Hvar varst þú 17. júní árið 2000? ...

"Er allt í lagi hjá þér"  en þannig hljómaði áhyggjufull rödd tengdó í símanum þennan sérstaka dag í lífi Íslendinga, - og ég skildi ekki hvernig að hún vissi að eitthvað hefði komið fyrir mig.  Hún sem var stödd í öðrum hluta Hafnarfjarðar og ég hinum! ... var hún næm? skyggn?

 "Fannstu ekki skjálftann" ?  .. Ég fór að átta mig, um leið og ég sá að bókastafli sem var á gólfinu var hruninn.  "Ó, var þetta jarðskjálfti?!!... "

Körfubílar minna mig á Stóra skjálftann 17. júní árið 2000.  Það var s.s. árið sem ég málaði húsið mitt að utan. Þetta hús var ekkert lítið hús, heldur hús á þremur hæðum og stóð í brekku þannig að hæðin, svona a.m.k. í aðra áttina virkaði mun meiri. 

Þáverandi var í flugi og unglingarnir flognir í bæinn að halda upp á 17. júní með vinum sínum,  en það var á því æviskeiði þeirra sem félagsmótunin fer meira í gegnum jafnaldra en foreldra, svo mamman sem er haldin smá 17. júní mannfjöldafóbíu, naut þess að vera ein heima vopnuð penslum og málningarrúllu. 

Ég var sem sagt stödd  í hæstu mögulega stellingu á græna skrímslinu, en það var svona körfubílsgræja sem lyfti manni (og konu í þessu tilfelli) í hæstu hæðir.  Útsýnið yfir Hafnarfjörðinn var gífurlegt.  Ég þurfti að kyrja nangjila sam súm eitthvað til að byrja með til að róa mig í lofthræðslunni, en gleymdi henni svo við nautnina að mála. (málningarblæti hvað?)

En eins og hendi væri veifað,  fór græjan að skoppa og hoppa þarna niðri á jörðinni og konan í körfunni hristist og skoppaði og úr hendi hennar hristist málningarkústurinn og féll marga, marga metra niður á jörðina.  Ég hélt sem sagt að tækið væri bilað eða jafnvel andsetið og væri ákveðið að hrista mig úr körfunni. 

Ég hentist niður á gólf körfunnar og teygði hendina skjálfandi í gula takkann til að lækka (hækkun var ekki boði, enda komin í hæstu mögulegu stellingu) og hægt og rólega komst ég til jarðar aftur.  Sjaldan hef ég verið eins þakklát fyrir móður jörð og þann daginn, en svo hentist ég skjálfandi inn í hús og þá hringdi síminn. "Er allt í lagi hjá þér?" ...

gi17k42f.jpg

 


mbl.is Manni bjargað úr körfubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagný

Sautjánda júní 2000 stóð ég á tjarnarbakkanum við tjörnina í Reykjavík með 12 ára dóttur minni og litlu stelpunni sem hún var að passa. Við héldum fyrst að einhver hefði keyrt svona kraftmikinn bíl inn á grasið  en þegar allir í kring um okkur fóru að halda í hvern annan föttuðum við að þetta var jarðskjálfti. Og ég sagði við stelpuna mína: úr því jörðin skelfur svona hérna niðri í miðbæ Reykjavíkur,  hvernig ætli hafi verið hjá upptökum skjálftans. Og nú er ég flutt á skjálftasvæði - reyndar ekki það sama, en svipað

Dagný, 26.4.2011 kl. 21:39

2 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Hæ Jóhanna, þetta er virkilega áhugaverð saga og innlegg inn í umræðuna varðandi skjálftann sem varð 17. júní 2000. Þú varst kannski svo heppin að fatta ekki einu sinni að 'þetta væri skjálfti.' Ég veit um konu sem var niðri í bæ á 17. júní og fann ekki fyrir þessum skjálfta, og heldur ekki hinum sem kom nokkrum dögum síðar.

Ég man hvar ég var: uppi í rúmi að lesa bók; var sem sagt ekki komin á lappir. En þegar skjálftinn reið yfir, var ég fljót á fætur og ætlaði að flýta mér út úr húsi. En það tók tíma að finna einhver föt ... og svo stoppaði skjálftinn, þannig að maður fór sjálfur að skjálfa. - Eftir þetta, var ég alveg á þeim nótum að flytja í tjald á túristasvæðið við Sundlaugarveginn: var alltaf tilbúinn með lyklana í buxnavasanum á buxunum sem ég skildi eftir við hliðina á rúminu.

Í dag eiga Japanir alla mína samúð. Þeir hafa upplifað hryllilega tíma í þessum stóru skjálftum í Japan undanfarið.

En þegar stór skjálfti reið yfir hér á landi í hitteðfyrra (eða hvenær var þetta), þá vildi það þannig til að ég kem heim um þrjú leytið, eftir að hafa hjólað gegnum Grasagarðinn í Reykjavík með matvörur sem ég hafði keypt í Bónus í Faxafeni. Ég byrja á því að kveikja á útvarpinu þegar ég kem inn. Enda heill tími og fréttir. Ég hlustaði og hélt að það væri verið að fjalla um skjálftann árið 2000. En svo komst ég að því að það hefði orðið harður jarðskjálti þarna rétt áður. Mér til mikils léttis hafði ég sloppið við að finna fyrir þessum skjálfta, þar sem ég var bara að hjóla heim. En þessi skjálfti kom harður niður í Hveragerði og víðar. ... Úff ... en við þurfum að lifa við þetta: skjálfti eða ekki skjálfti. En ekkert í líkingu við það sem Japanir haf þurft að upplifa undanfarið.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 27.4.2011 kl. 00:18

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég man að þegar jarðskjálftinn á 17. júní 2000 kom, var ég nýkomin heim af 17. júní skemmtun sem haldin var á Eiðistorgi.  Ég og fjölskyldan mín sátum öll í stofunni að horfa á Jurassic park, og risaeðlur voru að koma og svakaleg spenna í sjónvarpinu...  Það lék allt á reiðiskjálfi í sjónvarpinu, þá skalf hjá okkur líka.  Frekar skrítið að mínu mati :)

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.4.2011 kl. 01:25

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir að deila frásögnum ykkar, Dagný, Ingibjörg og Jóna Kolla.  Mín var hálgerð hryllingssaga, a.m.k. á tímabili, þegar ég áttaði mig ekki á eðli málsins. En gott að ekki varð manntjón, en vissulega voru margir hræddir og miklar skemmdir á húsnæði á Suðurlandi. 

Vonandi þurfum við aldrei að upplifa verri skjálfta en þetta. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.4.2011 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband