Færsluflokkur: Spaugilegt
1.12.2011 | 22:51
Nóa rommið fjarlægt úr konfektkössunum og Nýja testamentið úr grunnskólunum .. allur er varinn góður!
Skv. frétt á Pressunni verður nú komið til móts við alkóhólista og rommflaskan fjarlægð úr jólakonfektinu. - Í athugun er að koma til móts við sykurfíkla og hafa kassana tóma .. Þessi rommflösku-aftöku- beiðni er skv. óáreiðanlegum heimildum runnin frá mannréttindaráði, því hinu sama og bannar fólki að fyrirgefa hvert öðru (skv. (langsóttum) (mis)skilningi sumra).
Nói var auðvitað fyrsti maðurinn til að misfara með alkóhól, svo að Nóa rommflaskan er því væntanlega beintenging við Gamla testamentið. -
Hún er lævís þessi trúarinnræting!
Smá - jóla - eitthvað hér í kaupbæti ;-)
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 17:37
BROS ...
"Wrinkles should merely indicate where smiles have been." ~Mark Twain
Bros er aðlaðandi
Bros breytir geðinu
Bros er smitandi
Bros brýtur niður áhyggjur
Bros styrkir ónæmiskerfið
Bros heldur burt flensu og kvefi
Bros lækkar blóðþrýstinginn
Bros losar um endorfín, náttúruleg verkjalyf og serótónin
Bros er besta dópið
Bros er ókeypis andlitslyfting
(safnað saman hér og þar af netinu)
Spaugilegt | Breytt 5.6.2011 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.5.2011 | 17:26
Ástarsamband ..
HANN
yljar mér um hendurnar þegar mér er kalt
vekur með mér tilhlökkun
röflar hvorki né kvartar
gerir engar kröfur
er sjóðheitur
örvar mig
ilmar
ÉG
fitla með fingrunum við hann
finn af honum ilminn
hræri upp í honum
nýt hans í botn
er háð honum
strýk honum
elska
Ég er auðvitað að tala um sambandið við:
K
A
F
F
I
B
O
L
L
A
N
N
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.5.2011 | 18:00
"Jesús er besti vinur banana" ..
Nei, það vantar ekki - r - í fyrirsögnina, litla fjögurra ára systurdóttir mín horfði "óvart" á sunnudagaskólaþátt heima hjá sér og hefur ekki stoppað að syngja um Jesú sem sé besti vinur banana. Hún náði þessu ekki alveg með "barnanna." En það er auðvitað bara sætt.
Þegar ég var barn (ekki banani - enda hef ég aldrei verið það) hélt ég að allir væru að synda í höfninni þegar ég endaði bænina kvöldbænina mína "allri synd ég hafni" ..
Þekktur er misskilingur um að setja ost í frysti sem er misheyrt: "Leið oss eigi í freistni" ..
Það er vor; - "Faðir vor"...
Einn pjakkur fór svo með allt Faðirvorið í kirkjunni ásamt söfnuði og presti, og þegar allir höfðu sagt Amen og þögn sló á kirkjugesti, heyrðist í stráksa "og farðu svo að sofa" .. en hann hélt það væri endirinn á bæninni.
Mörg börn hafa eflaust séð fyrir sér nautgripi, þegar var verið að tala um skuldunauta! Hvernig eru svona skuldunaut?
Það er ekki bara trúarlegur texti sem börnin mistúlka:
Ég held ég hafi áður sagt frá því á blogginu þegar sonur minn spurði mig hvernig það gætu verið tær á himninum. "Himininn heiður og tær" söng mamman.
Annar lítill pjakkur horfði upp í himininn á sínum tíma og spurði mig hvernig fólk færi að því að sjá Fílamanninn í regnboganum! ... en myndin Fílamaðurinn var einmitt sýnd i kvikmyndahúsinu Regnboganum.
Svona má lengi telja - en þetta er svona það sem ég man í fljótu bragði. Kannski kunnið þið sögur af álíka.
15.4.2011 | 07:26
Þið þarna veðurfræðingar hættið að tala sólina niður!... er ekki hægt að fá ÓRG í beina að skamma ykkur fyrir þetta?
"Él í dag nema Norðaustanlands" .. þetta er ekki í boði! ..
Jæja kæru landar, nú verðum við að leggjast öll á eitt og fara að tala upp sólina! (Þið ráðið hvort þið lesið þetta með rödd ÓRG eða ekki).
Konan sem á þessa síðu er komin með stóla á svalirnar og farin að gera klárt fyrir vini og vandamenn að koma í spjall og kaffi (nú eða hvítvín) svo þetta auma veður er ekki í boði. (Þarna braut ég eitt af eigin boðorðum og talaði illa um veðrið). Só bí it
Annars góðan dag og gleðilega helgi!
Legg til að við kyrjum þetta sem flest (veðurspámenn og aðrir spámenn líka) og gáum svo til veðurs:
Sól úti
Sól inni
Sól í hjarta
Sól í sinni
Sól bara sól
Él í dag nema Norðaustanlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.4.2011 | 05:55
Vantrúar- og kristinnar trúar, Já - og Nei trúar fólk sameinast í bænahring fyrir IceSave á Ingólfstorgi í hádeginu í dag
Lítill fugl hvíslaði því að mér að við ættum von á hópi fólks úr ólíkum áttum, pólitískt, ópólitísk, trúar og vantrúar, og að sjálfsögðu Já- og Nei sinnum til að mynda hring á Ingólfstorgi og biðja fyrir bestu mögulegu útkomu í IceSave málinu.
Þetta eru mjög áreiðanleg skilaboð sem hægt er að treysta, enda fuglahvísl ávallt óbrigðul og óskeikul (sem páfinn) fréttauppspretta sbr. smáfugla AMX.
Öll sverð munu slíðruð, múrar milli manna felldir og farið verður með möntruna:
"Allt sem við viljum er friður á jörð"
Ath! Yoko mun því miður ekki geta verið á svæðinu, en John hefur boðað komu sína (skv. Sigurði Haraldssyni, eldgosaspámiðli) og búið er að setja ljósaseríur á steinsúlurnar sem tákna öndvegissúlur Ingólfs og munu þær gegna hlutverki friðarsúlna í dag. Hjalti Rúnar, sérlegur áhugamaður um bænahald, mun leiða samkomuna.
You Save - I(ce)Save
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.8.2010 | 13:56
Bloggsaga - Grefillinn sjálfur
Lilla vinkona hringdi í gær og bað mig að rölta með sér upp á Esju, af því ég er svona manneskja sem set ekki upp hindranir heldur sé möguleika þá sagði ég sko "að sjálfsögðu" tökum Esjuna á klukkutíma eða "less". Við keyrðum á glænýja eldrauða Benzinum mínum (sem greiddur var "cash" á borðið - ekkert gengiseitthvað lán vesen, skil ekkert hvað fólk var að pæla!!) upp að Esjurótum, íklæddar 66° Norður frá toppi til táar. Ekki það ég sé neitt að auglýsa það! Ég var með dagpokann minn með mér, fullan heimatilbúnu orkumúslí sem ég hafði útbúið kvöldið áður. Lilla sá um drykkina, en hún hafði soðið niður sérvalin fjallagrös og kælt. Nammm.. ekkert er eins dásamlegt eins og fjallagrasateið hennar Lillu.
Þar sem við vorum báðar í toppformi skokkuðum við létt upp fjallshlíðina og tókum klettana með vinstri en skrifuðum í gestabókina með hægri. Það var allt morandi í liði þarna á Esjunni of ég er ekki frá því að ég hafi séð Önnu Kristjáns facebookvinkonu þarna álengdar við myndatökur.
Útsýnið var auðvitað alveg frábært, og ekki spilltu fyrir tveir hollenskir "hönkar" sem stóðu fyrir framan okkur. Ekki það að við Lilla séum að virða fyrir okkur aðra karlmenn en eiginmenn okkar!
Við ætluðum að sjálfsögðu ekki að eyða öllum deginum þarna á Esjutoppi svo við renndum okkur fótskriðu niður klettana og skokkuðum síðan niður í bíl.
Lilli hennar Lillu hringdi (hversu leim er að vera kölluð Lilli og Lilla?) og sagðist vera byrjaður að elda sjávarréttasúpu og bauð mér og mínum að koma. Ég lét þau aftur á móti vita að það stæði til að ég og minn ætluðum að eiga rómantískan kvöldverð saman, "just the two of us" yfir kampavíni, hvítlauksmarineruðum humar ásamt aioli en það er svona majones-og sýrð rjómablanda með hvítlauk og síðan nýbakað brauð. Arineldur yrði kveiktur með fjarstýringu. Við áttum nefnilega 25 ára "vera saman" afmæli í gær, við höldum algjörlega upp á allt. Það er leyndóið á bak við þetta einstaklega farsæla samband okkar Kalla ásamt því að fara ekki í kvöldgöngur heldur hreinlega valhoppa úti á kvöldin.
Jæja, ég skutlaði Lillu heim í Lindahverfið en sjálf keyrði ég heim til míns heittelskaða. Þegar ég kom inn barst á móti mér spákonuilmur eða eitthvað, haldið ekki að Karl hafi verið búinn að leigja nuddara fyrir okkur bæði, kveikja kertaljós og reykelsi og setja svona panpíputónlist á! Vááá... gvöðdómlegur þessi maður! .. Ég henti af mér 66°Norður gallanum, skellti mér í iskalda sturtu (svona til að kæla mig niður) og lagðist svo á annan nuddbekkinn sem nuddfólkið hafði sett svo faglega upp inni í bláu stofunni.
Bláa stofan hentaði auðvitað best, þar sem blátt er svo róandi. Við ákváðum (eða ég ákvað) að hafa svefniherbergið rautt - ask no more! ;-) Mæ ó Mæ, hvað þetta var æði, nuddararnir voru frá Kína eða Japan, eða hvað veit ég, en þeir töluðu íslensku svo það var ekki vesen.
Eftir hálftíma af panpíputónlíst (það er hægt að fá nóg af slíkri tónlist) kvöddu Víetnamarnir og við vorum loksins ein í húsinu, ég og Karl Volkenstein. Já Kalli er hálfþýskur, það gerir hann svo dularfullan. Við fórum bæði í léttan klæðnað frá Sævari Karli og Kalli sem hafði gert allt klárt fyrir humarveislu - tók til óspilltra málanna að reiða fram veitingar - Pop - kampavínstappinn flaug yfir hálfa borðstofuna, og svo hellti hann í glösin. Það er best að vara við því að kampavín gerir mig býsna hmm... hvernig er best að segja það á bloggi, æ, nei best að segja það ekkert ..
En nú var allt til reiðu. Humarinn á fallega fatinu frá Rosenthal, hluti af stellinu sem ég fékk í brúðargjöf þegar við Kalli fórum með heitin okkar í annað skiptið fyrir æðsta presti í Vantrúarsöfnuðinum. Ákváðum að gera ekki upp á milli safnaða.
Þetta var fullkomnað, ég sleikti smjörið af humrinum og svo kyssti ég Kalla freyðandi kampavínskossi. Það var ekki laust við að myndin af "hönkunum" á Esjutindi birtist í svipan, en ég eyddi því jafnóðum - vildi ekki stunda andlegt framhjáhald! .. Karl var meira en nóg fyrir mig. Stór, sterkur - karlmenni fram í fingurgóma og samt svo blíður og næmur, sérstaklega í fingrunum. Mikið er ég heppin kona, svona svipað og Jónína með sinn Gunnar í Krossinum. Eða ég er eiginlega heppnari en Jónína þar sem ég er ekki með neinn Svan lækni á eftir mér eins og greyið Jónína.
Við Kalli sporðrenndum örugglega kílói af humarhölum þarna, en ég hafði reiknað út að það mátti ég alveg - þar sem kaloríurnar komu út á sléttu miðað við Esjugöngu. Önnur kampavín var komin í umferð og það þýddi aðeins eitt; rauða herbergið með uppábúnu himnasænginni varð meira og meira freistandi- en ekkert panpípuvæl í svefniherberginu takk, þar er það aðeins Josh Grobain sem fær að syngja á meðan leikið er - Karl vippaði mér upp úr stólnum Thank god fyrir spengilegan fiðurléttan líkamann hugsaði ég bara.. hlakkaði svo til að setja einhvern djúsí status á Facebook á morgun til að gera vinkonurnar grænar af öfund .. ding, dong, .. ding, dong HVAÐ!!.. dyrabjallan klukkan ellefu að kvöldi.
Við vorum of forvitin til að láta þetta fram hjá okkur fara. Fyrir utan stóð asni, já asni!! Grefillinn sjálfur! Hann sagðist vera í krossferð gegn Kristni (já með stórum K-i) og vildi að við Karl skrifuðum einverri Soffíu frænku bréf á ritstórn Mbl.is um að hann fengi bloggið sitt opnað aftur - er ekki allt í lagi með sumt fólk/asna?
Nú er spurning hvort að ég eigi eitthvað að vera að segja frá framhaldinu, en lesendur geta velt eftirfarandi spurningum fyrir sér;
1) Náði Grefillinn að stöðva rómantíkina?
2) Hvað gerðist í rauða herberginu eftir að Grefillinn var farinn?
3) Ná Grefill og Kristinn sáttum (kannski í rauða herberginu) og eru þá erjur þeirra dulbúin ást?
4) Munu þeir láta gefa sig saman (enda ný hjúskaparlög í gildi) og verður Theódór faðir Kristins sáttur við ráðahaginn?
Spaugilegt | Breytt 4.8.2010 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.6.2010 | 07:19
Innkallaður af prúðuleikurunum?
Gárungarnir segja að Jón Bjarnason hafi verið innkallaður af prúðuleikurunum, en það er augljóslega ekki rétt þar sem hann er í fullu fjöri ennþá sem sjávarútvegsráðherra!
Ekki lengur eftir neinu að bíða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2009 | 21:43
Tannkrem og súkkulaðidagatal
Þegar Eva Lind dóttir mín var lítil stelpa, kannski svona sex til sjö ára tókum við okkur frí frá tvíburunum sem voru fimm árum yngri en hún, og fórum mæðgurnar í jólainnkaup í Miklagarð sem þá var og hét.
Eva hafði fengið að gjöf frá afa sínum súkkulaðidagatal. Þar sem tannlæknafélagið hafði gert athugasemd við að börnin væru að borða súkkulaði á hverjum degi 24 daga fram að jólum hafði Lionsmönnum, þeim er seldu dagatölin, dottið það snjallræði i hug að líma eitt stykki tannkremstúpu á hvert dagatal. Evu fannst ekki minna til þessarar fínu tannkremstúpu koma en sjálfs dagatalsins og allra súkkulaðimolanna. Ég hafði síðan útskýrt fyrir henni mikilvægi þess að bursta tennur eftir súkkulaðiát og því væri gott að fá tannkrem með súkkulaðidagatalinu.
Jæja, þar sem við vorum búnar að versla heilan helling í Miklagarði, settumst við niður til að fá okkur hressingu, ég kaffi en hún svala og Staur (en slíkt gúmmelaði er líklegast ekki fáanlegt lengur). Eva beit í Staurinn, sagði svo með undrunarsvip og svo hátt þannig að allir nærstaddir heyrðu til "Mamma - það er tannkrem inni í súkkulaðinu mínu"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)