Notalegur andi norðan við Hvalfjarðargöng

Fyrir viku síðan, þegar ég var stödd í hringiðunni heima hjá Lottu systur,  hringdi sr. Kristinn prestur á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd í mig og bað mig að tala á aðventukvöldi í Innri-Hólmskirkju. Mín sagði já, en vissi svosem ekki mikið meira. Skrifaði hugvekju um lífsgönguna og ákvað að vinna út frá því, en Kristinn hafði sagt að mér væru frjálsar hendur og það líkaði mér vel, þar sem ég passa sjaldnast inn í hefðbundna ramma.

Ég gantaðist með það á Facebook, að einu gleðitíðindin sem ég myndi eflaust flytja væru þau helst að ég myndi finna kirkjuna, því aldrei hafði ég heyrt á þessa kirkju minnst fyrr né síðar.

Ég fékk þó ágæta leiðarlýsingu hjá prestinum. 

Í kvöld kl. 19:00 lögðum við Hulda systir svo upp í "langferð" nánar til tekið upp í Hvalfjörð. Ég með útprentaða hugvekju og vildum við vera vel í tíma. Ég er mjög náttblind en Hulda var svo elskuleg að lána mér gleraugun sín, svo á endanum römbuðum við á Kirkjuna, en þá var ég búin að keyra einu sinni fram hjá afleggjara.

Kirkjan er einstaklega fallega staðsett og fundum við sjávargoluna þegar við komum á kirkjuhlað, en þar voru líka útikerti og skreytt jólatré.  Boðið í smákökur og kaffi hjá Ragnheiði djákna, sem var víst að byrja í guðfræðideildinni þegar ég var að klára.

Við höfðum rætt það á leiðinni að við byggjumst max við 12 manns, en þarna var mun fleira fólk og það sem mér brá svolítið við, var að meirhlutinn var börn og unglingar. Ég gladdist því að börnin eru uppáhalds fólkið mitt, en brá því að hugvekjan mín var allt of þung fyrir börnin svo ég ákvað að "fleygja" henni og tala við þau á þeirra tungumáli og fá viðbrögð frá þeim, sem þau vissulega gáfu og tóku þátt.

Sagan sem ég lagði upp með var um brotinn engil, en það var stytta sem ég hafði keypt til að gefa mágkonu minni sem var að missa pabba sinn. Ég var alltaf "á leiðinni" til að fara til hennar með engilinn og geymdi hann í tölvutöskunni minni,  en af einhverjum orsökum tafðist ég við það, eða setti annað í forgang. Svo loksins þegar ég ætlaði að taka engilinn upp, þá var hann; .. ég spurði börnin hvort þau vissu .. og þau giskuðu á rétt; engillinn var brotinn.

Ég var heppin, því ég hafði keypt tvo engla, einn fyrir mig sjálfa. Ég ákvað þá að gefa henni minn engil. En sagan fjallaði að sjálfsögðu um það að við eigum ekki að bíða með að gefa. Ekki að bíða með að sýna vinarþel því ef við bíðum of lengi brotnar kannski engillinn í töskunni. 

Í kirkjunni var mikil og falleg tónlist, kórsöngur bæði fullorðinna og barna. Jólasaga sem Ingibjörg Pálmadóttir las og andinn góður. Uppáhaldið mitt voru þó fimm litlar dömur á fyrsta bekk, ca sjö ára gamlar,  sem voru í hvísluleik í upphafi athafnar. Allt í einu lítur ein hissa upp og segir stundarhátt "ha- smokkur"?  Mér leið eins og ég væri stödd í sænskri barnamynd, þetta var svooo krúttlegt. LoL 

Ég er glöð að ég fékk tækifæri til að vera með þessu prúðbúna fólki kvöldstund. Notalegur og afslappaður andi ríkti og ég fékk svona "itch" að hreinlega flytja upp í sveit, það er að vísu ekki í fyrsta skiptið.

Jæja það er komið miðnætti, vinna á morgun - ég var víst að senda nemendum mínum skilaboð um að fara snemma að sofa!

 "Early to bed, early to rise makes a man healthy and wise"..

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

lol - þekkir þú síðan sr. Grút, góðvin minn

Góð saga Jóhanna. Ekki bíða með að gefa. Góður punktur.

Kristinn Theódórsson, 14.12.2009 kl. 11:28

2 identicon

Ég hreinlega varð að kvitta við þessa bloggfærslu hjá þér en ég rakst á nafn "kirkjunnar minnar" á flakki mínu um mbl.is

Ég er semsagt móðir einnar dömunnar á fyrsta bekk í krikjunni og gærkvöldið var frábært og mér þótti yndislegt hvernig þú talaðir til barnanna, dóttir mín talaði einmitt um konuna og englasöguna áður en hún fékk "góða nótt kossinn" í gærkvöldi eftir messuna og hvað hún ætti sniðuga stelpu að halda að það væri tannkrem inn í súkkulaðinu :)

Ég er nú ekki hissa á að þú hafir fengið þetta "itch" að flytja upp í sveit, enda er þetta dásamlegasta sveit landsins! hahah :)

Takk fyrir frábæra kvöldstund.

Sigurbjörg Ottesen

Sigurbjörg Ottesen (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 11:36

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ljúft

Jónína Dúadóttir, 14.12.2009 kl. 14:01

4 identicon

ég fékk svona "itch" að hreinlega flytja upp í sveit, það er að vísu ekki í fyrsta skiptið.

gott hugboð :)

ég flutti frá borginni í "sveit" fyrir 25 árum síðan nú hefur borgin náð sveitinni og hugurinn leitar út í hinar friðsælu víðáttur.

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 14:51

5 identicon

Hva... letrið bara sprakk út.... hvað er að gerast :)

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 14:52

6 Smámynd: www.zordis.com

Hugljúf og yndisleg ... Sveitin hefur sínar ljúfu hliðar, ró og frið sem við getum jafnan fundið í eigin hjarta. Ég er smáborgarstelpa og elska rólegheitin.

Kærleikskveðja í daginn þinn.

www.zordis.com, 14.12.2009 kl. 15:32

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

þakka þér fyrir  innlitið Kristinn, ekki vissi ég að Kristinn væri kallaður Grútur, en alltaf er maður/kona að læra eitthvað nýtt.    Ég þekki Kristin reyndar aðeins vegna þess að hann gifti vinkonu mína fyrir nokkrum árum - en ég fékk að halda ræðuna í hjónavígslunni, en það þykir víst óhefðbundið. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:25

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Sigurbjörg, mikið þykir mér vænt um að þú skyldir kvitta og gott að dóttur þinni líkaði. Þakka innilega fyrir yndislega kvöldstund, við systir mín ræddum það á heimleiðinni í bílnum hvað við hefðum verið heppnar að lenda þarna með ykkur.

Skilaðu sérstaklega góðri kveðju til dótturinnar! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:26

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ljúfa Jónína

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:27

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Já, Ólafur - ætli við fáum ekki mörg stundum löngun til að flytja í ró og frið. Letrið sýnist mér bara normalt frá mínum bæjardyrum séð!

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:28

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kærleikskveðja til þín Zordis!

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:28

12 Smámynd: Ragnheiður

Yndisleg færsla enn og aftur og ég trúi vel að þú hafir náð til unga fólksins.

Ragnheiður , 14.12.2009 kl. 20:28

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ragga mín, ætli ég verði ekki bara á mjúku nótunum út aðventuna.

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband