Jólin snúast um fólk

Fyrir nokkrum árum var ég beðin um að flytja hugvekju á Þorláksmessu hjá VÍS. Ég ákvað að reyna að tengja mig við fyrirtækið og hvað það væri að gera, og það tók ekki langan tíma. Kjörorð þeirra á þeim tíma var "Tryggingar snúast um fólk" .. og þá var ég komin með tenginguna.

Auðvitað snúast tryggingar um fólk, og það sem fólki tilheyrir eins og eignirnar þeirra og gæludýr til dæmis. 

En það sem mér fannst gaman að vinna með, var að snúa þessu upp á jólin "Jólin snúast um fólk" .. 

Þau gera það svo sannarlega.  Þau snúast um okkur, að við tökum okkur tíma til að vera með öðru fólki og sinna okkur sjálfum. Ekki bara að vera með nýja klippingu (þetta segi ég vegna þess að ég gleymdi að fara í klippingu) heldur að gefa okkur tíma og okkar nánustu. 

Á mínu heimili var það siður að setja ekki upp jólatré fyrr en á aðfangadag og það var lokað inn í stofu.  Ég hef kannski verið svona tíu ára gömul þegar ég stalst einu sinni inn í stofu, settist niður í sófa og horfði á ljósin á jólatrénu. Að öðru leyti var dimmt í stofunni. Hátíðleikinn sem ég fann í þögninni, friðnum og ljósunum situr enn í hjarta mér.  Sem barn var ég farin að átta mig á því hvað þessar yfirveguðu stundir skiptu miklu máli. Tíminn sem við gefum okkur til að horfa á ljósin, anda rólega og njóta stundarinnar. 

Ég er enn eins og þetta barn. Í dag setti ég upp jólatréð mitt og jólaljósin, og finnst enn einhver sérstök stemmning við að horfa á ljósin. 

Á morgun, Þorláksmessu, er ég með opið hús fyrir vini og vandamenn og á aðfangadag verðum við fjórtán manns í mat. Ég gæti ekki verið glaðari. Jú, kannski smá glaðari ef að barnabörnin mín væru hér líka, en ég veit að dóttir mín, tengdasonur og barnabörnin tvö eru hamingjusöm og sátt og það er nóg fyrir mig, þ.e. að vita að þeim líður vel erlendis. Úff fékk nú smá "sakn" tilfinningu þegar ég skrifaði þetta, en það er samt satt. 

Jólin mín snúast um fólk. Ég er ekki blind á að það eru ekki allir svona lánsamir eins og ég. Ég veit hvað það er að vera einmana á jólum og ég veit hvað það er að vilja taka svefntöflu fyrir jól og vakna eftir áramót þegar allt er yfirstaðið.  Ég hef verið í þeim sporum.  Ég tók meðvitaða ákvörðun í upphafi desember að þessi aðventa og þessi jól ætlaði ég ekki að fara í þann gír og það tókst. 

Hugur minn leitar vissulega til fólksins sem á erfitt um jólin, fólks sem var að missa - hvort sem var í dauðsfalli eða við skilnað. Fólks sem er í neyslu ogaðstandenda þeirra. Fólks sem er fátækt og getur ekki gefið gjafir, a.m.k. ekki veraldlegar gjafir. 

Öllu þessu fólki langar mig að biðja Guð að lýsa og umvefja. Ég er bara mennsk og ræð bara við mig og mína, ég hjálpa engum með því að láta mér líða illa.  Við sem eigum eitthvað aflögu, aflögu af ást, hlýju, samúð eða peningum þurfum að muna eftir þessu fólki og gefa þar sem við getum gefið. 

Við getum gefið fólki bros, hlýtt viðmót og stuðning. 

Það er góð regla að ákveða að vakna á morgun, og reyndar alla daga og gefa meira en nokkur manneskja væntir af okkur. 

Í dag lögðum við dóttir mín á bílastæði í miðborginni, borguðum gjald og fórum í búð. Vorum sneggri en við áttum von á, dóttir mín kvaddi og sagði um leið - "nú getur þú gefið einhverjum miðann" ..  Ég bakkaði út úr stæðinu og annar bílstjóri kom akandi í stæðið.  Ég minntist orða dótturinnar og stökk út úr bílnum og rétti manninum miðann og sagði honum endilega að nota, því það væri langur tími eftir.  Maðurinn varð mjög þakklátur og brosti sínu breiðasta, og ég eiginlega enn þakklátari fyrir að hafa getað gefið og þegið bros í staðinn.

Þetta er bara örlítil dæmisaga, hvernig við getum gefið í hversdagsleikanum. Ég á enga betri upp í erminni núna,  en svona sögur er gaman að búa til á hverjum degi - og kannski þar sem meiri er þörfin. 

Molar eru brauð,  og ef við gefum marga mola erum við farin að útdeila brauði. 

Enn á ný er ég búin að blogga allt of langt blogg, en þetta er það sem mig langaði að segja svona um jólin og fólkið.  

Gleðileg og hjálpsöm jól kæru vinir, vandamenn og þú sem lest, þetta Smile er tileinkað þér.  Takk fyrir að vera til, því að það er ekkert gaman að skrifa bara fyrir sjálfa mig! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Jóhanna.Þín skrif eru aldrei of löng.Mér hefur oft fundist,að ég hafi gleymt stað og stund,við að lesa þau.Þú færir oft huga manns að gömlum minningum.þá opnast fyrir manni hugur um þá daga,sem maður hefur lifað á langri ævi.Allar minnigar um samferðafólk og ættingja,sem er farið yfir móðuna miklu.

Aldrei gleymir maður jólunum.Þau rifjast upp ,er maður var barn og gekk í kringum jólatré,sem var skreytt með logandi kertum.Einnig á lífsleiðinni er maður hélt jól út á sjó,og hugsaði til fjölskylduna heima.

 Jóhanna,sem og aðrir blogg-vinir gleðileg jól,og njótið þess,sem Guð gefið.

Ingvi Rúnar Einarsson, 23.12.2009 kl. 00:56

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku vinkona mín, takk fyrir smá grát sem kom fram við að lesa þennan pistil þinn, það er gott að minnast eldri jóla og svo gott að heyra þig segja þetta með molana auðvitað eru þeir brauð og við getum gefið þá svo marga.
Já bara svona bílastæðamiði kemur hlýunni inn og allir eru glaðir.

Tek undir með Ingva Rúnari þú getur aldrei skrifað of langa pistla ég les þá stundum aftur og aftur.
Það eru breyttir tímar í dag þó erfitt sé í ári hjá mörgum, en ég man árin eftir stríð þá átti fólk ekki fyrir mat og ég ætla svo sem ekkert að rifja það upp, enda upplifði ég það aldrei, en vissi vel af því í kringum mig, svo fólk má bara þakka fyrir í dag.

Kærleik elskuleg
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.12.2009 kl. 09:15

3 identicon

Jóhanna frá Sólvöllum,

þín hvíta list 

af stofni 

laðar fram hið góða vín

og svalar þyrstum  

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 09:59

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þið eruð ekkert smá frábær, hvert með sínu lagi. Ég verð víst lítið í athugasemdunum í dag,  er að elda, klára að taka til og undirbúa gestakomu!

Er að kafna úr hangikjötslykt/ilmi, en sonur minn og tengdadóttir gáfu mér heimareykt norðlenskt hangikjötslæri sem nú er í eldun! 

Takk Ingvi Rúnar fyrir þín fallegu orð.

Takk Milla fyrir kærleika þinn, sem enn er án landamæra.

Takk Ólafur fyrir einstaklega fallegt ljóð. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.12.2009 kl. 11:54

5 identicon

Takk sömuleiðis Jóhanna... nú hvílir maður bloggið í smá stund og kíkir á jólin..

ég óska þér og fjölskyldunni friðar og gleði með hækkandi sól   

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 13:17

6 Smámynd: Ragnheiður

Gott að lesa og gott að njóta friðar hér. Kem einmitt svolítið barin á sálinni eins og er en það lagast víst.

Minnir mig á með stöðumiðanum, ég gerði þetta í sumar, sá eldri mann vera að leggja en var sjálf á leið í minn bíl en mitt erindi hafði tekið svo stuttan tíma. Ég bankaði í rúðuna, maðurinn var varkár á svip þegar hann skrúfaði niður en viðmótið breyttist mikið þegar ég sagði honum að nota frekar stæðið sem ég væri að fara úr, hellingur eftir á mælinum. Manni hlýnar sannarlega um hjartað....

Best að skila sorginni af mér mín megin...jólablús

Ragnheiður , 23.12.2009 kl. 18:00

7 identicon

Sæl Jóhanna.Ég þekki þig ekkert.Ég "commenta"heldur aldrei, en ég les og ég les.....!En nú kom að því að ég verð að segja ,takk.Takk og gleðileg jól.Og svo brosi ég...

Jonni (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 00:05

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ólafur, sömuleiðis óska ég þér og fjölskyldu þinni friðar og góðrar jólahátíðar.

Ragga mín, ég vildi að ég gæti tekið eitthvað af þinni byrði og borið fyrir þig, en svoleiðis virkar það víst ekki. Mér þykir orðið mjög vænt um þig, þó kynnin séu ekki mikil. Þykir vænt um að ganga í lopapeysu sem ÞÚ þessi sterka og duglega kona hefur prjónað.  Knús á þinn jólablús. 

Sæll Jonni, takk sömuleiðis fyrir að "commenta" og lesa ;-) Gleðileg jól og gleðilegt bros...

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.12.2009 kl. 00:14

9 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Það er alltaf svo notalegt að lesa hérna hjá þér

Óska þér og fjölskyldu þinni innilega Gleðilegra jóla mín kæra og farsældar og friðs á nýju ári

Jónína Dúadóttir, 24.12.2009 kl. 06:26

10 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

Gleðilega hátíð :)

Sigvarður Hans Ísleifsson, 24.12.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband