Færsluflokkur: Bloggar

Stóri dómurinn er fallinn ...

Stóri dómurinn er dómurinn yfir því að aka undir áhrifum áfengis. -  Dómurinn er sá að ung stúlka í blóma lífsins lætur lífið. -  

Við ættum að hrökkva við, hvert og eitt okkar og líta í eigin barm.  

Hvort sem fólk fær sér "bara" einn eða marga,  ALLIR ættu að sjá sóma sinn í að hætta að aka bifreið undir áhrifum áfengis.  Því maður veit aldrei hvert það leiðir,  og flestir eru "heppnir" að sleppa.  Skaða aðeins sjálfa sig eða keyra á ljósastaur. -

Ég trúi því ekki að fólk hugsi: "Já, konan fékk bara eitt ár fyrir manndráp af gáleysi, þá er ok að keyra fullur"..  

Dómurinn er fallinn, og skilaboðin eru skýr, - EKKI aka undir áhrifum áfengis og ekki sitja með fólki í bíl sem er undir áhrifum, því þá erum við samsek.

Líf er ómetanlegt.  Það er á einhverjum kvarða sem er ómælanlegur.  

Við fáum ekki líf til baka með því að taka annað líf, eða læsa fólk inni.  

Það er margt sem áfengi hefur skemmt, eða fólk sem hefur ánetjast áfengi hefur skemmt. Það skemmir börnin sín,  það skemmir friðinn, það skemmir og skemmir og stundum eru afleiðingarnar ekki svona uppi á yfirborðinu eins og við þennan hræðilega atburð.  

En áfengisneysla er dauðans alvara.  

Það er 20 ára aldurstakmark inn á bari, en það er ekkert aldurstakmark inn á heimili og þar sitja börn uppi með foreldra sína,    - sem oft drekka  úr hófi fram. -

Dóttir mín flutti fyrirlestur á Lionsfundi hjá afa sínum,  þegar hún var 15 ára.  Hún tók eftir því að flestir karlarnir voru með drykk,  en endaði fyrirlesturinn á að benda þeim á að aka nú ekki heim eftir drykkinn. -  Held að fæstir hafi tekið mark á því, en ég var stolt af henni að þora að benda þessum körlum á það.  

Þessi dóttir mín hét Eva Lind Jónsóttir og lést 8. janúar sl., líka í blóma lífsins, en eftir skömm en erfið veikindi.   Afi hennar er látinn líka. -

Þegar ég las lýsinguna á Lovísu Hrund Svavarsdóttur,  jákvæðni hennar og lífsgleði, fannst ég mér vera að lesa lýsinguna á Evu Lind. -  Sömu björtu eiginleikarnir,  jákvæðni, gleði o.s.frv. -

Hvaða lærdóm eigum við að draga af þessu öllu saman. -  Eigum við að stilla fókusinn á þessa einu konu, sem í dómgreindarleysi sínu og augljósum alkóhólisma framdi mesta gáleysi allra tíma, - það að verða annarri manneskju að bana? -   Ég get ekki ímyndað mér annað en að hún muni dvelja bak við rimla hugans alla ævi.  Og hvaða áhrif hefur þetta haft í hennar fjölskyldu?  Alkóhólismi hefur dominó áhrif, - hann fellir svo marga.

Á bara að kenna þessari einu konu lexíu, eða ætlum við að læra ÖLL af því sem hún gerði? -  Lærum við ekki af því nema hún sé lokuð lengi inni? - 

Ég veit að ég er að snerta mjög viðkvæma fleti hér, þeir eru viðkvæmir því dauðinn er það og hann er hræðilegur, það þarf ekki að segja mér um óbærileika þess að missa barnið sitt. -

Líf Lovísu Hrundar Svavarsdóttur er í raun svo mikils virði að fyrir það yrði aldrei greitt.  Þó að konan sem olli árekstrinum dveldi bak við rimla alla ævi, yrði það aldrei greitt upp. - 

Hlustum, lærum, og gerum ekki eins. -  

Lærum af björtu sálunum sem eru farnar, sem vilja skilja eftir hjá okkur sína birtu og sinn boðskap.  

Setjumst ekki undir stýri undir áhrifum, ekki eftir einn einasta drykk, og virðum þannig líf Lovísu Hrundar og annarra sem fallið hafa fyrir hönd þeirra sem hafa ekið undir áhrifum áfengis- eða annarra vímuefna. -   

Síðast en ekki síst, vil ég segja að ég samhryggist aðstandendum Lovísu Hrundar af öllu hjarta og bið alla heimsins engla að styðja þau í gegnum þennan tíma sem er nú að ganga yfir. -  


mbl.is Dæmd fyrir manndráp af gáleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin eins og stormur ...

Ég er pinku sátt við sjálfa mig. -  Ég hef staðið af mér, hingað til, storminn sem byrjar að blása í nóvember og stendur yfir fram að jólum. - 

Kringlan er stöppuð,  Smáralind full. Fjölmiðlar fullir af auglýsingum.  Jólahlaðborð og tónleikar. Allt er fullt af ? ...   Sumt fólk er fullt af stressi og annað fullt af kvíða. 

Verður fólk ekki dasað?

Hvernig stendur maður af sér storminn? - Jú, með að taka sem minnstan þátt, og halda sínu striki. -

Það að þessi árstími sé kynntur sem "besti tími ársins"  þýðir ekki að við þurfum að eyða öllum peningunum í stórar og dýrar gjafir eða versla dýr föt. -

Það þarf ekki mikið. -

Það sem skiptir máli um jólin og í aðdraganda þeirra er samvera, samvera í gleði og frið. -

Jólakort eiga ekki að vera eins og "verkefni" sem þarf að ljúka af, - og smákökubakstur ekki heldur.

Ef við höfum gaman af því að setjast niður og skrifa kveðju til vina, eiga rólega kvöldstund þá er það hið besta mál.  Enda vill væntanlega enginn fá jólakort fullt af stressi. - (Segjum að andinn fylgi með!)

Það heldur hver og ein/n jólin eins og hann eða hún vill, að sjálfsögðu.  

En eins og ég sagði í upphafi, þá finnst mér aðdragandi jóla eitthvað sem ég þarf að fara í gegnum eins og að það komi stormur sem ég spyrni við að dragast inn í.  

Ég er uppgefin á öllu sem heitir gerfi, yfirborð,  og allri þeirri "fullnægju" sem við eigum að geta keypt fyrir peninga, auk þess sem við gerum börnin snarvitlaus og frek á þessu. -  Stærra dót, meira dót o.s.frv. -  Það er margsannað að það sem börn raunverulega þarfnast er tími og góð samvera, en ekki meira dót.  Og við erum öll börn. 

Kaupmennskan blómstrar um jólin - kannski meira en fólkið? -  

Það er svo gott að hittast, spila, spjalla - vera saman.   Það skiptir máli.  

Jólin eru fæðingarhátíð Jesú Krists, -  Jesús Kristur kvartaði undan því að verið væri að  gjöra hús föður hans að sölubúð. -  

Jólin eru orðin ein stór "sölubúð", það er ofgnótt varnings og kaupmennsku,  og það virðist ekkert lát á.    

Kannski er ég "party-spoiler" að fjalla svona um þetta, - en ég hika ekki við að segja hvað mér finnst og ítreka enn og aftur að allir hafa val að taka þátt og hvernig þeir gera það.

"Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum" - sagði Gandhi, svo ég tek það til mín.  Er ekki að benda einungis út á við - ekki að segja "sjáið hvað ÞIÐ eruð að gera" .. heldur er þetta til að vekja sjálfa mig og viðhalda ró minni í þessum stormi sem gengur yfir. -

Njótum friðar og gleði um jólin.

Njótum okkar.  

<3 


Hvað get ég gert? ...

Það er fátt átanlegra og erfiðara í starfi ráðgjafans en að vera með fólk í viðtali sem hefur gengið í gegnum bæði andlegt og veraldlegt gjaldþrot.  Þetta tvennt virðist oft fylgjast að, þ.e.a.s. að þegar að fólk missir hið veraldlega þá hrynur andinn um leið.  Afkomukvíði og óvissa er bara hræðilega vont ástand og við þurfum að vera hálfgerðir "Búddar" til að hið ytra hafi ekki áhrif. - 

Það er margt sem er ekki hægt að gera,  en ég hef þá lífsreglu að spyrja frekar "Hvað get ég gert?" í stað þess að spyrja "Hvað get ég ekki gert?" -

Ef að andinn hrynur með hinu veraldlega, er kannski hægt að reisa sig við með að styrkja andann og gæti hitt þá fylgt á eftir? - Af hverju ekki? -

Hugaraflið er, að mínu mati, sterkasta aflið. -  Það hefur til að mynda áhrif á líkamann. -  Hvers vegna skyldi andinn ekki líka geta haft áhrif á hið veraldlega? -

Þau sem trúa að þau séu heppin eru yfirleitt heppin. - Margir vara fólk við að lesa um aukaverkanir lyfja vegna þess að þá er fólk líklegra til að upplifa þau. -  Já, alveg eins og okkur fer að klægja þegar mikið er talað um lús!  - Ég var með fólk á námskeiði um daginn, þar sem við ræddum kvíða.  

Námskeiðið er 2 tímar og í fyrri tímanum ræddum við mikið um kvíða. Í lok tímans var orkan í herberginu orðin kvíðaorka, ein sagðist upplifa að hún væri bara alveg að kafna. -   Í seinni tímanum snérum við dæminu við og fórum yfir í gleðina, ræddum hana, gerðum skemmtilegar æfingar og ég fór með hópnum í "Tapping" - en það eru sérstakar æfingar sem ég geri og byggðar á gamalli kínverskri speki um orkupunkta í líkamanum og svo sláum við á þessa punkta og förum með þulu - þar sem við snúm frá neikvæðri orku upp í jákvæða. -   Já, þetta er einhvers konar "míní" hugræn atferlismeðferð. -  Við snérum upp á kvíðann - og fólk fór að upplifa vellíðan og gleði. 

DON´T WORRY BE HAPPY ...  

--

Ef við erum andlega gjaldþrota, verðum við að byrja frá grunni - frá botninum, að byggja upp andann,  ekkert ósvipað og ég var að lýsa hér að ofan. -  Það kostar ekki peninga.

Ef fólk hefur aðgang að neti (sem jú vissulega kosar peninga) getur það leitað uppi alls konar vekjandi og hvetjandi efni til að bæta andann. -  Til dæmis  EFT  á youtube.  Ég hef safnað "tækjum" á síðu sem heitir:  www.samleikur.wordpress.com  og svo er ég með aðra síðu sem ég segi frá EFT en hún heitir www.frelsun.wordpress.com  og þær eru í mínu boði og vona ég að einhver geti nýtt sér efnið þar,  til að líða betur. -  

Við getum svolítið unnið sjálf í okkar andlegu líðan, - við getum ekki ráðið veðri og vindum, en við getum reifað seglin þannig að báturinn okkar haldi siglingu. -  Á meðan við höfum líf höfum við bát, og meðan við höfum val um viðhorf getum við snúið seglunum í vindinum. -

Byrjum því að fókusera á að vinna okkur upp hið innra, vinna í andanum og leyfa okkur að njóta stundarinnar -  akkúrat núna. -

Þá förum við frá því að kvíða framtíð.  -  

Hvað sem við gerum, höldum áfram,  þó við þurfum að skipta um leið - gera breytingar, þá ætlum við ekki að hætta. -   Höldum jafnvægi - og alveg eins og þegar við erum að hjóla - þá höldum við jafnvægi með því að halda áfram að hjóla.  Nú ef við dettum,  þá þýðir ekkert að liggja og berja okkur niður fyrir að hafa dottið, valið ranga leið, eða kenna öðrum um að við fórum ákveðna leið.  Við gætum jú, legið í götunni með hjólið ofan á okkur í langan tíma og býsnast,  eða vorkennt okkur, en það kemur okkur ekki neitt. -  

Hristum af okkur rykið, - stöndum upp og förum aftur upp á hjólið og skoðum hvaða leiðir eru til fyrir okkur. -  Kannski þurfum við að gera eins og frændi minn, sem keppir í hjólreiðum,  að halda á hjólinu spölkorn - yfir mestu ófærurnar, - en ekki gefast upp! -  

Ef hjólið aftur á móti reynist of þungt, þá biðja um hjálp til að koma sér áfram, gera við sprungið dekk eða bera en halda svo áfram að settu marki. -  

Lífið er hreyfing - það er ekki stöðnun.  Orkan er á hreyfingu, allt sem er lifandi er í raun á hreyfingu, líka það sem okkur sýnist alveg kjurrt. -

Skilaboðin eru þessi.  Gerum það sem við getum, og við getum flest gert eitthvað,  það er byrjunin. Að byrja á andanum er ágætis ráð. -

Stunda hugleiðslu og slökun, dansa, hreyfa sig, labba, rabba - allt sem við GETUM.  Fókusum á það og svo kemur alltaf meira og meira,  alveg eins og ef við byrjum að "Planka" í  20 sekúndur fyrst, þá erum við komin upp í 3 mínútur með æfingunni. -   Við getum meira og meira.

Ekki spyrja okkur hvað við getum ekki gert,  heldur  "Hvað get ég gert?" ..  

Svörin gætu komið skemmtilega á óvart.-

Smile  


Undir hamri dómhörkunnar ..

Kona nokkur var mjög leið yfir því hvað uppkomin  dóttir hennar kom sjaldan í heimsókn. -  Henni fannst dóttirin tillitslaus og eigingjörn. -

Konunni datt ekki í hug að líta í eign barm og hugleiða, "getur verið að ég sé að halda henni frá mér?" -   Hvað er það sem ég er að gera sem veldur því að dóttir mín kemur ekki í heimsókn? -

Konan gerði sér ekki grein fyrir því að í þau fáu skipti sem dóttirin kom, byrjaði hún yfirleitt að skamma hana fyrir hversu sjaldan hún kæmi og sendi t.d. á hana "skeytið" um hvítu hrafnana, segir: "Sjaldséðir hvítir hrafnar" - svo að dóttirin var ekki fyrr komin inn úr dyrunum en að skothríðin hófst.  -  Hamar dómhörkunnar kominn á loft. 

Ef þetta á að vera til að dótturinni langi til að koma aftur, er þetta kolröng aðferðafræði, sem virkjar bara samviskubit og vanlíðan. 

Eitt af því sem einkennir það að "vakna" til andlegs lífs er að hætta dómhörku, - bæði í eigin garð og annarra..  Í stað dómhörku kemur samhygð og skilningur. -

Í stað dómhörku kemur sátt og kærleikur, og að taka á móti manneskjunni eins og hún er. -

Það er vont að vera nálægt fólki sem er stanslaust með okkur í prófi, er að meta og vega. -  Þá förum við að "vanda okkur"  og verðum óeðlileg.  Er ég nógu góð/ur? - Er ég nógu dugleg/ur?   Segi ég eitthvað rangt? Segi ég eitthvað rétt? -

Sérstaklega gildir þetta um okkar nánustu. -  Að leyfa þeim að vera eins og þau eru. -  Auðtiað þurfa börn uppeldi, en uppeldi í kærleika og það er hægt að segja fólki til án þess að vera í einhvers konar dómarasæti. -

Við þekkjum flest þessa tilfinningu að tipla á tánum í ákveðnum samskiptum eða samböndum.  Sveigja okkur og beygja. -

Þessi samskipti geta verið gagnkvæm og eru því bara óeðlileg og hvor aðili fyrir sig kominn í hlutverk í staðinn fyrir að vera hann sjálfur.

Við þekkjum eflaust líka mörg fólk sem getur ekki hamið sig að koma með einhverjar athugasemdir í okkar garð, - stundum eru þær bara þannig að það er sagt með svipbrigðum eða viðmóti.

Á móti getum við orðið ofurviðkvæm og upplifað meiri gagnrýni en í raun og veru er í gangi. -  En þá er það yfirleitt vegna þess að gagnrýni hefur verið fyrir. -

Það er gífurlega mikilvægt  fyrir börn að vita að þau séu elskuð án skilyrða. - Það er að segja að láta þau vita að þau séu verðmæt - eins og þau eru - í sjálfum sér.  Ekki vegna þess að þau fara út með ruslið eða sýna góðan námsárangur í skóla o.s.frv. - Bara af því að þau eru.  Það þýðir ekki að þau gegni ekki skyldum og hjálpi til - heldur þýðir það bara að þau eru ekki það sem þau gera, heldur það sem þau eru og það er það sem við öll viljum vera. -

Við viljum öll vera elskuð skilyrðislaust, og það þurfum við öll að læra. Líka elskuð  af okkur sjálfum.

Hér er tekið dæmi af samskiptum móður og dóttur,  en að sjálsögðu gildir þetta fyrir öll form samskipta. -  Við eigum ekki að hegða okkur, eða umgangast fólk á þeim forsendum að reyna að þóknast því á allan mögulegan máta til að við séum samþykkt sem manneskjur. 

Það er fullt af prúðum og stilltum börnum þarna úti (líka fullorðnum börnum) sem þrá viðurkenningu á sjálfum sér,  og hegða sér eftir því og það eru rangar foresendur, vegna þess að við eigum ekki að gera til að vera elskuð eða viðurkennd, heldur vegna þess að við njótum þess.  Alveg eins og við eigum ekki að þurfa að heimsækja fólk - foreldra t.d. af skyldurækni, heldur vegna þess að okkur langar til þess. 

Það er gott að geta umgengist hvert annað afslöppuð án dómhörku og tilætlunarsemi. -

Það er lýjandi að lifa undir hamri dómhörkunnar, og við þurfum hvert og eitt okkar að líta í eign barm og kannski í eigin hendi og sjá hvort að við höldum á slíkum hamri. -

Elskum ....án skilyrða. 

Maya

 


Byrgjum brunninn áður en barnið verður að hrotta ...

Ég hlustaði á viðtal við  Mumma í Mótórsmiðjunni á Bylgjunni áðan,  en verið var að ræða hið hræðilega Stokkseyrarmál þar sem ráðist var á mann og honum misþyrmt á svo hrottalegan hátt að manni flökrar við. - 

Ég las lýsinguna á því í gær, og var hugsað til þessara ribbalda sem hika ekki við að meiða aðra mannveru. -  

Það þarf ekki að segja neinum neitt um það að það eru mjög skaddaðir einstaklingar á ferð, einstaklingar sem þó hafa einu sinni verið hvítvoðungar og væntanlega nærst við móðurbrjóst. -

Eitthvað fór úrskeiðis, - það hlýtur að vera, a.m.k. í flestum tilfellum. -  

--

Fyrir nokkrum árum sat ég í nokkrar vikur og las skýrslur úr mismunandi áttum um brottfall nemenda úr námi í Framhaldsskóla, - niðurstaða - undantekningalaust var á þá leið að það þyrfti meiri forvarnir og þær þyrftu að byrja fyrr. - 

Hér er ég ekki að segja að unglingar sem falla frá námi séu verri einstaklingar, heldur er ég að benda á að þarna gildir sama lögmálið, -  lögmálið um gildi forvarna. 

Þetta er sama sagan - alltaf - við erum ekki að læra þetta með brunninn og barnið, - brunnurinn stendur opinn og barnið fellur ofan í og svo er farið í rándýrar aðgerðir við að sækja barnið ofan í brunninn, ef það er ekki orðið of seint og mannslíf farið. -  

Miðað við hvað við erum orðin "gáfuð" virðumst við vera treg-gáfuð. -  Allar skýrslur segja, vinnum í rótunum, - notum forvarnir. - Mummi í Mótórsmiðjunni sagði það líka, - sagði að það þyrfti að vinna betur með börnum og unglingum og hlúa að þeim.  - EKki væri t.d. til unglinga-athvarf á Íslandi eins og í flestum vestrænum löndum.   

Unglingur í vanda sem leitar til félagsþjónustu fær kannski viðtal eftir 3 vikur, - það dugar ekki.  

Unglingavandamál eru líka iðulega fjölskylduvandamál, - jafnvel þó að allt líti vel út á yfirborðinu hjá fjölskyldunni er væntanlega um að ræða alls konar krísur, meðvirkni, alkóhólismi, ofbeldi - eða hvað sem er. -

Við getum reytt arfa endalaust, en ef við tökum hann ekki upp með rótum þá kemur hann upp aftur og aftur og aftur ....

Hvað er hægt að gera? 

Ég held að ef hlustað væri á klárasta fólkið á sviði uppeldis, fólks eins og Möggu Pálu hjá Hjallastefnunni og þeirra sem kenna kærleikann,  myndi vera hægt að fara að hlúa betur að börnum og unglingum.  

Að hlúa að börnum og unglingum er ekki að ofdekra þau, heldur að kenna þeim um orsakir og afleiðingar,  setja þeim mörk o.s.frv. -

Að hlúa að börnum og unglingum er að greina hæfileika þeirra þegar þau koma inn í skólann, og byggja undir greindir þeirra en ekki einungis leita að því sem þau geta ekki eða leita að frávikum frá normi. -

Að hlúa að börnum og unglingum, er að kenna þeim sjálfstyrkingu og samkennd með náunganum. -

Þessu þurfa heimili og skóli að vinna að saman. 

Mummi talaði um að aðeins broti af þeim málum sem kæmu til barnaverndaryfirvalda væri sinnt. -  Hvað er það? -  Af hverju eru til peningar til að byggja nýtt fangelsi -  en ekki að leggja meiri peninga í barnavernd? -

Hvað er að?

Þeir sem skilja ekkert nema talað sé í peningum eða gróða ættu meira að segja að fatta þetta, því þegar upp er staðið græða allir,  bæði andlega og veraldlega. -  

Hrottar eru líka fólk, - ég hef trú að það sé hægt að koma í veg fyrir hrottaskap með fræðslu, umhyggju, samkennd, mannúð, kærleika -  að okkur standi ekki á sama um hrottana,  því einu sinni voru þeir börn sem vildu bara leika.

Kannski tók einhver dótið þeirra og þeir lömdu hann og fengu þá dótið sitt til baka - og enginn kenndi þeim að það var rangt, eða þeir voru lamdir í spað og kunna ekki önnur viðbrögð. -

Ég leyfi mér að trúa að mörgum sé við bjargandi, þó að það sé e.t.v. ekki öllum. -

Það þarf auðvitað að taka úr umferð þá sem kunna ekki að vera í samfélagi og meiða mann og annan, - en það þarf líka að huga að grunninum.  

Á sandi byggði heimskur maður hús - og húsið féll.  Það eru ekki ný vísindi.

Af hverju að byggja á sandi, þegar kletturinn er til staðar?

Þessu verður ekki breytt á einum degi, en einhvers staðar verður að byrja,  og lengi býr að fyrstu gerð. -

LEGGJUM FJÁRMUNI Í SKÓLAKERFIÐ OG STYÐJUM JAFNFRAMT FORELDRA TIL AÐ VERÐA BETRI UPPALENDUR -  EFLUM ANDLEGA IÐKUN ÞAR SEM KÆRLEIKUR,  SAMKENND MEÐ NÁUNGANUM OG SJÁLFSTYRKING  ER KENNSLUEFNI NÚMER EITT, TVÖ OG ÞRJÚ. -   

Forgangröðum upp á nýtt og byrgjum brunna.  

Það margborgar sig.  

 

 MAKE LOVE .....

 


"Takk fyrir mig" - "Verði þér að góðu" ... samviskubit óhollasta viðbitið ...

Ég man ekki hvaða gúru það var sem sagði að ef við ættum bara eina bæn væri bænin: 

"TAKK"  

Og ég er því hjartanlega sammála,  því af þakklætinu vex gleði og af gleðinni uppskerum við árangur. - 

Það er í mínum (gamaldags) huga mjög mikilvægt að þakka fyrir hverja máltíð.  Hvort sem það er við þann sem matreiddi, eða þakka bara það að fá að borða. -

Allt of mörg börn (kannski fullorðnir líka) ganga frá matarborði þegjandi og hljóðalaust, og þakka ekki fyrir sig. -  Mér finnst sorglegt ef þeim sið, að þakka fyrir matinn,  er ekki við haldið, og þarna er ég íhaldssöm, og ekki bara hefðarinnar vegna, heldur vegna þess að ég tel að það sé í okkar eigin þágu, hvers og eins að kunna að þakka fyrir það sem okkur er veitt og okkur er gefið, - ekkert eigi að vera eins og sjálfsagður hlutur.

Þegar við segjum "Takk fyrir mig" - er mótsvar þess sem eldaði matinn yfirleitt "Verði þér að góðu" - og er það ekki yndislegt líka? -  Viljum við ekki að maturinn geri okkur gott?

Ein tilgáta sem ég las um, var að það skipti miklu máli með hvaða hugarfari við settum matinn ofan í okkur, og ég tek alveg undir það.  Ef við trúum að okkur verði illt af honum, eru miklar líkur á því og öfugt. -  Það á aldrei að borða mat með samviskubiti,  samviskubit er vont viðbit og það óhollasta.

Það er því bara gott mál að viðhalda þeim hefðum og siðum sem gera okkur gott, og eftir máltíðir að segja "Takk fyrir mig" .. og fá þessa fallegu ósk til baka "Verði þér að góðu" ..

 


Það læra börn sem þau búa við

Það læra börn sem þau búa við.

Það barn sem býr við hnjóð lærir að fordæma.

Það barn sem býr við hörku lærir fólsku.

Það barn sem býr við aðhlátur lærir einurðarleysi.

Það barn sem býr við ásakanir lærir sektarkennd.

Það barn sem býr við mildi lærir þolgæði.

Það barn sem býr við örvun lærir sjálfstraust.

Það barn sem býr við hrós lærir að viðurkenna.

Það barn sem býr við réttlæti lærir sanngirni.

Það barn sem býr við öryggi lærir kjark.

Það barn sem býr við skilning lærir að una sínu.

Það barn sem býr við alúð og vináttu lærir að elska.

 

Dorothy L. Holtes í þýðingu Helga Hálfdanarsonar

 

 


Ég skrifa til að lifa

Þann 8. janúar 2013,  missti ég frumburðinn minn, dótturina Evu Lind Jónsdóttur f. 1981 úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi,  hún skildi eftir sig tvö yndisleg börn sem eru nú fjögurra og níu ára, og búa hjá pabba sínum í Danmörku.-   Þann 10. september sl. lést svo öldruð móðir mín, - hennar tími var kominn, en það vakti upp meiri sorg.  Ég hef tekist á við sorgina, m.a. með því að veita henni farveg í skrif, - og stundum hreinlega vakna ég um miðja nótt og verður "mál" að skrifa og það gerðist sl. nótt og læt ég það fylgja hér með.  

"Stundum finn ég verk í hjartanu, ég vakna við hann, og hjartað slær svakalega hratt.

Held að það sé sorg mín að brjótast um en þá tek ég enn og aftur ákvörðun að lifa út fyrir öll landamæri meðan mér er gefin gjöf lífsins.

Sorgin sefast og ég læt huggast, vegna þess að ég elska svo mikið.

Dauðinn er partur af þessu öllu, og vegna hans kann ég að meta lífið, ekkert er sjálfsagt og því nýt ég næturinnar og dagsins í dag - því ég veit ekkert hvað verður á morgun, eða hinn og það er allt í lagi.


Ég skrifa til að lifa.

TAKK Heart"

Minningarsíða þar sem sjá má skrif mín um Evu Lind, en það er mér líka kært að það sem ég skrifa sem mína huggun, virkar sem huggun fyrir aðra sem hafa misst,  við skiljum hvert annað og við erum svo mörg sem höfum misst. - Fæstir sleppa.

MINNINGARSÍÐA


Ert þú karlmaður sem hefur verið beittur ofbeldi af maka þínum? ..

Í gær var umfjöllun Í Landanum, og í inngangi var talað um prósentuhluta kvenna sem hefði orðið fyrir ofbeldi, en ekki var minnst á prósentuhluta karla. - Þar sem ég starfa, í Lausninni - fjölskyldumiðstöð, koma oft karlar í viðtöl sem hafa verið beittir ofbeldi.  Margir karlmenn upplifa það sem skömm (eins og konur)  og e.t.v. enn meiri skömm vegna skilaboða samfélagsins að karlmenn eigi að vera sterkir og ekki gráta eða kvarta. -  Auglýsingaiðnaður og þáttargerð styður ákveðnar staðalmyndir, þ.e.a.s. að það megi ganga yfir karlmenn,  eða jafnvel að það sé fyndið að misnota karlmenn (eins og þátturinn um Ólaf Ragnar og Guggu í Dagvaktinni á sínum tíma).

Ég bloggaði um það á sínum tíma - sjá ef smellt er HÉR  (og endilega sjá athugasemdir við færslu lika).

Mig langar að biðja karlmenn að taka þátt í þessari skoðanakönnun hér til vinstri, - hvort þeir hafi verið beittir ofbeldi af maka,  og ef svo á hvaða alvarleikaskala þeir telji ofbeldið vera, á skalanum 1 - 10 og þá er 1 aðeins leiðindaathugasemdir, og væg samviskustjórnun, en 10 gróft ofbeldi þar sem þeim er farið að líða þannig að þeir séu algjörlega brotnir.  Þetta er þáttur í vitundarvakningu þess að það eru bæði kynin sem beita ofbeldi og bæði eru beitt ofbeldi af hvort öðru, og stundum er það þannig að ofbeldið er gagnvirkt, bæði eru farin að stunda ofbeldi, en líklegast er það þá algengara að konan segi frá og henni sé trúað fremur en karlinum. -

Hér endurbirti ég pistil síðan í sumar, sem er tenging við þessa skoðanakönnun.  

Eftirfarandi grein er eftir Dr Tara J. Palmatier, PsyD,  - af einhverjum ástæðum er mun algengara að horfa í ofbeldi af hendi karlmanna gagnvart konum, kannski vegna þess að það er meira uppi á yfirborðinu, augljósara eða kannski er þessi hegðun ekki flokkuð undir ofbeldi?

En greinin er hér í minni endursögn/þýðingu.  Ég skrifa þetta í þeirri fullvissu að það þarf tvo til að deila, - og stundum má segja að báðir aðilar séu "ofbeldismenn" .. eða kunna a.m.k. alls ekki góð samskipti.

En hér er greinin:

Öskrar kærastan þín á þig, hrópar á þig eða bölvar þér?  Líður þér eins og þú getir ekki talað við neinn um samband ykkar vegna þess að enginn myndi skilja þig?  Líður þér eins og hægt og bítandi sé sambandið að gera þig sturlaðan?

Ef þér líður þannig gæti verið að þú sért í sambandi við konu sem leggur þig í tilfinningalegt einelti (emotional bully).   Flestir karlmenn vilja ekki viðurkenna að þeir séu í ofbeldissambandi. Þeir lýsa sambandinu frekar eins og að konan/kærastan sé brjáluð, tilfinningarík, afskiptasöm eða stjórnsöm, jafnvel að þar séu stanslausir árekstrar.  Ef þú notar svona orð er líklegt að það sé verið að beita þig andlegu ofbeldi.

Þekkir þú eftirfarandi hegðunarmynstur?

1) Stjórnun/einelti (bullying)   Ef hún fær ekki sínu framgengt,  fer allt í bál og brand.  Hún vill stjórna þér og fer út í að lítillækka þig til að gera það. Hún notar ofbeldi orða og hótanir til að fá það fram sem hún vill.  Það lætur henni líða eins og hún sé valdamikil og lætur þér líða illa.*  Fólk með sjálfshverfan  persónuleika stundar oft þessa hegðun.

Afleiðing:  Þú missir sjálfsvirðinguna og upplifir þig sigraðan, sorgmæddan og einmana.  Þú þróar með þér  það sem kallað er Stockholm Syndrome, þar sem þú gengur í lið með andstæðingnum og ferð að verja hegðun hans fyrir öðrum. 

2) Ósanngjarnar væntingar.    Hversu mikið sem þú reynir að gefa, það er aldrei nóg.  Hún ætlast til að þú hættir hverju sem þú ert að gera til að sinna hennar þörfum. Hvaða óþægindum sem það veldur, hún er í fyrsta sæti.  Hún er með ótæmandi væntingalista,  sem enginn dauðlegur maður getur nokkurn tíma uppfyllt.

Algengar kvartanir:  Þú ert aldrei nógu rómantískur, þú verð aldrei nógu miklum tíma með mér,  þú ert ekki nógu tilfinninganæmur, þú ert ekki nógu klár til að fatta hvaða þarfir ég hef, þú ert ekki að afla nægilegra tekna, þú ert ekki nógu.. FYLLTU Í EYÐUNA.  Þú verður aldrei nógu góður vegna þess að það er aldrei hægt að geðjast þessari konu fullkomlega. Enginn mun nokkurn tímann vera nógu góður fyrir hana,  svo ekki taka því persónulega.

Afleiðing:  Þú ert stöðugt gagnrýndur vegna þess að þú getur ekki mætt þörfum hennar og væntingum og upplifun af lærðu hjálparleysi.  Þú upplifir þig vanmáttugan og sigraðan þar sem hún stillir þér upp í vonlausar eða "no-win" aðstæður.

3) Munnlegar árásir. Þetta útskýrir sig sjálft.   Hún notar alls konar uppnefni,  notar fagorð - vopnuð yfirborðslegri þekkingu á sálfræði.  Notar greiningar, gagnrýnir, hótar, öskrar, blótar, beitir kaldhæðni, niðurlægingu og ýkir galla þína.  Gerir grín að þér fyrir framan aðra, þar með talið börnin þín og aðra sem hún þorir.  Hún myndi ekki gera þetta við þann sem stöðvaði þessa hegðun og segði sér nóg boðið.

Afleiðing:  Sjálfstraust þitt og verðmætamat þitt hverfur.  Þú ferð jafnvel að trúa þessum hræðilegu hlutum sem hún segir við þig.

4) "Gaslighting" -  "Ég gerði þetta ekki"  "Ég veit ekki hvað þú ert að tala um"  "Þetta var ekki svona slæmt"  "Ég veit ekki um hvað þú ert að tala" "Þú ert að ímynda þér þetta" "Hættu að skálda" .. Ef að konan í sambandinu hefur tilhneygingu til þess að fá köst af "Borderline" eða sjálfhverfum reiðiköstum -  þar sem æsingurinn verður eins og stormsveipur getur vel verið að hún muni ekki það sem hún sagði eða gerði.  En hvort sem er, ekki efast um að þú munir það sem hún sagði.  Það var sagt og það var vont og ekki efast um geðheilsu þína.  Þetta er það sem kallað er  "crazy-making" hegðun sem skilur þig eftir í lausu lofti, ringlaðan og hjálparlausan.

mood-swings

5) Óvænt viðbrögð.    Hring eftir hring fer hún.  Hvar hún stoppar veit enginn.  Þennan daginn hegðar hún sér svona og hinn hinsegin. Til dæmis segir hún að það sé allt í lagi að þú sért að senda tölvupóst fyrir framan hana á mánudegi, en á miðvikudegi er þessi hegðun lítillækkandi, tillitslaus, "þú elskar mig ekki" er sagt og "þú ert vinnualki" ..en á föstudegi væri þetta allt í lagi aftur.

Að segja að einn daginn að eitthvað sé í lagi og hinn að það sé ekki í lagi er hegðun andlegs ofbeldismanns.  Það er eins og að ganga í gegnum jarðsprengjusvæði þar sem verið er að færa til jarðsprengjurnar.

Afleiðingar:  Þú ert alltaf á nálum, tiplandi á tánum og bíða eftir hvað gerist næst.  Það eru áfallaviðbrögð.  Vegna þess að þú getur ekki spáð fyririrfram i viðbrögð hennar, þar sem þau eru svona ófyrirsjáanleg verður þú ofurnæmur á breytingar í skapinu á henni og mögulegum sprengjum, sem skilja þig eftir í viðvarandi kvíðaástandi og mögulega í ótta.  Það er heilbrigðismerki að vera hræddur við svona ástand. Ekki skammast þín fyrir að viðurkenna það.

6) Stanslaus óreiða.   Hún er háð rifrildum (conflicts). Hún fær orku úr adrenalíninu og dramanu.  Hún gæti mögulega byrjað rifrildi til að forðast nánd,  til að forðast að horfast í augu við ruglið í sér, til að forðast að upplifa sig minni, og hið furðulega, sem tilraun til að forðast að vera yfirgefin.  Hún gæti líka viljandi hafið árekstra til að geta fengið þig til að bregðast við með illu, svo hún fái tækifæri til að kalla ÞIG ofbeldisfullan og HÚN geti leikið fórnarlambið.  Þetta er varnaraðferð sem kölluð er "projective identification"  - eflaust einhvers konar frávarp.

Afleiðing:  Þú verður tilfinningaleg fyllibitta (emotionally punch drunk).   Þú er skilinn eftir ringlaður og skilur ekki upp né niður í hlutunum.  Þetta er mjög stressandi því það þýðir að þú þarft alltaf að vera á verði fyrir árásum.

7) Tilfinningalegar hótanir.  Hún hótar að yfirgefa þig, að enda sambandið, eða snúa við þér bakinu ef þú ferð ekki eftir hennar reglum.  Hún spilar með ótta þinn, berskjöldun þína, veikleika, skömm, gildi, samúð, umhyggju og aðra "hnappa" til að stjórna þér og fá það sem hún vill.

Afleiðingar:   Þú upplifir þig misnotaðan, þér sé stjórnað og þú notaður.  

8 Höfnun.    Hún virðir þig ekki viðlits, horfir ekki á þig þegar þið eruð í sama herbergi,  það blæs köldu frá henni, heldur sig fjarri, neitar kynlífi, hafnar eða gerir lítið úr hugmyndum þínum, tillögum - og ýtir þér í burtu þegar þú reynir að nálgast.  Þegar hún hefur ýtt þér eins hörkulega í burtu eins og hún getur, reynir hún að verða vingjarnleg við þig, þá ertu enn særður vegna fyrri hegðunar og svarar ekki og þá ásakar hún ÞIG um að vera kaldan og hafna henni.  Þetta notar hún síðar til að halda þér í burtu í rifrildum framtíðarinnar.

Afleiðingar:  Þér finnst þú óspennandi, og ekki elsku verður.  Þú trúir því að engin önnur myndi vilja þig og heldur þig við þessa ofbeldisfullu konu, þakklátur fyrir hvern jákvæðan umhyggjumola sem af hennar borði fellur.

9) Heldur frá þér nánd og kynlífi.   Þetta er einn eitt formið af höfnun og tilfinningalegri kúgun.  Kynlífið er ekki aðal málið, heldur að halda frá þér snertingu, og andlegri næringu.  Undir þetta fellur líka lítill áhugi á því sem skiptir þig máli - á starfinu þínu, fjölskyldu þinni, vinum, áhugamálum og að vera ótengd þér eða lokuð með þér.

Afleiðingar:  Þú ert í  "kaup-kaups"  sambandi þar sem þú verður að gera eitthvað, kaupa handa henni hluti "vera góður við hana" eða láta eftir kröfum hennar til að fá ást og umhyggju frá henni.  Þú upplifir þig ekki elskaðan fyrir að vera þú, heldur fyrir það sem þú gerir fyrir hana eða kaupir fyrir hana.  

10) Einangrun.   Hún hegðar sér á þann hátt að hún gerir kröfu á að þú fjarlægist fjölskyldu þína, vini þína, eða hvern þann sem gæti borið umhyggju fyrir þér eða veitt þér stuðning.  Undir þetta fellur að tala illa um vini þína og fjölskyldu, vera mjög fráhrindandi við fjölskyldu þína og vini, eða að starta rifrildum fyrir framan þau til að láta þeim líða eins illa og hægt er í kringum ykkur tvö.

Afleiðing:   Þú verður algjörlega háður henni.  Hún fjarlægir utanaðkomandi aðila úr lífi þíni og/eða stjórnar í hversu miklum samskiptum þú ert við þá. Þú upplifir þig innilokaðan og einsamlan, og verður hræddur við að segja nokkrum manni hvað raunverulega gengur á í sambandinu ykkar, vegna þess að þú telur engan trúa þér.

Þú þarft ekki að samþykkja andlegt ofbeldi í sambandi.  Þú getur fengið hjálp eða þú getur endað sambandið.  Flestar ofbeldisfullar konur vilja ekki hjálp.  Þær telja sig ekki þurfa á því að halda.  Þær eru atvinnu fórnarlömb, stunda einelti, - sjálfshrifnar og á jaðrinum. Ofbeldið er í persónuleika þeirra og þær kunna ekki að hegða sér öðru vísi í sambandi.   Eyddu einni sekúndu í viðbót í svona sambandi,  ef að maki þinn viðurkennir ekki að hún eigi við vandamál að stríða og játi að leita sér hjálpar, RAUNVERULEGRAR HJÁLPAR, þá er best fyrir þig að fá stuðning,  fara út og halda þig fjarri."

Dr Tara J. Palmatier, PsyD

Þetta var grein Dr. Tara J. Palmatier - en eins og þið eflaust sjáið þá virkar þetta í báðar áttir,  ekki þarf að vera um að ræða öll einkennin þarna og ég tek fram að þetta er ekki mín grein, en vissulega væri ég ekki að birta hana nema ég teldi hana eiga erindi.

 

Það má taka það fram hér að "sjálfhverfan" gæti verið  sprottin af miklu óöryggi.  Einnig ef að einhverjum tekst að "láta þér líða illa" ertu ekki að taka ábyrgð á eigin líðan heldur samþykkja það sem hinn aðilinn er að segja um þig.  Ef þú setur ekki mörk og segir STOP ert það þú sjálf/ur sem ert að "láta þér líða illa" -  ert s.s. meðvirkur og í grófasta falli haldin/n sjálfspíslarhvöt.  Þú telur þig ekki eiga neitt gott skilið, og ert búinn að "kaupa" það að þú sért ekki verðmæt/ur og eigir e.t.v. ekki gott skilið. 

Hlekkur á greinina http://shrink4men.wordpress.com/2009/01/30/10-signs-your-girlfriend-or-wife-is-an-emotional-bully/


Einu sinni fæddist barn ...

Þetta barn varst þú. -  Þegar barnið kom í heiminn, var enginn sem benti á það og sagði: "Þú átt ekki allt gott skilið" eða "Hvað þykist þú eiginlega vera?" - "Þú ert ekki nógu _______"  (bættu í eyðuna: dugleg/ur, sterk/ur, falleg/ur, mjó/r - annað?)

Barnið var NÓG og verðmæti þess hefur aldrei breyst. -

Það sem þó gerist er að foreldrar og/eða annað samferðafólk barnsins fer að segja ýmsa hluti við barnið þegar það fer að vaxa úr grasi.  Það fer að reyna að blanda tilverurétti sínum við gjörðir sínar,  því finnst það þurfa að GERA eitthvað til að sanna sig. -  Til að vera nóg.

Við getum ekki gert að því hvernig talað var til okkar, og hvernig aðrir tala e.t.v. enn til okkar í dag.  EN við getum gert að því hvernig við tökum á móti því eða tökum ekki á móti og við getum gert að því hvernig  VIÐ tölum til okkar, - til barnsins sem fæddist og var og er svo dásamlegt.  -  Við höfum ekki "dömpað" barninu, því það er enn hluti af okkur,  sálin sem kom í heiminn er sú sama og yfirgefur okkur aldrei, þó að líkaminn hafi stækkað og breyst. -  Allt sem barnið hefur heyrt hefur þú heyrt. -  Það situr í sálinni. -

Við berum ábyrgð á þessu barni, vegna þess að NÚ erum við fullorðin.

Þú berð ábyrgð á sál barnsins sem fæddist fyrir jafn mörgum árum - og jafn mörgum mínútum og jafn mörgum sekúndum og ÞÚ. -

Hvernig kemur þú fram við barnið?   Ertu barnagæla?  Talar þú fallega til þess og segir því að það sé verðmætt?  Gefur þú því hrós og athygli?

Enginn hefur eins mikla möguleika og þú til að brjóta þetta barn niður - en um leið hefur enginn eins mikla möguleika á að byggja þetta barn upp. Hættu að láta raddir fortíðar stjórna, eða neikvæðar raddir nútíðar stjórna barninu. -   Taktu ÞIG í fang ÞÉR,  leggðu hönd á hjarta þitt, og tjáðu þér ást þína og væntumþykju. -

Það er að segja ef þú vilt hamingjuríkt líf fyrir þig?

  • Ég ætla að vera betri við sjálfa/n mig.  Ekki gera hugsanir þínar að óvini þínum.  Neikvæðar hugsanir.  Sjálfsásakanir og niðurbrjótandi hugsanir.  Skiptu út neikvæðu hugsunum með jákvæðum.  Það er hægt að læra það með því að lesa efni Louise L. Hay (hægt að finna hana á Youtube).  Losaðu þig við áhyggju- og þjáningarhugsanir.  Sendu fólki ljós og sendu sjálfum/sjálfri þér ljós.  HUGSAÐU LJÓS. - Hættu að vega þig og meta, dæma og gagnrýna  og segðu "ÉG ER NÓG" -  Hættu að setja á þig merkimiða og samþykktu þig.  Að fara að þykja vænt um sig þýðir að þú hugsar betur um sjálfa/n þig andlega og líkamlega. - Það er t.d. grunnur að heilbrigðara líferni.
  • Ég lifi ástríðu mína, - finndu út hvað þig langar og gerðu það.  Við eyðum of miklum tíma í að gera eitthvað sem okkur þykir leiðinlegt.  Það er mikilvægt að átta sig á því hvað það er sem við höfum gaman af því að gera.  Gleðin er mesti drifkrafturinn.  Leyfðu þér að trúa því að þú getir gert það sem hugur og hjarta stefnir til,  en um að gera að taka ákvörðun og byrja að lifa tilfinninguna við það að hafa tekið ákvörðun,  þó að þú takir eitt skref í einu að markmiðum þínum þá ertu þó lögð/lagður af stað. -  Njóttu þess þá sem þú ert að gera, akkúrat núna, vegna þess að það getur verið hluti af ferðalaginu.   Hamingjan er ferðalagið, en ekki bara endastöðin.
  •  Ég vel mér "ferðafélaga" -  Það þýðir að ég á skilið góða ferðafélaga sem eru styrkjandi og styðjandi.   Það ríkir jafnvægi á milli þín og maka þíns, þið eruð bæði gefendur og njótið að gefa af ykkur,  og njótið líka að þiggja því að makinn gefur. -  Bestu samböndin eru sögð vera þau sem báðir aðilar hafa gaman af því að gefa, og gjafir eru gefnar með svo mörgu móti. Þær liggja ekki bara í hinu veraldlega, þó það sé líka gaman að gefa og þiggja slíkt. -  Falleg orð eru líka gjafir, en það þarf alltaf að vera innistæða fyrir þeim,  og sumir eiga erfitt með orðin og gefa í verki. -  Gjafir eru allar mikilvægar og gott að gefa þeim sem kann að meta.  Brené Brown segir að það þurfi að iðka ástina. - "Practice Love" -   Iðkaðu því ástina í eigin garð og annarra. -
  • Ég er tilbúin/n að hætta að trúa að ég geti stjórnað öðru fólki eða breytt því.  -  "Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum" - sagði Gandhi.  Ekki eyða orku þinni í það sem þú getur ekki stjórnað.  Við megum ekki detta í þá gryfju að ætla að stjórna eða stýra öðru fólki.  Þá erum við orðin í sumum tilfellum "manipulators" - og dettum jafnvel í það sem ég vil kalla "tilfinningakúgara" -  Við reynum að stjórna með öllum hætti, með að hóta, með því að bora í samvisku viðkomandi o.s.frv. -  Þetta er okkar lærða hegðun sem við þurfum að láta af. - VIð þurfum að skilja hvernig VIÐ beitum ofbeldi,  til að skilja ofbeldi annarra.   Leyfum fullorðnu fólki að finna út sinn eigin þroska, -  og stundum uppeldi á börnum okkar en ekki ofbeldi. Ef þú vilt að barnið þitt blómstri, vaxi og dafni - vertu því fyrirmynd í því að blómstra, vaxa og dafna.  Það lítur upp til þín.
  • .Ég viðurkenni ótta minn og sársauka.   Ein megin ástæða þess að við náum ekki að breytast er að við lifum í afneitun.  Við setjum brosmerki yfir bensímælinn þegar hann tankurinn er tómur. Í staðinn fyrir að sjá það, viðurkenna vandann og fylla því  á tankinn á ný. - Þú þarft að finna leiðir til að "fylla á tankinn" -  Ef þú óttast það að tala fyrir framan aðra, farðu og gerðu það.  Ef þú óttast mannfjöldann - farðu og vertu í mannfjölda.  Ef þú óttast að gera þig að fífli, gerðu þig að fífli og sjáðu hvað gerist? -  Kannski lifir þú það alveg af?  Farðu í gegnum óttann og segðu við þig "ÉG GET ÞAÐ" .. og sjáðu hvernig þér líður á eftir.  Sumir segja að lífið hefjist fyrst, þegar við erum komin út fyrir þægindahringinn, en þægindahringurinn er öryggið.  Öryggið getur, því miður, verið leiðinlegt til lengdar og lífið á að vera skemmtilegt.  Ekki bara þykjustinni - heldur alvöru skemmtilegt.
  • Ég ætla að sjá mistök, óhöpp, erfiða lífsreynslu og annað sem tækifæri til að þroskast.  Sumir segja að ekki séu nein mistök, aðeins tækifæri til að læra.  Það sem við gerum rangt kennir okkur að gera rétt, svo við getum notað það sem kennslutæki til að gera betur næst.  Þegar okkur mistekst þýðir það líka að við höfum þó reynt, - en þau sem aldrei reyna neitt gera aldrei mistök og þau sem reyna sem flest gera flest mistök.   "Failure is the birthplace of success" -  Það að mistakast er því fæðingarstaður þess að ná árangri" ..  Það að mistakast getur verið merki til þín að þú sért komin/n út af sporinu og þurfir að endurstilla fókusinn.  Við komumst í samband við "reddarann" í okkur sjálfum þegar við lendum í því að þurfa að finna nýja leið,  velja upp á nýtt.  Við höfum alltaf þetta val, og gott þegar við stöndum fyrir framan valkosti að spyrja okkur:  "Hvað stendur nær hjarta mínu?" - "Hvað veitir meiri gleði?" -  "Hvað veitir meiri sátt?" Munum að við höfum stundum ekki val, ekki nema val um viðhorf. 

Já, einu sinni fæddist barn, - þessu barni er ætlað gott líf og mikill þroski.  Þetta barn á rétt á handleiðslu  í gegnum lífið, - stuðningi, væntumþykju, samþykki, athygli, virðingu, samhuga og elsku mjög mikilvægrar persónu í lífi sínu. 

Þetta barn er ég - og þetta barn ert ÞÚ. 

shoulderstandingsm.jpg

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband