Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
16.8.2010 | 12:49
Um Trú + Vantrú = Sönn ást ?
Ég setti inn langt innlegg í umræðuna hjá sr. Baldri Kristjánssyni þar sem hann ræðir um eða hæðist að "þrasliðinu í Vantrú" ..
Eftirfarandi er álit mitt, lagfært frá fyrra innleggi:
Ég held að Vantrúarmenn verði að viðurkenna að þeir bíða eins og spenntar kjaftakerlingar eftir því að Kirkjan eða starfsfólk hennar leiki einhvern afleik eða klúðri málum. Og þar er reyndar enginn hörgull á þessum afleikjum eða klúðri, með biskupinn í fararbroddi.
Þetta er svipað með Eið Svanberg Guðnason, sem virðist sitja spenntur heima og bíða eftir málfarsvillunum. Á þeim er heldur ekki hörgull.
Hver væri tilgangur Vantrúar í þessum heimi ef að kirkjan væri ekki svona mikill klúðrari og hver væri tilgangur ESG ef að málfarið okkar mannanna væri fullkomið? Um hvað fjölluðu þá hans molar?
Getum við líkt Vantrú við Amnesty International - liggur eldmóður félagsmanna í að forða mönnum frá illu? Eða er þetta einungis rökræðusamfélag?
Það er svo sannarlega ekki vanþörf á að gefa kirkjunni aðhald og hennar fólki, en ég held að þarna sé aðferðafræði Vantrúar ekki nógu góð. Eða getur varla verið, þegar upplifun manna - já mjög margra er af þeim (eða mörgum þeirra) er sem þar fari úlfahjörð, og þá að sjálfsögðu að ráðast á saklausa sauði.
Þeir lenda í svipaðri krísu og feministar, sem eru í raun einungis að reyna að fá fram réttlæti í heiminum. Þeir verða of öfgakenndir og missa þess vegna trúverðugleika sinn. Einnig eru sumir þeirra mjög viðkvæmir fyrir gagnrýni og er það oft einkenni þeirra sem harðast skjóta á aðra.
Nú tala ég um "þá" sem heild, en ég hef átt ágætar samræður við suma þeirra og það er að mínu mati "pís of keik" að tala við Kristin Theódórsson - sem á alveg þann titil skilinn að vera kallaður þolinmóðasti Vantrúarmaðurinn. Persónulega finnst mér miklu erfiðara að ræða við bókstafs-og öfgatrúarfólk sem tekur ekki sjálft ábyrgð á orðum sínum, en segir bara "þetta er ekki mín skoðun, Guð segir það" ....
Þetta er fólkið sem ýtir á mína takka og oft þarf ég að anda býsna djúpt áður en ég svara slíku fólki.
Trúað fólk er mjög mismunandi, trú per se er af hinu góða á meðan hún er uppbyggileg og gjörðir hennar eru kærleiksverk. Hún er mjög slæm í bland við ofbeldi og eiginlega ekkert til verra.
Úlfur í sauðagæru er hættulegri en úlfur í engri gæru.
Ég skil ergelsi Vantrúarmanna og ég skil líka ergelsi trúmanna í garð Vantrúar.
En ég held að það sé augljóst, eins og hér hefur komið fram að ofan að samræðan og aðferðafræðin við að koma sínu á framfæri hefur ekki orðið til góðs - heldur hefur myndast djúp gjá manna á milli út af þessu, sem ég held að sé alveg óþörf. Mikið er rætt um að virða skoðanir annarra. Séu þær innan siðferðismarka þá er það sjálfsagt. En það þarf ekki - og á ekki - að virða skoðanir sem innihalda ofbeldi. Ég virði ekki skoðanir fólks sem telur að það að grýta fólk, hvorki í nafni trúar né annars. Og að sjálfsögðu ekki heldur að hylma yfir kynferðisofbeldi svo við tökum nýlegt dæmi úr umræðunni.
En til þess að nálgast þetta fólk, þarf að virða fólkið á þann máta að það kemur úr ákveðnu umhverfi og hreinlega veit ekki betur og skilur ekki betur. Þess meiri þörf er að nálgast það á þann máta og leiða því í ljós að grýtingar eru alvarlegt ofbeldi. Það næst ekki með því að hæðast að því eða ráðast á það, heldur með uppfræðslu. Vissulega getur háð opnað augu fólks, sé það gert á vinsamlegan máta - og þú veist að viðkomandi getur tekið því.
Trúað fólk sem trúlaust sem vill vinna gegn ofbeldi ætti því að taka höndum saman - en ekki stunda skítkast á hvert annað, og vinna gegn ofbeldi fyrst og fremst. Að beina spjótum sínum gegn TRÚ í allri sinni mynd er að mínu mati klúður, því að það er margt gott sem kemur í gegnum trúna og að sama skapi er kolrangt að beina spjótum gegn trúleysi því margt gott kemur frá trúlausum.
Að flokka manneskju eftir því hvort hún er trúuð eða ekki trúuð er því bara "FAIL"
Við erum öll í einu liði, liði Mennskunnar
Það sem við þurfum að koma okkur saman um er hvað er "Gott" ..
Til gamans má geta að "Gott" er Guð á þýsku, en skv. "minni" trúarsannfæringu er Guð allt hið góða.
En Guð á sér svo ótal margar skilgreiningar og guðsmyndirnar, eins og þær koma úr pennum margra höfunda Biblíunnar, og í huga margra sem eru enn uppi í dag eru bara alls ekkert góðar, eiginlega bara illar. Þess vegna veldur guðshugtakið ringli og rugli þegar forsendur fyrir guðsmyndum eru svona fjölbreytilegar.
Minn Guð er ekki sá sami, eða hið sama og þinn Guð og þá erum við ekki lengur að ræða sama hlutinn, hvað þá að ræða saman. Auðvitað ræða Vantrúarmenn einnig út frá ákveðinni guðsmynd, þó þeir trúi ekki á Guð.
Þarna stendur hnífurinn í kúnni - kannski heilagri kú
Að lokum: Nú hef ég hér hellt úr mínum skálum, ekki reiði en því sem ég tel mig vita. Ég er auðvitað ekki fullnuma og næ því eflaust aldrei.
Það er ekki að ástæðulausu að ég kalla bloggið mitt naflaskoðun, það er vegna þess að ég veit að til að komast að sannleikanum þarf hver og ein manneskja að líta inn á við og skoða heilindi sín og hverju hún trúir eða trúir ekki.
Ég ætla að leyfa mér að trúa á hið Góða og vonast til, eflaust í óhóflegri bjartsýni, að við flest getum gert það. Skiptir engu máli hvað það kallast dags daglega. Guð eða ekki neitt, það verður hver og einn að finna út fyrir sig.
Dýrin í skóginum geta ekki öll verið vinir, en ég hef haldið í vonina að mennskan gæti gert okkur mennina að vinum.
Love all, serve all
27.6.2010 | 22:22
Góður andi í Regnbogamessu Fríkirkjunnar við Tjörnina, í samstarfi við Samtökin ´78
Í kvöld mætti ég í messu og hátíðarstund Fríkirkjunnar og Samtakanna ´78 til að samfagna samkynhneigðum með nýfengin mannréttindi, þ.e.a.s. ný hjónavígslulög og "all included" ..
Kirkjan var pökkuð af fólki bæði hinsegin og svona fólki - og dagskráin hlaðin ávörpum og sérstaklega tónlistaratriðum. Sr. Hjörtur Magni prédikaði, Sr. Bryndís Valbjarnardóttir las Guðspjallið og fleiri voru kölluð til lestra, eins og formaður Samtakanna ´78. Ragna Árnadóttir dómsmála - og mannréttindaráðherra flutti ávarp og var hyllt sérstaklega. Það voru fleiri, eins og t.d Hörður Torfason.
Fríkirkjukórinn flutti fallegt lag í upphafi undir stjórn Önnu Siggu. Það sem snerti hjartað í mér allra mest var þegar Páll Óskar söng kærleiksóð Páls Postula og flutningur Andreu Gylfadóttur á laginu "Somewhere over the Rainbow" sem hún söng af einstakri innlifun. Fleiri flytjendur fluttu sín lög, Bergþór Pálsson, Lay Low, Hörður Torfa, Sigga Beinteins, Maríus Hermann Sverrisson og Hreiðar Ingi þorsteinsson. Agnar Már spilaði undir á píanó. Mikið var fagnað og mikið glaðst.
Veittar voru mannréttindaviðurkenningar Samtakanna ´78 og fékk Ingibjörg Sólrún eina, Þorvaldur Kristinsson líka og dammdammrammdamm; hópur presta, guðfræðinga og djákna sem höfðu lagt fram tillögu á prestastefnu að styðja ein hjúskaparlög og komið með yfirlýsingar í blöðum þar að lútandi fékk ein. Sr. Sigríður Guðmarsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hópsins hönd, enda prímus mótór í þeirri vinnu sem unnin var bak við tjöldin og reyndar utan þeirra líka! Erum við mjög þakklát fyrir viðurkenninguna, en þó miklu þakklátari fyrir að lögin hafi tekið gildi og kirkjan tekið þeim fagnandi.
Einu sinni þótti það ókristilegt að konur fengju jafnan rétt á við karla, sumum þykir það víst enn ókristilegt, og sumum þykir það ókristilegt að samkynhneigðir skuli fá að vígjast fyrir Guði og mönnum. En "one day" þá kemur að því að að því verður hlegið og fólki finnst það skrítið að það hafi þurft að berjast fyrir þessum rétti. Svoleiðis er þetta bara.
Þetta er góður dagur í alla staði. Til hamingju Ísland. Til hamingju samkynhneigðir, fjölskyldur og vinir, til hamingju við öll.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2010 | 07:24
Lífsbókin
Lífsbókin
Ljóð: Laufey Jakobsdóttir
Ljúktu nú upp lífsbókinni
lokaðu ekki sálina inni.
Leyfðu henni í ljóði og myndum,
leika ofar hæstu tindum.
Svipta burtu svikahulu.
Syngja aftur gamla þulu
líta bæði ljós og skugga,
langa til að bæta og hugga.
Breyta þeim sem böli valda
breyta stríði margra alda.
Breyta þeim sem lygin lamar,
leiða vit og krafta framar.
Gull og metorð gagna ekki
gangir þú með sálarhlekki.
Vinsamlega taktu þátt í skoðanakönnun hér vinstra megin á síðunni, hafir þú ekki nú þegar greitt þitt atkvæði. Niðurstöður verða síðan birtar á morgun, laugardag 26. júní
Takk fyrir
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 07:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2010 | 07:07
Ég þegi heldur ekki á safnaðarfundum ..
Johnny biður um biblíuleg rök fyrir hjónabandi samkynhneigðra. Þau eru m.a. eftirfarandi:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. (Matt. 22.37-39)
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Matt 7.12)
Samkynhneigðir eru náungi minn og samkynhneigðir eru "aðrir menn" ...
Guð er í náunga mínum, sbr. "Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér." (Matt.)
Samkynhneigðir eru skv. læknavísindum samþykktir, þ.e.a.s. þeir hafa það eðli að þeir hafa tilfinningar og kynhvöt sem snýr að sama kyni. Þeim er ekki "snúið" og kynhvöt þeirra er ekki val, ekki fremur en gagnkynhneigðs fólks.
Samkynhneigðir eru því bræður okkar og systur. Systkini bæði stærst og minnst.
Samkynhneigðir óska þess að fá að lifa undir sama lagabókstaf og með sömu réttindi og gagnkynhneigðir. Hvílík frekja!! Sumir hafa alist upp við kristin gildi, eru skírðir og fermdir í kirkjunni. Prestar eru líka samkynhneigðir - kynhneigðin fer ekki í manngreinarálit.
Hvers vegna ekki gifting líka?
Þegar ósk samkynhneigðra um hjúskap undir einum lögum og síðan undir augliti Guðs með hjónavígslu í kirkju er skoðuð, þarf að skoða hvort að ósk þeirra sé á forsendum æðsta boðorðsins um elsku til Guðs og elsku til náungans.
Já, varla fer fólk að gifta sig án elskunnar?
Við förum svo sannarlega ekki eftir öllu sem í Biblíunni stendur, við konur þegjum svo sannarlega ekki á safnaðarfundum!! .. svo má minna á deilur um helgi hvíldardagsins, en auðvitað var hann gerður mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins eins og frelsarinn benti réttilega á.
Hjónabandið var líka gert mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hjónabandsins.
Guðfræðilegar og Biblíulegar forsendur fyrir að samþykkja hjónaband samkynhneigðra eru KÆRLEIKUR og ELSKA sem birtist í kærleiksboðorðum og í frásögnum Biblíunnar.
Sögunni af miskunnsama Samverjanum sem var ekki að lesa lögmál um að hann mætti ekki snerta blóð, heldur gekk að náunga sínum og hjálpaði. Presturinn og Levítinn sneru nefinu upp, höfðu nýverið verið að lesa lögmálið og fóru eftir rituðu orði sem þeir töldu vera orð Guðs. " Tjah.. það eru engin Biblíuleg rök fyrir því að ég eigi að hjálpa Samverja, best að ganga fram hjá þessum liggjandi manni, ég gæti lent í ónáð hjá Guði og ekki komist í himnaríki, ómægod" .. hugsaði Levítinn e.t.v. með sér.
Þeir þorðu ekki að hlusta á hjarta sitt vegna hlýðni við orð sem þeir töldu orð Guðs.. Jesús benti á þetta og kenndi okkur að fara eftir skynsemi, eftir innsæi og eftir kærleikanum.
Orð Guðs er nefnilega ekkert læst í bók og lyklinum hent í burtu. Orð Guðs þróast og þroskast með okkur.
Hjónaband er eining tveggja einstaklinga, við erum vissulega vön að þessir einstaklingar séu af sama kyni. En heimurinn er ekkert svona einfaldur. Ef heimurinn væri svona einfaldur væri hann í svart hvítu. Sem betur fer er heimurinn litríkur, við erum með svona fólk og við erum með hinsegin fólk.
Það eru í raun aðeins ein guðfræðileg rök fyrir hjónavígslu para af sama kyni og þau eru kærleikur og kærleikurinn er það sem toppar allt og trompar allt. Það er aldrei hægt að bjóða betur.
Lífsstíll samkynhneigðra er staðreynd, þ.e.a.s. þeir elskast, mynda sambönd, eru í sambúð o.s.frv. Það ætti bara að vera góð viðbót fyrir kristna einstaklinga að fá hjónavígslu í sinni kirkju. Sú hjónavígsla á ekki að káfa upp á þig eða mig, vegna þess að við elskum náunga okkar eins og okkur sjálf og eigum að gleðjast með honum en ekki fordæma vegna ástar hans eða löngunar til að ganga í hjónaband við kirkjulega vígslu á sama hátt og maður og kona myndu gera. Ritualið verður í höfn, allt er til reiðu 27. júní 2010.
Ef að um væri að ræða einhvers konar ofbeldi þá gætum við sagt stopp. En þarna er ekkert verið að ræða slíkt og auðvitað andhverfu ofbeldi, eða enn og aftur: kærleikann.
Fleiri rök má lesa á síðunni um ein hjúskaparlög. Mæli ég þar t.d. með grein sr. Sigfinns Þorleifssonar, sem er alþekkt "góðmenni af Guðs náð. "
Veltum okkur upp úr dögg elskunnar og gleðinnar ..
21.6.2010 | 13:06
Höfum við eitthvað lært? - og skoðanakönnun heldur áfram.
Það að guðfræðimenntað fólk, vígt sem óvígt og trúfólk almennt taki sér stöðu með samkynhneigðum systrum og bræðrum, taki sér stöðu með hjónavígslu para af sama kyni og þá jafngildri hjónavígslu karls og konu, er mjög mikilvægur þáttur í að styðja við fólk sem vegna kynhneigðar húkir í félagslegri einangrun m.a. af hræðslu við viðbrögð hinnar "kristnu stórfjölskyldu."
Sumir hafa verið aldir upp í trúarsamfélagi þar sem litið er á lífsstíl samkynhneigðra sem synd og að það sé val að vera samkynhneigður. Þeim uppálagt að þau séu að velja syndina og samviskubiti plantað í þeirra huga. Kærleikur?
Þetta ER úreltur hugsunarháttur og vissulega gamaldags, svo ég taki undir orð Sigríðar Guðmarsdóttur i kvöldfréttum Stöðvar 2, 18. júní sl.
Biskup þjóðkirkjunnar hélt síðan þann 20. júní, ræðu sem hægt er að lesa á tru.is og stillti upp gamaldags sem góðu og hinu nýja sem vondu. Tilviljun?
"Biskupinn stillir kirkjunni og trúnni einfaldlega upp andspænis samtímanum, hvort sem það eru vísindi, listir, stjórnmál og lýsir þau ómöguleg og í mótsögn við fagnaðarerindið." er upplifun ónefnds þjóðkirkjuprests.
Nútíminn er ekkert ógurlegur, nútíminn færði okkur t.d. læknavísindin sem gera læknum og hjúkrunarfólki kleift að bjarga nýfæddum börnum sem annars hefðu dáið. Nútíminn færði okkur þá visku að virða og samþykkja kynhneigð fólks, sem annars hefði endað í félagslegri einangrun og í sumum tilfellum látið lífið vegna vanlíðunar.
Við eigum að vera komin út úr moldarkofunum og inn í nútímann. Við hljótum að hafa lært eitthvað.
Rödd Guðs er ekki þrumuveður dómhörku, rödd Guðs er fyrst og fremst kærleikur og kærleikurinn er trompið. Allt annað (ritingargreinar um boð og bönn varðandi samliggjandi karlmenn) eru lágspil í spilabunkanum sem gilda ekki þegar kærleikurinn er annars vegar. Gamlir dagar geyma bæði gott og vont, svo okkar er að velja hið góða úr gamla tímanum (af því við höfum lært og þroskast) og skilja eftir hið vonda.
Kærleikurinn er mælistikan.
Eitt er víst að við lifum ekki á Biblíulegum tímum, við lifum ekki í gamla daga, við lifum NÚNA og kirkjan þarf að uppfæra sig til núsins, uppfæra sig til fólksins.
20.6.2010 | 12:29
Ertu fylgjandi einum hjúskaparlögum? - skoðanakönnun
Ætli Karl biskup sé fylgjandi einum hjúskaparlögum? Það hef ég ekki hugmynd um en skora á fjölmiðla að fá hreint svar út úr honum! Ætli hann myndi neita að framkvæma giftingarathöfn samkynhneigðra eins og hún sr. María Ágústsdóttir sem lagði á sig ferðalag til dómsmálaráðherra til að fá það á hreint að hún þyrfti ekki að framkvæma þann "gjörning" að þurfa að fara að nýjum landslögum og vígja par af sama kyni í hjónaband. Það má sjá nánar í blogginu á undan.
Hún má þó eiga það að hún fer eftir sinni sannfæringu, en bara spurning hvort að prestar sem ætli sér að starfa undir hatti ÞJÓÐkirkju ættu að söðla um og tilheyra söfnuði sem lýsir yfir andstöðu við lögin? Samkynhneigðir eru líka þjóðin.
En ég hef sett inn skoðanakönnun fyrir þig hér til vinstri, þar sem spurt er hvort að þú sért fylgjandi einum hjúskaparlögum? Svörin eru já, nei, hlutlaus, annað. Ef þú merkir við annað væri gaman að fá skýringar og að sjálfsögðu mega sem flestir rökstyðja sitt atkvæði.
Ég vil koma því að að Prestafélag Íslands sagði í álitsgerð sinni til Alþingis að ein hjúskaparlög væru réttarbót og því skýtur það skökku við að í fréttum sé sagt að víðtæk andstaða sé hjá prestum. Það er mikil andstaða hjá fáum prestum, en mjög margir, ef ekki flestir, þjóðkirkjuprestar fagna einum hjúskaparlögum!
Til hamingju Ísland.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
19.6.2010 | 08:28
Trúarsannfæring sem brýtur gegn kærleikanum ?
Ég held ég neyðist til að blogga um orð Séra Maríu Ágústsdóttur í fréttatíma Stöðvar 2 í gær, þar sem hún sagðist myndi neita pari af sama kyni um hjónavígslu á þeim forsendum m.a. að hún væri með því að "sýna samstöðu hinni stóru fjölskyldu kristninnar um hinn stóra heim."
Hvaða skilaboð eru það? Tilheyra samkynhneigðir að hennar mati ekki "hinni stóru fjölskyldu kristninnar um hinn stóra heim?"
Maria skrifar árið 2008 um kristilegt siðgæði á vefinn tru.is og tileinkar erindi sitt minningu föðurbróður míns Dr. Björns Björnssonar, sem lést sama ár.
María skrifar:
"Til kristinna manna eru gerðar kröfur um kærleiksríka framkomu. Það er eðlileg og ljúf krafa, ekki byrði heldur virðingarstaða, gefin af Guði. Boðorðin öll eiga sér samnefnara í tvöfalda kærleiksboðorðinu, um að elska Guð og náungann. Enda segir Páll postuli: Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins (Róm 13.10)."
og jafnframt:
"Köllun okkar er köllun til kærleika. Hún er ekki köllun til kristilegrar arfleifðar, þó allt gott megi um hana segja. Hún er köllun til lifandi kærleika hvern dag, að við séum samkvæm okkur sjálfum og forsmáum ekki þann kærleika Guðs sem á að vera sýnilegur í lífi okkar."
"Æfingaprógram" Maríu kemur svo í framhaldi:
"Æfum okkur daglega í þessum eiginleikum, sem postulinn telur upp í Ef 4.2. Skoðum okkur sjálf í ljósi þessara hugtaka. Í dag gæti ég einbeitt mér að því að vera lítillát og hógvær. Á morgun gæti ég þjálfað með mér þolinmæði og langlyndi. Næsta dag mætti ég skoða sértaklega hvernig ég umber og elska aðra."
Þetta eru s.s. orð sr. Maríu Ágústsdóttur sem tilkynnti í sjónvarpsviðtali að hún myndi neita samkynhneigðu pari sem leitaði til hennar um hjónavígslu.
"Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein." Landslög um ein hjónavígslulög eru orðin staðreynd, lög sem eru sett af vel íhuguð máli, byggð á mannréttindum og manngildi.
Manngildi var eitt af lykilhugtökum frænda míns Björns Björnssonar, og hans milda guðfræði og siðfræði var til fyrirmyndar.
Við verðum að virða manngildi samkynhneigðra að jöfnu við gagnkynhneigðra. Annað er gagnkynhneigðarhyggja og við erum að gera manneskjur æðri öðrum manneskjum eingöngu vegna þess að þær hafa "rétta" kynhneigð. Hver manneskja er sköpuð í Guðs mynd, Guðs sem er kærleikur.
"Köllun okkar er köllun til kærleika, ekki köllun til kristilegrar arfleifðar" .. og þar er ég sammála Maríu.
Mér er lífsins ómögulegt að sjá kærleikann í því að neita pari sem hefur áhuga á því að giftast í kristinni kirkju, pari sem eflaust er bæði skírt og fermt í kristinni kirkju, um hjónavígslu.
Er köllunin í raun ekki til kristilegrar arfleifðar, þegar pari af sama kyni er neitað um hjónavígslu vegna trúarsannfæringar? Gott væri að heyra frá þeim sem geta skýrt hvaða kærleikur liggur að baki slíkum gjörning.
Að lokum vil ég taka undir orð séra Sigríðar Guðmarsdóttur og óska okkur Íslendingum til hamingju með ein hjúskaparlög.
(Ég tek það fram að allt sem er feitletrað eru áherslur minar)
Mér finnst ekki veita af, svona í lokin að rifja upp fyrsta erindið í laginu Stolt sem Páll Óskar syngur af svo mikilli einlægni:
Ég er eins og er,
hvernig á ég að vera eitthvað annað ?
Hvað verður um mig
ef það sem ég er bölvað og bannað ?
Er það líf mitt, að fela mig og vera feiminn,
mitt líf var það til þess sem ég kom í heiminn ?
Fúlt finnst mér það líf að fá ekki að segja:
Ég er eins og ég er!
Og svo má hlusta hér og göngum síðan með gleði inn í daginn!
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (92)
9.6.2010 | 18:09
Umsögn Biskups um tillögu að einum hjúskaparlögum veldur mörgum prestum og guðfræðingum vonbrigðum
Sigríður Guðmarsdóttir skrifar fantagóða grein sem hefur fyrirsögnina EKKI Í MÍNU NAFNI en Sigríður er sóknarprestur í Guðríðarkirkju og doktor í kristinni trúfræði.
Ég ætla að gerast svo djörf að "copy-paste" greinina því hún er skrifuð af þekkingu og snilli sem er ekki á mínu færi, en inntakinu er ég hjartanlega sammála.
"Frumvarp um ein hjúskaparlög liggur fyrir Alþingi og hafa þinginu borist ýmsar umsagnir sem lesa má á vef þingsins. Í umsögn sinni fyrir hönd þjóðkirkjunnar telur biskup Íslands frumvarpið ganga gegn ríkjandi hjúskaparskilningi. Þar segir: Ríki og trúfélögin hafa álitið hjónabandið heilagt og ríki jafnt sem kirkja verið skuldbundin að virða það" (bls. 2). Biskup heldur áfram: Nú gengur ríkið fram með nýja skilgreiningu á hjúskapnum, sem byggir á hugmyndafræði sem runnin er af öðrum rótum en þeim sem trúarbrögð og siðmenning og flest ríki heims hafa hingað til viðurkennt sem viðmið" (bls.3).
Ályktanir biskups um altæk viðmið hjónabandsins kalla á ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi virðist gengið út frá því að hjónabandið á öllum tímum sé eitt og sama fyrirbrigðið. Athyglisvert er að heyra lútherskan biskup ræða um heilagleika hjónabandsins og samhengi í sögu og samtíð í ljósi þess að lútherska siðbótin hafnaði hinum rómversk-kaþólska sakramentisskilningi á 16. öld og bylti þannig viðhorfum til hjónabandsins.
Íslensk hjúskaparlöggjöf er ekki ein og óbreytanleg heldur í örri þróun. Þegar ég vígðist til prests árið 1990 stóð enn í hjúskaparlögum að eigi mætti vígja geðveikan mann eða hálfvita" í hjónaband, sem lýsir allvel fordómum samfélagsins gagnvart þeim sem áttu við geðræn vandamál eða greindarskerðingu að etja. Fátækralöggjöf 19. aldar varnaði fátæku fólki og jarðnæðislausu aðgang að hjónabandinu. Hjónabandslöggjöf á Íslandi í upphafi 21. aldar er ekki sama samfélagsstofnun og sú sem var við lýði í Rómaveldi fornkirkjunnar eða íslenskri sveit á 19. öld. Hún stendur vörð um kærleikssamband og jafnræði tveggja manneskja sem bindast hvor annarri nánum kærleiks- og kynlífsböndum og ætti engu að gilda hvort hjónaefnin eru fátæk, fráskilin, með geðraskanir, af sama eða gagnstæðu kyni.
Í öðru lagi fullyrðir biskup að frumvarpið gangi gegn sameiginlegri siðmenningu og trúarbrögðum þjóða heims og sé runnin undan rótum annarlegrar hugmyndafræði. Skv. 1. Mósebók eru allar mannverur skapaðar í Guðs mynd og slík viðmið mynda ýmsa hornsteina mannréttindahugsjóna Vesturlanda um frelsi, jafnrétti og samstöðu jarðarbarna. Ég tel ein hjúskaparlög vera í rökréttu samræmi við sköpunarskilning sem gengur út frá jafnræði allra sem mannvera og kynvera. Ef hugmyndafræði einna hjúskaparlaga gengi þvert gegn viðmiðum trúarbragða og siðmenningar, eins og biskup vill vera láta, hvað segði það þá um viðmiðin?
Ég er ein 90 presta og guðfræðinga sem lögðu fram stuðningstillögu við frumvarpið á Prestastefnu. Dagskrártillaga studd af öllum þremur biskupunum um að vísa málinu til biskups var lögð fram og naumlega samþykkt. Ekki var tekin afstaða til stuðningstillögunnar, en flutningsmenn drógu hana heldur ekki til baka og er hugur fjölmargra presta og guðfræðinga til frumvarpsins því skýr. Biskup Íslands víkur lauslega að tillögu hinna níutíu í umsögn sinni, þar sem rætt er um hóp presta og guðfræðinga." Fátt minnir á vilja þessa hóps" í umsögn biskups fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Umsögn biskups veldur mér vonbrigðum og hann talar þar ekki í mínu nafni. Ég þakka dómsmálaráðherra fyrir vandað frumvarp og vonast til að það verði að lögum 27. júní næstkomandi.
Undirrituð er líka úr þessum níutíumannahópi guðfræðinga og presta og biskup talar heldur ekki í mínu nafni.
Svo er hér eitt af nýrri "Inspired by Iceland" myndböndunum og ég óska okkur Íslendingum til hamingju með að hafa náð þeim þroska að geta sett okkur í spor náunga okkar. Þannig er sannur boðskapur kærleikans og þannig er boðskapur Jesú Krists í mínu
30.5.2010 | 23:00
Kirkjan í búbblu?
Jón Gnarr sagði eitthvað á þá leið í Silfri Egils í dag að pólitíkin væri í búbblu sem ekki ættu nema útvaldir aðgang að. Þeir sem væru þar fyrir væru bara pirraðir að aðrir væru að reyna að komast í partýið. Hann orðaði þetta ekkert endilega nákvæmlega svona, en innihaldið var svona og hann nefndi bæði búbblu og partý.
Pólitík í búbblu - kirkja í búbblu?
Mitt áhugamál er fólk og mitt áhugamál er kirkjan sem samfélag fólks. Ekki yfirstjórn, dogmur eða helgisiðir. Ég sagði á Fésbókinni í dag að ég væri að spekúlera hvort að kirkjan væri í "búbblu" eins og pólitíkin - hvort að hún væri of langt frá fólkinu og talaði annað tungumál ..
Ég fékk mismunandi viðbrögð. Einmitt spurninguna um hvað ég ætti við með "kirkjan" hvort hún væri ekki við fólkið?
það eru nokkrar skilgreiningar á "kirkjan"
Kirkjan = samfélag (þú og ég)
Kirkjan = kirkjuhús
Kirkjan = stjórn kirkjunnar eða yfirstjórn
Þjóðkirkjan á Íslandi stendur ekki undir nafni sem samfélag því að þá réði fólkið miklu meira um það sem gerðist í kirkjunni og hún flokkaði fólk ekki eftir kynhneigð. Ég er nokkuð viss um að meirihluti þess fólks sem er í þjóðkirkjunni er samstíga í því að samþykkt verði ein hjónavígslulög, en einhverjir kallar og kellingar sem ríghalda í hefðir rífast um orðalag laga og túlkun á orðalagi Biblíu þannig að orðalag er allt í einu farið að verða meginatriði á meðan að réttarbótin er látin bíða.
Kirkjan getur því ekki talist fólkið á meðan að lýðræðið er ekki í hávegum haft. Í raun ætti fólkið í þjóðkirkjunni = kirkjan að fá að taka þátt í veigamiklum ákvörðunum. Yfirstjórnin er svo sannarlega í búbblu ef hún hlustar ekki á þorra meðlima sinna, nú eða meirihluta presta.
Bestakirkjan
Ein facebookvinkona nefndi orðið Bestakirkjan, en Bestakirkjan er í raun til nú þegar og er kirkjan þar sem allar manneskjur eru jafnar og engin jafnari en önnur. Hún er ekki til sem formleg stofnun, en má segja að þeir sem nái að hugsa svona sé ósjálfrátt meðlimir Bestukirkjunnar.
Það sem er framkvæmt í kirkjum þarf líka að vera skiljanlegt, af hverju stöndum við upp og setjumst niður, af hverju líður sumum eins og fíflum í kirkju og afhverju leiðist sumum í kirkju?
Messan = pallatími?
Ég hef stundum líkt messuforminu við pallatíma í Hreyfingu. Þar eru sumir ótrúlega klárir, en undirritaðri finnst hún svakalega vitlaus þar sem hún nær ekki að fylgja eftir. Ekki vil ég taka ánægjuna frá þeim sem fyrir eru, en pallatímarnir henta mér engan veginn og mér finnst þeir leiðinlegir. Samt er ég enginn vitleysingur!
Mér finnst miklu betra að fara út að ganga, anda að mér fersku lofti og jafnvel ganga á fjall eða tvö þegar ég er komin í form. Sumum hentar sund og enn öðrum hentar að hjóla. Sumir geta allt og sumir nenna engu!
Allskonar messur, allskonar fólk
Athafnir kirkjunnar þurfa að miða að því að fólk sé "allskonar" svo ég noti orð sem mikið er notað í aðgerðaáætlun Besta flokksins. Alls konar fyrir alla, eða "all kinds of everything" ;-)
Það er vissulega farið að aukast að boðið er upp á tilbreytingu, en samt sem áður er messuforminu oft klínt þar inn og farið er með rullur sem óskiljanlegar eru nema fólk hafi alist upp í kirkjunni eða lært guðfræði.
Ég fór á aðventutónleika KK og Ellenar fyrir jólin, og þar fann ég meira fyrir Guði en í mörgum messum sem ég hef sótt. Þar þurfti ég ekki að vera jarðtengd við hvað mér bæri að gera næst og hvenær ég ætti að sitja og standa og í stressi hvort ég mætti yfirhöfuð klappa þegar ég hefði þörf fyrir það. Að sjálfsögðu hef ég upplifað góðar messur og farið glöð heim, en það er kannski bæði vegna þess að ég er "innræktuð" og kann á siðina, en þekki marga sem eiga ekki þessa reynslu.
Bestakirkjan er nú þegar til. Hún er ekki hús, hún er ekki með yfir eða undir neitt - Bestakirkjan er samfélag fólks sem lítur á náunga sinn sem sem jafningja á plánetunni Jörð. Við erum öll velkomin því þar eru engir veggir, en við getum að sjálfsögðu búið til okkar eigin veggi - það er okkar val, það er því ekki Bestakirkjan sem útilokar okkur, heldur við Bestukirkjuna.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2010 | 05:32
"Mikilvæg réttarbót"
Ef lesin eru innsend álit, þá má sjá hjá flestum félögum sem standa fyrir mannréttindum og jafnrétti þegnanna að um mikilvæga réttarbót sé að ræða. Það er einnig álit Prestafélags Íslands, sem talar um þessa mikilvægu réttarbót sem ég er sammála, en hryggist yfir áliti biskups sem veit ekki í hvorn fótinn á að stíga og er "beggja blands" eins og hann viðurkenndi í setningarræðu á prestastefnu.
Sumir segja að ef að maður er ekki viss, þá viti hann niðurstöðuna en sé ekki ánægður með hana.
Hver ætli sé hin raunverulegi hugur biskups?
Stundum virðast kristin gildi (að elska náungann sem sjálfan sig) týnast í hefðarhyggju og umræðan frestast vegna orðaleikja, þar sem hugtök eru orðin mikilvægari en náungi okkar sem bíður eftir réttarbótinni.
Þetta hik biskups er sama og tap fyrir Þjóðkirkjuna.
Skiptar skoðanir um ein hjúskaparlög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)