Þjóðfundur 14. nóvember 2009

Öxar við ána, árdags í ljóma,
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.
Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,
skundum á Þingvöll og treystum vor heit.
Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.
Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.

Helgi Helgason / Steingrímur Thorsteinsson
 
Já, er þetta ekki hressilegt að lesa (syngja kannski)  í morgunsárið? 
 
Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búin að setja mig neitt stórkostlega inn í dæmið "Þjóðfundur" en um það má lesa hér, en ég fékk í gær boð um að vera með á fundinum, sem haldinn verður 14. nóvember nk., ásamt öðrum 1499 Íslendingum.
 
Reyndar voru 1200 í úrtaki, "300 manns eru fulltrúar helstu stofnana og samtaka samfélagsins." Stendur í bréfinu sem ég fékk. Ég verð allltaf pinku skeptísk þegar stendur svona "helstu" .. til að byrja strax að kritisera, hvað eru helstu? Eru það stærstu eða mikilvægustu? Jæja, ég finn út úr því og fæ kannski svar hjá forsvarsmönnum/konum og kannski er til listi yfir þessi samtök og stofnanir. 
 
Ég er mjög þakklát þessari "lottóvél" sem dró mig út úr fjöldanum, því það er margt sem mig langar að segja, þó ég sé ekkert endilega mjög klár í einhverju sem liggur á bak við skammstafanir (ESB, AGS o.s.frv.)  þá hef ég mínar áherslur, eins og ég hef reyndar sett fram hér á blogginu og á fleiri stöðum. 
 
það væri gaman að útvíkka þennan þjóðfund og fá að heyra í þeim sem ekki mæta hvað þeir telji að sé þeim og íslenskri þjóð mikilvægast. Það sem á aðallega að ræða er: 
 
  • Sameiginleg gildi
  • Framtíðarsýn
  • Meginstoðir 
Ef ég á að svara þessu í stikkorðum, sem ég get útfært síðar.
 
Ást, virðing, samvinna, heilbrigði, jafnrétti, vinátta, tími, örlæti, kjarkur, vilji, skilningur. 
 
Allt getur þetta raðast undir gildi/framtíðarsýn/stoðir góðs samfélags að mínu mati. Ég mun eflaust taka fyrir einn hlut í einu, og greina hvað þessi atriði geta gert fyrir samfélag. 
 
Það er ekki tilviljun að ég set ástina eða elskuna fremst ...  
 
MAKE Heart NOT WAR 
  
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Jóhanna.

Það er nefnilega það að líta til alls þess,

 sem að þú tínir til undir svörtu áhersluletri væri gott fyrir alla,

unga sem aldna og friðsama sem baldna í einum hóp.

Góður punktur hjá þér !

Ég fylgist oftast með þér, gangi vel.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 13:55

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef lengi litið á  ástina sem afstætt hugtak og torætt eitt og sér. Fólk meinar þó ávallt vel þegar það nefnir hugtakið. Það er þó hægt að hafa ást á hinu illa. Ást á einu andstætt öðru. Ást á peningum. Ástá hinu efnislega etc.

Ást er fyrir mér að hafa í huga. Það sem uptekur huga þinn er ást þín. Sbr.að unna hugástum t.d. Hyggja að. Umhyggja. Vinaþel. 

Bara  svona heimspekileg vangavelta. Mér finnst að fólk mætti skilgreina betur hvað þa´við um ást, rétt eins og það ætti að skilgreina betur hvað það meinar með að nota nafnið Guð.  Samnefnarinn segir nefnilega hvorttveggja allt og ekki neitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2009 kl. 13:58

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

...skilgreina betur hvað það á við með  ást.... átti að standa.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2009 kl. 14:10

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér fyrir Þórarinn, ég kíki líka reglulega við hjá þér þó ég kvitti ekki alltaf! ;-) Gangi þér vel og ég vona að þú sleppir við flensuna!

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.10.2009 kl. 14:55

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Flott !!!

Jónína Dúadóttir, 24.10.2009 kl. 15:06

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jón Steinar,  þó ég hafi ákveðna mynd í huga þegar ég hugsa um ást, fletti ég í gamni upp spurningunni "hvað er ást" á vísindavefnum. Ég birti hér lítið brot sem mér finnst skipta máli fyrir umræðuna, en svarið er of langt til að birta hér í heild.

"Ástin er í upprunalegu merkingunni afl lífsins, "já-ið", lífs- og kynhvötin, afl gleðinnar, hins góða, jákvæða, frjóa, uppbyggilega - líbídó. Hið gagnstæða er afl dauðans, "nei-ið", dauðahvötin, afl hins neikvæða, illa, eyðileggingar. Að bera jákvæðar tilfinningar til annarrar manneskju og finna hið sterka uppbyggilega afl beinast að henni er forsenda þroskaðra tengsla. Þetta ber í sér aðdráttarafl - andlegt og tilfinningalegt, líkamlegt og kynferðislegt. "

(leturbreyting mín)

Sjá meira hér

Ég er annars sammála að ástin er margrætt hugtak, og var einmitt fjallað um það í heimspeki þegar ég sótti kúrs á sínum tíma. Þegar fólk er beðið um að loka augunum og hugsa um stól, nú þá sér það stól, en þegar fólk er beðið um að loka augunum og ímynda sér ást, þá sér það mismunandi hluti því að ástin er auðvitað huglæg og því myndar hver og einn sína mynd, eins og jú, af Guði, eins og þú bendir réttilega á.  Sumir hafa þá lífssýn að ást = guð. 

Ég held að flestir sjái jákvæða hluti þegar þeir eru beðnir um að hugsa sér ást.  

Sjálfsást, þá er ég ekki að tala um sjálfselsku í eigingjarnri merkingu, er mjög mikilvæg. Að elska sjálfan sig og virða sjálfan sig, er grundvallaratriði til að við getum gefið af okkur og gefið af ást okkar. 

Ef við snúum þessu upp í andstæðuna, sjálfshatur, þá get ég ekki ímyndað mér að manneskja sem hatar sjálfa sig hafi mikið að gefa. 

Nú kem ég með gömlu flugfreyjuávarps-samlíkinguna um súrefnisgrímuna sem við setjum á okkur sjálf til að geta aðstoðað barnið. 

Ég tel að ef við elskum sjálf okkur og virðum og um leið erum örlát á þessa ást og virðingu, fáum við það margfalt til baka.  Að sjálfsögðu er það ekki megintilgangurinn, þ.e.a.s. að fá það til baka, það bara kemur ósjálfrátt.  Öll þurfum við á ást að halda og væntumþykju. 

Ég hef stundum stillt Íslandi upp sem persónu, mér leiðist svo niðrandi tal um land og þjóð. Íslendingar séu ómögulegir og við öll óalandi og óferjandi. Ef við tölum svoleiðis um okkur, og elskum okkur ekki sjálf, hvers vegna ættu aðrir að gera það? Aðrir að bera virðingu fyrir okkur sem þjóð?  

Þjóðin hefur misstigið sig, hún hefur meira að segja hrasað illa og dottið. En hvernig við stöndum upp aftur skiptir öllu máli. Við getum legið og grenjað og vorkennt okkur, við getum farið í fýlu, við getum falið okkur eða flúið til útlanda. En viljum við flýja af hólmi?  Verðum við ekki að rísa upp samtaka, einmitt í vinaþeli (takk fyrir það orð)  og halda áfram. 

Við komumst hvorki lönd né strönd áfram ef hver höndin er uppi á móti annarri, við verðum að hlusta á hvert annað án tillits til hvar við stöndum í pólitískum flokki og kannski bara þvo af okkur pólitískan lit og klæðast hvítu, lit  friðar, eða gera eins og Gay Pride skrúðgöngunni, fara í alla regnbogans liti, til að sýna að litirnir geti unnið saman. 

Við getum ekki komið þessu landi á fætur nema með að umvefja það með ást, umvefja sjálf okkur með ást og þá sem við störfum með. Ást er auðvitað svolítið stórt orð, kannski frekar notað milli elskenda en svona í vináttu, en mér finnst það bara einhvern veginn vera það sem þarf að vera.  Ég segi vísu börnunum mínum að ég elski þau, og er óspör á það. 

Ástin á sjálfum okkur á líka að vera þannig að við tökum okkur ekki of hátíðlega, við elskum okkur nægilega mikið tli að fyrirgefa sjálfum okkur þegar okkur finnst við fara út af sporinu, og í framhaldi af því þora að viðurkenna það. Við erum nefnilega oft hörðust í eigin garð. 

Ég er engin töfrakona eða gúru og geri og segi fullt af vitleysu og það kemur fram sem hroki (eins og þú veist ) en ég er ekki hrædd við að viðurkenna það og það er þá óvart, því það er aldrei meining mín að setja mig á hærri stall en aðrar manneskjur eða telja mig eitthvað betri. 

Lífið fyrir mér er lærdómur og ég mjög mikla löngun til að láta gott af mér leiða.  Ég tel að með því að gefa sjálfri mér ást/súrefni eigi ég auðveldara með að vera örlát á ást/súrefni til annarra. 

Váts hvað þetta var langt svar, vona að það gefi einhverja mynd af því sem ég tel vera ást.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.10.2009 kl. 15:35

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sjálf flott!  Jónína, takk takk.

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.10.2009 kl. 16:03

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir þessarvangaveltur. Ég er ekki ekki að agnúast út í þigog segi að flestir noti orðið með jákvæðum huga, en tel hollt að fólk veltifyrir sérhugtökum, sem eru raunar ekkert annað en umbúðir, semstundum verða bara svona sound bite sem fólk notar hhugsunarlaust. Innihaldinuer vert að gefa gaum.Mérfinnst tildæmis skorta mikið á að prestar landsins noti það afeinhverri djúpri sannfæringu, heldurfrekar eins og pólitíkusar nota hugtök. Góðdæmi þar eru: Alþjóðasamfélagið,samstaða, mannréttindi, sjálfstæði, fullveldi.

"Þjóðin hefur misstigið sig, hún hefur meira að segja hrasað illa og dottið. En hvernig við stöndum upp aftur skiptir öllu máli. Við getum legið og grenjað og vorkennt okkur, við getum farið í fýlu, við getum falið okkur eða flúið til útlanda. En viljum við flýja af hólmi?  Verðum við ekki að rísa upp samtaka.... "

Er ekki úlfúðin og ósáttin einmitt vegna svona fullyrðinga?  99.9% þjóðarinnar telur sig nefnilega ekki bera neina sök íþessu. Þaðeru einstaklingarafokkar þjóðerni,sem eiga sökina og enn hefur engin áþreifanlegviðleitni verið höfð til aðfullnægjaréttlætinu, vístjórnmálamenn okkar eru sekir. Fólk sem við treystum og aktaði bak orða sinna.  Nú sitja þeir sem dómarar í eigin sektog það fyllir fólk örvæntingu.  Réttlætisvitundinni er ofboðið og ég tel að úlfúðinsé einmittmerki umsterka réttlætisvitund fólksins. Það erjákvætt. Við getumekkisetið hjá og þagað.

 Þegarósköpin dundu yfir, steig einmitt biskupinn þinn ástokk og fór með slíka firru og ofbauð öllu íslensku alþýðufólki. Ekki að undra þótt hann eigi á brattann að sækja.  Hann opnar ekki kjaftinn án þess að misbjóða fólki. Fólkimeð sterkari siðferðiskennd og réttlætiskennden hann sjálfur.

Ég vona að þetta séu mismæli hjá þér og sett fram í vanhugsun.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2009 kl. 16:36

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afsakaðu að það vantar orðabil. Vona að þú náir að krafla þigí gegnum þetta engu að síður. (voru ekki einmitt Grísku biblíutextarnir þannig?)

Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2009 kl. 16:43

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Mjög jákvætt framtak. Er þetta ekki Mauraþúfan?

Umræða á friðsamlegum nótum getur ekki gert neitt illt. Kanski er vandi Íslendinga dálítið út af því að enginn þorir að koma með eitthvað nýtt og jákvætt, þ.e.a.s. lausnir en ekki bölmóð. Hver lofaði því að lífið yrði vandamála-laust? Umræða leysir vandamál.

Margir byrja að þylja upp allt sem er tortryggilegt og neikvætt. Opin jákvæð umræða er í raun gífurlega mikilvæg ef fólk á ekki að lokast í fangelsi þröngsýninnar. Ísland hefur of lengi verið í því fangelsi. Það finnst alltaf lausn ef viljinn er fyrir hendi.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.10.2009 kl. 19:49

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jón Steinar,  það er umdeilt hver á sökina.  Ég viðurkenni að það er full djúpt í árinni tekið að segja að þjóðin hafi misstigið sig, en þjóðin liggur samt sem áður eftir.

Við erum lýðræðisþjóðfélag, við kjósum ákveðna flokka til að stýra.  Hægri eða vinstri það skiptir engu máli, hægri til að byrja með og svo vinstri. Þetta er allt fólk sem við kusum í lýðræðislegum kosningum. 

Sjálf kaus ég Borgarahreyfinguna því að mér fannst að það þyrfti nýtt og ferskt og óspillt afl inn í batteríiið en svo er geta þau ekki starfað saman.  

Missteig ég mig eða þau? 

Hverjum er um að kenna; flestir eru sammála að ríku kallarnir séu sökudólgar, sumir kenna Davíð Oddssyni, sumir kenna bönkunum, sumir kenna fjármálaeftiritinu, sumir kenna forsetanum, sumir kenna stjórnvöldum, svo heyrði ég nýja samsæriskenningu um daginn og þá var allt frímúrurum um að kenna. 

Það má kannski segja að þetta sé bara ákveðin uppskrift af sökudólgadeigi, en fólk er ekki sammála hvað mikið á að setja af hverju og hvort að einhverju má sleppa. 

Svo er spurning hvort að okkur fólkinu, með okkar vali á stjórn, okkar andvaraleysi er um að kenna að einhverju leyti? 

Ég verð að viðurkenna að ég hlusta ekki mikið á biskupinn, og heyrði ekki né las ræðu hans þegar hrunið varð og get því ekki dæmt hana, en hefur þú látið hann vita hvernig orð hans snerta þig? 

En takk fyrir Jón Steinar,  það er ágætt að fá þig inn í umræðuna til að ég geti vandað mig betur og einmitt fattað hvað það er sem fer í fólk, því ekki vil ég strjúka neinum öfugt. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.10.2009 kl. 09:53

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Anna Sigríður, þakka fyrir þitt jákvæða innlegg.  jú þetta er "Mauraþúfan."

"Margir byrja að þylja upp allt sem er tortryggilegt og neikvætt. Opin jákvæð umræða er í raun gífurlega mikilvæg ef fólk á ekki að lokast í fangelsi þröngsýninnar. Ísland hefur of lengi verið í því fangelsi. Það finnst alltaf lausn ef viljinn er fyrir hendi."

Algjörlega sammála og verð að fá að stela þessu "fangelsi þröngsýnarinnar" þetta er svo lýsandi.  Það sem við þurfum er að sjá eitthvað nýtt í stöðunni, horfa út fyrir ramma flokkspólitíkur. Það sem er mikilvægast er að gera eins og Kennedy sagði skoða hvað við getum gert fyrir þjóðina en ekki hún fyrir okkur.

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.10.2009 kl. 09:59

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Nákvæm tilvitnun í Kennedy:

#And so, my fellow Americans: ask not what your country can do for you - ask what you can do for your country. 

My fellow citizens of the world: ask not what America will do for you, but what together we can do for the freedom of man."

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.10.2009 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband