Og upp reis miðvikudagur ..

Það er reyndar miðvikudagsnótt, en mér finnst gott að hugsa á næturnar. Hugsa reyndar stundum of mikið en það er önnur saga.

Ég hef verið að melta spurningu sem ég fékk í gær, þegar ég var að segja að mér finndist ég ekki nógu góð manneskja. Ætti erfitt með að trúa fólki sem segði eitthvað gott um mig. Ég held þetta gildi um okkur flest. Við erum svo fljót að rífa okkur sjálf niður. 

Í mínu tilviki er það að mér finnst ég hafi klikkað sem móðir á ákveðnum tímum í lífi mínu, t.d. eftir skilnað við föður barnanna datt ég niður í að fókusera alveg á sjálfa mig,  Tjasla sjálfri mér saman og fór á fullt að leita að staðgengli fyrir fyrrverandi maka. (Jafnvel þó ég hafi ekki verið tilbúin í það tilfinningalega). Enda tekur maður þá gömlu viðbrögðin inn í nýtt samband.  Rót komst á líf mitt og barnanna og hef ég aldrei fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki traustara bakland fyrir þau.  Það er minn hælbítur, en hælbitar eru vondir og draga úr manni á lífsgöngunni.  Þess vegna þarf maður að sparka þeim frá sér. 

Ég skrifa þetta hér ekki síst fyrir aðra sem eru í þeirri stöðu að vera að skilja, eða eiga eftir að skilja og eiga börn. Skilnaður er sorgarferli, en foreldrar verða að gera sér grein fyrir því að börnin þeirra eru ekki síður í sorg og þurfa enn meiri stuðning en áður.  Því verður að hyggja að þeim. En auðvitað, eins og í öllum tilvikum þurfa foreldrar að hyggja að sjálfum sér til að hlúa að börnunum.  Bara ekki gleyma sér eftir að þau hafa sjálf sett á sig súrefnisgrímuna. 

Ég hef hlustað á svo marga nemendur sem kvarta undan nákvæmlega þessu, hversu mjög skilnaður foreldra hefur bitnað á þeim og hefur kippt undan þeim fótunum.  

Það verður ekki farið til baka - bara gert það besta úr aðstæðum í dag. Við verðum öll að fyrirgefa sjálfum okkur fyrir fortíðina, ekki naga nútíðina hennar vegna, heldur nota lærdóminn sér og öðrum til uppbyggingar. 

Foreldrar elska yfirleitt börnin sín skilyrðisluaust og þar er ég ekki undantekning. En foreldrar eru ekki fullkomnir og verða aldrei fullkomnir - því að engin manneskja er fullkomin.  Við gerum okkar besta, með þeim náðargjöfum sem við komum með í heiminn.  Þegar við ætlum að fara að bæta fyrir "syndir" okkar göngum við kannski of langt og förum óumbeðin að skipta okkur af eða gera hluti fyrir börnin okkar og stelum af þeim þroska.

Okkar stærsta verkefni í lífinu er að elska okkur sjálf, en við sjálf erum hindrunin.  Við finnum því allt of oft eitthvað til foráttu. Förum í niðurbjótandi tal um að við séum ekki verð okkar eigin elsku.  Það þekki ég.  En eins og áður sagði - að elska sjálfan sig er forsenda þess að elska aðra. 

Þá er ég ekki að tala um sjálfselsku í merkingunni eigingirni, heldur að virða sjálfa/n sig og meta og þykja vænt um sjálfa/n sig. 

Við erum að mínu mati gjöf Guðs til okkar sjálfra og við eigum að meta þessa gjöf og fara vel með hana. Hlúa að henni. Hún er brothætt en um leið dýrmæt. 

Hlúum að börnunum, - hvort sem þau eru börnin okkar eða annarra. Þau eru börn jarðarinnar og á ábyrgð okkar allra.  Þökkum fyrir þessi börn og styrkjum þau til að verða betri og sterkari en við sjálf. Þannig bætum við heiminn. 

"Elskum friðinn og strjúkum kviðinn" - þessa setning kemur beint frá mömmu, og þær eru víst nokkrar þannig, sem koma frá öðrum og sitja í okkur.  Reynum að muna þær góðu. 

En hvaða setning skyldi nú koma frá mínu eigin hjarta? .. 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er rétt Jóhanna mín við gerum öll mistök sem sitja í okkur, en við erum ekkert verri fyrir það.  Við getum yfirleitt beðist afsökunnar og bætt fyrir brotin.  En ekki þegar barnið okkar er farið yfir móðuna miklu og yfir mann koma hugsanir um orð eða athafnir sem hefðu betur verið ósögð.  Það er ótrúlega sár tilfinning, sem ekki er hægt að leiðrétta nema með bæn til viðkomandi engils.  Sem maður veit auðvitað að hefur fyrirgefið allt og elskar mann eins og maður er.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.3.2011 kl. 11:28

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þú ert með þetta Ásthildur mín, ... sonur þinn veit alveg ÖRUGGLEGA hvað þú hugsar og hvað þú elskar hann mikið. Sonur þinn vill að þú sért hamingjusöm og gangir þína lífsgöngu í gleði en ekki í sorg.  Hann fór á undan,  hvarf fyrir horn, en hann er handan við hornið og þangað ferð þú líka ... en ekki strax.  Allt er fyrir ástæðu, eins klikkað og það hljómar og þú ert hér fyrir ástæðu. Þú ert sterk rödd í samfélaginu, vekjandi rödd. Við efumst svo oft um tilgang okkar, en við og við er okkur sýndur þessi tilgangur og þá fáum við vitamín til að halda áfram.  Það er vont að detta í tilgangsleysið, í holuna - en þú þekkir þetta allt.  Ég verð pirruð þegar ég fer í þann gírinn.  

Þakka þér fyrir að nenna að koma með athugasemdir hjá mér - þú hjálpar mér og vildi ekki vera án þín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.3.2011 kl. 07:36

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér finnst gott að lesa pistlana þína Jóhanna mín, þeir eru afar gefandi.  Takk

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2011 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband