Færsluflokkur: Bloggar

"Niðurbrjótandi gagnrýni hefur eyðilagt fleiri persónur en allar styrjaldir sögunnar" ..

..stendur í bókinni "Hámarks árangur" - eftir Brian Tracy, eða íslensku þýðingunni. Bókin er skrifuð 1993, íslensk þýðing 1996. 

Í frétt á mbl.is 2011 stendur "Menn fæðast ekki sem níðingar" .. og talað er um það sem ný vísindi  .. 

---

En hvort sem það eru gömul vísindi eða ný .. þá er mikilvægi þess að fá að segja frá, segja sögu sína og tjá tilfinningar mjög vanmetið. -  Bældar tilfinningar, skömm, og það að halda sannleikanum leyndum er rótin að baki flestu sem heitir ofbeldi, fíkn, samskiptavandamálum, sjúkdómum og jafnvel ótímabærum dauða  .... 

Ástæðan fyrir því að sagan er ekki sögð? - skömmin, dómharka samfélagsins, skortur á samhygð, yfirborðsmennska, óttinn við álit náungans, hræðslan við ófullkomleikann - þó enginn fullkomleiki sé til.

Ástæðan er líka óttinn við að missa tengingar við ástvini, upplifa höfnun því samfélagið er ekki vant því að taka við sannleikanum.  Sannleikurinn er líka oft sagna sárastur. 

Við þurfum að koma út úr skápnum sem eðlileg og ekta -  hætta að vera í hlutverki (nema lífið sé leikhús?) .. hætta að reyna að troða okkur í staðalform sem ekki passar okkur - og vera við sjálf, leyfa okkur að vera öðruvísi,  sýna tilfinningar, hætta að vera svona fj... upptekin í hausnum á náunganum og vera í okkar eigin höfði.  Sleppa hendinni af verstu óvinunum - skömm og ótta.  Sýna hugrekki og upplifa frelsið. 

"Notum aldrei niðurbrjótandi gagnrýni á börnin,  þau eru mjög berskjölduð fyrir allri gagnrýni sem kemur frá okkur.  Hún ristir þau inn að hjartarótum, það sést e.t.v. ekki á þeim en innra með sér eru þau mjög sár þegar fullorðið fólk sem er þeim nákomið gagnrýnir þau af einhverri ástæðu" .. Brian Tracy

Aldrei segja "skammastu þín" - Skömmin virkar þannig að barnið skammast sín fyrir sjálft sig - upplifir sig mistök og óverðugt. -   

"To shame someone into changing, is like saying:  "you are horrible and worthless and you are not capable of change, get better" ..  Brené Brown  (svipað að öskra "vanhæf ríkisstjórn" og ætlast til að fá góða ríkisstjórn út úr því! ).  Uppbyggileg gagnrýni - þar sem farið er yfir mistök, orsök þeirra skoðuð og lært af þeim, - væri nýr farvegur. Öll gerum við mistök. Nema kannski sá sem aldrei gerir neitt, hann gerir auðvitað aldrei mistök. 

 Móteitur við skömm er kærleikur - textinn í lagi Josh Groban er magnaður - hvort sem okkur líkar söngvarinn eða ekki: 

Don't give up
It's just the weight of the world
When your heart's heavy
I...I will lift it for you

Don't give up
Because you want to be heard
If silence keeps you
I...I will break it for you

Everybody wants to be understood
Well I can hear you
Everybody wants to be loved
Don't give up
Because you are loved

Don't give up
It's just the hurt that you hide
When you're lost inside

I...I will be there to find you

Don't give up
Because you want to burn bright
If darkness blinds you
I...I will shine to guide you

Everybody wants to be understood
Well I can hear you
Everybody wants to be loved
Don't give up
Because you are loved

You are loved
Don't give up
It's just the weight of the world
Don't give up
Every one needs to be heard
You are loved

 

 


Eitt eilífðar smáblóm ...

cappuccino.jpgGóðan dag þú fagra blóm, 

Smá pælingar með morgunkaffinu: 

Við erum öll eitt, eitt með sjálfum okkur, eitt með náunga okkar og eitt með .... 

Við fáum sama svarið hvort sem við lítum á andlegu hliðina eða á vísindalegu hliðina. Djúpt niðri er allt og við öll tengd saman,  líffræðilega - efnafræðilega - og andlega. Maðurinn er líkami, hugur og sál. Maðurinn er náttúra. Náttúran er mold, vatn og loftið sem við öndum að okkur. 

Það er því auðveldara að skilja setningar eins og "Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig" - þegar við áttum okkur á því að náungi okkar er tengdur okkur,  það sem við gerum á hans hlut gerum við okkur sjálfum,  það sem við gerum fyrir náungann gerum við fyrir okkur sjálf.  

Þannig virkar bergmál lífsins ..  

Þegar við áttum okkur á því að við erum öll blóm í sama blómapotti, af sömu rót, þá föttum við kannski að það að spilla jörðinni fyrir öðrum er að spilla henni fyrir sjálfum okkur, það að dæma aðra með dómhörku dæmir okkur, það að elska eykur okkar eigin elsku. - Heart

Virkar reynar í báðar áttir  - að spilla fyrir okkur spillum við fyrir öðrum, að dæma okkur með dómhörku dæmum við aðra,  að elska okkur eykur ástina á öðrum. - 


Sálmur 23, bikarinn barmafulli og Eckhart Tolle -

Byrjum á Tolle og Abundance

 

Ég tek það fram að eftirfarandi er ekki hefðbundið, enda ég ekki hefðbundin.  Þetta eru hugsanir mínar út frá uppáhaldssálmi mínum 23. Davíðssálmi sem margir þekkja undir heitinu "Drottinn er minn hirðir" - annars eru margir Davíðssálmar ótrúleg snilld.  Vegna tengingar við dauðann er þessi sálmur oft fluttur við útfarir, en ég lét t.d. spila hann við útskrift mína úr guðfræðideild H.Í. því hann á ekki síður við lífið.

"Þegar við deyjum komumst við að því að það er enginn dauði" - man ekki hver sagði þetta, held Tolle,  en þessu trúi ég.  

Þegar ég tala um Guð, - þá tala ég alltaf út frá alheimssál, sem við erum öll partur af og við hverfum til við "dauðann" - eða þegar við yfirgefum líkamann og sálin okkar sameinast alheimssálinni, Being, Guði eða hvað sem fólk vill kalla það.  Það truflar mig ekki að kalla það Guð, en mörgum finnst það hugtak vera orðið misnotað og skemmt.  Ég leyfi mér að nota það með þessum forsendum.  

---

Sálmur 23 er mikill trúartraustssálmur.  Trúin á það að skorta ekkert jafnvel þótt að við eigum ekkert. Hvernig gengur það upp? -  Jú, það er sú tilfinning að skorta ekkert, finnast við fullnægð án hins ytra. 

Trúa því að við séum að eilífu í nálægð Guðs, að himnaríki Guðs sé innra með okkur og þá ljósið sem lýsir upp dimmuna. Ef við höfum ljósið verður aldrei dimmt eða hvað? - 

Okkur skortir aldrei neitt.  

Þetta upplifum við í kyrrðinni, í slökun - ein með sjálfum okkur eða í tengingu við annað fólk sem er að upplifa svipaða hluti.  Við samþykkjum tilveruna eins og hún er hér og nú og öðlumst frelsi. 

Stundum eigum við svo mikið af dóti - hinu ytra - að það er orðið að okkar stærsta vandamáli. Barnaherbergi yfirflæðandi af dóti, geymslur rýma ekki dót sem við burðumst með frá íbúð til íbúðar, stundum án þess að taka upp úr kössum.  Það má kannski kalla það ofgnótt? - 

Við fáum aldrei frelsi eða frið með slíku, upplifum ekki þetta að eiga nóg, eða vera nóg með dóti. Við sjálf þurfum að upplifa það að vera nóg.  Þá getum við sungið "Mig mun ekkert bresta" - eða eins og það þýðir í raun og vera "mig mun ekkert skorta" - "I shall not want" - 

Við getum upplifað þetta í náttúrunni, með því að leggjast í græna grasið og finna okkur ein með jörðinni. - Við vatnið sem spilar undir kyrrðina og andar í takt við andardrátt okkar. 

Þannig endurnýjast sál okkar, verður fersk og losnar við tilfinningabyrði hugsana okkar, eins og Jill Bolte Taylor upplifði þegar hún losnaði við 37 ára sögu sína, -  í farveg sem við veljum af því að við veljum hann, en ekki einhver segir okkur að fara. Það verður að koma að innan. 

Þegar við trúum svona sterkt þá hættum við að kvíða, óttast, - óttast fólkið, almenningsálit, hvað aðrir segja, hvað öðrum finnst, - óttumst ekki framtíð né fólk og samþykkjum tilveruna og okkur sjálf.  Komi það sem koma skal, - og við tökumst á við það, aldrei ein. Það sem við upplifum upplifir Guð með okkur, grætur með okkur og hlær með okkur. Sorg þín er sorg Guðs.  Náðin fylgir okkur,  meðan við lifum í þessum líkama og alltaf.  Að dveljast í húsi Drottins að eilífu, er því að vera hluti alheimssálarinnar, því alheimurinn er hús Guðs. 

Sálmur 23 í mínum orðum: 

Drottinn er minn hirðir
Mig mun ekkert skorta
Hann hvetur mig til að hvílast í grænu grasinu
Leiðir mig að vötnum þar sem ég nýt kyrrðar
Hann endurnýjar sál mína
Hann leiðir mig í farveg réttlætis
vegna nafns hans

Jafnvel þó ég gangi um dauðans skugga dal
óttast ég ekkert illt
því ÞÚ ert með mér
Sproti þinn og stafur hugga mig
Velvild og náð þín fylgja mér
alla ævidaga mína
og ég mun dvelja í húsi Drottins að eilífu

 

"Nothing Real can be Threatened" ..  Sálin er eilíf ...

 


Auðmaðurinn og öfundin

Hvað er auðmaður? - Auðmaður er afstætt hugtak, - ég á meira en margur og minna en margur, er auðmaður í augum þess sem er heimilislaus og á bara flíkurnar sem hann ber utan á sér.

- Samt gef ég honum ekki helming eigna minna. - Ég á mat, samt býð ég ekki útigangsmanninum að borða. -  Er ég vond? - 

Hvar eru mörkin og hvenær eigum við að fara að deila út okkar auði. Hvenær eigum við nóg til þess?

Sumir auðmenn eru svo fátækir að þeir eiga ekkert nema peninga. - 

Gætum tungu okkar, orða okkar og hugsana okkar, eru auðmenn öfundarinnar verðir? .. 

Hvar værum við í sporum hinna ríku af peningum, - værum við að deila af fjársjóði okkar, eða sætum við á peningatankinum. 

Það þarf stórt hjarta til að gefa af veraldlegum auði sínum, því við höfum tilhheygingu til að halda fast í það, kannski vegna þess að við teljum okkur hafa unnið fyrir því, en ekki hvað? 

Værum við, þú og ég eitthvað skárri ef við værum í sporum "auðmannsins?" 

Á barnaheimilinu í gamla daga fengu sum börn sent sælgæti önnur ekki, því var öllu hellt í skál og deilt meðal barnanna.  Allir fengu nammi. 

Var það sanngjarnt? -

Mér bregður stundum að heyra orðfærið sem fólk leyfir sér að nota um þá sem eru auðmenn, jafnvel siðlausa auðmenn, - en af hverju að öfunda þá sem eru siðlausir.  Aumingja þeir. 

Er ekki verst af öllu að vera siðlaus? 

- Pæling dagsins -


Dagur gegn einelti - 8. nóvember 2011, Í ÞÍNUM SPORUM .. og í mínum sporum

Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu umboðsmanns barna:

holdum_saman_gegn_einelti"Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti hefur ákveðið að standa fyrir degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis,  mennta- og menningarmálaráðuneytis og  velferðarráðuneytis og er hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010 Verkefnastjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti.  Sérstaklega er þessu beint til leikskóla,  grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana á vegum ríkisins.  Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, s.s. að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu." 

Við hjá Lausninni, sjálfsræktarsamtökum höfum tekið þessari áskorun og höfum fengið Eyjólf Gíslason í lið með okkur, en hann hefur undanfarin ár farið með fyrirlestra í skóla um átröskun, samkynhneigð og einelti, því oft vill þetta fylgjast að.  Þ.e.a.s. margir samkynhneigðir, svo sem aðrir sem eru ekki í "norminu" lenda í því að vera lagðir í einelti. 

Lífið væri svolítið skrítið ef við værum öll eins og steypt í sama mótið,  piparkökukarlar-og kerlingar. 

Dagurinn 8. nóvember 2011 hefur yfirskriftina: "Í þínum sporum" en það minnir á mikilvægi þess að gera sitt besta til að setja sig í annarra spor.   Dómharka er andstæðan við að setja sig í spor annarra eða sýna samhug. 

Þau sem beita mestri dómhörkunni eru oft þau sem eru særð dýpst sárunum og hafa bælt þau. 

Það þarf því að beina sjónum að uppruna og orsök eineltis, um leið og að við tökum höndum saman um að vernda eineltisþolendur.  Finna leiðir út úr vítahringnum sem einelti er. 

Hugrekki er að opna hjarta sitt og segja frá - bæði þau sem hafa stundað einelti og þau sem hafa verið lögð í einelti. 

Hugrekki er að taka á málum á uppbyggilegan hátt, og þetta hugrekki þurfa allir að sýna - yfirvöld - skólar - fjölmiðlar - foreldrar - vinir. 

Hugrekki er að skipta sér af, þar sem við sjáum á börnum brotið,  því að allt of mörg börn lifa við allt of erfiðar aðstæður og þurfa í sumum tilfellum að taka á sig ábyrgð sem er langt fram yfir þeirra þroska,  óeðlilegar aðstæður sem þau bregðast við á eðlilegan máta.  Eðlilegur máti getur verið að skera sig, borða sér til óbóta, svelta sig, leita í fíknir - allt til að forðast andlegan sársauka.  

Hugrekki er að viðurkenna að við erum hluti af samfélagi, samfélagi dómhörku - særðs samfélags.  Við erum flest særð börn særðra barna.  Þaðan kemur dómharkan, þaðan kemur skömmin, þaðan kemur kvíðinn, óttinn og eineltið. 

Ef að allir, hver og einn einasti - liti í eigin barm og hætti að benda, myndi spyrja sig: 

"Getur verið að ég hafi einhvern tímann stuðlað að einelti, eða eru það alltaf hinir?"

Við erum samfélagið, börn þurfa að vita að þau hafa mjúka lendingu og mjúkan faðm til að koma í - þau verða að vita að einhver komi til með að skilja þau. Verða að fá að vita að það er til lausn út úr vítinu.  Þau verða að sjá útgönguleiðina og fá bjartari famtíðarsýn, - þannig fyrst fer að rofa til og þau geta farið að fá trú á sjálfum sér og samfélaginu. 

Fullkomleiki barna felst í því að vera ófullkomin, við verðum að virða ófullkomleikann, láta þau vita reglulega að þau séu verðmæt.  Vermæt án nokkurs utanaðkomandi. Verum stolt af þeim eins og þau eru, ekki eins og við ætlum þeim að vera.  Verðmæt án þess að þurfa að sanna verðmæti sitt með einkunnum, útliti, árangri í íþróttum, - gefum þeim hrós og verum stolt af þeim fyrir að vera þau sjálf

Það er skilyrðislaus ást og við eigum að láta þau vita af henni.  Hvort sem þau gera mistök eða vinna verðlaun eru þau alltaf jafn dýrmæt og mannhelgi þeirra er óskert. 

Þegar þau vita af því, þá upplifa þau innra verðmæti og það er grunnurinn að ytra verðmæti.

Hið ytra er gagnslaust, yfirborðskennt og falskt ef engin innistaða er fyrir hendi, eða ef að innistaðan er bæld.  

Við erum ekki fædd í hlutverk, heldur erum við fædd til að vera við. Erum fædd til að upplifa kærleika og það að tilheyra samfélagi.  Þegar samfélagið samþykkir okkur ekki verðum við veik og visnum. 

Í sumum tilfellum verður það óbærilegt og við stimplum okkur út úr samfélaginu, sem tekur ekki á móti okkur. 

Setjum okkur í spor annarra - og líka í eigin spor, þannig skiljum við spor annarra

Við erum öll eitt,  að upplifa sams konar tilfinningar, allt frá góðum til vondra tilfinninga. 

Ég upplifði einelti sem barn og kynferðislegt áreiti eldri stráka, ég upplifði það að vera særð og ég tók seinna þátt í einelti þar sem sársauki minn bitnaði á stelpu sem mér var falið að bera ábyrgð á.  Ég var 9 ára, en stríði enn við þá skömm.  Það var á Jaðri sem mér var sagt að bera ábyrgð á þessari stelpu sem var send þangað í ljósi þess að ég myndi gæta hennar, það var á Jaðri  þangað sem að litli bróðir minn var líka sendur og þegar hann var veikur þurfti ég að henda öðrum krökkum út úr herberginu til að vernda hann,  þegar þau komu eins og hungraðir úlfar að sækjast eftir sælgætinu sem hann fékk að eiga vegna þess að hann var veikur og það var á Jaðri sem mér var sagt að passa upp á frænku mína.

Það var líka á Jaðri þar sem ég þorði ekki að fara að pissa á kvöldin, því að ein starfstúlkan hafði sagt að hún sæi draug á ganginum á næturnar. ;-) .. æi þetta var erfitt. 

Ég var níu ára þegar að mér var falin ábyrgð á þremur einstaklingum,  og það var ég,  barnið sem hafði misst pabba sinn sjö ára, pabba sem sýndi henni hlýju, hún kúrði með fyrir framan sjónvarpið á kvöldin með hinum systkinunum og bað bænirnar með henni en hafði svo bara dáið - og ekki þekktist áfallahjálp í þá daga.  

Sumarið áður en ég fór á Jaðar fór ég á Silungapoll, - þar leið mér illa og þá var mér sagt að eina leiðin fyrir mig til að fá að vera heima væri ef að Hulda systir, tólf ára, samþykkti að passa mig á daginn, en fyrir gætti hún litlu systur, sem þá var bara tveggja.  Ég stend því í eilífri þakkarskuld við Huldu, en spyr í leiðinni hvar voru allir hinir fullorðnu? -  Mamma stóð ein eftir með fimm börn þegar pabbi dó á aldrinum átta mánaða til tólf ára, komin í fulla vinnu til að sjá fyrir heimilinu.  

... Þetta átti að fjalla um einelti, en þróaðist í mína sjálfskoðun, - eineltið hélt áfram í unglingadeild bæði í Fella- og Hólabrekkuskóla, - en systir mín passaði upp á mig áfram og studdi mig, - ein manneskja getur skipt sköpum þegar um einelti er að ræða. Það voru ómerkilegir hlutir sem samnemendur mínir fundu upp á að hæðast að, fötin mín sem voru svolítið öðruvísi, gleraugun mín - en það þótti  sumum eðlilegt að kalla gleraugnaglámur á þau sem voru með gleraugu, einn strákur kallaði mig "blue glasses" - þegar ég fékk mér blá gleraugu, brjóstaleysi mitt varð að áhugaefni hjá strákum í 10. bekk.  En vegna þessarra hæðnisglósa vegna útlits, varð ég eflaust enn uppteknari af útliti míni en góðu hófi gegndi í framhaldsskóla,  þrátt fyrir að verða það sem samfélagið samþykkti sem flotta unga stelpu - þar sem ég fékk aðdáun og virðingu, jafnvel þeirra sömu sem höfðu hæðst að mér áður, - þá fannst mér ég aldrei nóg og leitaði að fullkomleikanum. 

Þetta kostaði mig þá hugmynd að ég væri aldrei nóg, aldrei nógu flott, aldrei nógu góð.  Sjálfstraustið var brotið og .... við skulum ekki hafa frásöguna mikið  lengri, því ég á að mæta í vinnuna mína!

Hlúum að innra verðmæti barnanna, þau eru nóg - eins og þau eru, hið ytra kemur sem bónus, en hið innra er nóg. 

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, það sem hér á undan fer er hluti af mínum skóla til þroska. Mikilvægasta skóla sem ég hef stundað.  

Vegna þessa og síðan fleiri krákustíga sem ég hef fetað á leiðinni, mótlæti og meðlæti - er ég sú sem ég er í dag.  Ég kann að setja mig í spor annarra,  bæði þeirra sem beita ofbeldi og sem hafa þolað ofbeldi.  Þess vegna er dómharka fjarri mér. 

Eina fólkið sem ég á enn eftir að sættast við er það sem veit en lærir ekki eða vill ekki læra af mistökunum. 

En ég hef líka þegið gjöf ófullkomleikans og því fyrirgef ég mér, sætti mig við sjálfa mig, samþykki mig og elska mig.  Aðeins þannig er ég fær um að veita náunga mínum það sama.

Ég hef valið minn starfsvettvang, að sinna fólki og hlusta á fólk.  Deila af reynslu minni og vera með opinn faðm - hlusta án þess að dæma.

Munum samt sem áður, eftir því að hörðustu dómarnir koma oft frá þeim sem bera stærstu sárin .. 

Verum hugrökk, opnum hjörtu okkar og fellum grímur - segjum satt - því að sannleikurinn veitir okkur svo sannarlega frelsi.  

Frelsið til að vera við sjálf, - líka "öðruvísi" ..   

Enn og aftur: spyrjum ekki bara: "hvað eiga hinir að gera"-  heldur "Hvað get ÉG gert" .. 

Það sem þú veitir athygli VEX - veitum því KÆRLEIKANUM athygli á þessum degi gegn einelti og ástundum hann, kærleikanum til okkar sjálfra og annara - aðeins þannig náum við að uppræta eineltið. 

mountain_top_yoga.jpg


"Hvað get ÉG gert" ... pólitísk morgunhugvekja á sunnudegi

Ég sofna hugsandi um tilveruna og vakna hugsandi um tilveruna. Þess vegna þarf ég stundum að stunda hugleiðslu til að róa hugann og það er líka gott að koma hugsunum mínum í farveg og kannski er það þess vegna m.a. sem ég blogga. 

Það er vont að staðna í hugsuninni, þá verðum við eins og ófróju laukarnir í garðinum hér úti á Holtsgötunni sem ekki náðu að verða að túlípönum eða páskaliljum.  Hugurinn flytur okkur hálfa leið, og aðeins hálfa, en restina verðum við að fara í holdi. - 

Hugur og hönd þurfa að fylgjast að, og það er um að gera að láta sig dreyma og það stóra drauma og halda svo af stað. 

Þegar stórir draumar eru dreymdir, þurfa þeir mikið rými.  Ef við sitjum heima í sófa og dreymir drauma þá rekumst við fljótt á loftið í íbúðinni! ..  Það stemmir líka við það að sitja kyrr í sófanum og hugsa. 

Þess vegna er "trixið" - að standa upp, klæða sig vel (ef veðrið er vont) fara út og horfa til himins. 

Þar eru engin takmörk. 

Ég fann lag við þessar pælingar - eða kannski fann lagið mig? -  "Horfðu til himins" með Ný-danskri og svo þegar ég fór að gúgla textann fann ég grein eftir Karl Pétur Jónasson, frá 2. nóvember sl., undir heitinu "Bölmóðssýki og brestir" úr sama lagi og ég hafði ákveðið að nota sem grunntón fyrir hugvekjuna mína, en þar stóð m.a.: 

"Michael Porter sagði það í gær sem mér hefur lengi fundist. Að Íslendingar séu fastir í fortíðinni og einbeiti sér fremur að væli en að uppbyggingu samfélagsins og efnahagskerfisins. Á fáeinum árum hefur íslenska þjóðin breyst úr Evrópumeisturum í sjálfshóli í óskorðaða heimsmeistara í sjálfsvorkunn."

Við þurfum ekkert að kaupa þetta, en ég er sammála því að þarna eru sannleikskorn. 

Jafnframt skrifar Karl Pétur: 

"Þrír samverkandi þættir standa í vegi fyrir áframhaldandi þróun; vantraust almennings á öllu og öllum, velmeinandi, en algerlega vanmáttug ríkisstjórn og fjölmiðlakerfi sem viðheldur bálkesti reiði, bölmóðs og sjálfsvorkunnar með því að kasta í sífellu á hann gömlum, endurunnum fréttum um hrun."

Þarna staðfestir Karl Jónas reyndar lið 1 í liði 2 og 3 eða vantraustinu á öllu og öllum, þ.m.t. ríkisstjórn og fjölmiðlum.  

Hvernig og hvers vegna ætti fólk að treysta vanmáttugri ríkisstjórn (að hans mati) og fjölmiðlakerfi sem viðheldur bálkesti reiði o.s.frv?

Karl Pétur áttar sig líka á þessu og talar um vítahring í þessu sambandi. 

"Hvað get ég gert?"  spyrja þeir í Ný-dönsk og nú verðum við að spyrja okkur hvert og eitt okkar, "Hvað get ÉG gert?" 

Svarið er "Horfum til himins" ..  og hvað er það? - Jú, hafa trú, leyfa sér að vona, hætta að óttast, skammast o.s.frv.  Gera allt sem kemur okkur áfram í stað þess að staðna eins og ófrjóir laukar í moldarbeði. 

"Be the change you want to see in the world" - (Gandhi) 

eða

Vertu breytingin sem þú vilt sjá á Íslandi.

Það er þekkt í meðferðageiranum að við þurfum að byrja á okkur sjálfum,  þegar við erum farin að standa stolt, horfa til himins með höfuðið hátt, elska okkur, virða og hafa sjálfstraust -  þá hefur það smitandi áhrif út á við.  Þá fara þau sem eru í kringum okkur að breytast líka.  Við höfum alls konar orð yfir þetta eins og fiðrildaáhrif og fleira.

Jákvæðni smitar og neikvæðni smitar.  Bölmóðssýki og brestir smita.  

Þetta snýst um viðhorf, að taka afstöðu og að taka ábyrgð á eigin lífi.  Hver og ein/n verður að ákveða sína leið og sjá sína framtíðarsýn. 

Þegar við erum að skoða framtíðarsýn út frá markþjálfun þá byrjum við á að sjá fyrir okkur takmarkið. 

Takmarkið eða sýnin fyrir Ísland væri þá: 

Heilbrigðir og heiðarlegir Íslendingar, sjálfbærni, gagnsæi, jafnrétti, hófsemi..

- Heilbrigð og hamingjusöm þjóð á sál og líkama .. 

Þegar sýnin er komin, þarf að fara að hafa trú á sýnina.  Ekki missa fókus, hvað sem á gengur.  En við þurfum líka að átta okkur á því hvað hamlar,  hverjar eru fyrirstöðurnar og það sem heldur aftur af okkur.

Í tilfelli einstaklinga er það oft einstaklingurinn sjálfur sem er hræddur við að gera mistök, hræddur við eigin framgöngu og að hann hefur ekki trú á sjálfum sér.  En hömlurnar koma líka utan frá, frá aðstæðum og fólki sem vill stöðva framgönguna.  "Framsókn" er í raun besta nafnið á stjórnmálaflokki, en spurning hvort það er réttnefni? ;-) - "Hreyfingin".. movement - er auðvitað allt annað en stöðnun, - en án þess að ég fari hér í fleiri nöfn,  þá verður hreyfing að stefna að einhverju annars er hún stefnulaus.  Þá er ég að tala um hreyfingu almennt. 

Þjóðarskútan verður að hafa skýra stefnu og við þurfum að hafa sameiginlega sýn á framtíðina.  Þess fleiri sem hafa sameiginlega sýn, sem við getum sammælst um og trúað á,  þess betra,  því þá verða hömlurnar færri. 

Mistök eru til að læra af þeim, ekki berja sig með hrísvendi það sem eftir er vegna þeirra.. Spyrja: "hvað gerði ég rangt?" - og varast að falla i sömu holur aftur, - spyrja sig "Hvað gerði ég rétt" og nýta það.  

Þessi framtíðarsýn verður að vera unnin í sátt og samlyndi við landið okkar, - að hún valdi ekki þannig usla að um óbætanlegt tjón á náttúru eða heilsu komi til. 

Við verðum að fara að hreyfast að takmarki og græja okkur vel, með útbúnað og nesti. 

Útbúnað í formi þess sem kemur okkur á leiðarenda, hlífir okkur við veðri og vindum o.s.frv. 

Nestið þarf að vera í formi jákvæðra staðhæfinga, þakklætis fyrir það sem við höfum nú þegar, eins og auðlindir í formi mannauðs, vatns og jarðhita, fisks, lambakjöts,  hreins lofts o.fl. o.fl. 

Við verðum að tengja okkur saman andlega, trúa á árangur og taka sameiginlega ábyrgð.

Hreyfast frá skömm til hugrekkis - frá ótta til kærleika - frá kvíða til vonar - frá fortíð til nútíðar - frá efa til trúar.... 

"Horfum til himins" ... 

 

Pólitískt skipbrot - efnahagslegt skipbrot - en þurfum ekki að bíða andlegt skipbrot ..  Pólitíkin og efnahagurinn hafa áhrif á andann - en það virkar í báðar áttir - andinn getur líka blásið lífi í pólitíkina og efnahaginn ....  

Við þurfum bara að ákveða "Which way to go" ..  eða taka stefnuna og leyfa svo vindinum blása í seglin ..  


Prinsar eða prinsipp? ... obboðslega mikið hugsað upphátt ..

Þegar ég var lítil stelpa átti ég nokkra drauma, þegar ég lék ég mér í skóginum í Lindarbrekku vissi ég að mig langaði til að vera Indjáni, - náttúrubarn sem gengi um berfætt, stundaði útivist og nyti landsins gæða.

Þegar ég var heima í stofu að horfa á dans - og söngvamyndir var ekki vafi í mínum huga að mig langaði að vera dans-og söngkona.  Ég klæddi mig í tjullkjóla og dansaði heima fyrir framan spegil.  

Svo fór ég í skólann og fékk spurningu í minningabók hvað ég vildi verða, og svaraði í gríni að ég vildi verða kennari því það væri svo gaman að kríta á töfluna, - en þarna var ég komin í óvissuna. 

Í 8. bekk fékk ég athugasemd frá kennaranum mínum sem ég gleymdi aldrei "Þú ættir að verða rithöfundur" ..  það var eftir ritgerð um líf í fiskabúri og tilbreytingaleysið við að vera fiskur... 

Eftir að þrautlesa íslenskar og erlendar ástarsögur, sem voru auðvitað allar með rætur í örvæntingarfullri Öskubusku, sofandi Þyrnirósu eða hálfkæfðri Mjallhvíti,  var ég reyndar komin yfir í það að vera bara bjargarlaus kona sem myndi hitta prinsinn á hvíta hestinum sem myndi bjarga mér.

"Sterka karlmannlega þögla týpan" - Þögnin átti að vísu að vera vegna þess að hann var e.t.v. örlítið særður, og ég (hin fullkomna fyrir hann)  átti að vera sú sem læknaði sárin.  (Þekkið þið mynstrið?) - 

Ég fann manninn, en hafði týnt sjálfri mér.  Myndin varð að glansmynd en svo kunnum við hvorugt á hitt þegar upp var staðið,  föttuðum ekki að það þarf hver og ein manneskja að bjarga sjálfri sér,  en hún bjargar ekki öðrum.  Af hverju ætli enginn hafi upplýst hvað gerðist hjá Öskubusku, Þyrnirósu, Mjallhvíti og prinsunum þeirra eftir brúðkaupið.  Af hverju var ekki skrifað um hvað fólst í þessu:  "Þau lifðu hamingjusöm til æviloka"   ... voru þau bara viðstödd í Núinu og fóru í læri hjá Eckhart Tolle? - 

Ég hef alltaf haft yndi af því að dansa og fæ enn fiðring í fæturnar að horfa á fólk dansa.   Ég hef líka yndi af því að syngja. Ég stundaði jazzballett sem unglingur, og dansaði mikið framan af, en dansinn er hálftýndur.  Ég var alltaf syngjandi, og söng í kór í tvö ár, en mikið til hætt að syngja. Ég elska að vera útí náttúrunni og finnst ekkert yndislegra á góðum degi en að ganga berfætt og synda í vatninu. 

Ég vissi það þegar ég var lítil hvað ég vildi gera, en eitthvað í umhverfinu stöðvaði mig.  Kannski náði ég að týna mér og sjálfstraustinu snemma - líklegast þegar ég fór að lesa um ósjálfbjarga konurnar? 

Rithöfundaráskorunin liggur enn í mér, - mig langar mikið til að skrifa bækur. Bækur fyrir bæði börn og fullorðna - fyrir mig.  Um tilveruna,  - bækur sem eru hvatning fyrir okkur til að lifa lífinu OKKAR, ekki annarra, hvatning til söngs og dans og óður til náttúrunnar. 

Mig langar að skrifa um verðmæti sálarinnar, skömmina sem eitrar hana, þakklætið fyrir hversdaginn, dómhörkuna, hluttekninguna ... allt milli himins og jarðar sem viðkemur tilvist okkar og sem tengir okkur betur við náttúruna, lífið, leikinn, sönginn og dansinn.

Þannig gæti ég kannski orðið það sem ég óskaði mér sem barn.  Ég er bara hálfnuð með lífið. 

.. 

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? ...  hvað ætlar þú að gera núna?

Er líf þitt þitt val? - 

Ég játa það að stundum langar mig bara að syngja eins og Donna í Mamma Mia, - "Money, Money, Money .... " - og játast prinsinum i staðinn fyrir prinsippinu og láta bjarga mér í staðinn fyrir að bjarga mér sjálf.  Ef ég fer að blogga frá grískri eyju þá vitið þið að ég er "fallin" .... 

Prinsippin mín hafa verið mér dýrkeypt - en skóli lífsins er líka verðmætasti skólinn þegar upp er staðið. 

Takk fyrir að gefa þér tíma til að lesa, mér finnst mínar pælingar koma öðrum við, eins og annarra pælingar koma mér við - því við lærum af hvert öðru, lærum að skilja okkur sjálf í gegnum aðra... 

Við þurfum e.t.v. að muna eftir því að við höfum ýmislegt fram yfir fiskana í fiskabúrinu ...

við höfum val... 

Verð samt að enda á þessu ;-) 

 

 


"Mér finnst þú leggja Björn Bjarnason í einelti" - sagði Sigurjón M. Egilsson við Reyni Traustason í Ísland í bítið.

Einelti er ofbeldi.  Í skilgreiningu vinnuhóps á vegum Velferðar- og menntamálaráðuneytis var einelti skilgreint sem endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Ég hlustaði á "Ísland í bítið"  (ef þið hlustið þá er þetta ca. á 11. mínútu) í bílnum í morgun - og varð þá vitni að áhugaverðu samtali Reynis Traustasonar og Sigurjóns M. Egilssonar, auk þáttastjórnenda.

Ég bið fólk að taka niður flokkspólitísk gleraugu þegar þetta er skoðað og vera algjörlega heiðarlegt.  En þetta kom m.a. fram: 

Reynir Traustason gagnrýndi gamla þöggun sem við höfum glímt við og sagði hana í fullu gildi miðað við viðbrögð skólastjórafélagsins og félag grunnskólakennara,  o.fl.  Hann vill taka umræðuna "ALLA LEIÐ OG KRYFJA TIL MERGJAR." -  Þetta eru ekki mál sem eigi að þegja yfir, og þegar börn séu farin að deyja, þá verðum við að segja stop! -  (Ég gæti ekki verið meira sammála því). 

jafnframt sagði hann: 

"ALGERLEGA LJÓST AÐ VIÐBRÖGÐ ERU EKKI Í LAGI" .. "þarna ættu menn að vera opnir -og íhuga HVERNIG GET ÉG GERT BETUR" ... ég botna ekkert í þessu!" .. 

Sigurjón M. Egilsson sagði þá: "Mér finnst þú leggja Björn Bjarnason i einelti. - Þetta er ekki til siðs, - þú gerir þetta ekki við aðra fyrrverandi ráðherra" - 

Reynir Traustason: "Nú skil ég ekki  - eftirlaunamaður?" -  

Það varð hálf vandræðaleg moment þarna og Heimir spyr þá út í hvort að orðið einelti sé ofnotað - en  Reynir fer í vörn, og spyr hvort að ef að Björn Bjarnason skrifar oftar um hann en flesta aðra hvort að það teljist einelti. 

(Auðvitað skiptir máli hvernig er skrifað um fólk og hvaða orð notuð - er það ekki? )

Ég fór í smá rannsóknarvinnu þar sem ég tók undir orð Reynis um að KRYFJA TIL MERGJAR

Björn Bjarnason vekur athygli á umfjöllun um hann í bloggi 7.okt. : 

Hér er hægt að smella á greinina

 Þar segir Björn m.a.

"Frá því að ég gaf út bók mína Rosabaugur yfir íslandi hefur verið hnýtt í mig á dv.is í sama dúr og gert var þegar allir vissu um eignarhald Baugs group á blaðinu. Eitt af því sem DV leggur á sig til að setja mig á bás er að kalla mig „eftirlaunaþega" eða „eftirlaunamann". Öruggt er að þetta gerir blaðið ekki til heiðurs eftirlaunaþegum. Þvert á móti verður þessi aðferð blaðsins ekki skilin á annan hátt en þann að ritstjóranum þyki á einhvern hátt unnt að særa menn með því að vekja máls á aldri þeirra. Hefði mátt ætla að blaðamennska af þessu tagi hefði fyrir löngu runnið sitt skeið. Hún er í ætt við að víkja til háðungar að útliti manns, klæðaburði, háralit eða þyngd - svo að dæmi séu tekin af handahófi." 

Hér eru nokkur dæmi úr DV sem komu upp við einfalt "gúgl" ..  

23. desember 2009 

Úfinn EFTIRLAUNAÞEGI 

12. janúar 2011

Valtur EFTIRLAUNAMAÐUR 

22. júlí 2011 

EFTIRLAUNAÞEGI 

26. september 2011

Fyrrverandi ráðherra og EFTIRLAUNAÞEGI 

3. október 2011

BJÖRN BJARNASON EFTIRLAUNAÞEGI  

24. október 2011

EFTIRLAUNAÞEGI 

Björn Bjarnason upplifir þetta sem háðung - en tekur fram að þetta sé ekki gert til heiðurs eftirlaunaþegum. 

Það er að sjálfsögðu engin skömm að vera eftirlaunaþegi ekki frekar en að vera rauðhærður, en af hverju er þessi áhersla DV á þennan titil.  Er ekki ástæða til að kryfja það til mergjar? 

Nýlega skrifaði ég pistil um orsök eineltis og skrifaði m.a.: 

"Einelti er ein birtingarmynd sjúks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar. Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima. Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum? " 

Það er ekki bara hægt að benda á hina og segjast vilja kryfja til mergjar, en ekki taka til heima hjá sér.  Jafnvel þó ekki sé um einelti að ræða að hefðbundnum skilningi, þá er nokkuð ljóst að verið er að hæðast að aldri Björns. 

Hvað er það og hvaða skilaboð gefur það?  -  Ef enginn vill kannast við að hafa gert neitt, bendir bara á aðra -  þá lögum við ekki neitt. 

Ég vil að lokum taka fram að ég er sammála því að umræðan þarf að vera opin, fólk þarf að tala en auðvitað þarf að stýra umræðunni í heilbrigðan farveg en ekki múgæsing. Ekki ein einasta manneskja á skilið að vera lögð í einelti. 

Við þurfum öll að sýna samfélagslega ábyrgð.  


3. nóvember 2011 - Valgerður Kristjánsdóttir -Amma Vala - 85 ára

319911_2572983566326_1306397911_2982313_1758578703_n.jpgDagurinn er kominn 3. nóvember 2011, - og þú ennþá lifandi, við vissum ekkert hvort þú myndir ná þessum degi, því það fjarar hratt undan.

Þó það sé erfitt að heimsækja þig stundum, þar sem þú ert stundum fjarlæg, líkaminn farinn að gefa eftir,  þá ertu svo óendanlega stór og tignarleg sál. 

Þú einhvern veginn lýsir af þessari virðingu eins og drottning. 

Ég er þakklát fyrir brosið þitt, hvernig það kemur frá augunum, hvernig þú horfir á mig, barnið þitt, og ég finn að þú ert sátt. 

Það er eins og þú sért að segja við mig, "haltu áfram Jóhanna mín" -  leiktu þér - gerðu gloríur - upplifðu lífið og upplifðu ástina. 

Í dag segi ég þér allt, segi þér sannleikann og ég sé hvað þú hefur gaman af því.

Þú lýsir alltaf sérsaklega þegar ég segi þér frá ævintýrum Ísaks Mána, Elisabeth Mai og Evu Rósar langömmubörnunum þínum - en þú verður enn alltaf jafn hissa þegar ég tala um ömmubörnin mín. 

"þú amma" - segir þú og brosir. 

Þú ert sjálf yndisleg amma,  naust þess að passa barnabörnin þín þegar þú hafðir kraft til þess og taldir það aldrei eftir þér - og svo eru fimm ára "skotturnar" hennar Lottu systur eru í miklu uppáhaldi hjá þér. 

148866_1370703602750_1686544977_711701_6863238_n.jpg

Elsku mamma - ég kem til þín í dag og segi þér þetta allt í eigin persónu, ekki það að þú vitir ekki að ég elska þig. Mig langar bara að láta heiminn vita hvað þú ert stór fyrir mér og hvað það er skrítið að þú verðir einn daginn ekki hérna, sért farin í víddina til pabba - en við höfum svosem hvíslast á um það að það sé óhætt að hlakka til og þú sagðist vera alveg tilbúin "í næsta geim" ...

Það er gott að vita af því að þú sért tilbúin.  

 

 

Ég hlustaði í gær á fyrirlestur þar sem við mannfólkið vorum hvött til að fara í gegnum lífið með ósýnilega kórónu á höfðinu. Þá skildi ég að ég hafði alltaf séð þig þannig.  Sem drottningu. 

Berum kórónu lífsins með sóma, með því að vera sönn og heil.  

Við hlustuðum á þetta lag saman um daginn, og þú ljómaðir svo það er lagið þitt í dag. 

Skrifað af hjartans einlægni, með endalausu þakklæti, ekka og flóði af tárum. -

Takk, takk, takk.... fyrir okkur öll - "You did it your way" ..  

 

 


Syndin og skömmin ...að afneita sjálfum sér ...

Úr Rómverjabréfinu:

15Ég skil ekki hvað ég aðhefst. Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata, það geri ég. 16Fyrst ég geri það sem ég vil ekki er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. 17En þá er það ekki framar ég sjálfur sem geri þetta heldur syndin sem í mér býr.

Ég hef verið að kynna mér leiðina að kjarna mannsins, að hinu innra og ósnertanlegu verðmæti sálarinnar, sem ekki verður vegið eða metið eftir diplómum, tölum á vigt, eignum, kyni, kynþætti, fjölda barna o.s.frv., því allar sálir eru jafngildar. 

Ég hef m.a. hlustað á Brené Brown sem er rannsóknarprófessor sem hefur aðallega rannsakað skömm og berskjöldun (vulnerability) - og samhygð (emphathy).  

Hún spyr ekki aðeins hvernig við komumst að innra verðmæti, heldur hvað stöðvar okkur í því að ná þangað. 

Sá/sú sem lifir af heilu hjarta lifir af opnu hjarta. Hann/hún viðurkennir bresti sína, en um leið þarf hún ekki að lifa í óttanum við að aðrir komast að þeim.  Þessi mannvera sýnir hugrekkið við að vera hún sjálf.  Hún þarf ekki að vera í því hlutverki sem er ætlast til af henni. 

Um leið og við erum við sjálf,  þá erum við að samþykkja okkur en ekki afneita okkur.  

Það er afskaplega ríkt hjá okkur að leita í hlutverk. 

Spurningar vakna: 

"Tekur einhver mark á mér ef ég er ekki í hlutverki" - úff - hvað gerist ef ég fer að vera ég sjálf/ur! 

Við þekkjum flest söguna af Pétri þegar hann afneitaði Jesú, - hann var að verja sjálfan sig. 

Þegar við afneitum okkur, förum í hlutverkið okkar þá erum við að verja okkur - því að í raun erum við að skammast okkar fyrir að vera við. 

"Skammastu þín" - segir aðeins eitt: "Skammastu þín fyrir sál þína" -  Skömm er svo vond vegna þess að hún segir okkur að við séum ekki verðmæt, og við trúum því.  Tökum orðin og tileinkum okkur orðin.  Lifum í skömm yfir þessu og hinu. 

Skömm fyrir að vera of feit, of löt, of leiðinleg, of vitlaus, of vond ....... 

eða ekki nógu mjó,  ekki nógu dugleg, ekki nógu gáfuð ...

Skömminni yfir að vera ekki fullkomin.. 

Brené Brown gerir mikinn mun á að að vera mistök eða gera mistök 

Skömmin gefur okkur þá tilfinningu að við séum mistök 

Alveg frá því við fæðumst þurfum við á snertingu að halda og umönnum.  Barn sem ekki fær snertingu veslast upp, -  

Það sem heldur okkur stundum frá því að þora að vera við sjálf, er oft hræðslan við að missa tenginguna við annað fólk. Hræðslan við höfnun og hræðslan við að einhver elski okkur ekki. 

Það er ekki skrítið þar sem samfélagið er með mælikvarðana;  rétt útlit, rétt hegðun, rétt prófgráða. Fólk sækir verðmæti sitt í það sem samfélagið vegur og metur það með.  Það áttar sig ekki á því að sálin er alltaf verðmæt. 

Þess vegna er alveg óhætt að segja við sig, "Ég elska mig, ég samþykki mig, ég virði mig" - allar sálir eru verðmætar og allar manneskjur því með ríkt manngildi og jafnt" -  en það þýðir ekki að allir geti bara beitt ofbeldi eða framið glæpi og komist upp með það,  því það ber hver og ein manneskja ábyrgð á því sem hún gerir.  

"En hvað segir í Rómverjabréfinu: "Ég skil ekki hvað ég aðhefst, það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata það geri ég." 

Er þetta ekki  bara fjarlægð mannsins frá sálu sinni, frá sjálfum sér? -  Er það ekki syndin/skömmin sem er við völd en ekki maðurinn sjálfur

Hljómar þetta ekki eins og að "vera viti sínu fjær"? -- 

Þegar konurnar koma til mín í námskeið, klárar konur með fullt af upplýsingum sem þær hafa aflað sér í gegnum nám og/eða lífsreynslu - þá segja þær einmitt þetta: 

Ég veit þetta allt en ég geri það bara ekki! ..  Ég fæ mér sykur sem gerir mér illt, - ég borða brauð sem ég blæs upp af, ég borða þangað til að mig verkjar og ég borða mat sem ég fæ mígreni af. 

Af hverju? - 

Vantar ekki einhverja tengingu þarna milli vits og vilja? -  Einhverja framkvæmd sem er sprottin af löngun til þess að gera sjálfri sér gott.  

Af hverju nær viljinn ekki dýpra? 

Getur það verið að hann komi ekki frá kjarnanum, heldur að utan. Sé ekki sannur vilji?

Hvar á lífsleiðinni hófst þessi aftenging við okkur sjálf og hvenær byrjuðum við að óttast það að fá ekki elsku annarra og óttast höfnunina? - Hvenær varð skömmin svona ríkjandi og hvers vegna? - Hver skammaði þig og hvenær fórstu að skammast þín fyrir þig? - Ertu nógu góð/ur?  Er til einhver sem er fullkomin/n? - 

Þurfum við ekki bara öll að koma út úr skápnum sem við sjálf, særð börn, tilfinningaverur, ófullkomið fólk, játast sjálfum okkur og samþykkja og hætta að skamma okkur

 - við erum öll í þeim pakka .. annað er afneitun  

Hvenær fer okkur í alvöru að langa til að vera góð við okkur,  vera þannig góð við okkur að við gefum okkur ekki sígarettu til að sýna góðmennsku í eigin garð, gefum okkur ekki sjúss, nammi eða verðlaunum með mat ... 

... hugsum þetta saman ... 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband