Líf og starf á Sólheimum

Þann 4. nóvember sl. skrifaði ég undir ráðningarsamning minn sem forstöðumaður félagsþjónustu á Sólheimum í Grímsnesi.  Hóf störf þar um miðjan mánuð og var flutt á Sólheima, nánar til tekið í Upphæðir 17 (merkilegt götuheiti)  í lok nóvembermánaðar.  Þá flutti ég í fallegt parhús með grasþaki, og þar sem nágrannar voru - og eru - fyrsta flokks. Í hinum enda parhússins búa prestshjónin Erla og Birgir Thomsen, en Birgi hafði ég verið samferða í guðfræðináminu.  Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur og lífskúnsner býr svo í fallegu húsi í kallfæri, og síðast en ekki síst er í húsaþyrpingunni okkar hann Reynir Pétur Steinunnarson sem er landskunnur fyrir að hafa gengið hringveginn fyrir 30 árum síðan m.a. til styrktar Sólheimum.  Allt er þetta eðalfólk.

Heimilisfólk á Sólheimum eru yndislegir og fjölbreyttir karakterar,  og það er ævintýri í sjálfu sér að kynnast þeim hverjum og einum.  Ég hef alltaf haft áhuga á fólki sem er aðeins "öðruvísi" - en ég tel reyndar að við séum öll "öðruvísi" - en sumir eru bara skemmtilega meira öðruvísi en aðrir. 

10845792_10205738060104508_7146122895499684973_o

Sólheimar hafa starfað í 85 ár, að hugsa sér það! -  Sólheimar hafa náð að lifa þrátt fyrir andstöðu sem hefur blossað upp allt frá dögum Sesselju hér.  Áhyggjuefni þótti t.d. hvað hún gaf börnunum mikið grænmeti! -  Annað þótti ekki gott, og það var að blanda saman fötluðum og ófötluðum og var ætlast til að þeim væri haldið í sundur!

Sesselja hefur verið stórmerkileg og sterk kona að standa á móti straumnum,  með sinni sannfæringu og með sínum skjólstæðingum. 

Í dag er mikið rætt um mikilvægi þess að leggja niður öll sambýli og koma sem flestum í sjálfstæða búsetu.  Það eigum við sum, sem vinnum með fólki með fötlun ekki alltaf gott með að skilja.  Margir hafa einmitt óskir og drauma um hið gagnstæða.

Í dag eru á Sólheimum þó nokkrir einstaklingar í það sem er kallað sjálfstæð búseta, - en þeir einstaklingar fá leiðsögn og þjónustu stuðningsfulltrúa eftir þörfum hvers og eins. Á svæðið mætir líka sjúkraþjálfari, nuddari, klippari, fótaaðgerðafræðingur o.fl.

 

 

Eitt sambýli er á staðnum, Steinahlíð, þar sem sex einstaklingar eru með sín herbergi en nýta sameiginlegt rými, stofu, eldhús, sólskála og baðherbergi. Á sambýlinu er starfsmannaíbúð og býr þar alltaf einn stuðningsfulltrúi viku í senn, og skiptast tveir á um það. 

Bláskógar heitir svo húsið þar sem eldri borgarar Sólheima búa í mjög fallegu húsi, þar sem er vítt til veggja og sérútgangur út á lítinn pall úr herbergjunum. Í Bláskógum eru metnaðarfullir vakt/deildarstjórar sem halda utan um sitt hvora vikuvaktina sem gæta þess að öllum líði vel og fái topp þjónustu 

Tvö hús Sólheima hafa verið nefnd, Steinahlíð og Bláskógar, en elsta húsið á Sólheimum er Sólheimahúsið sem var byggt 1930 og flutti Sesselja þar inn í kjallarann 4. nóvember 1930 (en það vakti athygli mína að það var sama dag og ég skrifaði undir ráðningarsamning).  Nýrri hús eru svo sjálfbæra húsið sem heitir í höfuð Sesselju, eða Sesseljuhús þar sem eru ráðstefnusalir, bíósalir og kennslustofur svo eitthvað sé nefnt og á menningarveislu sumarsins er frábær sýning þar í gangi. 

Vigdísarhús er glæsilegt hús sem stendur á hæðinni - og þar er mjög vel tækjum búið eldhús og glæsilegt mötuneyti þar sem rúmast yfir 100 manns, enda oft fleiri en við starfsfólk og heimilisfólk í mat.  Alls konar Yoga - og námskeiðshópar, sjálfboðaliðar og gestir sem koma við. Boðið er upp á hádegismat alla virka daga, í mötuneytinu - og alltaf eru valkostir fyrir þau sem þurfa sérfæði eins og glútenlaust, laktósafrítt, grænmetisfæði o.s.fr. - Þannig að það er ekki flókið að borða hollt á Sólheimum.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

Ekki má gleyma fallegu kirkjunni okkar á Sólheimum, sem á nú 10 ára vígsluafmæli, en þar er altarastafla sem er unnin af Ólafi Má sem er verkstjóri á einni af vnnustofunum okkar og er sannkallað listaverk - unnið úr þæfðri ull. -  Messað er í kirkjunni aðra hvora helgi yfir vetrartímann og á laugardögum hafa þau prestshjónin haldið úti kirkjuskóla og sækja hann börn og fullorðnir víða að.   Til dæmis úr sumarhúsabyggð. 

 

Ég hef sjálf ekki upplifað annað eins félagslíf og eftir að ég flutti á Sólheima.  Alls konar uppákomur, þorrablót, jólahlaðborð, þrettándagleði, afmælisveislur, leikhúsferðir og auðvitað líflegt starf leikfélags Sólheima.   Í sumar er "stanslaust stuð" - tónleikar hverja helgi,  sýning vegna 30 ára afmælis göngunnar hans Reynis Péturs í Íþróttaleikhúsinu, sem ég var næstum búin að gleyma að nefna.  Í Ingustofu er sýning á verkum heimilsmanna - keramik, myndlist, vefnaðarist og fleira og allt er það framkvæmt undir metnaðarfullri handleiðslu frábærra verkstjóra okkar.   Í Ólasmiðju er svo kertagerð og smíðaverkstæði - og er þar ekki síður metnaðarfullt starf.  

Hér er í anda sjálfbærnistefnunnar,  heimaræktaðir ávextir og grænmeti í gróðrastöðinni Sunnu - og svo eru auðvitað sumarblómin ræktuð á svæðinu.   Það er erfitt að koma öllu að, og ég mun eflaust gleyma einhverju.

Í litla "þorpinu"  á Sólheimum er að sjálfsögðu rekin búð, verslunin Vala, sem selur ýmsa listmuni og auðvitað matvæli og það er lúxus að þurfa ekki að leita langt yfir skammt.  Þar eru brauð og kökur sem er bakað í Sólheimabakaríi sem er staðsett í kjallara Vigdísarhúss.  Þessi brauð og kökur fást víða í Reykjavíkinni og hafa löngum þótt hið mesta góðgæti.

Græna kannan heitir svo kaffihúsið á Sólheimum og þangað er farið allar helgar og hægt að fá gómsætar kökur og líka ósætar og glútenlausar kökur sem þykja afbragð.  Kaffið er að sjálfsögðu brennt og malað á staðnum,  en nýlega hófu Sólheimar að brenna kaffibaunir.  Jónas Hallgrímsson rekur bæði verslun og kaffihús og gerir það með sóma.

11713711_10206163119490727_4550562729557585939_o

Nú er ég búin að telja upp alls kona starfsemi tengda Sólheimum og innan Sólheima, en allt þetta starf er í raun byggt utan um kjarnann sem er heimilisfólkið á Sólheimum. -  Það er AÐAL.  Félagsstarfið sem ég hef verið að tala um er sótt af heimilisfólki, en að sjálfsögðu er boðið upp á fleira, - boccia hefur verið stundað í íþróttaleikhúsinu, - ég var búin að nefna leikfélagið þar sem er heldur betur flott og metnaðarfullt þar sem glæsilegar leiksýningar eru settar upp á hverju ári.  Hestaþerapía var í boði sl. vetur og voru þeir heimilismenn sem það þáðu einstaklega ánægðir og mun því vera framhaldið. Íbúar Sólheima taka þátt í ýmsu sem gerist utan okkar litla "Sólheims" að sjálfsögðu,  fulltrúar hafa tekið þátt í sýningunni List án landamæra og feiri sýningum og uppákomum bæði hérlendis og erlendis og síðan ég flutti hingað í nóvember, hafa verð farnar tvær hópferðir á elenda grund.  

Starfsfólk Sólheima leggur sitt af mörkum, og á Sólheimum erum við með okkar einkasundlaug, pælið í því :-)  og hefur þroskaþjálfi staðarins, Birna Birgisdóttir,  tekið upp á því í vetur og sumar að hafa æfingar í sundlauginni og skellir sér út í laugina með heimilisfólki.  Það þarf varla að taka fram heilunarmátt vatnsins og því er ekkert lítið mikilvægt að hægt sé að reka sundlaug hér í miðju hverfi.  Sumir hafa sýnt á sér nýjar hliðar í sundinu!

Það er af svo mörgu að taka, þessi pistill var ekki fyrirfram ákveðinn - ég hreinlega fann hjá mér þörf til að skrifa hann og segja frá Sólheimum.  Margir hafa komið á staðinn og talað um "magíska" upplifun,  kannski var það það sem Sesselja fann þegar hún valdi þennan stað.   Hér er svo bara "venjulegt" mannlíf með sorgum og sigrum, uppákomum og gleði - og einstaka stríði.  Sólheimar eru í raun eins og mikróheimur og ekkert er óviðkomandi hér sem er í hinni mannlegu tilveru hins stóra heims.   Við starfsólkið gerum okkar besta til að vera góðir leiðbeinendur og fyrirmyndir í þessu samfélagi okkar og við óskum þess að Sólheimar megi lifa og starfa um ókomin ár,  vera heimili og umgjörð fyrir okkur - bland í poka, fólk af öllum stæðrum og gerðum.  

Auk fastráðins starfsfólks, aðstoða ýmsar sérfræðingar og sú sem ég hef haft mest samskipti við er Svanhildur Svavarsdóttir,  einhverfusérfræðingur m.meiru,  sem velur það að koma hingað í sjálfboðastarf - bæði sem "starfsmaður á plani" - og veitandi ómetanlega ráðgjöf til okkar hinna.

Með endalausu þakklæti til Sesselju fyrir að hafa haft hugrekki og eldmóð að fara í gang með starf á Sólheimum og halda því lifandi í öll hennar ár og svo til þeirra sem hafa tekið við keflinu,  stjórnenda og stjórnar Sólheima á liðnum árum og að sjálfsögðu í dag.  Hér má ekki gleyma öllu starfsfólkinu, sem margt hvert hefur lagt líf og sál í starfið.  Og síðast en ekki síst - þakkir til heimilisfólks Sólheima, sem er eins og áður sagði kjarninn i starfinu, en kjarninn er líka hjartað og hjarta Sólheima er fólkið!

Eigum góðan dag og verum velkomin á afmælishátíð, það er sannarlega tilefni til að fagna.

10616721_1139289772754268_8524469189131774023_n 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sólheimar fagna 85 ára afmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þeir gátu ekki fundið betri manneskju en þig Jóhanna mín, til hamingju og Sólheimum óska ég til hamingju með nýja starfskraftinn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.7.2015 kl. 11:09

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér fyrir Ásthildur, - ég hef því mður ekki getað unnið á fullu "stími" - þar sem ég er búin að vera í veikindastússi, en nú er að rætast úr því :-) .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.7.2015 kl. 11:11

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já góða og fallega fólkið mun gefa þér næga orku til að koma full af heilbrigði til starfa. smile

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.7.2015 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband