Páfinn, prédikunin og praktiseringin ...

"Example is not the main thing in influencing others. It is the only thing."  - er haft eftir Albert Scweitzer, og það er meira en lítið til í þessu hjá honum.

Ég er búin að sjá pistla, greinar og fésbókarstatusa,  þar sem fólk er ósátt við páfann, finnst hann kasti jafnvel steinum úr glerhúsi. Sjái ekki bjálkann í eigin auga fyrir flísinni í auga náungans o.s.frv. -

Þetta er það sem allir þurfa að læra; að það er lítið sem ekkert tekið mark á okkur ef við praktiserum ekki það sem við prédikum.  Jafnvel þó að það sem við segjum sé satt og rétt, þá er lítið sem ekkert tekið mark á okkur séum við ekki sjálf sem fyrirmyndir. 

Stundum sjáum við fólk sem við dáumst að, dáumst að viðhorfi þeirra og eða verkum.  Við hugsum með okkur, - "hmmm, svona langar mig að vera" ...  En svo eru líka "öfugu" fyrirmyndirnar,  þ.e.a.s. fólk sem okkur finnst ekki mikið koma til, og reyndar bara mjög lítið og þá hugsum við auðvitað: "Hmmm, svona langar mig sko akkúrat EKKI að vera".. 

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft,  þau telja yfirleitt að allt sem foreldrar þeirra geri sé rétt og satt og því er hvergi eins mikilvægt að vera góð fyrirmynd og vera heill í samskiptum eins og þegar kemur að börnum. 

Við verðum samt líka að gera okkur grein fyrir því að fyrirmyndin liggur ekki bara í því að vera "heilög" - heldur líka í því að sýna mennsku okkar.  Sýna að við getum gert mistök, okkur getur orðið á. 

Fyrirmyndin liggur í því að sýna hvernig við tökumst á við okkar mistök, - að játa þau en ekki stinga undir stól.  Ef við erum sorgmædd að leyfa okkur að gráta og sýna að grátur er líka eðlilegur.  Sýna að við erum ófullkomin og að við höfum tilfinningar.  Bældar tilfinningar og fullkomnunarárátta er eitt af því sem skaðar manninn mest,  því fyrr sem við fyrirgefum sjálfum okkur og öðrum því betra. 

Páfinn er bara gamall maður sem er alinn upp á ákveðinn hátt og við ákveðna siði.  Hann er að rembast við að láta gott af sér leiða og kemur með móralska prédikun, sem á að sjálfsögðu alveg rétt á sér þó að frá honum komin virðist hún ekki nógu sannfærandi.   Auðvitað eigum við ekkert að týna friðnum og hinu innra ljósi í æsingi kaupmennsku og yfirborðs. Ég er að hugsa um að fyrirgefa páfa hvað þetta varðar, horfa fram hjá gullstólnum hans, og taka til mín það sem hann segir - ekki blindast af búningi hans, ekki frekar en  ljósum auglýsinganna og sjá frekar það sem virkilega skiptir máli. 

En páfinn má vita það að ef hann væri sjálfur minna skreyttur og byggi við meiri einfaldleika, þá væri hann mun meira sannfærandi, angakallinn. 

Verum þess þó minnug að þó að við sjáum bjálkann í auga páfa,  megum við ekki gleyma flísinni í eigin auga - sem jafnvel gæti byrgt okkur sýn á það sem raunverulega skiptir máli. 

 

 


mbl.is Fólk horfi framhjá glys og skrauti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég er svo sammála sýn þinni á páfann!

Hef ekkert fundið honum til foráttu blessuðum manninum, þó hann sé páfi!

Geri eins og þú og tek til mín það sem hann segir um kaupmennsku og gjálífi og reyni einmitt að lifa í hófsemi og friðsælli gleði.

Vil þó aðeins bæta við varðandi glæsilega umgjörð páfa, að þannig eru einmitt kirkjur kaþólskra manna, með uppskrúfað skraut í kirkjunum.

Þetta er auðvitað gert til að minna á tígn Guðs og sendiboða hans og þannig gert í góðri meiningu til að boðskapurinn hafi meira vægi.

Svo kemur að því að fólk getur séð merkingu og þýðingu boðskaparins, án þess að honum sé pakkað inn í slíkar uppskrúfaðar umbúðir.

Enginn ástæða er til að gera lítið úr boðskapnum þess vegna, heldur skulum við taka til okkar allt sem getur bætt og betrumbætt. Ekki veitir af að þiggja vizku og góðsemi aldanna. Nóg hefur mannkynið þurft að þjást á þessari löngu leið.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 26.12.2011 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband