Kirkjan í búbblu?

Jón Gnarr sagði eitthvað á þá leið í Silfri Egils í dag að pólitíkin væri í búbblu sem ekki ættu nema útvaldir aðgang að.  Þeir sem væru þar fyrir væru bara pirraðir að aðrir væru að reyna að komast í partýið.  Hann orðaði þetta ekkert endilega nákvæmlega svona, en innihaldið var svona og hann nefndi bæði búbblu og partý.

Pólitík í búbblu - kirkja í búbblu? 

Mitt áhugamál er fólk og mitt áhugamál er kirkjan sem samfélag fólks.  Ekki yfirstjórn, dogmur eða helgisiðir. Ég sagði á Fésbókinni í dag að ég væri að spekúlera hvort að kirkjan væri í "búbblu" eins og pólitíkin - hvort að hún væri of langt frá fólkinu og talaði annað tungumál .. 

Ég fékk  mismunandi viðbrögð.  Einmitt spurninguna um hvað ég ætti við með "kirkjan" hvort hún væri ekki við fólkið?

það eru nokkrar skilgreiningar á "kirkjan" 

Kirkjan =  samfélag (þú og ég)

Kirkjan =  kirkjuhús

Kirkjan = stjórn kirkjunnar eða yfirstjórn 

Þjóðkirkjan á Íslandi stendur ekki undir nafni sem samfélag því að þá réði fólkið miklu meira um það sem gerðist í kirkjunni og hún flokkaði fólk ekki eftir kynhneigð.  Ég er  nokkuð viss um að meirihluti þess fólks sem er í þjóðkirkjunni er samstíga í því að samþykkt verði ein hjónavígslulög, en einhverjir kallar og kellingar sem ríghalda í hefðir rífast um orðalag laga og túlkun á orðalagi Biblíu þannig að orðalag er allt í einu farið að verða meginatriði á meðan að réttarbótin er látin bíða. 

Kirkjan getur því ekki talist fólkið á meðan að lýðræðið er ekki í hávegum haft. Í raun ætti fólkið í þjóðkirkjunni = kirkjan að fá að taka þátt í veigamiklum ákvörðunum.   Yfirstjórnin er svo sannarlega í búbblu ef hún hlustar ekki á þorra meðlima sinna, nú eða meirihluta  presta.

Bestakirkjan 

Ein facebookvinkona nefndi orðið Bestakirkjan,  en Bestakirkjan er í raun til  nú þegar og er kirkjan þar sem allar manneskjur eru jafnar og engin jafnari en önnur.  Hún er ekki til sem formleg stofnun, en má segja að þeir sem nái að hugsa svona sé ósjálfrátt meðlimir Bestukirkjunnar. 

Það sem er framkvæmt í kirkjum þarf líka að vera skiljanlegt, af hverju stöndum við upp og setjumst niður,  af hverju líður sumum eins og fíflum í kirkju og afhverju leiðist sumum í kirkju? 

Messan = pallatími? 

Ég hef stundum líkt messuforminu við pallatíma í Hreyfingu. Þar eru sumir ótrúlega klárir, en undirritaðri finnst hún svakalega vitlaus þar sem hún nær ekki að fylgja eftir.  Ekki vil ég taka ánægjuna frá þeim sem fyrir eru,  en pallatímarnir henta mér engan veginn og mér finnst þeir leiðinlegir.  Samt er ég enginn vitleysingur!

Mér finnst miklu betra að fara út að ganga, anda að mér fersku lofti og jafnvel ganga á fjall eða tvö þegar ég er komin í form.  Sumum hentar sund og enn öðrum hentar að hjóla.  Sumir geta allt og sumir nenna engu! 

Allskonar messur, allskonar fólk

Athafnir kirkjunnar þurfa að miða að því að fólk sé "allskonar" svo ég noti orð sem mikið er notað í aðgerðaáætlun Besta flokksins.  Alls konar fyrir alla,  eða "all kinds of everything" ;-) 

Það er vissulega farið að aukast að boðið er upp á tilbreytingu,  en samt sem áður er messuforminu oft klínt þar inn og farið er með rullur sem óskiljanlegar eru nema fólk hafi  alist upp í kirkjunni eða lært guðfræði.

Ég fór á aðventutónleika KK og Ellenar fyrir jólin,  og þar fann ég meira fyrir Guði en í mörgum  messum sem ég hef sótt.   Þar þurfti ég ekki að vera jarðtengd við hvað mér bæri að gera næst og hvenær ég ætti að sitja og standa og í stressi hvort ég mætti yfirhöfuð klappa þegar ég hefði þörf fyrir það.  Að sjálfsögðu hef ég upplifað góðar messur og farið glöð heim, en það er kannski bæði vegna þess að ég er "innræktuð" og kann á siðina, en þekki marga sem eiga ekki þessa reynslu. 

Bestakirkjan er nú þegar til.  Hún er ekki hús, hún er ekki með yfir eða undir neitt - Bestakirkjan er samfélag fólks sem lítur á náunga sinn sem sem jafningja á plánetunni Jörð.  Við erum öll velkomin því þar eru engir veggir,  en við getum að sjálfsögðu búið til okkar eigin veggi - það er okkar val,  það er því ekki Bestakirkjan sem útilokar okkur,  heldur við  Bestukirkjuna.  

 

 besta_kirkjan.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ótrúleg þessi áherzla þín á að umbylta afstöðu Þjóðkirkjunnar til vissra synda (sbr. Róm. 1.26n, I. Kor. 6.9nn, I. Tím. 1.9n) fremur en annarra, þ.e. í "kynhneigðarmálum". Þú segir í framhaldi: "Ég er nokkuð viss um að meirihluti þess fólks sem er í þjóðkirkjunni er samstiga í því að samþykkt verði ein hjónavígslulög," en ég spyr: Hvernig geturðu verið viss um það?! Ertu ekki miklu fremur viss um hitt, að mikill meirihluti virka fólksins, sem sækir þá kirkju, sé algerlega andvígt því, því að samþykkt verði, að fólk af sama kyni verði gefið saman frammi fyrir altarinu (þvert gegn orðum Jesú og Marteins Lúthers)? Ég var viðstaddur einn fjölsóttan safnaðarfund í einu prestakalli Þjóðkirkjunnar, og þar var yfirgnæfandi andstaða við málið. Og hvers vegna hafa niðurstöður safnaðarfunda um þessi mál ekki verið birtar?

Jón Valur Jensson, 31.5.2010 kl. 16:03

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þú segir það Jón!  Ef það er rétt hjá þér þá ER kirkjan raunverulega í "búbblu" eða fjarlæg þjóðinni og ber ekki nafn með rentu sem þjóðkirkja.

Það er þó varla hægt að dæma svona af einum safnaðarfundi, því að mjög líklegt er að einhver áhrifavaldur hafi lagt línurnar og fólk ekki annað en þorað að taka undir. 

Neikvæð niðurstaða í garð samkynhneigðra eru varla plögg sem spennandi er að birta.  

Annars er betra að einhver þjóðkirkjumanneskja svari því, ég er sjálf í Bestukirkjunni

Jóhanna Magnúsdóttir, 31.5.2010 kl. 17:47

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Áttu við Fríkirkjuna í Reykjavík? (Bestakirkjan?!?!!).

Þú segir: "Neikvæð niðurstaða í garð samkynhneigðra eru varla plögg sem spennandi er að birta. " – Þetta birtir býsna vel viðhorf endurskoðunarsinna í röð ungpresta: stingum bara upplýsingum undir stól, ef þær henta okkur ekki !

Svo bera orð þín þess augljóslega merki, að þú varst ekki á þessum safnaðarfundi og upplifðir ekki kröftugt og rökstutt tal leikmanna hvers eftir annan gegn hugmyndum ykkar róttæklinganna.

Jón Valur Jensson, 31.5.2010 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband