Orsakir eineltis

Ég sá frétt í DV um 11 ára stúlku sem var beitt einelti, - og var í raun komin út í örvæntingu þar sem hún vildi ekki lifa lengur. Slíkar fréttir eru að verða of algengar, ekki við fréttirnar að sakast, ekki við stúlkuna að sakast ... en við hvern er að sakast?  Er nóg að benda á þau börn sem beita einelti og segja: "Þarna er ástæðan?" - Eða er nóg að benda á skólann og segja "Þarna er ástæðan" ..  Orsökin er dýpri, - þeir sem beita einelti eru líka hluti afleiðingar, ekki það að þau eigi ekki að taka ábyrgð, alveg eins og hver og ein manneskja þarf að taka ábyrgð á sinni tilveru.  Við sem eldri erum þurfum þó að viðurkenna ábyrgð okkar á þeim sem eru ósjálfráða.  Við þurfum að taka ábyrgð því að það erum við sem upplýsum, við sem kennum, við sem virkjum o.s.frv.  Eineltismál eru ekki ný mál fyrir mér. Ég hef starfað í skólasamfélaginu, - nú síðast í grunnskóla í Reykjavík, þar sem voru inni á milli mjög illa særðir nemendur vegna eineltis, skólinn var í einu orði sagt "Helvíti" og skiptir þá engu máli um hvaða skóla er að ræða. Þau voru í sumum tilfellum að mæta í 2. eða 3. skólann.  Oft var eineltið vegna þess að þau voru "öðruvísi" - of feit, of mjó, of lítil, of stór,  jafnvel vildu fara sínar leiðir, sköruðu fram úr o.s.frv. en það þolir samfélagið oft illa sem hefur tilhneygingu til að steypa alla í sama mótið, meðvitað eða ómeðvitað.  

Einelti er ein birtingarmynd sjúks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar. Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima. Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum? Skoða hvaða andlega efni er verið að næra börnin með. Ég veit að sú skoðun leiðir ýmislegt óskemmtilegt í ljós. Eftir höfðinu dansa limirnir. Það þarf að verða viðsnúningur - algjör U beygja í okkar eigin framkomu við hvert annað og líti nú hver í eigin barm. Til er ég!

Ein mikilvægasta lexía sem ég hef fengið um ævina er að skilja eigið ofbeldi, - í fyrsta lagi ofbeldið sem ég beitti sjálfa mig og t.d. niðurrífandi sjálfstal sem við notum öll, enda erum við oft í raun okkar stærstu óvinir,- og í öðru lagi... þegar ég, í flestum tilfellum ómeðvitað, beitti aðra ofbeldi - þó það hafi ekki verið í formi barsmíða (dæmi: að vera fúl útí afgreiðslumanninn í Bónus, vegna eigin vanlíðunar eða þreytu, segja eitthvað sárt við börnin sín vegna sömu orsaka, eitthvað sem við ætluðum ekkert að gera en gerum samt) þá  í formi orða eða þagnar.

Þögn getur líka verið birtingarmynd ofbeldis, eða það að við samþykkjum ofbeldi annarra. Þegar þagað er yfir málum þegar við ættum að tala - og við höfum heldur betur orðið vör við það í okkar samfélagi.

"Um leið og sleppum tökum af alverstu óvinunum: skömm og ótta, sleppa þeir óvinir tökunum af okkur." (þetta í gæsalöppum er frá Neale Donald Walsch).  

Orsakir eineltis eru m.a. veikar fyrirmyndir,  lélegt sjálfsmat og lítil sjálfsvirðing (eða fölsk sjálfsvirðing sem felst í ytra verðmætamati), upphafning á kostnað annarra, ótti við að vera sá sem lagður er í einelti (betra að fylgja múgnum) o.s.frv. 

Sá eða sú sem er í alvöru sterkur eða sterk leggur ekki í einelti.  

Einelti er form veikleika, veikleika sem á rætur í veikum fyrirmyndum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hef haldið því fram að börn læri einelti heima hjá sér, það er auðvitað ekki algilt, sumir taka þátt til að vera meðteknir í hópa sem þeir halda að eftirsóknarvert sé að vera í, en sterkar fyrirmyndir gera það að verkum að börn/fólk stundar ekki einelti.  Ég varð fyrir miklu einelti í gamla daga, út af stærð, klæðnaði ofl. en ég nýtti mér það til góðs og það gerði mig sterkari, en það sem hjálpaði mér var hversu sterka foreldra ég átti. Í þá daga var þetta ljót stríðni, ég sé í dag að þeir sem beittu mig stríðni áttu sjálfir erfitt.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.10.2011 kl. 12:07

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég lúbarði krakka sem voru að stríða minni máttum í Melaskólanum í gamladaga enda tók ég alltaf lýsi en hvað var ég þá sem fylgdist með hrekkjusvínunum.  Ég tók hrekkjusvínin í einelti. Lífið er bara svona. Ef þú hefir ekki einhvern vin til þess að verja þig og eða getur varið þig sjálfur þá gengur ekkert í þessu lífi. Eitt barnabarn mitt lenti í um tíma einelti en faðir hans rak hann strax í Karate og núna reynir engin að stríða honum lengur þótt hann sé aðeins 8 ára. Þeir sem verja sig ekki verða fyrir barðinu á óprúttnum.  

Valdimar Samúelsson, 12.10.2011 kl. 13:18

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er góð hugleiðing og eins og þú segir eru lausnirnar ekki augljósar.  Þetta er lúmskt og oft komið í erfiðan farveg þegar það kemur í ljós.  En það er rétt sem þið bendið á að það eru veikir einstaklingar sem gera svona.  Þá á ég við með litla sjálfsvitund og skort ágóðum fyrirmyndum. 

Ég hef alla tíð fylgst vel með mínum dreng, því pabbi hans varð undir í sinni skólagöngu ekki af krökkunum heldur skólastjóranum og sumum kennurum.  Ég hef því alltaf farið á fund skólayfirvalda ef ég hef haft minnsta grun um eitthvað slíkt í farvatninu.  Og það hefur haft góð áhrif, það er fylgst betur með honum eða var.  Þetta vandamál er ekki lengur til staðar.

Ég held að besta ráðið sé að foreldrar skynji ef barninu líður illa að kanna málið strax.  Best er að vera vinur barnanna sinna svo þau geti frjálslega sagt manni allt sem gerist bæði gott og slæmt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.10.2011 kl. 14:32

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

2 af börnunum mínum 6 hafa lent í mjög erfiðu einelti í skólanum, yngsta dóttir mín er að berjast við þetta núna.  Skólinn virðist ekki geta stoppað þetta þrátt fyrir góðan vilja sem ég finn frá skólastjórnendum... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2011 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband