Heldur Karl Sigurbjörnsson virkilega að Guðrún Ebba sé að reyna að draga látinn föður sinn fyrir dóm?

 29586"Á íslandi eru menn saklausir uns sekt er sönnuð" sagði Herra Karl Sigurbjörnsson biskup í kvöldfréttum Stöðvar 2 um málefni Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups. (sjá frétt)

„Það er mjög erfitt að bregðast við slíkum ásökunum sem komið hafa fram með þessum hætti. Við verðum að hafa það í huga að enginn mannlegur máttur getur dæmt í þessu máli,“ sagði Karl við fréttastofu Stöðvar 2 og sagði samfélagið verða að vernda börn gegn ofbeldi.

„Það er enginn þess umkominn að skera úr um hvað þarna hefur gerst,“ segir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, um ásakanir Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur á hendur föður sínum, Ólafi Skúlasyni biskupi sem lést 2008. Kveður hún að faðir hennar hafi beitt hana kynferðisofbeldi árum saman meðan hún var barn og fram á unglingsaldurinn.

Það þarf ekkert að "skera úr um hvað þarna hefur gerst" það þarf bara að trúa dóttur biskups um eðli, eða ógnareðli föður hennar og sýna fórnarlömbum hans virðingu.

Heldur Karl Sigurbjörnsson virkilega að tilgangur þess að Guðrún Ebba upplýsi kirkjuráð umr reynslu sína af föður sínum að hún sé að reyna að draga hann fyrir dóm?  Áttar hann sig ekki á því að hún er að koma fram  m.a. til að styrkja fórnarlömb hans og annarra manna sem hafa framið ofbeldisverk í skjóli kirkjunnar? Hún er að reyna að opna augu og eyru yfirstjórnar kirkjunnar og þeir sem hafa augu sjái og þeir sem hafa eyru heyri! Guðrún Ebba er að leggja sitt lóð ávogarskálarnar til að þöggunin sé rofin.  Hafi hún þökk fyrir.  

það er biskupinn sjálfur og yfirstjórn kirkjunnar sem er undir dómi.  Það eru menn innan stofnunarinnar, sem áttu að bera ábyrgð og sem brugðust þegar til var leitað.  Sumum virðist hafa "yfirsést" mikilvægt bréf,  fólk hefur ekki fengið viðtöl fyrr en eftir dúk og disk og ákveðnir prestar virðast ekki hafa hlustað á ákall sóknarbarna sinna og  latt þau til aðgerða þrátt fyrir að brotið hafi verið á þeim. Prestar hafa verið ásakaðir eða kærðir í einu prestakalli, þá hefur verið tekið á það ráð að flytja þá í annað! 

Svo koma ákveðnir Geirfuglar innan prestastéttar með yfirlýsingar um að þeir ætli EKKI að fylgja íslenskum barnaverndarlögum. Geta menn bara hagað sér svoleiðis án þess að yfirmaður þeirra taki í taumana? 

Þjóðkirkjan þarf sterkan leiðtoga og yfirstjórn alla sem þorir að taka á málum starfsmanna hennar og sóknarbarna.  Það er nóg af þannig fólki nú þegar innan kirkjunnar og ætti ekki að vera vandamál að endurskipuleggja. Fólkið sem barðist fyrir því að kirkjan gengi í fararbroddi í því að samþykkja jafngilda hjónavígslu samkynhneigðra, með sr. Sigríði Guðmarsdóttur í fararbroddi, er þannig fólk. 

Vinkona mín skrifaði á Facebook að þrátt fyrir guðfræðimenntun sína þá væri hún alvarlega að íhuga að skrá sig úr þjóðkirkjunni.  Ég segi fyrir mig að að er ekki síst vegna guðfræðimenntunar minnar að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni sl. vor.   Ég gerði mér grein fyrir því  að árinni  kennir illur ræðari sem er á góðri leið með að sigla íslensku  þjóðkirkjunni í strand.  

Hvað þarf að gerast innan þjóðkirkjunnar til að hún beri nafn með rentu? 

Að mínu mati ætti biskup að segja af sér þar sem hann ræður ekki við embættið,  og endurskoða þarf yfirstjórn alla innan kirkjunnar og hún þarf að skera niður í flottheitum og starfa í anda Jesú Jósefssonar frá Nasaret.  

Tími þöggunar er liðinn og tími siðbótar fer  í hönd. 

Peðið Jóhanna hefur yfirgefið þetta taflborð þjóðkirkjunnar,  nú er spurning hvaða leik önnur peð, hrókur, riddari, kóngur, drottning og síðast en ekki síst;  biskup hyggst leika. 

Samantekt:

Guðrún Ebba gengur fram af hugrekki og leggur sitt mikilvæga lóð á vogarskálarnar til að uppræta kynferðisofbeldi í skjóli kirkju, lóð gegn þöggun og afskipaleysi. Karl biskup virðist halda að málið snúist aðallega um sekt eða sakleysi látins föður hennar. Málið snýst ekki um látinn mann, heldur um að virða Guðrúnu Ebbu og önnur lifandi fórnarlömb ofbeldis og reyna að koma í veg fyrir  frekari skaða. Allt hefur sinn tíma undir sólinni og ég vona, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, að Karl átti sig á því að hann er ekki að valda embættinu.

 


 


mbl.is Kynferðisbrot þögguð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir góð skrif

Marta B Helgadóttir, 22.8.2010 kl. 10:08

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Marta mín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.8.2010 kl. 12:24

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jóhanna, þú ert frábær!

Tek undir hvert orð í þessari mjög svo vel skrifuðu grein og bæti heldur engu við.

Sigurður Þórðarson, 24.8.2010 kl. 13:45

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir Sigurður, þú ert nú ágætlega frábær sjálfur!

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.8.2010 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband