Dagbók 27. október og Bjúgnahátíð 2013

Eftirfarandi er skrifað upprunalega í dabók mína sem umsækjanda um Staðastaðarprestakall á Snæfellsnesi:  

Gott kvöld góða fólk,

Rólyndis dagur er að baki, - dagur þar sem spilað var Yatzee og etin súkkulaðikaka.  "Ekta" sunnudagur,  hvíldardagur sem tekinn var heilagur,  ef svo má að orði komast.  Stundum þurfum við jú að "anda." -

Ég fór tvær ferðir á Snæfellsnesið í gær,  en upphafsreiturinn var frá Birkimóum í Skorradal,  fyrri ferðin lá til frú Ólafar Brynjúlfsdóttur í Haukatungu, þar sem ég þáði kaffi og meðlæti, og hún sagði mér frá fjölskyldu sinni, sigrum og sorgum.  Augljóslega dugnaðarkona, sem líður vel í eigin félagsskap, og mættu margir hafa slíkt að fyrirmynd,  en er líka ánægð þegar að húsið hennar fyllist af afkomendum um helgar og er það víst ósjaldan, enda stór hópurinn og nýlega búnir að fæðast tvíburadrengir.

Síðar um kvöldið  lá leiðin á Bjúgnahátíð í Langaholti, en þangað renndum við, ég og bóndinn ásamt tveimur dætrum hans,  í dásamlega fallegu veðri, þó eitthvað blési. -

Við vorum fleiri umsækjendurnir sem vorum mætt í "bjúgnapartý" en þar voru mætt þau Davíð Þór ásamt sinni konu , Páll Ágúst ásamt hrokkinhærðri dóttur sinni sem lítur alveg eins út og Katrín amma Snæhólm,  en við erum góðar vinkonur og það er ekki leiðum að líkjast að líkjast þeirri konu! :-) .. Arnaldur var mættur með sixpensarann og svo voru Þau mætt Bára og hennar maður, en hún átti í morgun hálfrar aldar afmæli og óska ég henni til hamingju með það! -  Ekki amalegt að vakna á afmælisdaginn í Langaholti, en við gistum þar fyrir hálfum mánuði síðan, - og höfðum sjaldan sofið betur! -

Á staðinn var mættur "Celebrity" ljósmyndari frá Birtingi og eru nú allar líkur á að við munum birtast í menningartímaritinu Séð og Heyrt! ..

Stilltum við okkur upp fyrir manninn, - en við Jón minn höfðum ekki beint "puntað" okkur upp fyrir bjúgnaveislu, en vorum að sjálfsögðu snyrtileg til fara, einhvern veginn kalla bjúgu ekki á besta pússið!

Bjúgnahátíðin minnti mig að hluta til á aðra hátíð sem ég sótti um árið,  en það var það sem við kölluðum "Ruslmyndahátíð" í kvikmyndaklúbbnum Deus Ex Cinema,  en þar horfðum við á þrjár rusl-bíómyndir í röð, snæddum ruslfæði (pylsur af öllum gerðum) og rusl-sælgæti (skræpótt). -   Á þeirri hátíð hafði gestgjafinn,  Leifur Breiðfjörð, myndlistarmaður skorið rúnir og mynstur í pylsur - til að aðgreina þær,  t.d. pólskar pylsur frá Bratwurst.  Síðan voru mynstrin teiknuð á blað og merkt. -

Þau sem stóðu að Bjúgnahátíð 2013 eiga hrós skilið, en það voru m.a. Keli Vert, Rúna kona hans, Svava Svandís móðir Kela, Árni, Eyþór, Þorri bróðir Kela og svo útvarpsmaðurinn Guðni Már Henningsson, og eflaust fleiri sem ég veit ekki deili á,  en hvað um það, villibráðarkvöldið var frumlegt, en Bjúgnahátíðin ekki síður. -  Grilluð, soðin, steikt bjúgu, rónahryggur - (bjúgu - opnuð og pensluð m/barbikjú), bjúgnasnakk, en það voru þunnar bjúgnasneiðar þurrsteiktar á pönnu, bjúgnasalöt, bjúgnakarrýréttur o.fl. -  auk alls meðlætis, hefðbundins sem óhefðbundins. -  Sú yngsta af okkur var fegnust "mjóu bjúgunum" - en það voru reyndar pylsur.

Til að svolgra niður bjúgunum var í boði að smakka reyktan Steðja,  Blávatnið reyndist okkur að vísu vel til þess.

Bjúgnahátíð

Við erum auðvitað að sýna okkur og sjá aðra, við umsækjendur, - þegar við mætum á viðburði sveitarinnar, - en mikið er ég þakklát fyrir að hafa sótt um,  því að annars hefði ég eflaust ekki látið mér detta í hug að sækja bjúgnahátið -  svona í hreinskilni sagt. En þetta er og verður okkur ógleymanlegt! -

Svo erum við orðin stofnfélagar í bjúgnavinafélaginu í þokkabót!

 

 Keli Vert við kræsingarnar 

 

 

Ástandið er sem sagt "win-win" eins og er sagt í viðskiptalífinu, - allt að vinna og engu að tapa.  Því hvernig sem fer í prestskosningum  2. nóvember nk.  tel ég mig hafa unnið,  unnið það að kynnast náttúru og mannlífi á Snæfellsnesi -  og er enn að kynnast,  fólki sem er eins og náttúran magnað, frumlegt og skemmtilegt! -  

Kynningarsíðan mín er www.kirkjankallar.wordpress.com  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Mikið er ég búin að velta fyrir mér hvort land þessa prestakalls liggur að Hellisandi,þar sem tengdaforeldrar mínur bjuggu og frændfólk sem er þar enn. Nú fer að líða að þessu og við/ég, sem sækjum kraft í trúna,getum vel hugsað okkur að í Snæfellsjökli búi leyndur guðlegur kraftur.Gamli maðurinn hann tengdapabbi sagði okkur ófáar sögur úr sjómennskunni og leiðarljósinu sem vísað þeim heilum heim. Gangi þér nú vel ég fer oft upp á kirkjuholtið í Borgarholti (Kóp) og þar blasir þessi einstaki jökull við,með sitt aðdráttarafl. Ólýsanlegt þegar skyggni er gott,nú hugsa ég;”Verður hún Jóhanna Magnúsdóttir prestur þarna”? Bestu óskir.

Helga Kristjánsdóttir, 28.10.2013 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband