Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Tvítyngdur hundur?

Vala hundaeigandi fór að heimsækja systur sína til Danmerkur og skyldi síðueiganda eftir með hundinn Simba. Simbi er skemmtilegur hundur, búinn að lifa tímana tvenna þó hann sé aðeins tveggja ára gamall. Ferlega klár og skemmtilegur eeeennn...  óþekkur og/eða mikill leikur í honum.  Hann slær á móti þegar þú segir "Give me five"  .. kann að leika að hann sé dauður, hoppar í hringi þegar sagt er "turn around" og fleiri sirkusatriði.  Hann er sko tvítyngdur því hann fæddist og ólst upp í henni Ameríku og er bara búinn að búa á Íslandi síðan 27. maí sl.  svo skipanir eru flestar á amerísku, en auðvitað lærir hann líka að hlýða íslenskum skipunum (vonandi). 

Hann er fullvaxinn,  en flestir álíta hann hvolp. Hann er þó mun stærri en chiuaua og geltir ekki eins mikið, en hann geltir því miður stundum hér heima þegar hann verður var við hunda úti eða fólk frammi á gangi. Það er þetta blessað varðhundaeðli (Nú eða bara frekja).

Við Simbi höfum farið í göngur á hverjum degi, lágmark 40 mínútur.  Sl. sunnudag fórum við Hulda systir í hressingargöngu út á Gróttu  og ég ákvað að leyfa orkuboltanum (hundinum, ekki systur minni) að hlaupa í fjörunni. Hann hljóp eins og hann átti lífið að leysa fram og til baka, í hringi og næstum kollhnís.  En svo kárnaði gamanið hjá mér þegar ég ætlaði að setja á hann ólina aftur!  Ég hef bara átt hunda sem koma þegar kallað er, en hann tekur það sem leik og lætur mig sko ekkert ná sér. Frekar neyðó! LoL 

Við systir settumst að lokum niður á sitt hvorn steininn, en þá var liðin drykklöng stund frá því að ég ætlaði að koma böndum á hvutta og þá kom hann loksins af forvitni og Hulda náði að krækja í hálsólina hans. 

Í dag gerði ég þetta aftur, það er að segja sleppti honum, en var mætt með hundanammi og viss um að hann myndi gleypa við því og þá gæti ég gripið í ólina.  En ekki að ræða það einu sinni, hvorki á íslensku né amerísku. 

Ég hélt á tímabili að það mætti enn "finna mig í fjöru" í fyrramálið.  En náði yfirhöndinni að lokum. 

Ég er að hugsa um að leyfa honum bara ekkert að hlaupa aftur, það er svo stressandi. 

 _mislegt_juni_2010_008.jpg

Hann lítur nú út fyrir að vera risahundur á þessari mynd, en kannski er það vegna þess að hann hefur svo mikið sjálfsálit! 

Nú langar mig í lítið sætt hús með garði,  hund, kött og kall! Wizard


Sameinuð fjölskylda

Ég ætlaði að hafa titilinn "dreifð fjölskylda" sem mín vissulega er,  en vonast til að með jákvæðum titli "sendi ég boð út í alheiminn" við getum komið öll saman fyrr en síðar.  Ég er aldrei ánægðari en þegar við getum öll komið saman,  en auðvitað erum við saman í anda, en það er það sem skiptir mestu máli. 

eg_me_born_bru_kaup.jpgSjálf, 14. ágúst sl. í brúðkaupi Evu og Henriks ásamt börnum og tengdabörnum. 

Eva mín og Henrik búa í Danmörku með barnabörnin  tvö og það er erfitt að hitta þau svona sjaldan.  Á móti kemur, að þegar ég fæ tækifæri til heimsókna er ég mikið með þeim.  Ég hef nú bókað "one way ticket" til Danmerkur 14. júlí og veit ekkert hvenær ég kem til Íslands aftur.  Áður en ég fer utan á ég von á þriðja barnabarninu hér á Íslandi, en það er um miðjan júní,  þannig að þá fæ ég væntanlega að njóta nærveru barnabarns oftar. 

Það eru margar ömmur og afar að horfa á eftir barnabörnunum sínum til útlanda þessa dagana, og hafa verið.  Efnahagsástandið hefur ýtt undir  það að yngra fólkið leitar sér að vinnu og í skóla erlendis.

mani_blom.jpg Ísak Máni í blómahafi

 Isak Máni stækkar og stækkar og er meira að segja byrjaður í skóla. Allt gengur vel, en hann átti erfitt fyrst eftir að flytja frá Íslandi og var með mikla heimþrá. 

 

 

 

 

 

 

 

mai_sumar.jpg

 Fröken Elisabeth Mai í sumarkjól með tíkó!

 

Ekki hafa allir tækifæri til að ferðast á milli landa og það er sárt að fá ekki að sjást. Mér fannst leiðinlegtað vera ekki viðstödd eins árs afmæli Elisabethar Mai, en það var 7. maí sl. en nú hlakka ég bara til að hitta hana og stóra bróður hennar, Ísak Mána, í júlí og gera eitthvað skemmtilegt saman. 

 

 

 

 

 

 

 

skagen-voetmann_662938c

 Húsin á Skagen sem er nyrsti hluti Jótlands eru eins og úr ævintýri. 

 

Planið er jafnvel að keyra saman til Skagen, sem er einn magnaðasti staður í Danmörku. 

 

 

 

 

 

P.s. fyrir þá sem eru að fylgjast með mér í baráttu við aukakíló þá eru 3,8 kg farin (næstum 8 smjörlíkisstykki)  síðan 25. maí og geri aðrir betur! ;-)   Hef spes blogg um þetta næsta þriðjudag. þegar tvær vikur eru liðnar.


Hundur og "svolítið" ofvirk stelpa ...

johanna_vala.jpg

 Dóttir mín, sem er á 24. aldursári hefur alltaf verið mikið fyrir dýr, og þau reyndar fyrir hana líka.  Reyndar gildir það sama um börn. Þar er einnig gagnkvæm aðdáun.  

Þegar hún var sjálf barn var hún býsna vel virk og þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Mitt hlutverk var að finna verkefni. Það var næstum því sama hvað ég bauð upp á hún tók því með gleði. Allt annað en að vera aðgerðarlaus.  Á tímabili tók ég upp á því að leyfa henni búa til kertakökur, en þá lét ég vatn i skál og svo fékk hún mismunandi lit kerti og lét vaxdropana falla i skál. Það virkaði róandi.  Svo var það, þegar hún var tæplega fjögurra ára að við fengum okkur labradorhundinn Hnetu og þá fékk hún heldur betur leikfélaga, og reynar öll börnin mín þrjú.  En Vala var þannig að þegar hún fór í fýlu eða átti erfitt, lagðist hún í körfuna hjá Hnetu og hvíslaði að henni sínar raunir.

Vala fór til Ameríku fyrir tveimur árum, og bjó þar um skeið. Þar sem hún var ekki með græna kortið fékk hún sér sjálfboðavinnu á hundamunaðarleyingjahæli, "animal shelter" ..  Þar voru hundar af öllum stærðum og gerðum og sumir sem höfðu verið hjá vondum eigendum.  Einn veikburða hvolpur dró athylgi Völu að sér,  en dýralæknarnir sögðu að hann myndi eflaust ekki lifa þar sem hann vildi ekki borða.  Það kom að sjálfsögðu við hjartað í dýravininum Völu og til að gera langa sögu stutta fór hvolpurinn að borða úr lófa hennar þegar hún var búin að sinna honum um tíma.  Ekki var aftur snúið þar sem þarna höfðu tekist með þeim "gagnkvæmar ástir" Heart Hún ætleiddi s.s. hvolpinn og hann fékk nafnið Simbi. 

myndum_bjarga_4640.jpg

Vala flutti svo heim til Íslands sl. haust, en Simbi varð eftir hjá fv. kærasta, en Vala er búin að vinna sleitulaust síðan við að fá alls konar leyfi, sprautur og réttindi til að flytja Simba heim, auk þess sem kostnaður hefur verið gríðarlegur, en ekki í digran sjóð að sækja.  Simbi er ekki hár í loftinu, en heldur sjálfur að hann sé voða stór. Hann er alltaf í góðu skapi. 

Jæja, þegar öll leyfi vorum komin (og það gekk ekki þrautalaust) fór Vala til Bandaríkjanna að sækja Simba og  þann  22. mars sl. kom hann svo heim með flugi en fór beint í Einangrunarstöðina að Höfnum til dvalar í mánuð.  Þegar Vala kvaddi voffann sinn í búri á flugvellinum í Orlando grét hún mikið,  og það var svo mikið drama að nærstaddir voru víst farnir að fella tár líka. 

En í gær, þann 27. júní var Simbi laus úr einangrun, þar var hann reyndar glaður og kátur og vel um hann hugsað.  Þegar að Vala mætti að sækja hann hoppaði hann upp um alla veggi af gleði í orðsins fyllstu merkingu, svo starfsfólk stöðvarinnar veltist um af hlátri. Kannski ekki í orðsins fyllstu.

Vala gat ekki beðið með að sýna "ömmu" vofann, en ég hitti hann síðast í október 2008,  þegar ég heimsótti hana til Florida.  Hann kom  í heimsókn í vinnuna í gær, yndislegur og sætur.  

Nú kúra þau saman inni í bóli,  Simbi er svo mikið krútt að hann er næstum eins og einn af böngsunum sem maður sér raðað á barnarúm en er rólyndishundur.   Nú er Vala að leita sér að íbúð á sanngjörnu verði fyrir sig og "soninn"  svo ef þú sem lest veist um íbúð til leigu,  máttu gjarnan senda skilaboð til mín á johanna.magnusdottir@gmail.com   Hunda-amman leigir sjálf og getur bara tímabundið, fyrir náð og miskunn, hýst Simbann.  

valaogsimbi.jpg Simbi og Vala Smile


Elisabeth Mai 1 árs, 7. maí 2010

Nú er hún orðin eins árs, lítil en dugleg dama, algjör rófa og ömmu skott. En aftur og nýbúin er amma fjarverandi ömmubörnum og situr með tárvot augu heima og óskar sér þess heitast að vera komin til að fylgjast með afmælisbarninu. HeartWizard  Fyrsti afmælisdagurinn er stór dagur.  

Merkilegt hvað börnin vaxa fyrsta árið, frá því að vera svo miklir ungar í það að verða ákveðnir einstaklingar með skap, að minnsta kosti þessi stelpa! 

Amma sendir góðar kveðjur til Hornslet, veit að mamma, pabbi og Máni eiga eftir að halda flott upp á afmælið hennar Mai litlu. 

 

 

 amma_me_mai.jpg

 

 

 

 HeartHeart

elisabeth_mai_skaeruli_i.jpg


Saga fyrir Ísak Mána sem á afmæli 27. apríl

Elsku Ísak Máni dóttursonur minn á afmæli á morgun, 27. apríl 2010 verður hann sex ára, hvorki meira né minna. Máni á heima langt frá ömmu sinni, í smábæ á Jótlandi sem heitir Hornslet.  Við Máni eigum okkar svanasögur, sem við segjum saman fyrir svefninn þegar amma er hjá honum og þessi verður sögð í tilefni afmælis Mána. 

maninuna.jpg

Þetta er saga fyrir svefninn. 

Þú leggst í mjúka yndislega rúmið þitt,  andar djúpt inn og út. Svo finnur þú hvernig kroppurinn verður allur slakur og þungur og sekkur hægt og rólega ofan í dýnuna.  Þú liggur með slakan líkamann og lokuð augun, en fyrir ofan þig er ljósið sem þú tekur inn í kroppinn.  Inn um höfuðið, niður í hálsinn, niður eftir bakinu, niður í rass og læri, alveg niður í kálfa.  Þar breytist hvíta ljósið í krók sem krækir í rautt ljós og dregur upp eftir fótunum,  svo verður ljósið appelsínugult, þá gult þegar það fer í gegnum mallakút, svo grænt og kitlar hjartað og þá blátt við hálsinn eins og mjúkur klútur, upp, upp og upp í ennið og þar verður ljósið fjólublátt, og þá erum við komin að hvíta svaninum sem bíður þín.

 

 

Máni sest á bakið á svaninum mjúka og yndislega og knúsar hann pinkulítið.  Svanurinn ætlar að fljúga með Mána alla leið til Íslands, en fyrst fljúga þeir hægt og rólega upp í dökkbláan himin, og þá sjá þeir margar stjörnur, gylltar, rauðar, bláar og grænar og sjá að litla Hornslet fjarlægist, húsið þeirra og húsið hennar Bedste og farfar verður pinkuoggulítið.  Stjörnurnar verða fleiri og stærri og himininn stórkostlega dimmblár. 

Svanurinn flýgur langt, langt og Mána finnst gott að hjúfra sig að mjúkum fjöðrum. Smátt og smátt nálgast hann Ísland!  Hann sér húsið hans afa og Birnu í sveitinni, sér Nótt og nú er líka kominn lítill frændi - hann Anton Örn, úúú gaman að sjá nýjan frænda! ..  Svanurinn lætur þau öll vita að þau eigi að koma í garðinn hjá ömmu á Ránargötunni.  Svanurinn flýgur yfir Kleifarásinn, þar sér Máni Tryggva Klemens, besta vin sinn og þeir svindla pinku og láta svaninn lenda og Tryggvi Klemens stekkur á bak og þeir skríkja af gleði þegar þeir sjá hvorn annan vinirnir.

krutt_tryggvi_og_mani_985260.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svanurinn flýgur aftur upp, og stefnir á Ránargötuna, en þar bíður amma og Vala og allir á Íslandi sem Mána þykir vænt um. Tobbi og Ásta auðvitað líka og allir í fjölskyldunni.  Það er sól og gott veður og amma búin að setja vatnsúðarann í gang, svo að Máni og Tryggvi Klemens geta hoppað í sólinni og svo fer restin af fjölskyldunni að hoppa og leika sér.  Amma er svolítið klikkuð og hún hoppar líka.

amma_og_mani.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 Svona eru nú sögurnar sem amma segir Mána sínum fyrir svefninn. 

Svo förum við með bænirnar hans afa/langafa.

Vertu Guð faðir, faðir minn, 

í frelsarans Jesú nafni, 

hönd þín leiði mig út og inn, 

svo allri synd ég hafni. 

Vertu nú yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni, 

sitji Guðs englar saman í  hring

sænginni yfir minni. 

Guð geymi þig, 

Góða nótt. 

"Umma" Kissing

Til hamingju með afmælið elsku Ísak Máni minn. Heart

 


Dagbók í skeytastíl .. gleði og sorg

18. apríl 2010

Gos, skýrslur, ást, gleði og sorgir lita veröldina í dag ...  það er í lagi að lita út fyrir 

 

- Til hamingju með 30 ára afmælið elsku Birta mín og bróðurdóttir, þú fallega og yndislega stelpa.

 

 

 

Til hamingju með fermingardaginn þinn í dag Már flotti frændi og systursonur og spekúlant..

 

 

 

Far vel Hanna Lísa, elsku fallega perla og fyrrv. nágrannakona í Blönduhlíðinni og ávallt vinkona þó við hittumst lítið  síðustu árin - kona sem mér þótti stundum of góð fyrir þennan heim.  Það var vont og klaufalegt af mér að geta ekki kvatt þig og fylgjast ekki betur með, en þú ert nú þeirrar gerðar að þú veist hvað mér þótti þú stórkostlega fallega hugsandi kona. Takk fyrir þitt líf. 

 

hanna_lisa.jpg

 

 

 

Í stormi og logni lífsins er það fólkið í kringum okkur sem litar tilveru okkar,  markar vörður á lífsleiðinni og skiptir okkur máli.  Fólk sem snertir okkur, kennir og hjálpar til að vera þau sem við erum og vonandi til að vera betri en við erum.  

Heart

 


Danmörk sumarið 1968 - gömul ljósmynd

vinkona_allra_980073.jpg

  Bjössi bróðir sendi okkur systkinunum þessa mynd, en hún var tekin þegar við fjölskyldan fórum í leyfi til Danmerkur og bjuggum í raðhúsi Ingu frænku í um mánaðartíma. 

Þetta var einn besti tími bernsku minnar,  síðasta sumarið með pabba, en hann lést ári síðar. 

Hann er þó ekki á þessari mynd, enda ljósmyndarinn,  heldur er það Ingi bróðir hans, þessi hávaxni maður með sólgleraugun.  Jóna kona hans í hvítu kápunni, mamma þarna á bakvið hægra megin.  Bjössi bróðir léttklæddur svo ekki sé meira sagt, en myndin er tekin að kvöldi dags og það var hitabylgja í Kaupmannahöfn á þessum tíma og því mjög heitt þó að himininn hellti aðeins úr sér. 

 

Þarna eru Lotta frænka, sú með tíkarspenana og varin í appelsínugula regnkápu. Hulda systir ábyrgðafull og alvarleg í grænum kjól sem mamma saumaði, og saumaði reyndar eins á Karenu dúkkuna hennar! .. Binni bróðir fremstur, þarna fjögurra ára grallaraspói,  Sæunn frænka og Snorri frændi sitthvoru megin við mig, en þarna er ég sex ára að verða sjö, en er þarna (eins og Hulda systir segir)  í klassísku hlutverki mínu í lífinu að halda utan um fólk og óska þess að allir séu vinir. 

Snemma beygist krókurinn.

Það er skrítið að horfa á svona gamlar myndir og hugsa til baka, hugsa um bernskuna og það sem er liðið og hvað það er í raun langt um liðið - en samt svo stutt.  Ég að nálgast fimmtugsaldur eins og óð fluga,  búin að ala upp þrjú börn og á von á þriðja barnabarninu í sumar, einmitt í kringum afmælisdag pabba í júní.   1968 varð pabbi minn fertugur, hann varð aðeins fjörutíu og eins árs og lengi, lengi hugsaði ég hvernig lífið hefði verið hefði hann lifað.  

Dreymdi að hann hefði ekki dáið, ég hefði verið plötuð og ímyndunin var svo sterk að ég hugsaði að hann hefði verið fenginn í eitthvað verkefni  þar sem enginn mætti vita af honum, svo kæmi hann til baka "surprise" einn daginn.  Mamma yrði glöð aftur og við aftur alvöru fjölskylda,  þar sem púslið hann pabbi væri kominn aftur og þessi gapandi hola sem hann skildi eftir hætti að stara á mig. 

Ég gleymi aldrei þegar við vorum að fara í fjölskylduferð með vinnunni hennar mömmu og Lotta systir sem aldrei náði að þekkja pabba, þar sem hún var átta mánaða þegar hann dó,  horfði í kringu sig og sagði svo  við mig "Ég vildi að við ættum pabba eins og hinir" ..  eitthvað inni í mér brást, enda var ég eflaust bara um tíu tólf ára þegar þetta var, en ég hélt aftur af tárunum og stíflan hélt þarna eins og oft áður, og "hélt kúlinu" eins og ég hef oft gert síðar í lífinu. 

Þetta átti bara að vera smá skemmtileg grein um mynd, en svo langaði mig að fá að segja svolítið frá pabba,  ég ætla að leyfa þessu að standa.  Því það eru margir sem kannski hafa upplifað svipað eða eiga sína sem þeir sakna, þó þeir lifi ekki og hrærist í því á hverjum degi.  

Það er eitthvað við uppbrot á fjölskyldum, hvort sem það er dauði eða skilnaður sem er svo óendanlega sárt fyrir börnin.  Við viljum að þau hugsi eins og við - og sætti sig við nýjar þjóðfélagsaðstæður,  en börn eru hrein og bein og tilfinningaverur. 

Þau þarfnast beggja foreldra sinna,  þess vegna þarf að hugsa sig vel um áður en skilið er, hvort að það sé örugglega rétta leiðin,  ef það er rétta leiðin - foreldrar plís, plís, plís vera vinir, vinir barnanna ykkar vegna. 

Þau eiga það skilið. 


Tvö ár liðin og Amarcord

Nú eru tvö ár liðin á morgun frá því að Unnur vinkona mín dó. Mér finnst best að hugsa það ekkert of djúpt því þá þykknar svo illilega upp inni í mér. Ég reyni bara að skauta á yfirborðinu.

Samband okkar Unnar var sterkt vinkonusamband. Við vorum eins og svart og hvítt, svo ólíkar. Hún dökk og ég ljós. En við áttum afskaplega sterka tengingu og vorum einhvern veginn svo samstíga í nördahætti okkar. Við áttum sameiginlegt áhugamál og það voru kvikmyndir. Reyndar á ég það enn og er enn nörd.

Að sjálfsögðu sóttum við Fjalaköttinn á sínum tíma, en verð að viðurkenna að oft voru myndirnar full djúpar. Einhvern tímann sprungum við úr hlátri þegar verið var í einhverri gáfumannamyndinni að taka gifsafsteypu af getnaðarlim manns. Fólk sat með franskar alpahúfur, kringlótt gleraugu og í röndóttum grænum, rauðum og brúnum lopapeysum (reyndar vorum við klæddar þannig líka) og horfði spekúlatívt á aðfararirnar. Við seinþroska og því varla vaxnar upp úr gelgjunni, þoldum ekki álagið og sprungum úr hlátri við allt annað en ánægju annararra bíógesta Tjarnarbíós. 

Okkur leiddist ekki.

Ein af myndunum okkar Unnar sem við sáum saman var Amarcord eftir Fellini. Mig minnir að hún hafi verið sýnd í Austurbæjarbíó. Þessi mynd er gerð 1973 en ég man ekki hvað við vorum gamlar. Ég man þó eftir strák sem okkur þótti sætur og eftir að menn fóru að synda í sjónum og sögðu að eistun væru eins og baunir á eftir. LoL 

Ég er félagi í kvikmyndaklúbb sem virkar svona eins og leshringur, þ.e.a.s við skiptumst á að sýna hvert öðru áhugaverðar myndir og ræða þær, og í kvöld er ég að fara að sjá Amarcord í annað skiptið á ævinni hjá vinum mínum Siggu og Leifi. 

Ég á örugglega eftir að hugsa mikið til Unnar minnar á meðan á myndinni stendur, enda eins og segir í upphafi bloggsins liðin tvö ár á morgun síðan hún kvaddi.  Ég samdi þetta ljóð þegar hún dó og birti það hér með aftur. Get ekki orðað vináttu okkar betur en það.  En ég sakna hennar og hlátursins hennar. Heart  Við kynntumst 13 ára gamlar, báðar nýju stelpurnar í bekknum. Ég feimin og til baka, en hún meira opin, en báðar svolítið skrítnar.

Þú komst  inn svo sérstök, svo sterk og svo svöl

Inn í bekkinn og varst nörd eins og ég

Við náðum því saman í hippaskóm og hjali

Fjalaketti og mali og enn meira tali

Þar til kennarinn sagði hingað og ekki lengra

og rak okkur fram á gang og þaðan ultum við heim

Í hláturskasti sem ætlaði aldrei að hjaðna

En nú hefur hlátur þinn hljóðnað

Þú kvaddir í nótt – þinn tími kominn til að fara...

Fara eitthvert annað, þangað sem ég kem síðar

Kem inn svo sérstök, svo sterk og svo svöl

Inn í himnasali og verð nörd eins og þú..

 

Hér er svo trailer Amarcord


Með mjólk í tómatsósuflösku ..

Í góða veðrinu í gær fengum við systurnar okkur göngutúr upp á Droplaugarstaði að heimsækja mömmu. Ég las nokkrar blaðsíður úr Vigdísi, sem er framhaldssagan okkar og Hulda systir saumaði erfiðustu sporin í útsaumi sem mamma er að vinna við.

Á heimleiðinni ákváðum við að gagna "götu bernskunnar" en það er Grettisgatan. Við bjuggum þar á 57A, fyrst reyndar bjuggu mamma og pabbi á fyrstu hæðinni með eldri systkini mín tvö, en svo þegar ég kom í heiminn 1961 flutti fjölskyldan upp á aðra hæð í aðeins stærri íbúð; alveg þriggja herbergja og þar bættust við tvö yngri systkini mín og bjuggum við öll sjö manna fjölskylda til ársins 1969 þegar pabbi dó, þá fluttum við okkur upp á Háaleitisbraut. 

Við Hulda systir vorum auðvitað í Nostalgíukasti að rifja upp bernskuminningar, hver bjó í hvaða húsi o.s.frv.  Allt var einhvern veginn miklu stærra í minningunni og miklu fínna reyndar líka, sem það og var. Bakgarðurinn hjá Guðbjörgu, en það var frúin sem bjó á efstu hæðinni hjá okkur á átti reyndar alla Grettisgötu 57A,  var alltaf glæsilegur. Vel hirtur, girtur og reyndar þannig að við máttum ekki leika okkur þar yfir sumartímann.  Máttum þó gera snjóhús á veturnar. 

Þetta verður örugglega bara partur eitt af þessum Grettisgötuminningum, því þær eru svo margar, en eitt af því voru hópferðir í Hljómskálagarðinn, þar sem við fórum í endalausa leiki í steinunum. Við  söfnuðumst saman krakkahópur, yfirleitt fór ég með mínum eldri systkinum, a.m.k. systur,  og lögðum í leiðangur. 

Nestið samanstóð af mjólk í þveginni tómatsósuflösku, þó að alltaf væri svona któmatsósukeimur af stútnum. Mamma útbjó svo fyrir okkur samlokur, oftar en ekki þannig að saman var sett ein sneið franskbrauð  og önnur rúgbrauð og smjör á milli. 

Einu sinni sem oftar þegar hersingin var á leið í Hljómskálagarði slóst í fór nýr strákur í götunni. Hann var svolítið stælóttur og fór að skoða nestispakkann sinn á leiðinni. Mig minnir að hann hafi búið hjá ömmu sinni og afa. Hann þreif upp dýrindis tebollu, en bakarísbakkelsi var hátíðarfyrirbrigði hjá mér og minni fjölskyldu.  Leit á hana og sagði svo "oj, rúsínur" og henti bollunni ofan í kjallaratröppur á leiðinni.  Ég man ennþá sjokkið sem ég fékk, og hvað mig langaði næstum að stökkva á eftir bollunni. Ég leit þennan strák aldrei sömu augum eftir, að hafa hent svona dýrindis bollu í ræsið á meðan við hin vorum bara með hversdagslegt brauð í okkar farteski, en líklegast hefur hann bara viljað ganga í augun á okkur hinum greyið. 

--

Kannski er svona æskuminning bara lýsandi fyrir eitthvað sem er að gerast í dag. Einhver er einhvers staðar að henda verðmætum í ræsið, sem aðrir sjá ofsjónum yfir og hefðu fegnir vilja þiggja? 

 


Sama rósin sprettur aldrei aftur ...

systkinináborg Fjölskyldan á Bergstaðastræði 56: f.v. Björn (1937-2008), Ingi R. B.  (1932-2003), Magnús (1928-1969), Jóhann Emil (1935), Jón Kristinn (1931-2003), neðri röð f.v. Dóróthea Málfríður (1929), Charlotta Kristjana (1905-1977), Oddur Borgar (1950), Björn (1904-1997), Ingibjörg (1940).

Í gær fór ég í árlegt jólaboð stórfjölskyldunnar, þ.e.a.s. í minni föðurætt. Þar mætast afkomendur afa míns: Björns Magnússonar og ömmu: Charlottu Kristjönu Jónsdóttur.  Þar að auki afkomendur systur afa, sem aldrei var kölluð annað en "Gagga"  Ragnheiður Magnúsdóttir (1913-2004). 

Gagga  Við skírn systur minnar; Charlottu Ragnheiðar, en Gagga frænka - Ragnheiður, hélt á henni undir skírn og afi Björn skírði að sjálfsögðu. Þarna glittir í sjálfa mig á bakvið og nokkrar frænkur.  

Gagga frænka og Manni;  Hermann Hákonarsson (1909-1981) eignuðust eina dóttur,  Ingibjörgu Jóhönnu Hermannsdóttur (1935)  svo að þeirra afkomendur eru eins og gefur að skilja mun færri en ömmu og afa sem eignuðust átta börn.

afi_amma_manni  Afi og amma ásamt Manna (Hermanni manni Göggu) við sumarbústaðinn Lindarbrekku, þar sem þau og við afkomendur þeirra höfum átt okkar bestu stundir.

Svo umsvifamikið er bókhaldið með öllum þeim fjölda sem af þeim er kominn og þeim tengdum að Vilhljálmur frændi minn hefur útbúið vefsíðuna Lottuhús til að halda "bókhald" um okkur.  Síðan verður virk á næstu dögum, en var kynnt í jólaboðinu.

jólaboðið_2009 006

Þarna er Villi að kynna ættfræðivefinn,  þar sem hægt er að skoða nöfn og fæðingardaga á afkomendum ömmu og afa.

Jóhanna Magnúsdóttir_systir afa  Konan hér á myndinni er afasystir mín og sú sem ég heiti í höfuðið á; Jóhanna Magnúsdóttir en hún var fædd á Prestbakka á Síðu 16. ágúst árið 1900 og lést úr berklum 17. október árið 1917 aðeins 17 ára gömul.

Systkinin á Prestbakka áttu merktar silfurskeiðar og fékk ég skeið Jóhönnu þegar ég var unglingur og hef varðveitt hana alla tíð.  Þegar Björn afi lést fékk ég stóra ljósmynd af Jóhönnu í fallegum ramma, en þá mynd hef ég alltaf haft í stofu á mínu heimili og þykir vænt um. Hún er eins og meðfylgjandi mynd.  Við útskrift mína úr guðfræði ákvað Inga föðursystir mín að færa mér ljósakrónu sem afi og amma höfðu haft í sinni borðstofu alla tíð.  Hún hangir nú í minni stofu.

Í gær bættist í fjársjóðinn minn, því að Ingibjörg Jóhanna Hermannsdóttir færði mér skartið sem Jóhanna ber um hálsinn á myndinni, en í enda silfurkeðjunnar hangir úr sem ekki sést á þessari mynd.  Mér þykir afskaplega vænt um þennan grip, sérstaklega vegna þess að hann ber söguna með sér,  ber sögu Jóhönnu og ber sögu fleiri kvenna í minni fjölskyldu, sögu Göggu frænku og svo sögu Ingibjargar Jóhönnu.

Ég ætla að geyma þetta úr vel og ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir dýrasta Rolex úr!

jólaboðið_2009 065

Og þarna eru þær að lokum hvunndagshetjurnar; Ingibjörg Jóhanna Hermannsdóttir og mamma mín Valgerður Kristjánsdóttir að stinga saman nefjum, en mamma er nú á sínu 82. aldursári.

Ég hef nú leyft mér að horfa til baka þegar árið er að líða, alveg aftur til aldamótanna 1900, en nú horfi ég að sjálfsögðu fram á við, horfi til fallegu fjölskyldunnar minnar, horfi til nýrra rósa.

Árið mitt hefur verið ár sigra og sorga, þreks og tára,  eins og hjá okkur flestum.  Ég er þakklát fyrir það sem ég hef, þakklát fyrir fjölskylduna mína og alla þá vini, vinkonur og kunningja sem ég hef eignast, bæði frá barnæsku og ekki síst á nýliðnum árum, þakklát fyrir samstarfsfólk mitt, þakklát fyrir bloggvinina mína og þá sem nenna að lesa hugleiðingarnar mínar og þá sem skrifa athugasemdir, þó við séum ekki alltaf sammála.

Ég er einstkalega heppin með fjölskylduna mína, systkini og maka þeirra, börn og maka þeirra og auðvitað heppnasta amma í heimi, en ég á tvö yndisleg ömmubörn sem eru þessa stundina að undirbúa áramótafjör í Hornslet í henni Danmörku, ásamt pabba og mömmu, "Lölu" frænku og Birtu og Rasmusi.

A_ Ísak Máni og Elisabeth Mai.

Fortíðin er gjöf og framtíðin er falleg Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband