"Elskan mín, ástin mín .......skammastu þín" ...

Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér í morgun, - vegna þess að þetta er kjarninn í aðferðafræði margs ofbeldismannsins - og kvendisins.

Laða að sér viðkomandi með fallegu orðfæri og skjóta svo í návígi.

Svona tala lika margir í umræðunni um samkynhneigð.

"Ég elska samkynhneigða, margir eru vinir mínir, - en ojbara það sem þeir gera.  Það misbýður mér.".

Andlegt ofbeldi er dauðans alvara.

Gay Pride gangan - sem útleggst Gleðigangan á Íslandi,  er ganga gengin í stolti yfir - stolti yfir að fólk fái að vera "Gay" og frjálst með það.  Það að vera það sem það er.   Gangan er ÝKT - það fer ekki á milli mála,  Ýkt í litum, áróðri og gleði fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Fólks sem er ekki "svona" gagnkynheigt og þarf aldrei að pæla í því hvort það leðir maka sinn, kyssir eða faðmar á almannafæri.

Það er ekki langt síðan að ég var með unga konu í viðtali sem var kvalin af skömm yfir að vera að koma út úr skápnum sem samkynhneigð.  Hún var í sambandi við aðra sem var enn inni í skápnum og gat ekki hugsað sér að mæta samfélaginu eða fjölskyldunni.

Samt hrópar fólk að öllu sé náð,  samkynhneigð hafi fengið sína jafngildu hjónavígslu viðurkennda og þá eigi það bara að vera heima hjá sér.  Púnktur.

Þrátt fyrir þessi lög eru enn prestar INNAN þjóðkirkju sem hafa samviskufrelsi til að vígja ekki samkynheigð pör.

Það eru komin ýmis lög sem eiga að tryggja jafnrétti kvenna og karla en er jafnrétti náð? -  Getum við lagt hendur í skaut og bara andað léttar?

Hvað með launamun?   Jafnfrétti er ekki náð og þar er víða pottur brotinn og takið eftir að það er líka gagnvart karlmönnum.  Jafnréttisbaráttan er ekki bara kvennabarátta.

Nei,  við viljum ekki að fólk þurfi að ganga um bæinn með hauspoka vegna kynhneigðar sinnar.

Ég sagði áðan að gangan væri ýkt - hún er ganga gleði og stolts,  sem er andstæðan við óhamingju og skömm.

Ég hef skrifað ófáa pistlana um áhrif skammar á fólk, það að skammast sín fyrir sjálfan sig er eins og að vera með krabbamein á sálinni.

Sjálfsvígshugsanir eru algengar hjá fólki sem lifir með skömm,  og ef ekki það þá er það oft farið að finna alls konar verki og einkenni,  - hvers kyns eða kynhneigðar sem það er.

Skömmin lækkar ánægjuvogina - og gleðin og hamingjan er skert.

Þessi pistill er m.a. ákall til þeirra sem ekki þola Gay Pride og hafa áhyggjur af upprennandi kynslóð að sú ganga muni skemma börnin, eins og fram hefur komið í umræðunni.  Ákall til þeirra sem eru enn að veifa viðvörunarflagginu gagnvart hommum, lesbíum, transgender o.s.frv.

EInn af fyrstu hommunum sem kom út úr skápnum á Íslandi flúði land.  Við höfum sannarlega komið langa leið - en göngunni er ekki lokið.

Börnin verða ekki samkynheigð við það að horfa á tvo karlmenn kyssast, ekki frekar en að verða gagnkynheigð yfir því að horfa á konu og karl kyssast. -

Fólk sem á erfitt með Gay Pride gönguna er oft fólk sem hefur alist upp við fordóma gagnvart því að vera hinsegin og er hreinlega ekki vant því og finnst það óþægilegt.

Er það vandamál hverra?

Ég styð Gay Pride - sem er andsvar við Gay-Shame, eða skömminni sem troðið hefur verið upp á fólk vegna kynhneigðar.

Skömmin er það sem skemmir - það að skammast sín fyrir sjálfa/n sig. 

Elskan mín,  ástin mín,  þú þarft ekki að skammast þín - þú ert elskuð/elskaður "all the way" .. 

Já líka þú sem finnur til þegar að Gay Pride gengur fram hjá þér,  því kannski líður þér bara illa og þarft að skoða af hverju þér finnst þetta óþægilegt.  Prógrammið þitt er þannig,  þú hefur verið þannig alin/n upp - en þær tilfinningar eru ekki þú,  fordómar eru ekki meðfæddir.  Hvorki i eigin garð né annarra.

Kynhneigð er meðfædd.

Hörðustu gagnrýnendur eru oft þau sem enn eru inni í skápnum.

Virðum litrófið. 

Elskum meira og óttumst minna.

Rainbow_flag_and_blue_skies

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Kynhneigð er meðfædd." Hvar er sönnun þín fyrir þeiri staðhæfingu, Jóhanna?

"Hörðustu gagnrýnendur eru oft þau sem enn eru inni í skápnum." -- Er þetta ekki eins og að segja, að þeir, sem börðust á móti Bandaríkjaher á Íslandi, hafi í rauninni verið laumu-aðdáendur Bandaríkjanna, en að hörðustu gagnrýnendur Sovétríkjanna hafi "oft" verið bolsévíkar inn við beinið eða "kommúnistar inni í skápnum"?!!

Reyndu að nota ekki svona klisjur, háskólalærð konan, skrifaðu raunhæft, ekki svona blessað bull.

Jón Valur Jensson, 12.8.2013 kl. 11:10

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir að sýna blogginu mínu áhuga ;-) Þú mátt kalla það sem ég skrifa "blessað bull" - ef þú upplifir það þannig, en þar er ég ósammála þér. Þetta kemur frá hjartanu og skrifað af einlægni, - ekki hef ég höndlað allan sannleikann frekar en þú, enda enginn maður fær um slíkt.

Ég vísa í þessa síðu ef þú hefur áhuga á að kynna þér samkynhneigð Jón Valur:

http://www.raudikrossinn.is/page/rki_efbara_samkynhneig%C3%B0

Hvernig sem þú reynir að snúa út úr því að hörðustu gagnrýnendur séu oft þau sem eru inní skápnum, þá er það nú staðreynd sem er margsönnuð. Var ekki einhver háttsettur í Bandaríkjunum sem barðist hatrammur gegn samkynhneigðum og kom svo síðar í ljós að hann var samkynhneigður og hann var í raun að berjast gegn sínu eigin eðli? - Þetta er ekki einsdæmi - ó, nei - og ég skrifa "oft" það er ekki algilt. Gagnrýnin kemur að sjálfsögðu, eins og kemur fram í pistilinum, vegna innrætingar samfélagsins.

En Jón Valur, þetta snýst ekki um okkur - þig né mig - og hvort okkar hefur rétt fyrir sér.

Þetta snýst um sálir sem eiga rétt á að lifa frjálsar og án fordóma. Snýst um að elska en ekki óttast.

Ef ég hef ekki náð að koma því frá mér í pistlinum biðst ég velvirðingar.

Þessi pistill er líka brilljant:

http://www.samtokin78.is/greinasafn/samfelag-og-saga/5564-altjoelegur-dagur-gegn-homo-og-transfobiu

p.s. það er ekkert að óttast.

Jóhanna Magnúsdóttir, 12.8.2013 kl. 12:24

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er ekki bara spurning um "að elska", Jóhanna. Biblían er að fjalla um kynlífshátt sem hún dæmir hart. Og Jesús gaf hvergi leyfi til "hjónavígslu" fólks af sama kyni, það fylgir ekki með í hans hjúskapartexta, aðeins maður og kona (Mt.19.5-6, Mark.10.7-8), og þannig gefur hann ekkert grænt ljós á e-a blessun yfir samlífi sem hvort sem var taldist og telst áfram eftir hans hérvist alvarleg synd.

Jón Valur Jensson, 14.8.2013 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband