Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
30.10.2010 | 10:24
Hundatemjarinn Davíð Þór Jónsson
Davíð Þór Jónsson skrifar grein sem hann kallar "Gelt gelt" og þið getið lesið með að smella á geltið þarna á undan.
Hann er þarna að lýsa þeim anda sem ríkt hefur í þjóðfélaginu eftir að tillögur mannréttindaráðs fóru í loftið.
Í landinu virðast hafa skapast tvær fylkingar - með og á móti tillögum - og menn síðan varið sína fylkingu með kjafti og klóm - eða eins og Davíð segir með gelti.
Mjög stór orð hafa fallið frá báðum aðilum, sem hafa síðan kynt undir enn stærri orð hjá mótherjunum.
Ég hef verið duglegri við að gagnrýna "mitt fólk" eins og ég vil kalla það, þ.e.a.s. kollega úr guðfræðinni, og þjóna kirkjunnar, vegna þess að mér finnst að þetta fólk, sem er að boða kristilegt siðgæði - sem ég hef fulla trú á (elska náungann eins og sjálfan sig og allt það....) - hefur dottið í þennan geltandi gír. Það hefur beitt háði, óvirðingu og fleiru í garð mannréttindaráðs, sem er jú bara fólk að reyna að vinna vinnuna sína.
Hvað er að? .. Mér finnst ekkert gaman að vera að sussa á meðbræður og systur og biðja þau um að sýna stilingu, en því miður hefur ekki verið vanþörf á.
Mér finnst við allt of oft gleyma að við erum öll eitt undir sama himni, á sömu jörðu - og það er það sem skiptir mestu máli.
Mannréttindaráð hefur verið gagnrýnt fyrir að liggja einhvers staðar í hýði og koma ekki til samtals, skora á fulltrúa þess að koma fram og ræða við fólkið, treysta því að það skilur heykvíslarnar eftir heima! ..
Úps - nú fór ég á grátt svæði eflaust.
Ég held að draumur okkar flestra, ef ekki allra, sé að búa í landi þar sem ríkir sátt og friður manna á millum. Skrítið að svona stór hópur fólks dreymi sama drauminn en samt er svona erfitt að láta hann rætast.
Er það mismunandi aðferðafræði sem truflar? Er kannski möguleiki á að við sem þjóð setjum okkur markmið - en getum farið nokkrar leiðir að markmiðinu? .. Eigum við ekki bara að segja að markmiðið sé uppi á fjalli - ... ég veit um nokkrar leiðir upp á fjallið - og aðrir vita um enn fleiri leiðir. Það skemmtilega í þessu er - að stundum krossast þessar leiðir og þá er hægt að setjast niður og borða nesti saman.
Við erum búin að klúðra pólitíkinni, klúðra efnahagsmálum - en klúðrum ekki andanum í landinu, sameinumst um að hafa það svolítið gaman og notó.
We are all one ;-)
p.s. eins og fram kemur í nafni bloggsins míns - þá er naflaskoðun eitt það sem ég held upp á, þ.e.a.s. að líta í eigin barm áður en ég fer að dæma gjörðir náungans.
Ég hef eflaust verið full hörð í "sussi" mínu á marga í þessu máli, þetta er ekki eitthvað sem leysist bara með að fara öll í hoppandi hamingjuhalarófu - við erum of flókin til þess. En munum að við erum mennsk fyrst og fremst, mennskan á að gera okkur hæfari en dýrin, sem kannski bara gelta til að verja matinn sinn eða húsbónda og sem manneskjur eigum við að geta rætt saman á tungumáli sem allir skilja.
Mig langar að biðja þá sem leggja orð í belg (ef einhver gerir) að hafa það markmið í huga að það sem viðkomandi leggur til málanna sé uppbyggilegt, en ekki framhald af ásökunum í garð "hinna" .. Ég virði þó að sjálfsögðu málfrelsi - en eins og alltaf virði ég ekki dónaskap eða ofbeldi í garð "hinna" ..
28.10.2010 | 10:30
Umburðarlyndi
Ég hef stundum fengið skot á mig fyrir að vera "of umburðarlynd" og reyndar hef ég líka fengið að heyra að ég sé "of góð" ...
Maður gæti spurt sig, huh..er hægt að vera OF umburðarlyndur eða OF góður? - en já, auðvitað getur það gerst. Það er eflaust ákveðin tegund meðvirkni.
Varðandi umburðarlyndið, þá er það þannig að ef þú ert of sveigjanleg/ur þá gæti mögulega verið gengið yfir þig, sama gildir um góðmennskuna.
Amma sem er "of góð" gæti gefið barni of mikið af nammi - sem er í raun óhollt fyrir barnið. Ég veit alveg að meint góðmennska mín hefur falist í því að ég hef t.d. gagnvart börnunum mínum verið of eftirlát, stundum við nemendur líka. Það er stundum erfitt að þekkja mörkin. Ég játa sekt mína.
Auðvitað kann ég líka fullt í aga - hef aldrei liðið eða þolað ókurteisi eða dónaskap. Ég ver líka minnimáttar, alltaf þegar ég kemst til þess. Ég er ekki umburðarlynd gagnvart ofbeldi.
Merkilegt nokk, þrátt fyrir umburðarlyndið og góðmennskuna - þá hefur mér tekist að ýta undir rassgatið eða hvetja fjölda nemenda í gegnum framhaldsskólann, stundum fólk sem var algjörlega að gefast upp á limminu. Það er stundum gott að muna að þegar að manneskja kemur til þín með vandræði sín, þá þarf hún oft fyrst og fremst hvatningu til að halda áfram, ekki að þú setjist niður með henni og grátir. Við lendum öll í mótlæti á lífsleiðinni og stundum verður þetta mótlæti til þess að við hverfum ofan í holu og erfiðast af öllu er að komast upp úr holunni. Hlutverk náungans er að hvetja þig upp úr holunni eða hreinlega draga þig upp.
Stundum þarf maður að koma sér upp algjörlega á eigin spýtur. En það er önnur saga.
Nýjasta umburðarlyndis skotið sem ég hef fengið er að ég sé of umburðarlynd gagnvart trúlausu fólki, og eða fólki sem er jafnvel trúað en vill minni áhrif kristni í skólum, og vill ekki að þar sé stundað trúboð. Verst að það eru ekki allir sammála hvað það er að stunda trúboð, sumir þvertaka fyrir að það sé stundað og aðrir fullyrða það.
Ég heyrði í fyrradag sögu frá leikskóla, þar sem var talað um að presturinn kæmi, segði sögur og syngi lög og væri ekkert að minnast á Guð eða Jesús, svo þarna væri ekki um neina innrætingu að ræða. Mér fannst því, til að byrja með ekkert að þessu. En fór svo að hugsa. Af hverju þarf prestur að koma inn á leikskólann, syngja, segja sögur, tala um vináttu og kærleika o.s.frv. ? Er undirmannað á leikskólanum? Kunna leikskólakennararnir ekki að syngja, segja sögur, fjalla um vináttu og kærleika?
Ég er fylgjandi sunnudagaskólanum í kirkjunni (auðvitað) .. en ég er ekki fylgjandi heimsóknum presta á leikskóla vegna þess að það hlýtur að felast í því trúboð, þó það sé dulið.
Er ég of umburðarlynd að hlusta á raddir minni hlutans? Er þá verið að traðka á rétti barnanna (eða foreldra barnanna) sem vilja að prestur komi og syngi og tali í leikskólanum? Ég tel svo ekki vera, gífurlega gott og mikið barna-og æskulýðsstarf fer fram um gjörvallar byggðir landsins, eflaust mis mikið, þar að auki getur leiðtoginn eða presturinn talað um Jesús án þess að vera múlbundinn af því að hafa áhyggjur af því að það sé of mikið af trúnni blandað inn í kærleikann og söngvanna sem hann er að flytja börnunum.
Barnið mitt kom einu sinni heim með litabók frá Landsbankanum úr leikskólanum. Ég kvartaði til umboðsmanns barna. Mér fannst skrítið að bankinn mætti auglýsa í leikskóla. Landsbankinn hefur slagorðið "Banki allra landsmanna" .. samt sem áður vil ég ekki sjá hann. Einhver gæti spurt, "hvaða, hvaða, skaðaði þetta nokkuð barnið þitt að fá þessa litabók?" .. Alveg örugglega ekki, en þetta er spurning um mörk og frið fyrir utanaðkomandi áróðri. Er rétt að byrja í leikskólanum?
Eigum við ekki bara að leyfa börnunum að koma til Jesú þegar og ef þau eru tilbúin, það stendur ekki: "Leyfið mér að koma til barnanna" heldur "Leyfið börnunum að koma til mín" ..
Að gefnu tilefni:
Ég er ekki að leggja mat á tillögur Mannréttindaráðs, ég er aðeins að íhuga ýmis atriði sem þar eru til umræðu. Það þarf að fara varlega í allt sem setur hömlur á listsköpun, enda listin allt í kring og umvefjandi, og sannarlega mikið af henni af trúarlegum toga.
Knus og kram - við öll blómin í blómapottinum jörð
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (80)
25.10.2010 | 07:26
Verum vinir og sýnum virðingu - trúmálin og skólinn enn og aftur
Ég hef verið stödd erlendis, en reynt að fylgjast með trúmálaumræðunni í fréttum, facebook og bloggi. Ég hef fullt af skoðunum þar.
Það sem mér finnst sorglegast í umræðunni er þegar að við berum ekki virðingu hvert fyrir öðru. Við erum fyrst og fremst mennsk, öll í sama blómapottinum og því þurfum við ekki á því að halda að "dissa" hvert annað.
Við erum með vandamál - það verður að viðurkennast. Mér sýnist margir sem tjá sig ekkert viðurkenna að kristin innræting í skólum eða aðkoma presta, djákna eða annarra aðila frá kirkjunni geti verið vandamál. En vandamálið er til staðar.
Vandamálið er það að hluti þeirra sem sækja skólann vill alls ekki þiggja þjónustu prestanna, stunda kirkjuferðir o.s.frv.
Við verðum að játa að þetta vandamál er í gangi og finna lausnir og síðan ákveða hvaða leiðir er hægt að fara.
Ég er trúuð manneskja, menntuð til prests - og starfaði í framhaldsskóla í sex ár. Þar kom menntun mín mér vel, og kannski sérstaklega í því að berjast gegn bókstafstrúarkreddum og öfgum. Kom mér vel í að vinna að fordómum gegn samkynhneigð. Það kom fyrir að námsráðgjafi vísaði til mín þegar hana skorti trúarleg svör, því að vissulega hafa nemendur (og þá kannski sérstaklega eldri nemendur) spurningar af trúarlegum toga, sem tengjast þeirra tilveru. Einu sinni leitaði til mín nemandi og sagði orðrétt "ég vil tala við þig AF ÞVÍ að þú ert prestur."
Mín lausn er að það eigi alls ekki að vera með einhvers konar hóptrúboð í skólum, það á ekki að þurfa að vísa einhverjum frá sem finnst óþægilegt að verið sé að kynna fyrir þeim trú, syngja trúarlega söngva o.s.frv. heldur ætti að vera í boði að tala við prest á einhverjum reglulegum basis.
Að sjálfsögðu er krikjusagan samofin mannkynssögu og trúarbragðasagan öll og þar verður ekkert frá skorið. Menningin okkar og listir er að miklu leyti byggð á sögunni, þó að sagan sé ekki alltaf fallegt er mikilvægt að þekkja hana. Hún kemur fram í myndlist, bókum, leikritum, kvikmyndum, tónlist og öllu því sem listin hefur upp á að bjóða.
Kvikmyndin Matrix er t.d. ein trúarheimspekileg pæling.
Ég hef enga trú á því að barbarismi og siðleysi muni tröllríða skólakerfinu þó að reglum varðandi aðkomu presta og kirkjunnar verði breytt. Það er dónaskapur í garð trúlausra að halda því fram, en hefur því miður verið eitt af sjónarhornum sem fram hafa komið.
Gullnu reglurnar sem fram koma í Biblíunni eru svo almennar að þær er vel hægt að kenna án þess að vísa til Jesú Krists eða Guðs.
Í huga hinna trúuðu þá er Guð með í för. Þegar ég var að sinna nemendum var það ekki svo að ég væri að minnast á Guð eða Jesú - nema að þeirra frumkvæði. Eins og fram kom hér að ofan gerðist það stundum, en ekki oft.
Sem trúuð manneskja þá er það þannig að ég treysti Guði til að vera með í för og veita mér innblástur og styrk til góðra verka.
Við þurfum nú að einbeita okkur að því að sameina en ekki sundra - hvorki skólabörnum né okkur sjálfum.
Þjónusta prests og/eða djákna ætti að mínu mati að vera "í boði" í skólanum, svipað og sálfræðingur og/eða námsráðgjafi, sé fyrir því meirihlutavilji, en þessari þjónustu á ekki að þröngva upp á neinn nemanda, né þurfa að aðkilja nemendur frá vegna þess að þeir upplifa sér það ekki hollt eða foreldrar þeirra.
Börnum þarf að kenna að standa á eigin fótum og taka ábyrgð, allt til að styrkja sjálfsmynd þeirra. það þarf að kynna fyrir þeim hvaða möguleikar eru í boði og við "hin gömlu" þurfum að vera góðar fyrirmyndir og leita lausna.
ÞAU geta síðan ráðið hvaða leið þau kjósa sér, hvern og hvað þau hafa með sér í för.
Bottom line:
Trúin á að vera "í boði" en henni á ekki að þvinga upp á nokkra manneskju, hún á að vera sameinandi en ekki sundrandi. Það sem virkar útilokandi er ekki falleg trú. Trú á sameinandi afl og að við séum öll jafn gild sem manneskjur, er trú sem allir ættu að geta tileinkað sér.
Viðbót frá Facebook-vinkonu: "Trúin á að vera í boði en ekki boðuð" (í skólakerfinu).
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
11.10.2010 | 08:44
Áhyggjur og krabbamein
Þessi brosandi mynd er svona smá mótvægi við fyrirsögnina, en þetta þarna ætti kannski frekar að standa - áhyggjuleysi og krabbamein.
Í gær tók ég þátt í Kvennakirkjumessu sem haldin var í Frikirkjunni í Hafnarfirði.
Þegar ég var í bílnum á leið til messu - ákvað ég hvernig ég hæfi prédikun mína, eða réttara sagt samtal mitt við kirkjugesti. Mér til mikillar gleði voru þarna ekki aðeins konur á miðjum aldri sem er jú uppistaðan í sóknarbörnum Kvennakirkjunnar (og við erum að sjálfsögðu flottur hópur) en líka þrjú tilvonandi fermingarbörn, pabbi, afi, lítil systir og og bara svona fólk af öllum stærðum og gerðum. Ég verð að játa það, hér og nú, að unga fólkið er uppáhalds og það er lika mesta áskorunin að tala við þau. Ég vildi ekki heldur að þau væru að koma þarna til að hlusta á einhverja kerlingu þylja upp eitthvað óskiljanlegt blaður - heldur að þau fengju gott og uppbyggilegt veganesti.
Þess vegna ákvað ég að hafa prédikunina aðeins styttri en upphaflega var planað, og fyrir fram hafði ég auðvitað skrifað "á mannamáli" og ákveðið að tala þannig að ég fengi fólk til að taka þátt og svara. Það tókst bara vel.
Yfirskrift prédikunarinnar var Fjallræðan, en áherslan var á því að fylgja hjarta sínu, vera maður sjálfur en ekki sýnast og að hafa ekki áhyggjur af einhverju sem kannski aldrei yrði. Ritningarlesturinn á undan hafði fjallað um liljur vallarins og fugla himins sem að sjálfsögðu þiggja líf en eru ekki að spekúlera hvað morgundagurinn ber í skauti sér.
Fyrirsögn bloggsins er: áhyggjur og krabbamein, en það er af þeirri ástæðu að ég spurði fólkið í upphafi hvort það hefði áhyggjur, hver þarna inni væri með áhyggjur, .. ég sjálf rétti upp hendi og fleiri hendur komu á loft, auðvitað!
Þá sagði ég söguna af því þegar að ég greindist með sortuæxlið sem er illkynja krabbamein og þegar að læknirinn sagði við mig, þegar búið var að krukka í mig tvisvar og ég var á biðtíma að fá úr því skorið hvort meinið hefði dreift sér, eða hvort það þyrfti að skera meira, "Veistu það Jóhanna að áhyggjurnar geta gert þig veikari en krabbameinið." Í dag er ég krabbameinslaus, en viti menn - ég ber ennþá áhyggjur! ...
Það er rosalega mannlegt að hafa áhyggjur, en það er svo mikilvægt að gera sitt ítrasta til að lágmarka þessar áhyggjur, sérstaklega þegar þær gera manni meira illt en gott. Við höfum máttinn til þess og það er gott að biðja Guð um að styrkja þennan mátt (fyrir okkur sem trúum á Guð eða æðri mátt).
Stress er mjög óhollt og ekki síður dánarorsök en krabbamein. Í raun ætti okkur að bregða jafn mikið við að heyra orðin áhyggjur og stress, eins og krabbamein því að áhyggjur og stress geta orðið eins og huglægt krabbamein.
Vegna þessa alls þá ákvað ég að æðruleysisbænin væri sú bæn sem hentaði best aðstæðunum og umræðuefninu og ég las hana í upphafi ræðunnar og í miðri prédikun þá fórum við með hana saman.
"Guð - gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli."
Bænin fjallar um sátt, að sættast við það sem að höndum ber - sættast við að við getum ekki breytt sumu, en við þurfum oft hugrekki til að breyta því sem við getum breytt og svo þurfum við einmitt að vita muninn á því sem við getum breytt og því sem við getum ekki breytt.
Þarna er alls ekki verið að segja að við eigum bara að leggja hendur í skaut, heldur endilega hafa þor og dug til að breyta þar sem það er í okkar valdi til að breyta. En sumir hlutir eru hreinlega ekki í okkar valdi, við tökum á þeim þegar þeir koma til okkar, eins og við getum, en kjarninn er að vera ekki að hafa áhyggjur af einhverju sem kannski aldrei verður. Það sem við veitum athygli það vex og ef við dveljum í áhyggjunum þá vaxa þær svo sannarlega.
Það er ágæt æfing að anda djúpt að sér fríska loftinu - í gær kallaði ég fríska loftið Guð, því fyrir mér er andardrátturinn næring Guðs, og anda síðan frá sér áhyggjum og öðru því sem hefur staðnað í líkamanum ... senda það langt út fyrir hafsauga. Brosa svo með sjálfum sér og þakka fyrir allt það sem við höfum. Í mínu tilfelli er það heilsan, fjölskylda mín, vinir .. allt fólkið sem ég er búin að kynnast og er sambýlingar í þessum blómapotti sem kallast "jörð" ..
Bob Marley er með þetta.
"In every life we have some trouble, don´t make it double" ....
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.9.2010 | 09:15
Úlfar Þormóðsson, Guð og bláberin ..
Ég fylgdist með viðtali við Úlfar Þormóðsson í Kastljósi í gær þar sem hann lýsti leit sinni að Guði í Biblíunni.
Það skrítna við viðtalið var að hann sagðist hafa leitað með Guði. Skil því ekki hvers vegna hann var að leita að einhverju/m sem hann hafði þegar fundið? Jæja.
Sá Guð eða guðsmynd sem hafði hans athygli var hinn vondi Guð sem eyddi heilum þorpum og var bara hreint og út illgjörn vera eða hugmynd.
Ég ætti ekki að þurfa að skrifa þetta en finnst ég þurfa það að gefnu tilefni:
Þegar að þessar guðshugmyndir eru settar fram fyrir þúsundum ára, þá er menntun og þekking manna á því stigi að þeir álíta að þruma sé rödd Guðs, náttúruhamfarir og sjúkdómar séu hefnd Guðs o.s.frv.
Það eru vissulega einhverjir á því "stigi" enn í dag, jafnvel þó að þekking heimsins hafi sýnt fram á annað.
Úlfar kvartaði undan því að prestar týndu aðeins bestu berin, eins og bláberin - hin safaríku.
Hvers vegna ekki?
Ef við værum skynlaus og/eða viljalaus - þá myndum við kannski leggja okkur til munns súr, vond eða jafnvel eitruð ber. En er maðurinn þannig?
Af hverju skyldum við ekki velja hið góða og hafna hinu illa? Mér finnst hann algjörlega fara fram hjá hinum frjálsa vilja.
Ef að vilji einhvers er að finna illan Guð þá finnur hann örugglega illan Guð. En ef þú leitar að kærleiksríkum Guði þá finnur þú kærleiksríkan Guð.
Nýlega kom ég upp í sumarbústað og hitti þar fyrir föðursystur mína, hún bauð mér nýtínd bláber með grískri jógúrt - nammi, namm.
Ég held að Úlfar hafi leitað langt yfir skammt og lesið of mikið til að leita að Guði, því að Guð er í hjarta hvers manns.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr Morgunblaðinu 4. september 2010, krufin:
Það sem er skáletrað eru orð Sigmundar, en annað eru mín orð.
Sótt að kirkjunni - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
En er eðlilegt að stjórnmálamenn og aðrir sem hafa horn í síðu kirkjunnar noti ógæfu fólks til að hafa áhrif þar á?
Hér þykir mér mikilvægt að það komi fram að "ógæfa fólks" í umræddum tilfellum er til komin vegna þess að vígður þjónn kirkjunnar reyndist sjúkur maður, misnotaði vald sitt gegn sóknarbörnum sínum og reyndar eigin dóttur. Það bættist síðan við "ógæfu fólks" þegar að vígðir þjónar kirkjunnar reyndust illa þessum sóknarbörnum, snéru við þeim baki og/eða þögguðu málið niður beint eða óbeint.
Einnig tel ég að gagnrýnin sé alls ekki öll ættuð frá þeim sem "hafa horn í síðu kirkjunnar" heldur alveg eins frá þeim sem þykir akkúrat vænt um kirkjuna sína.
"Þegar þetta er skrifað hefur fréttaflutningur um kirkjuna og kynferðismál staðið samfleytt í 22 daga. Fréttamenn þekkja það að yfirleitt reynist erfitt að halda fréttaflutningi af sama máli gangandi lengur en í þrjá daga, jafnvel þótt um stór mál sé að ræða. Það á ekki síður við um góð mál, mál sem fréttamennirnir sjálfir telja mikilvæg. Vissulega tengist fréttaflutningurinn nú mjög alvarlegu máli sem ekki var gert upp á sínum tíma. Upphaf umfjöllunarinnar var hins vegar frásögn af því að kirkjan hygðist loksins taka málið fyrir. Það voru góðar fréttir og hefðu átt að geta orðið tilefni uppbyggilegrar umræðu. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin."
Ég er sammála því að það er örugglega erfitt að halda boltanum á lofti í fréttaflutningi - og fréttamenn hafa "tendens" til að segja frekar slæmar fréttir en góðar, því að þær "selja" betur. En var upphaf umfjöllunarinnar hins vegar frásögn af því að kirkjan hygðist loksins taka málið fyrir? ... Er það rétt með farið hjá Sigmundi Davíð?
Var ekki upphaf umræðunnar umfjöllun DV um mál Guðrúnar Ebbu, dóttur biskups? Þann 11. ágúst kom frétt - "KIRKJAN LEYNIR BRÉFI BISKUPSDÓTTUR".. Er það rangt eftir tekið hjá mér? Var ekki málið að hún hafði sent Karli biskupi bréf vorið 2009 og beðið um fund, bréf sem var ósvarað ári síðar - sem hún síðan ítrekaði í maí 2010 en vegna forgangsröðunar mála hjá Kirkjuráði í júní en vannst ekki tími til að taka hennar bréf fyrir en ákveðið var að boða hana á fund í september. Það var þó ekki fyrr en eftir að DV birti þessa frétt og viðtal við Guðrúnu Ebbu að hún var boðuð skyndilega á fund með Kirkjuráði 17. ágúst sl. þar sem hún sagði frá misnotkun föður síns.
Upphaf umfjöllunarinnar, miðað við þetta, er EKKI að kirkjan hygðist taka málið fyrir - það finnst mér býsna langsótt túlkun.
"Eðli umræðunnar
"Það er mikilvægt að læra af mistökum fortíðar og kynferðisafbrot og forvarnir gegn þeim eru að sjálfsögðu mjög alvarleg mál og verðskulda ítarlega umræðu."
Algjörlega sammála Sigmundi Davíð þarna.
"Hins vegar virðast fréttirnar af kirkjunni ekki snúast fyrst og fremst um það. Í stað þess að fjalla um kynferðisbrot almennt og hvernig megi koma í veg fyrir þau virðist fréttaflutningurinn aðallega ganga út á að tengja saman umræðu um kirkjuna og kynferðisbrot á einn eða annan hátt."
Eftir það sem á undan er gengið - er þá hið rétta að fjalla "fyrst og fremst" um kynferðisbrot almennt? Hér er verið að fjalla um gjörðir þjóns og viðbrögð þjóna "HEILAGRAR ALMENNRAR KIRKJU" sem okkur er uppálagt í Postullegri trúarjátningu að trúa á. Hvers vegna á að taka hið almenna út úr þegar að hér er ekki um að ræða kynferðisbrot almennt? Kirkjan; samskipti þjóna hennar og skjólstæðinga er aðalatriði hér en ekki aukaatriði.
"Þetta varð ljóst fyrstu dagana á meðan menn voru að þreifa sig áfram í umræðunni. Eftir það fór umræðan hins vegar að snúast nánast eingöngu um mál fyrrverandi biskups sem upp kom fyrir 14 árum. Það er hræðilegt hvernig skilið var við það mál á sínum tíma en það eru mistök nú, rétt eins og þá, að láta umræðuna fyrst og fremst snúast um kirkjuna fremur en stöðu fórnarlamba. Sem betur fer hefur umræðan þó aðeins þróast í þá átt að undanförnu."
Það er hræðilegt hvernig komið var fram við Sigrúnu Pálínu, fjölskyldu hennar og þær konur sem komu fram með henni 1996. Og það er hræðilegt hvernig skilið var við það mál og það er hræðilegt að Ólafur Skúlason hafi verið kosinn biskup með þennan ljóta blett og með stuðningi svo margra.
Hefur umræðan í dag ekki snúist um stöðu fórnarlamba? Ég hef að minnsta kosti lesið frásagnir fórnarlambanna í DV - birst hafa viðtöl við a.m.k. fjórar konur, auk dóttur biskups. Ég hlustaði á Sigrúnu Pálínu í Kastljósi og vissulega las ég umræðu þar sem einhver kvartaði yfir því að of mikill tími Kastljóss hefði farið i viðtalið við hana!
Umræðan varðandi fórnarlömb hefur að mestu leyti verið á þann veg að þarna fari sannar hetjur, hugrakkar konur sem hafa stigið fram öðrum konum til eftirbreytni. Eðli málsins er að gagnrýnin hefur verið á kirkjuna, eða þá sem málið eiga að taka til sín innan hennar og tel ég það ekki óeðlilega gagnrýni og virkar kannski eins og hæst sé kallað.
"Viðbrögð kirkjunnar voru reyndar um margt klaufaleg þegar umræðan byrjaði."
Já - frekar og kannski var það toppað með mynd af Karli biskupi og Geir Waage með málverk af Ólafi Skúlasyni hangandi á milli sín. Vissulega var það óvart af þeirra hálfu, - en þarna hékk myndin enn uppi á áberandi stað á biskupsstofu þrátt fyrir frásögn Guðrúnar Ebbu um misnotkun föður hennar og annarra kvenna. Það lýsir ekki mikilli iðrun eða kannski bara mjög miklum klaufaskap.
"Að hluta til er það vegna þeirrar erfiðu stöðu sem forystumenn kirkjunnar eru í, eðli starfsins vegna. Þeir geta ekki varið sig eins og hvert annað fyrirtæki. Raunar er til þess ætlast af kirkjunni að þar bjóði menn hinn vangann fremur en að ráðast í ímyndarherferð. Þegar fólk er reitt yfir alvarlegu máli og vill sjá afgerandi viðbrögð kann hins vegar tal um iðrun og mikilvægi fyrirgefningar að virðast ósannfærandi. Þó myndum við ekki vilja að kirkjan yrði pólitísk í störfum sínum og svörum."
Það sem beðið er um af forystumönnum kirkjunnar er hugrekki til að játa að rangt hafi verið aðhafst. Fyrir hverjum átti kirkjan að "verja sig" ? .. Fyrir konunum sem komu fram? Fyrir ásökunum fjölmiðla? Hver sló kirkjunnar menn á vangann? Er til önnur vörn fyrir kirkjuna eða yfirmenn hennar í þessu tilfelli en að koma fram af auðmýkt?
"Undirtónninn
Núverandi biskup hefur gengið mjög langt til að koma til móts við þær kröfur sem til hans eru gerðar í málinu. Engin ástæða er til annars en að ætla að hann og prestar þjóðkirkjunnar taki það mjög alvarlega. Kirkjan hefu rraunar gert meira en flestir til að takast á við þessi mál. Hvers vegna er ekkert minnst á aðrar stofnanir sem hafa gert minna eða ekkert."
Miðað við áðurnefndan "klaufaskap" og ósamræmi í málflutningi núverandi biskups og Sigrúnar Pálínu sem kom m.a. fram í Kastljósviðtölum, þá er það að mínu mati og margra annarra, vegna hlutdeildar hans að rétt sé hjá biskupi að víkja á meðan málið er í rannsókn sannleiksnefndar.
Kirkjan er ekki sambærileg neinni annarri stofnun að mínu mati. Kirkjan á að vera skjól og fyrirmynd í kærleika. Hér er um að ræða skjólstæðinga kirkjunnar. Það er rétt að illa hefur verið haldið að mörgu leyti á kynferðisbrotamálum í samfélaginu, en það gerir ekki ábyrgð kirkjunnar minni. Ég tel rétt að biskup og prestar kirkjunnar taki þetta mál mjög alvarlega. Ég hef hlustað á marga presta og veit að þeim líður illa - eins og okkur mörgum sem þykir vænt um kirkju Jesú Krists á jörðu.
"Hvers vegna eru ekki rifjuð upp alvarleg kynferðisbrotamál annars staðar og rætt um þessi mál almennt. Mörg alvarleg afbrot eru óuppgerð .Aðalatriðið virðist vera að tengja kynferðisbrot við kirkjuna á einn eða annan hátt fremur en að ræða það alvarlega mál sem slík afbrot eru."
Ég var búin að gefa athugasemd á þetta í upphafi.
"Undirtónninn er sá að kynferðisafbrot séu sérstakt vandamál í kirkjunni og jafnvel látið í veðri vaka að kirkjan umberi kynferðisafbrot. Það er mjög mikilvægt að fréttaflutningur líti ekki út eins og herferð. Í hverju skrefi þessa máls hefur maður hins vegar getað sagt sér hvert umræðan yrði leidd næst, algjörlega óháð svörum kirkjunnar manna."
Undirtónninn er sá að kynferðisbrot eru alvarlegri innan kirkjunnar en annars staðar (ef hægt er að setja alvarleikastig á kynferðisbrot). Sérstaklega er það alvarlegt þegar um er að ræða æðsta mann kirkjunnar og enn og aftur; vígðir þjónar sem gegna heilögu prestsembætti taka þátt í þöggun.
Kynferðisbrot eru alltaf alvarleg - og sérstaklega alvarleg þar sem sálusorgarar nýta sér veikleika þeirra sem til þeirra leita í sárum sínum. Þetta á að sjálfsögðu líka við fólk í öðrum stéttum eins og lækna, sálfræðinga og kennara. En trúfræðilega er það þannig að það sem við gerum okkar minnsta bróður höfum við gert á hlut Jesú - og það hljómar illa; en það þýðir að æðsti maður kirkjunnar hefur misnotað Jesú þegar hann misnotaði dóttur sína og sóknarbörn sín.
Eigum við svo enn að miða kirkjuna við aðrar stofnanir og benda á aðra að þeir standi sig ekki?
"Rök fást ekki rædd
"Einn andans maður, en þó ekki tíðarandans, leyfði sér við upphaf umræðunnar að greina frá þeirri skoðun sinni að þagnarskylda presta mætti ekki vera neinum vafa undirorpin. Taldi hann lög sem vernda þagnarskylduna æðri öðrum lögum (en orðaði það reyndar óheppilega.) Þetta hentaði ágætlega til að fóðra málið í nokkra daga. Hins vegar var lítið rætt um rök prestsins heldur ráðist á hann persónulega af ótrúlegri óbilgirni og óhikað gefið í skyn að honum gengi það til að verja kynferðisbrotamenn. Rök prestsins sem ekki fengust rædd voru hins vegar þau að ef ekki væri til staðar þagnarskylda mundi ekki hvarfla að nokkrum manni, hvorki fórnarlambi né geranda að trúa presti fyrir því að brot hefðu átt sér stað. Prestur væri þá ekki í aðstöðu til að hvetja fórnarlömb til að kæra mál eða gerendur til að leita sér hjálpar. Þótt ég sé ekki endilega sammála mati prestsins eru rök hans þó þess verð að vera rædd. Þetta er reyndar ævagömul og áhugaverð lagaleg og heimspekileg umræða, efniviður ótal lærðra ritgerða, leikrita, kvikmynda og bóka. Hvers vegna var ekki farið í þá umræðu.
Afhverju datt engum í hug að spyrja um þagnarskyldu geðlækna, sálfræðinga eða lögmanna? Það var vegna þess að umræðan snerist í raun ekki umstóru spurningarnar og svör við þeim heldur um að halda áfram að berjaá kirkjunni. Hvaða mál sem dugði til að halda umræðunni gangandi varþví gripið og ef ekkert nýtt gerðist var sama fréttin sögð að morgni, íhádeginu og á kvöldin. Sú málsmeðferð er ósanngjörn gagnvart kirkjunni en hún er ekki síður ósanngjörn gagnvart þolendum kynferðisbrota."
"Geir er andans maður en ekki tíðarandans" það er rétt hjá Sigmundi Davíð að Geir er ekki maður tíðarandans og talar t.d. um skriftir sem ekki tíðkast í Lútherskri kirkju. Varðandi þessa umræðu þá fór hún mikið fram hjá mér þar sem ég var erlendis þegar þetta kom fram. Framsetningin var klaufaleg og svo virtist sem að Geir væri tvísaga. Það er það eina sem ég get sagt um þessa aðkomu Geirs Waage. Það er þó þannig að landslög verða að ráða úrslitum, sérstaklega þegar um er að ræða þjóðkirkju sem er einmitt tengd ríkinu. Ég tek undir það að það var rangt að vera að segja Geir styðja barnaníð ef slíkt hefur verið rætt.
Sigmundur spyr af hverjum engum datt í hug að spyrja um þagnarskyldu geðlækna, sálfræðinga eða lögmanna. Ég horfi nú ekki mikið á sjónvarp - en ég sá þó viðtal við einn lögmann um þagnarskyldu í framhaldi af þessari umræðu.
"Eftir allmörg viðtöl við fólk sem tjáði sig um það hversu óeðlilegt það væri að prestur ætlaði að fara á svig við lög til að verja níðinga og biskup hefði ekkert aðhafst í málinu var hringt ítrekað í þjóðskrá svona eins og til að athuga hvort umræðan væri ekki farin að hafa áhrif, nánast eins og söfnunarátak með öfugum formerkjum."
Þarna veit Sigmundur eitthvað sem ég veit ekki, en er óeðlilegt að blaðamenn séu forvitnir hvort að ummæli prests hafi neikvæð áhrif á veru fólks í þjóðkirkjunni ?
"Fólk getur viljað standa utan þjóðkirkjunnar af mörgum ástæðum. Augljósasta ástæðan er sú að vera annarrar trúar en ýmislegt fleira getur komið til. En er eðlilegt að stjórnmálamenn og aðrir sem hafa horn í síðukirkjunnar noti ógæfu fólks til að hafa áhrif þar á?"
Þetta kom fram áður og svaraði ég því.
"Lögreglustjórinn
Sér einhver fyrir sér að ef háttsettur starfsmaður annarrar stofnunar hefði verið sakaður um kynferðisafbrot hefði verið fjallað linnulaust um það með sömu nálgun og gert hefur verið gagnvart kirkjunni, jafnvel þótt um væri að ræða stofnun á sviði heilbrigðismála, menntamála eða réttarfars? Fyrir skömmu var fyrrverandi lögreglustjóri í Svíþjóð og skólastjóri lögregluskólans þar í landi sakfelldur fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot. Sá var einnig þekktur femínisti og baráttumaður gegn ofbeldi gegn konum. Dytti nokkrum manni í hug að halda því framað lögreglan væri ónýt af þessum sökum eða að tortryggja allaf emínista. Lausnin er ekki sú að einangra vandann við þá stofnun þarsem málið kemur upp í hvert sinn og telja hana ónýta. Þvert á móti.Þegar slík brot eiga sér stað í stofnunum sem hafa sérstöðu ísamfélaginu eins og kirkjunni, lögreglunni eða á heilbrigðisstofnunum sýnir það einmitt að slíkt geti gerst hvar sem er. Það að einangra málið við tiltekna stétt eða vinnustað er því til þess fallið að líta fram hjá hinu eiginlega vandamáli og hvernig megi bregðast við því."
Það vill nú þannig til að DV hefur fjallað í margar vikur, ef ekki mánuði, um meint efnahagsbrot (þar er ekki um að ræða kynferðisbrot) skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar Ólafs Hauks Johnson, það þurfti enga kirkju til.
Menntaskólinn Hraðbraut er ekki ónýtur og stofnunin kirkja er ekki ónýt og langt í frá. Aftur á móti þurfa menn innan hennar að skoða hvort þeir eru að vinna henni hag eða ekki. Leiðtoginn skiptir gríðarlega miklu máli. Ég tel að margir sem eru að segja sig úr kirkjunni sjái sér ekki aðra leið færa til að mótmæla yfirstjórninni en að skrá sig úr stofnun sem sem hefur forystu sem þeir eru ósáttir við. Fyrir suma var þetta ákv. dropi sem fyllti mælinn og fyrir enn aðra "wake up call" að skrá sig úr félagsskap þar sem þeir áttu ekki heima trúarlega séð.
"Að læra ekki af reynslunni
Þegar óhugnanlegir atburðir koma upp er rík tilhneiging til að einangra þá við tilteknar kringumstæður til að þurfa ekki að horfast í augu við hversu almennt vandamálið er (slíkt er of flókið). Afleiðingin er sú að menn læra sára sjaldan af reynslunni. Þegar svo bætist við að fólk sem vill nýta tækifærið fyrst og fremst til að koma höggi á umrædda stofnun fremur en að skoða hvernig megi vinna á vandanum er ekki von á góðu."
Ég held að fólk sem vill koma höggi á stofnunina horfi til undantekninga, eins og áður sagði. Ég get alveg séð fyrir mér meðlimi Vantrúar hoppandi af kæti og einhverja trúlausa þar fyrir utan varðandi stofnunina. Ég vil samt trúa því að allir sem eru heilbrigðir - trúaðir sem trúlausir - hljóti að læra af þessu og bið þess einlæglega að hugrekki kvennanna verði til þess að varða brautina fyrir fleiri fórnarlömb kynferðisafbrota, af hverra völdum sem það er. Ég held að yfirlýsingar kvennanna og viðtöl vð þær höfði til allra hvar sem fólk stendur og þar séu engin landamæri. Við getum þakkað þeim fyrir það. Megi svo allir líta í eigin barm, konur sem karlar hvort að við eigum í fórum okkar einhver leyndarmál sem við höfum þagað yfir eða höfum gerst meðsek í því að hylma yfir mál sem ekki átti að þaga yfir.
"Ráðist á grunnstoðirnar
Í því upplausnarástandi sem ríkt hefur á Íslandi er komin upp mikil tilhneiging til að höggva í grunnstoðir samfélagsins. Allt sem tengist stjórnmálum hefur verið afskrifað, ráðist er gegn lögreglunni og ráðherrar og þingmenn tala um dómstóla með hætti sem hefði ekki hvarflað að nokkrum manni fyrir fáeinum árum. Það er ekki vænlegt ástand þegar andrúmsloftið er orðið þannig að allt er tortryggt og þær stofnanir sem við þurfum til að byggja upp samfélagið eru rifnar niður. Staðreyndin er sú að þjóðkirkjan og aðrir söfnuðir og trúarhreyfingar á Íslandi hafa unnið mikið og fórnfúst starf fyrir þá sem eiga um sárt að binda hér á landi og erlendis. Í söfnuðum þjóðkirkjunnar starfar mikill fjöldi fólks sem hefur helgað sig því að hjálpa öðrum. Það er eins ósanngjarnt og hægt er að hugsa sér að það fólk og störf þess séu sett í samhengi við hræðileg afbrot."
Virðing er áunnin. Því miður hafa stjórnmálin verið á þá leið að þar hefur verið stunduð spilling. Andrúmsloftið sem ríkt hefur sprettur ekki upp af engu. Grunngildi þjóðfélagsins eru HEILINDI og HEIÐARLEIKI en því miður hafa þau gildi ekki verið virt og því hefur fólkið gert uppreisn og er reitt.
Sigrún Pálína óskaði þess í Kastljósviðtali að Kirkjan yrði heil. Grunnstoð kirkjunnar er samfélagið - kirkjurnar úti á landi, kvenfélögin, samveran, kórarnir, hið almenna sóknarbarn er grunnstoð kirkjunnar. Það er ekki verið að ráðast að grunnstoð kirkjunnar. Biskupsstofa eða yfirstjórn kirkjunnar er ekki grunnstoð hennar, en vissulega með mikla ábyrgð. Þeir eiga að taka gagnrýnina til sín sem eiga hana, hinir eiga að láta hana vera. Það er enginn að segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna Gunnu í kvenfélagi kirkjunnar eða vegna Gunna sem syngur í kirkjukórnum.
"Meðferð valds
Kirkjan hefði á margan hátt getað staðið betur að málum en fólkið sem fyrir henni fer virðist vera einlægt í því að vilja læra af reynslunni. Takist það er þjóðkirkjan komin lengra en flestar eða allar stofnanir samfélagsins í forvörnum gegn kynferðisafbrotum. Þá hefur barátta þeirra kvenna sem málið snýst um gagnast kirkjunni og samfélaginu. Ef málið verður hins vegar til þess að festa í sessi ranga mynd af kirkjunni og starfi hennar er skaðinn mikill."
Ég ítreka að ég tel að barátta og hugrekki kvennanna sem stigið hafa fram hafi nú þegar gagnast samfélaginu og kirkjunni. Þær eru af flestum álitnar hetjur og þær hafa vakið upp umræðu sem er mikilvæg fyrir okkur öll sem látum okkur velferð náunga okkar varða. Málið verður ekki "til að festa í sessi ranga mynd af kirkjunni og starfi hennar" nema að rangt verði á haldið af kirkjunnar mönnum.
"Umræðan minnir á að valdfjölmiðla er mikið."
Já, varð ekki umræðan þess valdandi í upphafi að Guðrún Ebba var loksins kölluð á fund kirkjuráðs?
"Takist vel til hjá kirkjunni verður vonandi sagt frá því ekki síður en hinu."
Tek undir þetta, en vek þó athygli á þeirri staðreynd að því miður selja vondar fréttir betur en góðar. Nú verður að höfða til fréttamanna um heilindi þeirra. Það þýðir ekki að heimta bara heilindi úr einni átt.
"Eftir að búið er að flytja fréttir í þrjár vikur þar sem kirkjan er á einn eða annan hátt tengd umræðu um kynferðisafbrot eru eflaust flestir komnir með það á tilfinninguna að slíkt sé sérstakt vandamál í kirkjunni þótt ekkert bendi til þess að sú sé raunin."
Ég held að við mannfólkið séum ekki það einföld að við vitum ekki að kynferðisafbrot séu stunduð alls staðar. Óskin er þó sú, enn og aftur, að kirkjan sé öruggt skjól.
"Það er mikilvægt að þeir sem fara með mikil völd noti þau af sanngirni gagnvart þeim sem undir þau völd eru settir og hafi hugfasta þá reglu að allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skulið þér og þeim gjöra."
Þetta á við um ALLA konur og kalla, presta og blaðamenn. - Og munum eftir okkar minnsta bróður og systur...
Að lokum:
Sumum finnst umræðan um kynferðisbrot innan kirkjunnar (sem annars staðar) óþægileg og vilja þagga hana niður - en þjófavarnakerfi hljómar líka óþægilega í eyrum. Hér er ekki um "false alarm" að ræða. Hér er um raunverulega vá að ræða. Það er ekki lengur í boði að slökkva á þjófavarnarkerfinu. Við verðum að taka mark á viðvörunum.
Ég enda þessa greinargerð mína að lokum á hluta úr bréfi Guðrúnar Ebbu:
Það er mér mikið hjartans mál að kirkjan reyni að tryggja með öllum tiltækum ráðum að þetta komi ekki fyrir aftur, að kynferðisbrotamenn komist til æðstu metorða. Ég tel nauðsynlegt að íslenska þjóðkirkjan taki skýra afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi og lýsi því yfir að það sé synd. Kirkjan þarf að taka sér stöðu með þolendum og margir þolendur eiga ítrúarlegum erfiðleikum og finnst Guð hafa brugðist sér. Ég tel einnig mikilvægt að prestar og allir sem starfi á vegum kirkjunnar fái fræðslu um kynferðislegt ofbeldi.
Love all serve all
Jóhanna Magnúsdóttir, mamma, amma og guðfræðingur.
Trúmál og siðferði | Breytt 5.9.2010 kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
30.8.2010 | 17:27
"Kristur í Oss" - Guð í oss?
Af hverju ætli okkur þyki sumar bækur góðar? Ég varði helginni á prestsetrinu á Reykhólum og komst þá í bókasafn Elínu Hrundar sóknarprests Reykhólahrepps og víðar.
Þar fann ég bók sem heitir "Kristur í oss" sem er skrifuð 1907 af ókunnum höfundi og þýdd af ókunnum þýðanda - spooky? ... Þessa bók sá ég að hægt er að fá á Þjóðarbókhlöðunni, en Elína sagði mér að hún hefði fengið hana á bókamarkaði fyrir einhverjum árum síðan.
Ég held að mér hafi þótt þessi bók svo góð vegna þess að ég kannaðist við svo margt í henni og var svo sammála mörgu. Það komu fram öðruvísi hugmyndir en í hefðbundinni guðfræði, en líkara hugmyndum sem eru eins og t.d. með lögmál aðdráttarafls og alheimssálina, sem ég hef mikið pælt í og veit ekkert hvaðan sú hugmynd er upprunalega.
Eftirfarandi eru nokkrar tilvitnanir sem ég skrifaði niður:
- Að vera heilagur er að vera heill
- Þar sem Guð er, þar eru engar takmarkanir
- Heimurinn er hugsun Guðs
- Biblían er stigi hinna dauðu kennisetninga, hinna dánu einstaklinga
- Mannlegt mál er algjörlega ófullnægjandi til að túlka andleg sannindi (höf. tekur það fram í upphafi að bókin sé skrifuð með það í huga, að gera sitt besta en þessi takmörk séu fyrir hendi)
- Sköpunaröfl eru ósýnileg - myndin á striga listamannsins er aldrei sú sama og kemur á strigann
- Himnaríki er vitund um Guð, ekki staður
- Kirkjur og kapellur eru aðgreiningarmúrar
- Hlýddu andanum innra með þér
- Láttu hjarta þitt vera fullt af Guði
- Það er í hjartanu sem skilningurinn býr
- Smámunasemi má ekki ná valdi á lífi okkar og taka stjórn
- Hver einstaklingur skapar framtíð sína með hugsun sinni
- Heilinn nærist af andanum
- Leitaðu ekki elskunnar, gefðu hana - það er næring
- Bænin er andardráttur lífsandans
- Það er röng afstaða að bíða eftir sælu í fjarlægri framtíð
- Þegar þú biður fyrir veiku fólki sjáðu það þá heilt fyrir þér en ekki veikt
- Þú ert alltaf - og munt verða
- Hið eina sem hefur hjálpað þér til æðri þekkingar á Guði hefur komið innan að
- Hugsun er útöndun orðsins - Orðið er innra með þér
- Þú ert vegna þess að Guð er
- Það er óttatilfinning sem skapar aðgreinandi múra
- Sjáðu og viðurkenndu aðeins það góða í þínum nánustu - traust þitt á þeim skapar í þeim nýja von
- Elskaðu af öllu hjarta, sál og huga og þér mun enginn hlutur ómögulegur
- Kristur er uppspretta sem aldrei þrýtur
- Við erum öll þríein og lifum á þremur tilverustigum, sviði andans, sálar og líkama
- Leyndardómur við lestur Biblíunnar er innblástur (þinn eigin innblástur ekki þeirra sem skrifuðu)
- Bækur skal nota sem farvegi
- Eilífðin er núna
- Kastaðu á djúpið, djúpið er Guð
- Hangið ekki við hlekkina, sleppið þeim
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.8.2010 | 19:52
KIRKJAN - HÚSIÐ, KIRKJAN - STOFNUNIN, KIRKJAN - SAMFÉLAGIÐ...
Það fer víst ekki framhjá neinum að nú fer fram mikil og hörð umræða um kirkjuna. En á sama hátt og ég hef þurft að leggja á það áherslu að skóli er ekki einungis skólastjóri skólans, eða skólastjórn, er kirkja ekki einungis biskup og/eða yfirstjórn kirkjunnar. Í báðum tilfellum eru þetta hluti af pakkanum og hafa menn mikla ábyrgð að bera.
Hvað erum við að ræða þegar við erum að ræða kirkjuna?
- KIRKJA sem hús, samkomustaður sem er vígt til helgihalds og fólk kemur annað hvort eitt eða saman til að eiga samfélag með Guði og með hvert öðru. Þar eru vissulega haldnar afhelgaðar (secular) athafnir einnig, eins og tónleikar o.fl.
- KIRKJA sem stofnun, yfirstjórn kirkjunnar, biskup og þeir sem hafa völd innan stofnunarinnar.
- KIRKJA sem samfélag, samfélag við Guð og samfélag fólks við fólk, leikmanna sem lærðra, með sömu eða svipuð lífsgildi og áherslur á trúarsviðinu, í tilfelli íslensku þjóðkirkjunnar er það kristni.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2010 | 11:02
"Make love - Not War"
Eftirfarandi hugvekju skrifaði ég fyrir aðventukvöld í Innri-Hólmskirkju í desember sl. en Þegar ég kom á staðinn, sá ég að a.m.k. 50% kirkjugesta var frá 7 - 15 ára og mér fannst ekki á þau leggjandi að lesa svona langa ræðu fyrir þau. Ég lagði hana því til hliðar og sagði frá henni efnislega á einfaldaðri hátt, en kjarninn er um að veita elskunni og því góða athygli en virða ekki óttann eða hið illa viðlits, því það sem við veitum athygli vex og dafnar. Það væri hægt að snúa út úr þessu og spyrja hvort það sé ekki afskiptaleysi, en að sjálfsögðu verðum við að takast á við hið illa þegar það bankar upp á, horfast í augu við við það - taka síðan stjórnina en ekki láta það stjórna okkur.
Ég tók út það sem ég heimfærði upp á kvöldið og staðhætti - og ætla nú að birta hana, því mér finnst hún hafa erindi, ekki aðeins til mín heldur líka til þín. Ég vona að hann gefi þér eittvað og það sem kemur frá mínu hjarta nái í þitt hjarta. Þá er ég glöð.
-0-
Ég ætla ég að tala aðeins um lífsgönguna, eða gildin sem við tileinkum okkur á lífsgöngunni, á leið okkar frá fæðingu til dauða.
Innblástur minn í þessari hugvekju er æskuvinkona mín sem lést úr krabbameini fyrir liðlega tveimur árum síðan, en sem lifði svo fallega og kunni að njóta þess að lifa. Það var svo gaman að fá sér göngu með henni því hún tók eftir því fallega í umhverfinu. Ég held að vísu að það hafi aukist eftir að hún veiktist og vissi að hún átti ekki mörg ár ólifað. Við gátum líka svo sem alveg gleymt okkur á göngu, því það var svo margt sem við höfðum að segja.
Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft lífsgöngu viðkomandi. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn svangt í lífdaga, ekki satt?
Einhvern tímann skrifaði ég um menntaveginn sem væri hægt að ganga eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum svona u.þ.b. fyrirfram hvað á að taka langan tíma. Ekki komast allir á leiðarenda, heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og falla því fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu; sér engan tilganginn í að halda áfram.
Það sem dregur helst úr mér persónulega á þessari lífsgöngu eru vondu öflin. Illskan, hatrið og óttinn, hið illa sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.
Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og hver er tilgangur þinn í lifsgöngunni ?
Er svarið ekki fólgið í því að elskast en ekki slást? "Make love - Not War"
Er tilgangurinn að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri gefa gott og elska því betra. Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.
Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.
Hin góðu gildi eru ást, heilindi, hugrekki, traust, vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim svo sannarlega líka að kenna okkur.
Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum heldur ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg.
Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins - njóta þess að vera þar sem við erum og njóta þess sem við erum að gera þessa stundina, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú og vera í meðvitund.
Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska, elska sig og elska aðra.
Það er alveg í samræmi við kjarna kristins siðferðisboðskapar, boðskapar um að elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf, elska EINS OG, ekkert meira en eða minna en. Elska EINS OG. Guð væntir þess af okkur að við elskum og virðum okkur sjálf til þess að við getum elskað náungann.
Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða. Allt sem við vökvum, og veitum með því athygli, dafnar, þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, vonina, gleðina, hugrekkið og við verðum að vökva elskuna.
Senda fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar. Sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við áhyggjur okkar (auðvitað óviljandi) í þau sem okkur þykir vænt um.
Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka.
Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir ferska loftið, tæra vatnið og það sem við höfum hér á Íslandi.
Hreint vatn og loft er grundvöllur fyrir heilbrigða lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar; líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman. Mikið getum við verið þakklát fyrir allt þetta hreina vatn og loft, hér á Íslandi!
Það er ekki fyrr en að líkaminn gefst upp að andinn heldur áfram göngunni, án líkamans. Þessu eru ekki allir sammála, en þetta er það sem mér finnst.
Af hverju segi ég loftið sem ég anda að mér segir mér það? .. Það er vegna sérstakrar upplifunar sem ég fékk nýlega. Ég var að ganga heim eftir fallega samveru í Dómkirkjunni þar sem var verið að minnast fórnarlamba sjálfsvíga. Þar sem ég gekk upp Túngötuna, þá fannst mér sem ég hreinlega fyndi fyrir Guði í andvaranum og þetta hefur fylgt mér svo sterkt. Sr. Auður Eir hefur skrifað ljóð um vináttu Guðs sem er eins og blíður blærinn og þarna skildi ég hvað hún var að tala um.
*Vináttan er mikilvæg, vinátta Guðs er órjúfanleg að minnsta kosti frá Guðs hálfu. En við eigum líka mikilvæga vináttu í samferðafólki okkar. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt sem ég kynnist, flestir hafa eitthvað að gefa.
Ég hóf þessa hugvekju mína á að tala um vinkonu mína, en Unnur vinkona mín naut sinnar lífsgöngu. Það var m.a. hún sem kenndi mér að njóta umhverfisins, njóta dagsins og upplifa lífið sem ævintýri, enda var hún ævintýraprinsessan sem ég kynntist á minni lífsgöngu.
Verum þakklát fyrir alla þá sem koma svona inn í okkar líf og gera okkur ríkari með sinni vináttu og leitumst við að glæða líf okkar samferðafólks örlitlum töfrum.
Að lokum; verndum börnin - setjum þau í forgang, kennum þeim að klæða sig eftir veðri og vindum sem koma til með að herja á þau á lífsgöngunni, kennum þeim að velja sér ferðafélagana eins og elsku, von, traust, hugrekki og gleði, verum góð fyrirmynd og kennum þeim að ganga sjálfum, taka ábyrgð og hjálpum þeim að byggja sterka sjálfsmynd.
Mig langar svo að tileinka þessa hugvekju þeim sem við elskum og hafa kvatt okkur.
Að lokum langar mig að minnast á englana á lífsgöngu okkar, því að englar eru ómissandi, hvort sem þeir eru sýnilegir eða ósýnilegir. Sýnilegir englar eru auðvitað fólk sem er alltaf að hjálpa okkur og styðja. Fólkið sem við erum með akkúrat í dag, og við eigum að njóta í dag, því eins og máltækið segir "enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" ..
Eigum góða viku framundan og bara lífið allt, öndum að okkur Guði, vonum hið besta og gefum hvert öðru bros að gjöf.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.8.2010 | 09:49
Heldur Karl Sigurbjörnsson virkilega að Guðrún Ebba sé að reyna að draga látinn föður sinn fyrir dóm?
"Á íslandi eru menn saklausir uns sekt er sönnuð" sagði Herra Karl Sigurbjörnsson biskup í kvöldfréttum Stöðvar 2 um málefni Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups. (sjá frétt)
Það er mjög erfitt að bregðast við slíkum ásökunum sem komið hafa fram með þessum hætti. Við verðum að hafa það í huga að enginn mannlegur máttur getur dæmt í þessu máli, sagði Karl við fréttastofu Stöðvar 2 og sagði samfélagið verða að vernda börn gegn ofbeldi.
Það er enginn þess umkominn að skera úr um hvað þarna hefur gerst, segir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, um ásakanir Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur á hendur föður sínum, Ólafi Skúlasyni biskupi sem lést 2008. Kveður hún að faðir hennar hafi beitt hana kynferðisofbeldi árum saman meðan hún var barn og fram á unglingsaldurinn.
Það þarf ekkert að "skera úr um hvað þarna hefur gerst" það þarf bara að trúa dóttur biskups um eðli, eða ógnareðli föður hennar og sýna fórnarlömbum hans virðingu.
Heldur Karl Sigurbjörnsson virkilega að tilgangur þess að Guðrún Ebba upplýsi kirkjuráð umr reynslu sína af föður sínum að hún sé að reyna að draga hann fyrir dóm? Áttar hann sig ekki á því að hún er að koma fram m.a. til að styrkja fórnarlömb hans og annarra manna sem hafa framið ofbeldisverk í skjóli kirkjunnar? Hún er að reyna að opna augu og eyru yfirstjórnar kirkjunnar og þeir sem hafa augu sjái og þeir sem hafa eyru heyri! Guðrún Ebba er að leggja sitt lóð ávogarskálarnar til að þöggunin sé rofin. Hafi hún þökk fyrir.
það er biskupinn sjálfur og yfirstjórn kirkjunnar sem er undir dómi. Það eru menn innan stofnunarinnar, sem áttu að bera ábyrgð og sem brugðust þegar til var leitað. Sumum virðist hafa "yfirsést" mikilvægt bréf, fólk hefur ekki fengið viðtöl fyrr en eftir dúk og disk og ákveðnir prestar virðast ekki hafa hlustað á ákall sóknarbarna sinna og latt þau til aðgerða þrátt fyrir að brotið hafi verið á þeim. Prestar hafa verið ásakaðir eða kærðir í einu prestakalli, þá hefur verið tekið á það ráð að flytja þá í annað!
Svo koma ákveðnir Geirfuglar innan prestastéttar með yfirlýsingar um að þeir ætli EKKI að fylgja íslenskum barnaverndarlögum. Geta menn bara hagað sér svoleiðis án þess að yfirmaður þeirra taki í taumana?
Þjóðkirkjan þarf sterkan leiðtoga og yfirstjórn alla sem þorir að taka á málum starfsmanna hennar og sóknarbarna. Það er nóg af þannig fólki nú þegar innan kirkjunnar og ætti ekki að vera vandamál að endurskipuleggja. Fólkið sem barðist fyrir því að kirkjan gengi í fararbroddi í því að samþykkja jafngilda hjónavígslu samkynhneigðra, með sr. Sigríði Guðmarsdóttur í fararbroddi, er þannig fólk.
Vinkona mín skrifaði á Facebook að þrátt fyrir guðfræðimenntun sína þá væri hún alvarlega að íhuga að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Ég segi fyrir mig að að er ekki síst vegna guðfræðimenntunar minnar að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni sl. vor. Ég gerði mér grein fyrir því að árinni kennir illur ræðari sem er á góðri leið með að sigla íslensku þjóðkirkjunni í strand.
Hvað þarf að gerast innan þjóðkirkjunnar til að hún beri nafn með rentu?
Að mínu mati ætti biskup að segja af sér þar sem hann ræður ekki við embættið, og endurskoða þarf yfirstjórn alla innan kirkjunnar og hún þarf að skera niður í flottheitum og starfa í anda Jesú Jósefssonar frá Nasaret.
Tími þöggunar er liðinn og tími siðbótar fer í hönd.
Peðið Jóhanna hefur yfirgefið þetta taflborð þjóðkirkjunnar, nú er spurning hvaða leik önnur peð, hrókur, riddari, kóngur, drottning og síðast en ekki síst; biskup hyggst leika.
Samantekt:
Guðrún Ebba gengur fram af hugrekki og leggur sitt mikilvæga lóð á vogarskálarnar til að uppræta kynferðisofbeldi í skjóli kirkju, lóð gegn þöggun og afskipaleysi. Karl biskup virðist halda að málið snúist aðallega um sekt eða sakleysi látins föður hennar. Málið snýst ekki um látinn mann, heldur um að virða Guðrúnu Ebbu og önnur lifandi fórnarlömb ofbeldis og reyna að koma í veg fyrir frekari skaða. Allt hefur sinn tíma undir sólinni og ég vona, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, að Karl átti sig á því að hann er ekki að valda embættinu.
Kynferðisbrot þögguð niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)