Helgin í Kolaportinu ..

Ég er ein af þeim örfáu sem á of mikið.  Of mikið af fötum, of mikið af skóm, of mikið af bókum, of mikið af alls konar skrautmunum ...  Já, eru það annars ekki bara örfáir sem eiga of mikið? -

Og þó ég eigi of mikið, á ég örlítið í samanburði við aðra, sem eiga fulla bílskúra og geymslur - kannski vegna þess að ég hef flutt ört og því sorterað mikið.  Samt á ég of mikið til að komast yfir að nota.

Ég tók mig því til í vikunni og tók saman í poka og töskur umframmagnið og pantaði bás í Kolaportinu. - Síðast þegar ég gerði það, var Kolaportið staðsett í Seðlabankahúsinu, - og eru það u.þ.b. 25 ár síðan!

En ég s.s. lét verða af þessu, og var þar laugardag og svo "Annan í Kolaporti" - eða sunnudag. -

Kolaportið kom á óvart, en eftirfarandi skrifaði ég á tímalínuna mína á fésbókinni þegar ég kom heim:

" Jæja - Kolaportsævintýrið á enda. Ég hef ekki verið mikil Kolaportskona hingað til. Hef sett nefið upp í loft og fundist vond lykt þar inni, og draslið og dótið fór pinku í taugarnar á mér. Ég hef "læknast" - því að ég sé hvað þetta er mikið mannlífstorg. - Það var margt sem ég græddi á að fara í Kolaportið, ekki bara peninga - en það gekk þokkalega að selja, ég kom a.m.k. út í plús .. En það sem ég græddi var að vera partur af öðruvísi samfélagi, samfélagi þeirra sem selja vörur í Kolaportinu og kynntist um leið þeim sem leggja leið sína þangað og komst að raun um að margir verja flestum helgum þarna, rölta á milli bása, skoða, setjast í kaffi, rabba. Þetta er s.s. félagsmiðstöð margra. - Og hvers vegna ekki að kynnast félagsmiðstöð? Við erum alltaf að læra."

Hvað gerist þegar við lærum, - jú við víkkum sjóndeildarhringinn. Við "útvíkkumst" - ef svo má að orði komast, en daglega er það víst kallað að þroskast.  Það var lærdómur að vera í Kolaportinu, og það var bara býsna gott, því þar hitti ég bara gott, hjálplegt og elskulegt fólk, - hvert sem litið var. 

Þetta fólk er kennarar - og þakka ég þetta "helgarnámskeið" - sem ég fékk í þokkabót greitt fyrir! -

Ég græddi peninga, græddi upplifun, græddi mannauð, græddi pláss í skápunum mínum og hirslum. 

Fólkið sem keypti vörurnar mínar á "slikk" og sumt gefins græddi. Rauði Krossinn, eða þau sem hann styður með fatagjöfum, græddu líka - því að það sem varð afgangs fór mest í gám sem er staðsettur bak við Kolaportið.

Þetta kallar maður (kona) "win-win" helgi :-)  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband