"Make love - Not War"

Eftirfarandi hugvekju skrifaði ég fyrir aðventukvöld í Innri-Hólmskirkju í desember sl. en Þegar ég kom á staðinn,  sá ég að  a.m.k. 50% kirkjugesta var  frá 7 - 15 ára  og mér fannst ekki á þau leggjandi að lesa svona langa ræðu fyrir þau.  Ég lagði hana því til hliðar og sagði frá henni efnislega á einfaldaðri hátt, en kjarninn er um að veita elskunni og því góða athygli en virða ekki óttann eða hið illa viðlits,  því það sem við veitum athygli vex og dafnar.  Það væri hægt að snúa út úr þessu og spyrja hvort það sé ekki afskiptaleysi,  en að sjálfsögðu verðum við að takast á við hið illa þegar það bankar upp á, horfast í augu við við það -  taka síðan stjórnina en ekki láta það stjórna okkur. 

Ég tók út það sem ég heimfærði upp á kvöldið og staðhætti - og ætla nú að birta hana, því mér finnst hún hafa erindi,  ekki aðeins til mín heldur líka til þín. Ég vona að hann gefi þér eittvað og það sem kemur frá mínu hjarta nái í þitt hjarta.  Þá er ég glöð. 

 -0-

Ég ætla ég að tala aðeins um lífsgönguna,  eða gildin sem við tileinkum okkur á lífsgöngunni, á leið okkar frá fæðingu til dauða.

Innblástur minn í þessari hugvekju  er æskuvinkona mín sem lést úr krabbameini fyrir liðlega tveimur árum síðan, en sem lifði svo fallega og kunni að njóta þess að lifa.  Það var svo gaman að fá sér göngu með henni því hún tók eftir því fallega í umhverfinu. Ég held að vísu að það hafi aukist eftir að hún veiktist og vissi að hún átti ekki mörg ár ólifað.  Við gátum líka svo sem alveg gleymt okkur á göngu,  því það var svo margt sem við höfðum að segja.

Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft lífsgöngu viðkomandi.  Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn svangt í lífdaga, ekki satt?

Einhvern tímann skrifaði ég um menntaveginn sem væri hægt að ganga eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum svona u.þ.b. fyrirfram hvað á að taka langan tíma. Ekki komast allir á leiðarenda,  heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og falla því fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu; sér engan tilganginn í að halda áfram.

Það sem dregur helst úr mér persónulega á þessari lífsgöngu eru vondu öflin. Illskan, hatrið og óttinn,  hið illa sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.

Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og hver er tilgangur þinn í lifsgöngunni ?

Er svarið ekki fólgið í því að elskast en ekki slást? "Make love - Not War"

Er tilgangurinn að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri gefa gott og elska því betra. Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.

Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.

Hin góðu gildi eru ást, heilindi, hugrekki, traust, vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim svo sannarlega líka að kenna okkur.

Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum heldur ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg.

Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins -  njóta þess að vera þar sem við erum og njóta þess sem við erum að gera þessa stundina, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú og vera í meðvitund.

Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska, elska sig og elska aðra.

Það er alveg í samræmi við kjarna kristins siðferðisboðskapar, boðskapar um að elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf, elska EINS OG,   ekkert meira en eða minna en. Elska EINS OG.   Guð væntir þess af okkur að við elskum og virðum okkur sjálf til þess að við getum elskað náungann.

Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða. Allt sem við vökvum, og veitum með því athygli, dafnar, þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, vonina, gleðina, hugrekkið og við verðum að vökva elskuna. 

Senda fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar. Sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við áhyggjur okkar (auðvitað óviljandi) í þau sem okkur þykir vænt um.

Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka.

Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir ferska loftið, tæra vatnið og það sem við höfum hér á Íslandi.

Hreint vatn og loft er grundvöllur fyrir heilbrigða lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar;  líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman.  Mikið getum við verið þakklát fyrir allt þetta hreina vatn og loft, hér á Íslandi!

Það er ekki fyrr en að líkaminn gefst upp að andinn heldur áfram göngunni, án líkamans. Þessu eru ekki allir sammála, en þetta er það sem mér finnst.

Af hverju segi ég loftið sem ég anda að mér segir mér það? ..  Það er vegna sérstakrar upplifunar sem ég fékk nýlega. Ég var að ganga heim eftir fallega samveru í Dómkirkjunni þar sem var verið að minnast fórnarlamba sjálfsvíga. Þar sem ég gekk upp Túngötuna, þá fannst mér sem ég hreinlega fyndi fyrir Guði í andvaranum og þetta hefur fylgt mér svo sterkt. Sr. Auður Eir hefur skrifað ljóð um vináttu Guðs sem er eins og blíður blærinn og þarna skildi ég hvað hún var að tala um.

*Vináttan er mikilvæg, vinátta Guðs er órjúfanleg – að minnsta kosti frá Guðs hálfu.  En við eigum líka mikilvæga vináttu í samferðafólki okkar. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt sem ég kynnist, flestir hafa eitthvað að gefa.

Ég hóf þessa hugvekju mína á að tala um vinkonu mína, en Unnur vinkona mín naut sinnar lífsgöngu. Það var m.a. hún sem kenndi mér að njóta umhverfisins, njóta dagsins og upplifa lífið sem ævintýri, enda var hún ævintýraprinsessan sem ég kynntist á minni lífsgöngu.

Verum þakklát fyrir alla þá sem koma svona inn í okkar líf og gera okkur ríkari með sinni vináttu og leitumst við að glæða líf okkar samferðafólks örlitlum töfrum.

Að lokum; verndum börnin - setjum þau í forgang,  kennum þeim að klæða sig eftir veðri og vindum sem koma til með að herja á þau á lífsgöngunni,  kennum þeim að velja sér „ferðafélagana“ eins og elsku, von, traust, hugrekki og gleði, verum góð fyrirmynd og kennum þeim að ganga sjálfum, taka ábyrgð og hjálpum þeim að byggja sterka sjálfsmynd.

Mig langar svo að tileinka þessa hugvekju  þeim sem við elskum og hafa kvatt okkur. 

  lokum langar mig að minnast á englana á lífsgöngu okkar, því að englar eru ómissandi, hvort sem þeir eru sýnilegir eða ósýnilegir.  Sýnilegir englar eru auðvitað fólk sem er alltaf að hjálpa okkur og styðja.  Fólkið sem við erum með akkúrat í dag,  og við eigum að njóta í dag, því eins og máltækið segir "enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" ..

Eigum góða viku framundan og bara lífið allt, öndum að okkur Guði, vonum hið besta og gefum hvert öðru bros að gjöf. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 22.8.2010 kl. 12:51

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Það er algengt stef í búddisma: að maður eigi að muna að vera til staðar þegar maður lifir lífinu, eins og mér þykir þú vera að segja um vinkonu þína heitna. Það er hljómar einmitt í mínum eyrum eins og meiri viska en margt annað.

Falleg og umhyggjusöm skrif, eins og svo oft frá þér, Jóhanna.

Thumbs up.

Kristinn Theódórsson, 22.8.2010 kl. 15:35

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Fallegt skrifað og skemmtilegt að lesa. Minnir mig á aðra Unni sem líka dó úr krabbameini. Sem var listamaður og sá hlutina öðruvísi. Og skildi eftir sig myndir aqf því sem hún sá...

Óskar Arnórsson, 22.8.2010 kl. 21:59

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásdís, elska að fá svona hjörtu ;-)

Þakka þér Kristinn fyrir falleg orð í minn garð, ætli ég sé ekki svona semi-búddisti (ekki það að það þurfi að flokka mig neitt ;-) )

Þakka þér Óskar, við erum oft sammála.

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.8.2010 kl. 15:04

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 24.8.2010 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband