Tólf einkenni þess að við séum andlega vöknuð! ..

 

1. Aukin tilhneyging til þess að leyfa hlutunum að gerast í stað þess að láta þá gerast. -

Þarna er stóra sögnin "að leyfa" – því merkilegt nokk, þá erum það VIÐ sem erum að hindra. –  Við erum oft að taka fram fyrir hendurnar á æðra mætti/almætti/guði – eða jafnvel bara veröldinni. –  Þarna þurfum við að láta af stjórnseminni,  þörfinni fyrir að vita „hvað næst“ – eða sjá fyrir horn.  Lifa í trausti þess að það sem verður, verður og hætta að stoppa það, – „stop having faith in fear“ – eins og einhver orðaði það. -

Bítlarnir sungu:   Let it be ..

2. Aukin „brosköst.“

Þegar okkur fer að líða betur,  þá brestum við jafnvel í söng eða hlátur af minnsta (engu?) tilefni. –  Gleðin kemur innan frá,  gleðina þarf ekki að sækja út á við,  svo af hverju ekki að brosa?

3. Tilfinning fyrir því að vera tengd öðrum og tengd náttúrunni.

„Við erum öll eitt“ .. allt sem lifir og hrærist er tengt – Það er hægt að lesa um það hjá vísindamönnum og hjá andlegum leiðtogum. –  Við komumst nær sjálfum okkur í samskiptum við fólk og í umgengni við náttúruna. -

„The beauty of a living thing is not the atoms that go into it but the way the atoms are put together.  The cosmos is also within us.  We’re made of star stuff, we are a way for the cosmos to know itself.“  Carl Sagan (1934 – 1996)

4. Tíðari tímabil yfirþyrmandi þakklætistilfinningar. 

Þegar við förum að átta okkur á því sem við höfum,  oft það sem við álítum sjálfsagt og hversdagslegt þá finnum við til yfirþyrmandi þakklætis og auðmýktar –  Paulo Coelho, rithöfundur segir að ef við kunnum tvö orð á öllum tungumálum týnumst við hvergi í heiminum, orðin eru „Hjálp“ og „Takk“   Leyfum þakklætinu að hellast yfir okkur um leið og við munum að þakka.  Þakklæti leiðir af sér þakklæti.

Við förum að upplifa að hafa nóg og vera nóg og finnum fyrir þakklæti. -

5.  Tilhneyging til að hugsa og framkvæma hiklaust, án þess að byggja það á ótta sem stafar af fyrri reynslu.

Við gætum kannski talað hér um að láta hjartað ráða för, – og við séum að framkvæma af hugrekki,  stíga inn í óttann í stað þess að láta hann stöðva okkur. Við gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum að byggja á e.t.v. útrunnum hugsunum um getu okkar,  þá komumst við aldrei neitt áfram.  Við erum á punkti X og þó okkur hafi ekki tekist eitthvað einu sinni, þurfum við ekki að reikna með að það sé alltaf svoleiðis.

6.  Óumdeilanleg hæfni til að njóta hverrar stundar. 

Þetta er það sem er kallað að lifa í núninu,  sem er eflaust þekktast frá Eckhart Tolle –  „Mátturinn í núinu“ ..   Að njóta staðar og stundar,  vera til staðar í líkama og sál. –  Hæfni til að njóta andartaksins,  en ekki vera að bíða eftir „þá“  „ef“ eða „þegar“ til að njóta. –  Þegar ég verð búin/n að losa mig við X mörg kíló „þá“  get ég notið mín,  eða  – „ef“ ég kemst á ströndina með rauðvínsglas og horfi á sólarlagið, „þá“ …   Njótum okkar núna. –  Njótum hvers andartaks í ferðalaginu.
Þegar við erum farin að fara „úr skaftinu“ upplifja gremju út í einhvern eða einhverja erum við komin fjarri okkur. –  Þá sækjum við okkur sjálf og komum aftur heim til okkar.

Fortíðin er liðin tíð,  svo LEYFÐU henni að fara.  Framtíðin er leyndardómur, svo LEYFÐU henni að koma.  Nútíðin er andartakið núna – Taktu við því, þér er rétt þessi gjöf andartaksins. –  Til að njóta gjafarinnar,  er gagnlegt að losa um allan ótta (byggðan á fortíð) og áhyggjur (byggðar á ímyndaðri framtíð) ……  andaðu djúpt, veittu andanum athygli og vertu. -

Verum viðstödd  „Be present.“

7.  Við missum hæfileikann til að hafa áhyggjur.

Áhyggjur og kvíði eru hættulegri heilsu okkar en flest annað.  Þess vegna er þessi hæfileiki að geta verið áhyggjulaus mjög mikilvægur. –  Ég stóð sjálfa mig að því um daginn að hafa áhyggjur af því að hafa ekki áhyggjur!  Ætli það sé ekki gamla forritið sem segir mér að það sé kæruleysi?    En við hjálpum engum með áhyggjum og síst okkur sjálfum. –  Áhyggjur eru bæn – með öfugum formerkjum. Í stað þess að senda áhyggjur okkar í ástvini þá sendum þeim kærleika og ljós. –  Það sama getum við gert fyrir okkur, umvafið okkur í ást og traust og leyft góðu hlutunum að gerast í friði og þegar við losnum við áhyggjur og kvíða,  þá slökum við betur á og eigum auðveldara með að taka eftir tækifærunum. – Ef við hlaupum um, tætt eins og hauslausar hænur,  sjáum við ekki neitt. –  Tækifærin fara framhjá okkur. -

Leyfum okkur að trúa að við séum heppin. – eða eins og kúrekinn í söngleiknum Oklahoma syngur:   „I have a wonderful feeling everythings´s going my way.“ -

8.  Missum áhugann á deilum. 

Við tökum ekki þátt í deilum og stríði,  – deilur leiða af sér deilur, stríð leiðir af sér stríð. –   Tökum elskuna og Bítlana  á þetta aftur:  –  „All you need is love“ ..

„Because the twentieth century was a century of violence, let us make the twenty-first a century of dialogue.“ Dalai Lama

9.  Minnkandi áhugi á að túlka það sem hinir eru að segja og gera.

Þetta þýðir að við erum að komast í okkar eigið höfuð, en erum ekki í höfðinu á hinum. – „Hvað ætli þessi sé að hugsa?“ –  Og ef við fáum augngotur,  eða einhver segir eitthvað – jafnvel að við fáum ekki svar í tölvupósti. – Þá förum við ekki að túlka það sem höfnun, ádeilu, afneitun eða eitthvað neikvætt. –  Við leyfum fólki bara að hafa sína svipi fyrir sig, – en förum ekki í túlkun á því, eða jafnvel að umorða eða leiðrétta viðkomandi. -

10.  Minnkandi áhugi á að dæma aðra.

Dómharka er þroskaleysi. – Í þroskasálfræðinni er kennt að þeir sem eiga auðveldast með að setja sig í spor náunga síns,  án þess að dæma, sýni frekar skilning og samhygð og  eru þar af leiðandi  komnir á hærra þroskastig.   Þarna er um ákveðið umburðalyndi að ræða.  "Dæmið ekki svo þér munuð ekki dæmd verða" – Við getum haft okkar álit, og eigum aldrei að samþykkja ofbeldi,  því ofbeldi er ekki kærleikur, –  en við getum líka skoðað orsakir,  hvað er á bak við? –  Hvað ef við sjálf hefðum alist upp við sömu aðstæður og værum sett í sömu spor?

Samhugur er andstæða dómhörku.  Fordómar eru fáfræði, svo lítum í eigin barm áður en við beinum fingri að náunganum. –  Við þurfum ekki að samþykkja vondar gjörðir og eigum ekki að gera það.  En við getum mætt öllum með skilningi og elsku. –  Gott dæmi um það er nunnan í myndinni "Dead man walking."

Fangelsisprestur var eitt sinn spurður hvernig hann gæti umgengist níðinga. – Hann svaraði: "Ég sé þá fyrir mér sem barnið sem þeir voru einu sinni."

11.  Minnkandi áhugi á dómhörku í eigin garð.

Dómharka í eigin garð er eitt af því sem heldur aftur af okkur,  býr til innri viðnám, hindranir og þröskulda. –  "Hver heldur þú að þú sért?" –  „Þú getur ekki“ –   Þegar við gerum mistök, þá í staðinn fyrir að dæma okkur og berja niður, höfum við samhygð með sjálfum okkur, -  þá spyrjum við okkur:  hvað get ég gert betur? –  Hvað gerði ég rétt? ..  Hvað gerði ég rangt? ..  og þannig leiðréttum við okkur,  bætum ofan á það sem við gerðum rétt en tökum út hið ranga. – Við verðum líka að læra að fyrirgefa sjálfum okkur.  Vera okkar besti vinur eða vinkona og muna eftir okkar innra barni.

Skömmin brýtur alltaf niður, svo ef við viljum bæta okkur þá þýðir ekkert að skamma sig.  Skömmina upplifum við þannig að við skömmumst okkar fyrir okkur sjálf.  Að iðrast gjörða sinna er annað, og fyrir það getum við fyrirgefið okkur. – Skömmin minnkar við tjáningu, þess vegna verðum við að yrða hana,  tala um hana og hreinsa þannig út. -

Ekki dæma þig. –   Bara segja frá.

12.  Að tileinka sér að elska án þess að vænta einhvers til baka.

Þetta má kalla skilyrðislausa ást.  Leyfa sér að elska án endurgjafar og án væntinga.  Leyfa sér að njóta þess að finna fiðrildin í maganum vakna án þess að óttast höfnun. –  Við getum elskað vini, fjölskyldu,  félaga, maka,  ástin/elskan/kærleikurinn hefur ýmsar birtingarmyndir. –  En við segjum ekki "Ég elska þig EF ÞÚ ELSKAR MIG" …. "eða ég elska þig ef þú ferð út með ruslið" …  Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir foreldra, þ.e.a.s. að láta börn sín vita að þau séu elskuð eins og þau eru,  – ekki bara fyrir það sem þau gera, – þannig læra þau líka að elska sig og virða, skilyrðislaust. -

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka kærlega fína pistla hjá þér upp á síðkastið. Eitt sem mér finnst vanta í þekkinguna hjá almenningi og umræðuna er um siðblindu. Áttu til efni í bankanum sem þú getur komið með hér inni og varðar siðblindu. Hver eru helstu einkenni siðblindu, hvernig má þekkja siðblint fólk úr og hvaða leiðir eru til fyrir fólk að forðast slík óféti.

HK (IP-tala skráð) 13.10.2014 kl. 19:07

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka fyrir endurgjöfina. Ég hef svolítið pælt í siðblindu, - en er ekki sérfræðingur á því sviði. Mér finnst eins og við séum flest á einhverju "rófi" -s.s. meðvirknirófi, siðblindurófi o.s.frv. - og við vonandi getum unnið í þessu með okkur sjálfum. En svo eru þá væntanlega þeir sem eru 100 Prósent siðblindir, - og þeir sjá þá aldrei neitt að hjá sjálfum sér svo það verður aldrei neitt hægt að laga! ..

Skoða þetta.

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.10.2014 kl. 14:06

3 identicon

thank you johanna for sharing your thoughts what you say in the 12 einkenni is so true i admire people like you who speak the truth so gracefully i do realise that its a sinn to fear and i fear nothing and no one exept our creator. but feel its my responsability to shed light on the blind,thats the least i could do, best wishes Deane.

Deane Júlían Scime (IP-tala skráð) 16.10.2014 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband