Blaður um Boston, bleika hanska og beljukápu....

í gærmorgun vaknaði bloggritari snemma og hugðist skúra, skrúbba og bóna í tilefni thrif_1019606.jpgmenningardags,  en á hana leituðu hugsanir vegna ummæla biskups og hugsanir vegna stöðu þjóðkirkjunnar,  svo hún fór að skrifa heilan helling um afstöðu sína í því máli.  Það má lesa hér.  Það er augljóst að þetta heldur fleirum frá skúringum, eða hverju sem þeir gætu verið að taka sér fyrir hendur,  því að met voru slegin í heimsóknum á síðuna og var heimsóknarsúlan hærri en elstu menn muna. Hef að vísu ekkert borið þetta undir gamla menn, svo það hlýtur þá bara að vera minni hennar sjálfrar sem um er rætt.

Fyrir utan það að "afreka" þessar játningar,  átti ég frábæran dag með sumu af mínu uppáhaldsfólki. Já,  ég ákvað að breyta yfir í  fyrstu persónu - það er einhvern veginn auðveldara að skrifa þannig. 

Ég hitti, eftir langan tíma,  góðan vin sem er fyrrverandi dönskukennari Hraðbrautar, og er ég svona "hálfmamma" hans á Íslandi - því hann er aðeins 25 ára og foreldrar hans í Danmörku. Við erum í raun öll mömmu og pabbar hvers annars! ..  Við borðuðum gott salat á Café Paris, en ég held ég sé farin að drekka kaffi þar oftar en í eldhúsinu heima.  Veðrið var mun betra inni en úti, þ.e.a.s. út um gluggann virkaði það hlýtt en kalt var út.  

Á leiðinni heim frá Café Paris rambaði ég inn í Gyllta köttinn og mátaði þar beljukápu eða réttara sagt  Kálfsskinnskápu sem var í boði á 50% afslætti.  Þvílíkum díl er vart hægt að hafna.  Hún var mjög flott - "made for me"  nema þar sem konan er óþarflega handleggjalöng (eflaust vegna skyldleika við apa)  voru ermarnar of stuttar.  Ég og kápan kvöddumst því með tárum. 

Síðar um daginn gerðist ég meira menningarleg ásamt systrunum tveimur og röltum við um stíga Skólavörðuholtsins og hlýddum á söng,  kíktum á hönnuði og önduðum að okkur hvössu og köldu menningarloftinu..  Þaðan lá leiðin á Laugaveginn og í því að hendur okkar voru að detta af vegna kuls sáum við tilboð sem ekki var hægt að hafna:  "Hanskar 3 fyrir 2" .. 

pink%20leather%20gloves

Ég keypti mér bleika,  Hulda systir rauða og Lotta svarta.  Síðar fékk ég hrós frá afgreiðslumanni í 10-11 um fegurð hanska minna.  Þeir eru víst svolítið "outstanding"   .. en allir hafa sinn smekk og þegar ég kom heim tilkynnti dóttir mín mér að "þeir væru ekki fallegir"..  En þarna stalst ég fram fyrir í frásögninni,  þar sem beljukápan verður að fá pláss. 

 

Eftir að hafa yljað okkur á súpum í nýju kaffihúsi á Laugaveginum,  gengum við röskar heim á leið en ég hafði að sjálfsögðu sagt systrunum frá beljukápunni og nú vildu þær sjá kusu. 

Ég mátaði og var að sjálfsögðu gjörsamlega fallin,  flíkin var ómótstæðileg og Hulda systir - hönnuðurinn sjálfur,  var ekki lengi að bjarga málum.  Beltið var óþarft  - það yrði saumað sem rönd framan á ermarnar.  Voila!!.. kápan í poka og beint yfir á saumastofu á Hallærisplaninu sem heitir víst Ingólfstorg núna og í gamla daga Hótel Íslandsplanið.  Af hverju er alltaf verið að breyta þessu? Spurning um að fá borgarstjóra til að skoða það. 

Kápan kostaði 14.800 en það kostar víst 6.500 að lengja ermarnar eða tæplega hálfa kú.  En systurnar fullvissuðu mig um að það væri þess virði - og hverjum er ekki treystandi ef ekki systrum sínum. 

Þess má geta að sparnaðarplön mín voru ekki virt í gær! 

Þegar ég kom heim kom Simbi fagnandi - væri til í að eiga karl sem yrði svona fjarska glaður þegar ég kæmi heim,  en það er annar handleggur.   En áttaði mig þá á því að kápan er í raun alveg eins á litinn og með sömu áferð og feldur Simba!  Váts hvað við verðum í stíl! 

Ég sleppti kvöldrölti og flugeldasýningu en faðmaði í þess stað sófann minn og horfði á heimilisvinina Doktor Gunna og Felix og heilsaði upp á Facebookvini.  Sá hreinlega enga þeirra á röltinu.

vala_flugfreyja_1019608.jpgNú er kominn nýr dagur,  og er ég á leið til Boston,  hvorki meira né minna.  Með flottu stelpunni minni sem verður flugfreyja í fluginu.  Ég mun ekki þurfa að kvarta undan þjónustunni,  enda hún flugfeyja til fyrirmyndar (er mjög hlutdræg vegna skyldleika). Ég vona að Icelandair fyrirgefi mér þó ég hafi klippt hana út úr auglýsingunni þeirra! 

Ég á víst eftir að pakka og gera mig klára - ekki má ég vera stelpunni  til skammar.  Þetta verður stutt Ameríkuheimsókn,  svo ég næ ekkert að heilsa upp á Obama í þetta skiptið.  Svona algjört fram og til baka ævintýri,  en það skemmtilegasta verður að sjálfsögðu að eiga móður-dóttur ævintýri. 

Verið stillt og góð og  forðist öll eldgos og svoleiðis vitleysu á meðan ég er í burtu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég er ekkert hissa þótt heimsóknir á síðuna þína hafi verið margar í gær, því þetta var þrusugóður pistill

Góða ferð til Boston Cheers og góða skemmtun

Sigrún Jónsdóttir, 22.8.2010 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband