Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Eva Rós, litla ljós ...

Eva Rós  

EVA RÓS  

Eva Rós, litla ljós
bros þitt burt tárin tekur 
lítil sæt
svo dýrmæt
með mér hamingju vekur

Megir þú dafna mitt dýrðarljós
lýsa´um ævi alla
Eva Rós, Eva Rós
Heyr þína framtíð kalla Heart

(Lag: Alparós)

(Texti: Amma) 


Og upp reis miðvikudagur ..

Það er reyndar miðvikudagsnótt, en mér finnst gott að hugsa á næturnar. Hugsa reyndar stundum of mikið en það er önnur saga.

Ég hef verið að melta spurningu sem ég fékk í gær, þegar ég var að segja að mér finndist ég ekki nógu góð manneskja. Ætti erfitt með að trúa fólki sem segði eitthvað gott um mig. Ég held þetta gildi um okkur flest. Við erum svo fljót að rífa okkur sjálf niður. 

Í mínu tilviki er það að mér finnst ég hafi klikkað sem móðir á ákveðnum tímum í lífi mínu, t.d. eftir skilnað við föður barnanna datt ég niður í að fókusera alveg á sjálfa mig,  Tjasla sjálfri mér saman og fór á fullt að leita að staðgengli fyrir fyrrverandi maka. (Jafnvel þó ég hafi ekki verið tilbúin í það tilfinningalega). Enda tekur maður þá gömlu viðbrögðin inn í nýtt samband.  Rót komst á líf mitt og barnanna og hef ég aldrei fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki traustara bakland fyrir þau.  Það er minn hælbítur, en hælbitar eru vondir og draga úr manni á lífsgöngunni.  Þess vegna þarf maður að sparka þeim frá sér. 

Ég skrifa þetta hér ekki síst fyrir aðra sem eru í þeirri stöðu að vera að skilja, eða eiga eftir að skilja og eiga börn. Skilnaður er sorgarferli, en foreldrar verða að gera sér grein fyrir því að börnin þeirra eru ekki síður í sorg og þurfa enn meiri stuðning en áður.  Því verður að hyggja að þeim. En auðvitað, eins og í öllum tilvikum þurfa foreldrar að hyggja að sjálfum sér til að hlúa að börnunum.  Bara ekki gleyma sér eftir að þau hafa sjálf sett á sig súrefnisgrímuna. 

Ég hef hlustað á svo marga nemendur sem kvarta undan nákvæmlega þessu, hversu mjög skilnaður foreldra hefur bitnað á þeim og hefur kippt undan þeim fótunum.  

Það verður ekki farið til baka - bara gert það besta úr aðstæðum í dag. Við verðum öll að fyrirgefa sjálfum okkur fyrir fortíðina, ekki naga nútíðina hennar vegna, heldur nota lærdóminn sér og öðrum til uppbyggingar. 

Foreldrar elska yfirleitt börnin sín skilyrðisluaust og þar er ég ekki undantekning. En foreldrar eru ekki fullkomnir og verða aldrei fullkomnir - því að engin manneskja er fullkomin.  Við gerum okkar besta, með þeim náðargjöfum sem við komum með í heiminn.  Þegar við ætlum að fara að bæta fyrir "syndir" okkar göngum við kannski of langt og förum óumbeðin að skipta okkur af eða gera hluti fyrir börnin okkar og stelum af þeim þroska.

Okkar stærsta verkefni í lífinu er að elska okkur sjálf, en við sjálf erum hindrunin.  Við finnum því allt of oft eitthvað til foráttu. Förum í niðurbjótandi tal um að við séum ekki verð okkar eigin elsku.  Það þekki ég.  En eins og áður sagði - að elska sjálfan sig er forsenda þess að elska aðra. 

Þá er ég ekki að tala um sjálfselsku í merkingunni eigingirni, heldur að virða sjálfa/n sig og meta og þykja vænt um sjálfa/n sig. 

Við erum að mínu mati gjöf Guðs til okkar sjálfra og við eigum að meta þessa gjöf og fara vel með hana. Hlúa að henni. Hún er brothætt en um leið dýrmæt. 

Hlúum að börnunum, - hvort sem þau eru börnin okkar eða annarra. Þau eru börn jarðarinnar og á ábyrgð okkar allra.  Þökkum fyrir þessi börn og styrkjum þau til að verða betri og sterkari en við sjálf. Þannig bætum við heiminn. 

"Elskum friðinn og strjúkum kviðinn" - þessa setning kemur beint frá mömmu, og þær eru víst nokkrar þannig, sem koma frá öðrum og sitja í okkur.  Reynum að muna þær góðu. 

En hvaða setning skyldi nú koma frá mínu eigin hjarta? .. 

 

 

 

 

 

 


Hugurinn flytur þig (aðeins) hálfa leið ...

Margir spá og spekúlera í mætti hugans. Ég er svo sannarlega ein af þeim og hef líka reynt það á eigin skinni (ef svo má að orði komast) hversu hugurinn er megnugur.  En hugur starfar aldrei einn og sér - við hreyfum hvorki hluti né okkur sjálf úr stað með hugarafli einu saman.  Til þess þurfum við að vera sjónhverfingamenn. 

Á sama hátt og hugurinn virkar illa án líkama, virkar líkami illa án huga - eða hugsunar.  

Margir hafa verið að hugsa um að gera eitthvað,  nú t.d. um áramót.  "Ég er að hugsa um að fara út að ganga"    .. gott mál,  en hugsunin er ekki fullkomnuð fyrr en komið er út að ganga.  Við getum rembst og rembst við að hugsa um göngutúr - séð okkur fyrir okkur dressuð í 66 gráðu Norður útivistargallanum,  en til þess að við séum raunverulega í göngutúr þá þurfum við að lyfta rassinum upp úr sófanum og fara út fyrir dyrnar.  Það er að segja ef að við höfum huga á því! 

Það sama gildir um allt þetta "Secret" dót sem okkur langar að gera,  það er gott mál að í fyrsta lagi, vita hvað manni langar að gera og svo í öðru lagi að skrifa það niður - eða taka ákvörðun um að gera það. Hafa hugann við það OG framkvæma svo.  Hugmynd er lítið - ef nokkuð án framkvæmdar. Framkvæmd getur aftur á móti verið slæm ef hún er ekki hugsuð fyrirfram.  

Hvernig er þá best að hafa þetta?

Jú, fyrsta stigið er að fá hugmynd, annað stig er að skrifa hana niður (vegna þess að það er víst sannað að það sem maður skrifar niður á blað virkar oft frekar en það sem við skrifum bara í kollnn á okkur). Stundum er gott að sýna einhverjum blaðið,  og/eða hafa það sýnilegt uppi á vegg til áminningar.  Í Secret eða Leyndarmálinu, eins og það heitir víst á íslensku er notað það sem heitir "Visionboard" sem kannski má kalla hugsýnaatafla eða eitthvað álíka.   "Síðan er hægt að fara að vinna að hugmyndinni, undirbúa og framkvæma.  Við skulum ekkert vanmeta þessar hugsjónir- eða sýnir. 

Ég á mér t.d. draum að halda fimmtíu ára afmælisveisluna mína  í sól og sumaryl.  En afmælið mitt verður 21.11.11.. Það þýðir að ég þarf að komast á stað þar sem sólin skín í nóvember.  Einnig langar mig til að hafa sem flesta af mínum nánustu ættingjum og vinum hjá mér.  Þetta set ég niður á blað - teikna jafnvel mynd af sól og borði með rauðköflóttum dúk  o.s.frv.  en ef þessi hugsýn á að rætast verð ég að sjálfsögðu að framkvæma ýmislegt.  Verð að fara að spara og setja í sjóð,  fá mér aukavinnu til að safna og fleira. 

Það verður spennandi hvað kemur út úr þessu,  en ég er s.s. komin með hugmyndina á pappír og nú er að samræma hug og hönd til að draumurinn verði að veruleika! ...  Ég er að sjálfsögðu komin hálfa leið, vantar bara að byggja hinn helminginn og voila! .. Wizard

 

 

 


Dásamlegur dagur á Droplaugarstöðum ...

Eins og reglur okkar systkina gera ráð fyrir heimsótti ég mömmu í dag, en fimmtudagar eru mömmudagar og fjórða hver helgi er mömmuhelgi. Þetta snýst svona við eins og þegar foreldrar eru með börnin um mömmu-eða pabbahelgar.  

Heimsóknin í dag var óvenju gleðileg og skrautleg var hún líka.  Ég mætti uppveðruð, beint úr starfsviðtali (þannig að möguleiki er á því að ég verði ekki atvinnuleitandi lengur- fæ að vita á morgun) til mömmu á Dropó.  Þegar ég kom upp á deildina hennar sá ég strax að það var óvenju fámennt og þegar ég spurðist fyrir var mér sagt að mamma hefði brugðið sér til að vera við messu á fyrstu hæðinni!

Ég lagði því leið mína niður aftur, þá var að vísu messu lokið, - en sá þar mömmu sitja við langborð ásamt nokkrum konum af deildinni hennar.  Mér var boðið upp á kaffi og köku og hafði ég ánægju af því að setjast þarna með þeim.  Ég spurði út í messuna - og hver presturinn hefði verið en það vissi því miður enginn,  ég fékk þó að vita að presturinn hefði verið karlmaður.  

Kökurnar runnu ljúflega niður en svo fór mamma að ókyrrast og stóð upp og um leið og hún stóð upp stóðu þrjár aðrar upp.  Ég bauð þeim því mína fylgd og gengum við í göngugrindarhalarófu,  að vísu leiddi ég eina konuna - og mamma að sjálfsögðu í fararbroddi,  ég veit þá hvaðan ég hef þessa forystusauðstilhneigingu!   Rötuðum í lyftuna - og ég þurfti bara einu sinni að kalla á þá öftustu sem var svolítið týndari en hinar. 

Upp var farið og við mamma inn á herbergið hennar, en það vill hún alltaf.  Ég sýndi henni festi sem ég hafði um hálsinn og var að monta mig af því að hafa búið til og hún fékk að máta og svo spurði hún hvort hún mætti halda henni?  Hvernig er hægt að neita mömmu sinni um slíkt? Heart  Jæja,  mamma var orðin glerfín með skartið og eftir smá rabb og kvitt mitt í gestabókina hennar rölti hún með mér fram aftur,  sátu þá ekki frúrnar við kaffi - og kökuborð og voru að fá sér 2. í kaffi og kökum.  Ég sagði þá starfskonunni að þær hefðu verið búnar að drekka, en hún hló við og sagði að þær hefðu sagst ekkert hafa fengið, en þær væru bara vel að þessu komnar.  Hún spurði mömmu,  og mamma var skýr á því að hún væri búin að fá sinn kaffitíma, en hefði ekkert á móti einni sneið af súkkulaðiköku í viðbót, með rjóma!  Hver slær hendinni á móti því?

Ég kvaddi síðan þessar brosmildu konur - og í þetta sinn fór ég ekki heim með kökk fyrir hjartanu eins og svo oft þegar ég hef verið að yfirgefa mömmu, hún er á góðum stað þar sem vel er um hana hugsað. Dagsformið var gott og svo var hún glansandi fín með nýja festi um hálsinn! 

Ég fæ að vita með djobbið á morgun,  það væri nú gaman að fara inn í helgina vitandi það að vera komin með vinnu á ný,  samstarfsélaga til að gleðjast með og skjólstæðinga til að sinna.  Gleði, gleði, gleði. 

Smile 


Opin dagbók 6. október 2010 - Læst úti klukkan 00:30 að nóttu til ....

Í dag er ég að gera íbúðina  "picture perfect" þar sem að ljósmyndari á að mæta á staðinn og taka myndir fyrir sölu.  Munaði samt minnstu að ég væri bara ekkert hérna inni í morgun!  En það sem gerðist í gærkvöldi var eftirfarandi: 

Simbi var að væla og ég orðin sybbin, klukkan var langt gengin í eitt að nóttu - og ég hálf  meðvitundarlaus stóð upp úr sófanum,  fann til plastpoka og hundaól og festi Simba.  Fór síðan út í rokið þar sem Simbi var fljótur að finna hrúgu af laufum til að merkja sér kyrfilega.  Nú eru lauf með Simbapissi eflaust fokin um allan Vesturbæinn. Nóg um það, ég labbaði út að horni, og leit svo í hendina á mér, ég hélt á gemsanum mínum og bíllyklunum.  EKKI húslyklunum.  Hugsa, hugsa, hugsa... ég færi til Lottu systur og fengi að sofa í stofunni.  Nei, hún er með kött og ég er með hund og þau hafa aldrei hist. Ég var náttúrulega með bíllyklana svo ég gæti keyrt til Bjössa og Addý og fengið svo lásamann á morgun. 

Svo rámaði mig allt í einu í það að þegar ég skellti á eftir mér uppi að það hefði ekki verið í lás. Þá væri ein hindrun úr veginum.  Ég kíkti á ljósin í húsinu og sá ljóstýru á fyrstu hæð og ákvað að láta vaða á bjöllunni hjá þeim.  Frúin á neðri hæðinni kom fullklædd til dyra (hjúkkit) og ég afsakaði mig í ræmur -  og hún gerði lítið úr þessu.  Ég náði eiginlega ekki að segja henni hvað ég væri yfirmáta þakklát.  Hljóp upp,  eða reyndar Simbi togaði mig upp á 2. hæð,  og það fór sem mig minnti,  ég hafði ekki skellt í lás. 

Rosalega var ég lánsöm í óláninu! .. Smile Reyndar lánsöm að hafa þak yfir höfuðið og nóg að borða, og svo er ég svo svakalega heilsuhraust. "Lukkunnar pamfíll, svei mér þá!" 

Ég er farin að hugleiða fjallræðuna mína, hvað það sem ég geti sagt sem talar inn í ástandið í dag og gefi fólki von.  Yfirleitt er best að reyna að hugsa út fyrir rammann.  Ekki get ég gefið pólitíska von,  ekki efnahagslega,  en ég get gefið svona "andlega" von og rætt um mikilvægi þess að við séum ekki ein og veröldin snúist ekki bara um rassgatið á okkur sjálfum.  "It´s not about ME its about WE"  sagði Anthony Robbins.   

Um leið og við förum að beina athyglinni að öðrum en okkur sjálfum þá fer okkur að ganga betur og í raun endar athyglin hjá okkur,  eða eins og stendur í laginu:  "If you give a little love it all comes back to you" ....  Hvernig þjóð viljum við vera í raun? ... 

Jæja, þetta var bara tiltektarpása. 

 

 


Blaður um Boston, bleika hanska og beljukápu....

í gærmorgun vaknaði bloggritari snemma og hugðist skúra, skrúbba og bóna í tilefni thrif_1019606.jpgmenningardags,  en á hana leituðu hugsanir vegna ummæla biskups og hugsanir vegna stöðu þjóðkirkjunnar,  svo hún fór að skrifa heilan helling um afstöðu sína í því máli.  Það má lesa hér.  Það er augljóst að þetta heldur fleirum frá skúringum, eða hverju sem þeir gætu verið að taka sér fyrir hendur,  því að met voru slegin í heimsóknum á síðuna og var heimsóknarsúlan hærri en elstu menn muna. Hef að vísu ekkert borið þetta undir gamla menn, svo það hlýtur þá bara að vera minni hennar sjálfrar sem um er rætt.

Fyrir utan það að "afreka" þessar játningar,  átti ég frábæran dag með sumu af mínu uppáhaldsfólki. Já,  ég ákvað að breyta yfir í  fyrstu persónu - það er einhvern veginn auðveldara að skrifa þannig. 

Ég hitti, eftir langan tíma,  góðan vin sem er fyrrverandi dönskukennari Hraðbrautar, og er ég svona "hálfmamma" hans á Íslandi - því hann er aðeins 25 ára og foreldrar hans í Danmörku. Við erum í raun öll mömmu og pabbar hvers annars! ..  Við borðuðum gott salat á Café Paris, en ég held ég sé farin að drekka kaffi þar oftar en í eldhúsinu heima.  Veðrið var mun betra inni en úti, þ.e.a.s. út um gluggann virkaði það hlýtt en kalt var út.  

Á leiðinni heim frá Café Paris rambaði ég inn í Gyllta köttinn og mátaði þar beljukápu eða réttara sagt  Kálfsskinnskápu sem var í boði á 50% afslætti.  Þvílíkum díl er vart hægt að hafna.  Hún var mjög flott - "made for me"  nema þar sem konan er óþarflega handleggjalöng (eflaust vegna skyldleika við apa)  voru ermarnar of stuttar.  Ég og kápan kvöddumst því með tárum. 

Síðar um daginn gerðist ég meira menningarleg ásamt systrunum tveimur og röltum við um stíga Skólavörðuholtsins og hlýddum á söng,  kíktum á hönnuði og önduðum að okkur hvössu og köldu menningarloftinu..  Þaðan lá leiðin á Laugaveginn og í því að hendur okkar voru að detta af vegna kuls sáum við tilboð sem ekki var hægt að hafna:  "Hanskar 3 fyrir 2" .. 

pink%20leather%20gloves

Ég keypti mér bleika,  Hulda systir rauða og Lotta svarta.  Síðar fékk ég hrós frá afgreiðslumanni í 10-11 um fegurð hanska minna.  Þeir eru víst svolítið "outstanding"   .. en allir hafa sinn smekk og þegar ég kom heim tilkynnti dóttir mín mér að "þeir væru ekki fallegir"..  En þarna stalst ég fram fyrir í frásögninni,  þar sem beljukápan verður að fá pláss. 

 

Eftir að hafa yljað okkur á súpum í nýju kaffihúsi á Laugaveginum,  gengum við röskar heim á leið en ég hafði að sjálfsögðu sagt systrunum frá beljukápunni og nú vildu þær sjá kusu. 

Ég mátaði og var að sjálfsögðu gjörsamlega fallin,  flíkin var ómótstæðileg og Hulda systir - hönnuðurinn sjálfur,  var ekki lengi að bjarga málum.  Beltið var óþarft  - það yrði saumað sem rönd framan á ermarnar.  Voila!!.. kápan í poka og beint yfir á saumastofu á Hallærisplaninu sem heitir víst Ingólfstorg núna og í gamla daga Hótel Íslandsplanið.  Af hverju er alltaf verið að breyta þessu? Spurning um að fá borgarstjóra til að skoða það. 

Kápan kostaði 14.800 en það kostar víst 6.500 að lengja ermarnar eða tæplega hálfa kú.  En systurnar fullvissuðu mig um að það væri þess virði - og hverjum er ekki treystandi ef ekki systrum sínum. 

Þess má geta að sparnaðarplön mín voru ekki virt í gær! 

Þegar ég kom heim kom Simbi fagnandi - væri til í að eiga karl sem yrði svona fjarska glaður þegar ég kæmi heim,  en það er annar handleggur.   En áttaði mig þá á því að kápan er í raun alveg eins á litinn og með sömu áferð og feldur Simba!  Váts hvað við verðum í stíl! 

Ég sleppti kvöldrölti og flugeldasýningu en faðmaði í þess stað sófann minn og horfði á heimilisvinina Doktor Gunna og Felix og heilsaði upp á Facebookvini.  Sá hreinlega enga þeirra á röltinu.

vala_flugfreyja_1019608.jpgNú er kominn nýr dagur,  og er ég á leið til Boston,  hvorki meira né minna.  Með flottu stelpunni minni sem verður flugfreyja í fluginu.  Ég mun ekki þurfa að kvarta undan þjónustunni,  enda hún flugfeyja til fyrirmyndar (er mjög hlutdræg vegna skyldleika). Ég vona að Icelandair fyrirgefi mér þó ég hafi klippt hana út úr auglýsingunni þeirra! 

Ég á víst eftir að pakka og gera mig klára - ekki má ég vera stelpunni  til skammar.  Þetta verður stutt Ameríkuheimsókn,  svo ég næ ekkert að heilsa upp á Obama í þetta skiptið.  Svona algjört fram og til baka ævintýri,  en það skemmtilegasta verður að sjálfsögðu að eiga móður-dóttur ævintýri. 

Verið stillt og góð og  forðist öll eldgos og svoleiðis vitleysu á meðan ég er í burtu. 

 


Rejsedag ..

Var að hugsa um að blogga á dönsku í tilefni dagsins og til að koma mér í gírinn, en mun notast við mitt ástkæra ylhýra móðurmál. Í dag er nefnilega komið að því að leggja í leiðangur til Danmerkur, nánar tiltekið til smábæjar á Jótlandi sem kallast Hornslet. Þar býr hún Eva Lind dóttir mín og maðurinn hennar hann Henrik ásamt börnum (og mínum barnabörnum) en Hornslet er heimabær Henriks.

Mér skilst á Evu að hún hafi varið miklum tíma í kaldri barnasundlaug fyrir utan húsið þeirra vegna hitabylgju sem hefur gengið yfir,  en svona barnasundlaugablæti er genetískt þar sem hún móðir hennar eignaðist þær nokkrar meðan hún var að ala sín börn upp.  Gekk að vísu full langt þegar hún keypti þriggja tonna sundlaugina og fyllti hana af vatni, vindsængum og börnum á nýsmíðuðum palli pabba barnanna.  Við fluttum eiginlega út í þessa sundlaug í tvo daga, þar til pabbinn kom heim úr fluginu sínu og fékk áfall. Hann hélt nefnilega að pallurinn fíni og flotti myndi síga eða hreinlega hrynja, en það varð sem betur fer ekki raunin. 

En nú er s.s. stefnan tekin á þessa plastsundlaug dótturinnar,  give or take - nokkrir metrar, sem þýðir að ég ætla ekki að gista útí laug heldur inni. 

Ferðalagið tekur reyndar allan daginn, því að flugið er rúmir þrír tímar og svo lestin þrír og hálfur til Århus,  þá tekur við bílferð í 30 mínútur eða svo. 

Í dag er 25 stiga hiti í Århus, en veðrið í Danmörku breytist yfirleitt þegar ég kem, ótrúlegt hvað veður getur breyst út af einni manneskju,  svo í þetta skiptið kólnar niður í 18 - 21 gráðu sem er bara fínt! 

Þegar ég kom í mars sl. þá hlýnaði all verulega en frostið sem hafði verið hafði varla verið meira í manna minnum.

En nú má konan engan tíma missa, á eftir að pakka snyrtidótinu og ákveða "rejsedragten" passi, farmiði, danskar krónur, myndavél og hleðslutæki allt komið ofan í tösku og að sjálfsögðu sundbolurinn sem konan mun nota þegar hún stingur sér fagurlega til sunds í barnalauginni. 

 Kiddie_Pool

 

 


Útskrifuð úr Hraðbraut

Góðan dag veröld,  í dag er dagur tvö eftir "útskrift" mína úr Menntaskólanum Hraðbraut.  Kannski verður dagatalið mitt svona fyrir og eftir útskrift eins og talað er um fyrir og eftir Krist?

Nei, nei, það er auðvitað ekki svoleiðis. 

Á föstudag fór ég í það sem við köllum í skólanum "Síðustu kvöldmáltíðina" en það var haldið á Austur í Austurstræti þar sem nemendur voru með uppákomur og við snæddum dýrindis kvöldmáltíð. 

Einn nemandinn, Tómas Dan Jónsson hafði samið langan texta við lagið "Hotel California" um okkur starfsfólkið.  Ég set hér inn fyrsta erindið sem er reyndar ekki birt með leyfi höfundar, en á ekki von á því að hann sé á móti því (þar til annað kemur í ljós). 

 

"Stend á villigötum, ekkert stúdentspróf, 

held ég fari í Hraðbraut og stilli djammi í hóf, 

Einhvers staðar í fjarska sé ég bílljósin, 

Ég sá að það var Range Rover, 

og já, það var Ól-inn, 

Þarna sat hún í stólnum, 

Jóhanna Magnúsdóttir, 

og ég hugsaði hvort að ég, 

fengi að sleppa við íþróttir. 

Hún tendraði aftur áhuga minn og sýndi mér

að hún gæti labbað upp á eitthvað fjall, 

og ég gæti farið með.....

viðlag: 

Svona er lífið í skólanum Hraðbraut, 

engan annan stað

vil ég eiga að. 

Við klárum skólann á tveimur árum, 

og kveðjum nú, með tárum. 

..... "

 Já, svona var fyrsta erindi og ljóðið,  en það eru nokkur erindi í viðbót þar sem ýmis prívat húmor um kennara kom fram. Mér þykir vænt um að nemendur minnist mín vegna fjallganganna - en reyndar hafði ég búið til líkingu þar sem ég kallaði skólann, eða skólagönguna, Hraðbrautarfjallið. 

Á þessu fjalli voru fimmtán hæðir eða þúfur til að komast upp á og á toppnum var mark sem á stóð "Stúdent" 

hæðirnar voru fimmtán því kerfið í skólanum er byggt upp af fimmtán lotum.  Ég og að sjálfsögðu kennarar og annað starfsfólk,  vorum því eins og þjálfarar í gönguhóp að hvetja fólk upp á toppinn - og á toppnum var gestabókin, svona eins og Esjunni. En þangað fór ég einu sinni með um fjörutíu nemendur og með mér í það skiptið voru líka  Viðar kennari og Sigga skólaritari.

Á síðustu kvöldmáltíðinni fékk ég svo nemendur, í tilefni útskriftar minnar (eða vegna þess að ég var að hætta) til að kvitta í alvöru gestabók.  Eftir þau skrif hefði ég getað dáið sátt.  Fínt að fá að lesa minningargreinar um sig áður en maður deyr annars! Smile  Veit ekki alveg hvort að Mogginn fæst í Himnaríki (já, já, ég ætla þangað). 

Ég hóf störf í Hraðbraut í ágúst 2004 sem yfirsetukona í 35 % starfi,  hljómar eins og einhvers konar ljósmóðir - en það var að sitja hjá nemendum á þriðjudögum og fimmtudögum, taka niður mætingar o.fl.  Fljótlega var mér boðin meiri vinna á skrifstofu og svo um vorið 2005 var mér boðið að taka að mér aðstoðarskólastjórastarfið og hef gegnt því til dagsins í dag, eða dagsins í fyrradag er það víst. 

Er að vísu í sumarfríi þar til í ágúst, en það er í fyrsta skipti, síðan ég byrjaði að vinna þarna sem ég fæ "alvöru" sumarfrí - en eðli málsins samkvæmt þá lokar skólinn aðeins í um mánuð og auðvitað þurfti að mæta  vel fyrir skólasetningu og gera allt klárt. 

Í fyrradag, laugardaginn 10. júlí var svo sjálf útskriftin - sem gekk vel, auðvitað með smá hnökrum eins og alltaf,  en hún var í mínum huga a.m.k. skemmtileg!  Mín eigin útskrift (þegar ég varð stúdent á síðustu öld, nánar til tekið 20. desember 1980) var frekar leiðinleg og langdregin í minningunni. 

 Þarna söng Sahara Rós Ívarsdóttir eins og engill og Tómas Dan Jónsson,  sá hinn sami og samdi ljóðið sem ég skrifaði úr hér að ofan spilaði undir á gítar, að sjálfsögðu eins og "professional" 

Elísa Elíasdóttir spilaði svo bæði á fiðlu og píanó gullfalleg lög sem snertu hjartans hörpustrengi. 

_tskrift_2010_016_1008108.jpg

 

 

 Elísa Elíasdóttir leikur á fiðlu við undirleik móður sinnar Esterar Ólafsdóttur. Lagið sem þær fluttu var Meditation from Thais eftir Jules Massenet.  Elísa flutti einnig annað lag sem hún spilaði á píanó, en þess má geta að þessi dama fékk verðlaun fyrir ástundun en hún fékk ekki eitt fjarvistarstig þessi tvö ár sem hún var í Hraðbraut og var aldrei veik! 

 

 

 

 

 _tskrift_2010_015.jpg

 

 

 Sahara Rós Ívarsdóttir söng tvö lög; Maístjörnuna eftir Halldór Laxness og síðan lagið Run í útsetningu Leona Lewis. 

 

 

Ýmis verðlaun og viðurkenningar voru afhent,  enda var um óvenju sterkan árgang að ræða og var t.d. dúx skólans, Elín Björk Böðvarsdóttir með 9,63 í meðaleinkunn sem er næstum svona "super human" fast á hæla henni kom svo Stefán Björnsson með 9.54 en báðar þessar einkunnir eru þó nokkuð hærra en áður hefur sést hjá dúxum skólans. Þessi tvö voru bæði stúdentar af náttúrufræðibraut og fengu líka bæði fullt af öðrum viðurkenningum,  þar af verðlaun í stærðfræði en það eru hvorki meira né minna en 27 einingar sem þau kláruðu, eða níu áfangar. 

Sigrún Eðvaldsdóttir (þó ekki fiðluleikari) og Tómas Dan Jónsson voru hæst á málabrautinni. 

Ekki kem ég nú öllu að hér sem fór fram í útskriftinni,  sjálf sá ég um að bjóða fólkið velkomið og kynna á milli atriða.  Ólafur flutti sína útskriftarræðu og fannst mér full mikið púður fara í að ræða DV skrif og það umtal sem skólinn hefur orðið fyrir vegna hans umsýslu og kjaramála innan skólans.   Við vorum að mínu mati á hátíð og slíkt á bara ekkert við á hátíðum,  -  nú ekki fremur en söngur Soffíu frænku á Kardimommuhátíðinni!  já, já, segi bara mína skoðun á því.  Að mörgu öðru leyti var ræðan innihaldsrík og góð og Ólafur á svo sannarlega þakkir fyrir að hafa komið þessum skóla á kortið.  Og auðvitað er ég líka þakklát honum fyrir að hafa ráðið mig í mitt starf á sínum tíma. 

En ég ætla ekki að fara dýpra í það - "don´t get me started" eins og sumir segja. 

Sólveig Anna Daníelsdóttir kom sá og sigraði þegar hún flutti ræðu nýstúdents í lokin, gerði það af léttleika og augljóslega vel þjálfuð hjá Önnu Steinsen sem hefur kennt nemendum Hraðbrautar tjáningu í fjögur ár.  _tskrift_2010_017.jpg

 

 

 

 

 

En nú er göngu nemenda Hraðbrautar á Hraðbrautarfjallið lokið, það er útsýni til allra átta og þau geta valið sér "fjall" til uppgöngu á ný.  Fyrir mér er Hraðbraut sem áfangi á minni lífsgöngu upp lífsfjallið sem ég get þó ekki vitað,  eða nokkur maður, hversu hátt nær.  Markmiðið er að gera vel og njóta göngunnar,  muna að staldra við,  því vissulega er útsýnið ekki einungis á toppnum og margir ólíkir slóðar upp fjallið,  miserfiðir og okkar er valið. 

Hraðbraut var mér ekki einungis starf,  heldur eins og nemendum þá var Hraðbraut mér skóli.  Vinnan með unga fólkinu, að deila með þeim sorgum og gleði - ómældar stundir á skrifstofum minni þar sem setið var og rabbað var um lífið og tilveruna og ef ég hefði safnað öllum tárunum sem þar flæddu ætti ég eflaust nokkra lítra.  Stundum grét ég með.  Það voru ekki bara nemendur sem komu í heimsókn á skrifstofuna, en það voru líka kennarar og starfsfólk.  

Nú hafa sex árgangar útskrifast og margir náði að blómstra í lífinu og sumir hreint út sagt brillerað í Háskóla. 

Tveir nemendur sem útskrifuðust frá Hraðbraut í júlí  2006 náðu þó ekki flugi,  það eru þau Susie Rut og Torfi Freyr sem bæði voru óhemju vel gefin og sterkir persónuleikar sitt á hvorn mátann.  Bæði eru þau horfin til "æðri menntunar" .. og voru þau bæði sárt grátin,  en þetta var fólk sem hafði einmitt átt margar stundir inni á minni skrifstofu þar sem lífið og tilveran voru rædd. 

Svona er lífið,  "undarlegt ferðalag" ..

Nú er komið að krossgötum hjá ykkar einlægri,  markmiðið mitt er fyrst og fremst að njóta, njóta þess góða sem lífið hefur að bjóða á meðan það býðst.  Njóta lífsgöngunnar og gleðjast yfir fjölrbreytileika mannlífsins.  Ég ætla að einbeita mér að því næstu vikur að vera mamma og amma, en stundum hafa mín eigin börn hreinlega orðið útundan í ákafa mínum að sinna starfi mínu vel og Hraðbrautarungunum. 

_tskrift_2010_031_1008113.jpg

 

Þarna erum við að raða okkur upp fyrir myndatöku, f.v. sjálf, Sahara Rós, Víkingur og Katla Lovísa. 

 

 

 

 

_tskrift_2010_040.jpg

 

 

 

Nemendur, óhræddir við að fara út fyrir hefðbundinn klæðaburð,  Anton og Hreggviður stilla sér þarna upp sitt hvorum megin við Hilmar Pétursson líffræðikennara,  en ég setti þessa mynd m.a. inn á Facebook og það voru óvenju margir nemendur sem settu "like" við hana!  

Hilmar er líka "útskrifaður" úr Hraðbraut og stefnir nú til lands Haralds hárfagra. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

_tskrift_2010_034_1008116.jpg

 

Þarna er hluti af mínu uppáhaldsfólki, Grétar félagsfræði-og sögukennari, Friðsemd Dröfn "Darcy" enskukennari og Guðríður Hrund þýskukennari.

 

 

 

Ég þakka kennurum, lávörðunum og Vilborgu í yfirsetudeildinni og öllu starfsfólki í gegnum tíðina fyrir samveruna og samvinnuna. Nemendum líka sem ég hef kynnst þessi sex ár,  sem hafa kennt mér meira en ég hef nokkurn tímann geta kennt þeim og fjölskyldunni minni fyrir stuðning og ótrúlega þolinmæði og þeim vinum sem hafa stutt mig, sérstaklega sl. ár upp síðasta hjallann sem reyndist býsna mikið klettabelti. (Já, já, ég er dramaqueen LoL)

 hra_braut_fjalli_eina_2009_067_1008121.jpg

 

 

 Úr göngu sl. haust á Fjallið eina á Reykjanesi með leiðsögn Björns Hróarssonar, jarðfræðings. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En nú er ömmuleikur, gleði, gleði og útsýnið er fagurt eins og áður hefur komið fram. 

bo_i_bergsmara_11_juli_2010_019.jpg

 

 

Með 17. júní barnið Evu Rós Þórarins- og Ástu Kristínar dóttur, og svo fer ég að heimsækja Ísak Mána og Elisabeth Mai á miðvikudag og síðan ætlar herra Máni að koma með ömmu sinni til Íslands og njóta með henni Verslunarmannahelgarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokum er hér lagið Run  sem hún Sahara Rós flutti svo eftirminnilega á útskriftinni, hér flutt af Leona Lewis. 

 

  "I know we´ll make it anywhere away from here" ..  Heart

 


Dagbók 8.7.2010

Í dag eru liðin fjörutíuogeitt ár síðan að pabbi lést.  Þessi dagur, 8. júlí kemur fram einu sinni á ári, merkilegt nokk! Wink  Ótrúlegt hvað hann pabbi minn hefur verið sterkur í mínu lífi þó hann hafi kvatt mig, eða reyndar kvaddi aldrei, þegar ég var sjö ára. (Já, já, ég veit að þarna kemur fram biturð, það er bara svoleiðis - lífið var sko ekkert létt á þessum barndómsárum). 

Ég sit ekki og syrgi á þessum degi, en það er alltaf smá depurð sem læðist í hjartað og svo "hvað ef" jafnvel þótt að mamma segði að  við ættum aldrei að spyrja "hvað ef"  Mamma er ótrúlega djúpvitur kona,  jafnvel í dag þegar hún er komin með heilabilun, koma frá henni gullkorn og oft eins og hún viti miklu meira en nef hennar nær. 

Vala mín, sem heitir einmitt í höfuð mömmu, var kölluð í flug í morgun og vakti mig 5:30 til að láta vita, svo ég glaðvaknaði og gat ekki sofnað.  Ég stóð mig vel í "Síberíukúr" í gær,  borðaði meira að segja ávexti í morgunmat - en stúdentsefnin mín (úr Hraðbraut) buðu í morgunmat uppi í skóla, og þar var allt fljótandi í hollum og næringarríkum ávöxtum.  Ég gleymi stundum að borða ávexti,  en þarf að passa það betur.  Borðaði indælis kjúklingasalat frá Krúsku í kvöldmat,  en það fæst í Pétursbúð, búð allra búða. 

Útskriftin er ekki á morgun heldur hinn, ég er að verða búin að gera allt klárt og prenta svo út skírteini á föstudag, þegar allar einkunnir eru komnar.  Keypti mér dýrindis Karen Millen kjól í gær,  m.a. til að verðlauna mig fyrir  dugnaðinn í aðhaldinu og svo náttúrulega síðasti séns áður en konan verður atvinnulaus! Smile Annars á maður (kona) ekki að segja frá svona eyðslu á þessum síðustu og verstu tímum.  Auðvitað eru kjólar ekkert annað en "snuð" .... 

Hvað um það,  ætla að vera  "gorgeus" á útskriftinni, enda mín síðasta (sjötta) útskrift og mín eigin útskrift úr skólanum líka! 

Í næstu viku flýg ég svo til unganna minna í Danmörku og ætla að njóta sólar með þeim (búin að panta gott veður). Talaði við Evu yfir sjóinn í gær og sagðist hún hafa horft á myndina "It´s complicated" og talaði um að myndin væri eins og byggð á mömmu sinni, hmmmm...  Já, lífið mitt er flækja, þá e.t.v. blessuð karlmálin helst Whistling  en ég virðist eiga erfitt með að leysa þau. "Can´t live with them and can´t live without them.  

Jamm og já, þetta voru s.s. morgunfréttir fimmtudaginn 8. júlí 2010. 

Amma "gamla" has left the building. 

Smá grenjusena (kannski bara ég sem græt yfir henni)  úr Mamma Mia fylgir hér með: 

 

 


Þreföld mamma og amma - myndablogg

bornin_og_amma_1005163.jpgÞegar að næðir á í vinnunni og úti í samfélaginu finnst mér gott að horfa inn á við,  á ríkidæmi mitt; börnin mín þrjú og barnabörnin þrjú en það síðasta bættist við þann 17. júní sl. við mikla hamingju. 

Þetta verður svona myndafjölskylduömmublogg í persónulegri kantinum,  enda er ég nú yfirleitt bara frekar persónuleg týpa. 

Þarna erum við á fallegum degi sl. sumar í brúðkaupi Birtu frænku,  f.v. Tobbi sonur minn og Ásta kærasta hans, en þau voru að eignast Evu Rós litlu, svo er það auðvitað ykkar einlæg, síðan Henrik maður Evu Lindar og auðvitað hún sjálf og svo heimasætan Vala lengst til hægri. 

 

 

eva_ros_og_amma.jpgAmma með Evu Rós Þórarinsdóttur hálfs dags gamla og dásamlega. Fíngerð og falleg,  fæddist 12 merkur og 49 sentimetrar.  

 

 

 

 

 

 

mai_og_amma.jpg Amma og Elisabeth Mai,  sem er nú orðin eins árs síðan 7. júní sl. en amma hefur ekki séð hana síðan um páskana og saknar hennar og stóra bróður mikið. 

Dugnaðarforkur og skemmtileg stelpa, sem bræðir ömmu inn að beini.  Hún er nú ekki alveg svona "beibíleg" lengur - en alltaf jafn falleg og set nýrri mynd neðar.

 

 

 

 

 

 

 

mani_og_amma.jpgAmma og Mánalingur (Ísak Máni) sex ára "stóri strákur" og dásamlegur drengur.  Við segjum sögur saman um fljúgandi svan og strjúkum bak - það er uppáhalds hjá okkur báðum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

mai_saeta.jpgFröken Mai, sæta, sæta í sumrinu í Danmörku. 

 

 

 

 

 

 

 

 

mani_saeti.jpgog herra Máni orðinn skemmtilega tannlaus, staddur í "Djuurs Sommerland"  en þetta eru víst árin þar sem tannleysi er fagnað! Wizard

 

 

 

 

 

 eva_og_mani.jpgEva Lind og Máni falleg,  það rignir víst líka í Danmörku.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

fallegt.jpgBörnin að leik í kvöldsólinni. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

bros_mai.jpgStórt bros út í heiminn frá fröken Mai - krúttapútti sem situr þarna og gæðir sér á "Dansk snörrebröd" .. eða snúrubrauði - en það er brauð eldað á spýtu yfir eldi. 

 

 

 

 

 

 

 

eva_ros.jpgOg þarna er hún Eva Rós svo mikil písl og algjör draumur.

Það er svo gaman að fylgjast með ungu foreldrunum, þau eru svo meðvituð, búin að lesa fullt af bókum og fara á námskeið en jafnframt yfirveguð og full af elsku til litla ungans.  Heart

 

 

 

 

Þetta var svona smá fjölskyldusaga ;-) 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband