Færsluflokkur: Menntun og skóli
7.2.2012 | 08:34
"Ég dey ef ég þarf að standa upp og tala" ... (eða ekki?)
Nýtt blogg og meira um mig og það sem ég er að gera er hægt að lesa ef smellt er HÉR
Ég held að mér hljóti að hafa verið hent út af forsíðubloggurum mbl.is vegna þess að ég var alltaf að auglýsa námskeiðin mín, en ég ætla ekkert að trufla mbl.is meira með því og hef búið til wordpress síðu, - er búin að gera nokkrar tilraunir til að finna nýjan bloggvettvang, eða vettvang til að koma mér og því sem ég er að starfa við á framfæri.
Endilega skoðið alla síðuna og athugið hvort að þarna er ekki eitthvað sem þið getið nýtt ykkur, eða fyrirtækið ykkar, félagasamtök o.s.frv. -
Knús og kram,
Jóhanna
28.5.2011 | 08:31
"All children are born artists" Picasso ... samt eru listir afgangsstærð í skólakerfinu
Mjög mikilvæg skilaboð í þessum fyrirlestri - við verðum að hlusta, þetta gæti verið hin raunverulega forvörn gegn brottfalli úr skóla. Að skilja að við verðum að hætta að troða öllum í sömu kassana.
Robinson talar um skólakerfið sem drepur niður sköpunargáfu, skólakerfið miði að því að gera alla að háskólaprófessorum. Það þarf ekki að ræða það - að samfélagið þarf ekki einungis háskólaprófessora.
16.4.2011 | 08:37
Samkvæmt kristilegri siðfræði á ekki að kenna um kristna trú (eingöngu) í skólum ..
Eftirfarandi er svar mitt um það hvort að kenna eigi kristilega siðfræði í skólum, en þetta skrifaði ég í athugasemd við pistil minn hér á undan þar sem ég var að biðja um að siðfræði, virðing, vinátta, samskipti o.s.frv. fengi jafn mikið pláss í stundaskránni frá fyrsta bekk grunnskóla og uppúr, eins og hefðbundin kjarnafög. Því ef að fyrrgreint er ekki kjarninn, hvað er það þá?
....
Ég er sammála því að kristin siðfræði er góð, enda byggist hún á því fallega boðorði að elska náungann eins og sjálfan sig. Svo einföld er hún í mínum huga.
Ég kenndi þetta í sunnudagaskóla í tvö ár, með ýmsum útfærslum. Og svo auðvitað að gera það fyrir aðra sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, sem er í raun og veru sami hluturinn.
Þetta er nú komið í alls konar nýjan búning, enda ekkert nýtt undir sólinni. Flest af því sem ég les í dag get ég fundið í einhverri útgáfu í Biblíunni. Meira að segja fjölgreindarkenningu Gardners. Páll Postuli talar um að við höfum öll mismunandi náðargáfur, höfum anda til að gera mismunandi hluti.
En það eru ekki allir undir hatti hinnar kristnu kirkju og ég tel að við getum kennt þetta alveg án þess að kalla þetta kristna siðfræði, þetta er siðfræði sem gengur þvert í trúarbrögðum og einnig hjá þeim sem kalla sig guðlausa.
Kristinfræði má kenna í kirkjum (barna og unglingastarfi) og í fermingarfræðslu. Mér finnst persónulega við skapa meiri ófrið en frið með því að ætlast til að allir sitji í kennslustund sem er kölluð kristin siðfræðikennsla, því að það hentar ekki öllum.
Þeir sem trúa á Guð kristninnar, eða bara Guð yfirhöfuð (ég tel Guð bara vera eitt og ekki tengdan aðeins einum flokki eða hópi) vita að Guð er með í verki og það er nóg.
Sjálf starfa ég þannig að ég bið Guð um handleiðslu, en er ekki að "ota" honum/henni/því upp á skjólstæðinga mína og/eða nemendur. Ég trúi á Guð í mér og Guð í þeim - Guð með okkur.
Ég færi létt með að kenna kristilega siðfræði í skólum án þess að nefna Krist eða Guð á nafn og örugglega margir aðrir.
Það er kristileg siðfræði að gera það ekki. Það er tillitsemi við náungann.
"Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra" ..
Við sem teljum okkur hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, erum beðin um að hlífa börnum ákveðins hóps við beinni kennslu um hann, því að hópnum finnst á sér brotið. (bæði guðlausum og annarrar trúar) Þá gerum við það. Öll börnin fá kennsluna, foreldrar geta sjálfir uppfrætt um Jesú Krist og kirkjan, eða þjónar hennar, eins og áður sagði, og svo sannarlega fá börnin að læra um hann og aðra leiðtoga í trúarbrögðum í trúarbragðafræði.
Margar setningar í Búddisma eru mjög líkar þeim sem eru í Biblíunni og gegnum sneitt í trúarbrögðum.
Skemmtileg kennsla í trúarbragðafræðum væri t.d. að leyfa börnunum að finna samnefnara í trúarbrögðunum og þá í siðfræðinni.
Þegar upp er staðið tel ég að það sé ekki spurningu hvað það verður:
Kærleikur - og það er það sem lífið snýst um.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2011 | 18:33
Foreldrar, fyrirmyndir, fjölbreytileikinn, skólinn og eineltið ..
Einelti er staðreynd í skólum. Nýlega skrifaði ég pistil um það að það læri börnin sem fyrir þeim er haft.
Enginn má vera öðru vísi á neinn hátt, ef þú passar ekki nokkurn veginn inn í normið áttu á hættu að lenda í einelti. Eiginlega eiga allir á hættu að lenda í einelti, því öll erum við pinku öðru vísi en sérstaklega ertu í hættu ef: þú ert of klár, of "vitlaus", of feit/ur, of mjó/r, of lítil/l, of stór, of dökk/ur, of ljós, of útlensk/ur, of íslensk/ur (sveitó), of falleg/ur, of ófríð/ur ...o.s.frv...
Þú ferð í pirrurnar á einhverjum vegna þess að þú ert of öðru vísi .. að sjálfsögðu er það þeirra vandamál en þau gera það að sínu og/eða upphefja sjálf sig á þinn kostnað.
Í viðtali við ástralskan strák nýlega sagði hann, og átti að vera hughreysting fyrir ung fórnarlömb eineltis. "School aint gona last forever" eða skólinn mun ekki endast ekki að eilífu.
Elsku bestu foreldrar og allir fullorðnir, lítum nú í eigin barm og hugsum hvort að við séum að senda börnunum einhver skilaboð um að það að vera öðru vísi sé ástæða til að fara að áreita viðkomandi þannig að hann eða hún upplifi skólavist sem helvítisvist (það er ekki orðum aukið).
Um leið, þarf skólinn (vildi ég óska) að hafa lífsleikni sem skyldufag frá fyrsta bekk í grunnskóla og upp úr, þar sem farið er í atriði eins og heiðarleika, virðingu, vináttu, sjálfstyrkingu o.s.frv. þar sem börnin æfa sig daglega í því undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda. Alls konar siðfræðiæfingar, æfingar í að standa með sjálfum sér og svo framvegis. (Við fullorðna fólkið erum að uppgötva þetta á miðjum aldri, oft - að við höfum í raun aldrei lært þetta, enda erum við ennþá að stunda einelti inn á vinnustöðum).
Aðeins með því, getum við átt möguleika á að vinna gegn þessu æxli í samfélaginu. Að skólinn, foreldrar og samfélagið í heild taki sig á.
Þetta myndi þar að auki spara samfélaginu gríðarlegar fjárhæðir, svo út í það sé farið, sem fara annars í sálfræðinga og velferðarþjónustu ýmsa. Þar að auki flýja iðulega eineltisþolendur inn í heim fíknar og það þarf ekki að spyrja neinn hvað það kostar, bæði fyrir þolandann og samfélagið.
Það sem upp úr stæði væri betra, vel menntaðra og sjálfsöruggara samfélag, því að börn sem fá góðan aðbúnað í lífsleikni fá einnig meira sjálfstraust í grunnfögum eins og stærðfræði og íslensku.
Verum meðvituð um:
- að við erum fyrirmyndir (og börnin hlusta á "allt" sem við segjum)
- skoðanir okkar á því og þeim sem eru "öðruvísi"
- þá andlegu fæðu sem við neytum og þá sem við bjóðum börnunum
- þau tæki sem við beitum við uppeldi, hrós, að taka eftir því sem vel er gert o.s.frv.
- að veita börnunum okkar athygli og hlusta á það sem þau langar að tala um
- og margt margt fleira auðvitað ...
Sólin skín jafnt á okkur öll ...
Menntun og skóli | Breytt 16.4.2011 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.3.2011 | 08:26
... börnin eru byrjuð að borga
Ágæta fólk, nú verðum við aðeins að doka við og íhuga hvað við erum búin að vera að gera og hvernig við höfum hegðað okkur í íslensku samfélagi. Vildi gjarnan deila þessari vitundarvakningu sem ég fékk í sturtunni í morgun!
Hvers konar fyrirmyndir erum við komandi kynslóð?
Ásakanir fram og til baka og uppnefningar eins og þjóðernisrembur og landráðamenn eru okkar daglega brauð í dag og eflaust barnanna líka.
Því miður hefur myndast, þrátt fyrir vorkomuna, dimmt neikvæðniský yfir Íslandi, sem við verðum að blása á brott.
Ég hef verið að íhuga hvers vegna svona mikið af fólki líður illa, sérstaklega mikið af ungu fólki. Ég veit að hin neikvæða umræða þar sem óttinn er orðinn eins og átrúnaðargoð hjálpar ekki til.
Í fyrirsögnum stendur; "börnin munu borga" .. en elsku samferðafólk, þegar litið er að hinni andlegu hlið þá eru þau byrjuð að borga. Þau finna andann sem ríkir, þau heyra á tal okkar og lesa fréttir.
Samstarfsfélagi minn fór í gufubað nýlega til að slaka á og losa spennu, þar var ekki friður fyrir köllum sem þurftu að æsa sig yfir IceSave. Hann gerðist svo djarfur að segja við þá að hann hefði komið þarna til að ná hvíld huga og líkama, en þögnin náði bara yfir nokkrar sekúndur svo gátu þeir ekki hamið sig. Við þurfum samræðupólitík, en ekki ásakanapólitík, hvort sem um er að ræða bankamál eða borgarmál. Vona að einhver alþingismaður lesi þetta. Ræðum saman en ekki sundur.
Þó við getum ekki sameinast um "Nei-ið" eða "Já-ið" þá veit ég að við getum sameinast um börnin. Þau þurfa ekki einungis efnahagslegt öryggi, þau þurfa gleði, frið og jákvæðni .. og það mikilvægasta af öllu - athygli!
Getum við hamið okkur, a.m.k. komið fram af virðingu við fólk með andstæðar skoðanir og verið börnunum góð fyrirmynd?
Ath! Við erum í raun öll sem börn, - gætum að því hvað við erum að innbyrða af andlegu fæði og íhugum hvaða áhrif það hefur á okkur.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.3.2011 | 20:08
Stöðvum einelti - mín reynsla ...
Varnarsigur ástralska skólastráksins Casey Haynes hefur varla farið fram hjá neinum, nú ef einhverjum set ég hér tengil á myndbrotið þar sem hann springur loksins eftir margra ára einelti og tekur á þeim leggja hann í einelti.
Mér finnst svo sorgleg lokaorðin í ráðinu sem hann gefur, ... að skólinn muni ekki endast að eilífu. "School aint gonna last for ever" .. hann sér ljósið í því. Þessi orð segja mikla sögu. Í hans huga hefur skólagangan augljóslega verið helvíti á jörðu. Hann sér fyrir sér og fyrir aðra að eineltið tengist skólanum og það hætti þegar skóla lýkur. Það er mikil ádeila, a.m.k. á það skólaumhverfi sem hann hefur verið í.
Einelti Casey virðist koma föður hans verulega á óvart, en það var skv. honum, stóra systir hans sem hjálpaði honum í gegnum svörtustu hugsanirnar sem voru komnar út í það að hugleiða sjálfsvíg. Það er gífurlega mikilvægt að börn fái styrkingu heiman frá, eigi trúanaðaraðila, fái hlustun og athygli. En jafnvel "fullkomnasta" fjölskylda getur aldrei verið örugg um að barnið þeirra segi frá.
Ég á svona reynslusögu frá minni bernsku, þar sem systir mín byggði mig upp og ég gat leitað til hennar. Þannig var að ég skipti um skóla þegar ég var 12 ára. Ég varð einangruð og lokuð við það, mjó (sem var ekki í tísku þá), með gleraugu og útstæð eyru. Mér gekk mjög vel í skólanum - en tilfinningin sem ég fékk þegar að kennarinn tilkynnti upphátt hver væri hæst var mjög blendin. Mér fannst athyglin óþægileg því ég var hrædd við óvinsældir í framhaldi af því og orð sem voru látin falla í minn garð sem voru yfirleitt ákveðin uppnefni, en auðvitað var ég ánægð innst inni að mér gekk vel. Þarna lærði ég það þó að mín velgengni virtist skyggja á aðra og ég gat ekki glaðst yfir henni.
Þessi neikvæða athygli og útlit mitt varð til þess að mér var strítt, og svo bætti í að mamma saumaði á mig föt svo ég var enn meira öðru vísi. Var að vísu á undan tískunni, en það var erfitt á þessum tíma. Var komin í buxur sem voru beinar niður hálfu ári áður en sú tíska kom á Íslandi, því mamma notaði hugmyndir erlendis frá, og svo kannski hefur systir mín haft áhrif en hún var ákveðin í að verða fatahönnuður, sem hún seinna varð.
Jæja, einu sinni var ég á leið á skólaball og hef verið ca. 13 ára. Mig kveið fyrir viðbrögðum stelpnanna, því ég vissi fyrirfram að ég fengi einhver skot. Sérstaklega var það ein stelpa sem var alltaf með leiðinda athugasemdir. Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur og þá gaf hún mér hreinlega upp "uppskrift" hvernig ég skyldi svara þessari stelpu! ..
Allt fór eins og ég átti von á, stelpan horfði á mig rannsakandi augum þegar ég kom, upp og niður eftir fötunum mínum, setti upp ákv. svip og sagði svo "af hverju ertu í svona skrítnum buxum?" .. Þá svaraði ég eftir forskrift systur minnar "káfar það upp á þig hvernig ég er klædd?" .. þá svaraði hún (eins og systir mín hafði spáð) "já" og þá svaraði litla ég - enn eftir forskrift "klóraðu þér þá" .. gekk svo stolt í burtu og ég hugsa að brosið hafi sést á hnakkanum á mér! .. Hún setti aldrei út á mig aftur þessi stelpa.
Annað dæmi laut að strák sem var alltaf að sparka í mig í fatahenginu í skólanum, og lét mig hreinlega aldrei í friði. Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur sem gaf mér forskriftina að segja næst þegar hann byrjaði "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Ég var ekki viss um að ég þyrði að segja þetta við hann, en ég treysti Huldu systur í blindni - og ekki þurfti ég að bíða lengi eftir að hann færi að bögga mig og það var fyrir framan fullt af öðrum strákum. Þá sagði ég hátt og skýrt, þessi spíra með útstæðu eyrun, freknur og gleraugu (svona eins og nördastelpan í amerísku bíómyndunum) "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Strákurinn hörfaði í angist, varð eldrauður í framan og strákarnir í kringum hann lyppuðust niður af hlátri. Þeim fannst fyndið að þessi rengla skyldi segja þetta við hann - en mér tókst að hræða hann í burtu.
Þegar ég var 15 ára lenti ég enn í strákunum, þegar ég spurði í enskutíma hvað "desolate hill" þýddi, en ég var algjörlega flatbrjósta - sprungu strákarnir yfir þessari eyðihæð, sem orðin þýddu, og var ég kölluð "desolate hill".. man eftir stað og stund - og hverjir það voru. ... Ég deildi þessari sögu ekki, ég skammaðist mín svo fyrir brjóstaleysið - sagði engum frá, ekki einu sinni systur minni. Mér finnst sorglegt í dag að ungar konur þurfi að finna sér sjálfstraustið í brjóstunum, eins og fram hefur komið í óteljandi make-over þáttum. En kannski ekki skrítið miðað við viðbrögð umhverfisins eða hvað?
Krakkar þurfa að þora að standa með sjálfum sér. Foreldrar þurfa að uppfræða börn og vera góðar fyrirmyndir. Setja ekki út á fólk fyrir að vera öðruvísi, of feit eða of mjó. Gildi manneskjunnar er svo sannarlega ekki metið eftir því. Systir mín var sem engill í mínu lífi og er það reyndar enn, og reyndar í lífi mun fleirri. Litla systir getur heldur betur vitnað um þetta stórkostlega hlutverk stóru systur okkar, en hún t.d. þurfti að taka ábyrgð á henni heilu sumrin þegar mamma var að vinna úti, eftir að pabbi dó. Við erum að tala um tólf ára stelpu sem passaði tveggja ára allan daginn. Þegar ég var send á Silungapoll að sumri til, og leið illa - fékk ég að koma heim vegna þess að hún samþykkti að passa mig líka.
Ári síðar var ég send á Jaðar, þá níu ára - aftur á barnaheimili. Þar lagði ég yngri stelpu í einelti ásamt hópi af öðrum stelpum. Það er í raun það ljótasta sem ég hef gert á ævinni og er í raun stærra ör á sálinni en nokkurn tíma það að hafa verið lögð í einelti. Ég hef fengið uppreisn æru vegna míns eineltis, en ég hef aldrei beðið afsökunar á því einelti sem ég beitti.
Nú er Casey Haynes orðin hetja í augum heimsins, en hvað um strákinn sem réðst á hann? Hvað var að bögga hann - og hvernig ætli hann sé staddur í sálinni eftir að vera úthrópaður sem bully? Hvernig verður "bully" eða hrekkjusvínið til?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.3.2011 | 15:44
Menntavegurinn genginn eins og Fimmvörðuháls - til gleði og góðs ..
Þar sem ég er (enn) að starfa að skólamálum, rifjaðist upp þessi dæmisaga sem ég skrifaði á bloggið árið 2008. Hún er í raun klassísk og langar mig að deila henni á ný! ;-) .. smá endurskoðaðri og uppfærðri.
Þegar ég fór í göngu sem bar reyndar heitið "Gengið til góðs" að hausti 2008 yfir Fimmvörðuháls, hafði allt göngufólki sama takmark (fyrir utan auðvitað að ganga til góðs):
Það að komast í Þórsmörk og halda veislu í framhaldinu. Ég hafði lesið á upplýsingavef að þessi ganga tæki um 9 - 10 klst með stoppum. Alveg frá upphafi hafði verið í boði að hópurinn myndi skiptast; þ.e.a.s. um tuttugu af sjötíu manns ætluðu að þiggja rútufar hluta leiðarinnar, sem var í raun mest upp í móti.
Þegar við hin, fimmtíu höfðum gengið í ca. 30 mínútur, sáum við að teygst hafði úr hópnum leiðsögumenn ákváðu að skipta honum í tvennt. Þá sem völdu að ganga hratt og þá sem völdu að ganga hægar.
Þeir sem notuðu rútuna, eru að sjálfsögðu eins og þeir nemendur sem þurfa meiri stuðning upp erfiðasta hjallann.
Þeir sem vilja fara hratt, eru þeir sem finnst ekkert gaman að göngu, nema spretta vel úr spori og svitna ærlega.
Þriðji hópurinn er þá sá hópur sem vill fara nokkuð hratt og örugglega, en gefa sér þó tíma til að njóta útsýnis, taka sér góðar pásur, eins og nemendur sem vilja njóta meira félagslífs.
Það sem gerist þegar stór hópur gengur saman, er að einhverjir dragast aftur úr og aðrir vilja ganga hraðar. Ef þess er krafist að sá hópur sem vill ganga hraðar er alltaf að bíða eftir hinum, fer honum að leiðast, hann kólnar niður og gleðin yfir göngunni minnkar.
Það sama er um miðhópinn, honum leiðist að bíða eftir þeim hægfarnasta, og bæði hægfarnasta og miðhópnum leiðist að láta bíða eftir sér og finnst þeir vera skyldugir að flýta sér því þeir, annað hvort, geta það ekki, eða njóta þá ekki göngunnar sem skyldi.
Að setja sama tíma á alla nemendur t.d. í framhaldsskóla; fjögur ár, er að mínu mati orðið úrelt fyrirbæri. Ég held að við getum minnkað skólaleiða að miklu marki og brottfall í framhaldi af því.
Allir eiga að geta keppt að sama lokamarkmiði, á sínum hraða innan ákveðins ramma, ef vel er að verki staðið.
Þetta var nú það sem ég var að pæla í 2008, en þá var ég líka starfandi aðstoðarskólastjóri í Menntaskólanum Hraðbraut og þekkti vel þessa nemendur sem þurftu aukinn hraða til að hafa gaman af náminu, nú eða aðra aðferðafræði við námið. Enn er ég að starfa með nemendum og enn að hindra brottfall nemenda.
Munum að gleðin er eitt aðal veganesti til að ná árangri (ég heyrði það á virðulegu námskeiði í HR)
- hvort sem er í námi eða bara í lífinu sjálfu.
Til að nemendur upplifi gleði þurfa þeir að hafa verkefni við hæfi.
Gleðilaust nám = leiðinlegt nám! ..
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2011 | 00:36
Höfum við efni á að spara í skólamálum?
Einu sinni bjó ég í húsi í Goðatúni í Garðabæ, sem var byggt með fljótandi plötu og lítil sem engin járnabinding. Þegar síðar gatan var ræst fram til að malbika, seig platan og brotnaði - svo 10 cm sig myndaðist í miðju húsinu. Við þorðum aldrei að fara út í viðgerð á þessu sigi, því við vissum af manni í sömu götu sem hafði orðið gjaldþrota við framkvæmdirnar - svo viðamiklar voru þær. Ódýrara hefði verið að byggja grunninn styrkan frá upphafi.
Svona lít ég á sparnað í skólamálum.
Á vef Forsætisráðuneytisins má lesa metnaðarfulla framtíðarsýn, m.a. hvað varðar menntamál, undir heitinu: Ísland 2020 - einstök verkefni til að fylgja eftir stefnumörkun og atvinnustefnu.
Sú sem hér ritar, starfar nú að verkefni að sinna nemendum í 10. bekk grunnskóla, sumum hverjum í brottfallshættu. Ég hef af því tilefni lesið gríðarlega mikið efni og skýrslur um ástæður brottfalls nemenda í framhaldsskóla og hvernig sé best að vinna gegn brottfalli. Niðurstaðan er ávallt sú sama:
Það þarf að hefja forvarnarstarfið strax í leikskólanum.
Í forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar eru þessi markmið sett upp fyrir leikskólaaldurinn 2-5 ára:
"Markmið
Að leggja grunn að jákvæðri sjálfsmynd barna.
Að styrkja félagsfærni barna.
Að börn tileinki sér heilbrigða lífshætti."
Á vef Forsætisráðuneytis segir jafnframt:
"Menntun er lykilatriði til að búa sig undir framtíðina og takast á við breytingar, jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið. Mikilvægt er að þetta tengist allri annarri stefnumótun. Hugsa þarf af metnaði um allt skólakerfið, frá fyrsta degi í leikskóla."
og áfram
"Til að skapa jafnvægi við hefðbundin grunnatriði í menntun eins og lestur, stærðfræði og íslensku þarf um leið að leggja áherslu á hæfnisþætti eins og upplýsingalæsi, sjálfstæði, frumkvæði, gagnrýna hugsun, samfélagslega ábyrgð, þátttöku eða virkni og síðast en ekki síst siðfræði. Leggja þarf áherslu á sköpun á öllum skólastigum með markvissri þjálfun listrænnar og hagnýtrar sköpunar. Nýta þarf hugmyndafræði leikskólamenntunar um að læra í gegnum leik víðar í skólakerfinu. Samþætting nýsköpunar við allt nám er lykilorð og menntun kennara er mikilvæg, sérstaklega þverfagleg menntun og skilningur á fjölþættari fræðasviðum en þeir hafa nú. Leitast þarf við að tengja skólastarf við nýsköpun, t.d. með skipulegum heimsóknum starfandi listamanna og hugvitsmanna í skóla."
og enn fremur: "Vinna þarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum bæði með félagslegri og námslegri nálgun. Sterk tengsl framhaldsskólans við verknám eru mikilvæg. Efla þarf markvisst námskeiðahald til færni- og réttindaaukningar fyrir þá sem falla út úr námi eða misst hafa vinnu. Stórátak þarf til að koma til móts við þann hóp. Fjölga þarf háskólamenntuðu fólki í grunnnámi, framhaldsnámi og doktorsnámi og fjölga þarf erlendum nemendum sem ljúka prófi við íslenska háskóla. Tryggja þarf gæði háskólamenntunar með öflugu gæðamati. Lykilatriði er að nota matskerfi sem byggist á viðurkenndum alþjóðlegum mælikvörðum."
Á Þjóðfundi 2009, var kallað eftir þemum þjóðfélagsins og þemað sem var stærst á myndrænu yfirliti voru MENNTAMÁL, í framtíðarsýn má sjá orðin MENNTUN.
En hvar erum við stödd í dag? Það er verið, og búið að - á sumum leikskólum, skera frá stöðu faglegra stjórnenda á sviði lista og sérkennslu. Það er verið að fækka valkostum á öllum sviðum skólastarfsins hvað sköpun varðar og vinna í raun öfugt við þessa framtíðarsýn sem sett er upp á vef Forstætisráðuneytis.
Þetta kalla stjórnendur hagræðingu og sparnað.
Hinn rauverulegi sparnaður liggur í því að vinna að forvörnum með nákvæmlega þeim hætti sem svo fjálglega er lýst hér að ofan. Með því að auka valkosti og fjölbreytni í menntun - sinna sjálfsstyrkingu barna frá grunni og ekki spara í því. Þegar upp er staðið er ekkert nema gróði, við fáum sterkari einstaklinga, og fleiri sem fá verkefni við sitt hæfi. Þegar nemendur fá verkefni við hæfi, menntun við hæfi, þar sem flestir, ef ekki allir, eru virkjaðir á jákvæðan máta þá uppskerum við mun fleiri einstaklinga sem eru virkir þjóðfélagsþegnar.
Við Íslendingar skorum hátt (og það í neikvæðri merkingu) miðað við aðrar þjóðir hvað brottfall úr framhaldsskólum varðar og við viljum varla að það aukist. Þegar ungt fólk fellur út úr skóla - hvað verður um það? Ekki er um auðugan garð að grisja í atvinnumálum. Fólk sem hefur hvorki vinnu né er í skóla getur leiðst út á alls konar ógæfubrautir. Það er alkunna að atvinnuleysi getur fylgt þunglyndi, sumir fara "í ruglið" eins og þar stendur, í alls konar fíknir sem eru bara til að deyfa hversdaginn, hvort sem það er áfengi, vímuefni, tölvur eða önnur fíkn, og allt þetta kostar samfélagið heilan helling. Kostar peninga, kostar mannauð - jafnvel mannslíf.
Þá erum við búin að tapa barninu í brunninn og þurfum að borga heilan helling fyrir að ná því aftur upp aftur - og algjörlega óvíst að sú aðgerð takist.
Forvarnir gegn brottfalli úr skóla hefjast í leikskóla, til þess að leikskólar og reyndar skólar upp allt menntakerfið, geti sinnt því starfi sem þeim er uppálagt, má ekki spara í faglegu starfi með því að skera niður störf fagfólks og stjórnenda.
Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna, og skammgóður vermir að spara í fagfólki.
Álag á starfsfólk menntastofnana er nú þegar orðið yfirfljótandi - og ef að hægt væri að fylgjast með því eins og jarðskjálftamælum veðurstofunnar, sæjum við nú margar grænar stjörnur.
Að lokum smá "klip" frá Oddnýju Sturludóttur sem hlýtur nú sem mesta gagnrýni fyrir "hagræðingartillögur" en þetta var að vísu skrifað árið 2008:
"Það er staðreynd að þær þjóðir sem hafa sterkt leikskólakerfi, öflugt og vandað frístundatilboð fyrir lítil börn þegar skólanum sleppir og sterka hefð fyrir aðstoð frá stórfjölskyldunni - þær halda áfram að stækka sinn stofn.
Þess vegna eru Íslendingar Evrópumethafar í barneignum. Og þess vegna þurfum við að spýta í lófana til að uppeldisaðstæður yngstu skólabarnanna verði sem best verður á kosið."
Eitt af markmiðum leikskóla Reykjavíkurborgar, eins og fram kemur að ofan, er að leggja grunn að jákvæðri sjálfsmynd barna.
Þetta er grunnurinn að sjálfsmynd þjóðar - verðum við ekki að splæsa í járnabindingar til að halda honum uppi?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.12.2010 | 11:03
Einkaskóli og einkakirkja - hvers ber að gæta?
Að mínu mati er hættan við svona "einka" að einn aðili, oftast stofnandi og/eða eigandi hafi of mikil völd og fái að starfa eftirltslaust.
Það sem ég þekki úr Menntaskólanum Hraðbraut, en þar starfaði ég í sex ár, þar af fimm sem aðstoðarskólastjóri.
Skólastjóri er eigandi skólans og konan hans framkvæmdastjóri rekstrarfélags.
Í skólastjórn sitja síðan mágur skólastjóra, frænka, vinir og/eða golffélagar. (Þetta kallast á dönsku "tantebestyrelse") eða frænkustjórn.
Skólaráð var EKKERT þrátt fyrir að það kæmi fram í matsskýrslu um skólann frá 2005 að í skólanum starfaði skólaráð, og þrátt fyrir að kennarar og aðstoðarskólastjóri þrýstu á um það til langs tíma. Skólinn hóf störf 2003, skólaráð var sett á eftir þrýsting á vormánuðum 2010 - TIL REYNSLU.
Skólastjóra leist ekkert á þá hugmynd að við skólann væru umsjónarkennarar, enda um aukakostnað að ræða, en þar er sömu sögu að segja og um skólaráðið, eftir þrýsting lét hann undan.
Skólastjóra leist ekkert á það og frábað sér að kennarar væru í sínu stéttarfélagi, Kennarasambandi Íslands, vegna gamalla persónulegra deilna við sambandið, eftir stórkostlegan þrýsting og eftir að kennarar ræddu við menntamálaráðuneyti eru loksins (árið 2010) komnar af stað samræður milli skólastjóra og KÍ, en ekki enn kominn stofnanansamningur.
Skólastjóri lét jafnframt í það skína og sagði beint út að kennarar myndu mögulega knésetja skólann með því að ganga í stéttarfélagið sitt, þar sem skólinn myndi ekki bera launagreiðslur sem félagið myndi reikna út!
Starfsmenn vildu ekki vera þessir "valdendur" að því að skólinn þeirra og vinnustaður yrði knésettur eða færi á hliðina - en vildu sannreyna að skólinn stæði það illa fjárhagslega að hann bæri ekki launagreiðslur sem væru greiddar skv. útreikningum Kennarasambands Íslands og það var ÞÁ sem loksins einhver fór að fetta fingur út í arðgreiðslur til skólastjóra/eiganda, og jafnframt 50 milljón króna lán sem skólinn lánaði skyldu félagi á sínum tíma. Þeim þótti merkilegt að skólastjóri gæti þegið arðgreiðslur upp á tugi milljóna - en þeir gætu ekki fengið borgað skv. útreikningum KÍ.
Það var s.s. árið 2010 sem Menntamálaráðuneyti - ríkisendurskoðun og menntamálanefnd fór í alvöru að skoða starfsemi skólans. Í úttekt sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið um faglegt starf skólans kom fram að starf skólans var gott, fyrir utan áðurnefnda hluti - vöntun á stöðu umsjónarkennara, skólaráðs, frænkustjórnina og fyrir utan samskiptaörðugleika við skólastjóra og óánægju starfsfólks vegna tíðra utanlandsferða hans. Auk þess var almenn óánægja með þá ráðstöfun skólastjóra að taka sér matartíma milli 12:00 og 14:00 enda þótti það ekki góð fyrirmynd þar sem kennarar fengu tæpar 45 mínútur í sitt hádegishlé, og eðli starfsins samkvæmt, þá er kennari sjaldnast kominn út úr kennslustofu klukkan 12 en þarf að vera mættur til kennslu stundvíslega - vegna þess að hann er fyrirmynd nemendanna.
Hvað er ég að segja með þessu öllu - jú, ríkið leggur til 80% af rekstarkostnaði við þennan skóla - ætti þá ekki að vera a.m.k. svona 80% eftirlit frá ríkinu, varðandi stjórnsýslu og fjármál?
Systir mín starfar í leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar og þar er horft á hverja einustu krónu sem fer í starfsemina. Ef að leyfa á rekstur "einka" skóla - sem ég persónulega skil ekki að hægt sé að kalla einka ef að 80 prósent af rekstrarfé kemur frá ríki, þá VERÐA að gilda sömu lög og sama eftirlit og með 100% ríkisreknum skólum.
Ég styð framkvæmd eins og Menntaskólann Hraðbraut, styð kennara hans og kerfi - og að sjálfsögðu er skólastjóri verður launa sinna, en spurning hvort að eigi að reka skóla sem business?
Í fyrirsögninni segi ég einkaskóli og einkakirkja - hvers ber að gæta? Jú, það þarf að gæta þess að forystusauðurinn sé ekki einráður og misnoti ekki aðstöðu sína og það þarf að vera virkt eftirlit með starfseminni.
Það mætti spyrja sig í lokin - hvar ég hafi verið í öllu þessu, þar sem ég starfaði sem aðstoðarskólasjóri? Ég var að halda utan um daglegan rekstur, halda utan um áætlanir, stundaskrá, einkunnir o.s.frv. Ég tók sl. áramót saman blað um störf mín og það blað varð að fjórum síðum. Stundum var ég allt í senn, skólaritari, sálgæsluaðili, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri .. Ég vildi óska að ég hefði sett niður fótinn fyrr - en ég fór að spyrna við í janúar sl. og bað um utanaðkomandi aðstoð inn í óviðunandi starfsumhverfi. Bað m.a. um þarfagreiningu, skoða hvað þyrfti að bæta og fleira. Skólastjóri var ekki samþykkur þeirri hugmynd, ekki frekar en að hann var ekki samþykkur stöðu umsjónarkennara, ekki samþykkur að kennarar ættu að fá hraðaálag, ekki samþykkur stofnun skólaráðs, ekki samþykkur aðild að stéttarfélagi o.s.frv. Svo má kannski bæta því við að hann er ekki samþykkur útreikningi ríkisendurskoðunar á skuldastöðu skólans.
Skólastjóri skrifað til bræðra sinna í frímúrarareglunnii um DV skrif:
DV 1. september 2010:
"Ég átta mig ekki enn á þessari aðför að mér og mínum, en
vonandi skýrist það einhvern tímann. Veit þó að ef aðeins brot af
ávirðingum DV væri sannleikanum samkvæmt væri væntanlega búið að
loka skólanum."
Því miður er "brot" af ávirðingunum sannleikanum samkvæmt, en skólastjóri veit það fullvel að það væri EKKI búið að loka skólanum, því að skólinn er ekki bara hann. Ef málið væri svo einfalt væri jú örugglega búið að loka skólanum. Skólinn er nemendur, kennarar og annað starfsfólk - og þess vegna er ekki búið að loka skólanum. Menntamálaráðuneytis bíður það verkefni að finna lausn fyrir nemendur og kennara og það er ekki öfundsvert. Það má líka bæta því við að skólastjóri á ekki að benda út í bæ, á brottrekinn kennara, ávirðingar DV eða aðstoðarskólastjóra sem sagði upp til að leita að ástæðu hvers vegna skólinn er í þeirri völtu stöðu sem hann er í dag. Hann þarf að líta í eigin barm.
Ég upplifi mig sem hugrakka að hafa stigið út úr þessum aðstæðum, þó að það sé vont að kveðja góða vinnufélaga og nemendur sem mér þótti afspyrnu gaman að styðja upp "Hraðbrautarfjallið" eins og ég kallaði það og enda að sjálfsögðu á toppnum - en það var stúdentsprófið þeirra, með útsýni til allra átta!
Þá er það sagt!
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.8.2010 | 03:16
Er barnið þitt að hefja nám í framhaldsskóla? Eða ert þú sjálf/ur að fara í framhaldsskóla?
Það vill þannig til að við eigum mikið af klárum krökkum hér á Íslandi. Af einhverjum orsökum hefur það þó þróast að mikið brottfall er úr framhaldsskólum, yfirleitt talið vegna skólaleiða eða áhugaleysis. Ég held að mikið af því megi rekja til þess að nemendur kunna hreinlega ekki á kerfið eða kunna ekki að læra.
Þeir sem falla út úr skóla naga sig síðan í handarbökin þegar þeir átta sig á því að þeir vilja ekkert frekar en að vera í skóla, en ekki er lengur pláss fyrir þá.
Sumir hafa siglt í gegnum grunnskóla á klárheitunum einum saman, eða svona hér um bil, og gorta jafnvel af því að hafa lesið mjög lítið. Þegar þeir síðan ætla að halda uppteknum hætti í framhaldsskóla, þá ganga þeir á vegg.
"Úps - það er ekki nóg að taka plastið utan af stærðfræðibókinni viku fyrir próf, og "shit ég átti víst að skila fullt af verkefnum." Svo koma foreldrarnir; "Sonur minn/dóttir mín er sko rosalega klár, en fannst bara óþarfi að skila verkefni" eða "kennarinn var ómögulegur allt honum að kenna" ..
Merkilegt er þó að margir nemendur sama kennara eru kannski með 8 eða 9 í áfanganum. Þótt að lélegir kennarar séu til þá eru þeir undantekning en ekki regla.
Það er oft leitað að öðrum ástæðum, en raunverulega eru. Nemandinn ber ábyrgð á sínu námi, þó auðvitað sé plús að hafa góða kennara.
Það eru ýmis atriði sem nemendur geta og eiga að tileinka sér sem getur gert þeim námið og lífið svo miklu léttara.
Grunnatriði:
1) Mæta í skólann (virkar einföld regla, en verður flókin fyrir suma)
2) Lesa leiðbeiningar innra nets skólans, námsáætlanir, námsbóka og aðrar upplýsingar
3) Fylgja síðan námsáætlun
4) Skila verkefnum, og það á réttum tíma (algengt er að verkefnaskil séu stór hluti einkunna)
5) Vera í góðu sambandi við kennara ef þeir missa úr vegna veikinda og láta vita af sér
Stundum gengur nemanda illa vegna aðstæðna heima fyrir, tímaleysis foreldra, skilnaðar eða annarra vandamála.
Í skólunum eru námsráðgjafar sem gott er að leita til og mæli ég með því að sem flestir, ef ekki allir nýti sér þjónustu þeirra.
Ég, tala hér af reynslu sem fyrrverandi aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla. En ég hef líka ákveðið að bjóða fram þjónustu, viðtöl og ráðgjöf fyrir nemendur og/eða foreldra - líka 18 ára og eldri.
Foreldrar þurfa líka að vera vakandi, sýna námi barna sinna áhuga og helst að fylgjast með.
Oft þarf fólk að fá svolítið spark í rass eða klapp á kinn, eftir því hvað við á. Ég hef einnig heilmikla reynslu í slíku. Ég ætla mér að gerast svo frek að auglýsa þjónustu mína hér á blogginu, en hægt er að panta tíma hjá mér í síma 895-6119 eða senda póst á johanna.magnusdottir@gmail.com
Verðið er 3.500.- krónur tíminn, afsláttur ef nemandi þarf að vera í "eftirliti" fleiri en fimm tíma.
Einnig er ég með hóp á facebook þar sem ég mun setja inn efni og upplýsingar.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 03:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)