13.12.2013 | 10:10
Undir hamri dómhörkunnar ..
Kona nokkur var mjög leið yfir því hvað uppkomin dóttir hennar kom sjaldan í heimsókn. - Henni fannst dóttirin tillitslaus og eigingjörn. -
Konunni datt ekki í hug að líta í eign barm og hugleiða, "getur verið að ég sé að halda henni frá mér?" - Hvað er það sem ég er að gera sem veldur því að dóttir mín kemur ekki í heimsókn? -
Konan gerði sér ekki grein fyrir því að í þau fáu skipti sem dóttirin kom, byrjaði hún yfirleitt að skamma hana fyrir hversu sjaldan hún kæmi og sendi t.d. á hana "skeytið" um hvítu hrafnana, segir: "Sjaldséðir hvítir hrafnar" - svo að dóttirin var ekki fyrr komin inn úr dyrunum en að skothríðin hófst. - Hamar dómhörkunnar kominn á loft.
Ef þetta á að vera til að dótturinni langi til að koma aftur, er þetta kolröng aðferðafræði, sem virkjar bara samviskubit og vanlíðan.
Eitt af því sem einkennir það að "vakna" til andlegs lífs er að hætta dómhörku, - bæði í eigin garð og annarra.. Í stað dómhörku kemur samhygð og skilningur. -
Í stað dómhörku kemur sátt og kærleikur, og að taka á móti manneskjunni eins og hún er. -
Það er vont að vera nálægt fólki sem er stanslaust með okkur í prófi, er að meta og vega. - Þá förum við að "vanda okkur" og verðum óeðlileg. Er ég nógu góð/ur? - Er ég nógu dugleg/ur? Segi ég eitthvað rangt? Segi ég eitthvað rétt? -
Sérstaklega gildir þetta um okkar nánustu. - Að leyfa þeim að vera eins og þau eru. - Auðtiað þurfa börn uppeldi, en uppeldi í kærleika og það er hægt að segja fólki til án þess að vera í einhvers konar dómarasæti. -
Við þekkjum flest þessa tilfinningu að tipla á tánum í ákveðnum samskiptum eða samböndum. Sveigja okkur og beygja. -
Þessi samskipti geta verið gagnkvæm og eru því bara óeðlileg og hvor aðili fyrir sig kominn í hlutverk í staðinn fyrir að vera hann sjálfur.
Við þekkjum eflaust líka mörg fólk sem getur ekki hamið sig að koma með einhverjar athugasemdir í okkar garð, - stundum eru þær bara þannig að það er sagt með svipbrigðum eða viðmóti.
Á móti getum við orðið ofurviðkvæm og upplifað meiri gagnrýni en í raun og veru er í gangi. - En þá er það yfirleitt vegna þess að gagnrýni hefur verið fyrir. -
Það er gífurlega mikilvægt fyrir börn að vita að þau séu elskuð án skilyrða. - Það er að segja að láta þau vita að þau séu verðmæt - eins og þau eru - í sjálfum sér. Ekki vegna þess að þau fara út með ruslið eða sýna góðan námsárangur í skóla o.s.frv. - Bara af því að þau eru. Það þýðir ekki að þau gegni ekki skyldum og hjálpi til - heldur þýðir það bara að þau eru ekki það sem þau gera, heldur það sem þau eru og það er það sem við öll viljum vera. -
Við viljum öll vera elskuð skilyrðislaust, og það þurfum við öll að læra. Líka elskuð af okkur sjálfum.
Hér er tekið dæmi af samskiptum móður og dóttur, en að sjálsögðu gildir þetta fyrir öll form samskipta. - Við eigum ekki að hegða okkur, eða umgangast fólk á þeim forsendum að reyna að þóknast því á allan mögulegan máta til að við séum samþykkt sem manneskjur.
Það er fullt af prúðum og stilltum börnum þarna úti (líka fullorðnum börnum) sem þrá viðurkenningu á sjálfum sér, og hegða sér eftir því og það eru rangar foresendur, vegna þess að við eigum ekki að gera til að vera elskuð eða viðurkennd, heldur vegna þess að við njótum þess. Alveg eins og við eigum ekki að þurfa að heimsækja fólk - foreldra t.d. af skyldurækni, heldur vegna þess að okkur langar til þess.
Það er gott að geta umgengist hvert annað afslöppuð án dómhörku og tilætlunarsemi. -
Það er lýjandi að lifa undir hamri dómhörkunnar, og við þurfum hvert og eitt okkar að líta í eign barm og kannski í eigin hendi og sjá hvort að við höldum á slíkum hamri. -
Elskum ....án skilyrða.
Athugasemdir
Góð eins og alltaf, ég átti eitt sinn svona vinkonu, hún er nú dáin núna blessunin fyrir mörgum árum. En hún var alltaf að býsnast yfir hvað ég kæmi sjaldan í heimsókn. En svo á ég fullt af vinum sem bara taka alltaf fagnandi á móti mér, þetta er eins og svart og hvítt. Mjög gott að hafa í huga gagnvart bæði vinum og fjölskyldunni. Takk fyrir góða ábendingu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.12.2013 kl. 10:33
Góð eins og jafnan jóhanna mín,svo sannarlega eftirtektarvert. Ég var svo ánægð í afmæli dóttursonar míns hans Alexanders í dag og kvöld,hann varð 13 ára. Það skyggir auðvitað á að honum hefur hrakað seinustu ár og er í hjólastól. Tíminn flýgur mér finnst svo stutt síðan hann var kornabarn í hjartaaðgerð í Boston og læknar tilkynntu foreldrunum að þeir gætu ekki gert meir. þá gerðist kraftaverkið sem engin læknisfræðileg skýring er á. Ég er svo heppin að hafa fengið að passa hann frá því hann kom heim frá Boston,þótt væri alltaf öðru hvoru í nokkur ár á spítala. Þannig hef ég samband við dóttr mína sem býr hér á svæðinu og finnst það mikil forréttindi. Veistu að ég kannast vel við þessa aðfinnslu og ætla að passa mig,að segja ekki við drengina; Hva,það er mikið að maður heyrir í þér” þau vilji frekar að ég komi til þeirra og snæði með þeim,það virðist miklu meira að gera hjá ungum hjónum í dag,oftast bæði á fullu í vinnu,auk þess að koma börnum í tónmennt,dans eða aðrar íþróttir. Var að hugsa um að þurrka þetta út,en hætti svo við,,,, er eins og krakki sem vill ekki fara að sofa,heldur tala við einhvern. Góða nótt.
Helga Kristjánsdóttir, 14.12.2013 kl. 03:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.