Einkaskóli og einkakirkja - hvers ber að gæta?

Að mínu mati er hættan við svona "einka" að einn aðili, oftast stofnandi og/eða eigandi hafi of mikil völd og fái að starfa eftirltslaust. 

Það sem ég þekki úr Menntaskólanum Hraðbraut, en þar starfaði ég í sex ár, þar af fimm sem aðstoðarskólastjóri. 

Skólastjóri er eigandi skólans og konan hans framkvæmdastjóri rekstrarfélags. 

Í skólastjórn sitja síðan mágur skólastjóra, frænka, vinir og/eða golffélagar.  (Þetta kallast á dönsku "tantebestyrelse") eða frænkustjórn.  

Skólaráð var EKKERT þrátt fyrir að það kæmi fram í matsskýrslu um skólann frá 2005 að í skólanum starfaði skólaráð,  og þrátt fyrir að kennarar og aðstoðarskólastjóri  þrýstu á um það til langs tíma.  Skólinn hóf störf 2003, skólaráð var sett á eftir þrýsting á vormánuðum 2010 - TIL REYNSLU.  

Skólastjóra leist ekkert á þá hugmynd að við skólann væru umsjónarkennarar, enda um aukakostnað að ræða,  en þar er sömu sögu að segja og um skólaráðið,  eftir þrýsting lét hann undan. 

Skólastjóra leist ekkert á það og frábað sér að kennarar væru í sínu stéttarfélagi, Kennarasambandi Íslands,  vegna gamalla persónulegra deilna við sambandið,  eftir stórkostlegan þrýsting og eftir að kennarar ræddu við menntamálaráðuneyti eru loksins (árið 2010) komnar af stað samræður milli skólastjóra og KÍ, en ekki enn kominn stofnanansamningur.   

Skólastjóri lét jafnframt í það skína og sagði beint út að kennarar myndu mögulega knésetja skólann með því að ganga í stéttarfélagið sitt,  þar sem skólinn myndi ekki bera launagreiðslur sem félagið myndi reikna út! 

Starfsmenn  vildu ekki vera þessir "valdendur" að því að skólinn þeirra og vinnustaður yrði knésettur eða færi á hliðina - en vildu sannreyna að skólinn stæði það illa fjárhagslega að hann bæri ekki launagreiðslur sem væru greiddar skv. útreikningum Kennarasambands Íslands og það var ÞÁ sem loksins einhver  fór að fetta fingur út í arðgreiðslur til skólastjóra/eiganda,  og jafnframt 50 milljón króna lán sem skólinn lánaði skyldu félagi á sínum tíma.  Þeim þótti merkilegt að skólastjóri gæti þegið arðgreiðslur upp á tugi milljóna - en þeir gætu ekki fengið borgað skv. útreikningum KÍ. 

Það var s.s. árið 2010 sem Menntamálaráðuneyti - ríkisendurskoðun og menntamálanefnd fór í alvöru að skoða starfsemi skólans. Í úttekt sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið um faglegt starf skólans kom fram að starf skólans var gott, fyrir utan áðurnefnda hluti - vöntun á stöðu umsjónarkennara, skólaráðs, frænkustjórnina og  fyrir utan samskiptaörðugleika við skólastjóra og óánægju starfsfólks vegna tíðra utanlandsferða hans.  Auk þess var almenn óánægja með þá ráðstöfun skólastjóra að taka sér matartíma milli 12:00 og 14:00  enda þótti það ekki góð fyrirmynd þar sem kennarar fengu tæpar 45 mínútur í sitt hádegishlé,  og eðli starfsins samkvæmt,  þá er kennari sjaldnast kominn út úr kennslustofu klukkan 12 en þarf að vera mættur til kennslu stundvíslega - vegna þess að hann er fyrirmynd nemendanna. 

Hvað er ég að segja með þessu öllu - jú, ríkið leggur til 80% af rekstarkostnaði við þennan skóla - ætti þá ekki að vera a.m.k. svona 80%  eftirlit frá ríkinu,  varðandi stjórnsýslu og fjármál?    

Systir mín starfar í leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar og þar er horft á hverja einustu krónu sem fer í starfsemina.   Ef að leyfa á rekstur "einka" skóla - sem ég persónulega skil ekki að hægt sé að kalla einka ef að 80 prósent af rekstrarfé kemur frá ríki,  þá VERÐA að gilda sömu lög og sama eftirlit og með 100% ríkisreknum skólum.   

Ég styð framkvæmd eins og Menntaskólann Hraðbraut, styð kennara hans og kerfi - og að sjálfsögðu er skólastjóri verður launa sinna, en spurning hvort að eigi að reka skóla sem business? 

Í fyrirsögninni segi ég einkaskóli og einkakirkja - hvers ber að gæta?   Jú, það þarf að gæta þess að forystusauðurinn sé ekki einráður og misnoti ekki aðstöðu sína og það þarf að vera virkt eftirlit með starfseminni.   

Það mætti spyrja sig í lokin - hvar ég hafi verið í öllu þessu, þar sem ég starfaði sem aðstoðarskólasjóri?  Ég var að halda utan um daglegan rekstur, halda utan um áætlanir, stundaskrá, einkunnir o.s.frv.  Ég tók sl. áramót saman blað um störf mín og það blað varð að fjórum síðum.  Stundum var ég allt í senn, skólaritari, sálgæsluaðili, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri ..  Ég vildi óska að ég hefði sett niður fótinn fyrr - en ég fór að spyrna við í janúar sl. og bað um utanaðkomandi aðstoð inn í óviðunandi starfsumhverfi.  Bað m.a. um þarfagreiningu, skoða hvað þyrfti að bæta og fleira.  Skólastjóri var ekki samþykkur þeirri hugmynd, ekki frekar en að hann var ekki samþykkur stöðu umsjónarkennara, ekki samþykkur að kennarar ættu að fá hraðaálag, ekki samþykkur stofnun skólaráðs, ekki samþykkur aðild að stéttarfélagi o.s.frv.  Svo má kannski bæta því við að hann er ekki samþykkur útreikningi ríkisendurskoðunar á skuldastöðu skólans. 

Skólastjóri skrifað til bræðra sinna í frímúrarareglunnii um DV skrif:

DV 1. september 2010:

"Ég átta mig ekki enn á þessari aðför að mér og mínum, en
vonandi skýrist það einhvern tímann. Veit þó að ef aðeins brot af
ávirðingum DV væri sannleikanum samkvæmt væri væntanlega búið að
loka skólanum."  

Því miður er "brot" af ávirðingunum sannleikanum samkvæmt,  en skólastjóri veit það fullvel að það væri EKKI búið að loka skólanum, því að skólinn er ekki bara hann.  Ef málið væri svo einfalt væri jú örugglega búið að loka skólanum.  Skólinn er nemendur, kennarar og annað starfsfólk - og þess vegna er ekki búið að loka skólanum.  Menntamálaráðuneytis bíður það verkefni að finna lausn fyrir nemendur og kennara og það er ekki öfundsvert. Það má líka bæta því við að skólastjóri á ekki að benda út í bæ,  á brottrekinn kennara, ávirðingar DV eða aðstoðarskólastjóra sem sagði upp til að leita að ástæðu hvers vegna skólinn er í þeirri völtu stöðu sem hann er í dag.  Hann þarf að líta í eigin barm. 

Ég upplifi mig sem hugrakka að hafa stigið út úr þessum aðstæðum,  þó að það sé vont að kveðja góða vinnufélaga og nemendur sem mér þótti afspyrnu gaman að styðja upp "Hraðbrautarfjallið" eins og ég kallaði það og enda að sjálfsögðu á toppnum - en það var stúdentsprófið þeirra,  með útsýni til allra átta! 

Þá er það sagt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært hjá þér Jóhanna, að láta þetta koma fram.

En er þetta ekki bara dæmigert fyrir það hvernig hlutirnir eru á Íslandi. Það er allt útvaðandi í svona siðleysi, einkavinareddingum, klíkuskap, frænku-og frænda ráðningum og ýmis konar öðrum siðleysis ósóma.

Því miður er þetta bara Ísland í dag  

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 12:07

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásdís - nú er tími til þess að læra af mistökum og taka á siðferðinu.  Það er stærsta áskorun Íslands í dag.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 12:14

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Smá viðbót:

Starfsfólk skólans sá ástæðu til að afhenda skólastjóra þessa áskorun 16. apríl 2010, en undir hana skrifuðu allir kennarar skólans nema þrír - námsráðgjafi, skólaritari og aðstoðarskólastjóri. 

Reykjavík,  16. apríl 2010
"Við, undirritaðir starfsmenn Menntaskólans Hraðbrautar,  viljum með hagsmuni skólans í huga,  koma því á framfæri að  ítrekuð fjarvera Ólafs Hauks Johnson skólastjóra og stjórnunarhættir,  hafi slæm áhrif á starfsanda í skólanum og skaði einnig ímynd skólans.  Við skorum því, hér með, á hann að endurskoða þá starfshætti að vera löngum stundum erlendis og fjarstýra þaðan,  með þær forsendur að leiðarljósi að sýnileiki og aðgengi að skólastjóra,  gagnvart starfsfólki,  nemendum og forráðamönnum þeirra er mikilvægur þáttur í skólastjórnun."

Þess má geta að þegar að hann átti að mæta á fund menntamálanefndar í haust og svara fyrir sig, komst hann ekki þar sem hann var á Flórída. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 12:16

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

P.s.:

Heiðarleg, skemmtileg og harðdugleg kona óskar eftir vel launaðri vinnu! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 12:18

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég set í framhaldi af þessu upp spurningamerki við hvað við ætlum að gera við "einkakirkjur" .. persónulega held ég að betra sé að hafa kirkju þar sem lög samfélagsins eru virt,  jafnréttis-og mannréttindalög.  Þjóðkirkjan er næst þessu þó mér finnist virkilega þurfa að hreinsa þar til - einfalda hluti og jafnvel setja þar upp veraldleg yfir-og mannauðsstjórn,  svo geta hinir andlegu leiðtogar sinnt trúmálunum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 12:25

6 identicon

Svakalegt - Ísland enn í dag.

Landinn (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 12:55

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Frábær grein, Jóhanna. Mér finnst ég vita miklu meira um þennan skóla eftir en áður.

Sæmundur Bjarnason, 3.12.2010 kl. 13:18

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Sæmundur, í raun er þetta bara toppurinn af ísjakanum og kannski hefur það tafið mig að segja frá, því mér hefur legið svo stórkostlega mikið á hjarta. En ég held að við þurfum öll að skoða í kringum okkur og hjá okkur sjálfum (ekki má gleyma því) hvað við höfum verið að gera rangt.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 13:26

9 identicon

Ég man að ég sá um þetta aðeins í fréttunum en ekki var mikið farið út í álit starfsmanna einsog gert var hér. Það var gaman að fá að sjá hvernig háttaði til í starfi þessa skólastjóra með tilliti til hvernig brugðist var við löngunum starfsmanna um breytingu til betrunar á vinnuumhverfi. Yfirleitt er það svo að menn gera það sem þeir geta til að láta starfsfólki sínu líða betur því þannig eykst vilji og vinnugeta, betra vinnuskap og ánægja, sem aftur skilast svo til nemenda en án þessarra tveggja einda er enginn skóli. Það vantar meira svona fólk eins og þig, sem koma fram og segja frá hvernig innri pólitík fyrirtækja er háttað. Takk fyrir þetta, réttlætiskenndin vor hefur verið endurnýjuð að fullu.

Snorri Kristinsson (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 19:48

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir ykkar innlegg Sæmundur og Snorri. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 14:12

11 identicon

þetta þykir mér aldeilis áhugaverð lesning Jóhanna, maður var nú búin að heyra ýmislegt en vildi ekki trúa því að manns annað heimili til tveggja ára væri virkilega í þessari stöðu. ég vona bara ástandið bitni ekki um of á núverandi nemendur enda reynir námið sjálf alveg nóg á, svo ekki sé svona "tilvistar"-vafa á það bætt.

Ásdís Rut fv. nemandi (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband