Færsluflokkur: Bloggar
2.11.2011 | 09:25
Morgunstund gefur gull í mund - ENGILL YFIR MÉR -
Ég hef lengi vitað að andleg næring væri ekki síður mikilvæg en sú líkamlega. Það hefur verið hamrað á því frá því ég man eftir mér, að morgunverðurinn væri mikilvægasta máltíð dagsins, enda nokkuð rökrétt, þar sem verið er að leggja grunn fyrir daginn. - Á sama máta má segja að mikilvægasta andlega næring dagsins sé "morgunverður"
- Ég minntist þessa í morgun, þegar ég las þetta kvæði frá facebookvini mínum Kristjáni Hreinssyni, sem birtir perlur sínar reglulega.
Þetta var það sem hann skrifaði í morgun;
ENGILL YFIR MÉR
Ég er sál sem frjáls um veginn fer,
ég fagna sigri alla lífsins daga
því stöðugt vakir engill yfir mér
sem ýmsa bresti mína nær að laga.
Og engil minn í bænum bið ég þess
að bjartsýn sál mín vel sig undirbúi
svo ég um veginn geti gengið hress
og glaðst í öllu því sem helst ég trúi.
Mót raunum lífsins fer mín fagra sál
er frjáls og jákvæð er hún hér á sveimi
því engill minn er bjartsýninnar bál,
það besta sem ég veit í þessum heimi.
(Kristján Hreinsson)
Ég þakka fyrir mig, -
ég geng hraust, glöð og bjartsýn inn í daginn eftir svona lestur.
Góðan dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2011 | 22:25
UNGLINGURINN Í MARMARANUM ..
ÞORIR ÞÚ? -
Ef þú þorir ertu leiðtogi
Ef þú þorir að segja NEI við heilaselludrepandi efni ertu fyrirmynd
EF Þú ert að bagga ertu hamstur (djók)
Ef þú stjórnar tölvunni þinni en hún ekki þér ertu "In control" ..
Ef þú segir Nei takk við einelti hefur þú mikla greind ..
Ef þú þorir að segja JÁ við spennandi tækifærum ertu óttalaus
Segðu já við Lausn unga fólksins! .. fyrir unglinga á aldrinum 13-15 ára
Byrjar 13. nóvember .. að hika er sama og tapa - skráðu þig NÚNA - (með leyfi foreldra/forsjáraðila)
Ef þig vantar kannski nokkur skref upp á öryggið þá bætir þú úr því - ef þig skortir nokkur grömm upp á hugrekkið - þyngir þú þig af hugrekki - Þú fyllist eldmóði - lærir að tjá þig með sannfæringu - þú tekur ábyrgð á þínu námi - þínu lífi og þinni framtíð
Vertu besta jólagjöf foreldra þinna - skráning og nánari upplýsingar HÉR -
Vertu besta eintakið af ÞÉR - svona næstum Angel - eða þannig ..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2011 | 14:11
Vilt þú skilja?
Skilningur og skilnaður er sitt hvor hluturinn, - og í rauninni andstæður.
Að skilja í sundur stuðlar að aðgreiningu, en að skilja hvort annað stuðlar að sameiningu.
En það þarf tvo til að skilja.
Hjón eru tveir einstaklingar svo það er mjög einfalt að skýra það, það eru tveir einstaklingar sem verða aðskildir.
Að sama skapi þarf tvo til að skilja ef að hjónaband á að ganga upp.
Báðir einstaklingar þurfa fyrst og fremst að skilja sjálfa sig og báðir einstaklingar þurfa að skilja hinn aðilann.
Skiliningur er yfirleitt betri kostur en skilnaður, þó að skilnaður reynist oft óumflýjanlegur.
En stundum er það einmitt skilningsleysi sem veldur skilnaði.
Skilningsleysi á eigin tilfinningum og/eða skilningsleysi á tilfinningum makans.
Fer ekki dýpra í bili.
Vilt þú skilja?
Í Lausninni erum við með ýmis úrræði fyrir fólk, bæði hvað skilning varðar og skilnað. Lausnir sem forvörn við skilnaði (þar sem skiliningur er í raun forvörn) og svo skilning fyrir einstaklinga eftir skilnað sem þegar er orðinn.
Hjónanámskeið (og fyrir sambúðarfólk) á döfinni í Skálholti 7.-10. nóvember.
Námskeiðið Lausn eftir skilnað - fyrir konur - 3. desember nk. (setjum upp námskeið fyrir karla eftir áramót ef að þátttaka næst).
Einkaviðtöl - lausnarmiðaða hópa - hjónaviðtöl - námskeið - fyrirlestra o.fl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.10.2011 | 08:13
SAMVERA, svefnleysi og hugleiðsla
FJARVERA er að vera fjarverandi
NÆRVERA er að vera nálægt
SAMVERA er að vera saman
--
FJARVERA og NÆRVERA getur verið tvennt
a) andlega fjarverandi og líkamlega nærverandi (t.d. einhver stadddur hjá þér en hefur ekki áhuga á þér eða því sem þú hefur fram að færa - t.d. nemandi í kennslustund ;-))
b) líkamlega fjarverandi og andlega nærverandi (t.d. einhver með hugann hjá þér, en líkamlega staddur annars staðar, t.d. einhver sem hugsar mikið um þig eða langar að vera hjá þér)
Þetta getur gilt um annað fólk, - en miklvægast er að þetta gildir um okkur sjálf.
SAMVERA með sjálfum sér er mikilvæg.
"Að komast til sjálfs sín" "Að vera með sjálfum sér"
Að vera andlega fjarri sér, þýðir jafnframt að eiga erfitt með að vita eigin vilja, vera "utan við sig" o.fl.
Þegar við erum að hugsa fer hugurinn oft langt í burtu, hugsunin getur verið svo truflandi að við getum ekki einu sinni sofið, því líkaminn liggur bara og bíður eftir að hugurinn komi heim, hann er úti svo lengi! ;-)
Ástæðan fyrir svefnleysi er oft kvíði, áhyggjur, óróleiki, margt sem hvílir á hugandum og hugurinn truflar því líkamann og gefur honum ekki svefnfrið.
Til að koma heim til líkamans, (hafa áhuga á sjalfri/sjálfum þér) er einfaldasta leiðin að hugsa inn á við í staðinn fyrir að hugsa út á við. Þannig beinum við huganum heim.
Hugsa til líkamans, hugsa til tánna, iljanna, ökklanna, kálfanna, hnjánna, læranna, rassins, magans, baksins, axlanna, handleggja, handa, háls, hnakka, hársvarðar, ennis, andlits ... að hlusta á andardrátt sinn er einfaldasta form hugleiðslu.
Þannig beinum við athygli inn á við, svo getum við farið dýpra - farið inn í líkamann, inn í líffærin, og inn í það sem kallað er orkustöðvar.
Svefnleysi er því skortur á SAMVERU - hugurinn fer í burtu.
Hugleiðsla þýðir því að þú leiðir hugann eða einhver fyrir þig, en hugurinn leiðir ekki þig.
Næst þegar þú verður andvaka, - prófaðu þá að leiða hugann inn á við, kalla á hann heim.
Þegar við erum komin (heim) til okkar - erum með okkur losnum við líka við þráhyggju því að þegar við erum með okkur, erum við með meðvitund og meðvitund og þráhyggja geta ekki þrifist saman.
Ýkt form af andlegri fjarveru er "að vera viti sínu fjær" - vitið er farið eitthvað langt í burtu.
Þegar vitið er langt í burtu - líður okkur ekki vel. Þá erum við yfirleitt í huganum á öðrum, erum e.t.v. að hugsa hvað aðrir eru að hugsa. Erum að hugsa að við vildum vera einhvers staðar annars staðar en við erum.
Sönn hamingja þrífst aðeins þegar við erum í samveru ástandi, samveru með sjálfum okkur. Með viti og í sjálfsþekkingu. Sá/sú sem er fjarri sér þekkir ekki sjálfa/n sig - eða þekkir sig illa.
Þegar við þekkjum okkur sjálf illa, vitum við líka ekki hvað við viljum. Þá verðum við oft pirruð eða ergileg, því það er vont að vita ekki eigin vilja og vita ekki hvert við erum að fara.
Óvissa vekur ótta.
Ágætis regla er því að gefa sér stuttan tíma og hreinlega ögra sér þannig að skrifa niður á blað á 3 mínútum lýsingu á góðum degi sem á að gerast eftir ár. Eins konar dagbók fram í tímann.
Dæmi:
31. október 2012
"Kæra dagbók"
Ég vaknaði í morgun í góðu skapi, því ég hafði sofið svo vel - fór með fallega morgunversið sem ég tek alltaf inn sem andlega næringu á morgnana, læddist svo fram til að fara að útbúa hafragrautinn því ég vildi koma X á óvart, - vakti hann svo með kossi og hann brosti fallega við mér ...bla, bla, bla.. ...........................
(skrifa svona í 3 mínútur (hafa eggjasuðuglasið við hendina) og enda á kvöldinu og að fara að sofa ...... )
Þið búið að sjálfsögðu til ykkar uppáhaldsdag, hafa hann sem bestan!
Ég hef reynslu af því að gera þetta með fólki og það hefur bæði skrifað inn í líf sitt fólk sem það vill hafa nálægt sér og fólk sem það vill hafa fjarri - þetta er liður í því að vita hvað við raunverulega viljum. Stundum þarf í raun að stilla okkur upp við vegg - hætta að gefa okkur tíma til að hugsa, til að við förum að hugsa með hjartanu ;-)
Þetta er ekki gert til að komast með hugann í burtu - heldur til að hleypa hjartanu að, - til að vita hvað og hvernig þið viljið hafa ykkar góðu daga, - það er sniðugt að gera það fram í tímann, því að strax á því augnabliki sem búið er að forma daginn í huganum, - erum við farin að lifa hann. Upplifa góðar tilfinningar honum tengdum, og setja fram markmið honum tengdum. Tilfinningarnar eru það sem við upplifum því í núvitundinni.
Til gamans:
Þetta eru börnin mín; Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst (sem eru orðin 25 ára)
Einu sinni vorum við þrjú líkamlega nærverandi í tæpar 42 vikur ;-) ..
Ekkert vil ég börnunum mínum, og börnum þessa heims öllum, frekar en að þau læri að vera með sjálfum sér, standa með sjálfum sér, þykja vænt um sig, virða og samþykkja sig og upplifa verðmæti sitt - því að ég hef lært það (á reynslumikilli ævi) að það er það sem gerir okkur sterkust og öflugust.
Þannig getum við líka orðið styrkur öðrum, - þar gildir lögmálið um að taka inn súrefnið fyrst til að aðstoða aðra.
Fremst á myndinni er hún Hneta, hundurinn okkar sem varð 11 ára, - en við tengdumst henni mjög miklum tilfinningaböndum og svo sannarlega leitar hugurinn oft til hennar, þó hún sé löngu farin.
Góðan dag veröld, - nú fer ég í vinnuna mína ;-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.10.2011 | 07:32
Kínverska fyrir byrjendur ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.10.2011 | 11:32
Hver er tilgangur lífsins? .. Erum við tilbúin að koma heim til okkar?
"Hvert stefni ég?"
"Hvern spyr ég?"
"Hvern elti ég?"
"Hvert horfi ég til að fá svör? Hvar er þetta "eitthvað"?"
"Hvar er þess "einhver" sem segir mér hvers vegna ég lifi og dey?"
"Mun ég einhvern tímann uppgötva hvers vegna ég lifi og hvers vegna ég dey? "
Þessar spurningar og fleiri eru settar fram í kvikmyndinni HAIR frá 1979. Þessi pistill mun ekki fjalla um kvikmyndina sem heild heldur tilvistarspurningar hennar sem eru sígildar. Þessar sem eru hér að ofan og koma allar fram í söng Claude Bukowski, sem leikur eitt af aðalhlutverkum myndarinnar.
Þetta eru spurningar sem við höfum eflaust flest spurt, bæði okkur sjálf og aðra og ég hef svo sannarlega spurt að þeim, þetta eru í raun mikilvægustu spurningarnar auk spurningarinnar:
"Hver er ég?" ..
Þegar það sem kallað er Guð er spurt um nafn sitt, svarar það:
"ÉG ER" .. eða "ÉG ER TIL" sögnin "er" í nafnhætti "AÐ VERA" og úr því og orðinu "til" mynduð:
TILVERA
Að vera til er því sama og tilvera. Til stefnir að einhverju og þetta "eitthvað" er: ÉG
Að vera viðstödd okkur sjálf er því að vera til, að vera með vitund (í meðvitund).
Þessi meðvitund er okkar og alls annars lífs sem lifir og hrærist á jörðinni og jörðin og himininn ekki undanskilin. Þannig er fyrirbærið sem margir vilja kalla GUÐ.
Það er guðfræði nútímans.
Því er það að vera fjarlæg sjálfum okkur að vera fjarlæg GUÐI.
Þegar við bara ERUM þá þurfum við ekki neitt annað, ekkert sem aðgreinir okkur frá alheimssálinni, eða alheimsmeðvitundinni. Ekki stétt, ekki stöðu, ekki prófgráður, ekki hluti, ekki ákveðið útlit eða litarhátt. Við erum bara.
Ég er þá ekki hlutverk mitt, stétt, staða, kyn o.s.frv. - heldur ég bara ER og þú ERT.
Þegar þú ERT þá horfir þú á þig í speglinum og horfir inn í augun þín, speglar sál þína og upplifir verðmæti þitt án alls sem gefur þér einhvern utanaðkomandi merkimiða.
Þessi sál er ósnertanleg, og hörð eins og demantur - en það geta hafa sest utan á hana hrúðurkarlar og það getur hafa sótað á hana þannig að það verður erfitt að sjá hana og eftir því sem hún fjarlægari því minna sérð þú af ÞÉR.
þá ertu ekki Með sjálfum þér, ekki með meðvitund og þannig týnir þú eigin vilja, eigin sjálfi og upplifir þig ekki hluta af alheimssálinni. Þú ert týndur og lifir í fjarveru í stað tilveru.
Claude spyr hvern hann eigi að spyrja og hvert hann eigi að fara. Hann er augljósega ráðvilltur, en þegar hann áttar sig á því að ganga til sjálfs síns (til gangur) og spyrja sjálfan sig þá fær hann svörin.
Það þýðir ekkert að leita í panik, - því panikið stöðvar flæðið og býr til hindranir. Og þess lengra sem við hlaupum því meira fjarlægjumst við það sem við erum að leita að.
NÝ JÖRÐ er hugtak sem mönnum er tíðrætt um. Eckhart Tolle skrifaði bók undir þeim titli og titilinn hefur hann úr Opinberunarbók Jóhannesar. "Og ég sá nýjan himin og nýja jörð ....." (OP 21:1)
Ný jörð stendur fyrir nýjan heim, breytt hugarfar þar sem við erum komin heim, hvert og eitt okkar.
Þegar við erum komin heim, þá þurfum við ekki að metast, berjast, eða stríða og þá verður afleiðingin friður á milli manna.
"Mun ég einhvern tímann uppgötva hvers vegna ég lifi og hvers vegna ég dey?" spyr Claude.
Í þessari spurningu felst tilgangur lífsins, - að læra, að þroskast, að upplifa, að finna til, að uppgötva hvers vegna við lifum og hvers vegna við deyjum. Leiðin að því er leiðin heim, og það er aðeins ein manneskja sem getur svarað henni og það ert ÞÚ. Og þú ert því leiðin.
Þegar við neitum okkur um að finna til, læra, þroskast - þá villumst við af leið. Það er kallað í daglegu tali "fíkn" - fíkn er flótti frá lífinu, það er ekki tilvera heldur fjarvera. Ástæða fíknar er yfirleitt sársauki, sársauki sem getur legið í skömm. Skömm fyrir tilveru sína, við upplifum ekki eigið verðmæti.
Við erum öll eða flest fíklar að einhverju leyti, við notum bara misjöfn meðul - það er allt gott í hófi, en um leið og það fer að stöðva þroska okkar og framgang í lífinu, gang okkar að okkur sjálfum er það komið út fyrir mörkin - við förum frá okkur en ekki til okkar. Sami hlutur sem leiðir okkur til okkar getur orðið að einhverju sem leiðir okkur frá okkur. Þetta er spurningin um hinn gullna meðalveg eða meðalhófið. "Vinnan göfgar manninn" - en þegar vinnan er orðin flótti hættir hún að göfga. Matur er okkur lífsnauðsynlegur, en þegar að maturinn er orðinn flótti er hann farinn að tortíma. Þetta voru bar tvö einföld dæmi. Bæði dæmin eru að færa okkur frá tilfinningalegum upplifunum, einhverri skömm eða sársauka.
Samfélagið - hin Gamla jörð - elur á skömminni svo að þeir sem upplifa skömm og sársauka bæla hana, fela, halda henni leyndri - með alls konar flóttaleiðum og fíkn. Eina leiðin til að losa sig við hana er að segja frá því sem veldur upplifuninni. Sleppa hlekkjum skammar og ótta og þá hætta þeir að draga úr gangi manneskju heim til sjálfrar sín, - til-gangi manneskjunnar.
Lífið er tilgangslausara eftir því sem þú ert fjarri þér og fjarri Guði (sem í mínum huga er sameinuð alheimsmeðvitund).
Guð er ekki í súkkulaði, Guð er ekki í áfenginu, Guð er ekki í því sem deyfir þig eða veldur þér sársauka.
Þegar að manneskja sker sig og finnur líkamlegan sársauka er hún að flýja andlegan sársauka.
Þegar við erum að borða það sem gerir líkamanum vont er það af sama toga.
Það er flótti frá lífinu.
Að fella varnir er að opna hjarta sitt, að standa berskjaldaður/skjölduð, opna faðminn og leyfa tilfinningunum flæða inn er að þroskast, er að læra, - það er býsna sárt oft og næstum óbærilegt en þegar upp er staðið stöndum við með sjálfum okkur.
Vegurinn er frá skömm til verðmætis, þíns eigin verðmætis sem þú átt en hefur forðast.
Þegar við erum við sjálf finnum við til þessa verðmætis. Grímulaus, allslaus og óttalaus.
Einu sinni (og í mörgum tilfellum ennþá) voru skilaboð samfélagsins að samkynhneigð væri synd, menn lifðu með skömmina, en svo fóru þeir að koma út úr skápnum og játast sjálfum sér, viðurkenna sig og þannig stíga stórt skref í átt til sjálfs sín. Þetta þurfti hugrekki og sjálfstraust og mikinn stuðning. En samkynhneigðir þurfa enn að þola það að fólk samþykki þá ekki, meira að segja er prestum þjóðkirkju heimilt að vígja þá ekki í hjónaband, vegna eigin fordóma. Vegna þess að þeir eru ekki búnir að fatta verðmæti hverrar manneskju, án kyns, kynhneigðar o.s.frv.
Nú eru konur að koma "út úr skápnum" konur og menn sem hafa verið ofbeldi beitt í æsku eða á fullorðinsárum. Losa sig við hlekki skammarinnar sem þau hafa haldið í og sem gera ekkert annað en að halda aftur af mennsku þeirra og verðmæti. Skömm sem var plantað í þau, sem þau áttu ekki - og því miður eru einhverjir sem enn vilja viðhalda skömminni.
Við þurfum öll að koma út úr skápnum sem ófullkomnar manneskjur, sem ófullkomnar fjölskyldur og hætta að sýnast fyrir hinum ófullkomnu fjölskyldunum, særðu fjölskyldunum sem halda að allt sé fullkomið hjá hinum.
Ég trúi því að hin NÝJA JÖRÐ hætti að álíta menn fædda synduga -með skömm, og játi VERÐMÆTI hverrar manneskju frá upphafi. Álögum syndar verði aflétt með sannleikanum.
Sannleikurinn er það sem frelsar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
28.10.2011 | 20:09
NÁMSKEIÐ FYRIR HJÓN - PÖR - SAMBÚÐARFÓLK ...
Við í Lausninni viljum vekja athygli hjóna-og sambúðarfólks á úrræðum okkar hjá Lausninni, sjálfsræktarsamtökum, úrræðum til að finna eigið verðmæti, virðingu, traust og elsku, og þá líka sérstalega að vekja athygli á námskeiði sem er verður haldið 7.-10. nóvember nk., í samstarfi við Skálholt og sr. Þórhall Heimisson, upplýsingar og skráning hjá: www.skalholt.is
Sköpum aðstæður fyrir samband, en látum ekki aðstæður skapa sambandleysi.
Við höfum val.
Leið meira með að smella HÉR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2011 | 09:55
Hafragrautur borðaður með nautn og núvitund ....
Hefur þú íhugað að hvernig þú borðar gæti verið spegilmynd af því hvernig þú lifir lífinu?
Það er hægt að gleypa matinn í sig, en það er líka hægt að borða með athygli, reisn og virðingu. Hægt að borða með ást og njóta út í ystu æsar.
Fólk ver stundum mörgum klukkutímum í að útbúa góðan mat, krydda, smakka til, raða fallega á bakka og svo er hann étinn upp á örfáum mínútum. Er eitthvað samræmi í því?
Þetta er svona hálfgerður "shortari" ef þessu er líkt við kynlíf (sem flestir kannast væntanlega við).
Hvað gerist þegar þú veitir matnum athygli? - Hvernig væri að vakna örlítið fyrr einn morguninn.
Sjóða vatn, hella grófu lífrænu haframjöli í skál og hella sjóðandi vatni yfir (við spörum pottaþvott) Leyfa höfrunum að taka sig. Strá síðan uppáhaldsmúslí yfir, með möndlum, fræjum, berjum eða hverju sem þér þykir gott og toppa svo með niðurskornum ávöxtum jafnvel. Sletta af mjólk útá (eða rjóma) og svo örlítið agave síróp. Nammmmi ...
Svo setur þú hafragrautinn fyrir framan þig, þú hefur slökkt á útvarpi, sjónvarpi, ert ekki með blaðið fyrir framan þig - þú veitir skálinni með grautnum algjöra athygli. Kveikir kannski kertaljós til að gera stemminguna enn betri.
Síðan tekur þú fyrstu skeiðina, finnur fyrir bragðinu, höfrunum, möndlunum - greinir þetta í sundur með bragðlaukum tungunnar. Borðar hægt og nýtur hverrar skeiðar.
Þarna sláum við margar flugur í einu höggi; njótum matarins, stundum morgunhugleiðslu, upplifum tilfinningar, erum með sjálfum okkur - og góðu fréttirnar eru að ef við borðum oftar svona förum við að finna þegar við erum södd og borðum ekki meira en við þurfum .. við verðum fullnægð.
Á sama hátt og við borðum hafragrautinn er hægt að fara að veita öðru því sem er í kringum okkur athygli. Við getum farið að njóta þess sem við höfum hversdagslega og veita því athygli. Veita sjálfum okkur athygli (ekki gleyma því).
Gleypum ekki lífið, heldur veitum því athygli, himninum, jörðinni, náttúrunni, andrúmsloftinu .. og okkur sjálfum. Allt þetta er borið fram fyrir okkur, búið að vanda til sköpunarinnar, en við eigum það til að gleypa hana í okkur án þess að veita henni athygli. Njótum okkar og njótum lífsins. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt, það er svo margs að njóta í umhverfi okkar.
Hvort sem þú borðar einfaldan hafragraut, eða svona "fancy" eins og ég lýsi hér þá er það aðferðafræðin sem skiptir mestu máli. Hvernig við borðum, hvernig við njótum. Við getum notið hversdagslegs hafragrauts og líka með tilbreytingunni.
Lífið er hafragrautur ..
(- eða morgunkorn að eigin vali , ef þú borðar ekki hafragraut ;-)) ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.10.2011 | 06:56
Skömmin - hið andlega krabbamein
"Shame corrodes the very part of us that believes we are capable of change." - Brene Brown.
eða -
"Skömminn tærir upp þann hluta í okkur sem trúir að við séum fær um að breyta." - Brene Brown.
Skömmin er yfirleitt mun líklegri til að viðhalda ofbeldi en að uppræta það.
Orðið skömm er á sama plani og óttinn, því að skömm og ótti lama, draga úr okkur, stöðva okkur í framgöngu og að koma fram með sögu okkar og sannleikann.
Skömminn byggir aldrei upp.
Samfélag sem er uppfullt af dómhörku og hefur litla samhygð viðheldur skömminni.
Sá eða sú sem er lagður í einelti upplifir skömm og segir því ekki frá.
Sá eða sú sem verður fyrir kynferðisofbeldi upplifir skömm og segir því ekki frá.
Sá eða sú sem upplifir andlegt eða líkamlegt ofbeldi af hvaða toga sem er upplifir skömm og segir ekki frá.
Skömmin liggur oft í því að viðkomandi upplifir að hann eða hún hafi "leyft" gerandanum að koma svona fram við sig - og eftir því sem lengri tími líður grefur skömmin sig dýpra og brýtur meira, - brýtur sjálfsmynd þeirra sem upplifir skömmina, enda er ósk þeirra sem upplifa skömm að fara burt frá sjálfum sér. Flýja tilfinningar sínar og þá um leið sjálfa/n sig.
Skömm leiöir því til fíknar, því fíkn er flóttaleið frá tilfinningum okkar og um leið okkur.
Besta leiðin til að snúa á skömmina er að ganga út úr henni, hætta að láta hana stjórna - hætta að láta hana brjóta niður, reka okkur frá eigin lífi og/eða hindra hana í að leyfa okkur að lifa lífinu lifandi.
Það þarf hugrekki til að brjótast út úr þessari skömm. Hugrekki eins og Guðrún Ebba sýndi þegar hún fór að tala og koma heim til sjálfra sín. Hugrekki Sigrúnar Pálínu að gefa skömmina frá sér, afhenda hana þeim sem hún tilheyrði.
Vandamálið er oft okkar "vitskerta veröld" - samfélagið sem samþykkir ekki, hefur ekki samhug - en er fullt dómhörku.
Það eru ekki mörg ár síðan að það þótti mikið hugrekki að koma út úr skápnum sem samkynhneigður.
Sumir og eflaust margir upplifðu samkynhneigð sína með skömm. En hver plantaði skömminni hjá þeim? - Jú, samfélagið samþykkti ekki samkynhneigð og ENN eru hlutar samfélagsins sem samþykkja hana ekki (eða kynlíf samkynhneigðra) og það er varla öfundsvert að vera meðlimur í kirkju t.d. sem samþykkir þig ekki eins og þú ert og leiðir þínar til að upplifa kærleika til annarrar manneskju.
Á sama máta þurfum við að spyrja okkur hvernig samfélagið plantar skömm í þau sem ekki eiga hana skilið og langt í frá. Í raun á enginn skömm skilið. Því skömm brýtur bara niður. (En það er önnur umræða og lengri).
Hugum aðeins að orsökum að því að eineltisþoli eða sá/sú sem er beitt ofbeldi segir ekki frá - hvaða skömm upplifir hann og hvernig er komið fram við hann? Er það ekki í sumum tilfellum að hann er álitinn vandamálið og vandræðin? ..
Samfélagið, við öll, þurfum að taka okkur á.
Við viljum öll að hinir haldi að allt sé í lagi hjá okkur, að við verðum ekki álitin nógu góð eða nógu fullkomin ef að við eigum við vandamál að glíma. Þá setja allir upp grímu fullkomnunar og lífið verður eins og leikrit þar sem hver leikur það hlutverk sem af honum er ætlast, - lífið verður einn allsherjar blekkingarleikur. Stundum á bak við grímu skammar.
Það er þegar við tökum niður grímurnar, grímu fullkomleikans, grímu skammar og gefum frá okkur skömmina og upplifum sannleikann sem við frelsumst. En samfélagið verður að vera tilbúið fyrir sannleikann. Sannleikurinn er oft óþægilegur og erfiður, en hver og ein manneskja verður að fá tækifæri til að vera heyrð og fá að vera hún sjálf - án þess að bæla sannleikann innra með sér.
Það sem þarf er hugrekki, lifa af heilu hjarta - samfélagið þarf samhygð og losna við dómhörkuna.
Þannig geta allir farið að segja sína sögu, jafnvel ofbeldismaðurinn - sem í flestum tilfellum á sína bældu ofbeldissögu að baki. Kannski hans ofbeldi hefði aldrei fengið að grassera ef að hann hefði sagt sögu sína fyrr. Losnað við skömmina sem hann burðaðist með?
Skömmin er lævís og lúmsk. Heilu hjónaböndin hafa hangið saman að miklu leyti á skömm. Skömminni við að slíta hjónabandinu, skömm annars aðilans fyrir að hafa "leyft" hinum að koma illa fram við sig, skömminni við að láta tala niður til sín og óvirða. Og svo skömminni við að láta vonda hluti viðgangast of lengi.
Skömmin getur líka birst í því að þú ert búin að láta þig "gossa" - hefur hætt að sinna þér, sett þig aftast í forgangsröðina, hefur hætt að virða þig og elska, bæði andlega og líkamlega, þú ert búinn að vanvirða líkama þinn (og andann) með sukki og ólifnaði, jafnvel hreyfingarleysi og þú skammast þín fyrir það, en færð þig ekki til að gera neitt í því. Hvað veldur? - Jú, skömmin sem tærir og óttinn sem lamar. Þetta kallast sjálfskaparvíti, víti sem skapast af skömm.
Skömmin er eins og krabbamein, eftir því fyrr sem hún uppgötvast og eftir því fyrr við losum okkur við hana eru meiri líkur á bata.
Ég trúi því að skömmin geti gert okkur veik, mjög veik. Hún tærir upp eins og dropi sem holar stein. Hægt en ákveðið. Auðvitað er það líka skömmin sem rekur marga í það að taka eigið líf.
Skömmin við mistök, skömmin af því að standa sig ekki - gagnvart sjálfum sér og/eða gagvart öðrum, skömmin við að horfast í augu við heiminn sem er stundum svo dómharður. En við getum líka verið okkar hörðustu dómarar.
Þú átt allt gott skilið og þú átt lífið skilið.
Svo felldu varnirnar, opnaðu hjarta þitt eða biddu um hjálp til þess, hjálpina sem býr orku heimsins og hjálp þinna nánustu. Skömminni var plantað í þig einhvers staðar á leiðinni, jafnvel í æsku, en því miður erum við þannig gerð að við sjálf viðhöldum henni með niðurbrjótandi sjálfstali.
Þess vegna verðum við að snúa frá því.
Segðu frá, segðu þína sögu og umfram allt farðu að tala fallega til þín og slepptu haldinu á hlekkjum skammarinnar og komdu heim til þín.
Heim til lífsins.
Jákvætt sjálfstal virkar sem móteitur við neikvæðu sjálfstali, svo að uppbyggingin felst í því að fara að viðurkenna sig, tala fallega um sig og til sín, og taka inn góða næringu fyrir sál og líkama.
Skoðið ræðu Brené Brown.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2011 | 06:48
LANDLÆKNIR - Íslendingar næstfeitastir á Vesturlöndum - Setjum fókusinn á Lausnina - en ekki Vandamálið ....
Íslendingar eru orðnir næstfeitastir á Vesturlöndum.
Íslendingar eru yfirleitt ágætlega upplýstir um hollustu, vita hvað er gott fyrir þá, en fara ekki eftir því.
Margir fara í kúr, eftir kúr, eftir kúr .. Þurrka upp sama pollinn aftur og aftur og aftur ...
En fókusinn hefur verið of lengi á afleiðingar eins og í flestum málum okkar Íslendinga.
Samt þekkjum við lögmál Orsaka og Afleiðinga.
"The Law of Cause and Effect" -
Ef við skoðum ekki orsökina, þá er hættan sú að við endurtökum sömu mistökin aftur og aftur og aftur og aftur .....
Lausnin er eins og myndin gefur til kynna: LOVE - ÁST eða KÆRLEIKUR
Íslendingur er samsettur úr líkama, anda og sál.
Við þurfum að næra alla þessa hluta og næra þá vel - með ÁST
Í raun vantar Íslendinga meiri ÁST á lífinu, - að upplifa að lífið sé þess virði að lifa því -
Við getum haldið áfram að þurrka upp polla allt okkar líf, polla sem koma aftur og aftur ...
Við getum þurrkað þá upp með duftkúrum, með því að vigta mat, með því að telja kaloríur, en er það ekki svolítið þreytandi og endumst við í því fyrir lífstíð? -
(Athugið að umgengni okkar við mat er aðeins birtingarmynd af því hvernig við tæklum næstum allt annað)
Við vitum af pollunum og við vitum að það er hætta á því að ef við þurrkum ekki upp pollana þá verða þeira að stöðuvatni sem við gætum drukknað í.
Horfum á orsökina fyrir því að pollurinn myndast - hvar lekur og hver getur stöðvað lekann?
Kannastu við eitthvað af þessu?
- Ég er að drepast úr hungri, maginn kallar á mat en ég a) sleppi því að borða því ég er í megrun eða b) fæ mér sykur til að róa hungurtilfinninguna -
- Ég er södd en ég borða meira eða fæ mér snakk eða nammi vegna þess að a) mér leiðist b) ég þarf á huggun að halda c) það var einhver leiðinlegur við mig d) ég hef ekki hugmynd af hverju ég borða! ..
- Ég missti meðvitund og borðaði allt suðusúkkulaðið sem ég ætlaði að baka úr
Þetta eru bara fá dæmi um hvernig pollarnir verða til - og svo vaknar Íslendingurinn upp við vondan draum - og fer að þurrka upp polla; Fer í "átak" "kúr" "megrun" .. í X langan tíma þar til gólfið er þurrt. Svo byrjar það aftur:
Drip, drip, drip ... Íslendingurinn er svangur, hann langar í eitthvað ...
Tilfinningatómið hefur ekki horfið, það er enn til staðar og því þarf að fylla aftur í holrýmið .. það þarf meiri huggun og það þarf að leggja meira á flótta undan leiðindunum .. Þetta er vítahringur ..
Ef Íslendingur elskar sig, þykir vænt um sig og vænt um lífið þá stundar hann ekki sjálfskaðandi hegðun. Hann semur frið og hættir stríðinu við mat.
Íslendingur sem elskar sig og virðir (líkaminn er partur af Íslendingnum) ofbýður ekki sjálfum sér.
Hann velur að vera góður við líkama sinn, líkama sem hann fæddist með, líkama sem þjónar honum í blíðu og stríðu. Ef Íslendingurinn kemur illa fram við sjálfan sig, borðar sér til óbóta, velur vonda næringu, borðar sykur þegar sykurinn gerir honum vont, sveltir sig .. þá eru stórar líkur á því að líkaminn hætti að hafa ánægju af því að vinna fyrir eða með Íslendingnum.
Líkaminn verður veikur, líkaminn verður feitur og Íslendingurinn skammast út í líkama sinn.
"Þú ert ljótur, þú ert mér til skammar" - segir Íslendingurinn við sjálfan sig - við líkama sinn.
Þegar Íslendingurinn segir þetta við líkamann, verður sálin sár - því hún er partur af Íslendingnum og huggar sig með því að fá sér meira súkkulaði.
Íslendingurinn þarf að fara að þykja vænt um sjálfan sig, elska líkama sinn, elska sál sína og huga. Elska lífið og þann upplifa þann lærdóm og þær tilfinningar sem lífið gefur.
Það er upphafsreiturinn og það er ákvörðunin að því að lifa hamingjusömu lífi .
Þegar að KÆRLEIKURINN er kominn í spilið og virðingin fyrir eigin líkama og eigin lífi, þá loksins hættum við að búa til polla. Hættum að fylla tómarúmið með mat og förum að fylla það með kærleika.
Íslendingurinn vaknar af vonda draumnum, því hann var sofandi -
Íslendingurinn þarf að vakna og virða fyrir sér lífið, það sem hann hefur, veita því athygli. Veita því hversdagslega í umhverfinu athygli og þakka fyrir það.
Íslendingurinn þarf að slökkva á suðinu og upplifa kyrrðina. Í kyrrðinni heyrir hann í hjarta sínu, heyrir hann rödd kærleikans, -upplifir tilfinningar sínar - sem hann býður velkomnar og bælir ekki, ekki með nokkru móti, ekki með afþreyingju, ekki með tómstundun (empty hours?) - heyrir hvað kærleikurinn er að hvísla.
...Þú ert verðmætur, þú hefur möguleika, þú getur, láttu ljós þitt skína, lifðu lífinu lifandi, láttu óskir þínar rætast...
Þegar það er gaman eða áhugavert að lifa, þegar Íslendingurinn hefur náð jafnvægi, semur frið og fyllist eldmóði til lífsins þarf hann ekki að kæfa tilfinningar sínar með mat, deyfa sig með sykri eða svelta sig til að ná stjórn.
Þetta allt og meira til er það sem þessi Íslendingur sem þetta skrifar hefur lært af lestri bóka, úr eigin reynsluheimi, af reynslu annarra og síðast en ekki síst af því af því að fara að þykja vænt um sjálfa sig.
Setjum fókusinn á Lausnina - hættum stríðinu við mat, við fíkniefni, við allt sem vð gerum vegna þess að okkur finnst lífið er ekki nóg. Opnum faðminn og bjóðum ÁSTINNI að sitja með okkur við morgunmatinn, ÁSTINNI að leiða okkur og hvísla að okkur gæluorðum .. ÁSTINNI sem við eigum nú þegar innra með okkur, en höfum ekki hleypt út, lokum hana inni í skel yfirborðsmennsku, blekkingar og óheiðarleika við okkur sjálf og aðra.
Tökum ábyrgð á okkur, maturinn þvingar sig ekki ofan í okkur, sykurinn gerir ekki árás og hoppar upp í okkur. Við veljum og ekki láta neinar kerlingar að karla segja okkur hvað má og hvað má ekki. Ef þú elskar þig þá velur ÞÚ það sem er best fyrir ÞIG.
Orsökin í hnotskurn: Meðvirkni = týnd sjálfsmynd (sem byrjar að glatast í bernsku) þú hlustar á alla aðra en sjálfa þig og trúir öðrum betur en sjálfum þér, snýst í hringi í ráðleggingafrumskóginum, lætur ytri boð og bönn ráða eða stjórna þér en tekur ekki ákvörðun sjálf/ur - virkar með öðrum en ekki sjálfri/sjálfum þér. Þú virðir þig ekki, treystir ekki, samþykkir ekki, dæmir þig of hart og ert þinn versti óvinur = elskar þig ekki nóg.
Lausnin í hnotskurn: Farðu að virða þig, samþykkja, hafðu samhug með þér, stattu með þér, finndu eigin rödd og hlustaðu á hana, hlustaðu á líkama þinn = farðu að elska þig.
Veldu þína leið og þinn farveg til heilsu og hamingju, heilbrigðrar sálar í hraustum líkama.
Það sem ég er að segja hér að ofan, er gamall og nýr sannleikur, en við þurfum bara að trúa honum..
"We are physically, emotionally and spiritually hard-wired for Love and Belonging, and if we don´t experience that we brake" Brené Brown ..
Ef þið hafið áhuga á þessu kíkið á Facebook síðuna mína
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)