Til minningar um Dóru f. 30. 7. 1945 d. 10. 5. 2002

10. maí sl. voru liðin 10 ár frá því að Halldóra Borg Jónsdóttir kvaddi þennan heim.  Eftirfarandi grein skrifaði ég til minningar um hana, en Dóra var fyrsta manneskjan sem kom í huga minn í morgun, svo ég rifja þetta upp.  Smile

ghu5p87f.jpg

Um vorið 2002 hafði Kiddi sem var eiginmaður Dóru samband við þáverandi eiginmann minn í síma,  varðandi að hún fengi góða aðstöðu í flugi á leið út til Lúxemborgar,  en hún var þó orðin mjög slöpp.  Meðan þeir töluðust við í símann sá ég sýn:  10 hvítar rósir í krystalsvasa.  Ég veit ekkert hvaðan sú sýn kom, en það flaug í huga mér að þetta væri vísbending um dauðdagann,  en það voru hvítu rósirnar sem sögðu til um það. - 

Ég fór að pæla hvort það væru 10 vikur þangað til, en við vissum öll hvað stefndi.  Að morgni 10. maí  vissi ég hvað þessar 10 rósir þýddu,  og vissi að aðeins var tímaspursmál hvenær yrði hringt og við fengjum tilkynninguna.  Hún kom um kvöldið. -  

Þetta er aðeins eitt af mörgum, mörgum, og e.t.v. með þeim óskýrari sem ég hef fengið að vita, eða ég ég er tengd einhverju afli sem er mér æðra eða við erum ekki vön að hafi samband. - Ekki kann ég að útskýra það. -  Eftir andlátið fór ég að heimsækja fjölskyldu Dóru og þar voru rósirnar komnar. Hvítar í krystalsvasanum í horninu í stofunni. 

 

white-roses-in-a-crystal-vase-christine-chase-cooper.jpg

En minningagreinin sem ég skrifaði á sínum tíma er svona: 

"Mig langar að skrifa nokkur fátækleg orð til minningar um einstaka konu. Þessi einstaka kona er Halldóra Borg Jónsdóttir eða bara Dóra, eins við kölluðum hana flest. Við Dóra vorum ekki skyldar í eiginlegri merkingu þess orðs. En eins og ein úr fjölskyldunni komst svo skemmtilega að orði vorum við kannski dálítið "andlega" skyldar. Dóra var systir tengdapabba og því frænka mannsins míns og barnanna okkar.

Það eru svo margar skemmtilegar minningar sem tengjast Dóru: Heimsóknirnar á Nýbýlaveginn þegar Lilja og Eva Lind, dætur okkar, voru litlar; fertugsafmælið hennar þar sem við mættum í gömlu kjólunum; Lions-vor- og skíðaferðir; falsettusöngurinn í dansinum kringum jólatréð í nýársboðinu, danski afmælissöngurinn og Dóra sem "prímus mótor" í "hókí pókí", jarðarberjagarðinum og fleiri leikjum í hinni árlegu fjölskylduferð stórfjölskyldunnar; Dóra á stuttbuxum, fremst í flokki í gönguferð, þar sem við hin vorum kappklædd og dauðuppgefin. Margt fleira mætti til telja, listinn er langur og það er gott að eiga þessar skemmtilegu minningar.

Þegar við hugsum til þess hvernig Dóra lifði getum við ekki annað en dáðst að henni. Dáðst að hugrekki hennar og krafti. Hún lifði til hins ýtrasta. Hún tók áskorunum, ekkert fjall var of hátt til að klífa, engin á of köld til að vaða, enginn vegur of langur til að ganga. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu!

En á veginum reyndust ýmsar kaldar ár og há fjöll. Vegurinn eða lífsleiðin var þó ekki alltaf erfið. Oft var hún böðuð í sólskini og lyng og liljur spruttu upp með vegarköntunum. Þar var ein falleg "Lilja" sem studdi mömmu svo dyggilega síðustu sporin, ekki síður en traustur eiginmaður, systir og eldri börnin. Margir vinir og ættingjar komu þar við sögu. Öll gengum við með Dóru í hjarta okkar, og munum halda því áfram. Dóru var augljóslega umhugað að safna saman fjölskyldunni til að krækja saman höndum, hvort sem var að vaða í lygnu vatni eða stíga straumhörð stórfljót. Dóra gekk sinn veg allan og gerði það vel. En nú skilur leiðir. Vegur Dóru er ekki lengri í þessu lífi. Það er komið að vegamótum. Dóra fer eina leið, við aðra - og það er erfitt. Dóra okkar heldur inn á braut eilífa lífsins þar sem hún fær nýtt samferðafólk. Hún er lögð af stað í öðruvísi fjölskylduferð með Ragnheiði systur sinni, ömmu Guðrúnu og afa Jóni og öðrum þeim ættingjum og vinum sem á undan eru gengin. Þar verður örugglega nýtt "hókí pókí", nýr afmælissöngur og nýr jarðarberjagarður."

Blessuð sé minning Halldóru Borgar Jónsdóttur.

Jóhanna Magnúsdóttir

og fjölskylda."

 

Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband