Dásamlegur dagur á Droplaugarstöðum ...

Eins og reglur okkar systkina gera ráð fyrir heimsótti ég mömmu í dag, en fimmtudagar eru mömmudagar og fjórða hver helgi er mömmuhelgi. Þetta snýst svona við eins og þegar foreldrar eru með börnin um mömmu-eða pabbahelgar.  

Heimsóknin í dag var óvenju gleðileg og skrautleg var hún líka.  Ég mætti uppveðruð, beint úr starfsviðtali (þannig að möguleiki er á því að ég verði ekki atvinnuleitandi lengur- fæ að vita á morgun) til mömmu á Dropó.  Þegar ég kom upp á deildina hennar sá ég strax að það var óvenju fámennt og þegar ég spurðist fyrir var mér sagt að mamma hefði brugðið sér til að vera við messu á fyrstu hæðinni!

Ég lagði því leið mína niður aftur, þá var að vísu messu lokið, - en sá þar mömmu sitja við langborð ásamt nokkrum konum af deildinni hennar.  Mér var boðið upp á kaffi og köku og hafði ég ánægju af því að setjast þarna með þeim.  Ég spurði út í messuna - og hver presturinn hefði verið en það vissi því miður enginn,  ég fékk þó að vita að presturinn hefði verið karlmaður.  

Kökurnar runnu ljúflega niður en svo fór mamma að ókyrrast og stóð upp og um leið og hún stóð upp stóðu þrjár aðrar upp.  Ég bauð þeim því mína fylgd og gengum við í göngugrindarhalarófu,  að vísu leiddi ég eina konuna - og mamma að sjálfsögðu í fararbroddi,  ég veit þá hvaðan ég hef þessa forystusauðstilhneigingu!   Rötuðum í lyftuna - og ég þurfti bara einu sinni að kalla á þá öftustu sem var svolítið týndari en hinar. 

Upp var farið og við mamma inn á herbergið hennar, en það vill hún alltaf.  Ég sýndi henni festi sem ég hafði um hálsinn og var að monta mig af því að hafa búið til og hún fékk að máta og svo spurði hún hvort hún mætti halda henni?  Hvernig er hægt að neita mömmu sinni um slíkt? Heart  Jæja,  mamma var orðin glerfín með skartið og eftir smá rabb og kvitt mitt í gestabókina hennar rölti hún með mér fram aftur,  sátu þá ekki frúrnar við kaffi - og kökuborð og voru að fá sér 2. í kaffi og kökum.  Ég sagði þá starfskonunni að þær hefðu verið búnar að drekka, en hún hló við og sagði að þær hefðu sagst ekkert hafa fengið, en þær væru bara vel að þessu komnar.  Hún spurði mömmu,  og mamma var skýr á því að hún væri búin að fá sinn kaffitíma, en hefði ekkert á móti einni sneið af súkkulaðiköku í viðbót, með rjóma!  Hver slær hendinni á móti því?

Ég kvaddi síðan þessar brosmildu konur - og í þetta sinn fór ég ekki heim með kökk fyrir hjartanu eins og svo oft þegar ég hef verið að yfirgefa mömmu, hún er á góðum stað þar sem vel er um hana hugsað. Dagsformið var gott og svo var hún glansandi fín með nýja festi um hálsinn! 

Ég fæ að vita með djobbið á morgun,  það væri nú gaman að fara inn í helgina vitandi það að vera komin með vinnu á ný,  samstarfsélaga til að gleðjast með og skjólstæðinga til að sinna.  Gleði, gleði, gleði. 

Smile 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Gaman að lesa þessa lýsingu þína. Þetta er eitthvað sem maður þekkir vel. Fólk vill lengi hafa fínt hjá sér og vera fínt. Tengdó gladdist t.d. í morgun þegar ég var búinn að vefja gervigreni um svalahandriðið á Eir og vonandi eru ljósin falleg í kvöldrökkrinu. Gangi þér vel.

ÞJÓÐARSÁLIN, 9.12.2010 kl. 22:29

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér fyrir Þjóðarsál. Já, sem betur fer missum við seint áhugann á að skreyta bæði sjálf okkur og umhverfið!

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.12.2010 kl. 23:37

3 Smámynd: www.zordis.com

Yndisleg færsla hjá þér <3  Það er oft svo erfitt að koma og fara, taka breytingum og þeirri þróun sem á sér stað í sálinni sem lifir   Hjartans knús í nóttina þína og ég krossa fingur með þér með góðar fréttir á morgun sem í raun er kominn :-)

www.zordis.com, 10.12.2010 kl. 01:27

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Krossa fingur og tær fyrir þig elsku Jóhanna mín.  Gott að heyra að móðir þín er í góðum höndum.  Við systkinin skiptum okkur líka svona niður til að vera í selskap fyrir föður okkar eftir að hann fór á öldrunardeildina.  Það var svo notalegt eftir á að vita að maður gerði allt fyrir hann og gekk með honum síðasta spölin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.12.2010 kl. 09:08

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Zordís mín!

Ásthildur - ég held að tærnar hafi gert útslagið hjá þér því ég fékk vinnuna!

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.12.2010 kl. 03:16

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Innilega til hamingju Jóhanna, bjartsýni þín og fegurðin í færslunni þannig, að það hefði nánast verið sorglegt ef neitun hefði orðið niðurstaðan!

Það virðist því eiga við um þig, að "þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar í staðin?!"

Magnús Geir Guðmundsson, 11.12.2010 kl. 23:31

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Magnús minn, já - ég er sátt og glöð. Sérstaklega yfir því að fá aftur vinnustað og samstarfsfélaga, svo ekki sé talað um hið verðuga verkefni að skoða og vinna gegn brottfalli nemenda úr skóla.

Jóhanna Magnúsdóttir, 12.12.2010 kl. 19:31

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Vona svo sannarlega að þú hafir fengið vinnuna :)

Hrönn Sigurðardóttir, 12.12.2010 kl. 20:36

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já.... og sé það núna. Til hamingju

Hrönn Sigurðardóttir, 12.12.2010 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband