Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Fagna ber hverju nýju skrefi sem heimsbyggðin tekur í átt til mannréttinda

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, sagði á Alþingi 18. nóvember sl. að innan ráðuneytis hennar væri unnið að setningu einna laga sem gilda eiga um hjúskap, jafnt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Hún sagði samrýmingu löggjafar brýna réttarbót sem stefnt sé að fullum fetum.

Ragna sagði að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kæmi fram að stefna beri að setningu einna hjúskaparlaga. Unnið sé að því í ráðuneytinu en að mörgu þurfi að huga og engu hægt að slá föstu hvað varðar dagsetningar.
Tekið af síðu samtaka 78  sjá hér
Set hér inn myndband af laginu, "Betra líf" sem Páll Óskar flutti á Kærleikskonsert Mozaik kirkjunnar í gærkvöldi við mikinn fögnuð viðstaddra.

mbl.is Samkynhneigðir mega giftast í Mexíkóborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notalegur andi norðan við Hvalfjarðargöng

Fyrir viku síðan, þegar ég var stödd í hringiðunni heima hjá Lottu systur,  hringdi sr. Kristinn prestur á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd í mig og bað mig að tala á aðventukvöldi í Innri-Hólmskirkju. Mín sagði já, en vissi svosem ekki mikið meira. Skrifaði hugvekju um lífsgönguna og ákvað að vinna út frá því, en Kristinn hafði sagt að mér væru frjálsar hendur og það líkaði mér vel, þar sem ég passa sjaldnast inn í hefðbundna ramma.

Ég gantaðist með það á Facebook, að einu gleðitíðindin sem ég myndi eflaust flytja væru þau helst að ég myndi finna kirkjuna, því aldrei hafði ég heyrt á þessa kirkju minnst fyrr né síðar.

Ég fékk þó ágæta leiðarlýsingu hjá prestinum. 

Í kvöld kl. 19:00 lögðum við Hulda systir svo upp í "langferð" nánar til tekið upp í Hvalfjörð. Ég með útprentaða hugvekju og vildum við vera vel í tíma. Ég er mjög náttblind en Hulda var svo elskuleg að lána mér gleraugun sín, svo á endanum römbuðum við á Kirkjuna, en þá var ég búin að keyra einu sinni fram hjá afleggjara.

Kirkjan er einstaklega fallega staðsett og fundum við sjávargoluna þegar við komum á kirkjuhlað, en þar voru líka útikerti og skreytt jólatré.  Boðið í smákökur og kaffi hjá Ragnheiði djákna, sem var víst að byrja í guðfræðideildinni þegar ég var að klára.

Við höfðum rætt það á leiðinni að við byggjumst max við 12 manns, en þarna var mun fleira fólk og það sem mér brá svolítið við, var að meirhlutinn var börn og unglingar. Ég gladdist því að börnin eru uppáhalds fólkið mitt, en brá því að hugvekjan mín var allt of þung fyrir börnin svo ég ákvað að "fleygja" henni og tala við þau á þeirra tungumáli og fá viðbrögð frá þeim, sem þau vissulega gáfu og tóku þátt.

Sagan sem ég lagði upp með var um brotinn engil, en það var stytta sem ég hafði keypt til að gefa mágkonu minni sem var að missa pabba sinn. Ég var alltaf "á leiðinni" til að fara til hennar með engilinn og geymdi hann í tölvutöskunni minni,  en af einhverjum orsökum tafðist ég við það, eða setti annað í forgang. Svo loksins þegar ég ætlaði að taka engilinn upp, þá var hann; .. ég spurði börnin hvort þau vissu .. og þau giskuðu á rétt; engillinn var brotinn.

Ég var heppin, því ég hafði keypt tvo engla, einn fyrir mig sjálfa. Ég ákvað þá að gefa henni minn engil. En sagan fjallaði að sjálfsögðu um það að við eigum ekki að bíða með að gefa. Ekki að bíða með að sýna vinarþel því ef við bíðum of lengi brotnar kannski engillinn í töskunni. 

Í kirkjunni var mikil og falleg tónlist, kórsöngur bæði fullorðinna og barna. Jólasaga sem Ingibjörg Pálmadóttir las og andinn góður. Uppáhaldið mitt voru þó fimm litlar dömur á fyrsta bekk, ca sjö ára gamlar,  sem voru í hvísluleik í upphafi athafnar. Allt í einu lítur ein hissa upp og segir stundarhátt "ha- smokkur"?  Mér leið eins og ég væri stödd í sænskri barnamynd, þetta var svooo krúttlegt. LoL 

Ég er glöð að ég fékk tækifæri til að vera með þessu prúðbúna fólki kvöldstund. Notalegur og afslappaður andi ríkti og ég fékk svona "itch" að hreinlega flytja upp í sveit, það er að vísu ekki í fyrsta skiptið.

Jæja það er komið miðnætti, vinna á morgun - ég var víst að senda nemendum mínum skilaboð um að fara snemma að sofa!

 "Early to bed, early to rise makes a man healthy and wise"..

 


Ég hef miðlað háði, rógi, smánun, ógnun ...

Í skilmálum blog.is stendur eftirfarandi - og ég var minnt á það í gær af Árna Matthíassyni:

 

"Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940."

 

Þar sem ég hef rætt mikið um bæði þessi  tvö skáletruðu atriði og reynt með því  að velta upp steinum og berjast gegn fordómum, sérstaklega fordómum af trúarlegum toga, hafa birst hjá mér ótal athugasemdir. Lang flestar þeirra hafa verið hófsamar, málefnalegar og ígrundaðar og er ég þakklát fyrir þær. En  margar þeirra hafa verið svæsnar beinst gegn trúfólki/trúarbrögðum annars vegar og gegn kynhneigð  hins vegar,  ómaklegar, dónalegar, leiðinlegar o.s.frv.  

 

Ég vil sérstaklega taka það fram að þarna er ekki verið að tala um andstæða póla, trú vs kynhneigð,  því að vissulega eru allir undir trúar eða trúleysisregnhlíf, án tillits til kynhneigðar.

 

Ég hef látið athugasemdirnar standa, hingað til, og telja má á fingrum annarrar handar þau ummæli sem ég hef fjarlægt,  því mér finnst athugasemdir mismunandi fólks sýna hvar umræðan stendur í raun og veru. Ég er nú hugsi hvernig ég ætla að haga þessu í framtíðinni, og bið aðra að staldra við einnig.

 

Nú er það þannig komið skv. lögmanni mbl.is að tilvitnanir í Biblíuna eru særandi efni* sem brjóta gegn hegningarlögum. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að huga að?

 

Eru ekki of margar viðkvæmar sálir, óupplýstar eða illgjarnar sem valda ekki Biblíunni? 

 

Er Biblían verkfæri  manna eða eru menn verkfæri Biblíunnar? 

 

ÁST OG FRIÐUR 

 

p.s. að gefnu tilefni bið ég fólk að vera hófsamt í orðræðu sinni.

 

* ATH. verð að bæta því við hér,  eftir nánari rýni -  að eflaust er það hvernig tilvitnanirnar eru notaðar í  samhengi við annan texta,  en ekki þær einar sér sem eru í bága við hegningarlög, eða hvað veit ég?

 

En spurningin stendur samt áfram hvort að menn valdi ekki Biblíunni á meðan þeir nota ummæli þaðan til að undirstrika andúð sína á kynhneigð náunga síns? 

 


Friðarguðspjall Essena

Hann Ólafur í Hvarfi benti mér á þetta guðspjall, Friðarguðspjall Essena,  sem hefur ekki farið hátt.

Mér fannst svo gaman/merkilegt hvað þessi hugmyndafræði passaði við það sem ég hef haft á tilfinningunni og talað um. Nýlega sagði ég frá því á bloggi Kristins Theódórssonar að ég hefði upplifað Guð í vindinum í Vesturbænum, reyndar að mér fyndist það að trúa á Guð vera svolítið eins og að trúa á sjálfan sig en með hjálp og vináttu Guðs.

Ég leyfði mér að þýða smá bút úr Friðarguðspjalli Essena (svo þetta er lausleg þýðing):

"Og Jesús svaraði: "Leitið eigi lögmálsins í ritningum yðar, því að lögmálið er lífið, en ritningin er dauður hlutur. Sannlega segi ég yður, Móses fékk ekki lögmál sitt skriflega frá Guði, heldur í gegnum hið lifandi orð. Lögmálið er hið lifandi orð Guðs til lifandi spámanna fyrir lifandi menn. Í allt líf er lögmálið ritað. Þú finnur það í grasinu, í trjánum, í ánni, í fjallinu, í fuglum himins, í fiskum sjávarins; en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum. Því sannanlega segi ég yður, að allir lifandi hlutir eru nær Guði en ritningin sem er líflaus.

 Guð gerði lífið þannig og alla lifandi hluti, að þeir mættu með eilífu orði kenna manninum hið sanna orð hins sanna Guðs. Guð skrifaði ekki lögin á blaðsíður bóka, heldur í hjörtu yðar og anda yðar. Þau eru í andardrætti þínum, blóði þínu, beinum þínum; í holdi þínu, maga, augum þínum, eyrum þínum og í hverju smáatriði líkama þíns.

En þú lokar augum þínum, svo þú sjáir ekki, og þú lokar eyrum þínum svo þú heyrir ekki. Sannlega segi ég yður, að ritningarnar eru mannanna verk, en lífið og allir gestgjafar þess eru sköpun Guðs okkar.  Hvers vegna hlustar þú ekki á orð Guðs sem eru skrifuð í sköpun hans? Og hvers vegna tileinkar þú þér ritningarnar sem eru handverk manna?"

Mig langaði bara að deila þessu með áhugafólki um lífið og tilveruna, trúmál sem ekki trúmál - þeirra sem vilja lesa ..  Það má segja svo margt meira, en ef að bloggin eru of löng nenna fæstir að lesa, svo meira síðar.


Að byggja á sandi ..

Í þessum pistli langar mig að tala til trúaðra um á hverju trú þeirra byggist. Nú tala ég bara út frá mínum bakgrunni, uppeldi, þekkingu, lífsreynslu, menntun og vissulega trú. Þegar ég skrifa, leyfi ég mér að láta flæða, og er ekki að vitna beint í aðra eða  að taka upp nákvæmlega orðrétt úr Biblíunni, en vissulega liggur það allt að baki. Það er svipað og ég les slatta af uppskriftabókum til að fá innblástur til að elda, en elda síðan bara "upp úr mér" .. Man eflaust sumt úr uppskriftunum, en bæti svo í það sem minn smekkur og bragðlaukar leyfa.

Ég hef nú um nokkurt skeið átt viðræður bæði við trúlausa sem trúaða. Trúlausir eru ekki eins flóknir, þ.e.a.s. þeir skiptast aðallega í þá sem eru algjörlega trúlausir á alla yfirnáttúru, eins og Vantrúarmenn, eða þá sem hafa ekki átrúnað t.d. á guð eða goð, en trúa þó á yfirnáttúrulega hluti.

Trúfólk er mun flóknara fyrirbæri og flóran djúp og breið.

Alveg eins og ég veit að ég er gagnkynhneigð kona (því ég hneigist til karlmanna) er ég hneigð til trúar. Ég ætla ekki að fara í það að skilgreina mína trú í smáatriðum, ekki frekar en ég myndi skilgreina mitt kynlíf. Sumt verður að fá að vera prívat. Wink  Það er þó ekkert felumál að ég er kynvera og ég er trúvera og skammast mín fyrir hvorugt.

Nú hef ég oft lesið pistla eftir trúfólk og kynnst trúfólki sem er afskaplega háð Biblíunni. Vitnar í texta sí og æ máli sínu til stuðnings. Biblían er bók, er rit sem var skrifað af mönnum sem eru löngu, löngu dauðir. Orðin þar eru dauð - nema að einhver lifandi lesi þau og noti þau.

Fyrir kristið fólk er Jesús lifandi, lifandi orð Guðs. Orðið sem varð hold, reynt var að deyða þetta orð en Orðið reis upp og lifir enn, merkilegt nokk. Þessu lifandi orði kynntist ég sem barn, í sunnudagaskóla, í bæn á mínu heimili og í fólkinu í kringum mig. Auðvitað í bókum eins og Perlur og í Biblíusögum í barnaskóla. Aldrei sá ég neitt ljótt í kringum þetta Orð. Kynntist því jafnframt í söng og leik.

Einn söngurinn fjallaði um heimska manninn sem byggði á sandi og síðan var þar annar hygginn  sem byggði á bjargi.

Ekki geta allir byggt a orði Guðs eða vilja, þar sem þeir hafa kannski aldrei heyrt það eða eru ekki aldir upp við það. Það er því ekki hægt að segja að þeir byggi á sandi.

Heimsmynd sem byggir á elsku er byggð á kletti. Hvaðan sem þessi elska kemur.

Mín upplifun er sú að í sumum tilfellum sé Biblíunni haldið of þétt upp að  augum  að  hún hleypi ekki ljósi  elskunnar í gegnum sínar þykku síður.  Biblíunni er haldið fast því að fólkið þorir ekki að sleppa því það treystir ekki að Guð muni grípa það.  Það er hrætt við að heimsmyndin hrynji ef að allt sem stendur í Biblíunni er ekki satt og rétt og hið eina.  Hrætt við að viðurkenna mótsagnir og þversagnir bókarinnar jafnvel þó þær séu augljósar.  Fíllinn er klæddur í músasunbol, bara vegna þess að það stendur í bókinni að fíllinn eigi að passa í músastærðina.

Hver og hvað er þá  kletturinn?   Kletturinn er sjálfstraustið.  Að trúa á sjálfan sig vegna þess m.a. að við erum sköpuð í mynd Guðs og framlenging af Guði.  Áðurnefnd elska kemur þarna sterk inn, því að til að treysta á okkur sjálf þurfum við að elska okkur sjálf.

Hús er mjög þekkt tákn fyrir manneskjuna.  Þú byggir þig á sjálfinu. Að trúa ekki á sjálfan sig, elska sig og treysta ekki sjálfum sér er því heimska, því hvernig eiga aðrir að trúa eða treysta á þann sem ekki trúir á sjálfan sig.

Að hafa trú á sjálfum sér eru hyggindin.

Við erum öll eins og Pétur - klettur, við byggjum á sjálfum okkur, sum þiggja Guðs hjálp, önnur ekki. 

Kjarninn í kristnum siðferðisboðskap er að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig og okkur er sagt að láta ljós okkar skína.  Ekki fela það, - ekki fara í "I´m not worthy" gírinn.  Allir eru verðugir að skína og eiga að skína.  Skína inn á við og út á við. Ekki veitir af ljósinu á þessum dimmu dögum desembermánaðar.

Því miður verð ég svo oft sorglega vör við þá staðreynd að kynbundið ofbeldi er tengt því að menn blási lífi í þau biblíuvers sem segja að karlinn sé æðri og nær Guði en konan, svo ekki sé minnst á þann texta sem er notaður til að undirstrika  gagnkynhneigðarhyggjuna - þar sem hinn gagnkynhneigði telur sig æðri hinum samkynhneigða. 

Að telja sig æðri öðrum manneskjum er ekki að elska náungann EINS OG sjálfan sig, það er að elska sjálfan sig MEIRA en náungann.

Kristið fólk getur því ekki leyft sér að telja sig merkilegra en hinn trúlausa.

Ég nenni ekki að ritskoða það sem ég hef skrifað hér að ofan,  það er kannski eitt sem orkar tvímælis - það er þegar ég segi að það sé heimska að trúa ekki á sjálfan sig, þá gæti einhver sagt að sumir trúi ekki á sjálfa sig vegna þess að utanaðkomandi er búinn að beita þá ofbeldi og brjóta þá niður. 

Hver þekkir ekki frásagnir af konum sem fara til manna sinna aftur og ítrekað eftir að búið er að lúberja þær. Sorry - það er heimska.  Við hjálpum þessum konum ekkert með að segja þeim eitthvað annað - eins og það séu hyggindi eða ást að leita til húsbónda sem barinn hundur.

Konur þurfa að fara að taka ábyrgð á sjálfum sér og hætta að kenna körlum um allt sem miður fer. Það kemur með sjálfstrausti og sjálfsvirðingu og með þannig byggja þær á kletti en ekki sandi.

Jæja elskulega fólk, ég vona að þið takið viljann fyrir verkið og að þið skiljið eitthvað í þessum ítarlegu hugleiðingum.  


Einelti og mannréttindabrot í skjóli Biblíutexta og fáfræði

Ég hef í raun ekki tíma til að skrifa blogg núna, en rennur blóðið til skyldunnar vegna þess að nú hefur komið upp mál sem mig langar að nota til að lýsa upp hvernig biblíutextar eru notaðir sem skálkaskjól fyrir einelti og dómhörku.

Kveikjan að þessari bloggfærslu minni er þetta blogg hérna.

Mín athugasemd við blogg og athugasemdir var þessi:

Rósa tjáir sig og segir: "Heldur þú Sigvarður minn ef ég væri í innstu víglínu og ég væri uppvís af þjófnaði að ég myndi ekki vera beðin um að víkja úr þjónustunni."  - ef ég skil hana rétt þá er hún að segja samkynhneigð sambærilega þjófnaði ???

Sigvarður skrifar: "En ef Friðrik Ómar er tilbúin að sleppa því að vera sofa hjá öðrum karlmönnum að þá fyndist mér að hann mætti fá að syngja í kórnum."   -   Döh...ætli aðrir meðlimir kórsins megi sofa hjá sínum heittelskuðu?  Woundering 

Síðan skrifar Þórólfur um vin samkynhneigðan vin sinn: "Ég er ekki haldinn fordómum en þessi vinur minn tók eigið líf vegna þess að honum var um megn að horfast í augu við sjálvann sig eða aðra vegna kynhneigðar sinnar."  ..

Ég segi nú við þetta annars ágæta fólk sem segist trúa á Jesú Krist:  "haldið þið að þetta sé leiðin sem Jesús vill að þið farið? Að þið dæmið aðra eftir því hvort þeir sofa hjá fólki af sama kyni, fólki sem það elskar. Dæmið fólk vegna kynhneigðar sinnar, sem er þeim meðfædd? "

Hversu marga fleiri viljið þið með fordómum ykkar reka út í sjálfsvíg?  Það þarf ENGINN að skammast sín fyrir að vera samkynhneigður og enginn að skammast sín fyrir að vera gagnkynhneigður.

Vinur Þórólfs væri eflaust á lífi í dag, ef að þjóðfélagið væri orðið það þroskað og meðvitað að það samþykkti samkynhneigð á sama hátt og gagnkynhneigð.

Lokið nú Biblíunni,  hugsið inn í hjörtu ykkar og leyfið heilögum anda að hvísla að ykkur hvernig best er að taka á móti náunga okkar og umvefja hann elsku. Hvað skyldi nú Guði  í raun vera þóknanlegt.

Ef ykkar Guð er hefnandi illur Guð þá er skiljanlegt að þið viljið útiloka - en ef þið þekkið Guð kærleikans þá held ég að þið hljótið að fá þau svör að allir séu jafn velkomnir að syngja í kór og það sé ekki ykkar að útiloka eða leggja hreinlega í einelti, en þetta er ekkert annað.

Nú stendur yfir átak Heimilis og skóla gegn einelti, hvað skyldu samtökin Heimili og skóli segja ef að nemandi fengi ekki að syngja í kór í skólanum ef hann væri samkynhneigður?

Þarna er um að ræða Hvítasunnusöfnuð, með sínar boðanir og kenningar, ef ein af þeim er að banna kynlíf fólks af sama kyni ættu þeir að auglýsa það opinberlega og svo finnst mér bara orðin spurning hvers vegna að svona stofnanir - hvort sem um þjóðkirkju eða aðrar er að ræða, hafi leyfi til að brjóta mannréttindi í skjóli laga sinna sem brjóta berlega í bága við landslög.  

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er svohljóðandi: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."

Að lokum:

Ef fólk höndlar ekki Biblíuna betur en þetta; að nota hana sem vopn gegn náunga sínum, er betra að hún sé læst ofan í skúffu.


Andi ...

 Hefur þú hugleitt hvernig andi verður til? Getur verið að við sköpum sjálf andann?  Og af hverju ekki, þegar við erum sköpuð í mynd Guðs og erum því nokkurs konar framlenging af Guði? Manneskjan er eins og lítil veröld- á meðan Guð er hin stóra, alltumvefjandi.

Við erum litlir Jónar og litlar Gunnur sem sköpum, þegar andinn kemur yfir okkur.  Við tölum um anda á heimilinu, anda á vinnustað o.fl. og svo skapast líka einhvers konar andi á milli fólks, eða er það e.t.v. bara efnafræði?  Ég hef "kynnst" mörgu fólki í gegnum skrif þess á blogginu, og frá sumum finnst mér stafa kaldur andi og öðrum hlýr - en auðvitað mjög hlustlaust frá mörgum. Hvernig er þetta hægt?

Þarf marga til að skapa góðan anda eða dugar að einn sé "í stuði" og geti smitað þessum anda?  Ég þekki svona fólk sem hreinlega skín af góðum anda. Smile  En svo þekki ég líka fólk sem er þannig að þegar það kemur inn í herbergi þá er eins og óveðursský, með fýlusvip meira að segja, hangi yfir hausnum á því.

Við eigum öll okkar daga, suma dásamlega daga þar sem við skínum eins og sól í heiði en suma þar sem við erum með hausinn grafinn inni í óveðursskýinu. Kannski getum við stjórnað því svolítið. Sumir segja að við séum það sem við hugsum og það held ég að sé rétt, ég held það að minnsta kosti þar til og ef ég held eitthvað annað.

Og svo veljum við bara það sem við viljum sjá.

Hálffullt eða hálftómt glas. Fólk horfir líka á veröldina eftir í hvernig ástandi það er. Sá sem er fúll eða niðurdreginn sér auðvitað ekkert nema ljótleika á meðan aðrir sjá fegurðina í hinu smæsta. Ég gekk einu sinni frá Garðabæ til Kópavogs með vinkonu minni sem var orðin veik af krabbameini. Hún kunni að njóta þeirra daga sem henni leið vel og þarna vorum við á hennar góða degi, en eins og leiðin milli Garðabæjar og Kópavogs er tja.. ekkert falleg, eða svo fannst mér þegar ég lagði af stað, fann hún endalausa fegurð á leiðinni. Benti á skýin - "mikið ofboðslega eru skýin falleg í dag" ..  ég held ég hafi sjaldan upplifað eins mikinn lærdóm og á þessum göngutúr okkar .. 

Máttur hugans er mun meiri en við gerum okkur grein fyrir, máttur til að velja.  
Þetta þekkja allir sem hafa lesið eitthvað um viðhorf, viðbrögð og t.d. að taka ábyrgð á sjálfum sér. Við getum nefnilega valið viðbragðið okkar. Eftir því sem við erum í betra jafnvægi eigum við auðveldara með að velja viðbragð. Velja það að stýra okkar eigin lífi en ekki láta aðra koma okkur úr jafnvægi. Vera stýrimenn og konur á eigin huga. Hvort það er blekking eða þekking það er svo annað mál...   

Jæja þetta var bara svona smá hugsað upphátt í lok vinnudags...  langar svo að deila með ykkur smá úr Ljóðaljóðum sem er bók í  Biblíunni; þið ráðið alveg hvort þið lesið þetta sem Guðs orð eða manns, eða kannski bara orð manns með anda, kannski anda Guðs  ..



1 Hversu fagrir eru fætur þínir í ilskónum,
þú höfðingjadóttir!
Ávali mjaðma þinna er eins og hálsmen,
handaverk listasmiðs,
2 skaut þitt kringlótt skál,
er eigi má skorta vínblönduna,
kviður þinn hveitibingur,
kringsettur liljum,
3 brjóst þín eins og tveir rádýrskálfar,
skóggeitar-tvíburar.
4 Háls þinn er eins og fílabeinsturn,
augu þín sem tjarnir hjá Hesbon,
við hlið Batrabbím,
nef þitt eins og Líbanonsturninn,
sem veit að Damaskus.
5 Höfuðið á þér er eins og Karmel
og höfuðhár þitt sem purpuri,
konungurinn er fjötraður af lokkunum.
6 Hversu fögur ertu og hversu yndisleg ertu,
ástin mín, í yndisnautnunum.
7 Vöxtur þinn líkist pálmavið
og brjóst þín vínberjum.
8 Ég hugsa: Ég verð að fara upp í pálmann,
grípa í greinar hans.
Ó, að brjóst þín mættu líkjast berjum vínviðarins
og ilmurinn úr nefi þínu eplum,
9 og gómur þinn góðu víni.

Song-of-Songs2m

Það er velkomið að setja inn væmnar athugasemdir, en aulahúmor,  uppnefningar  og tal um fjöldamorðingja frábið ég mér algjörlega í þetta sinn .. 

Lifum heil .. Kissing


HIÐ VEIKARA KYN? ...

Í rökræðu um mynd konunnar sem má sjá nánar á bloggi Hjalta Rúnars m.a. um  "hið veika ker" í Biblíunni ... fékk ég þessa athugasemd frá Jóni Vali Jenssyni:

"Eru konur ekki kallaðar "veikara kynið" í talsmáta Íslendinga, jafnvel enn?"

 jafnframt:

"Þarna kl. 19.24 lýsirðu því yfir, að einhver "jafnréttisáætlun" sé æðri Guðs orði, eða er sú ekki meiningin hjá þér? Lúther er máske að snúa sér við í gröfinni þessa stundina einhvers staðar suðrí Þýzkalandi.

Víst er enn talað um "veikara kynið" og "fegra kynið", Jóhanna! Sem betur fer hafa hvorki stjórnmálarétttrúnaðarfræðingar né feminískir guðfræðingar né öfgafullir, fylgisvana femifasistar ennþá fengið vald yfir talsmáta landsmanna. "

Hvað segið þið um það? Ef svarið er já,  er það réttlætanlegt að kalla okkur konur veikara kynið?

Ég þarf víst varla að upplýsa hvað ég er ósammála þessari aðgreiningu. Vissulega eru konur oft ekki eins sterkar líkamlega, en það kemur hvergi fram í þessari mynd að það sé líkamlegt. Einnig notum við það ekki í daglegu tali að vera veikar, þó við getum ekki lyft jafn þungum lóðum og karl á næsta bekk í líkamsræktarstöðinni. Hvað er átt við með veikara þarna?  Veikur getur verið; daufur, sjúkur, brothættur.  

Ég er ekkert veikari = daufari, sjúkari eða brothættari en karl, ..  en ef ég er með flensu þá er ég líklegast veikari en einhver sem er ekki með flensu, en það er ekki vegna þess að ég er kona. Kissing

Karlar eru sterkari á sumum sviðum og konur öðrum og á sumum sviðum jafnsterk.  því er ég algjörlega á móti því að alhæfa um annað kynið sem almennt veikara hinu og tel það lið í jafnréttisbaráttu (og í þágu beggja kynja) að útrýma því úr orðræðunni að konur séu hið veikara kyn.

Mér finnst svona aðgreining á veiku og sterku vera til að sundra en ekki sameina og við höfum alveg nóg af sundrung í heiminum.

Karlar eru sterkir og konur eru sterkar og hananú!

1209207805AwQBu7
Jafnt vægi karla og kvenna

Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut, því Rut hún er svo sönn og góð og Daníel fylltur hetjumóð..

Þennan texta var boðið upp á í sunnudagaskólanum í langan tíma. Kannski sums staðar sunginn enn. Stelpurnar sungu s.s. hlutverk Rutar og strákarnir hlutverk Daníels.

Þessi texti kom í hugann, þegar ég var að reyna í blogginu á undan að útskýra áherslur feminisma og ég tel að fá nenni að lesa svona langt (en þau sem vilja ítarefni geta þó lesið athugasemdir við fyrra bloggið)  en tel þetta mikilvægt erindi. 

Þessi texti virkar kannski blásaklaus, en þetta er í raun bara brotabrot af því sem við höfum verið að fóðra börnin okkar á sem er til aðgreiningar kynjunum og við með því að setja þau í ákveðin hlutverk. Stundum ósanngjörn hlutverk.

Það er í raun ekkert að því að vera sönn og góð og ekkert að því að vera hetjur. En hvað ef að ekki er staðist undir væntingum?  Hér ætla ég að setja aðaláhersluna á strákana, því að menn eiga oft erfitt með að átta sig á hvernig í ósköpunum feminisminn geti unnið fyrir stráka. 

Ég hef bent á að 95% þeirra sem eru í fangelsum á Íslandi séu karlmenn. Feminsiminn er ekki að vinna að því hörðum höndum að fjölga konum í fangelsi, heldur að búa karlmönnum þannig heim og viðmið í samfélaginu að afbrotum af þeirra völdum fækki. Feminisminn vinnur ekki að því að konur fari að starfa á "karlmannlegum" nótum, verði herskáari eða ofbeldishneigðari, heldur  öfugt. 

Hvað veldur því að slagsíðan er eins og hún er í dag?  Er það einungis testósterónið í karlpeningnum - eða getum við skoðað uppeldið og væntingarnar sem við gerum til karlmanna? Getum við skoðað meðferðarúrræðin, mættu þau vera mýkri eða öðruvísi en kalt fangelsi  þegar menn lenda í vanda?  Erum við (samfélagið) í sumum tilfellum að stela meiru af mönnum, jafnvel lífi þeirra, en þeir stela af samfélaginu? .. Getum við gert betur?

Væntingar okkar, enn í dag á 21. öldinni, eru oft ólíkar til stráka en stelpna. Við dæmum oft strákana harðar og tökum mildara á stelpunum.  Það sama á við um fullorðna einstaklinga. Karl sem er heimavinnandi er oft dæmdur skrítinn eða latur eða það er eitthvað að honum .. á meðan fæstir dæma konu á sambærilegan hátt. 

Pressan og væntingar gerðar til stráka er oft mun meiri en til stúlkna. Þeir eiga að vera hetjur en það er nægjanlegt stúlkunum að vera "sannar og góðar."  Strákar sem falla út úr námi líta því frekar á sig sem "lúsera" heldur en stelpur gera, því samfélagið er búið að innprenta þeim ákveðnar væntingar til sjálfs sín. 

Stelpur geta verið hetjur og strákar geta verið hetjur.  Við erum auðvitað með ákveðnar fyrirframgefnar staðalmyndir líka hvað það er að vera  hetja og í gamla testamentisskilningi er það auðvitað að berjast við ljón eða eitthvað álíka. 

Í mínum huga er það hetjuskapur að viðurkenna sig eins og maður er. Það er hetjuskapur að standa með þeim sem minna mega sín og það er hetjuskapur að byrgja ekki inni tilfinningar sínar. 

Hetjumóður Daníels í dag gæti því falist í því að gráta þegar hann  meiðir sig, þegar hann er leiður eða hefur af öðrum ástæðum þörf fyrir að gráta.

Hetjumóður okkar hinna er að viðurkenna karlmenn sem tilfinningaverur og viðurkenna að þeir þurfi ekki að sanna sig á annan hátt en konur. 

Við þurfum öll á hetjuskap að halda í dag, hetjuskap til að takast saman hönd í hönd við að berjast við ljón í dag, hrinda þeim úr veginum til þess að við náum öll að blómstra og þroskast á okkar persónulegu forsendum, án tillits til kyns, kynhneigðar, litarháttar o.s.frv

Verum jafnframt sönn og góð hvar sem við erum stödd í litrófi mannflórunnar 

Friður Heart


Hvað vilt þú í staðinn fyrir þjóð-kirkju?

Það eru kostir og gallar við að hafa þjóð-kirkju. Hvað er það sem er í boði í dag fyrir utan hefðbundnar sunnudagsmessu, hátíðarmessur o.fl.:

  • GAMLA FÓLKIÐ .... Gamla fólkið heldur margt fast í hefðina, þá hefð sem það þekkir. Í kirkjunum er opið samfélag fyrir gamla fólkið, þar eru stundir þar sem fólkið kemur saman, drekkur kaffi, spilar, föndrar, syngur, fluttar eru hvetjandi hugvekjur  o.s.frv. Í mörgum sóknum er það þannig að sjálfboðaliðar frá kirkjunum sækja gamla fólkið heim, komist það ekki af sjálfsdáðum eða hafi einhvern ættingja til að skutla sér. Þessar samverur rjúfa oft einverumúra hjá þessu fólki - og brjóta upp daginn.
  • NÝIR FORELDRAR.... foreldramorgnarnir eru í boði fyrir nýbakaða foreldra, yfirleitt eru það aðallega mömmur sem einmitt þurfa að komst út og hitta aðrar mömmur, rjúfa einangrun ekkert síður en gamla fólkið og foreldar bera saman reynslu sína. Fengnir eru fyrirlesarar t.d. um svefnvenjur barna eða annað sem foreldrar hafa áhuga á að heyra.
  • BÖRNIN og UNGLINGARNIR ... Sunnudagaskóli er fyrir börn sem hafa áhuga, þar er talað um kærleikann og elskuna til hvers annars. Æskulýðsstarf er síðan fyrir mismunandi aldurshópa og er það yfirleitt vel sótt.
  • KÓRASTARF... Í öllum eða flestum kirkjum eru kórar, þeir sem sungið hafa í kór vita að það er ekki hægt að vera leiður þegar þú syngur í kór ;-)
  • NÁMSKEIÐ OG SJÁLFSSTYRKINGARHÓPAR ... Innan kirkjunnar er unnið í 12 spora kerfi, þar hittast ýmsir hópar, eins og hópar sem eru að vinna úr sorg eftir dauðsföll eða skilnað og þar fær fólk styrk og stuðning af hverju öðru.
  • fl. og fleira ..

Þjóðkirkjan er í sífelldri endurskoðun (þó að mínu mætti mætti hún vera róttækari)  í þjóðkirkjunni er jafnréttisnefnd og þar er uppi jafnréttisáætlun. Þjóðkirkjan vinnur með það í bakgrunni að tala "tungumál beggja kynja" dæmi um slíkt er að lesa: "Þau sem látin eru" en áður var lesið: "Þeir sem látnir eru" ..  Málfar mótar og vissulega mótar kirkjan þar sem margir hlusta á það sem þar er mælt og lesið.

Í byggðalögum úti á landi eru prestar oft eins og sameiningaraðili á erfiðum tímum og sem betur fer á gleðitímum líka.

Við höfum flest þurft að nota þjónustu presta og þjónusta þeirra er sko alls ekki, og langt í frá, miðuð við einn sunnudag í viku. Flestir prestar þurfa að vera á vakt eða bakvakt 24 stundir sólarhringsins.

Innan kirkjunnar starfar margt hæft fólk og velviljað, líka fólk sem gagnrýnir lög og stjórn kirkjunnar eins og þessi grein Dr. Arnfríðar Guðmundsdóttur (lærimóður minnar) ber með sér.

--

Að þessu sögðu þá tel ég að það sem þurfi að vera á hreinu:

  • Ef að ríkið og kirkja verða aðskilin þá verður það að vera skýrt að sambærileg þjónusta sé í boði fyrir alla sem hennar æskja.
  • Ef að sjálfstæðir söfnuðir myndast að þar sé gætt jafnréttis  og menntaðir fagaðilar sjái um starfið til að forða því að óvandaðir menn og sjálfskipaðir leiðtogar laði að sér viðkvæma einstaklinga þar sem þeir með kærleiksgrímu iðka ofbeldi  eða órétt í "Guðs nafni" ..

Ég vonast til að hægt sé að skera niður eitthvað af ytra umbúnaði kirkjunnar, en tel að innra starf hennar og starf prestanna sé mikilvægt íslensku þjóðfélagi og að sjálfsögðu eiga prestar að fá laun eins og annað starfsfólk. Það myndi enginn neita sálfræðingum að fá greitt fyrir sína vinnu - og sálfræðitíminn kostar 8000.- krónur! .. Ekki allir sem hafa efni á slíku.  Sú sálgæsla sem verið er að sinna, í einkasamtölum, í áðurnefndu starfi t.d. aldraðra og eftirfylgni við syrgjendur, er yfirleitt mjög fagleg og bráðnauðsynleg. Ath. Tónlistarfólkið sem spilar í kirkjunum þarf líka að fá greitt fyrir sína vinnu, flestir hika ekki við að borga sig inn á tónleika.  

Mikill meiri hluti þjóðarinnar er að nýta sér þjónustu kirkjunnar á einn eða annan hátt og í velferðarsamfélagi er það nú þannig að við borgum fyrir hvert annað.

Þjóðkirkjan er ekki gallalaus, það vitum við öll og svona stór stofnun þarf sterkan framkvæmdastjóra og ákveðinn, leiðtoga sem þorir að taka á starfólki sem ekki sinnir vinnunni sinni eins og það á að gera. Innra eftirlitið og sjálfsmatið ætti ekkert endilega að vera í höndum presta og eiginlega alls ekki, því það er alltaf hætta á einkavinavæðingu.  Kvartanir ættu að eiga greiða leið inn í biskupsstofu og það þarf að hlusta á þær og vinna í þeim.

Ég er ekki viss um að aðskilnaður ríkis og kirkju sé rétta leiðin, a.m.k. þarf að fara gífurlega varlega í allt slíkt vegna þess sem ég hef áður nefnt.

Gaman væri að sjá hvernig aðrir sjá fyrir sér þennan aðskilnað og hvað fólk vill sjá í staðinn og hvort það haldi að það komi til með að sleppa að borga fyrir þjónustuna?

Kirkjan þarf að standa undir nafni sem ÞJÓÐ - KIRKJA, samfélag þar sem þeir sem telja sig tilheyra henni geta komið saman, fagnað saman, syrgt saman o.s.frv. SAM-félagið er það sem skiptir mestu máli, samfélagið við hvert annað og við alltumvefjandi vinskap Guðs*

Guð = kærleikur og ég "kaupi" ekki annan Guð, vona að aðrir láti ekki plata sig út í annað.  

Þjóðkirkjan - myndhluti úr steindum glugga Leifs Breiðfjörð á vesturgafli Hallgrímskirkju


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband