Megi ljós þitt skína sérhvern dag - elsku systir og ljósvíkingur ... kvennafrídagur 24. október

Megi gæfan þig geyma

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér

að ávallt geymi þig Guð í hendi sér. 

(texti. Bjarni Stefán Konráðsson)

Þetta var lokalagið í messu Fríkirkjunnar í gærkvöldi, sem var meðal annars haldin til að fagna fengnum kvenréttindum og hvetja til enn meiri sóknar. Við sungum hvatningarsönginn "Systir sækjum á" -

Öll þessi "ásókn" er að sjálfsögðu gerð með þeim formerkjum að hún sé þágu jafnréttis, og jafnrétti er ekki einkamál kvenna. 

Það er engin skömm að láta ljós sitt skína, - en af einhverjum ástæðum hefur þeim fræjum stundum verið sáð.  "Hvað vilt þú upp á dekk?" .. "Hvað þykist þú vera?" 

Ég held að þegar einhver stígur fram, lendi hann eða hún oft í þessum aðstæðum, að upplifa mótstöðu.  Stundum er mótstaðan raunveruleg, en oft er hún í hausnum á viðkomandi.  Hún er komin áður en hann eða hún leggur af stað og það er óttinn sem veldur því.  Óttinn við að láta ljós sitt skína, óttinn við framkvæmd, óttinn við að sækja á og síðast en ekki síst. Óttinn við álit annarra

Það er því mikilvægast fyrir okkur systur að sleppa óttanum, rækta elskuna og fara að hafa trú á okkur sjálfum. Stærsta hindrun kvenna er að trúa því sem var sagt í fortíðinni, og leyfa því að hafa gildi enn (þrátt fyrir að það sé löngu komið fram yfir síðasta söludag).  

Trúa því forna sem sumir reyna að selja okkur í nútíðinni. Ef við trúum ekki neikvæðu röddunum, ef við tökum ekki gilda söguna - þar sem konur eru lægra launaðar fyrir sömu störf, í miklu færri ábyrgðar- og leiðtogastöðum en karlar, - ef við bara reiknum ekki  með því og samþykkjum það ekki,  förum við kannski að trúa á jafnrétti og frelsi.   

Ég tel það vera grundvallaratriði: "Að hafa trú á sjálfri sér" ..  Ef við höfum það ekki, hver ætti að hafa það?

"Faith or Fear" sagði Marie Fortune, þegar hún ræddi um kynferðisofbeldi, okkar er valið: "Faith or fear."  

Hugvekja mín, eða það sem ég hugsaði upphátt í kirkjunni í gær var m.a. út frá Davíðssálmi 23. þar sem stendur: 

"Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér" ... 

Þori ég, get ég, vil ég hvað? .. 

Ef við látum ljós okkar skína, - þá þýðir það að við erum að fylla okkur af ljósi lífsins, ljósinu sem okkur var gefið við fæðingu,  þegar við fæddumst í Guðs mynd.  Það er okkar að viðhalda ljósinu og við getum gengið í gegnum hvern dimman dalinn á fætur öðrum, og lýst þann dal.  Guð hefur nú þegar skaffað ljósið,  en það er okkar að láta það skína og það gerum við með því að halda því logandi. 

Höfum trú. 

Hættum að skammast okkar fyrir okkur sjálfar, hættum að barma okkur yfir fortíðinni og endurskrifum söguna, - stöndum upp úr, sækjum fram, verum leiðtogar -  leiðtogar í formi fyrirmynda,  því oftast er það eina leiðin.   Einu sinni máttu konur ekkert vera að stilla sér fram, en nú er það ekki bannað, ekki á Íslandi þó að það sé bannað þar sem þróunin/þroskinn er kominn skemmra á veg. 

Það er aðeins í huganum núna, og oftast í huganum á okkur sjálfum. Verum fyrirmyndir í að þykja vænt um okkur, verum fyrirmyndir í því að koma fram af heiðarleika og sanngirni.  Verum við sjálfar - þannig erum við bestu fyrirmyndirnar,  skömmumst okkur ekki fyrir hverjar við erum.  Ég ER og þú ERT og Guð sagði "Ég er" og það er alveg nóg og þannig er til-veran, að vera til. Við erum ekki nema hálf tilvera ef við felum ljósið okkar og leyfum því ekki að skína. 

Við erum öll verðmæt sköpun, sköpuð til að vera til.  Allt sem við lærum ofan á það, sem er uppbyggilegt, er bónus. 

Systir sækjum fram og látum ljós okkar skína, - það er ekkert að óttast - höfum trú, trú á frelsi, jafnrétti - bræðra- og systralagi. 

"Hver einn og einasti einstaklingur fæðist hér sem ljósvíkingur" ...Ég trúi því að allir hafi kraft og geti áhrif haft." ...  Vildi samt óska ég væri meira vakandi, stundum er ég sofandi" .. Allir eru ljósvíkingar í hjartanu á sér" ... (Mugison og Hjálmar) 

Höfum trú á frelsið, jafnréttið, okkur sjálf og lífið.  - Guð er  sameiginleg viska okkar allra (samviska) og ljósdropar þessarar visku eru svo sannarlega gefnir okkur,  en við verðum að ganga í meðvitund,  vera vakandi fyrir eigin ábyrgð.   

Systir, nú er komið að því að við tökum að okkur að vera víkingar - ljósvíkingar.

Hvað stoppar okkur?

"I´m something, I hope you think you´re something too.... sister remember your name" .. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.10.2011 kl. 11:44

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.10.2011 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband