28.4.2012 | 09:37
Hjólreiðakeppni í Danmörku - Kári Brynjólfsson keppir
Ég hef ákveðið að gerast íþróttafréttaritari (reyndar í annað sinn) - en hér erum við að fjalla um það sem kallað er "jaðarsport" eða jaðaríþrótt, a.m.k. á Íslandi. - Við skulum ekki einu sinni byrja að ræða "Tour de France" en ég hef verið í Danmörku þegar það stóð yfir og það fylgdust allir mínir ættingjar þar með "Tour de France" - í sjónvarpinu.
Áhugi minn er að vísu til kominn vegna þess að bróðursonur minn Kári Brynjólfsson er mikill hjólreiðamaður, keppir í hjólreiðum og er að læra að verða "Cykel -mekaniker" (held ég það heiti), og varð Íslandsmeistari 2010 og 2011 í fjallareiðhjólum. -
Þessa stundina (kl. 9:30) er Kári að taka þátt í 12 tíma hjólamaraþoni, en hann hefur keppt tvisvar áður og varð í 8. sæti 2010 og 5. sæti 2011 og nú bíðum við ótrúlega spennt eftir því hvaða sæti hann lendir í 2012.
Eftir 3 tíma og 6 hringi er hann nefnilega í 1. sæti af 112 keppendum, en vissulega 9 tímar eftir!
Þessi "litli" frændi minn heitir er sonur Brynjólfs "litla" bróður míns og konu hans Þóru Ingvadóttur. Báðir eru þeir vel yfir 190 cm á hæð og sonurinn meira að segja vaxinn föður sínum yfir höfuð, svo að litli á að sjálfsögðu hér við að þeir eru yngri en ekki minni.
Kári Brynjólfsson sem er fæddur 1988, fór snemma að hafa áhuga á hjólreiðum (Jón Ársæll hvað? ) og Binni bróðir var á tímabili formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur og hefur stutt dyggilega við Kára á ferlinum og þau bæði að sjálfsögðu foreldrarnir! -
En nú er s.s. keppt enn á ný, -
Tók þetta af facebook síðu pabbans:
Kári Brynjólfsson keppir í http://stamina12.dk/ í dag. Hjólað er samfleytt í 12 tíma og sá vinnur sem hjólar lengst, eða flesta hringi. Brautin er 8 km hringur í fallegur umhverfi við kastala við Hróaskeldu. Hægt er að fylgjast með keppninni á heimasíðunni.
ÁFRAM KÁRI! ...
Hér er svo hægt að FYLGJAST MEÐ TÍMANUM
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2012 | 12:47
Syngjum með ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2012 | 09:11
Dagur jarðar 22. apríl 2012 - hvað ef þú ert jörðin? -
Hver manneskja er veröld út af fyrir sig. Hver manneskja er jörð, a.m.k. efnafræðilega tengd jörðinni segja vísindamennirnir í "Symphony of Science" en þeir bæta líka við að við séum öll líffræðilega tengd. - Auðvitað vilja margir bæta við, "andlega tengd" og þar á meðal ég. -
Við erum s.s. öll skyld og við erum öll tengd jörðinni. -
Öll framkoma okkar ætti að einkennast af virðingu fyrir lífi. - Ég er bara að tala um okkar eigin framkomu, - hver og ein/n setji fókusinn inn á við en ekki út á við núna ;-) - Okkur hættir iðulega til að fara að hugsa hvernig hinir eru að gera, hvað hinir eru vondir o.s.frv. -
Ef við förum inn á við, íhugum okkar eigin heim og jörðina okkar - líkama okkar, hvers konar "umhverfissinnar" erum við þá? -
Erum við að hella í okkur eitri?
Erum við að borða eitthvað sem veldur okkur vanlíðan?
Eitthvað sem verður til þess að við vöknum með bólgna fingur og hringar sitja fastir?
Eitthvað sem hleður fitu í kringum hjartað, - hjartað sem heldur okkur gangandi?
Eitthvað sem stuðlar að krabbameinsmyndun? -
Er okkur sama um þessa jörð? - Líkama okkar? -
Hvað ef við uppgötvum að við erum í raun umhverfissóðar, jafnvel hryðjuverkamenn?
Það er skrítið að beina athyglinni svona inn í stað þess að vera með hausinn fullan af hvað hinir eru að gera. -
Auðvitað gildir þessi aðferðafræði líka við inntöku andlegs efnis. - Eftir því meiri "sora" sem við innbyrðum þess meira rusl hleðst í kringum sálina okkar, - það verður erfiðara fyrir hana að skína, við verðum sorgmædd, þung og e.t.v. veik. - Við verðum líka veik við neikvæðar hugsanir í eigin garð, dómhörku og skömm. Skömmin byggir aldrei upp, brýtur bara niður. - Það er því mikilvægt að það sem við veljum fyrir okkur sé það sem við skömmumst okkar ekki fyrir eða fáum samviskubit yfir, - það er upphafið að vítahring vondra tilfinninga. - Ef við njótum ekki þess sem við erum að borða, sleppum því frekar. -
Njóttu meðvitað hvers munnbita! .....
- Þú getur ekki notið nema að vera almennilega svöng/svangur
- Þú getur aðeins notið þess sem þér finnst í alvöru gott
- þú hættir að njóta matarins þegar líkaminn er saddur
Við höfum val
Við höfum val um hreyfingu, mat sem örvar hvatberana okkar, hleður á okkur orku en ekki spiki og er fyrirbyggjandi fyrir sjúkdóma, val um orð til að nota í eigin garð og orð í garð náunga okkar. - (Orðin sem við beinum að náunganum virkar að sjálfsögðu sem bjúgverpill, þannig að þegar við formælum öðrum erum við að formæla okkur sjálfum) ..
............
"Í allt líf er lögmálið ritað. Þú finnur það í grasinu, í trjánum, í ánni, í fjallinu, í fuglum himins, í fiskum sjávarins; en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum" .......
"Guð skrifaði ekki lögin á blaðsíður bóka, heldur í hjörtu yðar og anda yðar. Þau eru í andardrætti þínum, blóði þínu, beinum þínum; í holdi þínu, maga, augum þínum, eyrum þínum og í hverju smáatriði líkama þíns." -
(Texti úr Friðarguðspjalli Essena, að vísu í eigin þýðingu). -
"..en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum." ..
"Guðs ríki er innra með yður." ... sagði Jesús Kristur
Byrjum því heima, byrjum á að tína ruslið úr hausnum á okkur (sérstaklega skulum við fjarlægja súrar og útrunnar hugsanir) og setja í svarta poka til brennslu á Sorpu, síðan getum við, frá og með deginum í dag, ef við erum ekki þegar byrjuð, farið að skipta út ruslinu sem við höfum innbyrt fyrir það sem nærir. -
Þegar við förum að næra okkur með góðu verður minna pláss fyrir hið vonda. -
Það sama gildir með hið andlega, það sem við veitum athygli vex!
Smá frásögn til gamans þessu tengt:
Ég sótti um embætti prests á Þingeyri. -
Þegar ég fór með umsóknina á pósthúsið, mætti ég manni sem ég hef ekki séð í mörg ár, en mamma hans er fædd og uppalin á: ÞINGEYRI
Þegar ég kom í vinnuna eftir að ég fór með umsóknina beið mín tölvupóstur frá ÞINGEYRI, en þar var aðili sem ég hafði aldrei heyrt né séð áður, að biðja mig um að halda námskeið. -
Ég kíkti á forsetaframbjóðendasíðu Þóru Arnórs, og það eina sem ég sá þar var að hún var á leiðinni til ÞINGEYRAR.
Og rúsínan í pylsuendanum: Ég fór að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði og þar var auglýsing upp á vegg "Harðfiskur frá ÞINGEYRI" ...
Öll þessi athygli vegna þess að ég veitti því athygli! -
Þið þekkið það eflaust einhver að hafa keypt nýjan bíl og þá fyrst takið þið eftir öllum hinum sem eru eins. -
Ef við erum með orð eins og LEIÐINDI í höfðinu á okkur, þá veitum við vissulega öllu því leiðinlega athygli. - Ef við erum með orð eins og GLEÐI í höðinu á okkur þá veitum við gleðinni athygli. -
Hvort viltu hafa JÁ eða NEI í höfðinu? -
Það sem við veitum athygli VEX
Við getum nært hið jákvæða og við getum að sama skapi nært hið neikvæða.
Við getum nært gleðina og við getum nært sársaukann.
"Be the change ... " sagði Gandhi.
Dagur jarðar er þinn dagur, hver stund er þín stund, hver mínúta er þín mínúta og hver sekúnda er þín sekúnda, tileinkuð þér. - NÚNA -
Jörðin nærir þig, og þú nærir jörðina. -
Verum góð næring fyrir hvort annað.
Móðir vor sem ert á jörðu,
Heilagt veri nafn þitt.
Komi ríki þitt,
Og veri vilji þinn framkvæmdur í oss,
eins og hann er í þér.
Eins og þú
sendir hvern dag þína engla,
sendu þá einnig til oss.
Fyrirgefið oss vorar syndir,
eins og vér bætum fyrir
allar vorar syndir gagnvart þér.
Og leið oss eigi til sjúkleika,
Heldur fær oss frá öllu illu,
því þín er jörðin
Líkaminn og heilsan.
Amen "
(Bæn úr Friðarguðspjalli Essena í þýðingu Ólafs frá Hvarfi)
Gerum hreint fyrir okkar dyrum, gerum hreint innra með okkur. Komum svo til dyranna eins og við erum klædd, við höfum ekkert til að skammast okkar fyrir. -
Semjum um frið, hið innra og hið ytra.
Gefum okkur gaum, gefum náunganum gaum, gefum jörðinni gaum, gefum lífinu gaum... gefum.
Gleðilegan dag jarðar!
![]() |
GRÆNN APRÍL að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.4.2012 | 09:22
Samviskufrelsi presta í íslensku Þjóðkirkjunni og Kung Fu
Ég trúi því að samhugur, eða samhygð sé ákveðinn staðall fyrir þroska. Það sama gildir að geta sett sig í spor náungans en það þýðir auðvitað að sjá málin frá hans sjónarhóli og leitast við að skilja á annan hátt en sinn eigin. -
Mikið hefur verið fjallað um það á síðum presta, guðfræðinga og djákna og víðar reyndar, hvort að þjóðkirkjuprestar eigi að komast upp með það að vígja ekki samkynhneigð pör, karl og karl, eða konu og konu í hjónaband þegar að þjóðkirkjan hefur samþykkt það. -
Frá minum sjónarhóli séð, finnst mér afdráttarlaust að líta eigi eins og á vígsluna, það séu ekki forsendur til að neita henni, það sé bara lóð á vogarskálar kærleikans í heiminum að vígja þær eða þá saman í hjónaband sem vilja heita hvort öðru ást, virðingu og trausti fyrir augliti Guðs. -
En af hverju hugsa ekki allir eins og ég? - Kannski sjá þeir annað og hafa fengið aðra "forritun" - Þeir standa á öðrum sjónarhóli og í öðrum sporum. -
Þau fluttu e.t.v. í fjölbýlishúsið þegar að reglurnar voru aðrar og nú er búið að breyta reglunum og þau þrjóskast við að fara eftir þeim "Þetta er ekki það sem ég skrifaði undir upphaflega" .. gæti einhver sagt.
Þau finna ýmislegt í reglugerðum sem passar ekki, og það er einhver skekkja í hausnum á þeim - því að forritið segir það. -
Getum við haft samhygð með þessu fólki? - Eða er þetta bara þrjóska? - Getum við haft samhygð með fólki sem hefur ekki samhygð með samkynhneigðum pörum? -
Eða er trúin á lögmálið það sem fólk rígheldur sér í, sem veldur það að það getur ekki samvisku sinnar vegna vígt karl og karl í hjónaband eða konu eða konu? -
Hvað með nýju reglurnar í húsfélaginu? - Verður fólkið að virða þær eða á það ekki heima lengur í blokkinni? -
"Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn't it is of no use."
Carlos Castenada
Hvað með nýju reglurnar í kirkjunni, - hvernig væri að skoða þær með gleraugum kærleikans. - Eða af sjónarhóli kærleikans. -
Er þetta vegurinn eða ekki? -
Jesús sagði ég er sannleikurinn, vegurinn og lífið - enginn kemur til föðurins nema í gegnum mig. -
Ég vel að túlka það að Jesús (Guð sem maður) sé að segja þetta fyrir allar manneskjur, ÞÚ ert vegurinn, sannleikurinn og lífið. - Ef við höldum okkur á veginum, erum sönn, heil, hugrökk og komum fram af heilu hjarta - erum við ekki aðeins á veginum, þá erum við vegurinn. - Jesús sagði: "Ég er dyrnar" - "Þú ert dyrnar" - að Guði. -
"Sá sem þekkir sjálfan sig þekkir Guð" - sagði Pýþagóras. -
"Guðs ríki er innra með yður." - Hvað er það annað en að guðsríki er í okkur og að við erum vegurinn.
Það væri ósanngjarnt gagnvart þeim sem fæddist á þeim stað í heiminum sem engin Biblia væri til, og enginn Jesús kenndur að sá aðili sem þar fæddist kæmist ekki til föðurins, vegna þess að hann þekkti ekki Jesú. -
Faðirinn sem er Guð, móðirin sem er Guð, heimurinn sem er Guð og lífið er Guð. -
Eckhart Tolle talaði um að Guð væri misnotað og ónýtt hugtak og því notaði hann það helst ekki, þó hann "slysist" stundum til þess. - Hann talar m.a. um Being í staðinn, verund eða veröld? - Er það ekki bara tilveran sem er Guð, eða heimurinn? -
Hver manneskja er vegurinn, tvær fullveðja manneskjur sem óska þess að heitbindast og verða hjón með kirkjulegri athöfn fyrir augliti Guðs með milligöngu kirkjunnar þjóns, eru að ganga veg kærleikans. Hvers vegna að stöðva það? - Álíta einhverjir að það sé vegur glötunar? -
Þessi hjón geta ekki átt börn með hefðbundum getnaði, en það gildir líka um mörg gagnkynhneigð pör og þau eru ekki spurð hvort þau, konan eða karlinn sé örugglega frjó, hvað þá hvort þau ætli sér að eiga börn. Þannig að þau rök duga skammt. Ekki myndi neinn stöðva mig í að giftast í annað skipti, þó það sé útséð að ég beri fleiri börn vegna aldurs. -
Þessi pistill, eins og svo margir aðrir, varð lengri en upphaflega var farið af stað með. - Ég játa að ég á erfitt með að setja mig í spor þeirra sem samvisku sinnar vegna geta ekki treyst sér til að vígja eftir nýjum reglum. Ég get sett mig í spor allra sem vilja gifta sig, kvenna og karla. - ;-) ..
Ég skil að hjónabandið er mörgum heilagt, eða ætti að vera það. -
Spurningar sem eftir standa:
1) Á að þvinga þessi fáu sem ekki vilja lúta reglum, samvisku sinnar vegna, til að fara eftir reglum eða leyfa þeim að vera áfram á undanþágu?
2) Á að loka á undanþágur og reka þau úr þjónustu kirkjunnar?
3) Getur Þjóðkirkja staðið undir nafni sem ekki er tilbúin að þjóna öllum jafnt? - Hvað ef hún væri veitingahús og það væri veitt samviskufrelsi til að þjóna ekki samkynhneigðum?-
Við í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema horfðum á áhugaverða danska mynd í gær, þar sem forn feðraveldismenningarheimur múslima mætti hinum frjálsa menningarheimi. -
Ung múslimastelpa, Aicha, fór að læra Kung Fu í óþökk foreldra sinna, og í þokkabót í blönduðum hópi drengja og stúlkna. Lærimeistarinn var af austrænu bergi brotinn. -
Í hópnum voru flestir danskir að uppruna og eflaust kristnir, en einn strákur, Omar, var múslimi. Hann neitaði að slást við stelpuna. - Lærimeistarinn rak hann þá út, en ekki Aichu. -
Staðfesta Omars við lögmálið var slík að hann gat ekki samvisku sinnar vegna tekið Kung Fu slag við stelpu. - Heilindi lærimeistarans voru þau að allir voru jafnir, konur og karlar. -
Það skal þó tekið fram að Omar sá að sér síðar og tók slaginn. -
Hann þurfti bara að sjá og skilja.
Það er ákveðinn hroki í því að spyrja eins og ég spurði hér áðan
"Af hverju hugsa ekki allir eins og ég?"-
Kannski þurfum við að gefa fólki tækifæri á að sjá og skilja, menningin breytist hraðar en fólk ræður við eða uppeldi þeirra eða trúarsannfæring segir til um. - Það eru átök að sleppa því sem búið er að læra, eða að aflæra það. -
(Atriðið milli Aichu og Omars er í seinni hlutanum)
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2012 | 23:07
Þögli morðinginn .. of hár blóðþrýstingur! -
Ég má til með að vekja athygli á mjög áhugaverðum pistli fyrrverandi nemanda míns úr Hraðbraut, - Elísu Elíasdóttur.
Elísa kynnir blogg sitt m.a. með:
"Nemi í Lífefna- og sameindalíffræði við HÍ. Hef mikinn áhuga á heilsu og næringu. Þetta er vettvangur minn til að miðla því sem ég er að kynna mér og læra tengt heilsu."
Morðingja (Þögla eða hávaðasama ber að draga úr greni sínu svo endilega kynnum okkur þennan).
Smellið HÉR til að lesa blogg Elísu um háþrýsting og mataræði. -
Smellið HÉR til að lesa blogg Elísu um heilnæmi lárperu (Avocado)
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2012 | 13:14
Jesú verður ekki úthýst ...
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.4.2012 | 15:24
Upp, upp mín sál og allt mitt geð, - úr kviksyndi neikvæðra tilfinninga og hugsana. -
Stutta útgáfan af pistlinum:
1) Slepptu tökunum af neikvæðum hugsunum sem sökkva þér dýpra í kviksyndið, hættu að hugsa þig niður.
2) Klifraðu upp með jákvæðum hugsunum, farðu að hugsa þig upp.
3) Haltu við jákvæðninni með því að gera það að nýjum sið.
Og svo lengri útgáfan:
Ég rifjaði upp kynni mín af bókinni, Women who think too much en systir mín lánaði mér hana eða gaf, nú man ég ekki hvort, fyrir mörgum árum síðan. Hvers vegna skyldi það nú vera?
Það er ekki neikvætt að hugsa mikið, rökrétt eða djúpt svona almennt talað, en þegar hugsanirnar eru farnar að snúast um: Hvað ef? áhyggjur af því sem kannski aldrei verður og niðurbrot eru þær farnar að vinna gegn þér. Það er þegar við erum farin að hugsa t.d. samtöl fyrirfram, eins og sagan sem margir þekkja um manninn og tjakkinn. -
Þó bókin sem ég minntist á í upphafi fjalli um konur sem hugsa of mikið, þá á það svo sannarlega við um karla líka eins og hann Lárus:
Lárus var á ferð upp í sveit og lenti í því að það sprakk dekk á bílnum. Það var leiðindaveður og þegar hann ætlaði að skipta um dekkið uppgötvaði hann að tjakkinn vantaði.
Nú voru góð ráð dýr! Lárus ákvað að ganga að næsta bæ til að fá lánaðan tjakk. Afleggjarinn heim að bænum var nokkuð langur og hann fór að hugsa. Fyrst fór hann að velta fyrir sér hvort einhver væri heima og ef einhver væri heima hvort það væri til tjakkur á bænum. Það var komið kvöld og hann hafði áhyggjur af því að hann myndi vekja heimilsfólkið og bóndinn yrði pirraður því hann þyrfti að vakna snemma um morguninn til að fara í fjósið.
Þessar hugsanir ollu því að það var orðið nokkuð þungt yfir Lárusi og hann bjóst við slæmum viðbrögðum af bóndanum. Hann var sjálfur orðinn pirraður og neikvæður. Bankaði samt á dyrnar og í dyrunum birtist bóndinn. Áður en bóndinn náði að spyrja erindis, hreytti Lárus út úr sér: Þú getur bara átt þinn helv . tjakk sjálfur!
Þetta var dæmi um neikvæðan hugsanagang, en hann getur birst í svo mörgum myndum.-
Hugsanir eins og Ég á þetta ekki skilið Hvað þykist ég eiginlega vera Jeminn, hvað fólki á eftir að finnast ég mikið fífl Mér tekst aldrei neitt - Hvað eins og að þýði eitthvað fyrir mig að lesa pistil, ég tileinka mér aldrei neitt gott! .. grafa okkur dýpra ..
Þegar við upplifum að við erum stödd á þessum stað, að við séum hreinlega að sökkva, þurfum við að átta okkur á því að það eru hinar neikvæðu, útrunnu og skemmandi hugsanir sem hafa þessi áhrif.
En Hvað get ég gert? - Horft til himins? ´eins og svarað er svo skemmtilega í ljóði hljómsveitarinnar Nýdönsk? -
Bölmóðssýki og brestir
bera vott um styggð.
Lymskufullir lestir
útiloka dyggð.
Myrkviðanna melur
mögnuð geymir skaut.
Dulúðlegur dvelur
djúpt í innstu laut.
Dvelur djúpt í myrkviðanna laut.
Varir véku að mér
vöktu spurnir hjá mér.
Hvað get ég gert?
Horfðu til himins
með höfuðið hátt.
Horfðu til heimsins
úr höfuðátt.
Bölmóðssýki og brestir
Heyrðu heimsins andi
harður er minn vandi.
Hvað get ég gert?
Horfðu til heimsins
berðu höfuðið hátt.
Horfðu til heimsins
úr höfuðátt.
Og það eru til fleiri góðir textar
Mamma vakti okkur krakkana á morgnana með fyrstu línunni úr passíusálmi Hallgríms Péturssonar:
Upp, upp, mín sál og allt mitt geð
Við verðum að sleppa tökum á neikvæðu hugsununum, horfa upp en ekki niður.
Það getur verið snúið að hætta í neikvæðninni, þegar við áttum okkur á að við erum komin í kviksyndið, við gætum farið að ásaka okkur fyrir klaufaskapinn, skammast okkar o.s.frv. en það sekkur okkur að sjálfsögðu enn dýpra. -
Því er mikilvægt að sætta sig við ástandið, ekki dæma sig, heldur fyrirgefa, og ef að neikvæðar hugsanir sökkva okkur, þá hljóta þessar jákvæðu að koma okkur upp! -
Við getum líka séð þetta eins og við séum nagli í spítu, og við berjum okkur sjálf í hausinn með hamrinum með neikvæðninni eða veljum að nota hamarinn á jákvæðan hátt og togum naglann lausan. -
Þegar við erum laus, má ekki hætta í viðhaldinu! -
Við höfum val hvernig við nýtum hamarinn, til góðs eða ills. -
Þessi pistill er skrifaðu á föstudaginn langa, en þá minnumst við þess að Jesús var krossfestur, en á páskadag fögnum við upprisu Jesú Krists til eilífs lífs. -
Hvernig væri að þú leyfðir þér að gleðjast yfir þínu eigin lífi og fagna þinni eigin upprisu, sem er reyndar í boði á hverri einustu sekúndu, hverri mínútu, hverjum tíma og hverjum degi og byrja hvern dag með þessum orðum skáldsins:
Upp, upp, mín sál og allt mitt geð ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2012 | 12:40
Þökk sé þeim sem þjóna þeim sjúku og öldnu
Eftir að ég lauk guðfræðinámi mínu árið 2003, fékk ég starf við aðhlynningu aldraðra á sambýlinu Eirarholti, sem er einn af þjónustukjörnum á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. - Ég starfaði þar í tæpt ár, eða þangað til að mér var boðið annað starf og 100% hærri laun. -
Ég hef oft hugsað hvað það væri hollt að hafa ummönun aldraðra eða þjónustu við þá sem skyldufag, eða a.m.k. valfag í framhaldsskólum, eða jafnvel háskólum. -
Ég lærði mikið í guðfræði í háskólanum, en ég skildi guðfræðina og þjónustu hluta hennar fyrst af alvöru þegar ég fór að starfa á Eir. -
Fótaþvotturinn
Ég man eftir að vinkona dóttur minnar bauð mér að halda "Volare" kynningu, og í því fólst fótabað. - Hún mætti heim og fyllti bala fyrir okkur allar og setti eitthvað dásamlegt dauðahafssalt í balann, eða hvað það var og svo fengum við krem og alls konar lúxus.
Það er svo skrítið að þegar fæturnir á manni eru í lagi, þá virkar það oft á allan kroppinn. -
Mér varð fljótlega hugsað til gamla fólksins á Eir og sérstaklega til einnar góðrar vinkonu minnar. Því var það það við fyrsta tækifæri að ég bauð henni upp á fótabað.
Þar sem ég kraup við fætur hennar og nuddaði með ilmandi kremi eftir að hún hafði notið þess að hvíla lúnu æðaberu fæturnar, sem höfðu borið hana í gegnum langt líf, upplifði ég það hvað það fólst í þjónustunni við aðra og hvað verið var að tala um í Biblíunni.- "Berið hvers annars byrðar" ..
Þetta fyllti mig af vellíðan, að finna hvað henni þótti þetta gott og að hafa getu til að auka á virðingu hennar og lífsgæði.
Ég upplifði þetta ekki bara einu sinni, heldur í hvert skipti sem ég hafði tækifæri til að hjálpa fólki með virðingu að fara í baðið sitt, sem sumir áttu mjög erfitt með. -
Þetta starf er ekki einungis svona þakklát, það skal tekið fram, því þetta er oft mjög mikil erfiðisvinna og reynir bæði á líkama og sál. Það eru ekki alltaf allir samvinnuþýðir, og það getur reynt bæði á andlegt og líkamlegt þrek. -
En þeir sem hafa upplifað það að þjónusta fólk, ekki bara andlega, heldur líkamlega, hvað það þarf mikla þolinmæði, auðmýkt og virðingu. -
Ég minnist þessa alls nú á skírdegi, - sem er nefndur skírdagur m.a. í minningu þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna, - en orðið skír merkir í raun hreint, óblandað, skær, bjartur/björt, saklaus. -
Upprunalega orðið á grísku er katharsis, skrifað á grísku κάθαρσις sem þýðir m.a. hreinsun. Það á uppruna í sögninni καθαίρειν, kathairein, að hreinsa, eða gera tært jafnvel. -
Jesús þvær fætur Péturs. Mynd eftir málarann Ford Maddox Brown (1821-1893).
--
24Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. 25En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. 26En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. 27Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
Í mínum huga er fólkið sem þjónar öfum okkar og ömmum, mömmum okkar og pöbbum fólkið sem kemst næst því að lifa í þeim kristilega kærleiksanda að þjóna og elska náungann eins og sjálfan sig. Vissulega er það starf, en launin segja eiginlega frekar að þarna sé um þræla og ambáttir að ræða, enda má benda á það að orðið embætti er komið af orðinu ambátt, líka forseta-og biskupsembætti. -
Þjónustan er því göfugusta starfið, en því miður virðist heimurinn oft ekki sjá það, eða a.m.k. ekki meta það til þeirra launa sem fólk í þjónustu á skilið. -
En hver og ein/n sem hefur þjónað hinum gamla og/eða sjúka veit hvað ég er að tala um. -
Ég vil því þakka því starfsfólki sem leggur líf sitt í það að þjóna á hjúkrunarheimilum, þjóna á spítölum, þjóna fólki í neyð, hvort sem það er andlega eða líkamlega. Því það á svo sannarlega virðingu og þakklæti skilið og að sjálfsögðu að fá mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2012 | 15:36
Ég styð Þóru
Eftirfarandi skrifað Stjáni Blö í athugasemd á DV:

![]() |
Þóra ætlar í framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.4.2012 | 17:50
Jákvæð umræða í aðdraganda forsetakosninga
Allir Íslendingar sem hafa náð sjálfræðisaldri fá að kjósa forseta landsins.
Forseti er yfirleitt kallaður veraldlegur leiðtogi. En í mínum huga vantar þjóðina ekki síður andlegan leiðtoga og fyrirmynd. Forseta sem veitir hinu jákvæða athygli, án þess að afneita hinu neikvæða.
Alþingismenn eru fæstir að veita slíka fyrirmynd og ef eitthvað er, eru þeir fyrirmynd í neikvæðni sumir hverjir og samskiptum sem eru ekki til eftirbreytni.
Forsetaembættið er æðsta embætti þjóðarinnar. -
Jörðin er ekkert án himins og himinn ekkert án jarðar. Hið veraldlega er ekkert án hins andlega og hið andlega ekkert án hins veraldlega. Þetta verður ekki sundur slitið hvað mennskuna varðar. -
Búin hefur verið til síðan "Hvetjum Þóru Arnórsdóttur í framboð til forseta Íslands. Þar mynduðust góðar umræður um hvernig "baráttan" ætti að vera og komu margir með þó ósk að umræðan laðaði fram kosti væntanlegs frambjóðanda en væri ekki að setja út á, eða finna galla hjá hinum frambjóðendunum. -
Það finnst mér til fyrirmyndar - og líka til fyrirmyndar fyrir pólitíkusuna! -