Upp, upp mín sál og allt mitt geð, - úr kviksyndi neikvæðra tilfinninga og hugsana. -

Stutta útgáfan af pistlinum:

1) Slepptu tökunum af neikvæðum hugsunum sem sökkva þér dýpra í kviksyndið,  hættu að hugsa þig niður.

2) Klifraðu upp með jákvæðum hugsunum,  farðu að hugsa þig upp.

3) Haltu við jákvæðninni með því að gera það að nýjum sið. 

Og svo lengri útgáfan:

Ég rifjaði upp kynni mín af bókinni, “Women who think too much” – en systir mín lánaði mér hana eða gaf, nú man ég ekki hvort, fyrir mörgum árum síðan. – Hvers vegna skyldi það nú vera? – ;-)

Það er ekki neikvætt að hugsa mikið, rökrétt eða djúpt svona almennt talað, en þegar hugsanirnar eru farnar að snúast um: “Hvað ef?”  áhyggjur af því sem kannski aldrei verður og niðurbrot eru þær farnar að vinna gegn þér.  Það er þegar við erum farin að hugsa t.d. samtöl fyrirfram,  eins og sagan sem margir þekkja um manninn og tjakkinn. -

Þó bókin sem ég minntist á í upphafi fjalli um konur sem hugsa of mikið, þá á það svo sannarlega við um karla líka eins og hann Lárus:

Lárus var á ferð upp í sveit og lenti í því að það sprakk dekk á bílnum. Það var leiðindaveður og þegar hann ætlaði að skipta um dekkið uppgötvaði hann að tjakkinn vantaði.

Nú voru góð ráð dýr! Lárus ákvað að ganga að næsta bæ til að fá lánaðan tjakk. Afleggjarinn heim að bænum var nokkuð langur og hann fór að hugsa. Fyrst fór hann að velta fyrir sér hvort einhver væri heima og ef einhver væri heima hvort það væri til tjakkur á bænum. Það var komið kvöld og hann hafði áhyggjur af því að hann myndi vekja heimilsfólkið og bóndinn yrði pirraður því hann þyrfti að vakna snemma um morguninn til að fara í fjósið.

Þessar hugsanir ollu því að það var orðið nokkuð þungt yfir Lárusi og hann bjóst við slæmum viðbrögðum af bóndanum. Hann var sjálfur orðinn pirraður og neikvæður. Bankaði samt á dyrnar og í dyrunum birtist bóndinn. Áður en bóndinn náði að spyrja erindis, hreytti Lárus út úr sér: „Þú getur bara átt þinn helv…. tjakk sjálfur!“ –

Þetta var dæmi um neikvæðan hugsanagang, en hann getur birst í svo mörgum myndum.-

Hugsanir eins og “Ég á þetta ekki skilið” – “Hvað þykist ég eiginlega vera” – “Jeminn, hvað fólki á eftir að finnast ég mikið fífl”  – “Mér tekst aldrei neitt” -   “Hvað eins og að þýði eitthvað fyrir mig að lesa pistil, ég tileinka mér aldrei neitt gott!” .. grafa okkur dýpra ..  

Þegar við upplifum að við erum stödd á þessum stað, að við séum hreinlega að sökkva,  þurfum við að átta okkur á því að það eru hinar neikvæðu, útrunnu og skemmandi hugsanir sem hafa þessi áhrif. 

En – Hvað get ég gert? -  Horft til himins? – ´eins og svarað er svo skemmtilega í ljóði hljómsveitarinnar Nýdönsk? -

Bölmóðssýki og brestir
bera vott um styggð.
Lymskufullir lestir
útiloka dyggð.
Myrkviðanna melur
mögnuð geymir skaut.
Dulúðlegur dvelur
djúpt í innstu laut.
Dvelur djúpt í myrkviðanna laut.
Varir véku að mér
vöktu spurnir hjá mér.
Hvað get ég gert?
Horfðu til himins
með höfuðið hátt.
Horfðu til heimsins
úr höfuðátt.
Bölmóðssýki og brestir…
Heyrðu heimsins andi
harður er minn vandi.
Hvað get ég gert?
Horfðu til heimsins
berðu höfuðið hátt.
Horfðu til heimsins
úr höfuðátt.

Og það eru til fleiri góðir textar …

Mamma vakti okkur krakkana á morgnana með fyrstu línunni úr passíusálmi Hallgríms Péturssonar:

“Upp, upp, mín sál og allt mitt geð” …  

Við verðum að sleppa tökum á neikvæðu hugsununum, horfa upp en ekki niður.  

Það getur verið snúið að hætta í neikvæðninni, þegar við áttum okkur á að við erum komin í kviksyndið, – við gætum farið að ásaka okkur fyrir klaufaskapinn,  skammast okkar o.s.frv.  en það sekkur okkur að sjálfsögðu enn dýpra. -

Því er mikilvægt að sætta sig við ástandið, – ekki dæma sig, heldur fyrirgefa,  og ef að neikvæðar hugsanir sökkva okkur, þá hljóta þessar jákvæðu að koma okkur upp! - 

Við getum líka séð þetta eins og við séum nagli í spítu, og við berjum okkur sjálf í hausinn með hamrinum með neikvæðninni eða veljum að nota hamarinn á jákvæðan hátt og togum naglann lausan. -

Þegar við erum laus,  má ekki hætta í viðhaldinu! -

Við höfum val hvernig við nýtum hamarinn,  til góðs eða ills. -

Þessi pistill er skrifaðu á föstudaginn langa, – en þá minnumst við þess að Jesús var krossfestur,  en á páskadag fögnum við upprisu Jesú Krists til eilífs lífs. -

Hvernig væri að þú leyfðir þér að gleðjast yfir þínu eigin lífi og fagna þinni eigin upprisu, sem er reyndar í boði á hverri einustu sekúndu, hverri mínútu, hverjum tíma og hverjum degi og byrja hvern dag með þessum orðum skáldsins:

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð” ..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Tek heilshugar undir þínar jákvæðu hugleiðingar. Upp upp mín sál.... ég hef miklar mætur á því!!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.4.2012 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband