Þegar lífið er ekki nóg ...

Þegar við skoðum neyslu, þurfum við að íhuga af hvaða hvötum hún er sprottin og hver hagnast á henni.

Þetta snýst líka um framboð og eftirspurn.

Neytandinn er sá sem er að leita að einhverju til að gera lífið bærilegra, skemmtilegra - eða flýja frá lífinu.  Nautnin verður aldrei nema skammvinn og afleiðingar, eins og við vitum: hörmulegar.

Það er löngu kominn tími á það að við förum að fókusera á orsakir vandans, en að sjálfsögðu sinna þeim sem þegar eru fallin ofan í brunninn og hífa þau upp.

En hvernig byrgjum við brunninn?

Enn og aftur vek ég athygli á að styrkja skólakerfið og styrkja fjölskyldur. Styðja hvert annað á erfiðum tímum. Við verðum að taka höndum saman um það sem skiptir máli - mannleg samskipti og félagsleg heilsa. 

Þegar ég tala um að styrkja skólakerfið, er ég ekki að tala um að fá fleiri tíma í íslensku eða stærðfræði, heldur að í staðinn fyrir t.d. að félagsráðgjafar og sálfræðingar séu að sinna einu og einu barni á þjónustumiðstöðvum fari þeir fari út í skólana, í bekkina og séu með massíva sjálfsstyrkingu og sjálfsþekkingarsmiðjur.  Að sjálfsögðu þarf að halda áfram að vinna einstaklingsmiðað líka, en ég held að það að vinna í hópum, bekkjum, komi til með að styrkja bekkinn sem heild og um leið nemendur innan bekkjanna.

Það er mikið af fólki sem hefur nú þegar lært góða hluti sem nýtast sem tæki til sjálfsþekkingar og sjálfsræktar.  Þetta fólk ætti að nýta til að kenna börnum.

Hvað er unga fólkið að flýja?  Hvers vegna er lífið ekki nóg?

Þurfum við, sem eldri erum að líta í eigin barm?  Erum við í neyslu sem er okkur óholl og ýtir kannski undir hægfara sjálfsvíg?  

Er eitthvað sem vildum í raun gera frekar en að reykja, drekka, borða það sem gerir okkur vont o.s.frv. ?  Erum við í sama flótta, en ekki eins langt leidd?

Hver hagnast á þessari neyslu okkar?  Hver vill okkur svo vont?

Það er stundum á gráu svæði hvað er okkur vont og hvað gott.  Það er t.d. vitað að sólarbekkir geta ýtt undir það að við fáum krabbamein, en á móti að við fáum D vitamín úr geislunum og birtu sem kannski sumir sakna yfir vetrartímann.  Reykingar eru að sama skapi þekktur krabbameinsvaldur, en margir tala um að þeim líði betur félagslega með að reykja.  Sama á við um áfengið.  Öl er böl, en öl getur líka kætt.   Hvar eru mörkin?

Efnin eru þarna, ekki bara hörð eiturlyf, heldur mild - og sumir eru farnir að telja sykur sem eitur líka.

Það er mikilvægt að geta valið og hafnað, og til þess þurfum við að vita hvað við raunverulega viljum.  Velja hvort við séum tilbúin í rússneska rúllettu,  með því að dópa, leggja það á aðstandendur og vini.  Því auðvitað hefur það áhrif á aðra en okkur.  Það er líka sárt að sjá manneskju vera að drepa sig með ofáti.  Það er bara meira hægfara leið en eiturlyfin.  En ástæðan er sú sama:

Lífið er ekki nóg.

Ef við færum fókusinn þangað, gerum lífið nóg, finnum orsakir þess að það er það ekki og styrkjum okkur og unga fólkið til að þurfa ekki að leita sér að lífsfyllingu sem er fölsk,  þá færum við kannski að ná árangri gegn bölinu.  Hættum að fóðra risana sem hagnast á ógæfu annarra.

Látum ekki bjóða okkur ófögnuðinn og virðum okkur og elskum  meira en svo.

Lærum að segja; "Nei takk, ég elska mig meira en þann sem ætlar að græða á ógæfu minni.  Ég elska mig meira en svo að ég ætli að eitra fyrir mér. Ég elska þann sem vill græða á mér meira en svo að ég ætli að vera meðvirkur með honum og ýta undir hið slæma sem hann er að gera."

Ég þigg lífið og það er nóg og ég er nóg.

ÉG elska þig og ég elska mig ...

sun-salutation.jpgHeart


mbl.is Vitað um PMMA-neyslu í fimm tilvikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Sæl Jóhanna - þú skrifar þessa hugleiðingu útfrá frétt um eiturlyf sem er bráðdrepandi, að vísu eru þau öll hættuleg þó sum séu seinvirkari en önnur og jafnvel að nauðsynjavara geti verið hættuleg - þetta snýst að mínu mati fyrst og fremst um viljafestu einstaklings og viðhorf til hinna ýmsu fíkna / ávana.........

Við erum ansi föst í boðum og bönnum, semsagt forræðishyggju - það er stór hluti vandans vegna þess að hvað eiturlyf varðar er rótin oft sú að okkur foreldrum auðnast ekki að  ná góðu sambandi við börnin okkar - í félagahópnum er "töff" að gera andstætt vilja foreldra og prófa ýmislegt sem er bannað.........

Þetta er sem betur fer ekki algilt og ég tel ekki að hægt sé að læra að ná fullkomnu sambandi við  börnin okkar af bókum, þetta er einstaklingsbundið og reyndar eins misjafnt og við erum mörg.........

Það hefur mikið farið fyrir forræðishyggju varðandi reykingar og þá ekki síst þær óbeinu, síðan ég "hætti" (mér er illa við að setja mér svona höft, svo ég segist vera í pásu) hef ég fengið að heyra óteljandi sögur af óþolandi fyrrverandi reykingamönnum sem öllu vilja ráða - ég reyndar tek það ekki til mín vegna þess að ég veit ekki til þess að ég sé að agnúast útí þá - sérstaklega þar sem ég er með bíl og spurning hvor mengar meira.......

En varðandi börnin - mín afstaða er sú að við "eigum" þau ekki, okkur er fengin umsjá með þeim til að leiðbeina og gera þau hæf til að takast á við lífið, eftir bestu getu - ég "á" þrjú og hef verið heppinn og er vissulega stoltur af "mínum".........

þau þurftu vissulega að fylgja þeim reglum sem við foreldrar settum á okkar heimili - þau setja reglurnar á sínu, en á móti hef ég fengið frá þeim að ég hafi hrósað þeim bókstaflega fyrir að draga andann...........

Eyþór Örn Óskarsson, 26.5.2011 kl. 17:16

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já stundum getur lífið verið erfitt, og það er sérstaklega erfitt að horfa upp á barnið sitt fljóta niður straumin og geta ekkert gert til bjargar, það er sársauki sem ég vil að sem fæstir þurfi að upplifa.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.5.2011 kl. 21:40

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Mér sárnar líka þessi mannauður sem við töpum. Bæði hvað varðar þá sem látast ótímabærum dauða og hinum sem eru lifandi dauð í helgreipum fíknarinnar.

Hvað væri þetta fólk að gera í dag ef það hefði ekki orðið þessum örlögum að bráð? Tap þjóðfélagsins er gríðarlegt bæði hvað varðar tap á mannauði og kostnaði sem þetta skapar þjóðfélaginu. Þá er ekki hægt að lýsa áhrifunum á fjölskyldur þessa fólks. Það er allt til að vinna og við verðum að gera eitthvað betur í þessu.

Fyrsta stigið finnst mér eiga að vera að fíklar fái efnin frítt inn á lyfjaverum eða heilbrigðisstofnunum. Með því færu þeir úr þessu hættulega umhverfi og frá því að þurfa að gera ýmislegt andstyggilegt til að fjármagna neysluna. Tel að bæði peningalegur hagnaður sem og lækkun á glæpatíðni og áverkum myndi gera betur en greiða þetta.

Svo þurfum við að tækla ástæður þess hversu vel þessum sölumönnum dauðans tekst að fá nýliða í hópinn.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.5.2011 kl. 07:50

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka ykkur innilega fyrir athugasemdir og viðbrögð, ég kem betur inn síðar og fæ að svara hverju og einu.  Einnig tölvupósti sem ég hef fengið.

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.5.2011 kl. 08:09

5 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

"Þegar lífið er ekki nóg..."

Þetta hljómar dáldið eins og sölufrasi fyrir kristna trú (ekki að þetta komi færslunni þinni neitt við), þetta bara greip mig dáldið. Ég held að Reichskirkjan ætti að taka þetta slogan upp :)

Sigurður Karl Lúðvíksson, 27.5.2011 kl. 13:45

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

When life´s not enough, call on God!   Siggi þú ert með þetta.

Það má segja að þetta sé sölufrasi fyrir mína skilgreiningu á Guði =  X factor    - Guð í sjálfum þér, og Guð allt um kring,  en ekki fyrir ákveðna kirkju eða trúarbrögð.  X factorinn er þetta "aha" sem þú finnur til þegar þú ert kominn á tindinn í fjallgöngunni, eða þessi ótrúlega endalausa ástartilfinning sem þú finnur til barnsins þíns - nú eða barnabarns. 

Kannski er það þessi tilfinning sem fólk leitar að í dópinu.  Það er örugglega fráhrindandi fyrir marga að kalla hana Guð, .. þess vegna kalla sumir hana "æðri mátt" ..  ég held að þessi máttur sé bara jafnfætis okkur,  búi innra með okkur - við þurfum bara að taka eftir því.   "With arms wide open" eins og vinir okkar í Creed segja.

Ég er komin á þá skoðun að stofnanavæðing trúarinnar sé á gráu svæði, við lærum svo lengi sem við lifum. 

Fólk þarf á hvert öðru að halda, við erum ekki gerð til að lifa einangruð.  Þess vegna er gott að hafa samfélag til að koma saman, syngja, tala um uppbyggilega hluti, hafa athafnir í kringum stóra atburði í lífi okkar -  Kirkjan byggir mikið á þessari þörf fyrir samveru.   Yfirbyggingin og regluverkið er bara að kæfa grasrótina.  Jahérna hér .. nú er ég hætt í bili.  En þetta er mín einlæg skoðun.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.5.2011 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband