Feður, dætur og fyrirgefningin ..

Hugvekja skrifuð að morgni dags 16. október 2013.

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, - og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? -   Hvað ef að einhver deyr og sátt hefur ekki verið náð? 

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. -  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. -

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. -

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. -

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum - er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? -   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  - þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er "The Blaming Game." -

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

Ég missti föður minn sjö ára gömul, - mikið vildi ég óska að ég hefði mátt lifa með honum,  ég missti dóttur mína á þessu ári, mikið vildi ég óska að ég hefði mátt lifa með henni. - 

Prestur getur hjálpað í milligöngu - prestur sem hefur skilning, þroska og lífsreynslu.  Prestur sem veit hvað RAUNVERULEGA skiptir máli.  -

 Það er m.a. ástæðan fyrir köllun minni til prestsþjónustu.

n1045957538_511832_1179384

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, þetta er frábært hjá þér, eins og alltaf.

Við fyrirgefum ekki með því að samþykkja, við fyrirgefum með því að sleppa takinu. 

Hörður Þórðarson, 16.10.2013 kl. 19:03

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir Hörður. -

Jóhanna Magnúsdóttir, 17.10.2013 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband