Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Vantrú eða trú í vikulokin - ekki með neitt í bandi ..

Þetta er dagur sjö síðan ég skapaði þessa bloggsíðu undir heitinu naflaskoðun. Nafnið er mjög útpælt, og staðfestist eftir því sem leið á vikuna hversu mikið vægi það í raun hefur.

Naflaskoðun er yfirleitt notað innhverft, þ.e.a.s. um innri skoðun. Ég nota það hér jöfnum höndum, er að viðra skoðanir mínar út á við og að sjálfsögðu út frá mínum nafla. Ég get ekki talað út frá nafla annarra, eða séð hlutina út frá annarra sjónarhóli.

Ég hef aðeins skrifað tvö blogg en bæði voru þau tengd trúmálum og slík blogg eiga það til að vekja fólk til andsvara og stundum meðsvara. Áberandi var, sérstaklega á fyrra blogginu, þar sem ég setti upp mengi þar sem ég flokkaði fólk í trúar eða trúleysishópa og reyndar sagði að enginn einn passaði inn í sérstakt mengi að skrif mín fóru fyrir brjóstið og/eða særðu félagsmenn í Vantrú. Ég hafði kallað mengið Vantrúarmengið og það voru mistök, því það átti ekkert að tilheyra endilega þeim "félagsskap" heldur bara fólki sem væri vantrúað eins og DoctorE t.d. og fleirum sem eru vantrúaðir en ekki skráðir meðlimir.

Ég held að við öll dæmum skrif vantrúaðra/eða trúlausra oft sem skrif meðlima Vantrúar.

Á sama hátt heyri ég að nú er verið að blammerast út í þjóðkirkjuna yfir því að verið sé að stofna flokk sem heitir Kristileg stjórnmálasamtök, en þar fer kaþólikinn Jón Valur í fararbroddi og reyndar aðaltalsmaður. Ég er engan vegin að segja að það megi ekki endurskoða þjóðkirkjuna, en Jón Valur er ekki talsmaður hennar.

Brynjólfur Þorvarðsson lagði inn heilmikil innlegg sem ég náði aldrei að svara, eflaust liggur eitthvað af svörunum í því sem ég skrifaði á báða þræðina. Brynjólfur komst að því (sem betur fer) að ég er ekki vond manneskja þrátt fyrir trúarskrif mín.

Jafnframt skrifaði hann:

"Guð er eins og gamall kærasti sem vill eigna sér allt gott og skella skuldinni á okkur af öllu því sem fór úrskeiðis. Hann heldur því sjálfur fram að hann sé ómissandi, að við séum ekkert án hans. Hann neitar okkur um okkar eigið líf. Samviskubit, niðurlæging, vanmat á getu okkar eru vopn hans. Óhamingja er afleiðingin.

Er ekki betra bara að elska náungann og sjálfan sig og láta gamla afbrýðissama kærasta sigla sinn sjó?"

Ég efast um að Brynjólfur hafi fattað hvað hann hitti í naflann á mér þarna, þegar hann fór að tala um "gamlan kærasta" en það hugtak er mér ekki með öllu ókunnugt.

Well Brynjólfur, Guð hefur ekki gert aðrar kröfur til mín en að ég sé góð manneskja. Guð veldur mér engu samviskubiti, ég er sjálf minn harðasti dómari. Svo ég snúi enn og aftur að "nabblanum" þá má hugsa sér Guð sem móðurlíf, sem nærir mig - gefur mér líf. Það sér í raun og veru hver og einn Guð út frá sínum sjónarhóli og frá þínum sjónarhóli sést enginn Guð. Það þýðir samt ekki að frá mínum sjónarhóli sjáist hann/hún/það ekki.

Getum við þá haft "skipulögð" trúarbrögð ef hver sér Guð frá sínum sjónarhóli? Já, það tel ég því við erum félagsverur og okkur finnst gott að gera sumi hluti saman. Dynamíkin getur verið stórkostleg í góðum félagsskap, og í þessu tilfelli félagsskap sem kemur saman til að biðja, syngja og ræða um hið fagra í lífinu með jú, leiðsögn og næringu frá Guði í huga. Vekja hvert annað og virkja og gera góða hluti saman til uppbyggingar bæði sjálfum okkur og öðrum.

Umbúðirnar fyrir mér skipta litlu sem engu máli. Verð að viðurkenna þó að ég finn fyrir ákveðnum heilagleika í gömlum viðarkirkjum, helst litlum, miklu meiri en í þessum sem eru eins og sundlaugarbotnar úr steini og gleri. Svo eru blendnar tilfinningar sem bærast með mér þegar ég geng t.d. inn í Gaudi-kirkjuna í Barcelona sem er stórkostlegt listaverk en hefur kostað blóð, svita og tár. Ég get ekki séð þann Guð frá mínum sjónarhóli, sem gleðst yfir höllum sér til dýrðar. ;-/ ..

Í vikunni (var ég næstum búin að gleyma) fékk ég líka þær fréttir að góðmennið Guðsteinn Haukur ætlaði að vera með í stofnun hins Kristilega stjórnmálafélags og sendi honum fyrirspurn um skoðanir hans gagnvart vígslu samkynhneigðra. Hann svaraði mér á einlægan hátt og komst ég að því að hann er (eins og hans var von og vísa) mun umburðarlyndari í þeim málum en Jón Valur væntanlegur tilvonandi flokksbróðir. Átta mig að vísu á því að landslög mismuna hvað varðar víglsulög gagnkynhneigðra annars vegar og hins vegar samkynhneigðra, þannig að þarna er ekki bara við kirkjuna að sakast.

Svíar eru þarna skrefi á undan. Ég ætla að gera eins og Brad Pitt, neita að gifta mig fyrr en sömu lög gilda fyrir samkynhneigða. Ekki það sé nein pressa þar sem eini núverandi kærasti er bara Guð sko! .. ótrúlega þægilegur samt og lítið vesen á honum. Smile .. Hann að vísu hvíslar að mér á hverjum morgni hvað ég sé yndisleg, ég þurfi að muna að elska sjálfa mig til að geta elskað aðra, því að engin manneskja sem hati sjálfa sig geti gefið af sér! Minnir mig á að ég megi ekki setja ljós mitt undir mæliker og merkilegt nokk það stendur líka í Biblíunni! .. Hann kennir mér að það þurfi ekkert að éta allt hrátt sem stendur þar, því að þetta sé náttúrulega bara mannleg flóra eins og hún leggur sig og þó að það sé eitthvað skítlegt þarna eigi ég ekki að samþykkja það, heldur velja og skoða, enn á ný út frá eigin nafla!

Já, hvað gerði ég nú meira í vikunni; fór á áhugaverðan fyrirlestur hjá Guðna Rope-Yogameistara, fór svo að sjá myndina Blessing á kvikmyndahátíð, fór í kirkjubíó í Dómkirkjunni þar sem fjallað var um myndir Milos Forman The People Vs. Larry Flint og Cuckoos Nest (talandi um Davíð og Moggann)..  Ótrúlega góðar myndir báðar og miklar ádeilur og er bloggið nú þegar orðið of langt svo ég ætla ekki að fjalla um það, en myndirnar vöktu upp áleitnar spurningar sem tengjast þjóðfélaginu okkar í dag.

En hvað þýðir þessi fyrirsögn, "ekki með neitt í bandi" .. já, eiginlega það að ég kemst ekki yfir það sem var spurt um í fyrri færslum og ætla ekki að naga mig yfir því, en vissulega get ég notað það og þær spurningar sem þar komu upp til að byggja á og íhuga. Viðhorfsbreytingar eru oft þroskamerki, við þurfum að tala saman en ekki sundur, en mér finnst því miður meira bera á hinu síðarnefnda.

Ég er ein af þeim sem finnst að Davíð eigi ekki að koma nálægt stjórnun en finnst hann samt segja sumt gott, það vantar leiðtoga = Rétt, það vantar sameiningarafl = Rétt, en Davíð er ekki sameiningaraflið né Mogginn.  Jóhanna var neydd út í hlutverk sem hún hefur eflaust fundið að hentaði henni ekki og það er að koma í ljós núna.

Síðast en ekki síst voru liðin 23 ár þann 25. september sl. frá því að tvíburarnir mínir komu í heiminn Wizard

Gæti skrifað þúsund meiri stafi hér, en ég þarf víst að fara að vinna smá ....

Elskum friðinn og strjúkum kviðinn og hreinsum lóna úr naflanum ..


Trúarlíf Íslendinga

Ég hef ákveðið að opna nýja bloggsíðu, þar sem ég mun velta upp ýmsu sem kemur í hugann. Ég var áður með síðu sem ég hef læst, af prívat ástæðum.

Hér ætla ég ekki að fara ræða félagsfræðilega könnun  sem framkvæmd var á þessu sviði á sínum tíma,  heldur bera upp nokkrar tegundir trúarmengja eða trúleysismengja þar sem það á við, en engir tveir eru nákvæmlega eins í þessum efnum svo ein manneskja gæti tilheyrt fleiri en einu mengi. Svo mætti kannski búa til fleiri og er lesendum frjálst að gera það í athugasemdum.

Andlega mengið 

Fólk sem telur sig trúað, en er ekki háð neinu trúarbragðakerfi né leiðtoga. Það leitar hins góða hvar sem það er að finna,  biður bænir, sendir ljós og kærleik. Æðri máttur (eða Guð) er í öllu og í þeim sjálfum. Þetta fólk er víðsýnt á allt nema ofbeldi. Trúir yfirleitt að til sé handanheimur, andlegar verur o.fl. Fólksið stundar hugleiðslu, Yoga jafnframt því að taka það besta úr hefðbundnum trúarbrögðum.

 

Bókstafs mengið

Fólk sem tekur allt sem stendur í Biblíunni sem skrifað orð Guðs, næstum eins og með hans hendi. (Guðsmyndin yfirleitt af föður). Ef við lifum ekki samkvæmt því orði séum við í slæmum málum og lendum í helvíti eftir dauðann. Þetta fólk viðurkennir ekki mótsagnir í Biblíunni, og talar sig framhjá þeim. Fólkið stundar bænalíf og þá sérstaklega fyrirfram skrifaðar bænir og trúarjátningar. Oft telur þetta fólk sig hólpnara en annað fólk vegna "réttrar" trúar sinnar.

Tækifæris mengið

Fólk sem tilheyrir söfnuði, yfirleitt þjóðkirkjunni en ræktar lítið sem ekkert trú sína opinberlega. Fer í kirkju til hátíðarbrigða, þá aðallega í brúðkaup, fermingar, skírnir og jarðarfarir. Biður heitt þegar bjátar á en ekkert þess á milli. Hefur stundum ekkert lesið í Biblíunni, og pælir ekki mikið í trúarbrögðum yfirhöfuð en þekkir dæmisögur o.fl. frá barnakóla eða sunnudagaskóla. Flestir í tækifærismenginu eru tilbúnir að prófa ýmislegt andlegt utan kirkjunnar eins og miðilsfundi að heimsækja spákonur o.fl.

Vantrúarmengið

Allt sem tengist trú er eitur í huga þessa fólks. Mesta eitur er þó trúarbrögðin, en einnig trú að til séu álfar, óhefðbundnar lækningar og flest andlegt er þeim mjög fjarri. Mikil reiði í garð kirkju og trúarbragða. Vísindi og skynsemi er yfir yfirnáttúrulega hluti hafið og yfirnáttúrulegt eða óþekkt ekki viðurkennt.  Yfirleitt finnst þeim óþarfi að bera virðingu fyrir lífsgildum annarra séu þau byggð að eitthverju leyti á trú.  Biblían væri best geymd á öskuhaugunum. Guð er yfirleitt hið illa í þeirra huga.

Biblíumengið

Þetta mengi er hópur fólks sem les Biblíuna en trúir ekki á hana bókstaflega orð fyrir orð. Það velur úr það sem því finnst höfða til þess og skilur annað eftir. Gerir sér grein fyrir því að Biblían er skrifuð af mönnum, þó með andlegum innblæstri. Sálmabækur eru yfirleitt líka hluti af innblæstri þessa fólk. Fólkið hefur oft mikla tilfinningu fyrir Guði, ræktar trú sína og finnst það helst finna návist hans í samfélagi. Miðlar og annað er yfirleitt af hinu vonda.

Trúlausa mengið Sjá mynd í fullri stærð

Að gefnu tilefni bæti ég við hér einu mengi, en eins og ég sagði fyrr voru þetta bara nokkur mengi - ekkert sem er fast í kassa, og sumir geta tínt margt úr nokkrum mengjum.

Trúlausir, sem hreinlega hafa ekki þörf fyrir neitt sem telst guðlegt, æðri máttur eða yfirnáttúrulegt. Þeir virða Biblíuna sem bókmenntarit en ekki trúararrit, því þeir gera sér grein fyrir mikilvægi hennar í menningarsögunni og við menningarlegt læsi. Þeim finnst það sem er sannanlegt eigi að hafa meira vægi en það sem er ósannanlegt vísindalega. Þeir virða lífsgildi trúaðra og þeirra skoðanir.

----

Hér hef ég aðeins birt topp af ísjakanum, en mengin eru fleiri og viðameiri. Það eru ákveðnir leiðtogar í hverju mengi, menn eða æðri verur sem fólk fylgir.

Sumir geta strax séð sig í einu menginu, en sumir tilheyra, eins og áður sagði, fleiri en einu og jafnvel nokkrum. 

Ég kannast við mig í þessu flestu, þó að síst séu bókstafs - og vantrúarmengið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband