Færsluflokkur: Bloggar

Þrjár fæðutegundir sem forvörn gegn þunglyndi ...

Ég sá pistil eftir konu sem heitir Carolanne Wright,  um þrjár fæðutegundir sem eiga að vinna gegn þunglyndi, eða hafa a.m.k. forvarnargildi. - Ég veit það hafa margir áhuga á slíku, - svo ég ætla að leyfa mér að segja lauslega frá greininni og hafa hana hér með pistlunum mínum, en Carolanne hefur inngang að sínum pistli, þar sem hún talar m.a. um breytta tíma, þar sem  aukið efnahagslegt óöryggi, atvinnu- og húsnæðisleysi sem hafi áhrif á geðslag fólks.

Náttúruleg þungyndislyf eru m.a.:

FISKUR download

Of lítil inntaka  omega-3 fitusýra hefur verið tengd við geðsveiflur eins og þunglyndi.  Við ættum að borða feitan fisk eins og lax, silung, sardínur og makríl. Hún vitnar þarna í  "Everyday Health"  um að japanskir rannsakendur hafi komist að því að það að borða mikinn fisk væri forvörn gegn þunglyndi og þá um leið gegn sjálfsvígshugsunum.    Finnsk rannsókn hafi sömu niðurstöður, - þ.e.a.s. eftir að hafa kannað mataræði hjá 1.767 íbúum, væri niðurstaðan að það að borða fisk oftar en tvisvar í viku, hefði það forvarnargildi gegn þunglyndi og sjálfsvígshugsunum.  Ef við erum að sleppa því að borða fisk  (eða erum algjörlega á grænmetisfæði), getum við fundið uppsprettu omega-3 m.a.  í valhnetum, graskers- flax - og chiafræjum.

TURMERIK download (3)

Turmerik er næsta sem hún nefnir, og kemur það ekki á óvart, enda mikið rætt um það hér á landi.  Hún bendir á grein þar sem stendur: "Turmeric is superior to Prozac in treating depression."   S.s. að turmerik sé betra en lyfið prozac til að vinna gegn þunglyndi!   Þar bendir hún á rannsókn í  "Phytotherapy Research"  sem sýni að  efnið curcumin sem sé i turmerik hafi þessi góðu áhrif sem öruggt lyf sem geti virkað gegn alvarlegu þunglyndi.  Þar hefur hún eftir "GreenMed" að "hiðarverkanir" séu að margt annað lagist en þunglyndið :-)Gott sé að blanda við turmeric örlitlu af ógeisluðum (vissi ekki að hann væri geislaður) svörtum pipar,  sem auðveldar upptöku turmeriks í líkamanum. Óhætt sé að taka allt að 8 grömmum af turmerik á dag.

GRÆNT TE download (4)

Grænt te er þarna með í þessari þrenningu, - en margir drekka grænt te fyrir líkamann, en það er víst ekki síður jákvætt fyrir andann.  Þar liggi leyndarmálið í L-theanine - sem er náttúrleg aminósýra sem skýri hugsun og um leið minnki kvíða og þunglyndi. Hún nefnir að japanskir búddistamunkar hafi getað stundað hugleiðslu tímunum saman,  algjörlega afslappaðir en um leið með skýra hugsun.  Vitnar hún þar í Mark Blumenthal, frá "American Botanical Council." 

Það sem þessar ofangreindu fæðutegundir eigi sameiginlegt - er að þær eru allar bólgueyðandi.  Það sé ljóst að þegar jafnvel aðeins smábólga er viðvarandi, aukist líkur á þunglyndi töluvert.  Það sé alltaf best að vinna við orsakir bólgunnar í stað þess að ráðast á afleiðingar.  En þar til orsök bólgu er fundin, geti feitur fiskur, turmerik og grænt te unnið gegn henni og komið jafnvægi á geðslagið.

Það er mikilvægt að huga að því sem við erum að taka inn, - hvort sem það er matarkyns eða hin andlega næring.  Ef við hlustum á líkamann þá finnum við nú fljótt hvað passar okkur.  Ef við erum t.d. komin með útþandan maga eftir pizza-át,  þá er líkaminn að segja okkur eitthvað, er það ekki? -

Líka ef við förum að finna til, t.d. við að borða djúpsteikt eða grillmat.  Á sama máta má spyrja sig, hvernig okkur líður á sálinni eftir t.d. að lesa mikið af óvönduðum athugasemdum á fréttamiðlum og skítkast.  Fólk áttar sig oft ekki á því að öll næring endurspeglast í okkur sjálfum, hvort sem hún er andleg eða líkamleg.  Það sést á líkama okkar t.d. ef við borðum of mikið, - og það sést líka á okkur ef við liggjum í andlegu "sukki." -   Þess vegna þurfum við að vera meðvituð um næringuna okkar. -

Að lokum; ég tek fram að þessi pistill er bara "spekúlasjón" ekki með læknastimpli og ítreka að hver og einn einstaklingur þarf að finna út fyriir sig, hvað hentar, því við erum svo sannarlega ekki öll eins, þó við séum mjög lík og öll af sama meiði!

Munum svo að lifa lífinu lifandi á meðan við höfum líf! .. <3 

Pæling: Carolanne er með þessum pistli að tala um fæðutegundir - sem eru efnislegar, - til inntöku, - en byrjar pistil sinn með að segja að ástæður fyrir vanlíðan séu andlegar, atvinnuleysi - fjárhagslegt óöryggi o.fl. -    Þá má spyrja sig hvort að þetta virki ekki í báðar áttir, þ.e.a.s. að líkamlegir kvillar læknist með góðri andlegri næringu? -  :-)

Auðvitað vinna líkaminn og sálin saman. -

Kíkið endilega á skemmtileg námskeið sem eru á döfinni,  en þau má öll finna undir flipanum Á DÖFINNI.   :-)

(Hér er hlekkur á pistil Carolanne, svo maður geti nú heimildar!)


Lof um dugmikla konu

Í tilefni Biblíudags og konudags er upplagt að birta hér kafla úr Orðskviðunum, "Lof um dugmikla konu".. 

 

Dugmikla konu, hver hlýtur hana? 
Hún er miklu dýrmætari en perlur. 
Hjarta manns hennar treystir henni 
og ekki er lát á hagsæld hans. 
Hún gerir honum gott og ekkert illt 
alla ævidaga sína. 
Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum. 
Hún er eins og kaupförin,
sækir björgina langt að. 
Hún fer á fætur fyrir dögun, 
skammtar heimilisfólki sínu 
og segir þernum sínum fyrir verkum.
Fái hún augastað á akri kaupir hún hann 
og af eigin rammleik býr hún sér víngarð. 
Hún gyrðir lendar sínar krafti 
og tekur sterklega til armleggjunum. 
Hún finnur að starf hennar er ábatasamt, 
á lampa hennar slokknar ekki um nætur. 
Hún réttir út hendurnar eftir rokknum 
og fingur hennar grípa snælduna. 
Hún er örlát við bágstadda 
og réttir fram hendurnar móti snauðum. 
Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói 
því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati. 
Hún býr sér til ábreiður, 
klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. 
Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum 
þegar hann situr með öldungum landsins. 
Hún býr til línkyrtla og selur þá 
og kaupmanninum fær hún belti. 
Kraftur og tign er klæðnaður hennar 
og hún fagnar komandi degi. 
Mál hennar er þrungið speki 
og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar. 
Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar 
og etur ekki letinnar brauð. 
Börn hennar segja hana sæla, 
maður hennar hrósar henni: 
„Margar konur hafa sýnt dugnað
en þú tekur þeim öllum fram." 
Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful 
en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið. 
Hún njóti ávaxta handa sinna
og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum.    

Orðskviðirnir 10 - 31 


Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra ...

Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra til að sækja þér traust, ást eða viðurkenningu.

Meðvirkni verður til þegar þú reynir að fá frá öðrum það sem þú heldur að þú hafir ekki. - Takið eftir "það sem þú heldur að þú hafir ekki" - við höfum nefnilega það sem við erum að reyna að fá frá öðrum, - en það er búið að telja okkur trú um að við höfum það ekki (það byrjar í bernsku) - Þess vegna þurfum að hugsa upp á nýtt, fara að trúa öðru, - trúa á okkur sjálf, - og það heitir sjálfstraust. - Sjálfstraust er því andstæða meðvirkni og meðvirkni er því sjálfs-vantraust. -

Við treystum okkur ekki til að setja mörk, eða segja NEI við þau sem við elskum, eða viljum fá elsku frá því við erum hrædd við að missa þau. - Meðvirkum aðila er líka oft hægt að stjórna eins og strengjabrúðu, þegar viðkomandi áttar sig á þessum veikleika hans.

Stjórnsemi er líka meðvirkni - hinn stjórnsami þrífst á að hafa einhvern til að stjórna, eða jafnvel bjarga. Sá aðili sem rýfur hið meðvirka samband er að gera báðum greiða. Það er rofið t.d. með að hætta að taka þátt eða ýta undir vanvirka hegðun. - Hætta að gera alkóhólistanum auðveldara fyrir að stunda drykkju sína - fela drykkjuna, eða ummerki hennar fyrir umhverfinu. - Meðvirkni er ekki bara tengd alkóhólisma, - foreldrar geta verið meðvirkir með vanvirkum unglingum. Unglingar geta stjórnað foreldrum. Það er t.d. ein gryfjan sem fráskildir foreldrar detta í, -börn/unglingar notfæra sér samkeppni foreldranna um athygli þeirra. -

Meðvirkni er líka  skortur á sjálfs-ást. Þar sem viðkomandi getur ekki séð eigið verðmæti og dýrð og þarf þá að fá samþykki og viðurkenningu utan frá.

Meðvirkni er því ástand hins óörugga aðila sem trúir ekki  á eigið verðmæti og dýrð,  trúir ekki á eigin ást eða að hann sé elsku verður.

Meðvirkar manneskjur eru oftast góðar manneskjur, en stundum "of góðar" - eins og fram kemur í ofdekri eða ofverndun. - Þá er hætta á að hin góða manneskja steli gleði eða þroska frá öðrum. -

Dæmi um gleðiþjófnað:  Strákur var búinn að vera marga mánuði að bera út blöð og var að  safna fyrir hjóli - góði afi gat ekki beðið með að sjá svipinn á strák, - og keypti hjólið fyrir hann. -  Þegar strákur kom heim með síðasta launatékkann og ætlaði að fara að kaupa hjólið, beið það fyrir utan húsið heima hjá honum. -  Afinn kampakátur, en strákur ...

Dæmi um þroskaþjófnað:  Unglingurinn gleymir alltaf að taka húslykilinn þó mamma segi honum að gera það. Hann er læstur úti og hringir í mömmu - sem er í vinnu - til að koma og opna. - Hún kvartar og kveinar yfir unglngnum - en kemur ítrekað heim úr vinnu til að opna fyrir honum. -  Unglingur heldur áfram að gleyma lykli, því mamma kemur hvort sem er alltaf að opna þó hún kvarti sáran yfir því. -  Hann missir þarna af þvi að læra um orsakir og afleiðingar.  Heldur áfram að vera kærulaus og gleyma lykli. -

Hvað ef mamma segði Nei? - Væri mamma þá ekki leiðinleg? - Vond jafnvel? -  Ef mamma er óörugg - heldur hún áfram að hlaupa til, - því hún er svo "góð" ..

Dæmi: Sigga litla er komin langt yfir kjörþyngd og mamma og pabbi þurfa að passa upp á mataræðið hennar. - Amma gefur henni súkkulaðiköku með rjóma, því að það finnst Siggu svo gott, -  SIgga "elskar" ömmu fyrir að gefa sér uppáhaldið sitt og amma er upp með sér að hafa glatt Siggu.

Amma ætti að vita betur er það ekki? -

Er þetta ást, eða skortur á ást?  Hvernig var upphafssetning pistilsins: "Meðvirkni verður til þegar þú reynir að fá frá öðrum það sem þú heldur að þú hafir ekki."

Það er háttur meðvirkra að fá ást frá öðrum aðilum,  í gegnum það að ala á fíkn þeirra eða vanvirkni. -

Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra til að sækja þér traust, ást eða viðurkenningu.

Sjáðu hvað þú ert verðmæt mannvera - núna -  það er allra hagur. - 

cappuccino.jpg

 


Eitt kerti - pælið í því! ...

Er enn að sjokkerast eftir að heyra smá saman meira af brunanum í Hraunbænum í gær.  Þar á Andri vinur sonar míns íbúð og býr sjálfur, en sonur minn leigir hjá honum tvö herbergi, fyrir sig og dóttur sína og er önnur aðstaða, stofa, bað og eldhús samnýtt.

 - Tobbi var vakandi vegna þess að Eva Rós, þriggja ára dóttir hans,  hafði þurft að pissa um nóttina, - hann heyrði svo stuttu seinna hávaða frammi á gangi, en ekki nein orðaskil, opnaði dyrnar fram á gang og þá blasti við honum sótsvartur reykur og hann sá eldinn á hæðinni fyrir neðan. -

Kallaði hátt "eldur" og Andri vinur hans sem svaf  vaknaði, Tobbi gekk beint inn í Evu Rósar herbergi og tók hana upp, greip jakkann sinn og vafði utan um hana. Hann var sjálfur á nærbuxunum einum fata. - Þeir héldu síðan niður ganginn til að komast út, í gegnum reyk og eldtungur. - Andri á stóra og yndislega Rottweilertík sem heitir Elding, hún er stór en með lítið hjarta og þegar hún kom í reykinn snéri hún við upp í íbúð og Andri á eftir henni. Hann sá ekki handa sinna skil fyrir reyk - stofan full - en komst með hundinn inn í herbergið sitt, þétti dyrnar með handklæði og opnaði svo glugga til að anda út um. - 


Hann skrifaði á sína síðu: " Kveiknadi i ibud fyrir nedan mig, eldtungur, hiti og reykur um allt.. Eg attadi mig a thvi I nott ad madur fær bara einn andadratt, sér ekki utur augunum og bakast eins og vid 200 gradur I ofni.. Allir heilir a hufi.." 
Tobbi komst með naumindum fram hjá eldinum og út þar sem tekið var á móti þeim feðginum og fóru inn í sjúkrabíl þar sem þau voru vafin í teppi Tobbi hringdi í Ástu mömmu Evu Rósar, sem kom að sækja hana - en það var þegar þau voru komin inn í strætó sem var kominn á staðinn til að fólk gæti fengið skjol. Ásta skrifaði um nóttina: "Hef sjaldan verið eins hrædd á ævinni! Eva Rós var hjá pabba sínum í nótt þegar það kviknaði í blokkinni hjá honum. Sem betur fer var allt í lagi með þau, en þrátt fyrir langa góða sturtu angar hún enn eins og kolamoli og er of spennt að tala um eldinn í pabbahúsi til að vilja fara að sofa aftur! úff.." .. Eva Rós tilkynnti síðan að þetta hefði verið í lagi "vegna þess að pabbi hafi verið svo sterkur."

Á leiðinni niður stigaganginn hafði hann jafnframt kallað fullum hálsi "eldur, eldur" - ef svo kynni að vera að einhver hefði ekki vaknað og svo reyndist vera og haf einhverjir íbúanna látið hann vita að þeir hafi vaknað við það. - 


Tobbi hafði að sjálfsögðu gríðarlegar áhyggjur af Andra félaga sínum að sjá á eftir honum aftur inn í reykjarkófið og reyndi að kalla upp til hans - þegar hann var kominn út, og lét jafnframt slökkvilið vita af honum uppí íbúðinni. - 
Andri hefur líklega bjargað hundinum sínum frá köfnun með því að fara á eftir henni, því hún hefði varla kunnað að bjarga sér ein. 
Það verða margar frásagnir til í einum eldsvoða, - sem betur fer endaði þessi á góðan hátt. Sjokkið er enn til staðar, það þarf að hreinsa sót og íbúðina hjá fólkinu sem kviknaði í þarf eflaust að endurbyggja. 


Eitt kerti - pælið í því. 

 

Förum varlega með eldinn elsku fólk. -

<3 

 



Förum varlega elsku fólk.    


"Ég var smá hrædd en pabbi er svo sterkur" ...

Þetta voru orð Evu Rósar, þriggja ára sonardóttur minnar - þegar hún var spurð hvort hún hefði verið hrædd. Hann býr á 3. hæð í Hraunbæ 30 og hljóp út með hana, fram hjá logandi íbúð á neðri hæð - en hafði vafið hana inn í jakkann sinn. - 

Mamma hennar kom svo til að sækja Evu Rós um nóttina, þar sem búið var að safna fólkinu saman í strætó fyrir utan blokkina og sofnaði litla ljósið ekki fyrr en undir morgun. Pabbinn kom til mín í vesturbæinn - ég þvoði reykjalyktina úr fötunum og hann lagði sig og var svo mættur í vinnuna um hádegið. -   Nokkuð týpískt fyrir hann segja þau sem til þekkja!  

Auðvitað er mamma/amma þakklát fyrir að þau sluppu svona vel feðginin, og allir viðkomandi, þó leiðinlegt að heyra þetta með aumingjans kisu sem dó, og  sem mér skilst að hafi verið í íbúðinni sem eldurinn kviknaði í. - 

Mynd tekin af feðginunum: Hér eru þau Þórarinn Ágúst og Eva Rós á gamlárskvöld hjá ömmu Jógu! 

Tobbi og Eva Rós

 


mbl.is „Vöknuðum við hróp á neðri hæð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sleppa tökunum - árslok 2013

Stundum þurfum við að sleppa einu til að geta tekið á móti öðru. - Stundum þurfum við að sleppa til að geta haldið áfram. -

Besta útskýring á því hvernig það virkar "að sleppa" er að  þegar við höldum fast, er það eins og að halda korktappa undir vatni. - Ef við sleppum tappanum skýst hann upp á yfirborðið. - Það er í eðli korksins að fljóta og það er líka í eðli okkar. -  Þetta flokkast eflaust undir "Law of allowance" eða lögmál þess að leyfa.

Sleppa fyrst - þá opnast höndin,  leyfa svo því sem þarf að koma að koma og trúa því að það komi - sumir segja að við eigum ekki bara að trúa heldur að vita.  Vera í fullvissu, að um leið og við sleppum og leyfum þá getum við verið viss. -

Eftirfarandi texti barst mér í morgun á fésbókinni í gegnum síðu sem heldur utan um ýmislegt hvað meðvirkni varðar. - Það var eins og skrifað til mín og ég veit að það er eins og skrifað til sumra þarna úti líka og því ætla ég að deila því áfram.

Það er best að lesa þennan texta eins og ljóð, ekki reyna að skilja of mikið. -

"Ég veit að þú ert þreytt/ur og þér finnst þú ofurliði borin/n. Það getur verið að þér finnist eins og þetta ástand, þetta vandamál, þessi erfiði tími muni vara að eilífu.

Hann gerir það ekki,  Þú ert að komast í gegn.

Það er ekki bara að þér finnist hann erfiður. Þú hefur gengið í gegnum próf, reynslu og aftur í gegnum próf sem hefur reynt á það sem þú hefur lært.

Það hefur verið gengið nærri lífsgildum þínum og trú þinni.  Þú hefur trúað en síðan efast, síðan unnið í því að trúa meira. Þú hefur þurft að trúa jafnvel þegar þú skildir varla hverju var verið að biðja þig að trúa. Verið getur að aðrir hafi reynt að sannfæra þig um að trúa ekki því sem þú varst að vonast eftir að þú gætir trúað á.

Þú hefur upplifað mótspyrnu. Þú hefur ekki komist þangað sem þú ert í dag með fullum stuðningi og gleði.  Þú hefur þurft að vinna mikið, þrátt fyrir það sem var að gerast í kringum þig. Stundum var það reiðin sem kom þér áfram, stundum óttinn.

Margt fór ekki eins og það átti að fara - fleiri verkefni en þú áttir von á. Það voru hindranir, gremja og pirringur á leiðinni.  Þú reiknaðir ekki með að hlutirnir færu eins og þeir fóru.  Flest kom á óvart, og sumt var langt frá því sem þú þráðir.
.
Samt var það gott.  Hluti af þér, hinn dýpsti sem þekkir sannleikann, hefur skynjað það allan tímann, jafnvel þegar höfuðið sagði þér að hlutirnir væru úr skorðum og klikkaðir, að það væri ekkert plan eða tilgangur, og að Guð hefði gleymt þér.

Svo mikið hefur gengið á, og sá atburður - sá sem er mest sársaukafullur, og kom mest á óvart - tengist við eitthvað sem þú áttar þig á. Þú ert að byrja að sjá það og skynja.

Þig óraði aldrei fyrir því að hlutirnir færu svona, gerðir þú það? En þeir gerðu það.  Nú ert þú að uppgötva leyndardóminn - þeir áttu að fara svona, og þessi leið er góð, betri en þú áttir von á.

Þú trúðir ekki að það tæki svona langan tíma - er það?  En það gerði það.  Þú hefur lært þolinmæði.

Þú hélst þú myndir aldrei ná því, en nú veistu að þú hefur gert það.

Þú hefur verið leidd/ur.  Margar voru þær stundirnar sem þér fannst þú vera gleymd/ur, stundir þegar þú varst viss um að þú hefðir verið yfirgefin/n. Nú veistu að þú hefur verið leidd/ur.

Nú eru brotin að falla saman.  Þú ert að ljúka þessu skeiði, þessum erfiða hluta ferðalagsins. Þú veist að þessari lexíu er næstum því lokið. Þessari lexíu - sem þú barðist gegn, mótmæltir, og fullyrtir að þú gætir ekki lært.  Já, það er hún.  Þú ert næstum orðin/n meistari í henni.

Þú hefur upplifað breytingu innan frá og út.  Þú hefur verið flutt/ur á annað plan, hærra plan, á betra plan.

Þú hefur verið í fjallgöngu, hún hefur ekki verið auðveld, en fjallgöngur eru það sjaldnast.  Nú ertu að nálgast toppinn.  Aðeins stund eftir og þú hefur sigrað tindinn.

Slakaðu á í öxlunum. Andaðu djúpt. Haltu áfram í sjálfsöryggi og friði. Tíminn til að uppskera og njóta alls, sem þú hefur barist fyrir.  Sá tími er að koma, loksins.

Ég veit þú hefur hugsað það áður, að þinn tími væri að koma, aðeins til að átta þig að svo var ekki.  En nú eru verðlaunin væntanleg. Þú veist það líka, þú getur skynjað það.

Barátta þín hefur ekki verið til einskis. Í hverri baráttu í þessu ferðalagi er hápunktur, endurlausn.

Friður, gleði, blessanir og launin eru þín hér á jörðu.

NJÓTTU.

Það koma fleiri fjöll, en nú veistu hvernig þau eru klifin og þú hefur komist að leyndarmálinu, hvað það er sem er á tindinum.

Í dag mun ég sætta mig við hvar ég er stödd/staddur og halda áfram. Ef ég er í miðri hringiðu lærdómsreynslu, mun ég leyfa sjálfum/sjálfri mér að halda áfram í þeirri góðu trú að dagur meistaradómsins og viðurkenningar muni koma.  Hjálpaðu mér, Guð, því að þrátt fyrir minn besta ásetning að lifa í friðsamlegu æðruleysi, þá eru tímar fjallgöngu. Hjálpaðu mér við að hætta að skapa óreiðu og erfitt ástand, og hjálpaðu mér að mæta áskorunum sem munu bera mig upp og áfram."

Melody Beattie  - From The Language of Letting Go.  - Þýðing: Jóhanna Magnúsdóttir

keilir.jpg

 


Heilsublogg á Þorláksmessu, dagur 2

Konan tók ákvörðun í gærmorgun og gærdagurinn gekk mjög vel :-) 

Ákvörðun um heilsusamlegra líf, meiri hreyfingu og hollara mataræði (þetta andlega er að sjálfsögðu grunnurinn).  Hér er bloggið frá því í gær.  

Þau sem þekkja mig vita að ég hef ekki trú á að ætla sér of mikið í einu. - Það er eins og að ætla sér að hoppa yfir hengiflug. -  Þess vegna eru skrefin bara tekin eitt í einu og hæfilega stór. -

"An apple a day keeps the doctor away" -  eða "Epli á dag kemur helsunni í lag" -  

Ég keypti mér poka með lífrænt ræktuðum eplum og fékk mér dagskammtinn.  Fékk mér líka smá eplaedik í vatn, en bara smá því það er bara ekki svo gott hmmm... mildilega orðað. Eplaedikið er frá Sollu og svo er það hörfræolían, matskeið af henni. -  Það er ég búin að gera í nokkurn tíma.

Bóndinn bauð upp á egg og beikon í gær, - og ég er ekki að fara í einhvern selleríkúr eða neinn kúr, en í stað þess að borða 2 egg og fullt af beikoni, borða ég bara 1 og 2 - 3 beikonstrimla. Fékk mér eina ristaða brauðsneið með, - og svo var að sjálfsögðu niðurskorið grænmeti, tómatar, gúrka, og jú, sellerí og svo spínat.  Sætindin voru í formi vínberja.

Þetta var eiginlega "brunch" og svo drukknir 2 kaffibollar og fullt af vatni. -  

Um eftirmiðdaginn var snædd en sneið gróft sólkjarnabrauð, en þá voru sonurinn og sonardóttirin komin í heimsókn, - og fengu líka.  Hún heimtaði að vísu piparkökur sem ekki voru til, en amma átti sleikjó í krukku og fékk hún sinn sleikjó.

Steikti svo hakk, og skar niður fullt, fullt af grænmeti og fengum okkur taco´s með hakki, salsa, sýrðum rjóma, smá osti, og var ég búin að nefna grænmeti? - Jú, þessi dásamlega sæta og góða rauða paprika, tómatar, spínat, púrrulaukur .. þessu var dreift á taco og svo sýrður og salsa yfir.
Bóndinn kom úr sveitinni og borðaði með okkur,  en hann var sultuslakur, enda kom hann með sultu frá Lalla vini sínum í Mati Englanna.  

Hann kvaddi eftir matinn til að fara í sveitina aftur, en við restin  fórum að kaupa jólatré sem átti að vera pinkulítiið í litla húsið á Frammó.  Þurftumekki að fara lengra en að Landakoti þar sem trén eru seld til styrktar krabbameinssjúkum börnum og enduðum í að kaupa tré, sem var jafnstórt mér,  178 að hæð,  en líklegast er það öllu breiðara. :-) 

Við settum það upp, en vegna flutninga milli landshluta finnst ekki einn skrautkassinn - svo míns verður að fara og kaupa eitt stykki ljósaseríu á eftir, en við vorum búin að versla nokkrar jólakúlur í Rúmfó og læt það duga.  

En nú þýðir ekki að teygja lopann og játa synd dagsins: 

Synd dagsins var svo eitt stykki bjór, - en systur mínar komu um kvöldið í smá spjall og átti ég akkúrat þrjár eftirlegukindur (bjóra) í kælinum (sem ég tók til í fyrr um daginn). 

Kvöldmatur var um sexleytið, svo í gærkvöldi var ég orðin glorhungruð og fékk mér eitt rúgbrauð f. svefninn. -

Vakna glöð og kát í dag,  hlakka til að eiga góðan og heilsusamlegan dag.

Skata verður það ekki, heillin, en Jón minn sér um skötuveislu á Hvanneyri í dag og óska ég honum góðs gengis. - Það verður að vísu örugglega gott, því allt sem hann eldar er gott!  

Eina sem ég gekk í gær var til og frá bílnum,  afsakaði það með hálfku sko.  Engin sætindi borðuð, súkkulaði, nammi, kökur eða svoleiðis.  

Dagur tvö er í dag :-)

Hér er fyrsta bloggið, þar sem ákvörðun er tekin. -  

EIgum góða Þorláksmessu með eða án skötu.  

Muna að drekka nóg vatn, -  Hamingjuráð dagsins eru þessi: 

1. Drekka meira vatn  2. Anda djúpt 3. Hugsa fallegar hugsanir.

 

Já, já glasið er hálffullt :-) ..  

 

glasssmall.jpg

 


Líkamsræktin - ákvörðun tekin..... fyrsta skrefið

Fókusinn hefur verið býsna stífur á að næra andann, en nú er víst kominn tími á að sinna líkamanum betur, en hann hefur ekki fengið það atlæti sem hann á skilið, undanfarið ár.

Ég er eins og þið öll, kann og veit hvað er best. Hollara mataræði og meiri hreyfing. En hef ekki elskað mig alveg nógu mikið, eða borið virðingu fyrir mínum yndiskroppi.  Að elska sig er að bera ábyrgð á heilsu sinni, andlegri sem líkamlegri. Að bera ábyrgð á velferð sinni. Að sjálfsögðu þarf að skella dash af æðruleysi í pakkann, því sumt er utan okkar máttar, en sumt bara alls ekki.

Fyrsta skrefið í að taka upp nýja siði er ákvörðunin, og hún er tekin. Svo er það plan, langtímaplan, engin barbabrella.  Konan stefnir á sitt besta form að ári liðnu, aðhaldið felst í því að hafa þetta opinbert :-)

Ég hef því 12 mánuði, til að líta út eins og konan sem var á nærbuxunum framan á bókinni sinni. Lofa samt engri slíkri mynd, en nú er Moggabloggið orðið mitt heilsublogg, veit að fólk hefur gaman að fylgjast með slíku.

Það sem mig langar er að stunda meiri útivist og hafa styrk til að ganga á fjöll.  Dansa meira og leika mér meira. Svo, til að passa aftur í fötin frá því í fyrra, ætla ég að léttast um ca. 8 kg.

Spennandi að segja frá árangri að ári liðnu, eða kannski fyrr?

Það er mikilvægt að segja "ætla" en ekki "reyna" og "langar" en ekki "þarf" ...:-)

Í dag er s.s. dagurinn sem ákvörðun er tekin, skrifa hvernig gengur,  komdu endilega með í þetta ferðalag ef þig langar! Fyrir þig og ef þú elskar þig!

Hörfræjarolía er víst algjört möst, sagði Kolla grasalæknir, en reyndar sagði hún að kaffi væri svakalega óhollt. Ég ætla að drekka minna kaffi, meira vatn og sleppa öllu alkóhóli. 

Ef ég vil heilbrigðari heim, verð ég að vera heilbrigð sjálf. 

Dagur númer eitt fer í hönd. 

NJÓTUM 

 

 


Af hverju er svona erfitt að taka skrefið út úr ofbeldissambandi? ...

Vegna þess að ofbeldið hefur þau áhrif að við erum full af sjálfsásökunum og skömm. -  

(Svona fyrir utan óttann við afkomu, óttann við viðbrögð maka, samfélags o.fl. atriða) 

Að spyrna sér af stað út úr slíku er eins og að spyrna í mýri, - það er næstum vonlaust.

Þess vegna þýðir það "að taka ábyrgð" ekki að fara í sjálfsásakanir og skammir í eigin garð, heldur að hætta að láta bjóða sér upp á eitthvað sem við eigum ekki skilið. -  

Til þess að snúa við ferlinu, sérstaklega þegar ofbeldissamband hefur varað lengi, þarf iðulega hjálp. Þegar hjálpin er fengin, eða hugarfar breytt er kominn þéttari "pallur" til að spyrna í og koma sér í burtu úr skaðlegum aðstæðum. -  

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að báðir aðilar í sambandi geta upplifað ofbeldi af hálfu hins. -  Sá sem er særður vill oft særa o.s.frv. -    

Það er því báðum aðilum greiði gerður ef að annar kemur sér út úr aðstæðum og leysir þær þannig upp, og ef að börn eru í spilinu er sá eða sú sem það gerir að gera börnunum gagn líka. -

Það er svo langt í frá alltaf besta leiðin að vera saman,  þegar samskiptin eru svona vond,  því það eru gríðarlega vond skilaboð til barna og þess verri fyrirmynd.  -

Foreldrar eru kennarar barna sinna, - og að bjóða börnum að alast upp í ofbeldissambandi eða við alkóhólískar aðstæður er eins og að láta "bully-ana" í umferðinni kenna í ökuskólanum. -  Það yrðu væntanlega tíðari árekstrar þá, er það ekki?  

Besta lausnin er ef báðir aðilar taka ábyrgð og finna sér saman hjálp, ef að vilji er fyrir hendi,  næst best er að fara í sundur og síst er að gera ekki neitt og viðhalda ofbeldissambandi.

Ekki leita endilega að sökudólgum, þó að leitað sé að orsökum fyrir því að samband hafi farið illa, -  en mikilvægast er,  eins og stendur hér í upphafi, að vera ekki í skömminni,  því út frá henni er enginn bati. -

Fyrirgefningin færir okkur batann - að lokum.

 


Skildi ég símann minn eftir inni? ...

Ég var að fara á sýningu á myndinni:  Rauða fiðlan í Deus Ex Cinema, og var komin með hugann að eplakökunni og sérstaklega rjómanum sem þar yrði í boði hjá Siggu á Laufásveginum, sem var sýningarstjóri kvöldsins.

- Lokaði hurðinni á eftir mér og læsti vel og vandlega, leit niður á brattar tröppurnar og hugsaði með mér að ég þyrfti nú að fara varlega, sérstaklega eftir að ég frétti af falli Jóns í neðstu tröppunum,  -  hugsaði hvort ég væri ekki örugglega með allt, - og auðvitað er hluti af þessu "öllu" sem ekki má gleyma, síminn minn,  skimaði ofan í töskuna mína, en ekki var hann þar, leitaði í vösunum á kápunni, fyrst hægri og svo vinstri, svo ætlaði ég að fara að taka húslyklana upp aftur, því að það gat ekki verið annað en ég hefði skilið símann eftir inni,  en þá þurfti ég að skipta um hendi á símanum, sem ég var upptekin að tala í,  frá hægri til vinstri handar .....  

LoL  ... 

Múltítasking er ekki fyrir mig!  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband