11.10.2009 | 03:28
Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut, því Rut hún er svo sönn og góð og Daníel fylltur hetjumóð..
Þennan texta var boðið upp á í sunnudagaskólanum í langan tíma. Kannski sums staðar sunginn enn. Stelpurnar sungu s.s. hlutverk Rutar og strákarnir hlutverk Daníels.
Þessi texti kom í hugann, þegar ég var að reyna í blogginu á undan að útskýra áherslur feminisma og ég tel að fá nenni að lesa svona langt (en þau sem vilja ítarefni geta þó lesið athugasemdir við fyrra bloggið) en tel þetta mikilvægt erindi.
Þessi texti virkar kannski blásaklaus, en þetta er í raun bara brotabrot af því sem við höfum verið að fóðra börnin okkar á sem er til aðgreiningar kynjunum og við með því að setja þau í ákveðin hlutverk. Stundum ósanngjörn hlutverk.
Það er í raun ekkert að því að vera sönn og góð og ekkert að því að vera hetjur. En hvað ef að ekki er staðist undir væntingum? Hér ætla ég að setja aðaláhersluna á strákana, því að menn eiga oft erfitt með að átta sig á hvernig í ósköpunum feminisminn geti unnið fyrir stráka.
Ég hef bent á að 95% þeirra sem eru í fangelsum á Íslandi séu karlmenn. Feminsiminn er ekki að vinna að því hörðum höndum að fjölga konum í fangelsi, heldur að búa karlmönnum þannig heim og viðmið í samfélaginu að afbrotum af þeirra völdum fækki. Feminisminn vinnur ekki að því að konur fari að starfa á "karlmannlegum" nótum, verði herskáari eða ofbeldishneigðari, heldur öfugt.
Hvað veldur því að slagsíðan er eins og hún er í dag? Er það einungis testósterónið í karlpeningnum - eða getum við skoðað uppeldið og væntingarnar sem við gerum til karlmanna? Getum við skoðað meðferðarúrræðin, mættu þau vera mýkri eða öðruvísi en kalt fangelsi þegar menn lenda í vanda? Erum við (samfélagið) í sumum tilfellum að stela meiru af mönnum, jafnvel lífi þeirra, en þeir stela af samfélaginu? .. Getum við gert betur?
Væntingar okkar, enn í dag á 21. öldinni, eru oft ólíkar til stráka en stelpna. Við dæmum oft strákana harðar og tökum mildara á stelpunum. Það sama á við um fullorðna einstaklinga. Karl sem er heimavinnandi er oft dæmdur skrítinn eða latur eða það er eitthvað að honum .. á meðan fæstir dæma konu á sambærilegan hátt.
Pressan og væntingar gerðar til stráka er oft mun meiri en til stúlkna. Þeir eiga að vera hetjur en það er nægjanlegt stúlkunum að vera "sannar og góðar." Strákar sem falla út úr námi líta því frekar á sig sem "lúsera" heldur en stelpur gera, því samfélagið er búið að innprenta þeim ákveðnar væntingar til sjálfs sín.
Stelpur geta verið hetjur og strákar geta verið hetjur. Við erum auðvitað með ákveðnar fyrirframgefnar staðalmyndir líka hvað það er að vera hetja og í gamla testamentisskilningi er það auðvitað að berjast við ljón eða eitthvað álíka.
Í mínum huga er það hetjuskapur að viðurkenna sig eins og maður er. Það er hetjuskapur að standa með þeim sem minna mega sín og það er hetjuskapur að byrgja ekki inni tilfinningar sínar.
Hetjumóður Daníels í dag gæti því falist í því að gráta þegar hann meiðir sig, þegar hann er leiður eða hefur af öðrum ástæðum þörf fyrir að gráta.
Hetjumóður okkar hinna er að viðurkenna karlmenn sem tilfinningaverur og viðurkenna að þeir þurfi ekki að sanna sig á annan hátt en konur.
Við þurfum öll á hetjuskap að halda í dag, hetjuskap til að takast saman hönd í hönd við að berjast við ljón í dag, hrinda þeim úr veginum til þess að við náum öll að blómstra og þroskast á okkar persónulegu forsendum, án tillits til kyns, kynhneigðar, litarháttar o.s.frv.
Verum jafnframt sönn og góð hvar sem við erum stödd í litrófi mannflórunnar
Friður
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:15 | Facebook
Athugasemdir
Rut var öflug kona í tryggð sinni við Naomí, tengdamóður sína, í hugrekki sínu og í trú sinni á Ísraels Guð, þótt af annarri þjóð væri, og hún lagði hart á sig við vinnu. Án dygða hennar hefði enginn Davíð fæðzt (sonarsonarsonur hennar og Bóasar) og enginn Salómon og enginn afkomenda þeirra á konungsstóli í Ísrael og Júda. Sannarlega var hún hetja (alls ekki veiklynd) og réttilega lofuð af Gyðingum og kristnum til þessa dags.
Jón Valur Jensson, 11.10.2009 kl. 04:45
... og allt gengur þetta út á jafnrétti... sama hvaða nafni "ismarnir" nefnast
Jónína Dúadóttir, 11.10.2009 kl. 07:47
Sæl.
Góð grein eins og venjulega.
Kveðja
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 08:13
Þú ert bara frábær, já hetjuskapur var ekki alveg að skilja af hverju ég var svona ánægð með sjálfan mig er ég var búin að blogga í morgun, auðvitað er ég hetja.
Að vera hetja að standa með þeim sem minna mega sín, það getur verið, en ég tel það sjálfsagt og er alin upp í því að allir séu jafnir.
Sönn saga, stelpa gerðist vinkona annarra stelpu, en sú var fátæk og bjó ekki í fínu hverfi, vinkonur hinnar spurðu, ætlar þú að vera með þessari stelpu, hin sagði já, þá sögðu vinkonurnar þá verður þú ekki með okkur og þar við sat.
Flott áhrif frá foreldrum.
Kærleik til þín
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.10.2009 kl. 10:03
Takk öll fyrir góðar athugasemdir. Já, Rut var ekki síður hetja en Daníel og því mætti alveg syngja um hennar hetjuskap.
Milla, það er rétt að það þarf hetjuskap til að standa gegn hópnum í óréttlætinu.
Eigið góðan dag öll og ítreka þakkir fyrir innilitið!
Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 10:25
Ertu fyrst og fremst að tala til kvenna Jóhanna, sem fyrstu og mest mótandi uppalenda barna?
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.10.2009 kl. 12:51
Nei, Svanur - ég er að tala til okkar allra. Allra sem eiga erindi til barna og unglinga. Ég er líka að ræða þarna væntingar til framhaldsskólanema. í nútíma þjóðfélagi tel ég nú - og er er það mín reynsla - að feður séu ekki minni áhrifavaldar í uppeldi barna sinna. Það eru þá oft feður sem hafa verið aldir upp við þessi gömlu gildi, að karlmenn þurfi að vera harðir.
Ég er ekki að hvetja til neinnar linkindar í garð karlmanna, aðeins að við gerum ekki hvarðari kröfur til þeirra en þeir geta staðið undir.
Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 17:09
Þetta er góð grein og þörf Jóhanna. Svanur, ég veit ekki alveg hvert þú ert að fara. Mín börn fengu jafn mikið uppeldi frá mér og frá móður sinni.
Þessi ísmeygilegi kynferðisfasismi er út um allt í samfélagi okkar, ekki sízt hjá þeim sem zkrifa með zetu. En hann er til allrar hamingju í renum.
Sem kennari í yfir aldarfjórðung hef ég séð miklar breytingar verða á framkomu stúlkna, þær eru ákveðnari og hafa meira sjálfstraust en þær eru einnig orðnar líklegri en áður til að slást og vera með "strákapör".
Kynhlutverk þau sem við troðum í börnin eru oftar en ekki byggð á tilbúningi, þau eru skálduð upp af körlum og oft með lítinn grunn í raunveruleikanum. Þannig er t.d. með færslu Svans hér að ofan.
Goðsögnin um hina heimavinnandi húsmóður og hinn útivinnandi heimilsföður er tilbúningur amerísk auglýsingamarkaðs meira en nokkuð annað. Og auglýsingamarkaðurinn er gríðarlega öflugur sem boðberi þessarar skiptingar enn þann dag í dag. Heimildir fyrri tíma, allt fram á 20. öld, sýna alls ekki þessa skiptingu nema hjá efstu lögum samfélagsins. En þar voru einmitt einstaklingarnir sem skrifuðu sögurnar og rannsökuðu samfélagið og mótuðu hugmyndir okkar.
Kynhlutverk á Íslandi á miðöldum eru t.d. miklu flóknari en menn halda. Fjöldi kvenna réri til fiskjar og sinnti engjaslætti, fjöldi karla stóð við eldstónna eða passaði börnin. Samfélagið hafði starfshlutverk og sjálfsagt hafa flest þeirra verið skekkt út frá kynferði, algengara hefur verið að karlar réru til fiskjar svo dæmi sé tekið. En Það var langt í frá að starfshlutverkin hafi verið bundin við kynin.
Það eru íhaldsmenn 20. aldarinnar (og einztaka þurzar lifa enn fram á þá 21.) sem hafa búið til og alið á þessari tvískiptingu lífsins á grundvelli kynferðis. Við þurfum að átta okkur á þessu og berjast gegn því hvar sem við getum.
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.10.2009 kl. 17:20
Fín grein Jóhanna :)
Þetta var eitthvað sem ég hugsaði oft um sem unglingur enda svo skýrt fyrir börn á þessum aldri þegar þau líta í kringum sig þær mismunandi væntingar sem gerðar eru til kynjanna.
. (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 19:12
Frábær grein hjá þér Jóhanna.
Ég er fiminísti en bara á svo allt annan hátt og hér hefur verið áberandi hingað til. Við þurfum fyrst og fremst að breyta hugsanahætti okkar en á hann vinna ekki á lög og reglugerðir heldur uppbyggjandi sjálfstraust þeirra kvenna sem erfa eiga skulu landið. Á sama hátt má segja að við þurfum um leið að segja karlmönnum að þeirra tilvera sé að engu minna vanfærin þegar í erfiðleika er komið sem og kvenna. Jöfn tillitsemi og sömu væntingar til beggja kynja er lausnin.
Halla Rut , 11.10.2009 kl. 20:44
Klárlega er hér mætt einhver mannvitzbrekka zem að hefur það helzt til málanna að leggja að fólk noti zetu í zínu ritmáli zé minna verðara í zínum athugazemdum en þeir zem að parkérí zínu ýpziloni ókórrétt.
Brynjólfur þezzi verður nú varla einhver forkólfur með einföldun þezzari, & leitt þykir mér til að vita að perzónan zú hafi mázke náð að zpíra einföldum viðhorfum zínum til barna okkar hinna, í aldarfjórðúng, eiginlega.
Steingrímur Helgason, 12.10.2009 kl. 00:39
Steingrímur, ég er nú ekki sammála þér að það sem Brynjólfur hafi helst til málanna að leggja sé ádeila á zetumenn, þó vissulega sé það hluti af hans innleggi. Mig grunar þó að það fylgi ákveðnum zetumanni, og sé þér nokkurn veginn óviðkomandi, enda ekki hægt að segja að þú notir zetuna á hefðbundinn né í haldsaman máta.
En hvað hefur þú til málanna að leggja annað en að krítisera Brynjólf?
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2009 kl. 07:07
þakka annars innlegg frá ykkur öllum sem hafa bæst við; Steingrímur, Brynjólfur, Halla Rut, Jakob Regin og Brynjólfur, ég verð að svara þessu í kvöld þar sem ég er upptekin í útlöndum núna
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2009 kl. 07:47
haha.. 2xBrynjólfur .. svona er að flýta sér hratt ... lestin að fara
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2009 kl. 07:48
Góð hugleiðing Jóhanna mín og ég ætla að hugsa um þetta. Veit vel upp á mig sök að ala upp eftir kyni- það var bara gert umhugsunarlaust..!
Ragnheiður , 12.10.2009 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.