Arachnophobia

Ég hef ekki verið mikið eldri en tveggja ára þegar ég sat í makindum í sandkassa upp í Lindarbrekku, sumarbústað stórfjölskyldunnar, dundaði mér með skóflu og fötu og átti mér einskis ill von, þegar að eitthvað hljóð truflaði mig og var litið upp og ein af fjölmörgum beljum sem höfðu lagt á sig leiðangur frá Laxfossi, ákvað að reka út úr sér tunguna framan í mig.

448_belja.jpg

Orgið hefur heyrst hátt, því að föðursystir min kom hlaupandi út mér til bjargar, en fullorðna fólkið var inni að drekka kaffi.

Síðan hefur mér alltaf staðið stuggur af beljum, - í leikjum mínum síðar sem barn í Lindarbrekku, þar sem ég gekk um berfætt og þóttist vera villibarn í skógi, voru beljurnar "óvinurinn" sem ég faldi mig fyrir.  

Ég hef því t.d. alltaf verið hræddari við beljur en kóngulær.  Kóngulær hafa aldrei skipt mig máli, mér finnst þær ekkert endilega huggulegar og svo horfði ég á myndina um Karlottu kónguló og fór meira að segja að þykja svolítið vænt um þær.

Nýlega varð ég vör við hlussukóngulær, en það var þegar ég var að sópa bak við ruslatunnurnar á veröndinni í húsi dóttur minnar í Danmörku, en meira að segja þær vöktu engin svakaleg viðbrögð.

spider.jpg


Ég er því augljóslega nokkuð laus við kóngulóarfóbíu, eða arachnophobia.

Árið 1990 kom út mynd með því heiti og ég hafði heyrt svaklega lýsingarorð yfir því hvað þessi mynd væri ógeðsleg þar sem kóngulær væru bókstaflega út um allt.  Ég ákvað að leigja hana einhverjum árum eftir að hún kom út, það var á tímum vídeóspóla, að sjálfsögðu!

Ég komst klakklaust í gegnum myndina, án mikilla tilfinningasveiflna eða ógeðs og gortaði mig svo af því að hafa fundist lítið til um þetta, hún hefði engin áhrif haft á mig, þetta væri sko bara bíómynd!   

Annað kom í ljós.

Þegar ég hafði burstað tennur og var á leið í háttinn fann ég eitthvað stórt og loðið skríða niður eftir bakinu og ég gjörsamlega trylltist í einhverjar sekúndur, - sá svo hvar hárbandið mitt hrundi í gólfið,  hárbandið sem hafði losnað úr hnút sem ég hafði bundið í hárið.   

Arachnophobia hafði þá haft sín áhrif eftir allt, þó ég hefði ekki gert mér grein fyrir því, þá var það komið inn í undirmeðvitundina þessi ógeðslega tilfinning fyrir skríðandi kóngulóm út um allt.

Ég hef oft hugsað út í þessa upplifun í sambandi við það efni sem á borð er borið fyrir okkur í fjölmiðlum, um tölvuleiki og annað.

Hvað vitum við um þessi utanaðkomandi áhrif, hvað skemmir og hvað síast inn án þess að við höfum hugmynd um það? ...
Kóngulóarmyndin hafði ekki langvarandi áhrif, eins og sést í innganginum, enda svo sem ekki "endurtekið efni" en spurning hvernig það sem er margendurtekið hefur áhrif.  Ofbeldistölvuleikir- og kvikmyndir, fjölmiðlaefni og fleira sem dynur á daginn út og daginn inn.

Það er merkilegt að pæla í því hvað við tökum inn og hvað ekki, hvað er "prógrammerað" inn í okkur, án þess að við höfum hugmynd um það! 

 

violent.jpg Auðvitað spretta þessar hugleiðingar að hluta til upp, vegna þeirrar mannvonnsku sem við höfum verið að upplifa undanfarið.  Mér er hugsað til þess hvernig að fallegt ungabarn verður að grimmum slátrara. 

Hver er hans leið, hvað stillti heilann á hatur og dráp? 

Hvað er verið að næra með ofbeldinu sem upp á er boðið og fólk kaupir sig inn á?  Ekki bara unga fólkið, heldur við öll. 

Við höldum að það hafi ekki áhrif,  þetta séu bara bíómyndir með blóðsúthellingum og það snerti ekki við okkur. 

 

Eckhart Tolle kallar þetta "To feed the pain body"  að næra sársaukalíkamann, - þörfina fyrir að taka inn eitthvað vont. 

Ég ætla ekki að kafa dýpra í þetta að sinni, langar bara til að vekja til umhugsunar um þá "næringu" sem verið er að taka inn, taka inn úr umhverfinu og mikilvægi þess að velja og hafna. Bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf, börnin eru oft sem ómótaður leir - og því viðkvæmari og þarf að fara með þau sem slík. 

sun-salutation.jpgSet hér inn eina fallega sem mótvægi við blóðsúthellingamyndinni að ofan! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð pæling, sem ég er mjög sammála um.  Hafðu það sem best og nærum það góða í okkur, það er betra.

Ásdís Sigurðardóttir, 29.7.2011 kl. 11:57

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásdís mín, tökum inn holla næringu!

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.7.2011 kl. 15:22

3 Smámynd: Dagný

Góður pistill. Ég reyndi að horfa á hryllingsmyndir á menntaskólaárunum, til að vera eins og hinir, en þær fáu sem ég sá höfðu varanleg og skemmandi áhrif á mig. Þegar börnin mín fóru svo að suða um að sjá "bannaðar" myndir þá dró ég þessa reynslu upp úr farteskinu. "Allt sem þú sérð greypist í huga þér og dúkkar upp þegar síst skyldi, þegar þú ert einn, þreyttur eða hræddur." Það segir mér enginn að bíómyndir og tölvuleikir hafi ekki áhrif á huga og hugmyndir fólks.

Dagný, 29.7.2011 kl. 23:50

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Dagný, - við erum sammála!

Jóhanna Magnúsdóttir, 31.7.2011 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband