13.12.2010 | 23:33
Það versta við atvinnuleysið - að hafa ekki samstarfsfólk!
Ég varð formlega atvinnulaus 1. september sl., svo nú er ég búin að vera atvinnuleitandi (eins og það kallast á fínna og meira uppbyggilegra máli) í liðlega þrjá mánuði og stefnir í fjóra. Ég sótti um slatta af störfum, komst í tvö viðtöl og fékk starfið í seinna viðtalinu. Fannst skrítið þegar ég var ekki kölluð í viðtöl - af því mér þykir ég svo frábær! En það er augljóst að það er fullt af frábærara fólki þarna úti, og ekki þarf ég að kvarta því ég er komin með mjög áhugavert verkefni.
Það sem ég lærði af atvinnuleysinu var að sjá hvað væri margt í boði fyrir atvinnuleitendur, alls konar námskeið og sjálfboðavinna. Ég held að það sé ekki nóg að það sé "í boði" það er betra að hafa smá "skyldu" í þessu - því að ég áttaði mig líka á ákveðnu framtaksleysi í atvinnuleysi, - hélt ég yrði upp um alla veggi að föndra hálsmen, í heimsóknum og á fyrirlestrum. Það byrjaði vel en svo nennti ég ekki meira, fór að vaka fram eftir og sofa fram eftir. Er svolítið í þeim pakka núna. Gat að vísu lagt svolítið til samfélagsins með að vera með hugvekju fyrir heimsóknarþjónustufólk Rauða krossins og Kvenfélag Garðabæjar. Það var gefandi að gefa af sér.
Ég var að vísu byrjuð að undirbúa sjálfstæðan rekstur, ráðgjöf og kennslu þar sem ég var ekkert viss um að einhver atvinnurekandi vildi mig! Ég held því áfram til hliðar, því ég er búin að byggja upp eldmóðinn og finnst það mjög spennandi.
Það sem ég saknaði og sakna líka - er svona kaffistofuhjal, jólahlaðborð og fleira sem er auðvitað ekkert þegar maður á ekki vinnustað!
Frétti af gamla vinnustaðnum - allir fóru "rosalega gaman" o.s.frv. - ég vorkenndi sjálfri mér svolítið þegar ég heyrði það. Átti svo ágætt föstudagskvöld - sl. föstudag þegar ég fór fyrst með Saumó á Scandinavian þar sem ég fjárfesti í tveimur humarhölum og hálfri kartöflu fyrir 2.290.- krónur. Eða um eitt þúsund krónur halinn! Ég drakk óáfengt svo reikningurinn var ekki svo svakalegur.
Þarna er ég með dýrmæta humarinn - hélt reyndar að diskurinn sæist betur á myndinni. Sylvía vinkona hallar sér að mér - gaman hjá okkur!
Eftir Saumó hitti ég hópinn minn úr Dale Carnegie námskeiðinu á Oliver þar sem ég ætlaði að smakka kjúklingastrimla og naan brauð. Fékk þó tvo skammta af naan brauði en engan kjúkling og afgreiðslustúlkan stóð föst á því að ég hefði pantað svona vitlaust. Hvað varð um "The customer is always right" ? .. Ég áttaði mig á því að í raun var ég ekkert svöng, þrátt fyrir ríkulegt át á tveimur humarhölum og hálfri kartöflu fyrr um kvöldið og borðaði bara smá brauð með tandoori sósu og áfram var ég í pilsner.
Var ég ekki að tala um atvinnuleysi? Gleymdi mér alveg. Auðvitað léttir mér að vera búin að fá vinnu; launin eru ekkert til að hrópa húrra fyrir - skara aðeins yfir atvinnuleysisbætur, en verkefnið er gefandi svo ég lít á það sem góða reynslu og skóla. Gott að komast í rútínu og hlakka til að eiga samstarfsfólk - það er eiginlega það sem ég sakna mest, þ.e.a.s. vinnufélagar.
Þannig er nú það!
Atvinnuleysi mælist 7,7% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er uppbyggilega grein um hvernig á að bregðast við atvinnuleysi. Jarðbundin, einlæg, skynsamleg. Flott blogg.
ábs (IP-tala skráð) 14.12.2010 kl. 00:52
Takk ábs ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2010 kl. 10:59
Alltaf jákvæð, til hamingju með nýju vinnuna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.12.2010 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.