21.9.2012 | 10:08
Minning - Dóróthea M. Björnsdóttir (Dódó) 11. 11. 1929 - 16. 9. 2012
Eftirfarandi er minningargrein eða minningarbrot um Dórótheu M. Björnsdóttur föðursystur mína, sem ávallt var kölluð Dódó, en Dódó fæddist á Borg á Mýrum 11. nóvember 1929 og lést á Landspítalanum 16. september 2012.
----
"Hún Gulla dóttir hennar Dódóar er í sjónvarpinu" ... sagði hún móðir mín, þegar ég kom til hennar í heimsókn á Droplaugarstaði sunnudaginn 16. september sl.
Mér brá aðeins við, vegna þess að í fyrsta lagi var Gulla auðvitað ekkert í sjónvarpinu og í öðru lagi var þetta í fyrsta skiptið í marga mánuði sem að mamma nefndi nafnið hennar Dódóar frænku og kærrar vinkonu móður minnar til margra ára.
Mamma er með heilabilun og það er á mörkunum að hún þekki mig, og ekki vissi hún þarna, þessi elska að Dódó, systir hans pabba hefði kvatt þennan heim aðfararnótt sunnudagsins.
Fljótlega eftir að ég mætti á Droplaugarstaði mættu systur mínar og þá fór mamma að spyrja þær hvort þær hefðu verið í jarðarför og þessi heimsókn fór voðalega mikið út í það að mamma var að spyrja um einhvera jarðarför. Já, það er margt óútskýranlegt í þessum heimi og það var eins og hún vissi eitthvað eða fyndi a.m.k. á sér. Við sögðum henni síðan frá því að Dódó væri dáin og fundum að það kom við hana, þó hún sé hætt að sýna mikil viðbrögð við sorg. E.t.v. veit mamma að það er stutt í þeirra endurfundi. -
----
Aldrei venst maður því að fá hringingu um að ættingi eða vinur hafi látist, - sem betur fer myndi ég segja. - Jafnvel þó að fólk sé búið á heilsu og "satt ævidaga" eins og það er oft orðað finnum við fyrir sorginni að missa og lífið eins og birtist í "slides" myndum, minningarnar koma fram og einhverri hurð er lokað, ég gat ekki haldið aftur af tárunum í símanum við hana systur mína.
Æ, maður verður eitthvað svo smár þegar dauðinn bankar upp á og enn stækkar skarðið í systkinahóp föður míns, en það var hann sem fór þó fyrstur, eða árið 1969.
- Hér má sjá systkinin ásamt afa og ömmu: f.v. Björn (1937-2008), Ingi R. B. (1932-2003), Magnús (1928-1969), Jóhann Emil (1935), Jón Kristinn (1931-2003), neðri röð f.v. Dóróthea Málfríður (1929-2012), Charlotta Kristjana (1905-1977), Oddur Borgar (1950), Björn (1904-1997), Ingibjörg (1940).
Þegar ég fór að hugsa hvað ég ætti að skrifa um Dódó, komu ýmis stikkorð í hugann
- súkkulaðikaka með sultu
- vel steikt lambalæri m/sultu
- Reykjavíkurvegur
- Kelduland
- Sumó
- dekur
- bros
- Bestó
- Dean Martin
- hlátur
- væminn ís
- hjartahlýja
- Flugfélag Íslands
- velvild
- umhyggja
Ég og Birna, yngri dóttir þeirra Dódóar og Birgis Ólafssonar, erum jafnöldrur og lékum mikið saman sem börn. Hulda systir og Gulla áttu samleið enda þær jafnöldrur.
Við gistum oft saman, stundum allar fjórar og var það m.a. fastur liður yfir jólin. Einnig fékk ég oft að gista ein hjá Birnu frænku og þá naut Dódó þess að dekra við okkur, færa okkur súkkulaðiköku og ískalda mjólk í rúmið.
Dódó var hláturmild eins og amma Charlotta, elskuleg og góð frænka. Ég man eftir því hvað henni þótti gaman að segja frá bernskuævintýrum þeirra systkina á Borg, pissukeppni sem fór fram af einhverjum hamri, held ég, sem hún fór í við bræður sína og hún gaf ekkert eftir ;-) .. svo hló hún mikið þegar hún sagði frá þessu.
Dódó varð nokkurs konar ættmóðir eftir fráfall Ömmu Charlottu og því er þetta svolítið eins og að missa ömmu í annað sinn. Það er tilfinning mín. Dódó tilheyrði einhvern veginn okkur öllum og börnin mín muna vel eftir henni líka og þótti skrítið að heyra að Dódó væri dáin.
Systkinin eru nú þrjú, eins og fram kemur hér að ofan, sem horfa á eftir systur sinni, þau Jóhann Emil, Ingibjörg og Oddur Borgar. Hugur minn er hjá þeim eins og hjá öllum hennar nánustu nánu. Hugsa til elsku Ingu frænku er að missa einkasystur sína og nýbúin að missa manninn sinn svo það er skammt stórra högga á milli hjá henni.
Dódó var elskuleg og trygg eiginkona manni sínum Birgi Ólafssyni, og dáðist ég oft að því hvað þau voru samstíga, höfðu gaman af því að ganga saman og ferðast hérlendis og erlendi og fóru aftur og aftur til Kanaríeyja og nutu þess vel á meðan heilsa leyfði.
Dódó var auðvitað æðsileg mamma, styrkur og góð fyrirmynd dætrunum og frænkum mínum Gullu og Birnu, sem kveðja nú móður sína. Dódó var líka elskuð amma og orðin langamma líka.
Það var bara ekkert hægt annað en að hrífast af Dódó og þykja vænt um hana. Útgeislunin var slík og karismi.
Það er svolítið vont að tala um Dódó í þátíð. - En svona er lífið, einir fara og aðrir koma og við verðum að taka því sem gerist af því æðruleysi sem okkur er unnt.
Ég verð að viðurkenna að ein "slides" myndin sem kom í hugann þegar ég heyrði af fráfalli Dódóar var að nú myndu þau sameinast systkinin og bestu vinirnir Dódó og pabbi, en ég veit þau voru afskaplega samrýnd systkini. Þessi mynd er falleg og sé ég þau fyrir mér skælbrosandi og glöð. -
Það er minningin sem ég vil halda í og treysta, að fjölskylda sameinist á ný, vinir og ættingjar - á einhvern hátt sem okkur hér á þessu sviði mannlífs er ómögulegt að skilja.
Það er huggun harmi gegn, og ég veit að við ættingjarnir og vinirnir höfum flest, ef ekki öll, þessa mynd í huga af Dódó glaðri og kátri.
Ég skrifaði ekki í Moggann í þetta sinn, læt rafræna formið duga, - þessi grein er skrifuð af einlægni um einlæga og bjarta konu, eiginkonu, systur, mágkonu, tengdamóður, móður, ömmu, langömmu, frænku og vinkonu.
Ég votta ykkur samúð mína elsku frænkur mínar Gulla og Birna, mökum og afkomendum ykkar, Birgi "frænda" votta ég innilega samúð, Jóa, Ingu, Borgari og fjölskyldum, ykkur öllum frændsystkinum mínum og öllum öðrum sem líf Dódóar snerti. -
Ég er viss um að Dódó hefur minnt sjálf á sig hjá henni móður minni á Droplaugarstöðum, - þær voru góðar vinkonur og veit ég að mamma þakkar Dódó fyrir öll árin þeirra saman og yndislegar minningar.
Sjálf þakka ég Dódó fyrir að vera mér þessi yndislega frænka, sem gaf mér glaðværð og umhyggju í veganesti.
TAKK fyrir allt og allt elsku Dódó.
Ég enda þessa minningaferð á því sem elsku pabbi skildi eftir hjá okkur systkinunum, bænunum sem hann kenndi okkur og fór með á hverju kvöldi:
Vertu Guð faðir faðir minn
í frelsarans Jesú nafni
hönd þín leiði mig út og inn
Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Guð geymi þig,
Góða nótt.