voru .. a.m.k. á mínum aldri.  Oft hjá góðum foreldrum, það var ekki málið,  en þau kunnu kannski ekkert endilega uppeldisfræðina upp á 10! 

Leiklistargleðismiðja - er í gangi núna fyrir börn 10-13 ára og þvílík gleði og fjör í börnunum og ekki síður Ingu Bjarnason, leikstjóra sem hefur þann eiginleika að ná fram því besta í börnunum. 

Auk þess að hafa þetta í boði, - höfum við möguleika á að koma og halda tölur og fyrirlestra í fyrirtækjum, skólum, fyrir minni hópa - saumaklúbba ? .. Hafið bara samband og við svörum um hæl .. þið sjáið hvernig á heimasíðunni.  www.lausnin.is 

Mig er nú farið að langa í popp - enda klukkan orðin matartími! .. 


Brian Tracy, hefðin, siðirnir og auðvitað - kærleikurinn .. EKKI LESA ÞETTA BLOGG! ..

Pistillinn á undan þessum fjallar um að breyta siðum sínum, ávana (habits) - til hins betra.  Til þess þarf endurtekningu og æfingu.  Til að hætta vondum sið og hefja nýjan.  Þessi siður getur átt við allt eða allflest í okkar lífi, hvernig við hugsum um okkur, svefnvenjur, áhorf á sjónvarp, bókalestur, hvernig við tölum við og um aðra, um okkur sjálf, hvað við gerum með fjölskyldunni og svo framvegis.

Við virðumst oft læra eina aðferð eða sið eða hefð og halda okkur við hann og fara á "automatik" og brjótumst sjaldan út fyrir hefðina. 

Þegar allar vikur eru orðnar eins hjá okkur, verður lífið svolítið eins og flöt lína. Í stað þess að læra á hverjum degi, sem við gerum vissulega, getum við lært enn meira. 

Ég hlustaði á einn af fjölmörgum fyrirlestrum Brian Tracy í gær (á youtube), þar sem hann var að tala um hvernig við næðum árangri í lífinu.  

Hann mælti með því að lesa eitthvað uppbyggilegt á hverjum morgni - vakna fyrr (talaði um 2 tíma fyrr en venjulega) nota "The Golden Hour" eða "Morgunstund gefur gull í mund"  til að læra, lesa það sem tilheyrir þinni grein eða áhugasviði,  eitthvað uppbyggilegt.  Þetta er í raun heilarækt, eða rækt fyrir andann eins og líkamsrækt er fyrir líkamann. Og það má bæta við, að flestir tala um mikilvægi þess að borða góðan morgunmat og því ekki mikilvægi þess að hefja morguninn með hollu andlegu fæði? 

Brian mælti síðan með því að þegar því væri lokið, þ.e.a.s. lestrinum  að útbúa lista yfir það sem við ætluðum að gera yfir daginn.  Skrifa það bara fyrst niður og svo setja númer við það eftir mikilvægi. 

krukka.jpg

 

Frá númer 1 (en 1 er þá auðvitað það almikilvægasta)  og uppúr,  og byrja svo á því almikilvægasta fyrst.  Það er svona eins og dæmisagan um hvernig við setjum sand, möl, steina og stóra hnullunga í skál, - við byrjum á stærstu hnullungunum svo við komum öllu fyrir.  Ef við byrjum á sandinum, smáatriðunum náum við e.t.v. ekki að koma hinu mikilvæga fyrir og veltum því á undan okkur yfir á næsta dag og svo næsta? .. 

 

 

 

Hann mælti einnig með því að hlusta á hljóðdiska í bílnum okkar, - hljóðdiska með einhverjum góðum lærdómi.  Pælið í því, þið sem kannski þurfið að keyra í 30 mínútur í vinnuna, hvað hægt er að læra mikið uppbyggilegt í bílnum. Þetta á kannski sérstaklega við á lengri leiðum, og jú - kannski verður ekki eins frústrerandi að lenda í morguntraffíkinni, - gefa sér bara rúman tíma og njóta þess að hlusta? 

En alla veganna, þá er alveg þess virði að skoða eitthvað af þessu hjá Brian kallinum Tracy, - allt sem hann kennir miðar að því að ná árangri í lífinu - á mismunandi sviðum vissulega, en hann er t.d. ágætis fyrirmynd 67 ára og kýrskýr og enn brilljant fyrirlesari! .. Hvað segir það okkur? 

Brian hvetur líka til þess að við lítum  á það í lok dags sem við höfum tekið okkur fyrir hendur, byrjum á því að skrifa niður hvað við gerðum vel og hvar við náðum árangri.  

Í öðru lagi að skrifa hvar við gætum bætt okkur og hvernig við myndum gera það. 

EKKI að rífa okkur niður eða skamma okkur. 

Orðið skamm (shame)  er vont orð, og orð sem við ættum ekki að nota.

Þetta orð límist við okkur og það er þetta orð sem hefur haldið aftur af okkur svo mörgum. Við skömmumst okkar, við erum hrædd við skömmina að gera okkur að fíflum,  við erum hrædd við skömmina að mistakast.   

Þess vegna skulum við ekki segja við barn "skammastu þín" - það er eins og að stinga það með hnífi í sálina og barnið lærir ekkert af því nema skömmina eina og niðurbrotið. 

Ef að barn brýtur af sér eða gerir mistök, þá þarf að nota formúlu Brian Tracy´s .. 

Það má tala um það sem það gerir rétt í fyrsta lagi, og síðan benda því á að það sem það gerði hafi ekki verið rétt, það hafi verið mistök  (því vissulega eru það mistök þegar barn brýtur af sér) og þú treystir því að það geri þau ekki aftur og spyrja síðan barnið hvað það hafi lært af þessu? .. 

Leikskólaorðfærið er ekki "skammastu þín" heldur "þetta er ekki í boði" .. Það er s.s. ekki í boði að lemja aðra krakka, skemma, brjóta o.s.frv.   

Þarna gefur þú til kynna að barnið hafi í raun ýmislegt val, en hið vonda er ekki í boði. 

Af hverju á ekki að nota orðið "skamm" .. .vegna þess að, eins og áður sagði,  þá er það orð sem heldur aftur af okkur,  e.t.v. fram til dauðadags. 

Heldur aftur af okkur þegar við fáum hugmyndir sem okkur langar að framkvæma. Orð sem elur á ótta og efa. Efasemdum um okkur sjálf. 

Varkárni er ágæt - en það er þegar við erum orðin yfirmáta varkár, - við erum hætt að þora sem hún er einungis heftandi.  Þegar hún byggir á óttanum við skömm eða að mistakast.   

Mistök eru til að læra af þeim,  en ekki til að endurtaka. 

Þess vegna m.a. er gott að hætta þeim siðum sem eru mistök,  sem brjóta niður en byggja ekki upp og taka upp nýja. 

Ég hef hlustað á fólk sem segir "Úff hjónabandið mitt er eiginlega mistök" - en gerir svo ekkert í því.  Það eru tvær leiðir.  Fara að vinna í því eða fara út úr því.  Ekki sitja í miðri mistakahrúgunni, örvænta og gera ekki neitt. 

Lífið er lærdómur og það er fyrst þegar við hættum að vera nemendur - sem það fer að vera leiðinlegt.  

295868_206351476100789_100001778133029_463755_1743576677_n.jpg Þegar við stillum okkur á "hlutlaus" eða "meðvitundarlaus" - við erum farin að fljóta með straumnum í stað þess að synda þangað sem okkur langar, synda til að ná árangri - synda til að eiga LÍF - nú eða taka sundtök með straumnum ef það er það sem okkur langar. 

Hvað segir þessi mynd þér? 

 

  Myndí boði Kjartans, samstarfsmanni í Lausninni.

Nýir siðir sem ég hef tekið upp og langar að gera meira af - og hafa nú þegar bætt lífsgæði mín mjög mikið. 

  • Útivera, bæði með og án hreyfingar  (best að komast í nálægð við náttúruna)
  • Bókalestur  (langar að lesa meira og þá uppbyggilegt efni)
  • jákvætt tal og hugsanir  (bæði sjálfstal og um aðra - taka ekki þátt í baktali, öfund o.s.frv.) það þarf varla að segja hvað það hefur mikil áhrif á sjálfan mann að lifa í neikvæðninni - það er ekki að vera í hlutlausum - heldur í bakkgír)
  • Fara fyrr að sofa á kvöldin -  (sérstaklega notó á veturnar að fara upp í rúm með bók ;-) og svefninn á víst að nýtast best ef við förum snemma að sofa (auðvitað mikilvægt ef á að vakna snemma og lesa)
  • Eiga samveru með fjölskyldu og vinum
  • Syngja, dansa og leika

Að auki hef ég leyft mér að lifa og er að búa mér til lifibrauð af minni ástríðu, - þ.e.a.s. að kenna það sem ég hef lært.  Miðla því sem ég kann best og því sem mér finnst skemmtilegast.

Um leið og við erum laus við höftin okkar, óttann, efann - þá getum við farið að ganga þau skref sem okkur var ætlað.  Óttinn lamar en kærleikurinn gefur eldmóðinn til framgöngu.  Kærleikurinn gefur líka styrk til þess að takast á við hindranir, áföll og það sem brýtur á til að stoppa framgönguna.  En í stað þess að gefast upp og falla í gryfju óttans og leiðans á ný,   þá tökum við bara sveigju, hoppum yfir eða brjótumst í gegn og höldum áfram.  Missum ekki fókus á kærleikanum

Höfum hann alltaf með í för og alltaf sem markmið. Leyfum okkur að lifa af heilu hjarta - við vitum þetta en vandamálið er oft að tengjast þessum vilja sínum,  þar þurfum við e.t.v. að biðja okkar æðri mátt um að tengja, koma til móts við okkur, - hvað sem við köllum þennan mátt - þá er hann innra með okkur, jafnt og utan við. Lífið, náttúran, samviskan, Guð - þú ein/n veist hverju þú treystir. 

En trú er fyrir mér jafn nauðsynleg til lífs og að anda eða drekka vatn. 

 833138_jipaasv1_b.jpg

 "Look at every path closely and deliberately,
then ask ourselves this crucial question:
Does this path have a heart? If it does, then
the path is good. If it doesn't, it is of no use."
             
Carlos Castaneda

 

 

 

 Ef þið viljið lesa meira í þessum dúr - mæli ég (ekki) með pistilinum á undan þessum.

Smá grín í lokin, - ég skrifaði "EKKI LESA ÞETTA BLOGG" .. vegna þess ég veit að það hefur frekar öfug áhrif ;-) ... orðið "ekki" fellur oft dautt niður, - þess vegna eigum við ekki að líma það við neikvæð orð þegar við erum að ræða t.d. við börn, því þau heyra bara hið neikvæða,  "Ekki vera vond/ur" - þá heyra þau bara orðið vondur, - s.s. sitja uppi með orðið "vondur" - en í staðinn er hægt að segja "vertu góð/ur"  og þá stija þau uppi með orðið góð/ur - sem er auðvitað miklu uppbyggilegra. Síðan þurfum við að sjálfsögðu að vera þessar fyrirmyndir í góðu, til að þau í raun og veru skilji hvað er að vera góð! Það er ekki bara nóg að segja, - við verðum líka að gera.

 Óska þér góðs dags.   Heart


Siðbreyting ... - að hætta vondum vana og hefja góðan ..

Ég blogga óvenju mikið út frá námskeiðunum mínum "Í kjörþyngd með meðvitund og kærleika" þessa dagana, - þar sem endurtekninga er þörf þegar verið er að breyta "ósiðum" í siði. 

Í raun er um endurforritun að ræða - endurforritun þar sem við lærum jákvætt sjálfstal og uppbyggilega hegðun og ávana í stað niðurbrjótandi sjálfstals og niðurbrjótandi hegðunar og ávana. 

Ef við erum þannig stödd að við skorum lágt á lífshamingjuskalanum, þurfum við að skoða orsakir. Yfirleitt eru orsakirnar þær að við erum að bregðast við lífinu með lærðum viðbrögðum úr fortíðinni. Við höfum komið okkur upp ávana sem er okkur óhagstæður í mörgum tilfellum.  Þessi viðbrögð eru lærð allt frá bernsku og því þarf oft að rekja mikið upp. 

Einn af þessum ávana tengist því hvernig við umgöngumst mat. Einn af ávananum er að vera í megrun.  "Diet" á ensku. 

Megrunariðnaðinum hefur vaxið fiskur um hrygg - stækkar og stækkar og hvað er að gerast? Fólkið fitnar og fitnar! ..  

Þegar ég var stelpa borðaði ég soðinn fisk, kjöt, kartöflur, nautahakk, skyr o.s.frv. gosdrykkir voru algjör undantekning og allt sem hét sælgæti og snakk.  Nú hefur úrvalið stóraukist, miklu meira er um óhollan skyndibita, og of mikið er af afþreyingu sem stelur meðvitund okkar. Þegar við erum "meðvitundarlaus" þá eigum við á hættu að innbyrða meira af ruslfæði. Borða án þess að finna bragð. 

Megrun leiðir til sjálfshaturs og sjálfsásökunar. Við eigum ekki að þurfa að hata okkur til að elska okkur. 

Þegar við skoðum orsakir offitu þá er gott að skoða hvaða vana við höfum tileinkað okkur, hvaða það er í vana okkar sem veldur því að við borðum þó við séum ekki svöng,  borðum það sem er líkama okkar vont og leiðir jafnvel til gigtar eða sykursýki, sem eru algengir fylgikvillar offitu. 

Höfum í huga að við erum líkami, sál og hugur, - líkaminn hefur áhrif á hugann og öfugt. 

Forsendan fyrir því að við viljum vera í kjörþyngd þarf að vera rétt.  Forsendan þarf fyrst og fremst að vera að við viljum betri heilsu. Að við viljum elska okkur til betri helsu.

Vani verður til með endurtekningu, æfingin skapar meistarann.  Það tekur tíma að búa til nýjan sið, nýjan vana, en er það ekki þess virði ef að sá vani verðu til þess að við náum betri heilsu? 

Aðal vandamálið við vigtina er ekki bara um matinn. Trú okkar á lífið og virði þess að lifa lífinu lifandi birtast í umgengni við mat. Svo ef við erum að borða þegar við erum ekki svöng, eða leiðist, erum við í raun og veru flýja lífið, flýja tilfinningarnar.  Við gætum verið að segja: "Æ, þetta blessað líf, það er hvort sem er ekkert varið í það, svo ég ætla bara að fá mér mér mat hér og nú"..  Þetta þýðir að við höfum að hluta til gefist upp á lífinu, eða gefist upp á hluta af okkur sjálfum. 

Umgengni okkar við mat er eins og umgengni okkar við lífið sjálft. - Þegar við förum að elska okkur, virða og samþykkja, hættum við að hata okkur, óvirða, dæma, afneita - og bíta okkur (samviskubitið). Hættum að vinna hryðjuverk á eigin líkama og sál.

Leikum, hlæjum, dönsum og lifum af heilu hjarta og leyfum okkur að fylgja þessu hjarta þá kviknar lífsneistinn, - eldmóðurinn til að langa til að lifa lífinu lifandi! Horfðu á þessa fallegu veru í speglinum og elskaðu hana frá toppi til táar. Þessi vera ert þú, vertu þér nær - vera. Þitt eigið faðmlag er besta faðmlagið, faðmaðu þig sem barn og faðmaðu þig sem fullorðna manneskju, - því þú átt það skilið!

Þetta sem hér er skrifað og meira, er upprunnið að mestu í hugmyndafræði Geneen Roth, sem kynnir dyrnar út úr megrun, - þær felast fyrst og fremst í því að fara að stunda jákvætt sjálfstal, og að lifa með meðvitund og fara að hlusta á líkama sinn. Þegar við hlustum á líkamann og virðum, þá heyrum við að hann hvíslar: "gefðu mér það að borða sem gerir mig heilbrigðan - þá get ég borið þig í gegnum allt lífið,  frá fyrstu skrefum til þeirra hinstu - ekki gefa mér það sem gerir mig veikan eða mér líður illa af." 

We are what we repeatedly do. Excellence, then, is not an act, but a habit. (Aristotle)

Markmiðið með breyttum sið, nýrri leið er: sjálfstyrking, sjálfsþekking, heiðarleiki, lífsgleði, heilbrigði, KÆRLEIKUR! 

og þannig 

LIFUM við HEIL  

doorway-1.jpg

 

 


Orsakir eineltis

Ég sá frétt í DV um 11 ára stúlku sem var beitt einelti, - og var í raun komin út í örvæntingu þar sem hún vildi ekki lifa lengur. Slíkar fréttir eru að verða of algengar, ekki við fréttirnar að sakast, ekki við stúlkuna að sakast ... en við hvern er að sakast?  Er nóg að benda á þau börn sem beita einelti og segja: "Þarna er ástæðan?" - Eða er nóg að benda á skólann og segja "Þarna er ástæðan" ..  Orsökin er dýpri, - þeir sem beita einelti eru líka hluti afleiðingar, ekki það að þau eigi ekki að taka ábyrgð, alveg eins og hver og ein manneskja þarf að taka ábyrgð á sinni tilveru.  Við sem eldri erum þurfum þó að viðurkenna ábyrgð okkar á þeim sem eru ósjálfráða.  Við þurfum að taka ábyrgð því að það erum við sem upplýsum, við sem kennum, við sem virkjum o.s.frv.  Eineltismál eru ekki ný mál fyrir mér. Ég hef starfað í skólasamfélaginu, - nú síðast í grunnskóla í Reykjavík, þar sem voru inni á milli mjög illa særðir nemendur vegna eineltis, skólinn var í einu orði sagt "Helvíti" og skiptir þá engu máli um hvaða skóla er að ræða. Þau voru í sumum tilfellum að mæta í 2. eða 3. skólann.  Oft var eineltið vegna þess að þau voru "öðruvísi" - of feit, of mjó, of lítil, of stór,  jafnvel vildu fara sínar leiðir, sköruðu fram úr o.s.frv. en það þolir samfélagið oft illa sem hefur tilhneygingu til að steypa alla í sama mótið, meðvitað eða ómeðvitað.  

Einelti er ein birtingarmynd sjúks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar. Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima. Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum? Skoða hvaða andlega efni er verið að næra börnin með. Ég veit að sú skoðun leiðir ýmislegt óskemmtilegt í ljós. Eftir höfðinu dansa limirnir. Það þarf að verða viðsnúningur - algjör U beygja í okkar eigin framkomu við hvert annað og líti nú hver í eigin barm. Til er ég!

Ein mikilvægasta lexía sem ég hef fengið um ævina er að skilja eigið ofbeldi, - í fyrsta lagi ofbeldið sem ég beitti sjálfa mig og t.d. niðurrífandi sjálfstal sem við notum öll, enda erum við oft í raun okkar stærstu óvinir,- og í öðru lagi... þegar ég, í flestum tilfellum ómeðvitað, beitti aðra ofbeldi - þó það hafi ekki verið í formi barsmíða (dæmi: að vera fúl útí afgreiðslumanninn í Bónus, vegna eigin vanlíðunar eða þreytu, segja eitthvað sárt við börnin sín vegna sömu orsaka, eitthvað sem við ætluðum ekkert að gera en gerum samt) þá  í formi orða eða þagnar.

Þögn getur líka verið birtingarmynd ofbeldis, eða það að við samþykkjum ofbeldi annarra. Þegar þagað er yfir málum þegar við ættum að tala - og við höfum heldur betur orðið vör við það í okkar samfélagi.

"Um leið og sleppum tökum af alverstu óvinunum: skömm og ótta, sleppa þeir óvinir tökunum af okkur." (þetta í gæsalöppum er frá Neale Donald Walsch).  

Orsakir eineltis eru m.a. veikar fyrirmyndir,  lélegt sjálfsmat og lítil sjálfsvirðing (eða fölsk sjálfsvirðing sem felst í ytra verðmætamati), upphafning á kostnað annarra, ótti við að vera sá sem lagður er í einelti (betra að fylgja múgnum) o.s.frv. 

Sá eða sú sem er í alvöru sterkur eða sterk leggur ekki í einelti.  

Einelti er form veikleika, veikleika sem á rætur í veikum fyrirmyndum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband